Efnisveitur

Holy Moly – Skírdagur

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 17:20

Jesús og lærisveinarnir sitja við matarborðið og spjalla saman. Jesús stendur upp og biður einn lærisveininn um brauð. Lærisveinninn er aðeins utan við sig og rétti honum allskonar mat . . . Jesús stendur upp og nær í brauðið sjálfur. Hann flautar hressilega á lærisveinana að þeir kippast allir við. Jesús tekur brauðið, gerir þakkir, brýtur það og gefur lærisveinunum og segir: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“ Og hann tekur kaleik, gerir þakkir, gefur þeim og segir: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ Allir lærisveinarnir fyllast kærleika og trú, nema Júdas sem gengur út.

Eftir máltíðina ganga þeir inn í garð sem heitir Getsemane. Hann biður lærisveinana að bíða eftir sér meðan hann fer og biður fyrir. Hann tekur Símon Pétur og Jakob og Jóhannes Sebedeussyni með sér og biður þá að vaka með sér. Þegar hann er að biðja heyrir hann þá hrjóta og hann sér að þeir eru sofnaðir. Hann vekur þá og þeir hrökkva upp með andfælum. Jesús biður þá að halda sér vakandi og fer aftur að biðja. Hann sér örlögin sín og verður hnugginn. Jesús snýr sér að lærisveinum sínum sem eru allir sofnaðir aftur. Jesús flautar á þá og þeim krossbregður og stökkva upp og þykjast vera vakandi. Jesús fer aftur að biðja og það líður ekki langur tími þar til hann heyrir þá aftur hrjóta. Jesús verður reiður, en svo verður hann leiður þegar hann horfir á lærisveina sína. Hann gengur framhjá Pétri, Jakobi og Jóhannesi til hinna lærisveina sinna. Hann sér að Júdas er mættur í Getsemane garðinn. Hann vekur upp lærisveinana. Hermennirnir eru komnir til að handtaka Jesú, Júdas hafði bent þeim á hvar Jesús væri. Hermennirnir leiða Jesú í burtu.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Pálmasunnudagur

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 15:37

Jesús hafði sent lærisveina sína til þess að ná í asna fyrir sig sem hann gæti riðið á inn í Jerúsalem. Þarna sjáum við annan lærisveininn reyna að ná öðrum asnanum með reipi er hann stekkur á hann. Lærisveinninn reynir aftur og aftur, en asninn stekkur alltaf undan og lætur ekki ná sér. Þeir hlaupa marga hringi. Þegar lærisveinninn loksins nær asnanum. Þá birtist bóndinn sem á asnann reiður á svipinn. Hinn lærisveinninn kemur hlaupandi til bóndans og útskýrir af hverju þeir eru að reyna að ná asnanum. Jesús hafði sent þá. Bóndinn horfir reiður á lærisveininn … þar til bros færist yfir hann og hann verður hress og kátur. Að sjálfsögðu mega þeir fá asnann. Lærisveinarnir reyna að draga asnann með sér til Jesú. Annar togar og hinn ýtir. Bóndinn kveður lærisveinana er þeir draga asnann með sér.

Lærisveinarnir draga asnann til Jesú. Jesús klappar asnanum á kollinn sem er reiður á svipinn. Þeir setja teppi á bak asnans sem mótmælir og reynir að losa sig. En lærisveinninn heldur honum niðri. Jesús stígur á bak og asninn verður hræddur og reynir að henda Jesú af baki. Lærisveinninn og Jesús ná að róa asnann. Asninn verður samvinnuþýðari og fylgir með inn í Jerúsalem. Hann verður svolítið hræddur þegar hann sér allt fólkið í borginni. Fólkið tók pálmagreinar, fór út á móti Jesú og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Þarna áttar asninn sig á að þetta séu höfðinglegar móttökur. Asninn er stoltur að fá að taka þátt í hátíðinni að hann reigir sig og er mjög montinn með sig.

Þeir sjá til borgarhliðsins og nú er ekki aftur snúið, kærleikurinn umvefur þá er þeir ganga í átt að borgarhliðunum.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Jesús mettar 5000 manns

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 31/07/2018 - 11:27

Fólk ferðaðist langa vegu til þess að hitta á Jesú. Börn og fullorðnir. Þarna sjáum við tvö glöð börn á leiðinni að hitta á Jesú. Þau fá nesti hjá móður sinni áður en þau leggja af stað. Hún kyssir þau og vinkar bless. Þegar þau koma á staðinn þar sem Jesús og lærisveinar hans dvelja, sjá þau að þar er mikill mannfjöldi. Jesús og lærisveinar hans eru upp á hæðinni svo allir geta séð Jesú. Þegar Jesús byrjar að tala, heyrast miklir skruðningar og læti, fólkið er orðið svangt. Það hugsar um brauð, kjúkling, samlokur og allskonar dýrindis mat, en það eru fáir með nesti með sér. Garnirnar gaula í 5000 manns og það gerir mikinn hávaða. Litli drengurinn og systir hans sem höfðu fengið nesti hjá móður sinni og vilja ekki borða það fyrir framan hina. Drengurinn veit ekki alveg hvað hann á að gera. Drengurinn sér nokkra gæða sér á sínu nesti, en aðrir eru orðnir svo hungraðir að þeir borða gras, en það er ekkert sérlega gott.

Hvaða dýr éta gras? (Leyfið börnunum að svara).

Drengurinn fær hugmynd. Þetta er kærleiksrík hugmynd. Systkinin ganga upp hæðina þar sem lærisveinarnir taka á móti honum og hann býður þeim nestið sitt. Lærisveinarnir hlæja að honum og segja að þetta nesti dugi ekki til þess að metta 5000 manns. Jesús snýr sér við og biður Andrés að rétta sér nestið. Í nestispokanum eru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Jesús þakkar drengnum fyrir hugulsemina. Nú tekur Jesús brauðin og fiskana og gerir þakkir. Lærisveinarnir koma með körfur til Jesú og hann setur matinn í körfurnar. Lærisveinarnir fara með körfurnar til fólksins, nú gerast undur því allir fá nóg að borða og verða mettir. Jesús biður lærisveinana að safna saman leifunum svo ekkert fari til spillist. Þeir safna þeim saman og fylla tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af ganga.
Nú er ekki bara andinn mettur heldur líka maginn.

Munið þið ekki alltaf eftir því að þakka fyrir matinn? (Leyfið börnunum að svara).

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Faðir vor

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 31/07/2018 - 10:42

Jesús var á gangi með tveimur lærisveinum sínum þegar þau mæta sölumönnum. Annar lærisveinninn spyr hvort þau eigi ekki að versla eitthvað, en Jesús hefur ekki áhuga. Þau halda áfram og sjá fólk vera að biðja við skurðgoð. Jesús og lærisveinarnir halda áfram göngu sinni.  Þau sjá prédikara prédika á torginu. Einn lærisveinninn verður mjög hrifinn, en Jesú líst ekkert á það sem prédikarinn segir og margt fólk yfirgefur torgið þar sem prédikarinn er að tala. Prédikarinn verður steinhissa og hleypur að næsta torgi og heldur áfram að prédika. Fólkið flýr sömuleiðis þaðan.

Jesús heldur áfram för sinni ásamt lærisveinunum. Þar til hann sér konu eina í mannfjöldanum. Hann biður lærisveinana að elta sig og hann fylgir konunni eftir og sér er hún sest við gosbrunn til þess að biðja. Í miðri bæn er hún trufluð þar sem hundur kemur hoppandi og skoppandi ofan í gosbrunninn og skvettir vatni út um allt. Konan gengur burtu frá gosbrunninum. Hún gengur eftir götu bæjarins og á leiðinni er verið að bjóða henni allskonar varning til sölu. Jesús og lærisveinarnir tveir fylgja á eftir. Nema einn lærisveinninn verður mjög spenntur að kaupa styttur af kaupmönnunum, en Jesús heldur áfram göngu sinni og ef hann ætlar ekki að missa af Jesú þá verður hann flýta sér.

Hefði hann átt að kaupa sér styttu? Hvað var sérstakt við styttuna? (Leyfið börnunum að svara).

Konan gengur framhjá enn einum prédikaranum við götuna. Jesús og lærisveinarnir fylgja eftir, en lærisveinarnir stoppa og heillast af því sem prédikarinn talar um. Jesús snýr við og nær í þau og biður þau að halda áfram. Konan gengur inn í húsasund og svo annað og annað. Það er eins og hún sé að leita að einhverju.

Jesús rekst óvart utan í ker svo að það brotnar. Hann og lærisveinarnir fela sig í flýti. Konan snýr sér við, en sér engan á ferli. Jesús bendir lærisveinunum á þegar konan finnur sér rólegan stað til þess að biðja. Þetta er fallegur grasigróinn staður undir tré.

Meðan konan er að biðja eru settir upp tónleikar á undraverðum ljóshraða. Hviss, bang, búmm og það er dansað og sungið. Konan verður pirruð og getur ekki að haldið áfram að biðja í öllum hávaðanum. Hún gengur burtu leið á svip. Jesús verður frekar svekktur og sár fyrir hennar hönd og þau halda áfram að elta konuna. Hún gengur upp á hæð fyrir ofan bæinn. Þar er næði. Hún krýpur á kné, spennir saman greipar og byrjar að biðja. Jesús og lærisveinarnir tveir sjá er konan biður undir trénu upp á hæðinni. Jesús gerði þetta líka á ferðalögunum sínum. Hann fann sér rólegan stað til þess að vera einn með Guði og tala við hann. Þau yfirgefa staðinn til þess að gefa konunni næði til þess að biðja til Guðs.

Eruð þið ekki dugleg að biðja til Guðs? (Leyfið börnunum að svara).

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Vitringarnir

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 16:44

Talið endilega yfir Holy Moly myndböndin og útskýrið fyrir börnunum það sem er í gangi
Hér að neðan er smá texti ykkur til aðstoðar.

Þarna sjáum við vitringana frá Austurlöndum grandskoða himininn. Þeir eru með stóran sjónauka og skiptast á að kíkja á stjörnurnar. Þeir eru að leita að einni ákveðinni stjörnu. Einn vitringanna hrópar af undrun og ánægju. Hann bendir hinum á stjörnuna björtu sem hann hafði verið að leita að. Þarna er hún. Stóra fallega stjarnan. Hún mun leiða þá til frelsarans nýfædda.

Þeir ferðast lengi . . . lengi . . . lengi. Þar til þeir koma að konungshöll. Þeir ganga að hallardyrunum og berja fast að dyrum. Konungurinn Heródes kemur til dyra og spyr hvað þeir vilja. Þeir spyrja hann hvort hann viti hvar hinn nýfæddi konungur Gyðinga sé að finna. Allt í einu sturlast konungurinn og öskrar og æpir eins og vitleysingur. Svo róast hann og bendir þeim að fara til Betlehem og segir: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“  Vitringarnir hlaupa að úlföldunum sínum og flýja brjálaða konunginn.
Af hverju haldið þið að konungurinn hafi brjálast? (Leyfið börnunum að svara)

Vitringarnir fylgja stjörnunni björtu til Betlehem. Þeir koma til bæjarins spenntir og glaðir, og ganga að fjárhúsi einu þar sem stjarnan skín á himnum. Þeir banka að dyrum fjárhúsins. María kemur til dyra og býður þeim inn. Þeir koma færandi hendi og rétta Jesú gjafirnar sem þeir höfðu meðferðis. Jesús tekur við fyrstu gjöfinni, sem er reykelsi. Hann er ekkert sérlega ánægður með hana og ýtir henni frá sér. Hann er aftur á móti mjög ánægður að fá hinar gjafirnar, sem eru gull og myrra og gerir eins og ungabörn gera. Leikur sér með nýju gjafirnar sem vitringarnir komu með. Einn vitringurinn skoðar Jesú aðeins betur og Jesús klípur hann í nefið. Hann verður mjög hissa og hinir vitringarnir hlæja að honum. Vitringurinn æsist allur upp og beygir sig aftur að Jesú. Jesús klípur hann aftur í nefið og þá klípur vitringurinn Jesú í nefið. Jesús skríkir af kátínu og vitringurinn smitast af þessari gleði að hjarta hans fyllist af kærleika og kátínu. Hann tekur Jesú  í fangið og annar vitringur kíkir á Jesú. Jesús er snöggur að klípa hann í nefið og allir hlæja . . . þeir ganga á milli hvors annars og klípa í nefið á hvor öðrum. Jósef og María fylgjast með og hlæja.

Vitringarnir fara svo aftur heim til sín, en þeir fara aðra leið og passa sig að láta ekki Heródes vita að Jesús sé fæddur.

Af hverju haldið þið að vitringarnir hafi ekki viljað láta Heródes vita? (Leyfið börnunum að svara).

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Týndi boltinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 12:18

Hjálpargögn: Rebbi, Mýsla og bolti (eða annað leikfang). Felið boltann á stað sem er ekki of augljós.

Rebbi:  Halló, krakkar!

Mýsla:  Halló, krakkar [hljómar leið].

Rebbi:  Er ekki allt í lagi Mýsla?

Mýsla:  Nei . . . Ég er búin að týna boltanum mínum.

Rebbi:  Hvað segirðu? Það er leitt að heyra. Hvernig lítur hann út?

Mýsla:  Hann er kringlóttur og ótrúlega flottur. Þetta er bolti númer 7 í boltasafninu mínu.

Rebbi:  Boltasafninu? Hvað áttu eiginlega marga bolta?

Mýsla:  35 . . . en núna eru þeir bara 34 [alveg við það að gráta].

Rebbi:  En Mýsla, 34 boltar. Það eru rosalega margir boltar. Þú getur ekki einu sinni haldið þeim öllum á lofti í einu.

Mýsla:  Já og hvað með það?

Rebbi:  Þú þarft ekki að vera leið yfir því að vera búin að týna einum. Þú átt 34 aðra bolta.

Mýsla:  Jú, hann er alveg einstakur.

Rebbi: Af hverju skiptir þessi eini bolti svona miklu máli?

Mýsla: Ég fékk hann í gjöf frá Magnúsi músafrænda.

Rebbi:  Ó, ég skil. Jæja, ég skal hjálpa þér að finna hann!

Mýsla:  Takk fyrir það!

Rebbi:  Manstu hvar þú týndir honum?

Mýsla:  Já [snöktir]. Ég held ég hafi týnt honum hérna í kirkjunni.

Rebbi:  Nú? Þá getum við öll hjálpast að við að leita að boltanum þínum.

Mýsla:  Já . . . eða kannski er boltinn bara heima. Ég ætla að fara aftur heim og leita að honum þar.

Rebbi:  Jæja þá. Bless Mýsla.

[Mýsla fer]

Rebbi:  Æi, það var leiðinlegt að sjá Mýslu svona leiða. Það væri svo gaman ef við myndum finna boltann. Það er svo gaman að gleðja aðra. Ég held að Mýsla yrði alveg svakalega glöð. Hvað segið þið krakkar? Eruð þið til í að hjálpa mér? Hún sagði að hún hefði líklegast gleymt boltanum hér í kirkjunni. Hvar eigum við að byrja að leita?

[Leiðbeinandi / eða sá sem lék Mýslu kemur og hjálpar börunum að leita af boltanum]

Rebbi: Kannski er boltinn undir stól. Allir að kíkja undir stólana sína.

Nei, hann er ekki þar. Kannski er hann . . . [gefa vísbendingar þar til boltinn finnst]

Leiðbeinandi: Við fundum boltann!

Rebbi:  Frábært. Ég skal taka boltann og fara með hann til Mýslu. Haldið þið að hún verði ekki ánægð? [Hlusta á svör krakkanna]. Jú það held ég líka. Ég hlakka svo til að sýna henni boltann og segja henni að við hjálpuðumst öll að við að finna hann fyrir hana. Takk allir fyrir að hjálpa til við að leita. Sjáumst næsta sunnudag! Bless!

 

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Skiptum jafnt á milli

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 11:17

Hjálpargögn: Mýsla, Rebbi og kex, ávextir eða eitthvað annað sem er til – helst eitthvað sem krökkunum er boðið upp á eftir sunnudagaskólann.

Mýsla: Góðan daginn.

Rebbi: Já, Góðan daginn! Hvað segið þið gott í dag, krakkar?

Mýsla: Rebbi, Rebbi, Rebbi, ég verð að segja þér.

Rebbi:  Já, hvað?

Mýsla: Mig langaði svo að fara með þér í einhvern leik þannig að ég bað XX (nafn sunnudagaleiðtogans) um að fela handa okkur tvö kex.

Rebbi:  Ha? Og hvað? Hvernig er leikurinn? Eigum við að leita að kexinu?

Mýsla: Já, ertu tilbúinn?

Rebbi:  Jamm. Ég er ótrúlega góður að þefa uppi kex!

Mýsla: Einn, tveir og byrja.

[Mýsla er fljót og þeytist um, en Rebbi tekur sér góðan tíma].

Rebbi:  Mrrh . . . má ég sjá, ekki hér . . . nei ekki heldur hér.

Mýsla: Jippí. Ég fann eitt. [Kemur með kexið og setur það svo það sjáist].

Rebbi:  Urrrr . . .

[Mýsla heldur áfram að þeytast um. Rebbi flýtir sér hægt].

Mýsla: Jejjj. Ég fann hitt kexið líka! Rebbi, þú getur hætt að leita. Ég er búin að finna þau bæði.

Rebbi: Ohhhh.

Mýsla: Vá hvað ég er heppin að fá að borða tvö kex.

Rebbi:  Ha? En Mýsla . . . [sár og svekktur]

Mýsla: Hvað?

Rebbi:  En . . . en . . . Faldi XX (nafn sunnudagaskólastarfsmanns) ekki eitt kex fyrir þig og síðan eitt fyrir mig?

Mýsla: Uhhhhh . . . nei. Þetta var keppni. Og ég var bara svo flink að leita að ég fann þau bæði. Þannig að ég fæ tvö kex.

Rebbi:  En . . . en . . .

Mýsla: Hefurðu ekki heyrt málsháttinn: Sá á fund sem finnur? Ég held að hann eigi sérstaklega við þegar um kex er að ræða.

Rebbi:  Ohhh . . . jú . . . ég þekki þennan málshátt. [Leiður]. Jæja þá. Ég ætla samt að athuga hvort það sé ekki eitt kex í viðbót einhvers staðar. Kannski faldi XX (nafn sunnudagaskólastarfsmanns) þrjú.

[Rebbi fer í hvarf. Mýsla er ein eftir með kexin tvö].

Mýsla: Æææi . . . krakkar, sáu þið Rebba. Ég held hann hafi verið svolítið leiður. Af hverju skildi það hafa verið? [Reyna að fá krakkana til að svara]. Það var kannski svolítið ósanngjart að ég skyldi fá tvö kex og Rebbi ekki neitt. Ég var pínu eigingjörn. Ég hefði átt að gefa með mér. Ummm. Ég held að ég verði að biðja Rebba afsökunar. [Kallar] Rebbi komdu aðeins!

Rebbi: [Leiður að sjá] Hvað?

Mýsla: Ég var aðeins að tala við krakkana og við erum sammála um að ég hafi verið frekar ósanngjörn við þig áðan. Auðvitað eigum við að skipta kexinu á milli okkar. Ég fæ eitt og þú færð eitt.

Rebbi:  Ha? Í alvöru? En þú fannst bæði kexin!

Mýsla: Já, ég veit, en maður á að gefa með sér og skipta jafnt á milli allra.

Rebbi: Takk, Mýsla . . . en hvað með krakkana? Fá þau ekkert kex? Ég get gefið þeim smá bita af mínu kexi.

Mýsla: Já! Ókei. Gerðum það! En . . .

Rebbi: En hvað?

Mýsla: Eru krakkarnir ekki vanir að fá kex eftir sunnudagaskólann? Kannski er best að þau fái bara sitt eigið kex þá.

Rebbi: Góð hugmynd. Það er örugglega nóg til fyrir alla!

Mýsla: Já! . . . Rebbi, við þurfum eiginlega að fara núna.

Rebbi: Þá þurfum við víst að kveðja. Bless krakkar.

Mýsla: Bless!

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Verum ekki áhyggjufull

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 10:40

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

[Rebbi og Mýsla koma upp. Mýsla heilsar öllum glöð, en Rebbi er smeikur að sjá].

Mýsla: Sæl og blessuð. Gaman að sjá ykkur, krakkar!

Rebbi:  Halló . . . [hvíslar]

Mýsla: Er ekki allt í lagi Rebbi?

Rebbi:  Tja, ég veit ekki alveg . . . AAAH [hrópar upp yfir sig af hræðslu]

Mýsla: Hvað er að Rebbi?

Rebbi:  Æji, mig dreymdi martröð í nótt.

Mýsla:  Það er leitt að heyra Rebbi minn.

Rebbi:  Já og núna er ég hræddur í hvert skipti sem ég sé skugga. Og Mýsla veistu hvað? Þeir eru út um allt!

Mýsla: Já, skuggar eru út um allt. Þú þarft ekkert að vera hræddur við . . . [Rebbi grípur fram í fyrir Mýslu].

Rebbi:  Mýsla!! Það er skuggi á bak við þig!

Mýsla: [Mýsla kippist örlítið til] Ha?! Já, auðvitað. Þetta er bara skuggin af mér! Þú veist að þú ert líka með skugga.

Rebbi:  Ha? Hvað segðirðu?

Mýsla: Þú ert líka með skugga, eins og við öll.

Rebbi:  AAAAH! [Rebbi hleypur um eins og til að losna við skuggann].

Mýsla: Rebbi, Rebbi, Rebbi, slakaðu á! [Rebbi stoppar] Gerðu eins og ég. Andaðu inn um trýnið og út um munninn og aftur inn um trýnið og út um munninn. [Rebbi róast].

Rebbi:  Veistu, ég kvíði svolítið fyrir því að fara að sofa í kvöld. Hvað ef ég fæ aðra martröð?

Mýsla: Ekki hafa neinar áhyggjur, Rebbi minn. Guð og Jesús og allir englarnir gæta okkar.

Rebbi:  Já, ég veit . . . en ekki á nóttunni [fullvissa í röddinni].

Mýsla: Jú, Guð gætir okkar alltaf. Ekki bara stundum. Og Jesús vill hjálpa okkur að vera ekki áhyggjufull. Hann sagði að það væri óþarfi að vera með áhyggjur.

Rebbi:  Úff, það er gott.

Mýsla: Já, nákvæmlega! Það er svo gott að vita að við erum aldrei ein. Ég er með góða hugmynd. Amma-mús kenndi mér bæn sem getur örugglega hjálpað þér að sofna í kvöld.

Rebbi:  Nú, hvernig er hún?

Mýsla: Þetta er sko bæn sem ég fer alltaf með á kvöldin áður en ég fer að sofa. [Hljómar spennt]. Hún er svona:

Vertu yfir og allt um kring

með elífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Rebbi: Þetta er falleg bæn.

Mýsla: Það finnst mér líka. Ég ímynda mér alltaf að Jesús sendi litla sæta engla sem sitja á sænginni minni alla nóttina og passa upp á mig.

Rebbi:  Það er fallegt. Mýsla ertu til í að kenna mér þessa bæn. Krakkar kunnið þið hana? Viljið þið læra hana með mér?

Mýsla: Já, auðvitað. Ég skal kenna ykkur hana. Hermið eftir mér.

[Mýsla segir eina línu í einu og Rebbi og krakkarnir endurtaka saman, eins og í hermibæn]

Vertu yfir og allt um kring

með elífri blessun þinni.

Sitji Guðs englar saman í hring

sænginni yfir minni.

Rebbi:  Vitið þið það, ég er ekki frá því að mér líði aðeins betur núna!

Mýsla: Það er nú gott að heyra.

Rebbi:  Ég ætla að reyna eins og ég get að muna þessa fallegu bæn. Mýsla, við ættum að drífa okkur heim.

Mýsla: Það er rétt. Bless, krakkar! Sjáumst næsta sunnudag.

 

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Tvöfalda kærleiðsboðorðið

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 10:23

Hjálpargögn: Mýsla og Rebbi (derhúfa).

Mýsla:  Komið þið sæl, krakkar. Gaman að sjá ykkur öll. Halló, Rebbi.

Rebbi:  Jó jó jó! Ég er mættur á svæðið.

Mýsla:  Ertu í góðu skapi Rebbi?

Rebbi:  Ég er alltaf í stuði með Guði!

Mýsla:  Það er bara svona.

Rebbi:  Já, ég er nefnilega búinn að finna hlutverk mitt í lífinu. Nú megið þið kalla mig Rebba rappara.

Mýsla:  Rebbi rappari? Það hljómar vel.

Rebbi:  Á ég ekki að sýna ykkur smá tóndæmi?

Mýsla:  Jú endilega.

Rebbi: [Rappar]

Rebbi rappari,

er mættur í hús.

Enginn er hressari,

fæ mér kex og djús.

Allt sem ég segi,

rímar rosa vel,

ég nánast aldrei þegi

Eem … Því… mér finnst gaaman að talaa?.. já og rappa… og… hmm…

Rebbi rappari yfir og út!

Mýsla:  Vá, þetta var sko flott! En ef þú ert með hlutverk á ég þá ekki líka að vera með eitthvað hlutverk? Hvert er mitt hlutverk í lífinu?

Rebbi:  Það getur verið hvað sem er. Ummm . . . Þú gætir til dæmis verið hástökkvari!

Mýsla:  Nei, Rebbi! Ég er bara lítil mús. Ég held ég geti ekki orðið góður hástökkvari [Mýsla verður leið]

Rebbi:  En hvað með forseti Íslands?

Mýsla:  Nei, mýs geta ekki orðið forseti Íslands. Bara fólk.

Rebbi:  Jájá, auðvitað. En kaffismakkari?

Mýsla:  En, en … en mér finnst kaffi ekki gott [Mýsla fer að gráta] Ég er ekki með neitt hlutverk. Þú ert kominn með þitt hlutverk en ég mun aldrei finna mitt.

Rebbi:  [Sýnir samhygð] Æi Ó! Mýsla mín ekki vera leið . . . [Eins og það kvikni á perunni] Aha! Ég veit! Þú ert nú þegar með BESTA hlutverkið.

Mýsla:  Nú, hvað er það?

Rebbi:  Þú ert ótrúlega góð vinkona og alveg frábær mús. Þú gleður mig þegar ég er leiður og hjálpar mér þegar ég þarf á hjálp að halda. Síðan ertu svo skemmtileg!

Mýsla:  Jaá . . . en þá ert þú líka með þetta hlutverk. Þú ert góður vinur.

Rebbi:  Já! Það er af því að við erum ekki bara með eitt hlutverk í lífinu heldur mörg! Þú ert ekki bara góð vinkona. Þú ert líka góð að teikna. Það er eitt af hlutverkunum þínum að vera teiknari.

Mýsla:  [Gleðst] Þetta er satt hjá þér Rebbi, mikið ertu klár.

Rebbi:  Takk. Við erum búin að vera svolítið dugleg að hrósa hvort öðru í dag.

Mýsla:  Já, það er svo gaman að vera góð við hvort annað. Rebbi þú veist að mér þykir rosalega vænt um þig.

Rebbi:  Sömuleiðis elsku Mýsla mín. Þú ert besta vinkona mín. Vissirðu það?

Mýsla:  Uhh, já ég held það. Við erum sko bestu vinir. En það er gaman að heyra þig segja það . . . Æi, við þurfum að fara að koma okkur. Bless krakkar! Munum að vera góð við hvert annað.

Rebbi:  Já! Að vera góður vinur er besta hlutverkið. Bless, krakkar. Bless, bless!

 

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Solla rifjar upp þegar Rebbi fór fyrst í sunnó

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 10:02

Hjálpargögn: Solla og Rebbi (glæra með laginu: Ég í sunnudagaskóla fer).

Solla: [Nafn sunnudagaskólaleiðtoga], þetta var nú svolítið spennandi saga um Jesús 12 ára þegar hann týndist. Það rifjaðist upp fyrir mér þegar hann Rebbi kom í fyrsta sinn í sunnudagaskólann! Það var alveg rosalegt!

Sunnudagaskólaleiðtogi: Rebbi manstu eftir þessu?

Rebbi: urg urg urg [einhver hljóð] Það hefur nú margt breyst í lífi mínu síðan, nú þekki ég Jesú og treysti Guði. Ég er mildari og elskulegri, en ég er samt áfram Refur! Ég er sko rándýr þrátt fyrir allt.

Sunnudagaskólaleiðtogi: Eigum við að leika það fyrir börnin, þegar Rebbi kom í fyrsta sinn í sunnudagaskólann?

Solla: já, gerum það, komdu Rebbi, en syngjum fyrst lagið: Ég í sunnudagaskóla fer . . .

(Lagið sungið) . . .

Sunnudagaskólaleiðtogi: Jæja hefjum leikinn!

Solla: [Er að labba og tralla] Trall la la la la la la la …

Rebbi: [Bregður henni] URRR Buhhh!!!

Solla: Nei, ert þetta þú Rebbi minn?

Rebbi: Já, þetta er ég.

Solla: Hvað ert þú að gera?

Rebbi: Ég er bara að hanga og bora í nefið.

Solla: En spennandi. Vertu blessaður og sæll Rebbi minn.

Rebbi: Blessaður! Hvert ertu að fara Solla, af hverju ertu að flýta þér svona?

Solla: Nú, auðvitað í sunnudagaskólann!

Rebbi: Í sunnudagaskólann! Hvað er nú það? Hver á heima þar?

Solla: Nú, auðvitað Guð og ég er að fara í heimsókn – trall la la la la la [hún raular].

Rebbi: Í heimsókn, nú, hvar er húsið hans Guðs?

Solla: Nú, auðvitað í kirkjunni!

Rebbi: Má ég koma með?

Solla: Auðvitað mátt þú koma með.

Rebbi: Vá! Gaman! Ég ætla að urra og urra og drasla allt út í sunnudagaskólanum, það verður frábært.

Solla: Nei það gengur ekki!

Rebbi: Nú, af hverju ekki? Það verður gaman!

Solla: Nei, við eigum að vera glöð og kát í Sunnudagaskólanum, ekki urra og skemma.

Rebbi: Þá nenni ég ekki að koma með þér.

Solla: Þú missir af mjög miklu.

Rebbi: Nú?

Solla: Já, Rebbi minn, er ekki skemmtilegra að syngja en að urra?

Rebbi: Ég veit það ekki, ég hef aldrei prófað að syngja.

Solla: Þá lærir þú það bara í sunnudagaskólanum

Rebbi: Viltu frekar kenna mér það á leiðinni, mig langar svo að slá í gegn.

Solla: Að slá í gegn – ha, ha, ha, þetta er ekki keppni.

Rebbi: Ekki keppni? En leiðinlegt!

Solla: Já, já, Rebbi minn, vertu bara í þinni fýlu, ég ætla að drífa mig, ég ætla sko ekki að koma of seint af því að ég var að hlusta á urrið í þér. Blessaður, Rebbi minn.

Rebbi: Nei, Solla bíddu! Bíddu! Ég vil koma með þér. Solla, ég ætla ekki að skemma neitt og ég ætla að syngja og vera glaður . . . Solla!! Solla!!!

 

Sunnudagaskólaleiðtogi: Jæja Rebbi minn, þú hefur ýmislegt lært síðan, ekki satt?

Rebbi: Jú, ég elska börn og borða lömb! Ég elska Guð og leik mér við lóur, ég . . .

Sunnudagaskólaleiðtogi: Allt í góðu, þú ert refur, þrátt fyrir allt!

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Engillinn og púkinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Miðv.d., 18/07/2018 - 17:43

Hjálpargögn: Tvær brúður, til dæmis Rebbi og Mýsla.

[Mýsla er ein og talar við sjálfa sig].

Mýsla: [Fliss] … já það væri frábært að stríða þeim … pissa. Taka snuddu. Þurfa að koma fram og fá vatn. Segja frá öllu sem mig hefur dreymt síðustu nætur. Gleyma að ég er búin að segja góða nótt við alla og gera það aftur og …

[Rebbi kemur og er hissa].

Rebbi: Hvað ertu að segja? Við hvern ertu að tala?

Mýsla:  Ó! Ert þú þarna? Ég er nú eiginlega bara að tala við sjálfa mig eða svona prakkarann í sjálfri mér.

Rebbi: Prakkarann? Hvað meinarðu?

Mýsla:  Já, mér finnst oft að ég sé með prakkara eða svona púka á annarri öxlinni sem vill að ég hrekkji og plati. Og svo á hinni öxlinni er engill sem vill að ég geri bara það sem er gott og rétt.

Rebbi: Og hvað voruð þið, þú og prakkarinn þinn, að tala um? Er hann að pissa með snuddu?

 Mýsla: [Stríðnisglott á vör] Nei, sko við vorum að tala um allt sem ég gæti gert þegar ég á að fara að sofa. Ég gæti farið fram úr til að pissa. Svo gæti ég stolið snuddunni af litla bróður, beðið um vatnssopa og bara gert allt það sem gerir mömmu og pabba skemmtilega pirruð.

Rebbi: Viltu að þau verði pirruð?

Mýsla: Neiii, ekkert endilega en það væri bara svo fyndið að gera þetta allt.

Rebbi: Og hefur engillinn á hinni öxlinni ekkert um þetta að segja?

Mýsla: Ekkert skemmtilegt. Hann er alltaf að hugsa um aðra. Engillinn segir bara að mamma og pabbi verði þreytt ef ég geri þetta. Hann segir að þau þurfi að hvíla sig og að litli bróðir vakni og grenji ef að ég tek snudduna hans. Mér finnst það bara svo fyndið. En engillinn segir að þá þurfi einhver að svæfa hann aftur. Æii, engillinn er bara ekki, þú veist, jafn sniðugur og prakkarinn.

Rebbi: Ja hérna. Þetta er áhugavert. Ég ætla að prófa að tala við minn prakkara. Ég hlýt að vera með svoleiðis líka. [Talar við prakkarann í sjálfum sér]. Syngja öll sunnudagaskólalögin. Vera alltaf að hlaupa fyrir og spyrja hvort þetta sé Mjallhvít …

Mýsla: Bíddu! Um hvað eruð þið eiginlega að tala?

Rebbi: Prakkarinn minn var að stinga upp á að ég syngi öll sunnudagaskólalögin og …

Mýsla: [Grípur fram í]. Það er nú ekki mjög prakkaralegt.

Rebbi: Jú, sko að ég syngi þau öll á meðan þú ert að horfa á Hvolpasveitina. Svo myndi ég  hlaupa fyrir sjónvarpið og alltaf þegar það kæmi nýr hvolpur myndi ég spyrja: Er þetta Mjallhvít?

Mýsla: Nei, það er ekkert sniðugt. Prakkarar gera bara það sem er sniðugt.

Rebbi: Já, en mér finnst þetta sniðugt. Heldurðu að litla bróður þínum og foreldrum þínum finnist prakkarinn þinn sniðugur?

Mýsla: Nei, kannski ekki, en mér finnst það!

Rebbi: Einmitt, þess vegna má ég alveg syngja þegar þú ert að horfa á sjónvarpið. Mér finnst það fyndið.

Mýsla: Allt í lagi, ég skil. Prakkarinn er ekki fyndinn ef það er bara mér sem finnst það. Engillinn minn hefur reyndar sagt mér þetta. Oft. Kannski hefur hann rétt fyrir sér. En hvað finnst mér sniðugt og öðrum líka?

Rebbi: Ég er ekki viss. En það hjálpar örugglega að vera ekki að reyna að pirra aðra. Það er alltaf skemmtilegast þegar allir skemmta sér og hafa gaman.

Mýsla: Það er rétt. Hey, prakkarinn og engillinn voru báðir að hvísla svolitlu að mér. Þeir voru sammála um að það væri sniðugt að ég myndi segja brandara. Viltu heyra hann?

Rebbi: Endilega.

Mýsla: Veistu hvað sykurmolin sagði við sítrónuna?  … Vertu ekki svona súr.

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Börn Guðs

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Miðv.d., 18/07/2018 - 17:32

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla.

Mýsla: Komið þið sæl og blessuð.

Rebbi: [Klórar sér í höfðinu og er mjög hugsi]. Halló, krakkar. Halló, Mýsla.

Mýsla: Rebbi, af hverju ertu svona hugsi á svipinn?

Rebbi: Ja . . . hmm . . . Ég er bara búinn að vera að velta svolitlu fyrir mér í allan dag.

Mýsla: Hverju ertu að velta fyrir þér?

Rebbi: Ja, bara allskonar hlutum. Ég hugsa um hitt og þetta. Og þetta og hitt og . . .

Mýsla: Geturðu verið aðeins nákvæmari.

Rebbi: Ég er að spá í lífið og tilveruna, Guð og jörðina og bara allt þar á milli.

Mýsla: Ég skil.

Rebbi: Það er sérstaklega eitt sem ég er búinn að vera hugsa um í allan dag. Ég bara get ekki hætt að hugsa um það.

Mýsla: Hvað er það?

Rebbi: Það er eiginlega spurning: Hvenær hættum við að vera börn?

Mýsla: Hmm . . . Er það ekki bara þegar maður er orðinn eitthvað ákveðið gamall, þegar við verðum fullorðin?

Rebbi: Jú, kannski . . . Hvenær heldurðu að það sé?

Mýsla: Ég myndi giska á svona . . . 15 ára eða 20 ára eða . . . ég veit það ekki alveg.

Rebbi: Eða kannski bara í kringum 30 eða 40 eða?

Mýsla: Já, kannski. Þegar ég hugsa út í það þá er afi mús kannski enn þá barn.

Rebbi: Ha? Hvernig getur hann verið barn? Hann er afi þinn.

Mýsla: Sko. Já, ég veit. Hann er frekar gamall en þegar við förum í sund þá fer hann samt alltaf í rennibrautina.

Rebbi: [Hissa] Í alvöru?!

Mýsla: Einu sinni sagði ég við afa mús að rennibrautir væru bara fyrir börn. Og veistu hvað hann sagði þá?

Rebbi: Nei, hvað sagði hann?

Mýsla: [Hneyksluð] Hann sagði bara: „Já, ég veit“ og svo renndi hann sér niður á fleygiferð.

Rebbi: Vá, en fyndið. Þannig að afi þinn er enn þá barn?

Mýsla: Jaá, greinilega [hugsi].

Rebbi: Það hlýtur bara að vera. Ég heyrði einhvers staðar að maður sé aldrei of gamall til að vera barn Guðs!

Mýsla: Bíddu, ertu að segja að við séum öll börn Guðs sama hvað við erum gömul?

Rebbi: Já, einmitt. Þarna kom svarið við spurningunni okkar! Sama hvað við erum gömul þá erum við alltaf börn Guðs. Þess vegna má segja að maður hætti aldrei að vera barn!

Mýsla: Við munum alltaf vera börn Guðs. Alveg að eilífu.

Rebbi: Jebb.

Mýsla: Góð pæling hjá þér Rebbi.

Rebbi: Jebbs.

Mýsla: Eigum við að drífa okkur heim og athuga hvort afi mús sé til í að fara með okkur í sund?

Rebbi: Já, það væri gaman.

Mýsla: Við skulum kveðja krakkana. Við þurfum að fara núna krakkar. Takk fyrir í dag. Bless, bless.

Rebbi: Bless!

 

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Afmæli Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Miðv.d., 18/07/2018 - 16:40

Hjálpargögn: Mýsla og Rebbi

Rebbi:  Sæl, öllsömul!

Mýsla:  Halló!

Rebbi:  Ég er orðinn svooo spenntur fyrir afmælinu!

Mýsla:  Ha? Hvaða afmæli?

Rebbi:  Nú afmæliNU!

Mýsla:  Hvað meinarðu Rebbi?

Rebbi:  Ég er auðvitað að tala um aðal afmælisveisluna.

Mýsla:  Nú … æji, mér var ekki boðið í neitt afmæli á næstunni …

Rebbi:  Jú, þér er boðið!

Mýsla: Ha? Ertu viss?

Rebbi:  JÁHÁ, öllum í heiminum er boðið!

Mýsla:  Um hvað ertu að tala?

Rebbi:  Stærsta afmælispartý ársins. Og það er sko árlegt.

Mýsla:  Rebbi, nú verður þú að útskýra þetta betur fyrir mér. Ég skil hvorki upp né niður. Hver á eiginlega afmæli?

Rebbi:  Nú Jesús auðvitað!

Mýsla:  Jaá [fattar]. Ertu að tala um jólin?

Rebbi:  Jebbs, afmælið hans Jesú.

Mýsla:  Ég var ekki búin að hugsa út í þetta. En gaman! Afmæli eru svo skemmtileg.

Rebbi:   Það finnst mér líka … Hvernig er drauma afmælisveislan þín Mýsla?

Mýsla:  Hmm … á tunglinu!

Rebbi:  Ha? Á tunglinu? Af hverju á tunglinu?

Mýsla:  Því að tunglið er úr osti og allir vita að músum finnst ostur góður. Ég er bara að grínast!

Rebbi:  Haha, þú er fyndin. En hvernig heldur þú að Jesús vilji hafa afmælisveisluna sína?

Mýsla:  Hmm … Ég held að hann dansi uppi í himnaríki með öllum englunum og allir borði piparkökur og skemmti sér saman. Hvernig heldur þú að Jesús vilji halda upp á afmælið sitt?

Rebbi:  Ég held að Jesús vilji mest af öllu að við séum glöð og ánægð og góð hvert við annað. Hann er örugglega ánægður með að við fögnum afmælinu hans með fjölskyldu okkar og vinum.

Mýsla:  Já, það er örugglega rétt hjá þér. Kannski er það þess vegna sem við erum alltaf að reyna gleðja hvort annað um jólin. Með því að gleðja hvort annað erum við að gleðja Jesú.

Rebbi:  Akkúrat. Það er svo gott að gleðja aðra.

Mýsla: Og óska hvert öðru gleðilegra jóla. Gleðileg jól, Rebbi minn! Gleðileg jól, krakkar! Ég vona að þið hafið það gott yfir jólin.

Rebbi: Já, hafið það gott. Gleðileg jól!

 

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Fæðing Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 17/07/2018 - 23:27

Talið endilega yfir Holy Moly myndböndin og útskýrið fyrir börnunum það sem er í gangi
Hér að neðan er smá texti ykkur til aðstoðar.

Á hæðunum fyrir ofan Betlehem voru fjárhirðar að gæta hjarðar sinnar. Stjörnurnar blikuðu á himninum og allt var svo kyrrt og hljótt. Einn hirðanna var alveg við það að sofna og hann reyndi allt sem hann gat til þess að halda sér vakandi. Hann sló sig í framan til að halda vöku, en allt kom fyrir ekki, hann sofnaði hægt og hljótt.

Allt í einu varð bjart eins og um hábjartan dag! Hirðarnir urðu óttaslegnir. Á himninum voru fallegir englar sem sungu himneskt lag. Hirðarnir féllu allir meðvitundarlausir til jarðar. Einn hirðirinn vaknaði og varð skelfingu lostinn. Hann hrópaði upp yfir sig og veinaði eins og stunginn grís. Englinum tókst ekki að fá hann til að hætta að öskra. Hann reyndi að fá englana til að syngja fyrir hann, en allt kom fyrir ekki. Hirðirinn veinaði og grét. Engillinn tók hann þá í fangið og ruggaði honum eins og ungabarni. Öll þessi öskur og læti vöktu hina hirðana. Engillinn stakk snuddu upp í hávaðasama hirðirinn og við það komst værð á hann. Hann sofnaði eins og ungabarn og hinir hirðarnir horfðu undrandi á.

Engillinn sagði við þá: – Verið óhræddir, því ég boða ykkur mikinn fögnuð. Frelsarinn er fæddur og þið getið fundið hann í litlu fjárhúsi í Betlehem. Nú komu fleiri englar og þeir sungu: Dýrð sé Guði í upphæðum og friður á jörð yfir mönnunum sem hann hefur velþóknun á.

En fjárhirðarnir trúðu honum ekki fyrr en hirðirinn með snudduna vaknaði og endurtók það sem engillinn hafði sagt þeim. Hirðirinn rauk á undan hinum fjárhirðunum niður til Betlehem og þeir flýttu sér á eftir honum.
Engillinn var virkilega feginn að sjá á eftir þeim að hann fékk alla englana til að syngja af fögnuði.

Þegar hirðarnir komu að fjárhúsinu í Betlehem þorðu þeir ekki að banka á dyrnar, en þegar þeir höfðu safnað nógu miklum kjarki til þess að banka kom beljan Búkolla til dyra og bauð þeim inn með “muhhuinu” sínu. Inni í fjárhúsinu voru María og Jósef ásamt nýfæddum Jesú sem lá í jötu. Hirðarnir gengu inn og litu á Jesú og urðu svo glaðir og ánægðir að sjá hann að hjörtu þeirra fylltust af trú og kærleika.

Flokkar: Efnisveitur

Hver er Jesús II – Týndi sonurinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 16/07/2018 - 21:00

Samvera 12a

Jesús er alltaf tilbúinn að fyrirgefa okkur. Þess vegna eigum við einnig að fyrirgefa hvert öðru. Þegar við fyrirgefum öðrum verður Jesús glaður. Jesús sagði vinum sínum merkilega sögu um fyrirgefninguna. Einu sinni var maður sem átti tvo stráka. Þeir voru mjög ólíkir. Dag nokkurn sagði yngri strákurinn við pabba sinn að hann vildi fara burt og skoða heiminn. Pabbi hans lét hann hafa fullt af peningum og leyfði honum að fara þótt að hann hefði nú heldur viljað að sonurinn yrði kyrr heima. Nú tók strákurinn með sér mat og stakk peningunum í veskið. Pabbi hans horfði hryggur á eftir honum.

Samvera 12b

En strákurinn var ekki skynsamur. Hann fór ekki að vinna eða læra heldur eyddi hann öllu sem hann átti og var í slæmum félagsskap. Einn daginn voru allir peningarnir búnir úr veskinu hans og þá voru líka allir vinirnir horfnir. Hvað átti hann að gera aumingja drengurinn, aleinn, í burtu frá öllum sem hann þekkti? Honum var sparkað út úr húsinu sem hann bjó í og var bara aleinn úti á götu. Strákurinn hitti bónda og spurði hvort hann gæti fengið að vinna sér fyrir mat þar á bænum. Bóndinn sagði að hann gæti verið svínahirðir hjá sér. Það var ekki gaman að vera svínahirðir. Það var vond lykt í svínastíunni og strákurinn var mjög sorgmæddur. Hann þurfti meira að segja að borða svínamat. Einn daginn var hann búinn að fá nóg. Hann ætlaði heim til pabba síns og fá vinnu hjá honum.

Samvera 13a

Svo lagði strákurinn af stað heim. hann var áhyggjufullur. Kannski vildi pabbi hans ekki sjá hann aftur. Hann hafði verið svo óskynsamur. En nú var hann næstum kominn heim. hann sá húsið og pabba sinn fyrir utan. Pabbi hans sá son sinn koma og réð sér varla fyrir fögnuði. Sonurinn sagði nú við pabba sinn: „Elsku pabbi! Ég hef gert margt rangt og ljótt og þorði varla að koma aftur heim til þín!“ En pabbi hans faðmaði hann að sér og sagði: „Elsku sonur minn, þú ert velkominn.“ Og hann kyssti son sinn. Heldurðu ekki að strákurinn hafi verið feginn og glaður?

Samvera 13b

Pabbi stráksins sem fór að heiman og eyddi öllum peningunum í vitleysu, kallaði nú hátt til að allir á bænum heyrðu: „Sonur minn er kominn aftur heim! Náið í ný föt handa honum og látið gullhring á fingur hans. Nú verður glæsileg veisla.“ Pabbinn sagði nú við eldri strákinn sinn sem alltaf hafði verið heima: „Bróðir þinn er kominn heim. Komdu! Ég hélt að hann væri dáinn, en nú er hann kominn, ég er svo glaður.“ Eldri bróðirinn var fúll við pabba sinn fyrir að vera svona glaður að fá son sinn til baka sem hafði klúðrað öllu. En pabbinn var tilbúinn að fyrirgefa. Hann vissi að strákurinn hans hafði lært af mistökum sínum og vildi bæta ráð sitt. Þessa dæmisögu sagði Jesú vinum sínum til að minna þá á að hann væri alltaf tilbúinn að fyrirgefa þeim þótt þeir gætu klúðrað ýmsu. Jesús hrindir fólki aldrei frá sér heldur gleðst yfir því eins og pabbinn gerði þegar strákurinn sneri aftur. Hefur þú einhvern tíma beðist fyrirgefningar?

Flokkar: Efnisveitur

Hver er Jesús II – Á bjargi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 16/07/2018 - 20:53

Samvera 11b

Einu sinni sagði Jesús vinum sínum merkilega dæmisögu. Einu sinni voru tveir menn sem vildu byggja hús. Annar ákvað að byggja húsið sitt á sandi. Það var svo auðvelt að grafa í sandinn og byggja húsið þar. Þegar húsið var tilbúið fór að rigna. Það rigndi og rigndi. En húsið sem var byggt á sandi flaut af stað í allri rigningunni og hrundi. En svo var það maður sem byggði sitt hús á bjargi. Það var ekki auðvelt en maðurinn lagði mikið á sig til að geta byggt á bjarginu. Þegar húsið var tilbúið fór að rigna og það rigndi alveg óskaplega mikið. En ekkert gat hreyft við húsinu á bjarginu, það stóð alveg fast. Vinir Jesú eru eins og maðurinn sem byggði húsið á bjargi. Vinir Jesú geta verið öruggir.

Flokkar: Efnisveitur

Hver er Jesús II – Gerum heiminn betri

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 16/07/2018 - 20:44

Samvera 5b
Hvernig getum við unnið með Jesú og gert heiminn betri?
Við getum gert það með því að elska annað fólk og okkur sjálf.
Við getum gert það með því að vera kurteis og tillitsöm við aðra.
Ertu ekki alltaf kurteis?
Við getum hjálpað Jesú að vernda náttúruna.
Við verðum að passa að við og aðrir hendi ekki rusli og eyðileggi ekki gróður.
Hefurðu séð rusl á jörðinni?

Flokkar: Efnisveitur

Hver er Jesús II – Jesús og börnin

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 16/07/2018 - 20:34

Til leiðbeinanda: Reynið að kalla fram umræður um myndirnar og texta. Ef þið fáið engin viðbrögð spyrjið þá nánar og reynið að laða fram athugasemdir barnanna. Úr gæti orðið skemmtilegar umræður barna og leiðbeinenda um Hver Jesús er! Bætið við spurningum frá eigin brjósti út frá myndunum ef tækifæri gefst.

Samvera 1a

Margir þekkja Jesú.

En Jesús þekkir alla.

Jesús þekkir þig svo vel að hann veit hvað þú ert með mörg hár á höfðinu.

Veistu hvað hárin eru mörg á höfðinu á þér?

Eigum við að prófa að telja? (Leyfa börnunum að byrja að telja).

Jesús vill að þú sért barnið hans og hann vill vera besti vinur þinn.

Viltu vera barnið hans Jesú?

Samvera 1b

Þótt þú sért barnið hans Jesú, ertu áfram barnið þeirra mömmu og pabba. En Jesús vill hjálpa þeim að ala þig upp og gæta þín.

Finnst þér það ekki frábært? Jesús þekkir þig. Þekkir þú hann líka?

Þú getur kynnst honum með því að hlusta.

Hvernig geturðu skilið Jesú?

Þú getur skilið Jesú með því að hlusta á sögurnar um hann í Biblíunni og biðja til hans.

Samvera 2a

Einu sinni sat Jesús með vinum sínum undir tré.

Hann var að segja þeim sögur. Það voru margir sem þekktu Jesú og vildu hlusta á hann. Sum þeirra sem þekktu Jesú áttu lítil börn.

Þau langaði til að koma með börnin sín til hans.

Af hverju heldurðu að þau hafi viljað það? (T.d. vildu þau láta Jesú snerta þau og blessa).

Sjáið þið nokkuð barn á myndinni?

Samvera 2b

Foreldrarnir ákváðu að taka litlu börnin sín með sér til Jesú. Allir hlökkuðu til að hitta þennan merkilega mann sem er guðssonur.

Sumir komu gangandi, aðrir hlaupandi. Auðvitað urðu mamma og pabbi að halda á yngstu börnunum. Halda mamma og pabbi stundum á þér? Finnst þér það ekki gott? Jesús vill halda á okkur öllum í fangi sínu. Líka mömmu og pabba. Sérstaklega þegar okkur líður illa. Líður þér stundum illa? Heldurðu að mömmu og pabba líði stundum illa? Þá er gott að vita að Jesús vill hjálpa þeim og hugga þau, þótt þau séu orðin fullorðin og geti næstum allt. Þeir sem eru fullorðnir þurfa líka að eiga vini og fá hjálp. Jesús er sannur vinur.

Samvera 3a

En þegar fólkið kom með börnin sín að trénu þar sem Jesús var að segja sögur, komu lærisveinarnir hans á móti fólkinu og þeir stoppuðu það. Þeir sögðu: „Farið burtu, þið megið ekki láta börnin trufla Jesú. Jesús er þreyttur. Hann er búinn að tala í allan dag.“ Börnin og fullorðna fólkið námu staðar. Hvað var nú þetta? Bíddu! Máttu börnin ekki koma til Jesú? Þetta var mjög leiðinlegt. Sum börnin hafa örugglega farið að gráta. Þau langaði svo mikið til að tala við Jesú, en nú var þeim bannað það. Þau voru orðin svo spennt og svo máttu þau ekki hitta þennan góða mann. Jesús heyrði hvað lærisveinarnir sögðu og hann varð mjög sorgmæddur og sagði: „Leyfið börnunum að koma til mín. Mér þykir vænt um þau og vil hafa þau hjá mér.“

Samvera 3b

Nú urðu foreldrarnir fegnir og börnin urðu heldur en ekki glöð! Þau hlupu til Jesú og vildu vera nálægt honum. Jesús faðmaði þau að sér og blessaði þau, og svo sagði hann þeim margar skemmtilegar sögur.

En það var ekki allt. Því hann talaði við börnin og foreldra þeirra lengi.

Sum barnanna fengu meira að segja að sitja í fanginu á honum. Það var stórkostlegt að Jesús skyldi tala alvarlega við lærisveinana og ekki leyfa þeim að ráða. Því nú vita börn út um allan heim að þau mega líka vera hjá Jesú. Jafnvel þótt hann hafi verið búinn að vinna mikið og verið þreyttur gat hann elskað, skilið og blessað börnin. Þessi saga segir okkur frá því að Jesús er barnavinur mesti. Hvernig fannst þér þessi saga af börnunum og Jesú?

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Boðun Maríu

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 16/07/2018 - 20:08

Talið endilega yfir Holy Moly myndböndin og útskýrið fyrir börnunum það sem er í gangi
Hér að neðan er smá texti ykkur til aðstoðar.

María er ung og ósköp venjuleg stúlka sem á kærasta sem heitir Jósef. Þau eru mjög skotin í hvort öðru. Jósef bað Maríu um að verða konan sín. Hún roðnaði og játaðist honum og hann kyssti hana glaður í lund og svo rauk hann aftur í vinnuna. María flissaði feimin yfir þessu öllu saman.
Á meðan, fyrir ofan skýin, svifu englarnir og spiluðu á hörpustrengi. Gabríel engill svaf vært á einu skýinu. Þar til Guð kallaði á hann og vakti hann upp af værum blundi. Gabríel flaug upp að hliðum himnaríkis og lét Guð vita að hann væri reiðubúinn í verkefni dagsins. Guð sagði honum að hann ætti að fljúga til Maríu og láta hana fá skilaboðin að hún myndi verða ólétt af guðssyni sem allir hafa beðið eftir. Gabríel engill vissi að þetta yrði ekki auðvelt verkefni, en hann var til þjónustu reiðubúinn. María var að gefa dýrunum þegar Gabríel engill lenti kylliflatur fyrir framan hana. (Holy Moly sögurnar verða stundum svolítið ýktar fyrir sunnudagaskóla börnin. Útskýrið vel). Hann var svolitla stund að ná áttum og koma skilaboðunum til hennar. María skildi ekki alveg hvað Gabríel engill vildi í fyrstu, en svo rétti hann henni bréfið frá Guði. En þar stóð: ,,Heil vert þú, sem nýtur náðar Guðs! Drottinn er með þér.” En hún varð hrædd við þessi skilaboð og hugleiddi, hvílík þessi kveðja væri. Og engillinn sagði við hana: ,,Óttast þú eigi, María, því að þú hefur fundið náð hjá Guði. Þú munt þunguð verða og son ala, og þú skalt láta hann heita Jesú. María ímyndaði sér hvernig það væri að vera ólétt og leist ekkert á blikuna. Hún varð hrædd og sendi Gabríel engil í burtu. Hann flaug aftur upp að hliðum himnaríkis og Guð spurði hann hvernig verkefnið hefði gengið. Þegar Gabríel sagði Guði að ekkert hefði gengið að sannfæra Maríu. Þá sendi Guð hann aftur til jarðar. Þegar María sá engilinn lenda fyrir framan sig enn einu sinni, hljóp hún í burtu. Gabríel engill elti hana hring eftir hring kringum húsið. Þar til hann varð svo þreyttur og leiður að hann flaug upp til himna. Þá fékk María loksins smá svigrúm til þess að ímynda sér hvað það gæti verið gaman að eiga barn. Hjalandi lítið barn í fanginu sem hún kyssir og knúsar, en þegar þessi fallega mynd í höfðinu á henni gufar upp þá brotlendir aumingja Gabríel engill enn einu sinni mjög harkalega við hlið hennar. Hann réttir henni bréfið með aumkunarverðum svip og María vorkennir honum svo mikið að hún tekur við bréfinu og samþykkir beðni Guðs. Engillinn verður mjög hissa á þessum viðbrögðum Maríu.
Jibbí jei! hugsar Gabríel glaður í bragði og flýgur upp til himna, en þar bíður hans önnur mikilvæg verkefni.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Sakkeus

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 16/07/2018 - 16:15

Talið endilega yfir Holy Moly myndböndin og útskýrið fyrir börnunum það sem er í gangi.
Hér að neðan er smá texti ykkur til aðstoðar
Sakkeus

Flokkar: Efnisveitur

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Efnisveitur