1. sunnudagur í aðventu

Mikið var um að vera í Snæfellsbæ 1. sunnudag í aðventu.

Að morgni dags var sunnudagaskóli sem endaði með því að börnin skreyttu jólatréð.
Kveikt var á jólatrjám á Hellissandi og í Ólafsvík síðdegis.

Boðið var upp á aðventustund í Ingjaldshólskirkju klukkan fimm og skipulagði kirkjukórinn dagskrána og bauð í kaffi, súkkulaði og smákökur á eftir.
Kveikt var á ljósum kirkjugarðsins eftir athöfnina í kirkjunni.
Allt tókst vel og gaman var að heyra í nemendum tónlistarskólans og í öðrum sem komu að stundinni. Kærar þakkir!
Vonandi verður áframhald af þessum gamla og nýja sið á áðventunni í Ingjaldshólskirkju.

Á aðventukvöldinu í Ólafsvík var það kvenfélag Ólafsvíkur sem sá um skipulag og bauð í kaffi og piparkökur á eftir.
Anton Ingólfsson gaf kirkjunni myndalegan og fallegan aðventukrans sem hann smíðaði og var hann formlega tekinn í notkun í athöfninni.
Börn í TTT-starfinu voru með leikþáttinn Pönk rokkarinn, sem var nútímaútfærsla á miskunnsama samverjanum.
Stóðu þau sig vel og vonandi að leikþátturinn opni augu fleiri fyrir þeim góða boðskap sem sagan hefur að geyma.
Fermingarbörn lásu ritningarlestur og sáu um kynningu á kirkjuárinu og litum þess.
Hugvekjuna flutti Steiney Kristín Ólafsdóttir og gaf okkur margt að hugsa um í jólaundirbúningnum.
Nemendur tónlistarskólans stóðu sig með prýði að vanda, eins og aðrir þeir sem komu að stundinni. Kærar þakkir!

Um 200 manns sóttu þessar stundir í kirkjunni og voru þær ljós í myrkrinu og gefur okkur birtu inn í jólaföstuna.