Æðruleysisguðsþjónusta í Ólafsvíkurkirkju

Æðruleysisguðsþjónusta verður í Ólafsvíkurkirkju sunnudaginn 20. október kl. 20.
Eins og nafnið bendir til eru þessar messur tileinkaðar fólki sem nýtir sér 12-sporakerfi AA-samtakanna á lífsgöngunni, en allir eru að sjálfsögðu velkomnir.
Tónlist og talað mál er með léttu sniði og vitnisburðir setja svip á messuna.

Ritningarlestur dagsins:

Textaröð: B

Lexía: Slm 91.1-4
Sá er situr í skjóli Hins hæsta
og dvelst í skugga Hins almáttka
segir við Drottin:
„Hæli mitt og háborg,
Guð minn, er ég trúi á.“
Hann frelsar þig úr snöru fuglarans,
frá drepsótt eyðingarinnar,
hann skýlir þér með fjöðrum sínum,
undir vængjum hans mátt þú hælis leita,
trúfesti hans er skjöldur og vígi.

Pistill: 1Kor 3.6-9
Ég gróðursetti, Apollós vökvaði en Guð gaf vöxtinn. Þannig skiptir það engu hver gróðursetur eða hver vökvar. Það er Guð sem skiptir máli, hann gefur vöxtinn. Sá sem gróðursetur og sá sem vökvar eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir erfiði sínu. Því að samverkamenn Guðs erum við, Guðs akurlendi, Guðs hús eruð þið.

Guðspjall: Jóh 4.34-38
Jesús sagði við þá: „Minn matur er að gera vilja þess sem sendi mig og fullna verk hans. Segið þið ekki: Enn eru fjórir mánuðir, þá kemur uppskeran? En ég segi ykkur: Lítið upp og horfið á akrana, þeir eru fullþroskaðir til uppskeru. Sá sem upp sker tekur þegar laun og safnar ávexti til eilífs lífs. Þá getur sá sem sáir samfagnað þeim sem upp sker. Hér sannast orðtakið: Einn sáir og annar upp sker. Ég sendi ykkur að skera upp það sem þið hafið ekki unnið við. Aðrir hafa erfiðað en þið njótið erfiðis þeirra.“