Gjafir til Brimilsvallakirkju

Brimilsvallarkirkju bárust góðar gjafir á 90 ára afmælinu

Brimilsvallakirkja á Snæfellsnesi var vígð 28. október 1923 og er því 90 ára í dag. Þetta er fyrsta kirkjan á Brimilsvöllum en þar var bænahús en áður var kirkja á Fróðá. Miklar deilur urðu 1892 þegar kirkjan á Fróðá var flutt til Ólafsvíkur. Lauk deilunum ekki fyrr en árið 1915 þegar Ólafsvíkursókn var skipt á ný og kirkjan á Brimilsvöllum reist. Var messað í félagsheimilinu á Brimilsvöllum þar til nýja kirkjan var vígð. Voru á þessum tíma 140 manns í sókninni. Síðar varð Ólafsvíkurprestakall ein sókn með tveimur kirkjum.

 

Hátíðarmessa var í gær af þessu tilefni í fallegu en köldu veðri. Að messu lokinni bauð sóknarnefndin upp á kaffiveitingar á Brimilsvöllum. Þar bárust kirkjunni góðar gjafir í tilefni afmælisins. Systkinin Sturla, Snorri og Auður Böðvarsbörn gáfu kirkjunni nýjar sálmabækur í minningu móður sinnar Elínborgar Ágústsdóttur en hún var fædd í Mávahlíð og bar alltaf sterkar taugar til kirkjunnar. Fjölskyldan á Brimilsvöllum þau Veronica, Gunnar og börn færðu kirkjunni nýja Biblíu og peningagjöf sem nota á til endurbóta á krikjunni. Sóknarpresturinn séra Óskar Ingi Ingason tók við gjöfunum fyrir hönd kirkjunnar. Að lokum voru sálmabækurnar teknar í notkun með því að kaffigestir sungu sálm númer 402 Drottinn vakir en hann er samin af Sigurði Kristófer Péturssyni frá Klettakoti í Fróðárhreppi. Var sálmur þessi einn af uppáhaldssálmum Elinborgar Ágústsdóttur og því tilvalið að taka þær í notkun með því að syngja hann.

 

 

Fréttin er tekin af Skessuhornsvefnum.