Páskavaka í Ólafsvíkurkirkju

Páskavaka verður í Ólafsvíkurkirkju á aðfangadagskvöld páska kl. 21.

Lesin verður páskafrásagan.
Stefnt að því að streyma hér á heimasíðu prestakallsins og fésbókarsíðunni.

https://youtu.be/ko7HiXAf_pY

Upplýsingar um skráningu til að vera viðstaddur í kirkjunni eru að finna hér.

Páskanótt

Guðsþjónusta á páskanótt með skírnarminningu og altarisgöngu hefur verið kölluð móðir kristinnar guðsþjónustu.

Textaröð: A

Lexía: 2Mós 14.15-22
Drottinn sagði við Móse: „Hvers vegna hrópar þú til mín? Segðu Ísraelsmönnum að halda af stað. En þú skalt reiða upp staf þinn og rétta hönd þína út yfir hafið og kljúfa það svo að Ísraelsmenn geti gengið á þurru í gegnum hafið. Sjálfur ætla ég að herða hjarta Egypta svo að þeir haldi á eftir þeim. Þá mun ég birta dýrð mína á faraó og öllum her hans, á hervögnum hans og riddurum. Egyptar munu komast að raun um að ég er Drottinn þegar ég birti dýrð mína á faraó, vögnum hans og riddurum.“
Engill Guðs, sem fór fyrir hersveit Ísraels, færði sig aftur fyrir þá og skýstólpinn, sem var fyrir framan þá, færði sig og kom sér fyrir að baki þeim svo að hann varð á milli hers Egypta og hers Ísraelsmanna. Skýið var dimmt öðrum megin en lýsti alla nóttina hinum megin. Herirnir nálguðust ekki hvor annan alla þessa nótt.
Þá rétti Móse hönd sína út yfir hafið. Drottinn bægði hafinu burt með hvössum austanvindi alla nóttina og þannig gerði hann hafið að þurrlendi.
Þá klofnaði hafið svo að Ísraelsmenn gátu gengið á þurru í gegnum það en vatnið stóð eins og veggur þeim til hægri og vinstri handar.

Pistill: Kól 3.1-4
Fyrst þið því eruð uppvakin með Kristi, þá keppist eftir því sem er hið efra þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs. Hugsið um það sem er hið efra en ekki um það sem á jörðinni er. Því að þið eruð dáin og líf ykkar er fólgið með Kristi í Guði. Þegar Kristur, sem er líf ykkar, opinberast, þá munuð þið og ásamt honum opinberast í dýrð.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Sálmar: 147 og 703

Gestir:74 Gestir í dag: 2 Gestir í allt: 1182314