Vefsíður um kirkju og trúmál

Jólabasarinn á laugardag

Kristniboðssambandið - mánud., 12/11/2018 - 15:26

Hinn árlegi jólabasar Kristniboðsfélags kvenna verður haldinn laugardaginn 17. nóvember frá kl. 14 í Kristniboðssalnum, Miðbæ, Háaleitisbraut 58-60, 3. hæð.

Hægt verður að kaupa kökur, handavinnu, ýmsa muni o.fl.

Happdrættið verður á sínum stað. Einnig verður hægt að fá sér heitt súkkulaði, kaffi og nýbakaðar vöfflur.

Þeir sem vilja gefa vörur eða kökur á jólabasarinn geta komið með það eftir hádegi á föstudeginum.

Allur ágóði rennur til starfs  Kristniboðssambandsins.

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 12/11/2018 - 13:14

Lofgjörðrasamkoma verður miðvikudaginn 14. nóvember kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Yfirskriftin er: Áður fjarlæg,nú nálæg (Ef. 2.11-16).

Ræðumaður er Helga Vilborg Sigurjónsdóttir.

Kaffi eftir samkomu.

Allir hjartanlega velkomnir.

Kristniboðsdagurinn á sunnudag

Kristniboðssambandið - Þri, 06/11/2018 - 16:07

Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar er á sunnudag. Er þess þá sérstaklega minnst og horft til kristniboðsstarfs Íslendinga nú og á liðnum árum. Útvarpsguðsþjónusta  dagsins verður frá Hjallakirkju þar sem Skúli Svavarsson kristniboði prédikar en séra Sunna Dóra Möller þjónar fyrir altari. Biskup Íslands hvetur presta og starfsfólk safnaða um land allt til að minnast kristniboðsins og  taka samskot til starfs Kristniboðssambandsins. Starfsmenn og sjálfboðaliðar á vegum Sambandsins taka víða þátt í guðsþjónustum. Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Sambandsins prédikar í guðsþjónustu í  Akureyrarkirkju kl. 11 og Ólafsfjarðarkirkju kl. 14.

Árleg kaffisala Kristniboðsfélags karla í Reykjavík verður í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60, kl. 14-17. Kl. 17 verður samkoma á sama stað þar sem Guðlaugur Gunnarsson kristniboði flytur hugvekju og sagt verður frá starfinu.

Tugir íslenskra kristniboða hafa undanfarna áratugi starfað í Eþíópíu, Japan og Keníu og sinnt þar boðunar- og fræðslustarfi og tekið þátt í þróunarverkefnum með samstarfskirkjum Kristniboðssambandsins. Ein fjölskylda, Katsuko og Leifur Sigurðsson ásamt þremur börnum,  er að störfum á vegum Sambandsins í Vestur-Japan en stutt er við starfið í öðrum löndum með ýmsum hætti og heimsóknum. Kristniboðssambandið er einnig samstarfsaðili Sat7, sjónvarpsstarfs í Mið-Austurlöndum og Norður-Afríku sem margar kirkjur á svæðinu sameinast um. Sent er út á arabísku, farsi og tyrknesku fyrir utan sérstaka barnarás og aðra skólarás fyrir börn í flóttamannabúðum og konur sem ekki hafa hlotið menntun.

Á sviði þróunarsamvinnu og kærleiksþjónustu hafa kristniboðar sinnt heilbrigðis- og menntamálum, byggt upp heilsugæslustöðvar og spítala og starfað þar og eins sinnt uppbyggingu skóla og menntakerfisins á þeim stöðum sem þeir hafa starfað. Þannig hefur samstarfsaðili Sambandsins, Lúterska kirkjan í Keníu, tekið þátt í uppbyggingu og stuðningi við 100 grunnskóla og 20 framhaldsskóa í Pókothéraði.

Margvísleg verkefni eru styrkt fjárhagslega af Kristniboðssambandinu. Má þar nefna boðunarverkefni, skólabyggingar, námsstyrki, biblíuþýðingar, lestrarverkefni og Af götu í skóla í Eþíópíu. Fyrir rúmum þremur árum hóf Kristniboðssambandið að bjóða upp á ókeypis íslenskukennslu fyrir nýbúa og útlendinga búsetta hér á landi. Hefur sú aðstoð mælst mjög vel fyrir.

Meðal annarra fjáröflunarverkefna Kristniboðssambandsins má nefna sölu á notuðum frímerkjum og mynt, jólabasar, verkefnið Látið skóna ganga aftur og nytjamarkaðinn, Basarinn  í Austurveri, Háaleitisbraut 68. Þessar vikurnar safnar Sambandið einnig aðgöngumiðum Spalar í Hvalfjarðargöngin sem nýtast við uppbyggingu skóla í Keníu. Kristniboðsalmanakið fyrir árið 2019 er komið út og verður því víða dreift í guðsþjónustum dagsins.

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 05/11/2018 - 14:47

Bæna- og vitnisburðarsamkoma verður miðvikudaginn 7. nóvember kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Kaffi og meðlæti eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Við skuldum börnunum okkar aðgerðir

Biskup Íslands - Fim, 01/11/2018 - 09:38

Með vilja, trú og von í verki er hægt að búa börnunum okkar sem nú vaxa upp lífvænlegt umhverfi og hamla gegn loftslagsbreytingum sem ógna vistkerfum jarðarinnar. Sem bæði móðir og amma hefur þessi ábyrgð okkar sem eldri erum legið mér þungt á hjarta. Til þess að hamla gegn þessum breytingum  þurfum við að standa með lífinu í öllum myndum þess. Göngum með gleði til þeirra breytinga á lífs- og framleiðsluháttum sem eru nauðsynlegar til þess að tryggja frið og sátt við móður jörð! Látum Gullnu regluna, grundvöll kristinnar siðfræði, einnig ná til jarðarinnar og komandi kynslóða, sem eiga kröfu á að við hlúum að lífinu!

Framangreint er kjarni þess sem fram kom á norrænum fundi lúterskra höfuðbiskupa sem haldinn var í Safnaðarheimili Dómkirkjunnar laugardaginn 20. október sl. Ég boðaði til fundarins í því skyni að ræða viðbrögð og viðnám gegn yfirvofandi loftslagsvá á heimsvísu og á Norðurslóðum sérstaklega. Auk mín sátu fundinn Antje Jackelén, erkibiskup í Uppsölum og í Svíþjóð, Helga Haugland Byfuglien, biskup presis, höfuðbiskup í Noregi, Tapio Luoma, erkibiskup í Turku og Finnlandi og Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup. Vígslubiskuparnir á Hólum og í Skálholti, Solveig Lára Guðmundsdóttir og Kristján Björnsson, voru einnig þátttakendur á fundinum.

Umhverfismál snúast líka um siðferði

Biskuparnir ræddu þá staðreynd, sem ekki verður umflúin, að hlýnun jarðar og loftslagsbreytingar af hennar völdum setja vistkerfi jarðar úr skorðum. Þar með er þeim árangri sem þrátt fyrir allt hefur náðst í framkvæmd Þúsaldarmarkmiða Sameinuðu þjóðanna stefnt í voða. Framundan er afturför leggi mannkynið ekki á sig taumhald og snúi frá ósjálfbærri orkunýtingu og neysluháttum. Fram kom á fundinum að niðurstaða t.d. sænsku kirkjunnar væri sú að „grænir“ framleiðslu- og lífshættir þyrftu ekki að bitna á hagsæld og gætu þar á ofan bætt lífsgæði og vellíðan.

Biskuparnir voru sammála um að lúterskar kirkjur á Norðurlöndum skyldu gera varðstöðu um lífið á jörðinni í öllum sínum myndum að verkefni sínu á næstu árum. Það er af þeirri ástæðu að hlýnun umfram 1.5 – 2 gráður mun hafa skaðleg áhrif á lífsskilyrði manna, gróðurs og dýra þannig að öll önnur málefni bera óbætanlegan skaða af. Rísa þarf upp gegn lögmáli ósjálfbærrar samfélagsþróunar með nýju fagnaðarerindi þar sem lífið er sett í öndvegi og kostnaðurinn við spillingu lífríkisins er ódulinn.

Rétt er að minna hér sérstaklega á ákall frá þingi umhverfisnets evrópskra kirkna, ECEN sem haldið var í Katowice í Póllandi í byrjun þessa mánaðar: „Vísindin segja okkur hvað er að gerast; trúin segir okkur af hverju við eigum að bregðast við. Við verðum að grípa til aðgerða núna ef við viljum að lífið á jörðinni eigi sér vonarríka framtíð.“

Margt smátt gerir eitt stórt

Í nýrri vísindaskýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna er fullyrt að ráðrúm til þeirrar umbreytingar sem Parísarsáttmálinn frá 2015 kallaði á sé aðeins rúmur áratugur. Hvert og eitt okkar getur tekið smáu og táknrænu skrefin, kolefnisjafnað ferðalög sín, minnkað sóun, flokkað úrgang og dregið úr notkun umbúða og plasts. Smáu skrefin eru mikilvæg því þau gefa vísbendingu um að við séum að vakna til alvörunnar og til stuðnings við umbreytinguna. Það eru hinsvegar stjórnvöld, alþjóðasamtök, hagsmunaaðilar og fyrirtæki sem verða að taka stóru skrefin og setja markmið og mörk sem duga.

Kirkjuþing hefur samþykkt umhverfisstefnu og aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára. Þar er m.a. ákveðið að frumkvæði æskulýðshreyfingar þjóðkirkjunnar að hætta allri notkun einnota umbúða í söfnuðum fyrir lok yfirstandandi árs. Endurheimt votlendis í Skálholti verður fylgt eftir með sambærilegum aðgerðum, ásamt skógrækt og landgræðslu, á prestsetursjörðum. Gefin hefur verið út handbók um umhverfisstarf í söfnuðum og undirbúinn farvegur fyrir umhverfisvottun á starfi stærri safnaða. Þau skref sem tekin hafa verið undir merkjum „Grænnar kirkju“ eru lítil og munu ekki skipta sköpum í hinu stærra samhengi. En þau sýna að þjóðkirkjan lætur sig náttúruvernd varða og leitast við að sýna í orði og verki að hún tekur loftlagsmálin alvarlega.

Einkennisorð þjóðkirkjunnar eru: Biðjandi, boðandi, þjónandi. Við biðjum fyrir því að allir sem á Íslandi búa vakni til vitundar um nauðsyn þess að umbreyta lífsháttum þannig að markmið í loftslagsmálum og náttúruvernd náist. Við boðum lífsmáta sem dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda, sóun orku og matar og notkun skaðlegra umbúða. Við þjónum náttúrunni, meðal annars með endurheimt votlendis, skógrækt, landgræðslu og vistvænni starfsemi í söfnuðum kirkjunnar um land allt. Við skuldum börnunum okkar lífvænlega framtíð.

Greinin var fyrst birt í Morgunblaðinu laugardaginn 27. október 2018

Leshópur um eitt af höfuðritum Lúthers: Um frelsi kristins manns

kirkjan.is - Miðv.d., 31/10/2018 - 16:59

Siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther.

Dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur emeritus, mun leiða leshóp í Seltjarnarneskirkju á mánudagskvöldum í nóvember, það er  5., 12., 19. og 26. nóvember kl. 20-21.30 í Seltjarnarneskirkju.

Dr. Gunnar mun taka fyrir eitt af höfuðritum dr. Marteins Lúthers: Um frelsi kristins manns.

Það kostar ekkert að taka þátt í leshópnum. Veitingar verða í boði Seltjarnarnessóknar.

Þeir sem hafa áhuga þurfa að skrá sig í síma 899-6979.

Fermingarbörn safna fyrir vatni og valdeflingu

kirkjan.is - Miðv.d., 31/10/2018 - 16:45

Um tvö þúsund börn í fermingarfræðslu þjóðkirkjunnar um land allt ganga þessa dagana í hús í hverfinu sínu með bauk Hjálparstarfs kirkjunnar og safna fyrir verkefnum stofnunarinnar í Úganda og Eþíópíu.

Í október komu til landsins ungmenni frá verkefnasvæðum Hjálparstarfs kirkjunnar í Úganda og veittu fleiri en fjörutíu fræðsluerindi um verkefnin í fermingarfræðslu og í félagsfræðiáföngum í framhaldsskólum.

Fjáröflun með aðstoð barna í fermingarfræðslu nú er sú tuttugasta í röðinni en í fyrra lögðu fermingarbörnin sitt af mörkum með því að safna yfir átta milljónum króna.

Hjálparstarf kirkjunnar biður landsmenn að taka vel á móti börnunum þegar þau banka upp á með bauk í hönd. Börnin ganga tvö til þrjú saman og baukurinn sem þau eru með er merktur Hjálparstarfi kirkjunnar, númeraður og með innsigli.

Nánari upplýsingar um verkefnið veitir Kristín Ólafsdóttir, fræðslufulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, kristin@help.is, sími 5284406.

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 29/10/2018 - 12:39

Samkoma verður miðvikudaginn 31. október kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Yfirskriftin er: Auðlegð náðar sem ekki verður mæld (Ef. 2.7-10).

Ræðumaður er Guðlaugur Gunnarsson.

Kaffi eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Bygging fyrsta áfanga nýs framhaldsskóla í Pókothéraði að hefjast

Kristniboðssambandið - Fim, 25/10/2018 - 12:20

Í liðnum mánuði skrifuðu fulltrúar SÍK og Utanríkisráðuneytisins, þróunarsamvinnusviðs, undir samning um verkefnið „Kamununo stúlknaframhaldsskólinn“. Er það nýr heimavistarskóli fyrir stúlkur í fjalllendi Kasei í Norður-Pókot. Til grundvallar lá umsókn SÍK um framlag til verkefnisins, sem ráðuneytið styrkir með 10.388.000 krónum, SÍK greiðir rúma milljón og heimamenn leggja fram rúmar 3 milljónir í formi vinnu, efnisöflunar og lóðar undir skólann.

Skólinn tók til starfa í byrjun þessa árs, með samþykki yfirvalda, án þess þó að nokkur aðstæða væri fyrir hendi. Kennt er í helmingi kirkjkubyggingar í nágrenninu – og sofið í hinum helmingnum. Nú verður á næstu vikum ráðist í undirbúning og framkvæmdir en til stendur að byggja 64 manna heimavist, salernisaðstöðu fyrir nemendur og aðskilda fyrir starfmenn skólans, tvær kennslustofur og skrifstofubyggingu fyrir skólastjórnendur og kennara.

Aðgengi stúlkna á svæðinu að framhaldsskólanámi hefur verið takmarkaður en með þessum fyrsta áfanga er tryggð góð aðstaða fyrir kennara semog nemendur, sem er forsenda góðs gengis í námi. Í umsögn matsnefndar kom fram að verkefnið fellur mjög vel að markmiðum ráðuneytisins og stefnu Íslendinga í þróunarsamvinnu.

Þjóðkirkjan: Framtíðarsýn óskast!

kirkjan.is - Miðv.d., 24/10/2018 - 14:02

Opinn málfundur í Háteigskirkju fimmtudaginn 1. nóvember kl. 15-17

Á síðustu áratugum hafa orðið stórstígar breytingar á andlegu/trúarlegu landslagi í Evrópu. Hefðbundnar þjóðkirkjur hafa nánast alls staðar tapað fyrri stöðu en þeim fjölgað sem kjósa að standa utan trúfélaga. Um leið hefur það víða gerst að hið hefðbundna fyrirkomulag á samskiptum ríkis og kirkju sem rekja má aftur í aldir hefur víða vikið fyrir þeim sjónarmiðum að ríkisvaldið eigi að vera hlutlaust með tilliti til lífsskoðana. Um leið hafa vaknað spurningar um hvernig eigi að finna stað hinum sögulega og menningarlega arfi sem sambúð ríkis og kirkju hefur getið af sér allt frá tímum Konstantínusar mikla á 4. öld.

Sama þróun hefur verið uppi á teningnum hér á landi, a.m.k. síðustu 20 árin. Það virðist vera nokkuð ljóst að kirkjuleg starfsemi á Íslandi á eftir að breytast mikið á þessari öld sem enn er ung. Erfið mál sem upp hafa komið í starfi kirkjunnar hér á landi hafa sennilega flýtt fyrir þessari þróun.

Við sem stöndum að þessum umræðufundi teljum mikilvægt að grundvallarumræða um stöðu þjóðkirkjunnar hefjist með skipulegum hætti. Þar má nefna hvernig kirkjan hyggst starfa í þessu gjörbreytta menningarlandslagi, um samskipti ríkis og kirkju og um fjármál kirkjunnar. Brýnt er að leysa í eitt skipti fyrir öll fjármálaleg samskipti við ríkið en umræða um fjármál kirkjunnar hefur verið mörgum ásteytingarsteinn.

Framsögu hafa Anna Guðrún Sigurvinsdóttir, formaður  sóknarnefndar Grafarvogskirkju og sr. Halldór Reynisson og eru þessar spurningar lagðar til grundvallar:

 • Hvar erum við stödd?
  • Almenn þróun á Vesturlöndum
  • Þróunin hér heima
  • Hvert viljum við stefna?
   • Kirkjusýn
   • Kirkjulegt starf – hvert þarf það að þróast?
   • Skipulag kirkjunnar – hvernig þarf það að vera?

 

Áhugafólk um framtíð þjóðkirkjunnar

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - Þri, 23/10/2018 - 08:38

Samkoma verður miðvikudaginn 24. október kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Yfirskriftin er: Áður dauð en nú lifandi (Ef. 2.7-10).

Ræðumaður Jón Ómar Gunnarsson.

Sagðar verða fréttir af íslenskukennslu Kristniboðssambandsins.

Kaffi eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Framtíð í von

kirkjan.is - Fim, 18/10/2018 - 15:27

Ákall frá umhverfisneti evrópskra kirkna, ECEN  vegna loftslagsbreytinga og svartrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna

12. þing ECEN var haldið 6.-10. október s.l. í Katowice í Póllandi og var yfirskrift þingsins „Leiðin að efnahagslegu og umhverfislegu réttlæti“. Þátttakendur voru 85 frá 22 löndum í Evrópu og utan. Yfirskrift þingsins var úr spádómsbók Jeremía: „Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð“.

Við komum saman til að gleðjast í sköpunarverki Guðs og til að minna okkur á að því er alls staðar ógnað, – að kirkjur í Evrópu og annars staðar eru skyldugar að vernda sköpunina; í helgihaldi, með aðgerðum og með því að taka málstað umhverfisins.

Við heyrðum af viðleitni kirkna og veraldlegra yfirvalda í Efri Slesíu til að minnka loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda og að umbreyta hagkerfi héraðsins úr því að reiða sig á kol í sjálfbærara hagkerfi.

Tengslin milli efnahags og umhverfismála voru í brennidepli á þinginu; leiðir voru kannaðar hvernig skipta mætti auðlindum með réttlátari hætti um leið og gætt væri að efnahagslegu og umhverfislegu réttlæti.

Þá var þess minnst að 20 ár eru liðin frá stofnun ECEN. Í fyrsta sinn sjáum við nú í Evrópu hvernig hreyfing grænna kirkna, umhverfis-kirkna og umhverfissafnaða vex ásmegin. Trúarsamfélög bera út þennan boðskap í helgihaldi, í aðgerðum og málsvörn: Ábyrgð okkar og skylda er að ala önn fyrir sköpunarverkinu. Við fögnum þessum árangri og hvetjum allar kirkjur að taka þátt í grænni hreyfingu kirknanna.

Hver er vandinn?

Á tuttugu árum hefur orðið gríðarleg breyting á því hvernig við nýtum náttúruauðlindir. Við höfum orðið vitni að því að líffræðileg fjölbreytni hefur skaðast og hruni vistkerfa um heim allan með þeim afleiðingum að vísindamenn tala um nýja fjöldaútrýmingu tegunda. Eyðing skóga stuðlar að loftslagsbreytingum og mannkynið hefur dælt gróðurhúsalofttegundum út í andrúmsloftið í hættulegu magni, sérstaklega með því að brenna jarðefnaeldsneyti. Afleiðingin er loftslagsbreytingar en þær eru hafnar yfir allan vafa.

Á meðan við funduðum í Katowice var birt skýrsla frá svokölluðum Intergovernmental Panel Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Þar var sett fram hvað þyrfti til að takmarka hækkun hitastigs við 1,5 gráðu og hvað mundi gerast ef því markmiði væri ekki náð. Það takmark krefst hraðra og róttækra breytinga sem eiga sér ekki fordæmi. Sú róttæka breyting þarf að byrja í dag svo forðast megi hættulegar loftslagsbreytingar og til að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Ef við bregðumst ekki við með raunverulegum aðgerðum til að draga úr losun skaðlegra lofttegunda fer hitastigið á jörðinni ekki aðeins yfir 1,5 gráðu heldur einnig 2,0 gráður. Þetta mun gerast ef þeir aðilar sem undirrituðu Parísarsáttmálann bregðast ekki betur en hingað til.

Við höfum verið upplýst og við höfum enga afsökun! Þá höfum við fólk trúarinnar siðferðislega skyldu til að sinna þeim berskjölduðu fyrst í köllun okkar að lækna jörðina. Yfirskrift ECEN þingsins er „að veita yður vonarríka framtíð“. Það er ekki valkostur að leiða hjá sér niðurstöður vísinda né að láta óttann ná töku á sér.

Trúin boðar okkur von; von sem er hvorki einfeldningsleg né byggir á óskhyggju.

Af hverju skyldum við gera þetta?

Við viljum „vonarríka framtíð“. Vísindin segja okkur hvað er að gerast; trúin segir okkur af hverju við eigum að bregðast við. Við verðum að grípa til aðgerða núna ef við viljum að lífið á jörðinni eigi sér vonarríka framtíð.

Í 6. Kafla Jóhannesarguðspjalls, v. 1-11 heyrum við um mettum fimm þúsundanna og um mikilvægi þess að deila gæðum. Það er varnarlaust barn sem deilir brauði og fiski. Það er barn sem deilir með öðrum og er innblástur til eftirfylgdar. Að deila er leiðin að réttlæti umhverfisins, ekki græðgi.

Við verðum, jafnt einstaklingar sem samfélög að minnka fótsporið í umhverfinu, sérstaklega kolefnisfótsporið.  Það auðlindahagkerfi og lífsstíll sem við lifum er ekki sjálfbær. Hagkerfi framleiðslu og neyslu þarf að breytast mjög hratt í átt að hagkerfi með lítilli losun koltvísýrings og réttlátari skiptingu auðlinda.

Við áköllum ríkisstjórnir og þau sem taka pólitískar ákvarðanir:

 • Að taka ástandið alvarlega og breyta í samræmi: Að skuldbinda sig til að minnka losun gróðurhúsalofttegunda til samræmis við skýrslu Sameinuðu þjóðanna.
 • Vinna að sjálfbærri framtíð og ferlum sem styðja þau sem eru veikust fyrir. Engin afsökun er hér tekin gild.
 • Í ljósi væntanlegrar umhverfisráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP24) í Katowice þá köllum við eftir sjáanlegum og áþreifanlegum aðgerðum af allra hálfu.

Við áköllum kirkjur og trúarsamfélög:

 • Að hefja samræður á breiðum grunni milli kirkna og samfélagsins i heild um breytingar til að ná fram sjálfbærari og jafnari lífsstíl; að virða sköpunarverkið, – að vinna að réttlátri umbreytingu í átt að hagkerfi lítils koltvísýrings og að tryggja meira réttlæti fyrir kynslóðir framtíðarinnar.
 • Að styðja, örva og efla umhverfisverkefni í trúarsamfélögum og kirkjum í því augnamiði að bregðast við umhverfisvá.
 • Að segja sögu vonar sem horfist í augu þá alvöru sem aðstæðurnar kalla eftir en veitir einnig sýn á réttlátari og sjálfbærari framtíð.
 • Að þróa guðfræði og helgihald sem lætur sér annt um sköpunarverkið; m.a. Tímabil sköpunarverksins og veitir því inn í kirkjuárið í opnum samkirkjulegum anda.

Þörf á róttækri hugarfarsbreytingu

kirkjan.is - Fim, 18/10/2018 - 15:24

Yfirlýsing frá  Lúterska heimssambandinu vegna svartrar skýrslu Sameinuðu þjóðanna um loftslagbreytingar

Lúterska heimssambandið hefur sent frá sér ályktun þar sem segir að nýleg skýrsla nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change – IPCC) valdi áhyggjum. Í ályktuninni er lögð áhersla á mikilvægi þess að hraða aðgerðum til að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hækkun hitastigs Jarðar við 1,5 gráður.

Í ályktuninni segir að róttæk hugarfars- og samfélagsbreyting sé nauðsynleg til að forðast afleiðingar loftslagsbreytinga og að vernda þau sem eru veikust fyrir.

Í yfirlýsingunni sem kemur frá framkvæmdastjóra Lúterska heimssambandsins Dr. Martin Junge segir að sambandið „hafi skuldbundið sig til að herða á eigin aðgerðum gegn loftslagsbreytingum. Það hafi fengið sterk skilaboð frá 12. þingi Lúterska heimssambandsins um að vera hluti lausnarinnar þegar mannkynið leitar leiða út úr þessari kreppu.“

Lúterska heimssambandið hvetur aðildarkirkjur sínar til að:

 • Biðja fyrir breyttu og róttæku hugarfari sem hefur sjálfbæran lífsstíl að leiðarsljósi.
 • Efla meðvitund og vitneskju um loftslagsbreytingar og hvetja meðlimi sína til athafna.
 • Innleiða leiðir með létt kolefnisfótspor í gegnum skapandi og nýjungagjarnar athafnir.
 • Hvetja ríkisstjórnir landa sinna til að horfast í augu við loftslagsbreytingar og bregðast við með afgerandi hætti.

Ennfremur hvetur Lúterska heimssambandið samfélag þjóða til að:

 • Bretta upp ermar til að ná sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna hratt og örugglega og verja mannréttindi.
 • Tryggja að fundur Sameinuðu þjóðanna í Katowice í desember (COP24) skili róttækum leiðarvísi til að uppfylla Parísarsamkomulagið.
 • Leggja af mörkum það sem þarf til að draga úr loftslagsbreytingum og bregðast við óæskilegum afleiðingum þeirra.

Málþing um landnytjar og búskap í Skálholti

kirkjan.is - Fim, 18/10/2018 - 12:16

Opið málþing um landnytjar og framtíð búskapar í Skálholti verður haldið í Skálholtsskóla þriðjudaginn 23. október og hefst það kl. 20.

Þrír stuttir fyrirlestrar verða fluttir um skógrækt til kolefnisjöfnunar og nytja, um aðstæður til búskapar og skepnuhalds og um útivist og gönguleiðir. Einar Gunnarsson, skógfræðingur, fjallar um skógræktarverkefni Kolviðar, Katrín Andrésdóttir, fv. héraðsdýralæknir, talar um aðstæður til búskapar og Finnur Kristinsson, landslagsakítekt ræðir um gönguleiðir og útivist á jörðinni.

Að málþinginu standa stjórn Skálholtsfélagsins hins nýja, stjórn Skálholts og vígslubiskupinn í Skálholti. Eftir að erindin hafa verið flutt verður tími til fyrirspurna og umræðu. Fundar- og umræðustjórar verða Drífa Hjartardóttir, formaður stjórnar Skálholts, og Erlendur Hjaltason, formaður Skálholtsfélagsins hins nýja. Hægt verður að kaupa máltíð í Skálholtsskóla fyrir fundinn á vægu verði en á fundinum verða kaffiveitingar í boði vígslubiskups, sr. Kristjáns Björnssonar. Málþingið er opið og eru allir velkomnir.

Biskupar norðurlandanna funda um framtíð norðurskautsins

kirkjan.is - Miðv.d., 17/10/2018 - 17:54

Næsta sunnudag 21 október mun Agnes M. Sigurðardótir, biskup Íslands, ásamt fjórum öðrum biskupum frá Norðurlöndunum, taka þátt í pallborðsumræðu á ráðstefnunni Arctic Circle, sem fram fer í Hörpu, undir yfirskriftinni: Umbreyting lífshátta. Umræðunni verður stjórnað af Ögmundi Jónassyni, fyrrum ráðherra og ásamt Agnesi verða viðmælendur þau dr. Antje Jackelén, erkibiskup í Uppsölum í Svíþjóð,  Helga Haugland Byfuglien, höfuðbiskup norsku kirkjunnar, dr. Tapio Luoma, erkibiskup Turku og Finnlands, og sr. Jógvan Friðriksson Færeyjabiskup.

Fyrr um daginn munu þau svo prédika í kirkjum fimm sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Hvernig tengist kristni umhverfisvernd?

Eins og ný skýrsla Loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna sýnir svart á hvítu þá er alvarleiki loftslagsbreytinga slíkur að enginn getur látið sitt eftir liggja. Í síðasta mánuði kynnti  þjóðkirkjan aðgerðaráætlun sína í umhverfismálum undir yfirskriftinni Græn kirkja. Agnes biskup segir að það sé mikilvægt að kirkjan nýti rödd sína og áhrif til að setja umhverfismál á oddinn.

„Umhverfið er hluti af sköpun Guðs og menn bera ábyrgð gagnvart sköpunarverkinu.  Við eigum að nýta náttúruna en ekki valta yfir hana,” segir Agnes. „Við höfum því miður ofgert Guðs góðu sköpun þannig að nú er svo komið að við höfum aðeins nokkur ár til að bregðast við loftslagsbreytingunum sem því fylgir.”

Hún segir að kirkjan eigi að vera málsvari alls sem lifir og sérstaklega þeirra sem hafa orðið undir í lífsbaráttunni eða þeirra sem þjást vegna ákvarðana sem skaða lífsmöguleikana á einn eða annan hátt. Í ljósi þess hefur hún, ásamt fjölmörgum biskupum Evrópu skrifað undir yfirlýsingu sem hvetur stjórnvöld til að leggja bann við notkun svartolíu á Norðurslóðum.

„Ég lít svo á að biskupar eigi að viðhafa siðferðilega nálgun á þessi mál því þau snúast ekki bara um vísindalega nálgun. Við mannfólkið höfum brotið siðferðilega á móður jörð í umgengni við hana,” segir Agnes. ”Stjórnmálamenn, fræðimenn, kirkjur heimsins og almenningur verður að vinna saman og við þurfum að herða okkur. Nýjasta skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar telur að við höfum aðeins 12 ár til að bregðast við vandanum.”

Fermingarbörnum líður vel í guðsþjónustunni

kirkjan.is - Miðv.d., 17/10/2018 - 16:16

Síðastliðið vor var gerð könnun meðal foreldra fermingarbarna í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmis og þau spurð um ýmsa þætti er lúta að fermingarfræðslunni, helgihaldi, þátttöku í æskulýðsstarfi og trúarlegu uppeldi. Markmiðið var að leggja mat á árangurinn og hvað er vel gert eða má betur fara.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru fermingarstarfið nýtur trausts meðal foreldranna og þeir eru ánægðir með fermingarstarfið, þ.e. umgjörð starfsins, upplýsingaflæði, námsefnið og fermingarfræðara. Það á einnig við um viðburði í starfinu s.s. fermingarbarnaferðalagið í Vatnaskóg, söfnun fyrir vatnsbrunnum í hjálparstarfi og sameiginlega fermingarbarnahátíð sem voru haldnar í fyrsta skiptið á síðasta ári í prófastsdæminu. Að mati foreldra jókst áhugi barnanna á trúnni og þau voru áhugasöm um fræðsluna.

Þátttaka fermingarbarna í helgihaldinu er stór þáttur í fermingarstarfinu. Mikill meirihluti foreldra (72%) er sammála því að barnið sitt er ánægt með að sækja messur og helgihald. Einnig eru foreldrar jákvæð í garð helgihaldsins sem kemur fram í því að þeim líður vel í helgihaldinu, finnst prédikanirnar vera góðar og auðskiljanlegar og nær öllum finnst fermingarmessan vera falleg og hátíðleg stund. Þessi jákvæða niðurstaða kemur e.t.v. á óvart í ljós umræðunnar, þar sem helgihaldið er stundum gagnrýnt fyrir að vera þunglamalegt og gamaldags.

Niðurstöðurnar gefa til kynna að fermingabörnin eru misjafnlega undirbúin undir fermingarstarfið. Flest hafa sótt sunnudagaskóla og stór hópur hefur sótt kristilegar sumarbúðir. Heima fyrir hafa flestir foreldrar kennt börnum sínum bænir og rætt trúmálin og það sem fram fór í fræðslunni. Ákveðin hópur hlýtur hins vegar lítið trúarlegt uppeldi og takmörkuð umræða um trúmál er á heimilinu.

Mæður kenna frekar börnum sínum bænir og Biblíusögur og ræða við þau um trúmál en feður. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir bæði íslenskar og erlendar. Þær mæta einnig oftar með börnum sínum til helgihaldsins og eru þær jákvæðari í garð fermingarstarfsins og helgihaldsins. Í opnum svörum kom fram þakklæti og hrós til starfsfólksins fyrir vandað og gott starf. Einnig að starfið hefði farið fram úr væntingum og haft góð áhrif á alla fjölskylduna. Ábendingar komu fram um að gera starfið fjölbreyttara og hafa almennari fræðslu byggða á siðfræði og lífsleikni.

Ánægja foreldra og það traust sem þeir bera til fermingarstarfsins staðfestir að starfsfólk safnaðanna leggur áherslu á gott starf og fagleg vinnubrögð. Fermingarstarfið er lykilþáttur í starfi kirkjunnar og mikilvægt að vinna með markvissum hætti að hlúa vel að því, efla og styrkja.

Könnunin var vefkönnun og spurningarlistinn var sendur út með tölvupósti í gegnum presta safnaðanna. Samtals fermdust 765 börn í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmis og voru 1.185 foreldra sem feng bréf um könnunina. Alls svöruðu 506, sem er 43% svörun, þar af voru mæður 77% og ferðu 23% og jafn hlutfall var á milli foreldra stúlkna og pilta.

Könnunin er hluti af sístæðu verkefni safnaðanna í prófastsdæminu um að efla samstarfið með fjölskyldum fermingarbarnanna og móta en frekar farvegi til farsældar.

Skýrsla með niðurstöðum könnunarinnar má finna hér: Könnun meðal foreldra fermingarbarna í söfnuðum Kjalarnessprófastsdæmi, 2018.

Hver á að vera málsvari móður jarðar?

kirkjan.is - mánud., 15/10/2018 - 15:12

Fyrirlestur Dr. Andrésar Arnalds í Hallgrímskirkju á sunnudag

Dr. Andrés Arnalds, verkefnisstjóri og fyrrum fagmálastjóri Landgræðslunnar, flytur fyrirlestur í Hallgrímskirkju á sunnudaginn kemur, 21. október, kl. 09:30. Fyrirlesturinn ber heitið: „Hver á að vera málsvari móður jarðar? – Lífsgildi, ábyrgð og umhverfisvernd.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, flytur ávarp.

Fyrirlesturinn er haldinn í tilefni af norrænum biskupafundi um loftslagsvá og viðbrögð við henni, sem biskup Íslands hefur boðað til, og haldinn er um helgina.

Andrés Arnalds er doktor í vistfræði og beitarstjórnun og hefur unnið að  landgræðslu og gróðurvernd um áratuga skeið. Hann hefur lagt áherslu á leiðir til að auka hlutverk þeirra sem nýta landið í verndun þess og jafnframt mikilvægi slíks starfs til að efla landlæsi, siðferði, færni og ábyrgð í umhverfisvernd. Andrés hefur lengi verið virkur í alþjóðlegu landverndarstarfi og er í fagráði Landgræðsluskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna.

Í erindi sínu fjallar Andrés um þá miklu ógn sem steðjar að vistkerfum jarðar og sameiginlegt hlutverk samtaka á sviði lífsgilda, trúar og landverndar í að stuðla að umhverfislega ábyrgri hegðun.

 

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 15/10/2018 - 08:03

Samkoma verður miðvikudaginn 17. október kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Yfirskriftin er: Kraftur Krists í okkur (Ef. 1.19-23).

Ræðumaður er Skúli Svavarsson.

Kaffi eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Málþing í kjölfar útgáfu á úrvali rita Lúthers á íslensku

kirkjan.is - fös, 12/10/2018 - 14:07

Lúther 501

Málþing í kjölfar útgáfu á úrvali rita Lúthers á íslensku í tilefni af siðbótarafmælisári.

Í tilefni af siðbótarafmælinu 2017 var ráðist í útgáfu á úrvali rita Marteins Lúthers á íslensku og voru gefin út tvö bindi með samtals 26 ritum. Af þessu tilefni er boðið er til málþings miðvikudaginn 31. október nk. kl 15:00-18:00 í safnaðarheimili Neskirkju.

Erindi flytja:

Dr. Gunnar Kristjánsson: „Lúther í pólitík. Siðbótarmaðurinn og veraldleg yfirvöld“.

Dr. Arnfríður Guðmundsdóttir: „Reynslan sem gerði Lúther að „góðum“ guðfræðingi“.

Dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson: „Samband orðs og trúar í guðfræði Lúthers“.

Dr. Hjalti Hugason: „Að loknu Lúthers-ári – Nokkrar vangaveltur“.

Málþingsstjóri er sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir.

Boðið verður upp á veitingar í lok málþingsins.

Allir velkomnir.

Biskup vígir tvo presta á sunnudaginn

kirkjan.is - Fim, 11/10/2018 - 17:04

Á sunnudaginn vígir biskup Íslands, Agnes M. Sigurðardóttir tvo guðfræðinga til prests í Dómkirkjunni.

Vígsluþegar eru Henning Emil Magnússon sem skipaður hefur verið prestur í Garðaprestakalli í Kjalarnesprófastsdæmi og Hjalti Jón Sverrisson sem skipaður hefur verið prestur í Laugarnesprestakalli í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.

Vígsluvottar eru sr. Elínborg Sturludóttir, sr. Eva Björk Valdimarsdóttir, sr. Guðmundur Karl Brynjarsson, sr. Jóna Hrönn Bolladóttir sem jafnfram lýsir vígslu og sr. Vigfús Bjarni Albertsson.

Athöfnin fer fram sunnudaginn 14. október og öllum opin.

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Vefsíður um kirkju og trúmál