Vefsíður um kirkju og trúmál

Fjöldamorð á kristnu fólki

Biskup Íslands - Fim, 25/04/2019 - 16:48

Að morgni páskadags bárust hræðilegar fréttir frá Kólombó höfuðborg Sri Lanka um að hryðjuverk hefðu verið framin í 3 kirkjum og á 3 hótelum í borginni.  Fjöldi látinna er talinn vera 369 manns og fjöldi annarra hefur særst.  Það er væntanlega ekki tilviljun að á mesta hátíðisdegi kristinnar kirkju, þegar þess er minnst að lífið sigraði dauðann hafi samtök illvirkja látið til skarar skríða í þeim tilgangi að hefna fyrir árás á Nýja- Sjálandi fyrir stuttu.  Þvílík fyrirlitning sem mannlegu lífi er sýnd.

Fjölmiðlar hafa sýnt okkur syrgjandi ástvini, saklaust fólk, sem minna okkur á að það getur hver sem er verið á röngum stað á röngum tíma þegar grimmdarverk eru unnin.  Hugur okkar leitar því til allra þeirra sem eiga um sárt að binda, heimamanna sem ferðamanna sem koma færri heim en lögðu upp í ferðalagið.

Oftast hefur verið litið á tilbeiðslustaði, kirkjur sem griðastaði.  Staði þar sem fólk getur komið saman og tilbeðið sinn Guð án utanaðkomandi áreitis.  Nú hefur verið ruðst inn í hið heilaga vé, í Kólombó, í Christchurch á Nýja-Sjálandi og á fleiri stöðum í heiminum.  Það verður með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ófriðarbálið breiðist út og það verður að taka alvarlega viðvaranir sem berast um yfirvofandi hryðjuverk.  Samkvæmt fréttum var það ekki gert í Kólombó.

Páskarnir minna okkur á að lífið er sterkara en dauðinn.  Að hið illa hefur ekki síðasta orðið og að engin ástæða er til að leyfa því að stjórna göngu okkar á lífsveginum.

Ég bið presta landsins að minnast þeirra sem fórust og biðja fyrir öllum þeim fjölmörgu sem nú sakna og syrgja.

Kaffisala 1. maí

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 24/04/2019 - 14:58

Hin árlega kaffisala Kristniboðsfélags kvenna verður haldin miðvikudaginn 1. maí

 kl.14-17 í Kristniboðssalnum á Háaleitisbraut 58-60.

 Ágóði af kaffisölunni rennur til kristniboðsins.

 Allir eru hjartanlega velkomnir !

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 24/04/2019 - 14:55

Lofsöngssamkoma verður miðvikudaginn 24. apríl kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Hugvekju flytur Kristján Þór Sverrisson.

Kaffi eftir samkomu.

Allir hjartanlega velkomnir.

 

Minnum á kaffisölu Kristniboðsfélags kvenna 1. maí.

 

Jesús gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni

Biskup Íslands - sun, 21/04/2019 - 09:53

Prédikun flutt í Dómkirkjunni á páskadagsmorgni 2019 og útvarpað á Rás eitt

Jes. 25:6-9;  1. Kor. 15:1-8a;  Matt. 28:1-10.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.  Amen.

Gleðilega páskahátíð kæru áheyrendur.  Það er vissulega ástæða til að koma saman og gleðjast á mestu hátíð kristinna manna.  Kristið fólk um víða veröld safnast saman og fagnar upprisunni, grundvelli trúar okkar kristinna manna, grundvelli þess samfélags sem við köllum kirkja.

Kirkjan er samfélag þeirra sem vilja kannast við hinn krossfesta og upprisna Krist.  Kirkjan skiptist í margar kirkjudeildir sem allt frá lokum síðari heimsstyrjaldar hafa séð þörfina á því að standa saman um það sem sameinar en um leið virða mismunandi túlkanir hver annarrar á nokkrum trúaratriðum eins og skírninni og kvöldmáltíðarsakramentinu.  Við sáum í sjónvarpsfréttum á föstudaginn langa að siðir tengdir föstudeginum langa eru mismunandi eftir löndum og kirkjudeildum og hið sama á við um aðra mikilvæga daga í kirkjuárinu.

Maríurnar tvær sem guðspjallið greinir frá höfðu staðið við gröf Jesú. Þær höfðu staðið þar og þjáðst vegna örlaga vinar síns sem hékk á krossi, niðurlægður og smáður.  Í huga þeirra hafa eflaust bærst margar tilfinningar og allar daprar.

Augu hins vestræna heims hafa beinst að Notre Dame undanfarna daga.  Kirkjan er Maríukirkja eins og svo margar kirkjur um veröld víða.  Hún var reist á árunum 1163 til 1345.  Á heimasíðu kirkjunnar segir að kirkjan sé meira en sögulegt minnismerki, hún sé umfram allt Guðs hús og geymi reynslu kynslóðanna.  Í Notre Dame dómkirkjunni mætist arfur hins vestræna heims, trúarlegur, menningarlegur og sögulegur.  Þessi kirkja stóð í ljósum logum fyrir nokkrum dögum og margir fylgdust með hinum færu slökkviliðsmönnum berjast við eldinn í margar klukkustundir.  Fyrir fagmennsku þeirra og þrautseigju tókst þeim að koma í veg fyrir algjöra eyðileggingu kirkjunnar.  Tilfinningar þeirra sem stóðu við hið brennandi hús breyttust úr ótta og sorg í létti og gleði.

Forseti Frakklands lýsti því yfir að kirkjan skyldi endurgerð og auðmenn hétu fé til framkvæmdanna.  En þá reis upp mikil reiði meðal almennings sem taldi að velgjörðarmennirnir hefðu annað í huga en eintóma gæsku við dýrt verkefni.  Ég hef fyrir hönd þjóðkirkjunnar sent sendiherra Frakklands hér á landi samúðarkveðju vegna brunans og tek undir hvatningu þess efnis að við öll sem unnum kirkju og kristni styrkum endurreisn þessa mikla guðshúss.

Það getur verið vandlifað í veröldinni eins og dæmin sanna og það höfðu þær rekið sig á konurnar sem Vilborg Dagbjartsdóttir yrkir um í kvæði sínu Páskaliljur.

„Morguninn eftir komu konurnar

til þess að gráta við gröfina.

Og sjá þær fundu gul blóm

sem höfðu sprungið út um nóttina.

Vorið var komið þrátt fyrir allt.“

Vilborg tengir upprisuna vorinu og víst er að á vorin er mynd upprisunnar hvað sterkust í náttúrunni.   Þá er ljóst að fræið hefur í frostinu sofið og Drottins vald vakið það upp á ný.

Morguninn eftir komu konurnar til þess að gráta við gröfina segir Vilborg í ljóði sínu.  Þær voru harmi slegnar eins og svo margir vinir Jesú þennan morgun.  Hann hafði ekki aðeins látið líf sitt á krossinum, heldur hafði hann einnig verið niðurlægður mjög.  Það var sem dauðinn hefði sigrað, illu öflin hefðu sigrað, mannlegt vald hefði sigrað.  Þær höfðu staðið við krossinn og horft á vin sinn niðurlægðan, smáðan og píndan til dauða.  Harmur þeirra var því mikill.

En eins og við vitum og heyrðum blasti önnur sjón við þeim en þær höfðu vænst.  Margar tilfinningar hafa bærst í brjóstum þeirra.  Gleði, ótti, efasemdir, tregi.  Þær mættu upprisnum meistara sínum. Lífið hafði dauðann deytt og leiðin til lífsins var greidd.  En það krefst aðgæslu að varðveita lífið.  Það höfum við heyrt og séð undanfarin ár.  Dauðinn ógnar jörðinni okkar, þeirri einu sem við höfum.  Nú er unnið hörðum höndum að því að hún rísi upp aftur til lífsins. Sjónvarpsmaðurinn heimsþekkti David Attenborougth gaf út harðorða yfirlýsingu um loftlagsbreytingarnar sem ógna heiminum.  Hann segir jarðarbúa standa frammi fyrir „óafturkræfum skaða á náttúrunni og samfélagslegu hruni“.  Jafnframt tekur hann fram að enn sé von.  Upprisuboðskapurinn er boðskapur vonar.  Upprisuboðskapurinn er boðskapur lífs.  Við vitum ýmislegt um loftslagsbreytingar og afleiðingar þeirra.  Vísindamenn hafa frætt okkur um að nú verði að breyta um stefnu eigi lífið að sigra eyðileggingu jarðar og dauða lífs á jörðu.  Nú er komið að siðferðinu, hugarfarinu, lífsstefnunni.  Það er komið að því að við jarðarbúar verðum að breyta um lífsstíl.  Allar fræðigreinar geta hjálpað okkur við það verkefni.  Kristin trú getur hjálpað okkur við það verkefni vegna þess að kristin trú er trú vonar og kærleika.  Hún er trú hugarfarsins sem eru grunnur verkanna.  Hún er trú ábyrgðar gagnvart öllu því sem skapað er.  Hún er trú ljóssins og lífsins.

Hin 16 ára Greta Thunberg gagnrýndi leiðtoga Evrópusambandsins fyrir aðgerðarleysi í loftslagsmálum þegar hún ávarpaði Evrópuþingið í síðustu viku. Þessi unga stúlka hefur haft mikil áhrif á loftslagsumræðuna og lifir í samræmi við málflutning sinn og flýgur til dæmis ekki á milli staða. Sjálftekið leyfi hennar frá skóla á föstudögum til að mótmæla aðgerðarleysi ráðamanna í loftslagsmálum hefur verið fyrirmynd ungs fólks í mörgum löndum, meðal annars hér á landi.  Þessi unga stúlka hefur svo sannarlega haft áhrif á heimsbyggðina og hugsunarhátt fólks. Á Evrópuþinginu lét hún þau orð falla að ef ráðamenn hugsuðu alvarlega um aðgerðir í loftslagsmálum þá væru þeir ekki að nota tíma sinn í að ræða skatta og Brexit.  Hvað er nauðsynlegt, hvað er gagnlegt, hvað er forgangsverkefni?  Við höfum eflaust mismunandi skoðanir á því en um loftslagsbreytingarnar eru aðeins eitt svar, þær eru staðreynd og eru farnar að hafa áhrif á allt líf á jörðinni, líka hér á landi.

Undanfarnar vikur hef ég vísiterað eða heimsótt söfnuðina hér í Reykjavíkurprófastsdæmi vestra og einnig í Skagafirði.  Það er áhugavert að sjá hvað söfnuðirnir eru orðnir vakandi fyrir umhverfismálum og vinna eftir ákveðnu skipulagi að því að fá umhverfisvottun sem græn kirkja.  Í söfnuðunum er fólk sem vill tilheyra kirkjunni, sækja hana og vinna fyrir hana.  Þar er hin lifandi kirkja, með sterka sjálfsmynd og vissu um að hlutverk kirkjunnar hér í heimi er mikið og lífgefandi.  Kirkjustarfið byggist á samvinnu launaðra sem ólaunaðra sjálfboðaliða, fólks sem leggur sig fram um að ná til allra aldurshópa í starfi sínu og er þess fullvisst að hlutverk kirkjunnar er mikilvægt í hverri sókn.  Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem bera uppi starf kirkjunnar fyrir ómetanlega þjónustu.  Þið hafið byggt kirkjuhúsin og haldið þeim við.  Þið sjáið til þess að allt sé til reiðu fyrir athafnir í kirkjunum.  Þið haldið þeim hreinum og snyrtilegum.  Þið takið á móti kirkjugestum með bros á vör.  Þið leiðið sönginn og stjórnið tónlistinni.  Þið boðið í orði og í verki.  Án ykkar væri erfitt að halda uppi kirkjustarfi og koma hinum mikilvæga boðskap upprisunnar á framfæri.

Okkar íslenska þjóðkirkja tekst á við svipaðar áskoranir og systurkirkjurnar í Skandinavíu og í Evrópu.  Skráðum meðlimum fækkar, skírnum fækkar en þátttaka í athöfnum stendur að miklu leyti í stað.  Kirkjuskipanin í borginni er byggð upp á sama máta og kirkjuskipanin á landsbyggðinni en áskoranirnar eru ólíkar í þéttbýlinu og dreifbýlinu.  Okkar lútherska kirkja hefur aðeins einn leiðtoga, þann er reis upp á þriðja degi en talsmenn hennar eru margir þó biskupinn leiði þann fríða flokk.

Lífið er stöðug barátta milli ills og góðs og við ættum að sigra það illa með góðu.  Þetta endurspeglar það sem gerðist á Golgata á föstudaginn langa og við gröfina á páskadagsmorgunn.  Það átti sér stað heilmikil barátta þessa daga í Jerúsalem fyrir nærri 2000 árum.  Það var veraldleg valdabarátta, það var andleg valdabarátta, það var innri barátta þeirra sem við sögu komu.  Það var barátta Pílatusar, það var barátta Jesú, það var barátta fylgjenda hans.  Og þó að svona sterkar tilfinningar séu ekki daglegt brauð hjá okkur, þá geta komið tímabil sem við göngum í gengum mikla baráttu í lífi okkar.  Baráttu við okkur sjálf, við annað fólk, við sjúkdóma og við allt mögulegt sem ógnar lífi okkar.

Þess vegna er svo gott að minnast upprisunnar.  Minnast þess að eftir krossfestinguna kom upprisan.  Eftir dauðann kom lífið.  Eftir vonleysið kom vonin.  Eftir veturinn kemur vorið.  Við skulum því aldrei gefast upp fyrir því sem miður fer, eða því sem ógnar okkur, hræðir okkur eða veldur okkur hverskonar sársauka, því upprisa Jesú boðar okkur nýja tíma og nýja von.  Trúin á Krist hefur umskapandi áhrif í lífi okkar.  Enginn verður samur og áður, eftir að hafa mætt hinum upprisna Jesú í trúnni.  Hann gefur okkur hlutdeild í upprisu sinni, ég lifi og þér munuð lifa, sagði hann.  Dauðinn á ekki síðasta orðið.  Það er huggun þess sem syrgir og saknar.

Allt frá fyrstu tíð hefur kristin kirkja boðað trú á Krist, upprisinn og lifandi frelsara.  Við getum mætt honum í trú og þáð boð hans um eilífa samfylgd.  Það er boðskapur páskanna að Kristur er upprisinn.  Kristur er sannarlega upprisinn.

Gleðilega hátíð, gleðilega páska.

Dýrð sé Guði föður, syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.  Amen.

Fræðslukvöld miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 15/04/2019 - 13:37

Fræðslukvöld verður miðvikudaginn 17. apríl kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Ólafur Knútsson flytur erindi sem nefnist: Hvernig talar Guð til mín í bæninni?

Kaffi á eftir.

Allir velkomnir.

Bænasamkoma í kvöld

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 10/04/2019 - 09:50

Samkoma í kvöld (miðvikudag) kl. 20 í Kristniboðssalnum.
Ræðumaður: Hermann Bjarnason, hann fjallar um valda persónu úr Biblíunni.
Kaffi og með því að samkomu lokinni.
Verið öll hjartanlega velkomin í Kristniboðssalinn,
Háaleitisbraut 58, 3. hæð.

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 01/04/2019 - 15:27

Björn-Inge Furnes Aurdal.

Samkoma verður miðvikudaginn 3. apríl kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Björn-Inge Furnes Aurdal segir frá einni af persónum Biblíunnar.

Kaffi og meðlæti eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 25/03/2019 - 12:35

Samkoman miðvikudaginn 27. mars kl. 20 er á vegum Kristniboðsfélags kvenna. Þetta verður fjáröflunarsamkoma með fjölbreyttri dagskrá.

Karlakór KFUM syngur. Happdrætti með glæsilegum vinningum. Halla Jónsdóttir flytur hugvekju. Kaffi og kræsingar verða í boði eftir samkomuna.

Allir eru hjartanlega velkomnir.

 

Skúli Svavarsson kristniboði er áttræður í dag

Kristniboðssambandið - sun, 24/03/2019 - 13:02

Skúli Svavarsson kristniboði er áttræður í dag og sendum við honum innilegar hamingjuóskir með bæn um blessun og frið – með þakklæti fyrir langa þjónustu í þágu krisntiboðsins.

Skúli starfaði ásamt eiginkonu sinni, Kjellrunu Langdal í áratugi að kristniboði í Eþíópíu og Keníu, auk þjónustu hans hér heima en hann var framkvæmdastjóri SÍK um árabil, til ársins 2005. Auk þess hafa þau sinnt ýmsum sjálfboðastörfum á liðnum árum, bæði hér heima og í Keníu. Skúli og Kjellrun eru að heiman í dag.

Í tilefni af þessum tímamótum, og því að SÍK verður 90 ára á árinu, ákvað stjórnin í fyrra að fara þess á leit við séra Vigfús Ingvar Ingvarsson að skrifa ævisögu þeirra hjóna. Er hún í vinnslu og kemur vonandi út í haust. Bókin verður kynnt betur á næstunni og eins hvernig fólk getur skráð sig á heillaóskaskrá. Vinnutitill hennar er Kallinu hlýtt.

Fréttabréf SÍK

Kristniboðssambandið - Fim, 21/03/2019 - 13:56

Nýjasta tölublað Kristniboðsfrétta hefur nú vonandi borist öllum áskrifendum. Ef blaðið hefur ekki skilað sér til einhverra þá þætti okkur vænt um skilaboð þess efnis á kristjan@sik.is eða í síma 533 4900. Allt að einu þá er blaðið hér fyrir neðan á rafrænu formi. Njótið lestursins.

Kristniboðsfréttir 1. tölublað 2019

Fræðslukvöld miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 18/03/2019 - 15:50

Fræðslukvöld verður miðvikudaginn 20. mars kl. 20 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Karl Sigurbjörnsson flytur erindi sem kallast Hvernig lifir trúin af og eflist í heimi áreitis og guðleysis?

Kaffi á eftir.

Allir hjartanlega velkomnir.

 

Aðalfundur SÍK 15. maí kl. 18

Kristniboðssambandið - mánud., 18/03/2019 - 10:37

Stjórn Kristniboðssambandsins boðar til aðalfundar miðvikudaginn 15. maí 2019 kl. 18 í Krisntiboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60, 108 Reykjavík. Á dagskrá eru venjuleg aðalfundarstörf samkvæmt samþykktum SÍK. Á fundinum verður einnig horft til framtíðar á 90 ára afmælisári samtakanna. Fundurinn er öllum opinn en málfrelsi og atkvæðisrétt hafa félagsmenn sem uppfylla ákvæði samþykkta (laga) SÍK þar að lútandi.

Haraldur Ólafsson kristniboði látinn

Kristniboðssambandið - Fim, 14/03/2019 - 15:03

Haraldur Ólafsson kristniboði lést sl. laugardag á 84. aldursári. Hann var sonur kristniboðanna Herborgar og Ólafs Ólafssonar sem störfuðu í Kína í 14 ár.

Eftirlfiandi kona Haraldar er Björg og eiga þau tvö börn en fjölskyldan settist að í Noregi að loknum kristniboðsstörfum í Eþíópíu á árunum 1963-1968, 1973-1976 og 1977-1979. Einnig starfaði Haraldur í Eþíópíu á 10. áratugnum og var um tíma umdæmisstjóri í Eþíópíu á vegum Hjálparstarfs kirkjunnar í Noregi. Jarðarförin fer fram í Kristjanssand á morgun, 15. mars.

Haraldur starfaði mest í Neghelli í suðurhluta landsins meðal Bóranamanna og vann þrekvirki í þýðingu Biblíunnar á þeirra mál, enda mikill málamaður og lagði grunninn að ritmáli Bóranamanna sem búa syðst í Eþíópíu og nyrst í Keníu. Einnig beitti hann sér fyrir þýðingu ýmissa kristilegra rita yfir á bóranamál. Árið 2007 birti Bjarmi viðtal Kristínar Bjarnadóttur við Harald og var yfirskriftin að mörgu leyti lýsandi fyrir hugsjón Haraldar: „Talað orð gleymist en ritað orð gengur í arf,“ en að mati hans áttu allir að eiga rétt á að lesa Biblíuna á eigin móðurmáli.

Auk þýðingar-og útgáfustarfs sinnti Haraldur boðun, fræðslu og þjálfun samverkamanna innan Mekane Yesu kirkjunnar.  Er mikil hungursneyð gekk yfir landið á 8. áratugnum krafðist umfangsmikið hjálparstarf krafta Haraldar eins og margra kristniboða á þeim tíma.

Þó svo Haraldur hafi verið sendur af systur- og samstarfssamtökum SÍK, NLM í Noregi fylgdust vinir starfsins náið með þeim hjónum, enda voru það fjárhagslegar skuldbindingar sem SÍK hafði gagnvart öðrum kristniboðum og starfinu sem kom í veg fyrir að þau hjón yrðu fulltrúar Íslands og Kristniboðssambandsins. Þau heimsóttu Ísland og skrifuðu fréttir í Bjarma enda ekki annað fréttabréf um starf kristniboðsins á þeim tíma.

Drottinn blessi minningu Haraldar Ólafssonar kristniboða.

 

Prédikarar í Pókot á námskeiði

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 27/02/2019 - 12:29

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins heimsækir þessa dagana Pókothérað í Keníu m.a. til að kenna á námskeiðum í Kapengúría. Námskeið fyrir prédikara kirkjunnar hófst á mánudaginn. Nemendurnir eru tæplega sextíu og kennararnir fjórir frá Keníu, Tansaníu, Noregi og Íslandi. Hér má sjá myndir sem Ragnar tók.

Nýjar fréttir frá Pókot

Kristniboðssambandið - mánud., 25/02/2019 - 11:01

Ragnar Gunnarsson framkvæmdastjóri Kristniboðssambandsins heimsækir þessa dagana Pókothérað í Keníu til að kenna á námskeiðum í Kapengúría og fylgja eftir ýmsum verkefnum. Með honum í för eru Katrín Ásgrímsdóttir, Gísli Guðmundsson og Fanney Gísladóttir. Hægt er að fylgjast með ferðinni á fésbókarsíðu SÍK.

Einn af þeim stöðum sem þau hafa heimsótt er stúlknaframhaldsskólinn í Kamununo. Þar er verið er að byggja heimavist, kennslustofur og skrifstofu- og starfsmannaaðstöðu fyrir skólann sem er um 130 km norður af Kapengúría, í Kasei. Heimamenn, SÍK, Hallgrímskirkja og Þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins fjármagna byggingarnar. Ferðin til Kasei tók þrjá og hálfan tíma og annað eins tilbaka til Kapengúría, sem segir sína sögu um ástand vegarins.

Þá fóru þau einn dag til Propoi í Cheparería til að skoða tveggja hæða nýbyggingu sem Þróunarsamvinnusvið utanríkisráðuneytisins styrkti í tveimur áföngum, hvora hæðina fyrir sig. Nú stendur til að ljúka byggingu og frágangi á næstu mánuðum. Um 550 stúlkur eru í framhaldsskólanum og breytir menntun þeirra miklu fyrir framtíð þeirra.

Sunnudaginn, 24. febrúar, fór fram kirkjuvígsla í Chepkobegh. Kirkjan var reist til minningar um foreldra Gísla þau Guðmund Gíslason og Fanneyju Jónsdóttur.  Hátíðardagskráin var vegleg og löng að hætti heimamanna. Katrín Ásgrímsdóttir, eiginkona Gísla, ávarpaði söfnuðinn og gesti í upphafi vígslu áður en gengið var inn í kirkjuna. Sjá myndir.

Minningarskjöldur.

Fjölmenni var við vígslu kirkjunnar. Katrín fremst á myndinni.

Ragnar, Gísli og Katrín fyrir framan nýju kirkjuna í Chepkobegh.

Dagskráin í fullum gangi.

Katrín Ásgrímsdóttir ávarpar söfnuðinn og gesti áður en vígsluathöfnin hefst.

Stúlknaframhaldsskólinn í Propoi.

Vinna við skólabygginguna í Propoi.

Hin glæsilega tveggja hæða bygging í Propoi.

Ragnar Gunnarsson með Chepareria og sléttuna í baksýn.

Gestirnir fengu góðar móttökur í framhaldsskólanum í Kamununo.

Kristniboðssambandið byggir marga framhaldsskóla í Pókot.

Ragnar ásamt heimamönnum í Kamununo.

Samkoma miðvikudag

Kristniboðssambandið - mánud., 25/02/2019 - 08:46

Lofgjörðarsamkoma verður miðvikudaginn, 27. febrúar kl. 20, í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60.

Helga Vilborg Sigurjónsdóttir flytur hugvekju úr Sálmunum.

Kaffi eftir samkomu.

Allir velkomnir.

Nýjar bækur frá Salti ehf.

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 20/02/2019 - 12:05

Litla hugvekjubókin Orðið er reyndar ekki alveg ný, hún kom fyrst út á íslensku fyrir 70 árum í þýðingu Gunnars Sigurjónsssonar, og er nú endurútgefin, enda verið uppseld í hálfa öld. Bókin hefur orðið mörgum til blessunar og uppörvunar og er nú gefin út í stærra broti en er að öðru leyti óbreytt.

Föndurbiblía barnanna er væntanleg úr prentun fyrir páska. Í henni eru helstu sögur Biblíunnar í bland við þrautir og allskonar föndur sem hentar vel börnum á aldrinum 3-10 ára.

Allar bækur Salts eru fáanlegar á Basarnum í Austurveri. Það er líka hægt að panta þær frá skrifstofu SÍK í síma 5334900 og greiða með korti eða millifærslu.

Alfa námskeið

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 20/02/2019 - 10:52

Alfa er námskeið sem kannar kristna trú. Hver kennsla tekur fyrir mismunandi spurningar um trú og er sett fram til að skapa umræðu. Námskeiðið er 10 vikur og er dagskráin einföld: Brunch – kennsla – umræður.
Námskeiðið er haldið á laugardögum kl. 11-13 í Kristniboðssalnum, Háaleitisbraut 58-60 og er ókeypis og öllum opið.
Myndbandskennsla fer fram á ensku með íslenskum texta.
Umræður á íslensku og ensku.

Tónleikar Eyerusalem Negiya

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 20/02/2019 - 10:02

Eþíópska tónlistarkonan Eyerusalem Negiya mun halda tónleika í Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu laugardaginn 9. mars kl 17. Tónleikarnir eru hluti af árlegri kristniboðsviku Kristniboðssambandsins en eru í samstarfi við vini okkar í Fíladelfíu.

Tónlist Eyerusalem er mjög fjölbreytt og er undir áhrifum frá jazz, blues, gospel og ekki síst eþíópskum þjóðlagarfi. Eyerusalem er þekkt nafn í kristna tónlistarheiminum í Eþíópíu Hún hefur þegar gefið út tvær plötur með eigin efni og er sú þriðja í vinnslu. Tónlistina hennar má nálgast á youtube og Spotify.

Fólk er hvatt til að koma á tónleikana og njóta tónlistar þessarar frábæru söngkonu.

Kristniboðsvika 3.-10. mars 2019

Kristniboðssambandið - Miðv.d., 20/02/2019 - 09:54

Samband íslenskra krisntiboðsfélaga (SÍK) heldur sína árlegu kristniboðsviku 3.-10. mars. Markmið vikunnar er að efla vitund og áhuga fólks á kristniboðsstarfi SÍK og bjóða áhugasömum að styrkja starfið.

Allir viðburðir viknnar verða haldnir í Kristniboðssalnum í verslunarkjarnanum Miðbæ að Háaleitisbraut 58-60 (3. hæð). Aðgengi er fyrir hjólastóla og lyfta í húsinu.

Dagskrá vikunnar:

-Sunnudagur 3. mars kl. 17:00: Samkoma fyrir alla fjölskylduna. Boðið er upp á kvöldmat gegn hóflegu gjaldi eftir samkomuna.

-Mánudagur 4. mars kl. 20:00: Lofgjörðar- og bænastund.

-Þriðjudagur 5. mars kl. 20:00: Fræðslukvöld, Skúli Svavarsson kristniboði segir frá upphafsárum SÍK og frumkvöðlum og greinir frá sögu krisntiboðsins í Eþíópíu og Keníu. Kaffiveitingar seldar eftir fræðsluna.

-Miðvikudagur 6. mars kl. 20:00: Samkoma. Kurt Johansen frá Sat7 segir frá kristniboðsstarfi sjónvarpsstöðvarinnar í Mið-austurlöndum. Guðlaugur Gunnarsson prédikar: Rétta leiðin til hjálpræðis. Hljómsveit KSS leiðir söng. Kaffiveitingar seldar eftir samkomuna.

-Fimmtudagur 7. mars kl. 20:00: Samkoma. Kurt Johansen frá Sat 7 segir frá kristniboðsstarfi sjónvarpsstöðvarinnar í Mið-Austurlöndum. Kristján Þór Sverrisson prédikar: Rétta leiðin til boðunar. Hljómsveit KSS leiðir söng. Kaffiveitingar seldar eftir samkomuna.

-Föstudagur 8. mars kl. 20:00: Kvikmyndasýning og umræður. ATH: Mynd tilkynnt síðar.

-Laugardagur 9. mars kl. 17:00: Tónleikar með eþíópísku söngkonunni Eyerusalem Negya í Fíladelfíu, Hátúni 2.

-Sunnudagur 10. mars kl. 17:00: Lokasamkoma. Kristján Þór Sverrisson segir frá kristniboðsstarfi sjónvarpsstöðvarinnar Pak7 sem einbeitir sér að Pakistan. Karlakór KFUM mun syngja. Björn-Inge Furnes Aurdal prédikar: Rétta leiðin í lífinu. Hljómsveit KSS leiðir söng. Arabískur matur seldur eftir samkomuna.

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Vefsíður um kirkju og trúmál