Efnisveitur

Helgileikur með einföldu sniði

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 10/12/2018 - 20:34

Helgileikur með einföldu sniði
Bryndís Svavarsdóttir setti saman.

Smá formáli

Þessi helgileikur var fyrst fluttur 2012 af börnum í æskulýðsstarfi Ástjarnarkirkju Hafnarfirði. Helgileikurinn var svo ljúfur í framkvæmd, ekkert stress yfir að muna texta, að hann var fluttur þar aftur 2013, 2014 og 2015. Árið 2015 var hann fyrst fluttur í Víðistaðakirkju af börnum í æskulýðsstarfi þar og hefur verið árviss í helgihaldi þar síðan. Það sem gerir flutninginn svo einfaldan er að aðeins ein persóna er sögumaður og mæli ég með að það sé fullorðinn einstaklingur. Eftir því sem frásögninni vindur fram leika allir sín hlutverk. Fyrsta árið, lét ég leikarana ganga inn í salinn þegar kom að hlutverki hvers og eins (aðallega vegna þröngs húsakosts og plássleysis) en það hafði þann ókost að þeir sem komu inn síðast misstu af sögunni. Í Víðistaðakirkju sá ég að það væri hentugra að láta leikarana sitja á fremsta bekk (líka hægt að nota aftasta bekk) og láta þá ganga upp á leiksviðið þegar að þeim kom. Allra nauðsynlegustu leikarar eru, Jósef, María, 1 hirðir, vitringur og engill… en eftir því sem fleiri leikarar eru til staðar má fjölga hirðum, vitringum og englum og einnig er hægt að bæta við keisara og hermanninum sem tilkynnir um skrásetninguna. þá er mjög fallegt ef það er hægt að hengja stjörnu (skemmtilegt ef hún glitrar) yfir fjárhúsinu og einhver í sal (eða vitringur) gæti lýst á hana með vasaljósi þegar minnst er á stjörnuna í sögunni.

Skoðið fylgiskjöl hér að neðan

Flokkar: Efnisveitur

Söngvar – Fyrirgefningin

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 29/10/2018 - 14:42

Hér að neðan eru tilvalin lög fyrir þessa samveru

Árlegur baráttudagur gegn einelti er 8. nóvember.

Flokkar: Efnisveitur

Söngur með hreyfingum

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 23/10/2018 - 12:08

Hér að neðan eru nokkur lög með hreyfingum fyrir kirkjustarfið


Hér er betri útskýring á laginu TAKK

Flokkar: Efnisveitur

Sálmari

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - lau, 08/09/2018 - 21:07

Tónlistarsmiðjan

Flokkar: Efnisveitur

Kennslumyndbönd

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - sun, 26/08/2018 - 21:19

Það verða gerð fleiri myndbönd og þetta verður endurgert síðar í haust. Njótið þar til ný myndbönd birtast.

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Rusl og drasl

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - sun, 26/08/2018 - 18:17

Hjálpargögn: Mýsla, Rebbi, jakki með vösum á Rebba og tissjú.

Mýsla: Halló Rebbi.

Rebbi: Halló krakkar og halló Mýsla.

Mýsla: Halló krakkar. Eru ekki allir kátir í dag? Þetta á sko eftir að verða frábær dagur.

Rebbi: Ég er mjög spenntur fyrir deginum í dag. Það er nefnilega svo margt að fara að gerast. (æðir um og sönglar). Sko fyrst er það sunnudagaskólinn, svo ætla ég að kíkja með músapésa á skauta/skíði/niðrá höfn (missir tissjú og heldur svo áfram að æða um) svo er ég að fara til frænda í vöfflur og svo til ömmu í heimsókn og svooo . . . tralalalaaa!

Mýsla: (Hneyksluð og grípur frammí) Rebbi. Tekurðu ekki upp eftir þig?!

Rebbi: Hvað meinarðu? (Æðir áfram) Amma gerir bestu lambasteikina. Það verður þvílík veisla að mæta til hennar í mat . . . (slurf) . . . og svo gerir hún frábæra . . .

Mýsla: (grípur frammí) Rebbi, Rebbi! Sástu ekki að þú misstir niður pappír eða bréf á gólfið?

Rebbi: (horfir á tissjúið) Þetta er svo lítið. Skiptir ekki máli. (æðir áfram) Ég hlakka svo til . . . (sönglar)

Mýsla: Ha! Hvað meinarðu Rebbi? Ætlarðu ekki að taka upp eftir þig?

Rebbi: Nei, til hvers? Það kemur einhver og tekur það og fer með það í ruslið. Ég hef aldrei þurft að tína neitt upp eftir mig.

Mýsla: Hver mun koma og taka upp eftir þig Rebbi?

Rebbi: Ha?! Ég veit það ekki, en ég hef aldrei þurft að taka neitt upp eftir mig. Var ég búinn að segja þér frá eftirréttinum sem amma gerir?! . . . Namm ég fæ alveg vatn í munninn við tilhugsunina.

Mýsla: Nú er ég hissa, ég hélt að þú værir duglegri að hugsa um jörðina Rebbi og skildir ekki rusl eftir hér og þar.

Rebbi: Ég er ekki með neinn ruslapoka á mér. – Langar þig ekki til að heyra hvaða eftirrétt amma gerir svo vel?

Mýsla: Jú, en ég myndi fyrst vilja að þú tækir upp pappírinn og settir hann í vasann eða héldir á ruslinu þar til þú sérð ruslatunnu og hentir því í hana.

Rebbi: Æi, Mýsla. Þetta er bara eitt pinkulítið bréf. Það tekur engin eftir því. Svo nenni ég ekki að halda á því og nú er það orðið svo skítugt að ég vil ekki setja það í vasann.

Mýsla: Rebbi, ef allir hugsuðu svona myndi jörðin vera full af rusli og drasli. Veistu hvað það eru margir sem búa á jörðinni??

Rebbi: Nei (skömmustulegur).

Mýsla: Það eru um sjö og hálfur milljarður manna og ef allir hentu ruslinu sínu þar sem þeir stæðu þá væri bara allt í rusli. Viltu búa þar sem það er allt í drasli, Rebbi?

Rebbi: (Skömmustulegur og tekur upp tissjúið) Nei. Ég vil búa þar sem það er hreint og fínt. Eins og hjá ömmu. (Krakkar sjáið þið ruslatunnu þar sem ég get hent tissjúinu?)

Mýsla: Frábært að heyra Rebbi (fegin). Gott að þú tókst upp tissjúið. Kannski geturðu hjálpað ömmu þinni í kvöld þegar þú ferð í heimsókn til hennar. Hjálpað henni með uppþvottinn og að ganga frá leirtauinu. Það er svo gott að fá hjálp annað slagið og ef við hjálpumst að við að halda jörðinni hreinni þá verður allt miklu léttara.

Rebbi: Já eins og segir í máltækinu. Margar hendur vinna létt verk.

Mýsla: Alveg rétt Rebbi minn. Mikið er ég stolt af þér. Var ég búin að segja þér að ég ætla að fara að plokka á eftir sunnudagaskólann. Kemurðu með? Það er mjög skemmtilegt.

Rebbi: Hvað er að plokka?

Mýsla: Það er að tína rusl sem er á víðavangi. Þá verður allt svo miklu hreinna í kringum okkur og okkur líður svo miklu betur þegar það er hreint. Kemurðu með? Þú mátt taka Músapésa með.

Rebbi: Við ætluðum á skauta/skíði/niðrá höfn.

Mýsla: Það er ekkert mál. Við tökum bara með okkur poka og tínum rusl í leiðinni.

Rebbi: Sniðug ertu Mýsla.

Mýsla: Rebbi, drífum okkur út að leika okkur að tína rusl. Komdu! Bless krakkar! (Flýtir sér í burtu).

Rebbi: Krakkar, ekkert rusl, er ekkert rugl! Ekkert drasl og  . . . lífið . . . lífið er betra . . . ööö (má reyna fleiri misheppnuð máltæki) Hehehe! Bless krakkar!

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - lau, 25/08/2018 - 10:26

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla.

(Rebbi syngur á bak við)  Hér mætir Rebbi, sjá! – með mjóa kló á tá. (Rebbi birtist)

Í sunnudagaskólann kominn til að heyr’og sjá 

          Sögurnar um Guð

          Og farí svaka stuð

          Og syngja með hinum og þessum vinum

          Sem öll eru stórmögnuð

(þessu feitletraða má alveg sleppa)

Mýsla: Halló krakkar, mikið er gaman að hitta ykkur og hæ Rebbi.

Rebbi: Hæ Mýsla, halló krakkar! Ég er kominn!  Mikið er gaman að sjá ykkur,  og munið “öll dýrin í skóginum eiga að vera vinir” Jæja, þá er þetta nú orðið gott í dag. Bless!

Mýsla: Bíddu bíddu bíddu – Rebbi?! Ertu orðinn svona agalega spenntur?

Rebbi: Heldur betur.  Ég hlakka alveg ógurlega til. Það er svo langt síðan ég hef farið í leikhús.

Mýsla: Ég hlakka líka mikið til, þetta verður svo skemmtilegt ! Ég hef aldrei séð Dýrin í Hálsaskógi áður og hefur alltaf langað – (hafið þið séð Dýrin í Hálsaskógi krakkar? )

Rebbi: Hefurðu aldrei séð?! Í alvöru? Ég hef séð Dýrin grilljón sinnum.  Og grilljón er meira en 10.  Ég hef sko einu sinni leikið Mikka ref þegar ég var í skátunum (raular). Hér mætir Mikki, sjá! Með mjóa kló á tá og mjúkan feld . . .

Mýsla: Varstu í skátunum?

Rebbi: Já maður. Yrðlingur.  Það var rosa gaman. Nema ég var ekki flinkur með alla hnútana – ég festi mig alltaf.

Mýsla: Hahaha! Rebbi klaufi.

Rebbi: Já – ég er það stundum. En jæja – eigum við ekki að drífa okkur?

Mýsla: Bíddu aðeins elsku Rebbi minn. Ertu kominn í fínu leikhúsfötin?

Rebbi: Jebbs.  Nema ég á ekki svona herdúfu eins og Mikki er alltaf með, mig hefur alltaf langað í svoleiðis

Mýsla: Ha? Her-dúfu?? Hvað er nú það?

Rebbi: Svona á hausinn á manni?

Mýsla: Ó? Áttu við der-húfu?

Rebbi: Einmitt! Það sem ég sagði

Mýsla: Jæja Rebbi minn – og ég er með miðana okkar og þá held ég að við ættum kannski bara . . . aaaaaaaatsjúh!

Rebbi: Já ! Piparkökusöngurinn hann er skemmtilegur (syngur) “breiða þær svo út á fjöööl atshúh!  Hahaha . . . Hann hnerraði svo af piparnum.

Mýsla: Aaaaaaahtjússh!

Rebbi: Einmitt! Þú hljómar alveg eins og bakaradrengurinn.  En nú skulum við fara – hah – nú næ ég þér amma mús og láttu ekki eins og þú sért ekki þarna – ég sé þig vel! Komdu nú.

Mýsla: Dólegur . . . Debbi – Hva? Hvað hefur gomið fyrir döddina í béh?

Rebbi: Döddina í béh?  Hvað segirðu?

Mýsla: Óneiiiiii – Aaathúh – ég e oddin lassin

Rebbi: Lasin? Nei það má ekki.  Uuu – ertu með hita? Má ég finna?  (leggur loppu á eyrað á Mýslu)

Mýsla: Hahahah bi kítlaaaaaaathúh!  Fydigebbu.

Rebbi: (þurrkar framan úr sér hnerrið) Ekkert að fyrirgefa.  En elsku Mýsla mín,  heldurðu að þú komist í leikhúsið?

Mýsla: Úff. É vedd a deggi.

Rebbi: Þarftu að hneggja?  Ertu með hestaflensu?  Ég hef heyrt um fuglaflensu – en hestaflensa hlýtur að vera miklu miklu verri – þetta er hræðilegt!

Mýsla: Nei – ég daf að leggjaht!  É geteggi fadid – þú veddur að fara einn

Rebbi: En, æji – ertu alveg viss?

Mýsla: Debbi minn – þú hefur hlakkað svo óskaplega til  – aaatjúh!

Rebbi: Reyndar.  En – Mýsla. (Tekur ákvörðun) Öll dýrin eiga að vera vinir. Og vinir yfirgefa ekki vini sína.

Mýsla: Ga meinaddu?

Rebbi: Það þarf einhver að hjúkra þér. Og – þú hefur aldrei séð  Dýrin í Hálsaskógi og ef þú getur ekki farið að sjá Dýrin. Þá koma Dýrin til þín.

Mýsla: É gil þig eggi?  Atjúh!

Rebbi: Ég leik bara fyrir þig Dýrin – ég er alveg jafn góður leikari og hann Spói. Nei, Kjói? Bófi?

Mýsla: Gói!

Rebbi: Það sem ég sagði! Komdu nú – þú mátt ekki smita krakkana. Nú ferð þú undir sæng og ég ætla að syngja fyrir þig (syngur) Dvel ég í draumahöll – bless krakkar!

Mýsla: Takk esssgu Debbi minn. Mikið ertu góður.  Bless Gakkaaah.

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Hver er mestur?

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - lau, 25/08/2018 - 10:02

“Happening leikhús”

Leiðbeinandi er sögumaður og tvær brúður. Leiðbeinandi situr fyrir framan krakkana með brúðurnar / tveir leiðbeinendur með sitthvora brúðuna.  Mega vera músabörn eða hvaða brúður sem er, en ekki Rebbi.  Annars er líka hægt að opna með því að segja “segjum að þetta sé Jakob og þetta sé Jóhannes…” og kynna þannig þá félaga til leiks.

 

Sögumaður:

Komið nær.  Hlustið vandlega.  Ég ætla að segja ykkur söguna af því þegar að tveir af lærisveinunum héldu að þeir væru merkilegri en allir hinir.

Vitiði hverjir lærisveinarnir voru?  Það voru menn sem hættu að gera nokkuð annað en að elta Jesú hvert sem hann fór og að læra af honum. Þegar Jesús steig svo upp til himnaríkis og fór til Guðs, héldu þeir áfram að ferðast út um allt og sögðu fólki frá Guði.

Lærisveinarnir voru tólf.  En auðvitað hitti Jesú rosalega mikið af fólki og var þá með lærisveinana með sér. Tveir af þessum 12 voru bræður. Þeir hétu Jakob og Jóhannes. Einhvern tíma voru þeir pínu þreyttir eftir langt ferðalag. Þeir höfðu hitt á svo margt fólk á leiðinni og upplifað svo margt. Jakob var sofnaður en Jóhannes var voðalega mikið hugsi.

Brúður

Jóhannes: Jakob

Jakob: zzZzzZzzz . . .

Jóhannes: Jakob? JAKOB?!

Jakob: zZzzZzzz . . . nei mig langar ekki í spaghetti . . .

Jóhannes: KOBBI KÁTI!

Jakob: zZzzz…………mmmm (smjatt smjatt)  úlfaldabollur . . .

Jóhannes: (fær hugmynd)  ÞAÐ ER KOMINN MATUR!

Jakob: (vaknar) Ég kem (teygir úr sér) Aaaah.  Jæja, hvar er maturinn?

Jóhannes: Það er enginn matur. Þú hraust bara svo hátt

Jakob: Vaktirðu mig til að segja mér að það sé ekki matur?! Hvers lags bróðir ert þú eiginlega?

Jóhannes: Ég er frábær bróðir. Langbesti bróðir þinn.

Jakob: Þú ert eini bróðir minn. Svo þú gætir líka verið versti bróðir minn.

Jóhannes: Hættu þessu röfli og hlustaðu nú. Sko! Sko, ég var að hugsa.

Jakob: Æji nei.

Jóhannes: Jú sko, ég var að hugsa. Veistu, ég held að Jesú þyki vænna um okkur en hina lærisveinana.

Jakob: Nú ? Já, þú meinar . . . heldurðu það?

Jóhannes: Já, ertu ekki sammála?

Jakob: Ehh . . . Jú, jú veistu, ég held það bara.

Jóhannes: Sko ég held nefnilega að honum þyki vænna um okkur en hina af því að við erum svo sérstakir og góðir

Jakob: Já!   Og . . . og af því að við erum sterkari og líkari – Miklu líkari en hinir.

Jóhannes: og skynsamari!

Jakob: og mjórari!

Jóhannes: Mjórari? Hvað er það??

Jakob: Við erum mjóir??

Jóhannes: Mjah. Þú ert nú ekki mjór Kobbi minn.  En það skiptir engu hvort maður er mjór eða feitur? Og svo segir maður mjórri, en ekki mjórari.

Jakob: Nú?! Segir maður það? Það er asnalegt.   Mjór-mjórari.

Jóhannes: Jæja. Nú er ég frekar hár, myndirðu segja að ég sé hárari en þú ?

Jakob: Já.  Ef þú meinar loðnari.  Þú ert meira að segja með hár á bakinu.  Og á fótunum.  Og á . . .

Jóhannes: (dæsir) Hættu nú!

Jakob: (hvíslar) höndunum . . . á tánum . . . (glottir)

Jóhannes: Allavega.  Við erum þá líklega mestir af lærisveinunum.

Jakob: Kúl.

Jóhannes: MJÖG kúl.

Bið

Jakob: Jói mjói.

Jóhannes: hmmmm?

Jakob: Jói spói

Jóhannes: Já??

Jakob: Sko – Þegar Jesús er farinn til himna . . .

Jóhannes: Já?

Jakob: Ætli við fáum þá að sitja í hásætinu hjá honum ? Þá sjá líka allir að við erum mestir og flottastir.

Jóhannes: Mér finnst það bara mjög líklegt.

Jakob: Kúl.  Og ég verð þá hægra megin og þú vinstra megin.

Jóhannes: Haa? nei – það verður öfugt.

Jakob: Af hverju segirðu það?!

Jóhannes: Það er augljóst.  Þú ert örvhentur.

Jakob: Já. Nei? Spyrjum Jesú!

 

Sögumaður

Og þeir fóru og spurðu Jesú út í þetta svo það væri á hreinu að þeir sætu við hlið hans.  Þeim fannst það ekkert vafamál.  Svo þeir spurðu.

 

Jóhannes: Jesús – þegar þú ert farinn til himna hvort verð ég við hægri hlið þína eða Jakob?

 

Sögumaður

Jesús sagði þeim að hann réði því ekkert. Hinir lærisveinarnir heyrðu það sem Jói og Kobbi voru að spyrja og voru dáldið reiðir og sögðu “Hvað haldiði að þið séuð?? Haldiði að þið séuð eitthvað merkilegri en við?”  Og þeir fóru að rífast sem endaði með að Jesús sagði   “Strákar strákar strákar.  Ykkur langar til að vera mestir í himnaríki.  En sá sem vill vera mestur á að vera þjónn allra hinna.”

Það kom dauðaþögn.  Og það var augljóst að þeir skildu ekki baun.  Jesús hélt áfram. “Ég kom ekki í þennan heim til að láta þjóna mér – heldur til að þjóna öðrum. Gefa þeim líf mitt.” Og þá föttuðu þeir að Jesús var ekki svona kóngur með þjónustufólk. Hann var alltaf að hjálpa, lækna, aðstoða, alltaf að láta öðrum líða betur.  Samt var hann mestur allra í heimi.  Þeir hættu að rífast – enda er enginn merkilegri í augum Jesú. Hvort sem þú ert frægur, eða aleinn, eða góður í stærðfræði eða fótbolta eða lélegur í því. Jesús elskar okkur eins og við erum.  Það er engin manneskja merkilegri en önnur.

 

Brúður

Jóhannes: Það er satt.  Við erum öll ótrúlega merkileg.

Jakob: Já.  Og ótrúlega svöng.  Ég ætla að athuga hvort það sé ekki eitthvað eftir af úlfaldabollunum.

 

Sögumaður

Gerið það strákar. Við ætlum að syngja svolítið á meðan. (t.d. Þú ert þýðingarmikill)

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Kurteisi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 16/08/2018 - 13:24

Hjálpargögn: Rebbi

Rebbi: Urr! Halló!!! (hvæsir) urrr!

Leiðbeinandi: Vertu kurteis Rebbi minn og heilsaðu almennilega.

Rebbi: Ég er ekki í stuði.

Leiðbeinandi: Af hverju ertu ekki í stuði?

Rebbi: Af því að Mýsla vildi ekki koma með mér í sunnudagaskólann. Hún þóttist vera veik. Ég held að hún sé bara að plata. Hún nennti ekki með mér. Urr!

Leiðbeinandi: Af hverju heldurðu að Mýsla hafi ekki nennt með þér?

Rebbi: Ég veit það ekki (setur upp sakleysissvip). Ég bankaði hjá henni og hún var eitthvað voðalega skrítin þegar hún kom til dyra.

Leiðbeinandi: Heldurðu að hún hafi ekki bara verið lasin?

Rebbi: Nei, það held ég ekki. Hún var bara að plata svo að hún gæti sofið lengur.

Leiðbeinandi: Því trúi ég ekki. Mýsla er alltaf svo morgunhress. Rebbi vertu ekki önugur.

Rebbi: Ég heiti ekki önugur. Ég heiti Rebbi og er refur.

Leiðbeinandi: Ég er ekki að segja að þú heitir önugur. Heldur að þú sért önugur. Önugur þýðir að vera fúll á móti eða úrillur. – Rebbi fórstu eitthvað öfugt fram úr rúminu í morgun?

Rebbi: Nei! Urr! Ég fer alltaf sömu megin fram úr rúminu. Og í morgun fór ég eins að eins og venjulega. Fór fram úr hægra megin. Nei bíddu (snýr sér í marga hringi) var það kannski vinstra megin? Nú er ég alveg orðinn áttavilltur og ráðvilltur.

Leiðbeinandi: Rólegur Rebbi minn. Hvað er eiginlega að angra þig?

Rebbi: Æi! Ég var búinn að plana nýjan leik sem ég ætlaði að kenna Mýslu eftir sunnudagaskólann og svo er hún bara lasin. Ég bara trúi þessu ekki. Ég sem var búinn að gera og græja fyrir leikinn og undirbúa svo vel.

Leiðbeinandi: Vá varstu að búa til nýjan leik fyrir ykkur Mýslu?

Rebbi: Já. Og hvað geri ég núna?

Leiðbeinandi: Þú gætir farið heim til Mýslu og aðstoðað hana. Þegar maður er lasin þá hefur maður ekki sama kraft og venjulega. Þá er oft gott að fá hjálp frá vini sínum.

Rebbi: Heldurðu að Mýsla sé í alvörunni lasin?! (hissa)

Leiðbeinandi: Já, það held ég.

Rebbi: Oh . . . hvað ég hef verið vondur að halda að hún myndi plata mig.

Leiðbeinandi: Þú reddar þessu með því að fara heim til hennar og hjálpa henni. Hún verður þá fyrr að ná sér. Skilaðu kærri batakveðju frá okkur úr sunnudagaskólanum og við hlökkum til að sjá hana næst.

Rebbi: Takk Xx. Takk krakkar. Það er svo gott að koma í sunnudagaskólann og læra að vera kurteis. Nú er ég farinn að hjálpa Mýslu. Akradababa hviss bang! Ofur-Rebbi svífur af stað til hjálpar. BLEESSS!

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Litla Biblían

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - lau, 11/08/2018 - 12:23

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

Rebbi: Góðan dag krakkar!

Mýsla: Halló Rebbi og halló krakkar!

Rebbi: Mýsla, á ég að segja þér frá einu sem ég las um daginn?

Mýsla: Já endilega. Hvað varstu að lesa?

Rebbi: Sko. Ég var á Twitter og las tvít hjá einhverjum ofboðslega frægum munki . . .

Mýsla: [Grípur fram í]. Ha? Er þessi frægi munkur á Twitter? Ertu viss um það Rebbi?

Rebbi: . . . Já, æ en það skiptir ekki máli hvar ég las þetta heldur hvað það var sem ég las.

Mýsla: Allt í lagi, haltu áfram.

Rebbi: Þetta var alls ekki langur texti. Þetta var eignlega bara rosalega stuttur texti. Já, eiginlega bara mjög mjög stuttur, en um eitthvað . . . risastórt . . . og . . . merkilegt. [Endar setninguna hægt og er hugsi].

Mýsla: Eitthvað rosalega stutt en samt risastórt og merkilegt. Hmm . . . haltu áfram. [Smá efins].

Rebbi: Já og ég man að hann kallaði þennan litla texta Litlu Biblíuna.

Mýsla: Litlu Biblíuna? Er til einhver minni útgáfa af Biblíunni?

Rebbi: Já, eða nei, ekki alveg þannig . . .

Mýsla: Er þetta Biblía fyrir þá sem eru lávaxnir? Til dæmis fyrir mig? Ég er lítil mús. Er þetta kannski Biblía sem er sérhönnuð fyrir mig þannig að ég þurfi ekki að halda á stórri og þungri bók?

Rebbi: Tja . . . Nei, ég skildi þetta öðruvísi. Ef maður vill segja boðskap Biblíunnar með einni lítilli setningu þá er þessi setning sú setning Biblíunnar sem kemst næst því.

Mýsla: Nú jæja, útdráttur úr Biblíunni. Sniðugt. Og hvernig hljómar þessi setning?

Rebbi: Hún hljómar svona: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Mýsla: Já, þetta var ekki langur texti. Bara ein setning?

Rebbi: Einmitt en þessi setning fjallar um svo ótrúlega merkilegan hlut og boðskapur hennar er risastór.

Mýsla: [Hugsi]. Áhugavert. Þetta er falleg setning. Það er magnað að Guð skyldi láta son sinn Jesú fæðast á jörðinni.

Rebbi: Jebb. Jesús var frelsari mannanna. Hann sigraði dauðann.

Mýsla: Hey! Ég er með frábæra hugmynd fyrir þann sem skrifaði Biblíuna. Það væri mjög sniðugt fyrir hann eða hana að setja þessa setningu á bakhlið bókarinnar, til þess fólk geti áttað sig strax um hvað bókin er.

Rebbi: Ja, neee . . .

Mýsla: [Grípur fram í]. Já og síðan má hann eða hún ekki gleyma að taka fallega uppstillta mynd af sér, helst í rúllukragapeysu, og setja hana líka aftan á bókina. Hver var það eiginlega sem skrifaði Biblíuna?

Rebbi: Það var ekki bara ein manneskja sem skrifaði Biblíuna. Það voru mjög margir sem skrifuðu hana.

Mýsla: Nú? Er það?

Rebbi: Já, fullt fullt af fólki. Og veistu hvað orðið Biblía þýðir?

Mýsla: Nei, ég veit það ekki.

Rebbi: Vitið þið það krakkar? [Athuga hvort krakkarnir geti svarað].
Orðið Biblía þýðir nefnilega bækur eða bókasafn. Biblían er því ekki bara ein bók heldur samansafn margra bóka.

Mýsla: Merkilegt. Þú ert ekkert smá klár Rebbi. Fræðslumolar bara hægri vinsti.

Rebbi: Takk fyrir, Mýsla. Mér finnst þú líka mjög klár og sniðug … En nú þurfum við að fara krakkar. Bless bless.

Mýsla: Sjáumst næsta sunnudag!

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Rebbi veikur

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - lau, 11/08/2018 - 12:04

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

[Mýsla byrjar ein].

Mýsla: Halló krakkar, gaman að sjá ykkur. Hafið þið séð Rebba?

[Krakkarnir svara].

Mýsla: Hmm . . . hann sagði við mig að hann ætlaði að koma í sunnudagaskólann. Hann hlýtur að fara að koma.

[Það heyrist í Rebba hnerra á bakvið leikhústjaldið].

Mýsla: Heyrðuð þið þetta? Við skulum hlusta og gá hvort þetta heyrist aftur.

[Rebbi kemur upp á svið í flýti].

Rebbi: Aaaaaatsjúúh!

Mýsla: Guð blessi þig. [Flissar]. Og Góðan daginn. Gaman að sjá þig.

Rebbi: Takk. Sæl Mýsla . . . [Rebbi er nefmæltur og talar hægt, leikari getur til dæmis haldið fyrir nefið].

Mýsla: Þú ert svolítið seinn í dag.

Rebbi: Já, ég kom til þess að segja þér að . . . aaað . . . aaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Heyrðu, Rebbi þú átt eftir að heilsa krökkunum.

Rebbi: Já, halló krakkar. Það er ótrúlega gaman að sjá ykkur. Mýsla, ég þarf að segja þér eitt.

Mýsla: Já, hvað er það?

Rebbi: Það er að . . . aaað . . . aaaaaaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Rebbi, hvað eigum við að gera í dag með krökkunum?

Rebbi: Það var akkúrat það sem ég ætlaði að tala við þig um. Ég verð nefnilega að segja þér frá því að . . . aaað . . . aaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Hvað ertu eiginlega að reyna að segja mér, Rebbi?

Rebbi: Sko, að . . . aaað . . . aaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Rebbi, koma svo, út með það.

Rebbi: Allt í lagi. Ég get þetta. [Ávarpar sjálfan sig]. Rebbi, einbeita sér . . . Sko, það sem ég er að reyna að segja þér er . . . að . . . þannig er mál með vexti að . . . aaað . . .

Mýsla: Nei, nei . . .

Rebbi: Aaað . . . aaaað . . .

Mýsla: Nei ekki hnerra . . .

Rebbi: Aaaaaaaatsjúh!

Mýsla: Guð blessi þig. Rebbi, ég held þú verðir að viðurkenna að þú ert veikur. Ég held þú ættir að vera heima í dag og reyna að jafna þig.

Rebbi: JÁ! Það var akkúrat það sem ég ætlaði að segja þér Mýsla. Ég ætlaði að segja þér að ég kemst ekki í sunnudagaskólann í dag, af því ég er veikur.

Mýsla: Ó, þú hefðir átt að segja það fyrr. Við erum búin að vera hérna heillengi.

Rebbi: Einmitt. Það gekk svo illa að segja þér þetta. Ég þurfti alltaf að hnerra. Ég vildi bara ekki að þú værir að bíða eftir mér . . . aahh . . . [Finnst hann þurfa að hnerra en hnerrar ekki]. Úff . . . svo ég varð að koma og láta þig vita.

Mýsla: Það var fallega hugsað en drífðu þig nú heim og taktu því rólega. Þú ættir að skríða upp í sófa og láta fara vel um þig.

Rebbi: Ég skal gera það. Bless Mýsla. Bless krakkar.

Mýsla: Bless Rebbi og láttu þér batna!

[Rebbi fer út].

Mýsla: Hmm … Ég held ég fari bara með Rebba og hjálpi honum að koma sér vel fyrir uppi í sófa, færi honum eitthvað heitt að drekka og svona. Bless krakkar. Það var gaman að vera með ykkur í dag. Bíddu Rebbi! Ég er að koma!

[Sunnudagaskólakennararnir geta nýtt tækifærið að leikriti loknu og rætt um orðin „Guð blessi þig“ og „Guð hjálpi þér“. Hvenær segjum við þetta og af hverju?]

Flokkar: Efnisveitur

Leikrit – Ljósið

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - lau, 11/08/2018 - 10:39

Hjálpargögn: Rebbi og Mýsla

Rebbi: Halló Mýsla

Mýsla: Nei blessaður Rebbi, hvað segir þú gott í dag?

Rebbi: Jú ég er bara eldhress en þú?

Mýsla: Ég er í svaka stuði. Á ég að segja þér eitt sem ég var að uppgötva?

Rebbi: Já endilega.

Mýsla: Þú veist hvað ljós er, ekki satt?

Rebbi: Jú auðvitað veit ég hvað ljós er . . .

Mýsla: Já og þú veist að ljós getur verið mis bjart. Það eru til alls konar ljósgjafar? Það eru til dæmis til venjulegar ljósaperur sem lýsa upp stór og lítil herbergi.

Rebbi: Og ef maður vill hafa kósý birtu þá getur maður kveikt á kertum.

Mýsla: Einmitt! Síðan getur maður notað vasaljós eða símann sinn til þess að leita að einhverju í myrkri.

Rebbi: Síðan má ekki gleyma risa stóra sjóðheita ljósinu . . . Sólinni!

Mýsla: Alveg rétt, sólin er risa stórt ljós sem færir okkur mikla birtu. En veistu það Rebbi, að sama hversu lítið ljósið er, þá lýsir það alltaf upp myrkrið.

Rebbi: Hmm . . . hvað meinarðu?

Mýsla: Sko, þú veist hvað myrkur er?

Rebbi: Auðvitað veit ég hvað myrkur er . . .

Mýsla: Já og þú veist að myrkur getur verið mis dimmt?

Rebbi: Já, passar . . .

Mýsla: En spáðu í þessu; Sama hversu mikið myrkur er á staðnum þá sigrar ljósið alltaf. Þar sem er alveg kolniðamyrkur, getur þú kveikt á pínulitlu kerti og birtan sigrar myrkrið og lýsir upp rýmið

Rebbi: Vó, en áhugavert.

Mýsla: Ef þú myndir safna saman öllu myrkri í öllum heiminum á einn stað, þá myndi pínu lítið eða veikt ljós samt sigra allt myrkrið. Presturinn hér í kirkjunni sagði einu sinni að Jesús hefði sagt: „Ég er ljós heimsins. Sá sem fylgir mér mun ekki ganga í myrkri, heldur hafa ljós lífsins.“

Rebbi: Ég hef líka heyrt þetta einhvern tímann!

Mýsla: Já og ég held að það þýði að Jesús er eins og ljós í myrkrinu. Hann er sterkur og getur hjálpað okkur í gegnum okkar myrkur og okkar erfiðleika.

Rebbi: Hmm . . . ég skil . . . Þegar Jesús var á jörðinni heldurðu að hann hafi lýst í myrkri?

Mýsla: Neee ég held að þetta sé meira . . .

Rebbi: (Grípur frammí) Vó!! Hann hefur örugglega verið öööömurlegur í feluleik. Hann hefur örugglega alltaf þurft að “ver’ann.” Það hafa örugglega allir fundið hann strax.

Mýsla: Nei, ég held þú sért að aðeins að misskilja . . .

Rebbi: (Grípur frammí) En hann hefur örugglega verið mjög góður í því að finna þá sem voru að fela sig af því að hann lýsti allt upp og allir góðu felustaðirnir hurfu um leið (hljómar hugsi).

Mýsla: Sjálflýsandi Jesús. Híhí, þú ert nú meiri kallinn Rebbi. Ég held að Jesús sé ekki í neinum feluleik. Hann vill einmitt að allir finni sig. Hann vill vera vinur allra og lýsa veginn fyrir okkur.

Rebbi: Magnaður gæi.

Mýsla: Jebb, en nú þurfum við að fara.

Rebbi: Gaman að sjá ykkur krakkar!

Mýsla: Sjáumst í næsta sunnudagaskóla. Munum að meira að segja lítið ljós lýsir upp myrkrið. Bless!

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Uppstigning Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 19:52

Lærisveinarnir eru mjög sorgmæddir eftir að Jesús var krossfestur. Þeir gráta og hugsa til hans. Tár falla niður kinnarnar og Tómasi er réttur vasaklútur til að þerra tárin. Hann tekur við vasaklútnum og þurrkar tárin og snýtir sér hressilega. Hann þakkar fyrir og réttir klútinn til baka. Jesús tekur við klútnum og segir: „Ekkert að þakka.“ Lærisveinarnir snúa sér við og halda að þeir sjái draug. Þeir verða skelfingu lostnir og öskra: „Draugur!“ Þeir hlaupa um allt til að reyna að komast frá draugnum ógurlega. Jesús bíður átekta. Allt í einu fara garnirnar í maganum á Jesú að gaula. Hann er svangur og langar í steik. Hann sér að það er matur á borðinu og spyr hvort hann megi ekki fá mat hjá þeim. Þeir svara honum engu þannig að hann sest og fær sér. Þegar Jesús situr og borðar kemur Tómas til hans og snertir hann. Tómas getur komið við hann. Jesús er alvöru. Hann er ekki draugur. Þetta verður til þess að hinir lærisveinarnir treysta sér að koma nær Jesú.

Jesús biður þá að fylgja sér og lærisveinarnir fara á eftir honum. Þeir ganga upp á hæð eina og Jesús segir þeim að hann sé á leið sinni til föður síns. Þeir vilja ólmir með í ferðalagið, en Jesús segir þeim að þeir komi ekki með í þetta ferðalag. En þeir reyna að fluga af stað til að komast upp til himna. Þeir verða fljótt þreyttir og sjá fram á það að þeir komist ekki langt. Jesús gengur á milli lærisveinana og blessar þá. Jesús sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Páskadagur

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 19:31

María Magdalena kemur hlaupandi að húsinu þar sem lærisveinarnir halda sig. Þeir opna fyrir henni og hún segir þeim frá því að þegar hún og María móðir Jesú komu að gröfinni hafi hún verið opin. Þær sáu engil inni í gröfinni sem sagði við þær: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann.“

Þegar María er að hlaupa til lærisveinana að flytja þeim boðin. Birtist Jesús allt í einu fyrir framan hana og heilsar henni og segir: „Halló!“ María verður ótrúlega glöð og ánægð að hitta Jesú. Þá segir Jesús við hana: „Óttastu ekki, farðu og segðu lærisveinunum að halda til Galíleu. Þar munu þeir sjá mig.“

María segir lærisveinunum tíðindin og þeir fagna ákaflega og halda til Galíleu.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Föstudagurinn langi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 17:51

Hermenn landshöfðingjans fóru nú með hann inn í höllina og söfnuðu um hann allri hersveitinni. Þeir afklæddu hann og færðu hann í skarlatsrauða kápu, fléttuðu þyrnikórónu og settu á höfuð honum en reyrsprota í hægri hönd hans. Síðan féllu þeir á kné fyrir honum og höfðu hann að háði og sögðu: „Heill þér, konungur Gyðinga!“ Og þeir hræktu á hann, tóku reyrsprotann og slógu hann í höfuðið. Þegar þeir höfðu spottað hann færðu þeir hann úr kápunni og í hans eigin klæði. Þá leiddu þeir hann út til að krossfesta hann.

Á leiðinni þreif kona nokkur andlit Jesú er hann gengur með krossinn á bakinu, svo hitta þeir mann frá Kýrene er Símon hét. Hann neyddu þeir til að bera krossinn með Jesú. Fólkið fylgdist með þegar Jesús gekk framhjá á þessum sorglega degi og þegar hann var krossfestur á stað er heitir Golgata, sem þýðr hauskúpustaður. Yfir höfði Jesú festu þeir sakargift hans svo skráða: ÞESSI ER JESÚS, KONUNGUR GYÐINGA.

Vinir Jesú tóku líkið niður og sveipaði það hreinu línklæði og lagði í nýja gröf, sem hafði verið höggvinn í klett, þau veltu síðan stórum steini fyrir grafarmunnann og fóru burt. María Magdalena var þar og María hin og sátu þær gegnt gröfinni.

Næsta dag, hvíldardaginn, gengu æðstu prestarnir og farísearnir saman fyrir Pílatus og sögðu: „Herra, við minnumst þess að svikari þessi sagði í lifanda lífi: Eftir þrjá daga rís ég upp. Bjóð því að grafarinnar sé vandlega gætt allt til þriðja dags, ella gætu lærisveinar hans komið og stolið honum og sagt fólkinu: Hann er risinn frá dauðum. Þá verða síðari svikin verri hinum fyrri.“ Pílatus sagði við þá: „Hér hafið þið varðmenn, farið og búið svo tryggilega um sem best þið kunnið.“ Þeir fóru og gengu tryggilega frá gröfinni og innsigluðu steininn með aðstoð varðmannanna.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Skírdagur

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 17:20

Jesús og lærisveinarnir sitja við matarborðið og spjalla saman. Jesús stendur upp og biður einn lærisveininn um brauð. Lærisveinninn er aðeins utan við sig og rétti honum allskonar mat . . . Jesús stendur upp og nær í brauðið sjálfur. Hann flautar hressilega á lærisveinana að þeir kippast allir við. Jesús tekur brauðið, gerir þakkir, brýtur það og gefur lærisveinunum og segir: „Takið og etið, þetta er líkami minn.“ Og hann tekur kaleik, gerir þakkir, gefur þeim og segir: „Drekkið allir hér af. Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.“ Allir lærisveinarnir fyllast kærleika og trú, nema Júdas sem gengur út.

Eftir máltíðina ganga þeir inn í garð sem heitir Getsemane. Hann biður lærisveinana að bíða eftir sér meðan hann fer og biður fyrir. Hann tekur Símon Pétur og Jakob og Jóhannes Sebedeussyni með sér og biður þá að vaka með sér. Þegar hann er að biðja heyrir hann þá hrjóta og hann sér að þeir eru sofnaðir. Hann vekur þá og þeir hrökkva upp með andfælum. Jesús biður þá að halda sér vakandi og fer aftur að biðja. Hann sér örlögin sín og verður hnugginn. Jesús snýr sér að lærisveinum sínum sem eru allir sofnaðir aftur. Jesús flautar á þá og þeim krossbregður og stökkva upp og þykjast vera vakandi. Jesús fer aftur að biðja og það líður ekki langur tími þar til hann heyrir þá aftur hrjóta. Jesús verður reiður, en svo verður hann leiður þegar hann horfir á lærisveina sína. Hann gengur framhjá Pétri, Jakobi og Jóhannesi til hinna lærisveina sinna. Hann sér að Júdas er mættur í Getsemane garðinn. Hann vekur upp lærisveinana. Hermennirnir eru komnir til að handtaka Jesú, Júdas hafði bent þeim á hvar Jesús væri. Hermennirnir leiða Jesú í burtu.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Pálmasunnudagur

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 07/08/2018 - 15:37

Jesús hafði sent lærisveina sína til þess að ná í asna fyrir sig sem hann gæti riðið á inn í Jerúsalem. Þarna sjáum við annan lærisveininn reyna að ná öðrum asnanum með reipi er hann stekkur á hann. Lærisveinninn reynir aftur og aftur, en asninn stekkur alltaf undan og lætur ekki ná sér. Þeir hlaupa marga hringi. Þegar lærisveinninn loksins nær asnanum. Þá birtist bóndinn sem á asnann reiður á svipinn. Hinn lærisveinninn kemur hlaupandi til bóndans og útskýrir af hverju þeir eru að reyna að ná asnanum. Jesús hafði sent þá. Bóndinn horfir reiður á lærisveininn … þar til bros færist yfir hann og hann verður hress og kátur. Að sjálfsögðu mega þeir fá asnann. Lærisveinarnir reyna að draga asnann með sér til Jesú. Annar togar og hinn ýtir. Bóndinn kveður lærisveinana er þeir draga asnann með sér.

Lærisveinarnir draga asnann til Jesú. Jesús klappar asnanum á kollinn sem er reiður á svipinn. Þeir setja teppi á bak asnans sem mótmælir og reynir að losa sig. En lærisveinninn heldur honum niðri. Jesús stígur á bak og asninn verður hræddur og reynir að henda Jesú af baki. Lærisveinninn og Jesús ná að róa asnann. Asninn verður samvinnuþýðari og fylgir með inn í Jerúsalem. Hann verður svolítið hræddur þegar hann sér allt fólkið í borginni. Fólkið tók pálmagreinar, fór út á móti Jesú og hrópaði: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins, konungur Ísraels!“ Þarna áttar asninn sig á að þetta séu höfðinglegar móttökur. Asninn er stoltur að fá að taka þátt í hátíðinni að hann reigir sig og er mjög montinn með sig.

Þeir sjá til borgarhliðsins og nú er ekki aftur snúið, kærleikurinn umvefur þá er þeir ganga í átt að borgarhliðunum.

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Jesús mettar 5000 manns

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 31/07/2018 - 11:27

Fólk ferðaðist langa vegu til þess að hitta á Jesú. Börn og fullorðnir. Þarna sjáum við tvö glöð börn á leiðinni að hitta á Jesú. Þau fá nesti hjá móður sinni áður en þau leggja af stað. Hún kyssir þau og vinkar bless. Þegar þau koma á staðinn þar sem Jesús og lærisveinar hans dvelja, sjá þau að þar er mikill mannfjöldi. Jesús og lærisveinar hans eru upp á hæðinni svo allir geta séð Jesú. Þegar Jesús byrjar að tala, heyrast miklir skruðningar og læti, fólkið er orðið svangt. Það hugsar um brauð, kjúkling, samlokur og allskonar dýrindis mat, en það eru fáir með nesti með sér. Garnirnar gaula í 5000 manns og það gerir mikinn hávaða. Litli drengurinn og systir hans sem höfðu fengið nesti hjá móður sinni og vilja ekki borða það fyrir framan hina. Drengurinn veit ekki alveg hvað hann á að gera. Drengurinn sér nokkra gæða sér á sínu nesti, en aðrir eru orðnir svo hungraðir að þeir borða gras, en það er ekkert sérlega gott.

Hvaða dýr éta gras? (Leyfið börnunum að svara).

Drengurinn fær hugmynd. Þetta er kærleiksrík hugmynd. Systkinin ganga upp hæðina þar sem lærisveinarnir taka á móti honum og hann býður þeim nestið sitt. Lærisveinarnir hlæja að honum og segja að þetta nesti dugi ekki til þess að metta 5000 manns. Jesús snýr sér við og biður Andrés að rétta sér nestið. Í nestispokanum eru fimm byggbrauð og tveir fiskar. Jesús þakkar drengnum fyrir hugulsemina. Nú tekur Jesús brauðin og fiskana og gerir þakkir. Lærisveinarnir koma með körfur til Jesú og hann setur matinn í körfurnar. Lærisveinarnir fara með körfurnar til fólksins, nú gerast undur því allir fá nóg að borða og verða mettir. Jesús biður lærisveinana að safna saman leifunum svo ekkert fari til spillist. Þeir safna þeim saman og fylla tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af ganga.
Nú er ekki bara andinn mettur heldur líka maginn.

Munið þið ekki alltaf eftir því að þakka fyrir matinn? (Leyfið börnunum að svara).

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Faðir vor

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 31/07/2018 - 10:42

Jesús var á gangi með tveimur lærisveinum sínum þegar þau mæta sölumönnum. Annar lærisveinninn spyr hvort þau eigi ekki að versla eitthvað, en Jesús hefur ekki áhuga. Þau halda áfram og sjá fólk vera að biðja við skurðgoð. Jesús og lærisveinarnir halda áfram göngu sinni.  Þau sjá prédikara prédika á torginu. Einn lærisveinninn verður mjög hrifinn, en Jesú líst ekkert á það sem prédikarinn segir og margt fólk yfirgefur torgið þar sem prédikarinn er að tala. Prédikarinn verður steinhissa og hleypur að næsta torgi og heldur áfram að prédika. Fólkið flýr sömuleiðis þaðan.

Jesús heldur áfram för sinni ásamt lærisveinunum. Þar til hann sér konu eina í mannfjöldanum. Hann biður lærisveinana að elta sig og hann fylgir konunni eftir og sér er hún sest við gosbrunn til þess að biðja. Í miðri bæn er hún trufluð þar sem hundur kemur hoppandi og skoppandi ofan í gosbrunninn og skvettir vatni út um allt. Konan gengur burtu frá gosbrunninum. Hún gengur eftir götu bæjarins og á leiðinni er verið að bjóða henni allskonar varning til sölu. Jesús og lærisveinarnir tveir fylgja á eftir. Nema einn lærisveinninn verður mjög spenntur að kaupa styttur af kaupmönnunum, en Jesús heldur áfram göngu sinni og ef hann ætlar ekki að missa af Jesú þá verður hann flýta sér.

Hefði hann átt að kaupa sér styttu? Hvað var sérstakt við styttuna? (Leyfið börnunum að svara).

Konan gengur framhjá enn einum prédikaranum við götuna. Jesús og lærisveinarnir fylgja eftir, en lærisveinarnir stoppa og heillast af því sem prédikarinn talar um. Jesús snýr við og nær í þau og biður þau að halda áfram. Konan gengur inn í húsasund og svo annað og annað. Það er eins og hún sé að leita að einhverju.

Jesús rekst óvart utan í ker svo að það brotnar. Hann og lærisveinarnir fela sig í flýti. Konan snýr sér við, en sér engan á ferli. Jesús bendir lærisveinunum á þegar konan finnur sér rólegan stað til þess að biðja. Þetta er fallegur grasigróinn staður undir tré.

Meðan konan er að biðja eru settir upp tónleikar á undraverðum ljóshraða. Hviss, bang, búmm og það er dansað og sungið. Konan verður pirruð og getur ekki að haldið áfram að biðja í öllum hávaðanum. Hún gengur burtu leið á svip. Jesús verður frekar svekktur og sár fyrir hennar hönd og þau halda áfram að elta konuna. Hún gengur upp á hæð fyrir ofan bæinn. Þar er næði. Hún krýpur á kné, spennir saman greipar og byrjar að biðja. Jesús og lærisveinarnir tveir sjá er konan biður undir trénu upp á hæðinni. Jesús gerði þetta líka á ferðalögunum sínum. Hann fann sér rólegan stað til þess að vera einn með Guði og tala við hann. Þau yfirgefa staðinn til þess að gefa konunni næði til þess að biðja til Guðs.

Eruð þið ekki dugleg að biðja til Guðs? (Leyfið börnunum að svara).

Flokkar: Efnisveitur

Holy Moly – Vitringarnir

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 19/07/2018 - 16:44

Talið endilega yfir Holy Moly myndböndin og útskýrið fyrir börnunum það sem er í gangi
Hér að neðan er smá texti ykkur til aðstoðar.

Þarna sjáum við vitringana frá Austurlöndum grandskoða himininn. Þeir eru með stóran sjónauka og skiptast á að kíkja á stjörnurnar. Þeir eru að leita að einni ákveðinni stjörnu. Einn vitringanna hrópar af undrun og ánægju. Hann bendir hinum á stjörnuna björtu sem hann hafði verið að leita að. Þarna er hún. Stóra fallega stjarnan. Hún mun leiða þá til frelsarans nýfædda.

Þeir ferðast lengi . . . lengi . . . lengi. Þar til þeir koma að konungshöll. Þeir ganga að hallardyrunum og berja fast að dyrum. Konungurinn Heródes kemur til dyra og spyr hvað þeir vilja. Þeir spyrja hann hvort hann viti hvar hinn nýfæddi konungur Gyðinga sé að finna. Allt í einu sturlast konungurinn og öskrar og æpir eins og vitleysingur. Svo róast hann og bendir þeim að fara til Betlehem og segir: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“  Vitringarnir hlaupa að úlföldunum sínum og flýja brjálaða konunginn.
Af hverju haldið þið að konungurinn hafi brjálast? (Leyfið börnunum að svara)

Vitringarnir fylgja stjörnunni björtu til Betlehem. Þeir koma til bæjarins spenntir og glaðir, og ganga að fjárhúsi einu þar sem stjarnan skín á himnum. Þeir banka að dyrum fjárhúsins. María kemur til dyra og býður þeim inn. Þeir koma færandi hendi og rétta Jesú gjafirnar sem þeir höfðu meðferðis. Jesús tekur við fyrstu gjöfinni, sem er reykelsi. Hann er ekkert sérlega ánægður með hana og ýtir henni frá sér. Hann er aftur á móti mjög ánægður að fá hinar gjafirnar, sem eru gull og myrra og gerir eins og ungabörn gera. Leikur sér með nýju gjafirnar sem vitringarnir komu með. Einn vitringurinn skoðar Jesú aðeins betur og Jesús klípur hann í nefið. Hann verður mjög hissa og hinir vitringarnir hlæja að honum. Vitringurinn æsist allur upp og beygir sig aftur að Jesú. Jesús klípur hann aftur í nefið og þá klípur vitringurinn Jesú í nefið. Jesús skríkir af kátínu og vitringurinn smitast af þessari gleði að hjarta hans fyllist af kærleika og kátínu. Hann tekur Jesú  í fangið og annar vitringur kíkir á Jesú. Jesús er snöggur að klípa hann í nefið og allir hlæja . . . þeir ganga á milli hvors annars og klípa í nefið á hvor öðrum. Jósef og María fylgjast með og hlæja.

Vitringarnir fara svo aftur heim til sín, en þeir fara aðra leið og passa sig að láta ekki Heródes vita að Jesús sé fæddur.

Af hverju haldið þið að vitringarnir hafi ekki viljað láta Heródes vita? (Leyfið börnunum að svara).

Flokkar: Efnisveitur

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Efnisveitur