Aðventukvöld í Ingjaldshólskirkju

JólaAðventukvöldið í Ingjaldshólskirkju sunnudaginn 7. desember kl. 20.

Jóla- og aðventulög í flutningi kórsins, leikþáttur fermingarbarna, jólaljóð, jólasaga og hugleiðing er meðal annars í boði ásamt góðgæti á eftir.

 

2. sunnudagur í aðventu – Frelsarinn kemur

Litur: Fjólublár.
Dýrðarsöngur/lofgjörð ekki sungin.

 

Textaröð: B

 

Lexía: Jes 35.1-10
Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.

 

Pistill: Heb 10.35-37
Varpið því eigi frá ykkur djörfung ykkar. Hún mun hljóta mikla umbun. Þolgæðis hafið þið þörf, til þess að þið gerið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið. Því að:
Innan harla skamms tíma

mun sá koma sem koma á og ekki dvelst honum.

 

Guðspjall: Mrk 13.31-37
Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.
En þann dag eða stund veit enginn, hvorki englar á himni né sonurinn, enginn nema faðirinn. Gætið yðar, vakið! Þér vitið ekki nær tíminn er kominn. Svo er þetta sem maður fari úr landi, skilji við hús sitt og feli þjónum sínum umráðin, hverjum sitt verk. Dyraverðinum býður hann að vaka. Vakið því, þér vitið ekki nær húsbóndinn kemur, að kveldi, á miðnætti, í óttu eða dögun. Látið hann ekki finna yður sofandi þegar hann kemur allt í einu. Það sem ég segi yður, það segi ég öllum: Vakið!“

Sálmar

 

Dagsetning: 
Sunnudagur, 7 desember, 2014 - 20:00