Kirkjur í Þjóðkirkjunni

Passíusálmar í Dymbilviku

Lágafellskirkja - mánud., 06/04/2020 - 19:40

Nú eru hafnir dagar sem ganga undir mörgum nöfnum en oftast Bænadagar/dymbilvika.
Það er okkur í Lágafellskirkju sönn ánægja að kynna fyrir ykkur samstarf okkar við Leikfélag Mosfellsbæjar.
Á hverjum degi fram að páskum munu leikarar úr leikfélaginu lesa fyrir okkur einn af passíusálmum Hallgríms Péturssonar.

Fyrsti lesturinn kemur frá Herdísi Rögnu og les hún sálm 45.
Við vonum að þið getið notið með okkur.

 

Tíunda hugvekja út frá ræðum Jesú – samfélag fyrirgefningarinnar

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi - mánud., 06/04/2020 - 18:12

Tíunda hugvekja út frá ræðum Jesú í Matteusarguðspjalli eftir sr. Guðmund Guðmundsson, héraðsprest á Akureyri. Samfélag fyrirgefningarinnar samkvæmt ræðu Jesú um samfélag lærisveinanna í Mt. 18. 21-35. Lagið í upphafi og enda er eftir höfund: Ljós Guðs anda. Myndefni er eftir Cranach feðgana sem voru sérstakir málara siðbótarinnar í Wittenberg í Þýskalandi. Þá er þessi mynd hér fyrir neðan eftir Sveinunga Sveinungason og fyrirmyndir hans eftir Carl Bloch.

Opin kirkja: Páskavaka

Kirkjan okkar - mánud., 06/04/2020 - 14:23

Páskavaka verður í Ólafsvíkurkirkju á aðfangadagskvöld páska kl. 21.

Lesin verður páskafrásagan.
Sameiginleg stund fyrir báða söfnuðina. Stefnt að því að streyma hér á heimasíðu prestakallsins og fésbókarsíðunni.
Farið verður að sjálfsögðu að fyrirmælum sóttvarnalæknis.

 

 

Páskanótt

Guðsþjónusta á páskanótt með skírnarminningu og altarisgöngu hefur verið kölluð móðir kristinnar guðsþjónustu.

Textaröð: A

Lexía: 2Mós 14.15-22
Pistill: Kól 3.1-4
Guðspjall: Matt 28.1-8

Opin kirkja: Föstudagurinn langi

Kirkjan okkar - mánud., 06/04/2020 - 14:23

Föstudaginn langa verður opin kirkja kl. 14 í Ingjaldshólskirkju.

Lesið úr píslasögu og passíusálmum. Sameiginleg stund fyrir báða söfnuðina. Stefnt að því að streyma hér á heimasíðu prestakallsins og fésbókarsíðunni.
Farið verður að sjálfsögðu að fyrirmælum sóttvarnalæknis.

 

Föstudagurinn langi

Litur: Fjólublár eða svartur.

Textaröð: A

Lexía: Hós 6.1-6
Pistill: Heb 4.14-16
Guðspjall: Jóh 19.16-30
 

Bænastund og klukknahljómur á hádegi dag hvern.

Kópavogskirkja - mánud., 06/04/2020 - 13:51

Alla daga eru bænastundir í kirkjunni sem hefjast með klukknahringingu í 3 mín kl. 12.00.

Lenka Mátéová spilar á orgel, Hannes Sigurgeirsson kirkjuvörður hringir klukkum, Egill Reynisson og Anna María Hákonardóttir messuþjónar lesa bænir. Ásta Ágústdóttir djákni og settur sóknarprestur sr. Sjöfn Jóhannesdóttir hafa skipt með sér bænastundunum.

Ef óskað er eftir fyrirbænum eða samtali, þá hafið samband við sr. Sjöfn, netfang: sjofnjo@simnet.is eða við Ástu Ágústsdóttur djákna, netfang: asta.agustsdottir@kirkjan.is

Kirkjuklukkum hringt til stuðnings þeim sem hjálpa

Lágafellskirkja - mánud., 06/04/2020 - 13:09

Um þessar mundir verður kirkjuklukkum kirkna víðsvegar um landið  hringt kl. 14 á mánudögum í 2 mínútur til stuðnings við heilbrigðisstarfsfólk og þau önnur sem koma að málum vegna covid 19.  Kirkjuklukkum Lágafellskirkju verður næstu vikurnar hringt á mánudögum kl.14 til stuðnings.

Samfélag & þakklæti – 21.pistill: Katla Ísaksdóttir

Laugarneskirkja - mánud., 06/04/2020 - 10:26

Mig langar ekki að tilheyra samfélagi. En ég þrái það.

Lengi vel dreymdi mig um að segja mig úr samfélaginu. Það var svo uppfullt af allskonar fólki sem gerði allskonar misgáfulega hluti. Það var flókið og það var efnahagslegt og enginn virtist sammála.

Mig langar alltaf að allir elski mig og dáist að mér. Að allir séu nánir og til staðar. En það er aldrei svoleiðis. Sem er þreytandi.

Ég veit um ýmislegt sem má gera til að bæta úr aðstæðunum. Vera breytingin sem maður vill sjá, brosa til fólks, heilsa. En það er næstum óþolandi til lengdar.

Þess vegna hentar þetta heimahangs mér ágætlega og ég er því sem næst viss um að Guð sendi okkur þessa veiru til að brýna fyrir okkur að hundskast til að læra að hvíla okkur.

En auðvitað veit ég ekki upp á hár hvað Guð er að hugsa.

Ég veit bara að ég er þakklát fyrir að fá að hvíla mig. Þakklát fyrir að fá að gera þægilegar æfingar heima í stað þess að fara í ræktina. Þakklát fyrir að fá svigrúm til þess að rifja upp hvað það er að njóta þess að lesa góða bók og eiga tíma bara fyrir mig.

Eða hvað?

Haldiði ekki að heimili mitt sé hertekið samfélagi? Tvær verur aðrar eru hér mest allan tímann. Ein er stærri en ég og hin minni. Þær hafa þarfir á sama hátt og ég og þær eru mannsveskjur. Þær tala og heyra og hlusta og þrá. Innra með þeim eru heilar og hjörtu. Þær eru samfélagið mitt, fjölskyldan.

Þær sem Guð notar til að kenna mér að elska meira í dag en í gær.

Þær eru æfingatækin í að elska náungann og sjálfa mig, og það besta er að leiðin til þess er oft einfaldlega að gleðjast. Hafa gaman. Taka eftir því einfalda sem við deilum hvert með öðru og láta það gerast.

Katla Ísaksdóttir.

Fjölskylda er lítið samfélag. Lítil þjóð er lítið samfélag. Lítil þjóð er fjölskylda. Lítil pláneta, lítið mannkyn. Fjölskylda.

Skráning fermingarbarna

Lágafellskirkja - mánud., 06/04/2020 - 08:44

Skráning fermingarbarna fyrir vorið 2021 hefst í dag kl.9:00.

Smellið hér til að skrá barn til fermingar. 

 

Helgistund í Lindakirkju pálmasunnudag 5. apríl 2020 kl. 20

Lindakirkja - sun, 05/04/2020 - 19:52

Á meðan á samkomubanni stendur sendir Lindakirkja þér helgistund heim í stofu á slaginu 20:00.

Prestur: Sr. Guðni Már Harðaron
Undirleikur og tónlistarstjórn: Óskar Einarsson
Söngur: Guðrún Birna Guðlaugsdóttir, Katrín Valdís Hjartardóttir og Þórdís Sævarsdóttir.
Upptaka og klipping: Hálfdán Helgi Matthíasson og Matthías Davíð Matthíasson

Tekið upp föstudaginn 3. apríl í Lindakirkju

Helgistund frá Akureyrarkirkja á pálmasunnudag

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi - sun, 05/04/2020 - 17:43

Helgistund frá Akureyrarkirkju á pálmasunnudag. Sigrún Magna Þórsteinsdóttir leikur á orgelið. Sr. Jóhanna Gísladóttir, sóknarprestur í Laugalandsprestakalli, flytur hugvekju og bæn. Og kórfélagar syngja sálminn nr. 861 í Sálmabók kirkjunnar.

Sálmur 861

Kom, voldugi andi, og vertu hjá mér,
veittu mér frelsið og styrkinn frá þér,
fylltu mig kærleik sem Kristur mér gaf.
Ó, lauga mig lífsvatni þínu!

Viðlag: Kristur minn lifir og kominn er hér,
kominn af himni að dvelja hjá mér,
hans sigrandi elska um anda minn fer
sem alla vill hugga og frelsa.

Drottinn, mig þyrstir, ó, Drottinn, ég líð,
Drottinn, þín leita’ ég í stormum og hríð,
ávallt þú veitir mér ást, líf og von.
Ó, lauga mig lífsvatni þínu!

Drottinn, er villu og vegleysu’ ég fer,
vertu mér nærri og leiðbeindu mér,
til salanna björtu um sannleikans braut.
Ó, lauga mig lífsvatni þínu!

Hellen Kennedy – Arinbjörn Vilhjálmsson

Helgistund frá Glerárkirkju á pálmasunnudag

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi - sun, 05/04/2020 - 17:23

Það er pálmasunnudagur og kirkjan er fólkið!

Níunda hugvekja út frá ræðum Jesú – samfélag smælingjanna

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi - sun, 05/04/2020 - 16:51

Níunda hugvekja út frá ræðum Jesú í Matteusarguðspjalli eftir sr. Guðmund Guðmundsson, héraðsprest á Akureyri. Út frá ræðunni um samfélagið í Matteus 18.1-5, 12-14. Lagið í upphafi og enda er eftir höfund: Ljós Guðs anda. Nokkrar málverk sem minna á afstöðu Jesú til barna og samskipti manna eftir Carl Bloch, Cranach, Arngrím Gíslason og Sukayasa.

Þakklæti & samfélag – 20.pistill: Ragnheiður Sverrisdóttir

Laugarneskirkja - sun, 05/04/2020 - 13:05

Þakklæti og samfélag

Leyni-vina-vika var eitt sinn á vinnustað mínum. Hver og einn fékk sinn vin/vinkonu en maður mátti ekki vita hver var leynivinur sinn. Við fundum upp á ýmsu eins og að láta súkkulaðimola á skrifborð vinar okkar þegar ekki sást til. Einn daginn fékk ég bók sem skrifað var í að ég gæti skrifað í hana allt sem ég vildi þakka fyrir. Mér fannst þetta frábær bók, óskrifuð bók og það var ég sem átti að skrifa hana.  Ég byrjaði að skrifa takk fyrir þessa vinkonu sem gaf mér þessa bók. Takk fyrir veðrið í dag (samt var það ömurlegt!).

Að tjá þakklæti sitt hefur góð áhrif og það er einhvern veginn sterkara að skrifa það en bara að segja það. En það tekur á að þakka fyrir það sem er erfitt og það getur verið slæmt fyrir okkur að neyða okkur til ótímabærs þakklætis. En það er samt gott að skrifa það erfiða niður þó maður geti ekki þakkað fyrir það. Það er léttir að geta opnað fyrir það sem er erfitt.    

Þegar við biðjum saman í Laugarneskirkju erum við ekki bara að biðja eða óska einhvers. Við þökkum líka fyrir ýmislegt en þegar grannt er skoðað eru þakkarbænirnar mun færri en það sem við biðjum fyrir eða um. Við viljum samt biðja fyrir þjóðinn, öllum sem þjást o.s.frv. en það væri gott fyrir okkur að þakka meira í guðsþjónustunni. Eftir altarisgöngu segir presturinn vissulega: Þökkum Drottni og vegsömum hann. Söfnuðurinn svarar: Drottni sé vegsemd og þakkargjörð. Við gleymum því ekki alveg að þakka.

Í kirkjunni eigum við samfélag við Guð og hvert annað. Samfélag fyrsta kristna fólksins var öflugt og eitt af því sem styrkti lærisveinana eftir upprisu Jesú. Þannig er kirkjan enn í dag samfélag fólks. Við tölum einnig um samfélag sem þjóðfélag. Í þessu þjóðfélagi erum við einmitt að sýn samstöðu, vera samfélag í dag á erfiðum tímum. Þjóðin er samfélag sem vill fara saman í gegnum þessa erfiðleika og sýna náunga kærleika í verki. Það er mikið þakkarefni því án samtöðu í samfélagi okkar getum við ekki gert það besta sem hægt er í baráttunni við COVID veiruna.

Við þökkum Guði fyrir að gefa okkur styrki til að standa saman. Takk fyrir að margir í þjóðfélaginu vita að náungakærleikur en mikilvægur. Takk fyrir að Jeús boðaði náungakærleika.

Ragnheiður Sverrisdóttir

Pálmasunnudagur

Digraneskirkja - sun, 05/04/2020 - 11:00
Sr Sunna Dóra Möller talar sérstaklega til fermingarbarnanna okkar í Digraneskirkju og Hjallakirkju <3 Lára Bryndís Eggertsdóttir organisti spilar vinningslögin þeirra úr sálmavisjón.  

Guðsþjónusta á pálmasunnudag 5. apríl 2020

Lágafellskirkja - sun, 05/04/2020 - 11:00

Kæru sóknarbörn

Vegna samkomubanns erum við ennþá að streyma til ykkar stundum úr kirkjunum.
Helgihaldið var í umsjá sr. Arndísar Linn,
Hljóðfæraleikur og söngur Þórður Sigurðarsson
Útsendingu stjórnaði Berglind Hönnudóttir.

Vonandi munu þið njóta komandi viku á þessum fordæmalausu tímum.

Helgistund á Pálmasunnudegi.

Guðríðarkirkja - sun, 05/04/2020 - 10:08
https://www.youtube.com/watch?v=HlaceJ5PCqw&feature=youtu.be

Helgistund í Áskirkju á pálmasunnudag

Áskirkja - sun, 05/04/2020 - 10:00
Nú meðan ekki eru guðsþjónustur í kirkjunum vegna samkomubanns, verður hægt að nálgast helgistundir úr Áskirkju, hér á heimasíðu kirkjunnar. Í þessari helgistund á pálmasunnudag 5. apríl eru sungnir eftirfarandi sálmar:
  • 166 Fræ í frosti sefur – Frostenson – Sigurbjörn Einarsson | franskt lag
  • 733 Hósíanna, lof og dýrð – Mt. 21.9. | Egil Hovland
Guðspjall er lesið úr: Jóh. 12. 12-24 Prestur: Sr. Sigurður Jónsson
Djákni: Jóhanna María Eyjólfsdóttir
Organisti: Bjartur Logi Guðnason
Söngur: Jóhanna Ósk Valsdóttir

Sunnudagaskólinn 5. apríl 2020

Lindakirkja - sun, 05/04/2020 - 08:33

Nú er glænýr sunnudagaskóli kominn í loftið.

Stjórnendur: Regína Ósk og Svenni Þór
Biblíusaga: Gunnar Hrafn Sveinsson
Leikstjórn, kvikmyndataka og klipping: Þorleifur Einarsson
Handrit: Guðmundur Karl Brynjarsson

Hugleiðing á Pálmasunnudegi

Hallgrímskirkja - sun, 05/04/2020 - 01:37

Kuldalegur Elliðaárdalurinn heilsaði göngufólki dagsins.  Fuglarnir eins og korktappar á floti við árstífluna.  Verðandi lauftréin eiga langt í græna litinn sinn.  Það er svo langt í margt á einhvern máta og kannski verður ekkert eins og áður þó okkur finnist lífið færast aftur í fyrra horf.  Þetta er líf þversagna og andstæðna og framundan er kyrravika, kannski sú kyrrasta af öllum áður.

Hverfum aftur um aldir.
Mynd  úr barnsminni  af kyrtilklæddum meistaranum á gráum asna.  Fæturnir námu næstum við jörðu og það er allt undirlagt af gleði og elskan svo mikil. Túlkun listafólks á frásögum kyrruviku er hið dýrmæta tungumál, hafið yfir aðskilnað þjóðtungna.  Það miðlar Kristi augans og barnsminnis líka. Myndir sem miðla gleði og elsku en eru um leið kall á leiðsögn, áræði, nýja tíma.
Og um leið og myndin rifjast upp þá heyrum við hrópin og köllin sem blandast upprifinni spenntri gleði í samstöðugöngu og rykið þyrlast upp undan fótsporum hundraðanna.  Karlar, konar og börn leggja á götuna klæði sín og pálmagreinar.

En  í ár er allt eitthvað svo öðruvísi, engar greinar, engin hátíð, ekkert fólk samankomið.   Hósanna bíður næsta árs .
Pálminn sem kúrir við kórtröppurnar hér í Hallgrímskirkju, kirkjupálminn, minnir okkur á greinarnar sem lagðar voru fyrir fætur frelsarans við undirleik hósannahróps fjöldans.
Í 71 ár hefur hann átt bústað hér í kirkjunni.  Pálminn sem gefin var af velgjörðarkonu Hallgrímskirkju  Guðrúnu Ryden þegar kapellan var vígð undir kór kirkjunnar árið 1949.  70 ára líf í kirkjunni og rétt meira.  Eins og vaktmaður í húsi Guðs.   Gaman væri ef hann hefði mál og gæti deilt með okkur öllu því sem hefur átt sér stað hér og þar í kirkjunni frá upphafi.

En ekki um stund
Þögnin í kirkjunni er eins og til að undirstrika að ekkert er sem áður.
Okkur langar ekki að hrópa hósanna eða nokkuð annað. Helst vildum við læðast um veröldina, láta vorið bíða, fresta sumrinu og lífinu meðan við höldum okkur heima og bíðum þess að okkur sé óhætt.

En þrátt fyrir upptaktinn, stuðið og mannfjöldann í  lýsingu á innreið Jesú þá skipast fljótt veður í lofti og áður en vikan er á enda, áður en greinarnar sölna á götunni og klæðin veltast um í  rykinu, þá verða sömu göturnar vettvangur krossfestingar og skelfilegra atburða .  Kyrravika

Pálmsunnudagur segir okkur frá innihaldi og fegurð samstöðunnar í hrópum fólksins en svo var samstaðan rofin áður en greinarnar misstu lit og líf á rykurgri götunni.  Þessi fallega samstaða fólksins um vonir og væntingar, bjartari framtíð varð að engu eða hvað…framhald sögunnar liggur um næstu viku á leið til páskanna og þangað höldum við  skiptum út þögn fyrir von, framtíð fyrir vonleysi..

Við vitum ekki hvað morgundagurinn ber í skauti sér í okkar eigin lífi, þjóðar eða veraldarinnar en við treystum að framtíðin sé Guðs og framundan er vonarljós upprisuhátíðarinnar, páskanna.

En fyrst er það ganga  inn á við, ferð um herbergi og víddir bæði gleði og sorgar,  ótta og öryggis, skugga og ljóss.
Ganga til lífs í vorinu sem kemur og laufið fær litinn sinn og fuglarnir frið til að sinna framtíðinni og syngja lífinu lof.
Því þú Guð átt orð, huggun og nýtt líf
Lífið sem færir hlýju í orðin okkar, jákvæðni í hugsun okkar, öryggi og merkingu í daglegt líf.

 

Bæn á Pálmasunnudegi:
Guð ljóssins og lífsins
Vek með okkur samstöðu, skilning, þolinmæði og þrautsegju.
Við biðjum fyrir þeim sem hafa veikst sökum covid faraldursins.   Við biðjum fyrir þeim sem standa vaktina til að hjúkra og hjálpa, hjúkrunarfólki, læknum og þeim sem stunda rannsóknir í okkar þágu, sinna almannvörnum, Við biðjum fyrir þeim ótalmörgum sem gera okkur lífið bærilegra og betra á þessum dögum .  Hugga þau sem eiga um sárt að binda.  Styrk þau sem eru óttaslegin og kvíðin.  Amen

Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

Áttunda hugvekja út frá ræðum Jesú – barátta góðs og ills

Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi - lau, 04/04/2020 - 15:18

Áttunda hugvekja út frá ræðu Jesú í Matteusarguðspjalli eftir sr. Guðmund Guðmundsson, héraðsprests á Akureyri. Barátta góðs og ills samkvæmt dæmisögu Jesú í Mt. 13.24-30. Íris Rós syngur fyrsta og síðasta vers úr sálminum Orð Guðs eftir Guðmund við lag móður sinnar Ragnhildar Ásgeirsdóttur.

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Kirkjur í Þjóðkirkjunni