Snæfellsbær

Páskaopnun í Snæfellsbæ

Snæfellsbær - Þri, 16/04/2019 - 10:31

Opnunartímar í stofnunum Snæfellsbæjar verða sem hér segir yfir páskahátíðina. Einnig má sjá opnunartíma Gámaþjónustunnar, en opið verður á starfsstöðinni þeirra undir Enni á laugardag.

Sérstök athygli vakin á því að sundlaugin í Ólafsvík er opin á Skírdag, laugardag og annan í páskum.

Opnunartímar:

Bæjarskrifstofa

Lokað á rauðum dögum, Skírdag, Föstudaginn langa og annan í páskum. Opnar þriðjudaginn 23. apríl. 

Grunnskóli Snæfellsbæjar

Páskafrí til og með 22. apríl. Kennsla hefst aftur að morgni þriðjudags 23. apríl.

Leikskóli Snæfellsbæjar

Lokað á rauðum dögum. Leikskólakennsla hefst aftur að morgni þriðjudags 23. apríl. 

Bókasafn Snæfellsbæjar

Lokað á rauðum dögum. Opnar að nýju kl. 10 þriðjudaginn 23. apríl.

Sundlaug

Opið á Skírdag frá kl. 10 – 17
Lokað á Föstudaginn langa
Opið frá kl. 10 – 17 á laugardegi
Lokað á Páskasunnudegi
Opið frá kl. 10 – 17 á annan í páskum

Upplýsingamiðstöð í Átthagastofu

Opið alla páskahátíðina frá kl. 11 – 15.

Safn í Pakkhúsi

Opið alla páskahátíðina frá kl. 10 – 16.

Gámaþjónustan

Gámaþjónustan á að vera opin skv. áætlun á fimmtudögum en verður lokuð þar sem opnun lendir á Skírdegi.
Opið frá kl. 11 – 15 á laugardaginn.
Opnar svo skv. áætlun kl. 15:00 á þriðjudag, 23. apríl.
 

The post Páskaopnun í Snæfellsbæ appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Tvö laus störf hjá Félags- og skólaþjónustunni

Snæfellsbær - Þri, 16/04/2019 - 09:13

Félags- og skólaþjónusta Snæfellinga auglýsir tvö laus störf til umsóknar.

Félagsráðgjafi – umsóknarfrestur til og með 24. maí 2019
Talmeinafræðingur – umsóknarfrestur til og með 31. maí 2019

Nánari upplýsingar um störfin má finna á vefsíðu Félags- og skólaþjónstunnar.

The post Tvö laus störf hjá Félags- og skólaþjónustunni appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Hvernig er lífið í Snæfellsbæ? Segðu þína skoðun

Snæfellsbær - mánud., 15/04/2019 - 11:26

Þessa dagana stendur Byggðastofnun fyrir könnun á búsetusögu, lífsgæðum og fyrirætlunum um framtíðarbúestu í bæjum og þorpum með færri en 2000 íbúa. Það er mikilvægt að íbúar sem búa í þessum bæjum taki þátt svo niðurstöður verði marktækar og mögulegt verði að vinna úr þeim. Hingað til hefur þátttaka í Snæfellsbæ ekki verið nægilega góð og viljum við kalla eftir betri svörun.

Nánar um könnunina:

Könnunin Byggðafesta og búferlaflutningar: Bæir og þorp á Íslandi er hluti rannsóknarverkefnis á vegum Byggðastofnunar í samstarfi við rannsóknafólk við innlenda og erlenda háskóla. Könnuninni er ætlað að safna margvíslegum upplýsingum sem aukið geta skilning á málefnum minni byggðarlaga og stutt við stefnumótun og aðgerðir í byggðamálum. Þessi könnun nær til byggðakjarna með færri en tvö þúsund íbúa utan suðvestursvæðis landsins.

Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri stýrir rannsókninni og svarar spurningum í síma 661 6099 eða í tölvupósti thoroddur@unak.is. Þátttaka í könnuninni er að sjálfsögðu frjáls og svarendum ber hvorki skylda til að svara einstökum spurningum eða könnuninni í heild. Könnunin er unnin í samræmi við lög 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sjá nánar hér.

Smelltu hér til að taka þátt

SURVEY IN ENGLISH

ANKIETA W JĘZYKU POLSKIM 

The post Hvernig er lífið í Snæfellsbæ? Segðu þína skoðun appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Fyrri umræða um ársreikning Snæfellsbæjar 2018

Snæfellsbær - fös, 12/04/2019 - 12:40

Fimmtudaginn 11. apríl 2019 fór fram fyrri umræða í bæjarstjórn Snæfellsbæjar um ársreikning bæjarfélagsins fyrir árið 2018.

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum skal fjalla um ársreikninginn á tveimur fundum í bæjarstjórn. Áformað er að ársreikningurinn verði afgreiddur við síðari umræðu í bæjarstjórn þann 9. maí næstkomandi.

Rekstur Snæfellsbæjar gekk vel á árinu og var rekstrarniðurstaða töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 125,3 millj. króna í samantektum rekstrarreiknina A- og B-hluta.

Segja má að rekstur Snæfellsbæjar hafi verið nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skila rekstri á eða undir áætlun, sem er mjög ánægjulegt og eiga forstöðumenn hrós skilið fyrir árangurinn. 

Hér má sjá helstu lykiltölur úr fyrri umræðu:

Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.511,3 millj. króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.280,3 millj. króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.995,8 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 1.806,9 millj. króna. 

Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta var jákvæð um 125,3 millj. króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri afkomu upp á 22,9 millj. króna. Rekstrarafkoman varð því töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða sem nemur 102,4 millj. króna.  Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð að fjárhæð 51,5 millj. króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 4,7 millj. króna. Afkoma A-hluta varð því betri sem nemur 56,2 millj. króna.  Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.507,1 millj. króna skv. efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.672,1 millj. króna. 

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu um 1.228,7 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins nam 142 stöðugildum í árslok. 

Veltufé frá rekstri var 259 millj. króna og veltufjárhlutfall er 1,55.  Handbært frá rekstri var 58,2 millj. króna. 

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 4.212,6 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.448,7 millj. króna í árslok 2018. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.540,4 millj. króna og í samanteknum ársreikningi um 1.941,6 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 180,7 milljónir.   

Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.672,1 millj. króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam um 3.507,1 millj. króna í árslok 2018.  Eiginfjárhlutfall er 63,43 % á á árinu 2018 en var 65,89% árið áður. 

Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 369 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán á árinu 2018 upp á 328,5 milljónir.  Greidd voru niður lán að fjárhæð 156,6 milljónir.  Rétt er að taka það fram að stærstur hluti þessarar lántöku, eða kr. 178.502.037.- var tekinn vegna uppgreiðslu á samningi milli ríkissjóðs og Snæfellsbæjar um uppgjör lífeyrisskuldbindinga í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga. 

Hlutfall reglulegra tekna af heildarskuldum og skuldbindingum er 70,41% hjá sjóðum A-hluta, en var 62,95% árið 2017, og 71,48% í samanteknum ársreikningi en var 69,49% árið 2018.  Skv. 64. gr. 2. málsgr. sveitarstjórnarlaga á þetta hlutfall ekki að vera hærra en 150%. Fjárhagsstaða Snæfellsbæjar verður því að teljast afar góð. 

The post Fyrri umræða um ársreikning Snæfellsbæjar 2018 appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Grænfáninn í Grunnskóla Snæfellsbæjar

Grunnskóli Snæfellsbæjar - fös, 12/04/2019 - 08:31
Grunnskóli Snæfellsbæjar, norðan Heiðar sótti um Grænfánan í sjöunda sinn nú í mars. Skólar sem eru þátttakendur í verkefninu þurfa að sækja um fána á tveggja ára fresti. Þeir gangast þá undir ákveðið mat á stöðu umhverfismála í skólanum áður en þeir fá fánann afhendan. Síðustu tvö ár hafa starfsstöðvarnar á norðanverðu Nesinu unnið með þemunum átthagar og landslag ásamt lýðheilsu. Markmiðin sem umhverfisteymið setti sér voru að: Kynnast heimabyggð okkar betur, efla umhverfisvitund alls skólasamfélagsins, efla heilsusamlegan og umhverfisvænan lífsstíl, bæta umhverfi okkar, skólans og nánasta umhverfi hans, flokka og senda í endurvinnslu og endurnýta. Var það mat úttektaraðila að:„Það er greinilegt að í Grunnskóla Snæfellsbæjar fer fram metnaðarfullt og skapandi starf, þið hafið náð öllum markmiðum ykkar með glæsibrag.“Jafnframt því að velja sér þemu og setja sér markmið þá þurfa skólar Á grænni grein að sýna fram á að þeir hafi stigið „skrefin sjö“. Okkar skóli fór þá nýstárlegu leið að setja upp heimasíðu þar sem verkefninu er vel útlistað, þemu, markmið tilgreind og skrefin sjö útlistuð. Hægt er að nálgast heimasíðuna á slóðinni https://sites.google.com/gsnbskoli.is/graenfanigsnb/forsíðaAð lokum segir í skýrslu úttektaraðilana að:„Skólinn hefur staðið sig mjög vel í verkefninu í gegnum árin og er alls ekki verið að slá slöku við. Þið hafið unnið skrefin sjö á metnaðarfullan og vandaðan hátt. Það verður mjög spennandi að fylgjast með ykkur vinna að nýju þemunum sem þið hafið valið.Á heildina litið er starfið mjög flott og skólinn til stakrar fyrirmyndar í verkefninu!“Allar starfstöðvar skólans hafa verið þátttakendur í Grænfánaverkefninu til fjölda ára. Þann 24. nóvember flögguðu nemendur og starfsfólk Grunnskóla Snæfellsbæjar, Lýsuhólsskóla, sínum áttunda Grænfána en skólinn hefur verið virkur þátttakandi í verkefninu Skólar á grænni grein frá því að til þess var stofnað á Íslandi árið 2001. Starfsstöðvar skólans hafa þá allar fengið staðfestingu á góðri menntun og stöðu umhverfismála í skólanum sem við getum verið stolt af.
Flokkar: Snæfellsbær

7.bekkur - Reykir

Grunnskóli Snæfellsbæjar - fös, 12/04/2019 - 08:25
Dagana 1.-5. apríl fórum við í 7.b GJS ásamt tveim nemendum úr Lýsuhólsskóla í Skólabúðir að Reykjum í Hrútafirði. Ásamt okkur voru 7. bekkingar frá Þorlákshöfn, Kirkjubæjarklaustri og Höfn í Hornafirði.Við gistum á Vesturvistinni sem er í Ólafshúsi sem er aðalbyggingin á Reykjum. Þar var okkur skipt í þrjá hópa og fannst okkur dagskráin skemmtileg. Við vorum vakin alla morgna kl. 8:00 til að taka okkur til fyrir verkefni dagsins.Klukkan 9:30 fóru allir í tíma þar sem Byggðasafnið á staðnum var skoðað og hákarl smakkaður. Aðrir fóru í náttúrufræði og sögu þar sem farið var í fjöruna og hlustað á Grettissögu, þriðji hópurinn fór í Undraheim þar sem farið var í leiki bæði úti og inni. Einnig var farið í íþróttir og sund og frjáls tími gefinn inn á milli þar sem við gátum farið í Bjarnaborg og leikið okkur saman.Á kvöldin voru kvöldvökur með ýmsum atriðum sem við kakkarnir skiptust á að halda. Krakkar úr okkar hópi stjórnuðu „Vító“ og „Stinger“ og svo söng stúlka úr okkar hópi lag á frönsku. Haldin var hárgreiðslukeppni á fimmtudagskvöldinu og komust tveir nemendur frá okkar skóla áfram en sigurvegarinn að þessu sinni var frá Höfn í Hornafirði. Síðasta kvöldið var „skólabúðardiskó“ þar sem allir krakkarnir dönsuðu saman.Maturinn var mjög góður, fimm máltíðir á dag og ekki veitti af því mikið var að gera. Á föstudeginum var kveðjustund og leikir í íþróttahúsi staðarins. Endað var á því að kasta flöskuskeyti út í sjó frá okkur öllum.Margir eiguðust nýja vini og ferðin var ógleymanleg. Okkur fannst gott að hvíla okkur á símum, tölvum og skóla. Við vorum líka alveg ótrúlega heppin með veður þessa viku sem við fengum úthlutað.Kveðja Allan, Arnar, Emil Breki, Emil Jan, Eyþór, Gabriel, Guðný, Gunnlaugur, Júlía, Kristall Blær, Matthildur, Matthías, Nickita, Nikola og Sara.
Flokkar: Snæfellsbær

Bæjarráð mótmælir skerðingu til Jöfnunarsjóðs

Snæfellsbær - Fim, 11/04/2019 - 11:56

Bæjarráð Snæfellsbæjar mótmælir harðlega þeirri einhliða ákvörðun fjármála- og efnahagsráðherra að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um 3,3 milljarða króna á næstu tveimur árum.  Í málefnum sem þessum er nauðsynlegt að samráð sé haft milli þeirra aðila sem að málefninu koma.  Einhliða ákvörðun sem þessi grefur undan annars ágætu samstarfi ríkis og sveitarfélaga og á sér ekki fordæmi í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga. 

Skerðing á tekjum jöfnunarsjóðs hefur gífurleg áhrif á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga.  Hjá Snæfellsbæ einum og sér, mun þessi ákvörðun skerða tekjur sveitarfélagsins um tæplega 50 milljónir á því tímabili sem um ræðir. 

Bæjarráð Snæfellsbæjar tekur heilshugar undir með stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga og krefst þess að þessi einhliða ákvörðun verðir dregin til baka og viðræðum verði komið á milli aðila sem myndi stuðla að ásættanlegri lausn málsins.

The post Bæjarráð mótmælir skerðingu til Jöfnunarsjóðs appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Breytt deiliskipulag að Arnarfelli á Arnarstapa

Snæfellsbær - Fim, 11/04/2019 - 10:02

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti 11. apríl 2019 að endurauglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi ferðaþjónustunnar við Arnarfell á Arnarstapa skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Tillagan felur í sér breytingu á lóð Arnarfells og aðkomu frá suðri. Breytingin hefur í för með sér breytingu skipulagsskilmála og byggingarskilmála og er því eldra deiliskipulag fellt úr gildi með gildistöku þessa deiliskipulags.

Helstu breytingar:

 • Áður var gert ráð fyrir 11 smáhýsum, en nú er gert ráð fyrir að þau verði allt að 13.
 • Byggingarreitir og núverandi gistihús Arnarfells eru sameinuð í eina hótelbyggingu á tveimur hæðum.
 • Byggingarreit fyrir þjónustuhús er breytt lítillega.
 • Lögun á byggingarreit fyrir snyrtingu tjaldsvæðis er breytt, en fyrirhugað að reisa nýtt hús í stað núverandi húss.
 • Umferðarskipulagi á lóðinni er breytt innan lóðar og sunnan hennar og bílastæði eru löguð að breyttri aðkomu að sunnan.

Tillagan mun liggja frammi í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, á opnunartíma frá og með 11. apríl 2019 til og með 23. maí 2019. Þeir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta er hér með gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna. Frestur til þess að skila inn athugasemdum er til 23. maí 2019. Skila skal athugasemdum skriflega til Tæknideildar Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi eða á netfangið: byggingarfulltrui@snb.is

The post Breytt deiliskipulag að Arnarfelli á Arnarstapa appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

320. fundur bæjarstjórnar

Snæfellsbær - Miðv.d., 10/04/2019 - 09:39

Vakin er athygli á því að 320. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar, fimmtudaginn 11. apríl 2019 kl. 14:30.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má sjá með því að smella hér.

Dagskrá fundar:

 1. Ársreikningur Snæfellsbæjar 2018 – fyrri umræða. 
 2. Fundargerð 303. fundar bæjarráðs, dags. 27. mars 2019. 
 3. Fundargerðir fræðslunefndar, dags. 25. febrúar, 2. apríl og 8. apríl 2019. 
 4. Fundargerð 182. fundar menningarnefndar, dags. 25. mars 2019. 
 5. Fundargerðir velferðarnefndar, dags. 11. mars og 2. apríl 2019. 
 6. Fundargerð 125. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 28. mars 2019. 
 7. Fundargerðir 180. og 181. fundar félagsmálanefndar Snæfellinga, dags. 12. mars og 2. apríl 2019. 
 8. Fundargerð 56. stjórnarfundar Jeratúns ehf., dags. 14. mars 2019, ásamt ársreikningi 2018. 
 9. Fundargerð 411. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 22. mars 2019. 
 10. Fundargerð 869. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 15. mars 2019. 
 11. Fundargerð aðalfundar Búnaðarfélags Staðarsveitar, dags. 28. mars 2019, ásamt ályktunum félagsins, annars vegar varðandi ósk um að stofnanir Snfællsbæjar fái sem mest af góðum innlendum landbúnaðarafurðum og hins vegar varðandi þau umhverfisverkefni sem verið hafa í gangi. 
 12. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 27. mars 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Boðvíkur ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Jaðri 11 á Arnarstapa, Snæfellsbæ. 
 13. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 2. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Hellna ehf. um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Kjarvalströð 1 á Hellnum, Snæfellsbæ. 
 14. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 2. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Hellna ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, frístundahús, að Kjarvalströð 14 á Hellnum, Snæfellsbæ. 
 15. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 3. apríl 2019, varðandi ósk um umsögn Snæfellsbæjar um umsókn Verslunarinnar Hrundar ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, íbúðir, að Mýrarholt 5 í Ólafsvík, Snæfellsbæ. 
 16. Bréf frá N4 Sjónvarp, dags. 8. apríl 2019, varðandi ósk um samstarf við Snæfellsbæ um gerð þáttaraðarinnar Að vestan árið 2019. 
 17. Bréf frá skipulags- og byggingafulltrúa, dags. 8. apríl 2019, varðandi samþykki bæjarstjórnar á endurauglýsingu deiliskipulags vegna ferðaþjónustu á Arnarfelli. 
 18. Bréf frá fræðslunefnd, dags. 8. apríl 2019, varðandi eldvarnarhurðir á leikskólanum Kríubóli. 
 19. Bréf frá leikskólastjóra, dags. 9. apríl 2019, varðandi tímasetningu skólaslita Grunnskóla Snæfellsbæjar. 
 20. Bréf frá skipulags- og byggingafulltrúa, ódags., varðandi lækkun á umferðarhraða og fjölgun umferðarmerkja. 
 21. Áætlun um tekjur og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga 2019. 
 22. Bréf frá Þjóðskjalasafni Íslands, dags. 27. mars 2019, varðandi tilmæli vegna skjalavörslu og skjalastjórnun í Snæfellsbæ. 
 23. Bréf frá Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, dags. 4. apríl 2019, varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk 2019. 
 24. Yfirlýsing Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. apríl 2019, varðandi lífskjarasamninga 2019-2022. 
 25. Bréf frá Brunabót, dags. 25. mars 2019, varðandi styrktarsjóð EBÍ 2019. 
 26. Fréttatilkynning  afmælisnefndar aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands. 
 27. Húsnæðisáætlun Snæfellsbæjar 2019-2027 
 28. Jafnréttisáætlun Snæfellsbæjar 
 29. Minnispunktar bæjarstjóra.

Snæfellsbæ9. apríl 2019 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri 

The post 320. fundur bæjarstjórnar appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Umverfisvottun Snæfellsness til Azoreyja

Snæfellsbær - Þri, 09/04/2019 - 21:13

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, er á leið til Azoreyja.

Það hefur löngum verið vitað að Snæfellingar eru í forystusveit umhverfismála hér á landi, en hróður umhverfisvottunar á Snæfellsnesi hefur nú borist alla leið til Azoreyja!

Guðrún Magnea, verkefnastjóri Umhverfisvottunar Snæfellsness, er á leið til Azoreyja að kynna Snæfellsnes og þá reynslu sem samfélagið hér hefur hlotið af umhverfisvottunarverkefninu. Azoreyjar eru að stíga sín fyrstu skref í þessum málum og feta þá slóð sem sveitarfélögin á Snæfellsnesi stikuðu fyrir áratug síðan.

Óskaði þarlendur verkefnastjóri liðsinnis frá Guðrúnu Magneu við upplýsingaöflun og flýgur henni út til að kynna EarthCheck-verkefnið og ávinning þess fyrir samfélagið. Guðrún Magnea heldur því utan á morgun með kynningu um Snæfellsnes í farteskinu, en hún mun halda erindi á ráðstefnu þar í landi um ferðaþjónustu og sjálfbærni. Erum við fullviss um að Guðrún Magnea verður frábær fulltrúi Snæfellinga þar ytra og er virkilega ánægjulegt að sjá önnur samfélög í heiminum horfa til okkar hér á Snæfellsnesi.

Við sendum Guðrúnu Magneu okkar allra bestu kveðjur og óskum henni góðrar ferðar! 

The post Umverfisvottun Snæfellsness til Azoreyja appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Róbotar, rafrásir og forritun í Snæfellsbæ

Snæfellsbær - Þri, 09/04/2019 - 10:03

Um páskana fyrirhugar Skema að halda skapandi tækninámskeið í Snæfellsbæ fyrir börn í 1. – 7. bekk. Námskeiðin fara fram í Grunnskólanum í Ólafsvík í næstu viku, dagana 16. og 17. apríl. Skráningu lýkur 10. apríl. Verð: 10.000 krónur.

Hér má skrá börn á námskeið.

Skema er fyrirtæki sem nú er hluti af Háskólanum í Reykjavík og hefur frá stofnun unnið ötullega að því að kenna börnum og unglingum forritun með ýmsum fjölbreyttum tækninámskeiðum. Námskeiðin hafa það að leiðarljósi að styrkja ýmsa færni, m.a. rökhugsun, sköpun, félagsfærni, teymisvinnu, samskipti, betri sjálfsmynd og þrautalausnir.

Tvö námskeið verða í boði hér í bæ um páskana og má lesa nánar um þau hér að neðan:

Tækjaforritun fyrir 1. - 4. bekk

Á námskeiðinu fá nemendur tækifæri til að leysa hin ýmsu verkefni með því að skapa lausnir með LittleBits rafrásum. LittleBits eru lítríkir kubbar sem smellast saman með seglum til að endurspegla rafrásir og efla sköpunarkraft nemenda.

Á námskeiðinu verður einnig unnið með Makey Makey örtölvuna sem er frábært tæki sem breytir einföldum hlutum í stjórntæki fyrir tölvuna. Sem dæmi má nefna banana, blóm og hnífapör sem breytt er í hljóðfæri eða lyklaborð.

Nemendur fá einnig að kynnast hönnun tölvuleiks með Bloxels kubbum og hvernig hægt er að vekja hann til lífs með Bloxels appinu. Yngstu nemendurnir fá að kynnast því hvernig hægt er að lita mynd á blaði og sjá síðan lifandi þrívíða útgáfu í spjaldtölvu.

Við skoðum líka Raspberry Pi og hvernig hún hefur verið nýtt til að setja saman eitt stykki Kano tölvu og hvernig hægt er að nýta þá tölvu til að forrita og kynnast einföldum tölvuskipunum.

Svo má ekki gleyma róbótafjölskyldunni okkar en við setjum upp hinar ýmsu þrautir til að leysa með Ollie, Sphero og BB-8 róbótunum.

Forritun - grunnur fyrir 5. - 7. bekk

Á námskeiðinu er farið í gegnum grunnatriði forritunarmál með Scratch. Scratch er kubbaforritunarmál hannað til þess að kenna börnum grunnhugtök forritunar og forritunarlegrar hugsunar í einföldu og myndrænu umhverfi. Námskeiðið er kennt í gegnum litla leiki sem nemendur hanna og forrita með leiðbeinendum Skema.  Námskeið Skema byggja á hugtökum jafningjalærdóms og tilraunastarfsemi.

Með yngri þátttakendum notum við Kodu Game Lab, en það er enn einfaldara umhverfi sem krefst ekki mikis læsis og höfðar þess vegna betur til yngri þátttakenda.

Scratch er frítt forritunarumhverfi sem er aðgengilegt á netinu. Þetta gerir það að verkum að nemendur geta auðveldlega haldið áfram að fikta í og læra á forritun heimavið. Scratch er aðgengilegt á íslensku.

The post Róbotar, rafrásir og forritun í Snæfellsbæ appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð hefjast

Snæfellsbær - Fim, 04/04/2019 - 11:55

Mynd af framkvæmdasvæði Þjóðgarðsmiðstöðvarinnar.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu nú í morgun vegna framkvæmda við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi:

Föstudaginn 5. apríl, hefjast framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. 1.sti áfangi framkvæmda er jarðvegsvinna. Grunnur hússins hefur þegar verið mældur út og framkvæmdir eru að hefjast. Í tilefni þess mun Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra, heimsækja framkvæmdastað á föstudag klukkan 14:45, skoða aðstæður og spjalla við heimamenn og gesti. Boðið verður uppá kaffi og kleinur í Sjóminjasafninu á Hellissandi til að fagna upphafi þessa merka áfanga.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

The post Framkvæmdir við Þjóðgarðsmiðstöð hefjast appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Aukinn opnunartími í upplýsingamiðstöðinni

Snæfellsbær - Miðv.d., 03/04/2019 - 10:48

Snæfellsbær hefur ákveðið að mæta eftirspurn og bæta þjónustu við gesti með rýmri opnunartíma upplýsingamiðstöðvar í Ólafsvík. Nýr opnunartími tekur nú þegar gildi og verður opið sem hér segir:

3. apríl – 15. maí
Opið alla virka daga frá 10:00 – 16:00.

15. maí – 31. ágúst
Opið alla virka daga frá 8:00 – 19:00. Opið um helgar frá 9:00 – 17:00.

Upplýsingamiðstöðin er staðsett í Átthagastofu Snæfellsbæjar í Ólafsvík. Síðastliðið sumar sóttu þangað á um 7.000 ferðamenn í leit að upplýsingum, leiðbeiningum og öðrum ráðum og standa vonir til að með auknum opnunartíma geti upplýsingamiðstöðin stutt betur við þau fyrirtæki sem eru í ferðaþjónustu í Snæfellsbæ.

The post Aukinn opnunartími í upplýsingamiðstöðinni appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Kristinn nýr stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga

Snæfellsbær - mánud., 01/04/2019 - 09:56

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, var kjörinn stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga, á aðalfundi lánasjóðsins fyrir helgi. Kristinn hefur setið í stjórn lánasjóðsins frá árinu 1999, þar af sem varaformaður frá árinu 2005. Greinir Samband íslenskra sveitarfélaga frá þessu í fréttatilkynningu. 

Í stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga voru auk Kristins kjörin; Arna Lára Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í Ísafjarðarbæ, Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, Guðmundur B. Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrarbæjar og Helga Benediktsdóttir, deildarstjóri fjárstýringar Reykjavíkurborgar.

Nánar má lesa á vef Viðskiptablaðsins.

The post Kristinn nýr stjórnarformaður Lánasjóðs sveitarfélaga appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Skólaþing

Grunnskóli Snæfellsbæjar - mánud., 01/04/2019 - 09:37
ILDI hefur skilað af sér skýrslu um afrakstur skólaþingsins sem haldið var 6. mars, síðastliðinn. Helstu niðurstöður þess var að byggja upp persónulegan styrk hvers og eins nemenda, rækta jákvæð viðhorf þeirrra, metnað og þau yrðu óhrædd við að gera mistök. Samskipti og félagsfærni voru einnig ofarlega á blaði.Það verður svo í höndum skólaráðs, ásamt einum fulltrúa úr bæjarstjórn, að skoða, vega og meta hugmyndir og ábendingar frá þinginu og endurskoða skólanámskrá og starfsáætlun.
Flokkar: Snæfellsbær

Mávur frá Mávahlíð er lambaföður ársins 2018

Snæfellsbær - Miðv.d., 27/03/2019 - 11:11

Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson glöð í bragði með verðlaunin. Ljósmynd: smh / Bændablaðið.

Á opnum fagráðsfundi í sauðfjárrækt sem haldinn var í Bændahöllinni fyrr í þessum mánuði var Mávur frá Mávahlíð valinn Lambaföður ársins 2018, hvorki meira né minna, og veittu Herdís Leifsdóttir og Emil Freyr Emilsson verðlaunagripnum viðtöku.

Er það faghópur sauðfjárræktar á vegum Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins sem dæmir hrútana eftir árangri þeirra og verðlaunar þann sæðingastöðvahrút sem skarað hefur fram úr, að þessu sinni Máv 15-990 frá Mávahlíð.

Sannarlega glæsilegur árangur hjá þeim hjónum og Mávur vel að titlinum kominn. Við leyfum umsögn faghóps Ráðgjafamiðstöðvar Landbúnaðarins að fylgja hér að neðan.

Mávur frá Mávahlíð. Lambaföður ársins 2018. 

„Besti lambafaðir sæðingastöðvanna veturinn 2017 til 2018 er Mávur 15-990 frá Mávahlíð í Fróðárhreppi á Snæfellsnesi. Val hans byggir á niðurstöðum úr lambaskoðunum og kjötmati haustið 2018.

Mávur er sonur Blika 12-001 frá Mávahlíð sem var sonur Gosa 09-850 frá Ytri-Skógum. Móðir hans Dröfn 12-008 var tvílembd gemlingur síðan þrisvar verið þrílembd annars tvílembd og er með 6,9 í afurðaeinkunn. Tíu af fimmtán lömbum hennar hafa verið valin til lífs. Dröfn er dóttir Hróa 07-836 frá Geirmundarstöðum. Mæður foreldra Mávs rekja uppruna sinn að miklu leyti í þá öflugu hjörð sem verið hefur í Mávahlíð í áratugi. Þar er þó einnig skammt í stöðvahrúta s.s. Abel 00-890 frá Ósabakka, Túla 98-858 frá Leirhöfn og Þrótt 04-991 frá Staðarbakka.

Mávur var fenginn til notkunnar á sæðingastöðvunum haustið 2017 að aflokinni afkvæmarannsókn fyrir úrvalshrúta á Snæfellsnesi sem fram fór að Gaul í Staðarsveit. Mávur sýndi þar mjög skýra yfirburði sem lambafaðir. Mávur hefur verið tvo vetur í notkun á stöðvunum og bæði árin verið meðal þeirra hrúta sem bændur hafa sótt mikið í að nota. Afkvæmi Mávs er ákaflega jafnvaxin og sameina afar vel góða gerð, hóflega fitu og ágætan vænleika. Allmörg þeirra hafa erft hreinhvíta og kostaríka ull föður síns og hann því einnig öflugur kynbótahrútur hvað ullargæði varðar. Mávur stendur nú í 116 stigum í kynbótamati fyrir gerð og 118 stigum fyrir fitu. Í uppgjöri fjárræktarfélaganna 2018 fær hann 119 í fallþungaeinkunn fyrir afkvæmi sín. Mávur er frábær lambafaðir gagnvart öllum helstu eiginleikum sem horft er til við líflambaval og ber með sóma nafnbótina „besti lambafaðirinn“ framleiðsluárið 2018.“

The post Mávur frá Mávahlíð er lambaföður ársins 2018 appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Leikhópurinn Lotta í Klifi

Snæfellsbær - mánud., 25/03/2019 - 12:15

Vakin er athygli á stórkemmtilegum fjölskyldusöngleik með Rauðhettu og úlfinum, Hans og Grétu og grísunum þremur í félagsheimilinu Klifi á morgun kl. 17:30.

Frítt er á sýninguna í boði menningarnefndar Snæfellsbæjar og foreldrafélaga leikskóla Snæfellsbæjar.

Leikhópurinn Lotta er landsmönnum að góðu kunnur en hópurinn hefur frá árinu 2007 ferðast með sýningar sínar um landið þvert og endilangt. Hópurinn, sem hefur sérhæft sig í sýningum utandyra, er nú annan veturinn í röð að sýna í Tjarnarbíó og um allt land. Rauðhettu setti hópurinn fyrst upp árið 2009 en nú tíu árum síðar verður rykið dustað af þessu skemmtilega verki og fært nýjum og gömlum áhorfendum í glænýjum búningi.

Ævintýrið um Rauðhettu og úlfinn þekkja allir en í meðförum Lottu hefur tveimur þekktum ævintýrum til viðbótar verið bætt í leikinn. Það eru sögurnar um grísina þrjá og systkinin Hans og Grétu. Þá eru í verkinu meira en 10 stórskemmtileg lög sem binda söguna saman. Úr verður gómsætur ævintýrakokteill sem enginn má láta framhjá sér fara.

Hér má sjá viðburðinn á Facebook.

The post Leikhópurinn Lotta í Klifi appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði

Snæfellsbær - lau, 23/03/2019 - 13:31

Í gær var úthlutunarhátíð Uppbyggingarsjóðs Vesturlands haldin í félagsheimilinu Klifi í Ólafsvík. Styrkir eru veittir til menningarverkefna og atvinnu- og nýsköpunarverkefna og að þessu sinni var úthlutað um 47 milljónum í 82 verkefni. Úthlutunarhátíðin gekk vel fyrir sig og léku þau Valentina, Evgeeny og Stefanía frá Tónlistarskóla Snæfellsbæjar fyrir gesti.

Fjölmörg verkefni í Snæfellsbæ fengu styrkveitingu að þessu sinni eins og sjá má hér að neðan:

 • Sjóminjasafnið hlaut tvo styrki vegna fyrirhugaðra sýninga;
 • Átthagastofa hlaut þrjá styrki – vegna Fjölmenningarhátíðar, fyrir skráningu safnmuna og vegna áframhaldandi endurhleðslu fjárréttar í Ólafsvík í umsjón Guðrúnar Tryggvadóttur;
 • Karlakórinn Heiðbjört í Staðarsveit, Kirkjukór Ólafsvíkur og Karlakórinn Kári hlutu styrk fyrir kórastarfi;
 • Menningarsjóðurinn undir Jökli hlaut styrkveitingu vegna tveggja verkefna, annars vegar fyrir Hellnakirkju og hins vegar vegna tónleikaraðar;
 • Slysavarnardeildin Helga Bárðar hlaut styrk til að ljúka við endurbætur á styttunni Jöklarar sem er í Sjóminjagarðinum á Hellissandi;
 • Adela Marcela Turloiu hlaut styrk til að halda áfram með Snæfellsnesspilið;
 • Guðni Þorberg hlaut styrkveitingu vegna sýningar um Axlar-Björn sem fyrirhugað er að setja upp í Samkomuhúsinu á Stapa;
 • Frystiklefinn hlaut tvo styrki, annars vegna vegna fyrirhugaðrar götulistahátíðar á Hellissandi og hins vegar fyrir nýja leiksýningu sem frumsýnt verður í sumar;
 • Jóhann Már Þórisson hlaut styrk fyrir handverk úr heimabyggð. 

Þá má einnig nefna að önnur verkefni sem tengjast Snæfellsbæ með einum eða öðrum hætti hlutu einnig styrkveitingu, t.d. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes, kvikmyndahátíðin Northern Wave Film Festival sem haldin er í Rifi og samlistasýningin Umhverfing sem verður á haldin á Snæfellsnesi í sumar.

 

The post Úthlutun styrkja úr Uppbyggingarsjóði appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Árshátíðir GSnb

Grunnskóli Snæfellsbæjar - fös, 22/03/2019 - 13:25
Flokkar: Snæfellsbær

Hjörtur og Davíð Svanur keppa í Samfés

Snæfellsbær - fös, 22/03/2019 - 11:44

Söngkeppni Samfés er haldin í Laugardalshöll á morgun frammi fyrir 3000 áhorfendum og myndavélum Ríkissjónvarpsins, en keppnin er í beinni útsendingu á RÚV.

Á meðal keppanda verða tveir söngglaðir snillingar úr Snæfellsbæ, þeir Davíð Svanur Hafþórsson og Hjörtur Sigurðsson, sem flytja frumsamið lag um mömmur sínar. Lagið heitir „Takk fyrir“ og á alveg örugglega eftir að kremja nokkur hjörtu.

Keppnin hefst kl. 13:00 og verður eins og áður segir í beinni útsendingu á RÚV. Strákarnir eru númer þrjú í röðinni og áætlað er að þeir stígi á svið kl. 13:13.

Við hvetjum alla sem tök hafa á til að hafa rétt stillt á morgun og fylgjast með strákunum á sviði Laugardalshallarinnar. Áfram strákar!

The post Hjörtur og Davíð Svanur keppa í Samfés appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Snæfellsbær