Snæfellsbær

Opið hús

Grunnskóli Snæfellsbæjar - 6 klukkutímar 40 mín síðan
Opið hús í Grunnskóla Snæfellsbæjar, Ólafsvík föstudaginn 18. október klukkan 12:30 - 13:30.Allir velkomnir
Flokkar: Snæfellsbær

Sjókonur á Snæfellsnesi

Snæfellsbær - Þri, 15/10/2019 - 11:53

Í tilefni af Strandmenningarhátíð á Snæfellsnesi 2019 heimsækir Dr. Margaret E. Willson Snæfellsnes í þessari viku og heldur erindi á Arnarstapa, Grundarfirði og Stykkishólmi.

Margaret Willson er prófessor í mannfræði og Skandinavískum fræðum við Washington-háskóla í Seattle í Bandaríkjunum.

Hún hefur rannsakað sjósókn kvenna á fyrri öldum til nútíma og fundið mikið efni frá Snæfellsnesi. Ljósi verður m.a. varpað á konur frá Rauðseyjum, Höskuldsey, Bjarnareyjum, Oddbjarnarskeri, Flatey, Hergilsey, Brimilsvöllum, Neshreppi, Múlasveit o.fl.

Svæðisgarðurinn Snæfellsnes hefur veg og vanda af heimsókninni og hvetur fólk til að mæta, skiptast á sögum og fræðast um líf og störf formæðra og núlifandi kvenna á sjó. Fólk má gjarnan koma með myndir og gögn af sjókonum á Snæfellsnesi. Margaret kemur með gögn um nokkrar konur af Snæfellsnesi og segir sögur þeirra áður en boðið er til samræðna.

Allir velkomnir!

Samkomuhúsið á Arnarstapa
föstudaginn 18. okt kl. 19:00 – 21:00

Bæringsstofa í Grundarfirði
laugardaginn 19. okt kl. 13:00

Amtsbókasafnið í Stykkishólmi
laugardaginn 19. okt kl. 17:00 – 19:00

The post Sjókonur á Snæfellsnesi appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Fræðslu- og umræðuþing um framtíð Breiðafjarðar

Snæfellsbær - Þri, 15/10/2019 - 10:12

Breiðafjarðarnefnd og Umhverfis- og auðlindaráðuneytið efna til fræðslu- og umræðuþings um framtíð verndarsvæðisins á Breiðafirði. Þingið fer fram í Tjarnarlundi í Dalabyggð þann 23. október og stendur frá kl. 11:00 til kl. 16:00.

Þingið er öllum opið en skráning er nauðsynleg á netfanginu breidafjordur@nsv.is.

Fundarstjóri: Stefán Gíslason, umhverfisstjórnunarfræðingur.

Dagskrá þingsins:

11:00 Setning, Erla Friðriksdóttir, formaður Breiðafjarðarnefndar
11:10 Ávarp Umhverfis- og auðlindaráðherra
11:25 Sérstaða Breiðafjarðar, Róbert Arnar Stefánsson, Náttúrustofu Vesturlands
11:55 Breiðafjörður sem Ramsarsvæði, Trausti Baldursson, Náttúrufræðistofnun Íslands
12:10 Heimsminjaskrá UNESCO, Sigurður Þráinsson, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu

12:25 Hádegisverður (skráning nauðsynleg á breidafjordur@nsv.is)

13:10 Af hverju að stofna þjóðgarð?, Steinar Kaldal, Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
13:25 Reynslan af þjóðgarði, Björn Ingi Jónsson, svæðisráði suðursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs
13:40 Snæfellingar og þjóðgarðurinn, Kristinn Jónasson, Snæfellsbæ
13:55 Kostir og gallar friðlýsingar, Jón Björnsson, Þjóðgarðinum Snæfellsjökli
14:10 Man and the Biosphere Programme, Martin Price, ráðgjafanefnd um Man and the Bioshpere verkefnið

14:40 Kaffi

15:10 Næstu skref varðandi framtíð Breiðafjarðar, Erla Friðriksdóttir, formaður Breiðafjarðarnefndar
15:25 Fyrirspurnir og umræður
16:00 Dagskrárlok

The post Fræðslu- og umræðuþing um framtíð Breiðafjarðar appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Bæjarstjórnarfundur 10. október

Snæfellsbær - Miðv.d., 09/10/2019 - 13:17

Vakin er athygli á því að 324. fundur bæjarstjórnar Snæfellsbæjar verður haldinn í Ráðhúsi Snæfellsbæjar fimmtudaginn 10. október 2019 kl. 16:00.

Fundir bæjarstjórnar eru öllum opnir og eru íbúar hvattir til að kynna sér bæjarmálin. Dagskrá fundar má sjá hér að neðan. Fundarboð má nálgast hér.

Dagskrá fundar:

 1. Rebekka Unnarsdóttir og Patrick Roloff mæta á fundinn til að ræða um tjaldstæðin í Snæfellsbæ. 
 2. Ingigerður Stefánsdóttir, leikskólastjóri, mætir á fundinn til að ræða hugmyndir um ungbarnadeild. 
 3. Fundargerð 308. fundar bæjarráðs Snæfellsbæjar, dags. 19. september 2019. 
 4. Fundargerð 130. fundar umhverfis- og skipulagsnefndar, dags. 4. október 2019. 
 5. Fundargerðir 185. og 186. fundar menningarnefndar, dags. 15. september og 1. október 2019. 
 6. Fundargerð fræðslunefndar, dags. 16. september 2019. 
 7. Fundargerðir 873. og 874. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 30. ágúst og 27. september 2019. 
 8. Fundargerð 415. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands, dags. 26. september 2019. 
 9. Fundargerð 17. aðalfundar fulltrúaráðs Eignaharslfélagsins Brunabótafélag Íslands, dags. 20. september 2019. 
 10. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 25. september 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Lýsdals ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Lýsudal í Staðarsveit, Snæfellsbæ. 
 11. Bréf frá Sýslumanninum á Vesturlandi, dags. 30. september 2019, varðandi ósk um umsögn bæjarstjórnar um umsókn Blue View ehf., um leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, minna gistiheimili, að Öxl í Breiðuvík, Snfæfellsbæ. 
 12. Minnisblað frá bæjarstjóra, dags. 8. október 2019, varðandi landsvæði til að kolefnisjafna. 
 13. Bréf frá Ragnheiði Víglundsdóttir, dags. 7. október 2019, varðandi tiltekt í geymslu Pakkhússins á Hellissandi. 
 14. Bréf frá Laufeyju Helgu Árnadóttur, dags. 4. október 2019, varðandi fatasölur í húsnæði Snæfellsbæjar. 
 15. Bréf frá Lionsklúbbnum Rán, dags. 23. september 2019, varðandi ósk um niðurfellingu á leigu í Klifi þann 28. september s.l. vegna Nesballs eldri borgara. 
 16. Bréf frá Adelu Marcelu Turloiu, Helgu Guðrúnu Sigurðardóttur, Karitas Hrafns Elvarsdóttur og Sigrúnu Erlu Sveinsdóttur, dags. 18. september 2019, varðandi bættari útileikja- og afþreyingaraðstöðu barna er búa í Rifi. 
 17. Bréf frá Kára Viðarssyni, dags. 7. október 2019, varðandi starfsmannaferðir á leiksýninguna „Ókunnugur“ í Frystiklefanum í Rifi. 
 18. Bréf frá Berginu headspace, dags. 8. október 2019, varðandi ósk um rekstrarstyrk 2020. 
 19. Bréf frá Tré lífsins, dags. 20. september 2019, varðandi Minningargarða. 
 20. Bréf frá Æskulýðssambandi Þjóðkirkjunnar, dags. 27. maí 2019, varðandi ósk um styrk til að halda landsmót í Ólafsvík helgina 25. – 27. október 2019. 
 21. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 5. september 2019, varðandi yfirlýsingu um samstarf sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 
 22. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 19. september 2019, varðandi hvatningu til sveitarstjórna í tengslum við Skólaþing sveitarfélaga 2019. 
 23. Leiðbeinandi álit Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 1. október 2019, varðandi tvöfalda skólavist barna í leik- eða grunnskóla. 
 24. Til kynningar: siðareglur kjörinna fulltrúa Akureyrarbæjar, samskiptasáttmáli kjörinna fulltrúa Akureyrarbæjar og leiðbeiningar um skráningu kjörinna fulltrúa hjá Akureyrarbæ á fjárhagslegum hagsmunum og trúnaðarstörfum. 
 25. Bréf frá Auði Kjartansdóttur, dags. 7. október 2019, varðandi úrsögn úr umhverfis- og skipulagsnefnd. 
 26. Tillögur frá J-listanum:  
  1. Tillaga um lækkun fasteignagjalda. 
  2. Tillaga um að endurskoða núverandi fyrirkomulag á unglingavinnunni. 
  3. Tillaga um að auka flokkun og stíga skrefið enn lengra í umhverfismálum. 
  4. Tillaga um yfirmann unglingavinnunnar. 
 27. Viðauki við fjárhagsáætlun 2019: lagt fram á fundinum.
 28. Bréf frá öllum börnum í Rifi varðandi hoppudýnu og kofa. 
 29. Minnispunktar bæjarstjóra.  

Snæfellsbæ8. október 2019 

Kristinn Jónasson, bæjarstjóri 

The post Bæjarstjórnarfundur 10. október appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Menningarmót – áhersla á menningar- og tungumálafjársjóð nemenda

Grunnskóli Snæfellsbæjar - Þri, 08/10/2019 - 10:34
Í tilefni þess að fjölmenningarhátíð Snæfellsness verður sunnudaginn 20. október ætlum við að vera með Menningarmót í skólunum í Grundarfirði og Snæfellsbæ dagana 16.-18. október.Menningarmótsverkefnið, sem er líka þekkt undir nafninu „Fljúgandi teppi”, er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum, hugsuð til þess að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda.Menningarmót má útfæra í flestum námsgreinum og námssviðum. Þau tengjast oft vinnu með sjálfsmynd nemenda, tilfinningar, tjáningu og ímyndunarafl er virkjað á uppbyggjandi hátt.Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið sé á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – eitthvað sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa. Áhersla er lögð á áhugamál og menningu hvers og eins. Sú menning getur auðveldlega tengst landi og þjóð – en gerir það ekki endilega. Verkefnið er meðal annars skapandi leið til að vinna með Heimsmarkmið 4.7 sem tengist alheimsvitund og viðurkenningu á fjölbreyttri menningu.Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari, menningarmiðlari og verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafni, er hugmyndasmiður verkefnisins. Hún hefur mótað og notað Menningarmótin með góðum árangri í kennslu á Íslandi síðan 2008. Hún leiðbeindi okkur með innleiðingu þessa verkefnis og var hún með námskeið þriðjudaginn 8. október þar sem hún fór yfir hugmyndafræði verkefnisins og hvernig hægt er að framkvæma það á fjölbreytilegan hátt.Opið hús verður í skólunum föstudaginn 18. október, frá kl. 12:00 til 13:00 þar sem foreldrum og velunnurum er boðið að koma og skoða afrakstur vinnu nemenda.Mynd: Menningarmót í Reykjavík. Mynd tekin af síðunni www.menningarmot.is
Flokkar: Snæfellsbær

Skóla lýkur fyrr á þriðjudaginn

Grunnskóli Snæfellsbæjar - fös, 04/10/2019 - 15:04
Skóla lýkur fyrr á þriðjudaginn (8.10.) vegna námskeiðs starfsfólk. Kennslu lýkur kl 13:00 á Hellisandi og 13:20 í Ólafsvík - skólabær er opinn.Það er von okkar þessi breyting komi sér ekki illa.
Flokkar: Snæfellsbær

Átthagafræðiþema GSnb

Grunnskóli Snæfellsbæjar - fös, 04/10/2019 - 15:00
Í Grunnskóla Snæfellsbæjar hefur verið unnið eftir námskrá í Átthagafræði frá árinu 2010. Markmið með náminu er að byggja upp virk tengsl við nærsamfélagið og tengja nám nemenda veruleikanum í bæjarfélaginu og auka um leið fjölbreytni í námi.Dagana 24.-25. september var unnið átthagafræðiþema í 5. -10. bekk. Nemendur unnu verkefni á fjölbreyttan hátt, þar sem áhersla var lögð á heimabyggð, nærsamfélagið og upplifun.10. bekkur kynnti sér fyrirtæki og störf í Snæfellsbæ. Nemendur fengu fræðslu um starfsstéttir í samfélaginu og í framhaldi völdu þeir sér eina starfsgrein til að kynna sér betur. Þeir tóku viðtöl við einstaklinga sem höfðu menntað sig í starfsgreininni og unnu síðan kynningu á starfinu.9. bekkur vann með jarðfræði Snæfellsbæjar. Nemendur unnu saman í pörum að merkingum inn á google maps með upplýsingum, myndum og myndböndum. Unnið var úr heimildum sem til eru um valda þætti í jarðfræði Snæfellsbæjar með áherslu á Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Nemendur 8. bekkjar fengu kynningu á Skógræktarfélagi Ólafsvíkur, Soroptimstaklúbbi Snæfellsness og Lionsklúbbnum Rán. Félagar úr þessum klúbbum komu í skólann og kynntu starfsemi félaganna. Þá fóru nemendur í skoðunarferð í Skógræktina í Ólafsvík og drukku heitt kakó í Gömlu réttinni ásamt því sem gengið var að Þumlinum og Tvífossum fyrir ofan Réttarskóg.Fróðárundrin voru viðfangsefni nemenda í 7. bekk. Þeir kynntu sér söguna um Fróðárundrin þar sem dularfullir atburðir eiga að hafa átt sér stað og tengdu þá frásögn við umhverfið. Nemendur settu söguna upp í tímaás og unnu í hópum klippimyndir þar sem atburðum er lýst í máli og myndum.Í 6. bekk unnu nemendur verkefni um Snæfellsjökul þar sem áhersla var lögð á örnefni, jarðfræði og framtíð jökulsins. Umræðan um jökulinn var tengd bókmenntum og listum. Þá máluðu nemendur málverk af jöklinum á striga í anda listamanna. Í framhaldi munu nemendur vinna fréttaþátt um Snæfellsjökul.Nemendur 5. bekkjar fóru að Svalþúfu og gengu yfir að Malarrifi í stilltu veðri. Nemendum var sögð þjóðsagan af Kolbeini og Kölska sem á að hafa gerst á Svalþúfu og þótti nemendum gaman að.Við viljum þakka þeim sem á einn eða annan hátt veittu okkur aðstoð á þemadögum fyrir þeirra framlag.Við lok grunnskólagöngu er markmiðið að námið í átthagafræði hafi skilað nemendum okkar góðri þekkingu á heimabyggð sinni og kennt þeim vinnubrögð sem munu nýtast þeim vel í framtíðinni, hvort sem er í frekara námi eða þátttöku í atvinnulífi.Margrét Gróa Helgadóttir
Flokkar: Snæfellsbær

Lýsing vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagstillögu

Snæfellsbær - Fim, 03/10/2019 - 08:46

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefur samþykkt lýsingu vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagstillögu í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Lýsingin byggir á aðalskipulagi Snæfellsbæjar 2015 til 2031, dagsett 27. febrúar 2018.

Fyrirhugað er að deiliskipuleggja 15,5 ha skika sem tekinn hefur verið út úr jörðinni Ósakot á norðanverðu Snæfellsnesi, Snæfellsbæ. Svæðið er sunnan við þjóðveginn sem liggur um sunnanvert Snæfellsnes vestan við íbúðarhúsið að Ósakoti. Skikinn heitir Gamli kaupstaður og er skráður með landnúmer L136239. Svæðið er merkt F-20 á aðalskipulagi. Fyrirhugað er að skipta svæðinu í fjóra hluta og byggja þrjú frístundahús til viðbótar við það sem þarna er fyrir. Byggingarreitir verða að lágmarki 10 metrum frá lóðamörkum og aðkoma verður um veg sem þegar til staðar um jörðina Ósakot með  tengingu við þjóðveginn.

Hægt er að skila ábendingum og athugasemdum vegna lýsingarinnar til skipulags- og byggingarfulltrúa á byggingarfulltrui@snb.is eða í bréfpósti stílað á Ráðhús Snæfellsbæjar, Klettsbúð 4, 360 Hellissandi. Athugasemdafrestur er til 24. október 2019.

The post Lýsing vegna fyrirhugaðrar deiliskipulagstillögu appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Tjaldsvæði hafa lokað eftir sumarið

Snæfellsbær - Þri, 01/10/2019 - 11:54

Tjaldsvæðin í Ólafsvík og á Hellissandi lokuðu nú um mánaðarmótin eftir sumarvertíðina. Aðsókn var með fínasta móti í allt sumar og var áberandi meðal gesta hve ánægðir þeir voru með aðstöðuna.

Tjaldsvæðin opnuðu þann 1. maí sl. og gistu tæplega 17.000 gestir á tjaldsvæðunum þetta sumarið. Þá má nefna að Íslendingum fjölgaði verulega nú í sumar enda veður gott, náttúran engri lík hér á svæðinu og aðstæður hinar bestu til útilegu.

The post Tjaldsvæði hafa lokað eftir sumarið appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

KVAN – námskeið fyrir tvo árganga

Grunnskóli Snæfellsbæjar - mánud., 30/09/2019 - 14:58
Mikilvægi góðra samskipta og vellíðan í skólaumhverfi er nokkuð sem skiptir gríðarlega miklu máli og er málefni þar sem allir þurfa að vinna saman að settu marki. Nú í haust erum við með námskeið fyrir nemendur, kennara og foreldra tveggja árganga. Á þessum námskeiðum eru samskipti og líðan nemenda skoðuð og unnið að því að greina og meta hvað er gott og hvað má betur fara. Námskeiðið byggist upp af verklegum æfingum og umræðum ásamt því að gera áætlun um næstu skref. Námskeiðið er byggt upp af tveimur 80 mínútna tímum þar sem vandi er greindur og unnin verkefni þar sem reynir á alla þá þætti sem þurfa að vera í lagi til að öllum líði vel í skólaumhverfinu. Síðan að því loknu verður námskeið í 90 mínútur með nemendum og foreldrum þar sem haldið er áfram með vinnuna, bæði í gegnum verkefni og hópavinnu.Fundur með foreldrum nemenda í fjórða bekk er miðvikudaginn 2. október kl. 18:00 í Ólafsvík.Fundur með foreldrum í tíunda bekk er fimmtudaginn 3. október kl. 18:00 í Ólafsvík.Á báðum fundunum er boðið upp á kjötsúpu og brauð.Foreldrafélag skólans styrkir þessa vinnu og erum við þeim mjög þakklát fyrir það.
Flokkar: Snæfellsbær

Landsæfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Snæfellsbæ

Snæfellsbær - mánud., 30/09/2019 - 10:08
      1 1

Á laugardaginn verður mikið um að vera í bænum þegar landsæfing Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verður haldin í Snæfellsbæ. Við birtum hér bréf sem V. Lilja Stefánsdóttir ritar fyrir hönd undirbúningshópsins á svæði 5.

Laugardaginn 5. október n.k. verður landsæfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar haldin í Snæfellsbæ. Svæðisstjórn á svæði 5 og fulltrúar björgunarsveitanna á Snæfellsnesi og í Dölum bera hitann og þungan af undirbúningi og framkvæmd æfingarinnar. Leitað hefur verið lengi eftir aðstoð slysavarnadeildanna á svæðinu, líkt og gerist þegar útköll verða.

Gert er ráð fyrir um 300 þátttakendum víðs vegar að af landinu auk þess sem nokkrir félagar okkar frá Færeyjum og Noregi hafa sýnt áhuga fyrir þátttöku. Æfingasvæðið verður afmarkað frá Fróðárheiði og út fyrir Saxhól og verða æfingar með fjölbreyttu sniði. Æfingapóstar (verkefni) verða 60 – 70 talsins og má þar nefna fjalla- og rústabjörgun, leitarverkefni, fyrsta hjálp, báta- og tækjaverkefni. Íbúar eru hvattir til að fylgjast með æfingunni, en vinsamlegast virðið æfinga- og athafnasvæði þátttakenda (björgunarsveitanna).

Æfingin hefst kl. 9:00 og lýkur með sameiginlegum kvöldverði í Félagsheimilinu Klifi, þar sem slysavarnadeildirnar á svæði 5 sjá til þess að allir fari saddir og sælir af svæðinu.

Björgunarsveitirnar í landinu eru reknar með vinnuframlagi sjálfboðaliða. Eins og allir vita reiða landsmenn sig á óeigingjarnt starf þeirra þegar kemur að því að leita aðstoðar af ýmsu tagi. Rekstur björgunarsveita er háður styrkjum og fjárframlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum, sala á neyðarkallinum í nóvember er hluti af fjáröflunarleiðum.

Verkefni sem þetta er mannfrekt, bæði í undirbúningi og framkvæmd og þar eru sjálfboðaliðar í öllum hlutverkum. Til þess að æfingar gangi sem best og verði sem trúverðugastar þarf verkefnastjóra við hvert verkefni og í mörgum tilfellum „sjúkling/sjúklinga“. Smærri æfingar verða endurteknar nokkrum sinnum yfir daginn og á sumum æfingasvæðum verða mörg verkefni í gangi. Því biðlum við til allra þeirra sem hafa reynslu eða þekkingu sem gæti nýst við verkefnastjórn og einnig þeirra sem eru tilbúnir til að leika sjúklinga að hafa samband við Jóhönnu Maríu í síma 865 4548 eða Ægi í síma 848 5256. Öll aðstoð er vel þegin og þátttaka í verkefni sem þessu er í flestum tilfellum mjög gefandi. Gætt verður að öryggi sjúklinga og engin áhættuatriði í boði!

The post Landsæfing björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Snæfellsbæ appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Sundlaug í Ólafsvík lokuð vegna viðhaldsframkvæmda

Snæfellsbær - fös, 27/09/2019 - 10:17

Sundlaugin í Ólafsvík verður lokuð frá mánudeginum 30. september til og með miðvikudeginum 2. október vegna þrifa og viðhalds. Sundlaugin opnar aftur kl. 07:30 að morgni fimmtudags 3. október.

Við þökkum sýndan skilning og bendum á að laugin verður opin frá kl. 10 – 17 alla helgina.

The post Sundlaug í Ólafsvík lokuð vegna viðhaldsframkvæmda appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Skólamálaþing 2. otóber

Grunnskóli Snæfellsbæjar - Miðv.d., 25/09/2019 - 14:35
Miðvikudaginn 2. október er skólamálaþing snæfellskra skólastofnana. Þemað í ár er: Líðan og samskipti í skólastarfi. Þinghaldið fer fram í FSN.Þetta er nemendalaus dagur og frí hjá nemendum.
Flokkar: Snæfellsbær

ART

Grunnskóli Snæfellsbæjar - Miðv.d., 25/09/2019 - 08:56
Þrír starfsmenn frá okkur fóru á ART námskeið í byrjun september. Í ART kennslu eru nemendum kennd jákvæð samskipti í daglega lífinu. Unnið er kerfisbundið með tiltekin atriði. Þetta er gert með umræðum, hlutverkaleikjum og ýmiss konar verkefnum. Efling siðgæðisþroska fer fram með rökræðum undir stjórn þjálfaranna út frá klípusögum þar sem koma fyrir siðferðisleg álitamál. Að baki ART er sú hugmyndafræði að reiði eða „árásahegðun“ eigi sér margvíslegar orsakir. Þrennt er þó áberandi hjá þeim sem eiga erfitt með að hemja reiði sína: slök félagsleg færni, trú á að reiðin sigri allt og/eða slakur siðgæðisþroski. Rannsóknir sýna að með því að vinna markvisst og samhliða með félagsþroskann, reiðina og siðgæðisþroskann er hægt að kenna börnum og fullorðnum að temja sér reiðilaus samskipti.Við munum byrja á að innleiða þessi vinnubrögð í fjórða og fimmta bekk og metum svo stöðuna hvað við gerum í framhaldinu.
Flokkar: Snæfellsbær

Lýðheilsuganga 25. september – breytt áætlun

Snæfellsbær - Þri, 24/09/2019 - 18:33

Á morgun verður farið í síðustu lýðheilsugöngu þessa mánaðar þegar gengið verður um Seljadal. Samkvæmt auglýstri áætlun var stefnt að því að ganga um Búðarklett í síðustu lýðheilsugöngunni, en sökum þess að fresta þurfti göngunni um Seljadal í síðustu viku hefur verið ákveðið að fara í hana að þessu sinni.

Á morgun verður því gengið um Seljadal í stað Búðarkletts.

Miðvikudagur 25. september
Seljadalur
Lagt af stað frá íþróttahúsinu á Hellissandi kl 17:35 og frá íþróttahúsinu í Ólafsvík kl. 17:45
Um að gera að safnast saman í bíla
Fararstjóri:  Árni Guðjón Aðalsteinsson

Snæfellsbær endurtekur leikinn frá síðasta ári og býður í gönguferðir í samstarfi við Ferðafélag Íslands alla miðvikudaga í september. Þetta eru fjölskylduvænar göngur sem taka u.þ.b. 60 – 90 mínútur og er tilgangur þeirra að hvetja fólk til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu sína og lífsgæði.

Vonandi reima sem flestir á sig gönguskóna með okkur í september, fara út í náttúruna og njóta náttúrufegurðarinnar sem við erum svo lánsöm að búa við.

Göngurnar hefjast alltaf kl. 18:00 (nánari tímasetning við hverja göngu ef þarf að keyra á staðinn).

The post Lýðheilsuganga 25. september – breytt áætlun appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Festingar á ruslatunnur komnar á Gámaþjónustuna

Snæfellsbær - Þri, 24/09/2019 - 12:26

Íbúar Snæfellsbæjar geta nú nálgast festingar á ruslatunnur sér að kostnaðarlausu.

Festingarnar má nálgast á starfsstöð Gámaþjónustunnar í Ólafsvík á opnunartíma.

Um er að ræða teygjur sem koma í veg fyrir að lok á ruslatunnum fjúki upp með tilheyrandi foki úr tunnum.

The post Festingar á ruslatunnur komnar á Gámaþjónustuna appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Vinabæjarheimsókn til Vestmanna

Snæfellsbær - mánud., 23/09/2019 - 15:20

Nú á haustdögum lögðu 5 af 7 bæjarfulltrúum Snæfellsbæjar, ásamt mökum, af stað í vinabæjarheimsókn til Vestmanna í Færeyjum en vinabæjarsamstarf á milli Vestmanna  og Snæfellsbæjar hófst fyrir 20 árum.

Vestmanna er bær á Straumey sem er ein af 18  eyjum Færeyja, með um 1200 íbúa, en einungis 2 eyjar í eyjaklasanum eru ekki í byggð.  Færeyjar, eða fjáreyjar, eru  kenndar við sauðfé, enda mun meira af sauðfé í Færeyjum en mannfólki og alls staðar sáum við kindur hvert sem við fórum okkur til mikillar gleði.

Við komuna til Vestmanna var tekið á móti okkur á bæjarskrifstofunni og þaðan var svo haldið beint með rútu í skoðunarferð. Margir fallegir staðir voru heimsóttir og einstaklega gaman að koma á þá staði sem “færeyskir Ólsarar” komu frá, eins og t.d. Ríkharð Jónsson sem var frá Saksun, sem er orðinn einn vinsælasti ferðamannastaður Færeyja enda umlukin stórkostlegri náttúrufegurð hvert sem litið er.

Það var einstaklega gaman að koma til Tjornevikur þar sem tíminn hefur nánast staðið í stað. Þar var okkur boðið í kaffi og vöfflur í heimahúsi, þar sem húsráðandinn var alinn upp í 11 manna fjölskyldu um miðja síðustu öld, í svo ótrúlega litlu húsi þar sem lofthæðin var ekki mikil en hlýjan og notalegheitin einstök og ætluðum við ekki að hafa okkur í að standa upp úr sófunum og halda áfram ferðinni.  Við þurftum síðan reyndar að breyta ferðaplaninu og stytta útsýnisferðina sökum slæms skyggnis og mikillar rigningar.

Okkur var svo boðið til glæsilegs kvöldverðar í húsakynnum heilsugæslustöðvarinnar í Vestmanna um kvöldið, en farið var snemma í háttinn þar sem dagskrá morgundagsins var þétt skipuð.  Morguninn eftir var haldið snemma af stað í siglingu um Vestmannabjörgin. Einnig stóð til að sigla með okkur til Mykiness, sem er vestust Færeyja og aðeins 11km2 að stærð með einungis 10 fasta íbúa í dag,  en við komumst því miður ekki sökum mikillar ölduhæðar og vinda. En þvílík fegurð að sigla um Vestmannabjörgin og horfa upp og sjá kindurnar á beit í snarbröttum hlíðum alls staðar fyrir ofan okkur.

En trúið mér, í þessari ferð komu svokallaðar sjóveikistöflur að góðum notum, allavega fyrir sum okkar! Að siglingu lokinni héldum við aftur af stað og skoðuðum fleiri fallega staði meðal annars Kirkjubæ sem er  lítið þorp á vestan-verðri Straumey en þar er að finna fornt  biskupssetur frá  miðöldum og því Kirkjubær einn helsti sögustaður eyjanna. 

Að lokum héldum við til höfuðstaðarins Þórshafnar, eða Havn eins og heimamenn segja, þar sem við gistum í 2 nætur og héldum áfram að skoða okkur um. Við fengum höfðinglegar móttökur hjá frændum okkar Færeyingum og eftir að hafa meðal annars bragðað á skerpikjöti, sem er vindþurrkað kindakjöt þurrkað í hjalli í 5-9 mánuði eða jafnvel í heilt ár, og rastakjöti sem er einnig  kindakjöt en látið hanga í mun styttri tíma en skerpikjötið, gjarnan um tvo mánuði, héldum við heim á leið með gleði í hjarta og ögn meiri jarðtengingu eftir samvistir við vini okkar í Vestmanna.

Í heimsóknum  sem þessum hefur tíðkast að færa hvoru bæjarfélagi gjafir í þakklætisskyni fyrir góðar móttökur.  Færðum við Vestmanna fallega mynd af Snæfellsjökli eftir Vigdísi Bjarnadóttur og bæjarfulltrúum færðum við útskorin trébretti eftir Vigfús Vigfússon. Vöktu þessar gjafir mikla lukku enda bæði Vigdís og Vigfús einstakir listamenn sem við erum stolt af að eiga og okkur þótti við hæfi að færa list þeirra út fyrir landsteinana. Bæjarstjórn Vestmanna færði okkur málverk af Mykines þar sem við komumst ekki þangað sökum brælu og færðu þau okkur það á málverki í staðinn.

Vinabæjarsambönd sem þessi eru hverju bæjarfélagi dýrmæt.  Þau auka víðsýni og mynda sterk tengsl um ókomin ár sem okkur ber að hlúa að og gera sýnilegri bæjarbúum og ekki síst skólabörnum.

Fyrir hönd bæjarstjórnar Snæfellsbæjar,

Júníana Björg Óttarsdóttir 

The post Vinabæjarheimsókn til Vestmanna appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Hugmyndasöfnun fer vel af stað

Snæfellsbær - mánud., 23/09/2019 - 12:26

Samráðsverkefnið Betri Snæfellsbær fer vel af stað. Opnað var fyrir tillögur um framkvæmdir og viðhaldsverkefni frá íbúum Snæfellsbæjar nú fyrir helgi og hafa þegar borist sjö tillögur.

Betri Snæfellsbær virkar þannig að allir geta sett fram tillögu að framkvæmd, stórri sem smárri, og fært rök fyrir nauðsyn þess að ráðast í hana. Aðrir íbúar geta svo farið inn á vefsvæðið og sýnt hugmyndum stuðning með því að smella á hjarta og skrifa rök með tilteknum hugmyndum.

Hugmyndasöfnunin stendur yfir til 19. október næstkomandi. Að þeim tíma loknum tekur tæknideild Snæfellsbæjar innsendar tillögur til skoðunar og metur þær út frá gæðum, umfangi og undirtektum íbúa. Að því loknu verða þær lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd sem tekur þær til formlegrar meðferðar. Það er því mikilvægt að sjónarmið íbúa skili sér í gegnum vefsvæðið.

Smelltu hér til að fara á Betri Snæfellsbær.

Meðfylgjandi eru þær tillögur sem hafa borist:

 • Skautasvell í miðbæinn
 • Afþreying fyrir börn í Rifi
 • Hundasvæði í Snæfellsbæ
 • Hjólarampur
 • Útilíkamsræktarstöð
 • Uppbygging á Sáinu
 • Laga gangstéttir við Grundarbraut og Hábrekku

The post Hugmyndasöfnun fer vel af stað appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Læsisfimma

Grunnskóli Snæfellsbæjar - fös, 20/09/2019 - 13:37
Síðasta vetur vann þriðji bekkur í Grunnskóla Snæfellsbæjar ásamt fleirum undir kennsluháttum læsisfimmunnar eða the daily five. Læsisfimman er skipulag yfir kennsluhætti og aðferðir í læsi og íslensku. Hún byggist á lýðræðislegu umhverfi þar sem nemendur velja sjálfir verkefni, hvar þeir eru og hvernig þeir vinna verkefnin. Þá er mikil áhersla lögð á sjálfstæði og sjálfsaga nemenda.Eins og nafnið gefur til kynna þá skiptist læsisfimman í fimm þætti: Sjálfstæður lestur, vinalestur, hlustun, ritun og orðaforði. Nemendur byrja á því að setjast á „mottuna“ þar sem hver og einn á sinn stað. Það eru nákvæmar reglur um hvernig nemendur eigi að velja sér eitt af þessum viðfangsefnum, á hvaða svæði þeir vinna og hvernig þeir bera sig að. Áður en fimman er tekin í notkun eru þeir þjálfaðir í hverjum þætti fyrir sig. Eftir hverja vinnulotu þá ganga nemendur frá og setjast aftur á „mottuna“. Þar fer fram sjálfsmat um hvernig gekk að vinna o.fl. Auk þess lesa nemendur upp verkefnin sín sem þeir vinna í ritun þegar þeir eru tilbúnir þannig þeir þjálfast líka í upplestri.Í sjálfstæða lestrinum setja nemendur sér markmið. Kennarar fá niðurstöður úr lestrarprófum og fylgjast gætilega með lestrinum og hjálpa nemendum að setja sér viðeigandi markmið. Þeir skrá það niður og vinna markvisst að þeim með kennaranum sínum, t.d. stoppa við punkt, æfa sérhljóða o.s.frv.Þessi vinna hefur reynst okkur mjög vel. Nemendur eru áhugasamir og finnst þetta skemmtilegt skipulag. Ef þeir komast að því að læsisfimma fellur niður má heyra: „Ha? Af hverju er ekki fimma?“ eða „er ekki örugglega fimma í dag?“. Fyrir utan það hvað þetta er skemmtilegt og lærdómsríkt þá eru nemendur að ná markmiðum Aðalnámskrár grunnskóla í öllum þáttum í íslensku. Þessi aðferð hefur reynst svo vel að Grunnskóli Snæfellsbæjar hefur ákveðið að leiða hana inn í 1.-7. bekk.Til gamans er hér ein saga sem nemandi vann sjálfur í ritun:GeimveranFyrir langa löngu bjó fúl og skapill geimvera sem hét Fýlupúki á Mars. Fýlupúki kallaði Mars höll leiðindanna. Einn daginn var Fýlupúki á geimskipinu sínu og sá Venus. Fýlupúki ákvað að stoppa í smá stund á Venus. En svo kom ugla og réðst á Fýlupúka: “AAAAA!!!” Öskraði Fýlupúki, stökk upp í geimfarið sitt og flúði. Hann flúði alla leið til Úranus en þar hitti Fýlupúki hrekkjusvín. “Haha, af hverju ertu með svona stórt og ljótt nef? Ó fyrirgefðu þú ert ekki með nef HAHA!” Sagði hrekkjusvínið.Stuttu síðar komu tvö önnur hrekkjusvín og sögðu í kór: “Hvar fékkstu þessi föt? Í ruslinu eða hvað?” Fýlupúki táraðist því hann vildi ekki viðurkenna að hann fékk fötin sín úr ruslinu. “Farið núna strax!” öskraði Fýlupúki. “Nei!” sögðu hrekkjusvínin í kór. “Ef þið farð ekki fer ég!” og þá stökk Fýlupúki samstundis upp í geimfarið sitt og flúði alla leið yfir Satúnus, Júpíter, Mars, Jörðina, Venus og lenti á Merkúr. Fýlupúki fór að hágráta en svo kom álfadís sem sagði: “Ekki gráta, því hér er gáta: Ef þú þinn rétta stað ferð á Breyttu nafni og gleði kemur þáFýlupúki fór heim á Mars eða höll leiðindanna? En allt í einu datt Fýlupúka í hug hvað þetta þýddi sem álfadísin sagði, hann átti að kalla Mars Mars en ekki höll leiðindanna. Fýlupúki fann fyrir tilfinningu sem hann hafði aldrei fundið áður. Hann kallaði á álfadísina og sagði: “Hvað er að gerast?” vegna þess að það komu næstum allar sjtörnurnar í geimnum og umkryngdu hann. “Þetta er gleði” sagði álfadísin og klappaði af gleði sjálf. “Breyttu nafni og gleðin kemur þá”. “Jáhá!” sagði Fýlupúki og brosti glaður.Maríanna og Kristín Helga
Flokkar: Snæfellsbær

Betri Snæfellsbær – nýr samráðsvettvangur

Snæfellsbær - Fim, 19/09/2019 - 08:56

Í dag opnaði íbúalýðræðisvefurinn Betri Snæfellsbær þar sem íbúum sveitarfélagsins gefst tækifæri til að setja fram tillögur um málefni er varða framkvæmdir og viðhaldsverkefni í Snæfellsbæ.

Vonir standa til að hægt verði að taka á móti tillögum allt árið um kring, en til að kanna áhuga og þátttöku meðal íbúa sveitarfélagsins verður fyrsti mánuðurinn eins konar tilraunaverkefni.

Vettvangurinn er opinn öllum til skoðunar og til þátttöku gegn skráningu og samþykki notendaskilmála.

Íbúar eru hvattir til að skrá sig inn á Betri Snæfellsbær og taka þátt í uppbyggilegri umræðu og tillögugerð um framkvæmdir og viðhaldsverkefni á vegum sveitarfélagsins.

Að loknu tímabilinu tekur tæknideild Snæfellsbæjar innsendar tillögur til skoðunar og metur þær út frá gæðum, umfangi og undirtektum íbúa. Að því loknu verða þær lagðar fyrir umhverfis- og skipulagsnefnd sem taka þær til formlegrar meðferðar. Þær hugmyndir og tillögur sem fyrirhugað er að setja á fjárhagsáætlun 2020 verða sérstaklega kynntar.

Skráðir notendur taka þátt með því að setja fram hugmyndir, skoða hugmyndir annarra, rökstyðja mál, segja skoðun sína eða gefa hugmyndum og rökum vægi með því að styðja þær eða vera á móti þeim.

Við notkun á Betri Snæfellsbæ er mikilvægt að hafa í huga að Snæfellsbær er stjórnvald sem starfar eftir lögum og reglum og hefur ákveðið verksvið. Í ljósi þess er ekki sjálfgefið að unnt verði að taka allar hugmyndir til formlegar meðferðar.

Hugmyndasöfnunin fer fram frá 19. september til 19. október 2019. Íbúar eru hvattir til að vanda framsetningu og auka með því líkur á að tillagan hljóti góðan hljómgrunn.

Allir hvattir til að taka þátt!

Betri Snæfellsbær Betri Snæfellsbær

The post Betri Snæfellsbær – nýr samráðsvettvangur appeared first on Snæfellsbær.

Flokkar: Snæfellsbær

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Snæfellsbær