Efnisveitur

Samvera 5

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 04/08/2016 - 16:46

Biblíutexti

Söngvar sem tengjast biblíusögunni

Hlutbundin kennsla

Brúðuleikrit

Nebbanú og húsið

Samveran í heild sinni til útprentunar

Flokkar: Efnisveitur

Samvera 4

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 04/08/2016 - 16:44

Biblíutexti

Söngvar sem tengjast biblíusögunni

Hlutbundin kennsla

Brúðuleikrit

Nebbanú og húsið

Samveran í heild sinni til útprentunar

Flokkar: Efnisveitur

Samvera 3

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 04/08/2016 - 16:42

Biblíutexti

Söngvar sem tengjast biblíusögunni

Hlutbundin kennsla

Brúðuleikrit

Nebbanú og húsið

Samveran í heild sinni til útprentunar

Flokkar: Efnisveitur

Samvera 2 – Hvar eru hinir níu?

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 04/08/2016 - 16:05

Biblíutexti

Söngvar sem tengjast biblíusögunni

Hlutbundin kennsla

Brúðuleikrit

Nebbanú

Samveran í heild sinni til útprentunar

Flokkar: Efnisveitur

Samvera 1 Byggt á bjargi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 04/08/2016 - 15:33

Biblíutexti: Matt.7.24-27

Söngvar sem tengjast biblíusögunni

Hlutbundin kennsla

Brúðuleikrit

Nebbanú og húsið

S amveran í heild sinni til útprentunar

Flokkar: Efnisveitur

Rebbi og jólin

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 10/03/2016 - 14:18

Barnakór syngur

Rebbi (að taka niður jólaskraut)

Engill: Gleðileg jól Rebbi
Rebbi: hm….
Engill: Hvað ertu að gera?
Rebbi: Nú ég er að taka niður jólaskrautið, jólin eru búin
Engill: Ha! Nei jólin eru ekki búin það er bara annar í jólum í dag
Rebbi: Annar hvað? Ég er búinn að öllu sem ég geri um jólin
Engill: Nei það getur ekki verið
Rebbi: Ég er búinn að borða hangilærið og ég er búinn að opna alla pakkana, búinn að öllu.
Engill: En jólin eru ekki búin Rebbi minn, við erum enn að syngja jólalögin og gleðjast saman.
Rebbi: Ekki ég – ég er búin að syngja öll jólalögin, nú ætla ég að syngja áramótasöngva og síðan bara páskalögin
Engill: Nei heyrðu mig nú ég veit að hér eru krakkar sem eru enn að syngja jólalög eigum við að heyra?
Rebbi: Já við getum svo sem hlustað á eitt jólalag svona í lokin.

Barnakór syngur.

Engill: Fannst þér þetta ekki fallegur söngur
Rebbi: Ha, jú jú en mér fannst hann nú of jólalegur
Engill: Þú heyrðir að þau voru að syngja um Litla jólabarnið (eða vísun í annað lag sem kórinn syngur)
Rebbi: Já ég veit allt um það – ég veit að Jesús fæddist á jólunum og ég veit meira að segja að hann fæddist í fjárhúsi í Betlehem.
Engill: Mannstu kannski líka hverjir komu og sáu hann í fjárhúsinu
Rebbi: Það voru auðvitað fjárhirðarnir og síðan komu líka þrír galdrakarlar sem gáfu honum gjafir, kerti, spil og kórónu.
Engill: Þeir voru ekki galdrakarlar þeir voru vitringar frá Austurlöndum sem gáfu honum gull, reykelsi og myrru af því hann var hinn nýfæddi konungur.
Rebbi: Já, já og ætlar þú síðan að tala um frændur þína og frænkur, þessi sem fylltu allan himininn á jólanóttina.
Engill: Víst þú minnist á þá …… ja sko Gabríel erkiengill er auðvitað frændi minn og hann Mikael, Gloria, Filía, Sofia og ……..

Barnakór syngur englalag

Engill: Rebbi minn, ef þú veist ef hverju við höldum jól, þá ætturðu að vita að þau eru ekki búin í dag – við getum ekki pakkað þeim niður það eru margir jóladagar eftir.
Rebbi: Og hvað eigum við þá að gera
Engill: Við eigum að halda áfram að gleðjast og halda áfram að gleðja aðra.
Rebbi: En pakkadagarinn er búinn
Engill: Við gleðjum ekki bara með gjöfum, við getum glatt aðra t.d. með því að fara í heimsóknir eða bjóða öðrum í heimsókn til okkar, við getum líka farið á jólaball til að gleðjast með öðrum.
Rebbi: Ég á marga vini sem ég er ekkert búinn að hitta um jólin
Engill: Einmitt nú er tækifærið. Veistu Guð hefur gefið okkur margar gjafir
Rebbi: Eins og Jesú
Engill: Já eins og Jesú

Barnakór syngur lag

Rebbi: Já nú skil ég við eigum að gleðjast í marga daga yfir fæðingu Jesú
Engill: Já og best er að gleðjast með fjölskyldu sinni og vinum, þeir eru líka gjöf Guðs til okkar. Guð vill að við njótum þess sem hann gefur okkur
Rebbi: Með því að treysta Jesúbarninu
Engill: Og með því að sýna fjölskyldu okkar og vinum ást og kærleika alla jóladagana – ekki bara þegar við tókum á móti gjöfunum.
Rebbi: Veistu ég held ég sé nú bara að komast aftur í jólaskap, það er svo margt sem ég á eftir að gera á jólunum.
Engill: Gott að heyra – því veistu, englarnir birtast ekki bara á jólanóttinni við komum víða við um jólin og alls staðar sem við svífum um færist bros yfir andlit barnanna og fullorðna fólkið finnur hvernig hjörtu þeirra stækka pínulítið.
Rebbi: Mikið er ég heppinn að það er bara annar jóladagur í dag, kannski kemur þú með mér í jólaboð á eftir til hennar Engilráðar vinkonu minnar?
Engill: Það væri gaman við skulum sjá hvar vinir okkar eru.

Söngur: (allar brúðurnar koma )

Ég í jólaskapi er
Einnig ég og ég og ég – líka ég
því um Jesú heyrt ég talað hef
Einnig ég og ég og ég – líka ég
Ég þekki Jesú, jólabarnið blítt
það sem gleði gefur ótt og títt
Viltu vera vinur frelsarans
það vil ég og ég og ég – líka ég

Flokkar: Efnisveitur

Æskulýðsdagurinn 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 01/03/2016 - 14:13

Á æskulýðsdaginn í ár verður yfirskriftin: ,,Í Biblíunni eru engir dýrlingar … bara fólk að fylgja Guði”. Í efninu verður kafað dýpra í fjórar persónur úr Biblíunni og velt vöngum yfir ólíkum hliðum á aðstæðum þeirra. Persónurnar eru Miriam systir Móse, sem fjallað er um í 2. Mósebók; Rut, aðalsögupersóna Rutarbókar; Daníel sem Daníelsbók fjallar um og María Magdalega vinkona Jesú. Hverri persónu fylgja þrjár hugleiðingar sem miða að ólíkum aldursbilum, leikrit sem varpa ljósi á aðstæður þeirra og myndir sem hægt er að nota til kynningar og frásagnar í guðsþjónustum æskulýðsdagsins. Söfnuðir geta nýtt sér efnið að vild, valið að fjalla um allar persónurnar eða samþætt einstaka hugleiðingu við áherslur í æskulýðsguðsþjónustu dagsins. Markmiðið er að glæða persónur Biblíunnar lífi með því að dýpka umfjöllun um þær og draga í burtu helgiljómann. Hugleiðingarnar er ekki hægt að lesa beint, heldur þarf viðkomandi leiðtogi eða prestur að vinna sjálfstætt úr efninu í samhengi við endursögn sögunnar. Vonandi verður efnið hvati til samtals og vinnu með þessar áhugaverðu persónur.

 

 

María Magdalena.

 

Kynning:

Í guðspjöllum Nýja testamentisins er sagt frá vinum og fylgjendum Jesú og einna mikilvægust þeirra er María Magdalena. Hún er nefnd á nafn 12 sinnum í guðspjöllunum fjórum sem er mikið í samanburði við aðra fylgjendur Jesú. Maríu Magdalenu er lýst sem lærisveini og vinkonu Jesú, henni hlotnast sá heiður að smyrja fætur hans þegar hann undirbýr dauða sinn, hún fylgdist með krossfestingunni og er fyrst til að verða vitni að upprisu Jesú. María Magdalena segir lærisveinum Jesú frá því að hann sé upprisinn, sem er grundvallar atburður kristindómsins. Hún er því fremst meðal postula kristindómsins.

 

Fyrir sunnudagaskóla:

 

Af hverju eru lærisveinar Jesú kallaðir læri-sveinar?

 

‘Sveinn’ er í huga okkar fyrst og fremst strákur, enda eru engir stelpu jóla-sveinar. Lærisveinar Jesú voru samt ekki bara strákar, enda er á erlendum málum ekki talað um lærisveina Jesú, heldur nemendur, af því að hann var bæði kennari þeirra og vinur. Nemendur Jesú og vinir voru allskonar, börn og fullorðnir, strákar og stelpur, og fólk af allskyns þjóðernum.

 

Ein af nánustu vinum Jesú hét María Magdalena, en hún fylgdi Jesú og þótti mjög vænt um hann. Þegar atburðir páskanna urðu stóð hún með vini sínum í gegnum allt sem hann þurfti að ganga í gegnum og hún var fyrst til að segja frá páskaundrinu. Páskarnir eru hátíð lífsins og María Magdalena fékk fyrst að sjá það undur að lífið sigraði í gegnum Jesú og sagði öðrum frá. Ef ekki væri fyrir Maríu Magdalenu væri kannski engin kristin trú og engin kirkja til fyrir okkur að eiga saman.

 

Ert þú lærisveinn Jesú? Hvað þýðir það?

 

Lærisveinar Jesú eru fólk sem vill læra af honum um hvernig best sé að vanda sig í lífinu. Lærisveinar Jesú reyna alltaf að vera góð við aðra, lærisveinar Jesú rækta sambandið við Guð í gegnum bæn og sunnudagaskóla og lærisveinar Jesú leggja sig fram um að læra af honum með því að lesa í Biblíunni.

 

Geta stelpur orðið lærisveinar Jesú?

 

Auðvitað eru stelpur jafn miklir lærisveinar Jesú og strákar en kannski eigum við að finna betra orð yfir það að fylgja Jesú? Hvað finnst ykkur? Hvaða orð passar best finnst ykkur? Vinir Jesú? Nemendur Jesú? eða kannski bara sunnudagaskólakrakkar.

 

Kunnið þið lagið, ég í sunnudagaskóla fer? Þar er spurt – ,,Viltu vera vinur frelsarans” og svarið er ,,Það vil ég, og ég, og ég, líka ég!”

 

Fyrir TTT:

 

Geta konur orðið prestar?

 

Svarið er ‘auðvitað já’ og kannski er kvenprestur starfandi í þinni kirkju. Ef litið er til baka má segja að María Magdalena hafi verið fyrsti kvenprestur kirkjunnar. Prestur þarf að læra af Jesú, reyna að lifa eftir fordæmi hans og segja öðrum frá kennslu og kærleika Jesú. Allt þetta gerði María Magdalena og meira til. María Magdalena var ein af mikilvægustu fylgjendum Jesú og hún hafði mikil áhrif í frum-kirkjunni. Í guðspjöllum Nýja testamentins er sagt frá því að hún hafi fylgst með lífi og dauða Jesú og hafi fyrst allra fengið að upplifa það undur að Jesús reis upp frá dauðum á páskadagsmorgun. Þegar hún hafði fengið að sjá og reyna það undur, sagði hún vinum Jesú frá og þannig hófst kristin kirkja.

 

Vitið þið hvað það er langt síðan konur urðu prestar á Íslandi?

 

Eins og merkilegt og það kann að hljóma þá þróaðist sú hefð innan kirkjunnar að einungis karlmenn máttu vera prestar og biskupar í kirkjunni. Þannig var það ekki á fyrstu árum kirkjunnar en þegar á leið varð verkaskiptingin skýrari. Í Nýja testamentinu eru konur áberandi en smám saman var minna talað um afrek þeirra.

 

Finnst ykkur vera gert minna úr afrekum kvenna enn þann dag í dag?

Hvar þá helst? Í íþróttum? Í skólanum? Í kvikmyndum og tónlist?

 

Frásögn Markúsarguðspjalls af undrinu sem María sá er áhugaverð, þar segir:

 

Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa         anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu. Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki. (Markúsarguðspjall 16.9-11)

 

Jesús birtist hér Maríu einni og hún fór og sagði vinum Jesú frá. Í lýsingunni segir að vinir Jesú ,,hörmuðu nú og grétu”, enda mikil sorg að missa vin sinn og kennara. Þegar María segir þeim að Jesús sé lifandi og að hún hafi séð hann ,,trúðu þeir ekki” því sem hún sagði. Af hverju heldur þú að þeir hafi ekki trúað henni? Kannski af því að frásögn hennar var vissulega ótrúleg? Kannski af því að hún var kona og það var ekki tekið jafn mikið mark á konum og körlum á tíma Jesú? María er í frásögninni að starfa sem prestur, með því að boða trú á upprisu Jesú.

 

Kirkjan okkar er stolt af því að eiga marga frábæra kvenpresta og það er spennandi starf að vera prestur, bæði fyrir konur og fyrir karla. Fyrsta konan sem varð prestur á Íslandi heitir Auður Eir Vilhjálmsdóttir og hún er komin á eftirlaun. Hún varð prestur árið 1974. Í kirkjunni okkar eru 3 biskupar og tvær af þeim eru konur, biskup Íslands heitir Agnes Sigurðardóttir og víslubiskupinn á Hólum í Hjaltadal heitir Sólveig Lára Guðmundsdóttir.

 

María er fyrirmynd fyrir alla presta og fyrir alla sem vilja þekkja Jesú. Hún reyndist vinur hans á erfiðum tíma, fylgdi honum í orði og verki og lagði grundvöllinn að kirkjunni með því að taka af skarið og segja frá því undri að hann sigraði dauðann með lífið og kærleikan að vopni.

 

Fyrir unglingastarf:

 

Hefur þú verið kölluð hóra?

 

Í siguratriði Hagaskóla í Skrekk 2015, hæfileikakeppni grunnskólanna, er farið með magnaðan texta eftir Unu Torfadóttur sem hefst á þeirri spurningu.

 

 

 

Ég var tíu ára þegar ég var fyrst kölluð hóra

Þá skildi ég ekki af hverju, núna skil ég

Ég var fyrir, ég var stjórnsöm,

fór yfir mörkin og reyndi að brjóta boxið,

en ég var lítil og ég var stelpa.

 

Una er að fjalla um reynslu sína af því að vera stelpa og upplifa að það gildi ekki sömu reglur fyrir stráka og stelpur. Hóra getur merkt annarsvegar kona sem selur kynlífsþjónustu, vændiskona, og hinsvegar kona sem hefur sofið hjá fleiri en þykir í lagi. Sömu orð eru ekki til yfir karlmenn. Vændiskarlar eru vissulega til en enginn talar um að einhver sé hóri og James Bond er ekki niðurlægður fyrir að sofa hjá fleiri en einni konu í hverri mynd, þvert á móti. Una var 10 ára þegar hún var fyrst kölluð hóra og því átti að sjálfsögðu hvorugt við um hana. Hún fór eins og hún segir yfir mörkin og ,,reyndi að brjóta boxið” og var þessvegna uppnefnd og úthrópuð.

 

María Magdalena er ein merkilegasta persóna guðspjallanna og lýsingar á sambandi hennar við Jesú eru fallegar og einlægar. María smyr fætur Jesú og þerrir þá með hári sínu, hún stendur undir krossinum með móður Jesú þegar hann deyr og fær fyrst að verða vitni að því undri að hann sé upprisinn og segir öðrum frá. Svo áberandi hefur María verið að öll guðspjöllin nefna þátt hennar sem vitni að upprisunni og fleiri rit fjalla um mikilvægi hennar en eru í Nýja testamentinu. Það er t.d. til guðspjall frá 2. öld sem heitir Maríuguðspjall og fjallar um samband hennar við Jesú. María braut boxið og lagði grunninn að þeirri hreyfingu sem varð kristin kirkja með því að taka af skarið og boða Jesú upprisinn.

 

Skrekkstexti Unu Torfadóttur er í senn hvatning til stelpna um að láta ekki draga úr sér og reiðilestur í garð feðraveldisins. Í þriðja hlutanum segir hún:

 

Elsku feðraveldi,

veistu, þegar þú segir mér að róa mig

og halda bara kjafti,

hveturu mig áfram

til að öskra af öllu afli

þú getur ekki stoppað það sem þú veist að er að koma

þú skilur ekki erfiðið, þú ert ekki kona.

 

Feðraveldið er sú tilhneiging í samfélaginu til að veita körlum áhrif og völd og segja konum að vera valdlausar eða takmarka áhrif þeirra með beinum og óbeinum hætti. Áhrifamesta leiðin til þess er að gera lítið úr kynferði kvenna og niðurlægja þær á sama tíma og karlar eru upphafðir. Það er t.d. hægt með því að kalla þær hórur.

 

Í upphafi kristinnar kirkju voru jafnt konur og karlar áhrifavaldar og María Magdalena er skírt dæmi um áhrif kvenna í frumkristni. Þær eru fjölmargar, María móðir Jesú, systurnar Marta og María, Priskilla og Tekla samverkakonur Páls og þannig mætti lengi telja. Eftir að kirkjan óx að umfangi og áhrifum varð hún feðraveldinu að bráð og konur voru útilokaðar frá embættum kirkjunnar. Engar konur máttu verða prestar eða biskupar í kirkjunni. Árin liðu og áhrif kvenna í frumkirkjunni urðu smám saman fjarlæg minning en arfleifð Maríu Magdalenu í guðspjöllunum var hinsvegar stöðug áminning um hlutverk hennar sem fyrst allra til að boða trú á upprisu Jesú.

 

Á endanum var hún því kölluð hóra. Það var fyrst á 6. öld, 500 árum eftir að atburðir guðspjallanna áttu sér stað, að hún var sögð vændiskona af æðsta yfirmanni kirkjunnar en ekkert slíkt er gefið í skyn í Biblíunni. Tilgangurinn er augljós, að gera lítið úr konunni sem fyrst sagði vinum Jesú frá upprisu hans á páskadagsmorgun. Frá þeim tíma hefur María Magdalena ætíð verið álitin hóra og í kvikmyndum og skáldsögum sem fjalla um ævi Jesú er hún iðulega máluð upp sem hóra. Dæmi um þetta eru söngleikirnir Jesus Christ Superstar og !Hero, sem báðir fjalla um ævi Jesú á nútímalegan hátt.

 

Það er erfitt að hreinsa druslustimpil, jafnvel þó ekkert sé að baki uppnefningunni annað en illur ásetningur. Í mörgum framhaldsskólum á Íslandi er hægt að velja kynjafræði sem valfag, en kynjafræði fjallar m.a. um það hvernig ólíkt er talað um karla og konur. Kynjafræði skoðar t.d. klámiðnaðinn og áhrif hans á tónlistarmyndbönd, texta, tölvuleiki, sjónvarpsþætti og kvikmyndir, með það fyrir augum að benda á staðalmyndir og kynjamisrétti.

 

Ein merkileg æfing í kynjafræði felst t.d. í því að skoða tónlistarmyndbönd og kvikmyndir með gagnrýnum augum. Næst þegar þú kveikir á uppáhalds tónlistarstöðinni þinni eða skoðar myndbönd á youtube skaltu skoða hvernig konur eru sýndar í mörgum þeirra. Flest okkar höfum gaman að því að klæða okkur upp og fara út að dansa en í mörgum tónlistamyndböndum eru konurnar svo fáklæddar og dansinn svo kynferðislegur að fæst okkar myndu vilja bera okkur þannig sjálf. Ef við erum óviss um hvar mörkin liggja er hægt að spyrja sig hvort okkur þætti í lagi að systir okkar, frænka eða jafnvel mamma myndi verða sett í þessar aðstæður.

 

Önnur æfing er falin í prófi sem kennt er við teiknimyndasöguhöfundinn Alison Bechtel. Kvikmyndir eru sagðar standast Bechtel prófið þegar hún inniheldur 1.) tvær kvenpersónur sem 2.) tala hvor við aðra um 3.) eitthvað annað en karlpersónu. Ótrúlega margar vinsælar kvikmyndir falla á þessu prófi, t.d. Hringadróttinssaga, Star Wars IV-VI, Avatar og Avengers.

 

María Magdalena er merkileg fyrirmynd fyrir alla sem vilja þekkja Jesú. Hún reyndist vinur hans á erfiðum tíma, fylgdi honum í orði og verki og lagði grundvöllinn að kirkjunni með því að taka af skarið og segja frá því undri að hann sigraði dauðann með lífið og kærleikan að vopni. Þrátt fyrir það var hún úthrópuð hóra til að gera lítið úr mikilvægi hennar. Eina leiðin til breyta viðmiðum í garð kvenna er að vera gagnrýnin og stöðva þá úthrópun sem felst í að gera lítið úr konum á grundvelli kynferðis þeirra. Ég leyfi Unu Torfadóttur að eiga síðasta orðið en textann má lesa í heild sinni á (http://nutiminn.is/hagaskoli-sigradi-skrekk-med-atridi-sem-allir-eru-ad-tala-um-og-vid-erum-med-myndbandid/)

 

Við höfum barist svo lengi

fyrir ótal sjálfsögðum hlutum

að baráttan í sjálfu sér

er orðin sjálfsagður hlutur.

En við biðjum ykkur stelpur,

að halda alltaf áfram,

að gleyma ekki skiltunum

sem stóðu upp úr göngum

að gleyma aldrei konunum

sem hrópuðu í myrkri

að gleyma síst öllum stelpunum

sem voru dónar og tíkur og fyrir.

Stelpur krefjast athygli

ekki reyna að hunsa okkur.

Stelpur krefjast tækifæra

ekki reyna að hindra okkur

Stelpur krefjast virðingar

ekki reyna að stoppa okkur.

Stelpur krefjumst jafnréttis

látum ekkert stoppa okkur!

 

 

 


 

Rut

 

Kynning:

Rutarbók er heillandi og margræð fjölskyldusaga sem segir frá hjónum í Betlehem og sonum þeirra sem neyðast til að flýja heimaland sitt sökum hungursneyðar. Flóttafjölskyldan, Elímelek og Naomí og synir þeirra, Mahlón og Kiljón, flýja eignalaus til Móabítslands (þar sem í dag er Jórdanía). Í Móabítslandi eignuðust þau nýtt líf og synirnir giftust Móabískum konum, þeim Rut og Orpu. Allt gengur vel um skeið en að lokum missa konurnar alla karlmenn fjölskyldunnar og ekkjan Naomí ákveður að snúa heim til fjölskyldu sinnar. Hún kveður því Orpu en Rut ákveður að fylgja tengdamóður sinni til heimalands hennar Ísrael. Örlagasagan Rutarbók er merkileg fyrir það að vera sögð frá sjónarhóli kvenna og hafa margir ályktað að höfundur hljóti að hafa verið sjálf kona. Hugleiðingarnar að neðan gera ráð fyrir stuttri endursögn á sögunni í upphafi.

 

Fyrir sunnudagaskóla:

 

Þekkir þú stelpur og stráka sem eru frá öðru landi?

 

Í sögunni af Rut skiptast á flutningar milli landa, fyrst flytja bræðurnir Mahlón og Kiljón með foreldrum sínum til Móabslands. Það er ekki sagt hversu gamlir þeir eru en þeir hafa ekki verið fullorðnir, heldur annaðhvort börn eða unglingar. Foreldrar þeirra völdu ekki að flytja, heldur neyddust til þess, vegna þess að það var svo mikil fátækt í landinu þeirra.

 

Á Íslandi búa margir sem hafa neyðst til að flytja í burtu frá landinu sínu og ástæðurnar eru margar. Sumstaðar er erfitt að fá vinnu, sumstaðar er ekki öruggt að vera og sumstaðar er ekki til nægur matur til að allir geti borðað. Það var staða bræðranna Mahlóns og Kiljóns.

 

Rut kynntist manni sínum í heimalandi hans og var mjög hamingjusöm með honum. Þegar hann var dáinn ákvað Rut að flytja með tengdamóður sinni til Betlehem og hún flutti því burt frá fólkinu sínu. Sú ákvörðun hefur ekki verið auðveld en Rut þótti svo vænt um tengdamóður sína að hún gat ekki hugsað sér að verða eftir. Rut sagði við Naomí:

 

Reyndu ekki að telja mig á að yfirgefa þig og hverfa frá þér því að hvert sem þú ferð þangað fer ég, og hvar sem þú náttar þar nátta ég. Þitt fólk er mitt fólk og þinn guð er minn guð. (Rutarbók 1.16)

 

Í nýju landi þurfti hún að kynnast nýjum siðum, nýja menningu og nýtt tungumál.

 

Kannt þú annað tungumál en íslensku?

Hefur þú búið í öðru landi en á Íslandi?

Hvað fannst þér erfitt?

Hvað fannst þér spennandi og skemmtilegt?

 

Það er aldrei auðvelt að flytja til annars lands en maður verður alltaf ríkari af því að kynnast menningu annara og læra nýtt tungumál.

 

Ein leið sem hægt er að fara til að vinna með söguna er að fá barn sem er nýbúi á Íslandi til að segja frá reynslu sinn af því að flytja til Íslands.

 

Fyrir TTT:

 

Hefur þú upplifað sorg í þínu lífi?

 

Sagan af Rut er fjölskyldusaga og í þeirri fjölskyldu ríkir mikil sorg. Aðalpersóna sögunnar Rut, giftist inn í fjölskyldu og verður fyrir því að missa tengdaföður sinn, mág og eiginmann á skömmum tíma. Konurnar Naomí, Orpa og Rut standa því frammi fyrir því að þurfa að vinna úr djúpstæðri sorg í lífi sínu. Allar fara þær ólíkar leiðir í sorg sinni, Naomí ákveður að fara heim til Betlehem til að sækja í stuðning fjölskyldu sinnar, Orpa verður eftir í Móabslandi og ætlar að finna nýja fótfestu hjá fjölskyldu sinn og Rut ákveður að halda tryggð við tengdamóður sína og fylgja henni.

 

Það er engin ein leið til að vinna úr sorg en það er mikilvægt að þiggja stuðning fjölskyldu og vina þegar maður upplifir sorg. Mikilvægast af öllu er að tala um líðan sína og upplifun við einhvern sem maður treystir og taka ákvarðanir í samráði við fullorðna. Naomí, Orpa og Rut völdu að fara ólíkar leiðir en allar heiðruðu þær minningu ástvina sinna með ákvörðunum sínum.

 

Naomí bar sig vel þar til heim var komið en þegar hún hitti konurnar í Betlehem brotnaði hún saman og sagði frá sorg sinni.

 

Er þær komu þangað varð mikið uppnám í borginni vegna þeirra og konurnar spurðu: „Er þetta Naomí?“ En hún svaraði: „Kallið mig ekki Naomí, kallið mig Mara (Naomí merkir „hin hamingjusama“ en Mara merkir „hin beiska“). því að Hinn almáttugi hefur búið mér beiska harma. Rík fór ég héðan en tómhenta hefur Drottinn sent mig heim. Hvers vegna kallið þið mig Naomí úr því að Drottinn hefur niðurlægt mig og Hinn almáttugi hrellt mig?“ (Rutarbók 1. 19-31)

 

Í þessum stutta kafla kemur margt áhugavert í ljós. Konurnar í Betlehem sem þekktu Naomí fóru í mikið uppnám vegna þess sem gerst hafði. Þegar við deilum sorg okkar með öðrum kemur í ljós að fleirum er annt um aðstæður okkar en við gerum okkur grein fyrir.

 

Naomí vill að hún sé kölluð Mara, sem þýðir ‘hin beiska’, en ekki hinu hamingjuríka nafni sínu, mögulega vegna þess að hún trúir því ekki að hún geti upplifað gleði á ný í lífinu. Sú upplifun er mjög algeng hjá þeim sem syrgja en þó sorgin fari aldrei alveg úr lífi okkar, þá upplifa allir gleði á ný í lífinu og svo er einnig með Naomí í framvindu sögunnar.

 

Naomí orðar að hún hafi farið frá Betlehem rík og komið tómhent til baka. Í upphafi sögunnar kemur hinsvegar fram að fjölskyldan hafi hvorki átt peninga né mat og þessvegna hafi þau flúið land sitt og flutt til Móabslands. Ríkidæmi felst nefnilega ekki í veraldlegum verðmætum, heldur er það fólkið okkar sem gerir okkur ríkt. Hvort haldið þið að sé betra að eiga auðævi en enga fjölskyldu eða vini, eða að vera fátækur í faðmi fólks sem elskar þig. Naomí hefur sannarlega misst mikið við að eiginmaður hennar og synir dóu.

 

Loks orðar Naomí reiði við Guð fyrir að leyfa þessu að gerast. Það er hollt að orða reiði sína við Guð og hann huggar og elskar þó að við séum reið út í hann. Mikilvægt er að muna að Guð veldur ekki því sem miður fer í heiminum, en hann er til staðar til að leiða okkur í gegnum erfiðleikana.

 

Hefur þú upplifað það að einhver nákominn þér deyji?

Hefur þú fundið þannig til í hjartanu að þér finnist lífið aldrei verða aftur gott?

Hvað er mikilvægast að muna þegar við þekkjum einhvern sem á bágt?

Hvernig getum við orðið að gagni?

 

Það er alltaf erfitt að ganga í gegnum sorg og dauðinn er alltaf sár.

 

Dauðinn er óhjákvæmilegur hluti af lífinu en við eigum það loforð að eiga líf eftir dauðann í faðmi Guðs og ástvina okkar sem eru farin á undan. Það loforð er huggun harmi gegn.

 

Ein leið til að opna á umræðu um sorg er að spyrja krakkana hvort þau hafi misst gæludýr, þannig er rætt um dauðan og sorgina án þess að ganga of nærri málefninu. Það er mikilvægt að ræða um dauðan við börn til að undirbúa þau undir sorg og hjálpa þeim í gegnum hana og kirkjan hefur þar mikilvægu hlutverki að gegna.

 

Fyrir unglingastarf:

 

Er hungursneið til í dag?

 

Rutarbók hefst á því að hjónin Elímelek og Naomí og synir þeirra, Mahlón og Kiljón, flýja heimili sitt í Betlehem sökum hungursneyðar. Hungurs-neyð merkir það þegar aðstæður í landi verða þannig að matur vex ekki og húsdýr deyja vegna þurrka eða annarra aðstæðna. Slíkar aðstæður hafa myndast ítrekað í gegnum söguna og tvisvar á allra síðustu árum, 2011 í Sómalíu í Afríku og 2012 í löndunum á vesturströnd Afríku (Senegal, Gambíu, Nígeríu, Máritaníu, Malí og Búrkína Fasó).

 

Á Íslandi var um aldir ónógur matur og þessvegna er íslensk matargerð til forna hönnuð til að varðveita mat sem best. Þorramatur er súr vegna þess að þannig geymist hann, hákarlinn kæstur til varðveislu og fiskur þurrkaður og/eða saltaður til að hann skemmist ekki. Slíkar aðferðir dugðu okkur um aldir en reglulega kom það fyrir að einhverjar náttúruhamfarir á borð við eldgos eða kuldaskeið hrintu af stað matarskorti og hungursneyð á Íslandi.

 

Rutarbók hefst með orðunum:

 

Á stjórnartíð dómaranna varð einhverju sinni hungursneyð í landinu. Fór     þá maður nokkur ásamt konu sinni og tveimur sonum frá Betlehem í Júda   til að leita hælis sem aðkomumaður á Móabssléttu. (Rutarbók 1.1-2)

 

Stundum þarf ekki mörg orð til að lýsa aðstæðum fólks. ,,Stjórnartíð dómaranna” lýsir þeim tíma þegar frásögnin á að gerast en því skeiði er lýst í bókinni á undan, Dómarabókinni svokölluðu. Fjölskyldan flýr frá Betlehem í Júda til Móabslands en það lá austan við landið hinum megin við Dauðahafið. Ferðalagið hefur verið hættulegt á tíma þegar ekki var vatn til staðar og þurrkur mikill og segir að þau hafi leitað hælis sem aðkomufólk á Móabssléttu.

 

Fólk sem leitar hælis í öðru landi, nefnast hælisleitendur. Hælisleitendur á Íslandi eru margir og aðstæður þeirra ólíkar, margir hafa flúið heimaland sitt vegna stríðsátaka, sumir vegna ofsókna af einhverju tagi og enn aðrir vegna atvinnuleysis, fátæktar og matarskorts. Hælisleitendur eiga það sameiginlegt af hafa lagt á sig hættulegt ferðalag til framandi lands og hafa þurft að biðja um aðstoð. Margir fá því miður synjun en aðrir setjast hér að og jafnvel stofna fjölskyldur með Íslendingum eins og Mahlón og Kiljón gerðu.

 

Þekkir þú fólk sem hefur flutt hingað af neyð?

Þekkir þú einstaklinga sem eru í sambandi við fólk af erlendu þjóðerni?

 

Hjálparstarf kirkjunnar starfar með fólki í neyð hérlendis og erlendis og æskulýðsfélagið ykkar getur fræðst um starfið með því að hafa samband við Hjálparstarf kirkjunnar. Í kirkjunni starfar prestur sem hefur það hlutverk að vinna með innflytjendum og mikið af hans starfi er með hælisleitendum. Hann heitir sr. Toshiki Toma (toshiki@toma.is) og honum þætti vænt um að fá tækifæri til að segja æskulýðsfélaginu ykkar frá starfi sínu og aðstæðum hælisleitenda á Íslandi.

 

Mikilvægasta forvörnin gegn hungursneyð er að tryggja aðgang að hreinu vatni, til að vökva gróður og gefa fólki og dýrum að drekka. Þegar þurrkur herjar á landsvæði er oft hægt að sækja vatn ofan í jörðina en til þess þarf vandaða brunna sem auðvellt aðgengi er að. Hjálparstarf kirkjunnar hefur undanfarin 20 ár safnað fé til að byggja brunna í Afríku með aðstoð fermingarungmenna og upphæðin sem hefur safnast nálgast 100 milljónir íslenskra króna. Þorpin sem hafa fengið aðgang að hreinu vatni í gegnum hjálparstarf fermingarungmenna á Íslandi skipta hundruðum. Hægt er að fræðast um vatnsverkefni Hjálparstarfs kirkjunnar á heimasíðunni: www.help.is.

 

Hægt er að nota efnið til að ræða um fátækt, misskiptingu, flóttamannavandann í Evrópu, matarsóun, vatnsvernd og ábyrgð okkar gagnvart þeim sem minna mega sín.

 

Daníel

 

Fyrir sunnudagaskóla:

 

Daníel hét maður sem var besti vinur og besti ráðgjafi Daríusar, konungsins í heimalandi þeirra. Eitt af því sem hann gerði betur en allir aðrir var að ráða drauma fólks og það gerði hann oft fyrir konunginn. En vegna þess að konungurinn treysti mest á Daníel af öllum ráðgjöfum sínum urðu hinir ráðgjafarnir mjög afbrýðissamir. Þeir vissu líka að Daníel bað oft og mikið til Guðs. Þess vegna fóru þeir til konungsins og sannfærðu hann um að láta skipa svo fyrir að ekki ætti að tilbiðja neina guði, aðeins hann sjálfan. Þeim sem ekki færu eftir þessu yrði hent fyrir ljónin. En Daníel datt ekki í hug að hlýða skipunum konungsins og baðst fyrir eins og hann var vanur. Þá lét konungur varpa honum í ljónagryfjuna. Um nóttina leið konungnum mjög illa af því að hann sá svo mikið eftir því sem hann hafði gert. Hann lá andvaka af áhyggjum og í býtið morguninn eftir hljóp hann út að ljónagryfjunni. Hann kallaði sorgmæddri röddu til Daníels: „Daníel! Bjargaði ekki Guð þinn þér?“ Daníel svaraði: „Jú svo sannarlega! Guð sendi engil og lokaði gini ljónanna, svo þau hafa ekki unnið mér neitt mein.“   Konungur gladdist mjög er hann heyrði þetta og lét draga Daníel upp úr ljónagryfjunni. Eftir þetta varð aftur leyfilegt að biðja til Guðs í landinu.

 

Við hér á Íslandi erum heppin að hér eru engin ljón að hræðast. En líður okkur kannski stundum eins og við séum umkringd ljónum? Við hvað erum við þá hrædd? Og hvað er best að gera þegar við erum hrædd?

Afbrýðissemi er tilfinning sem e.t.v. er erfitt fyrir börn á leikskólaaldri að ræða, en líka tilfinning sem þau þekkja, t.d. varðandi systkini sín. Þess vegna getur verið gagnlegt að ræða það.

Fyrir TTT:

 

Í Ísrael endur fyrir löngu bjó maður sem hét Daníel. Þá var konungur í Ísrael útlendur maður sem hét Daríus. Daníel var bæði besti vinur og besti ráðgjafi Daríusar konungs sem leyfði honum að ráða ýmsu. Eitt af því sem hann gerði betur en allir aðrir var að ráða drauma fólks og það gerði hann oft fyrir konunginn. En vegna þess að konungurinn treysti mest á Daníel af öllum ráðgjöfum sínum urðu hinir ráðgjafarnir mjög afbrýðissamir. Þeir vissu líka að Daníel bað oft og mikið til Guðs. Þess vegna fóru þeir til konungsins og sannfærðu hann um að láta skipa svo fyrir að ekki ætti að tilbiðja neina guði, aðeins hann sjálfan. Þeim sem ekki færu eftir þessu yrði hent fyrir ljónin. Konungurinn samþykkti þetta. En Daníel datt ekki í hug að hlýða skipunum konungsins og baðst fyrir eins og hann var vanur. Þá lét konungur varpa honum í ljónagryfjuna. Um nóttina l lá konungurinn andvaka af áhyggjum og eftirsjá eftir því sem hann hafði gert vini sínum og í býtið morguninn eftir hljóp hann út að ljónagryfjunni. Hann kallaði óttasleginn til Daníels: „Daníel! Bjargaði ekki Guð þinn þér?“ Daníel svaraði: „Jú svo sannarlega! Guð sendi engil og lokaði gini ljónanna, svo þau hafa ekki unnið mér neitt mein.“   Konungur gladdist mjög er hann heyrði þetta og lét draga Daníel upp úr ljónagryfjunni. Eftir þetta varð aftur leyfilegt að biðja til Guðs í landinu.

 

Hér er gott og gagnlegt að skoða tilfinninguna afbrýðissemi. Af hverju kviknar hún og hvað er til ráða? Það er ekkert óeðlilegt að finna til afbrýðissemi út í einhvern sem á eitthvað eða getur eitthvað sem við óskum okkur mjög heitt að eiga eða geta. En það er hins vegar mjög vond líðan að vera afbrýðissamur og þess vegna ekki gott fyrir okkur. Hvað er þá til ráða? Að hugsa frekar um það sem við eigum og við getum en það sem við eigum ekki og getum ekki. Temja okkur þakklátt hugarfar og líka að samgleðjast með náunganum, þá er líka líklegra að aðrir gleðjist með okkur þegar vel gengur.

Það er skelfileg tilhugsun að eyða heilli nótt í ljónagryfju. Góðu heilli eru engin ljón á Íslandi. En kannski líður okkur stundum eins og í ljónagryfju. Hvenær ætli það sé? Finnst okkur kannski stundum eins og okkur standi ógn af einhverjum eða einhverju sem við getum ómögulega sigrast á eða komist undan? Og hvað er þá til ráða? Og ætli við sjálf séum stundum þessi ljón á vegi annarra sem aðrir óttast? Í þessu sambandi má nefna einelti. Það er auðvelt að ímynda sér að fórnarlambi eineltis geti liðið eins og Daníel í ljónagryfjunni.

 

Fyrir unglingastarf:

 

Í Ísrael endur fyrir löngu bjó maður sem hét Daníel. Þá voru erfiðir tímar í Ísrael og útlendur konungur að nafni Daríus sem réð þar ríkjum. Daníel var bæði besti vinur og besti ráðgjafi Daríusar konungs enda var Daníel mörgum kostum búinn og hæfileikaríkur. Eitt af því sem hann gerði betur en nokkur annar í hans samtíð var að lesa í óræð tákn og ráða drauma fólks og það gerði hann oft fyrir konunginn. En Daníel var ekki eini ráðgjafi konungs heldur hafði hann fjölda slíkra í þjónustu sinni en vegna þess að konungurinn treysti mest á Daníel af öllum ráðgjöfum sínum fundu hinir til afbrýðissemi og vildu losa sig við Daníel. Eitt af því sem einkenndi Daníel var að hann var trúaður maður sem bað reglulega til Guðs. Því hugkvæmdist þeim að fara til konungsins og sannfærðu hann um að láta skipa svo fyrir að ekki ætti að tilbiðja neina guði, aðeins hann sjálfan. Þeim sem ekki færu eftir þessu yrði hent fyrir ljónin. Konungurinn samþykkti þetta. En Daníel lét ekki þessi nýju lög á sig fá og baðst fyrir eins og hann var vanur. Þá varð konungur að framfylgja hinum nýju lögum og láta varpa Daníel í ljónagryfjuna. Um nóttina lá konungurinn andvaka af áhyggjum og eftirsjá eftir því sem hann hafði gert vini sínum og í býtið morguninn eftir hljóp hann út að ljónagryfjunni. Hann kallaði óttasleginn til Daníels: „Daníel! Bjargaði ekki Guð þinn þér?“ Daníel svaraði: „Jú svo sannarlega! Guð sendi engil og lokaði gini ljónanna, svo þau hafa ekki unnið mér neitt mein.“   Konungur gladdist mjög er hann heyrði þetta og lét draga Daníel upp úr ljónagryfjunni. Eftir þetta varð aftur leyfilegt að biðja til Guðs í landinu.

 

Daníel var maður sem naut mikillar velgengni vegna hæfileika sinna. Hann var líka samkvæmur sjálfum sér og hugrakkur þar sem hann þorði að gera það sem sannfæring hans bauð honum jafnvel þótt það gæti kostað hann lífið. Þess vegna er ekki erfitt að skilja afbrýðissemi samstarfsmanna hans (sjá vangaveltur um afbrýðissemini í textanum fyrir TTT). Við þekkjum fleiri dæmi af svona hetjusögum, bæði úr Biblíunni og annars staðar. Við getum velt því fyrir okkur hvers vegna sumt fólk býr yfir slíku hugrekki að þora að standa með sjálfu sér alla leið hvað sem það kostar.

 

En ef við hugsum okkur sem svo að öll stöndum við á einhverjum tímapunkti frammi fyrir grimmum og svöngum ljónum sem vilja tæta okkur í sig þá sjáum við líka að við sjálf þurfum stundum að vera og erum iðulega sams konar hetjur. Ljónin í okkar vegi geta t.d. verið fólk, viðteknar hugmyndir o.fl. sem við þurfum að berjast gegn til að fá að vera eins og við raunverulega viljum vera.

 

Við getum velt því fyrir okkur hvort okkur hafi einhvern tíma liðið eins og í ljónagryfju. Hvenær ætli það sé? Finnst okkur kannski stundum eins og okkur standi ógn af einhverjum eða einhverju sem við getum ómögulega sigrast á eða komist undan? Upplifað okkur algjörlega varnarlaus? Og hvað er þá til ráða? Daníel er í frásögninni þessi mikla trúarhetja sem Guð verndar andspænis ljónunum. Við vitum auðvitað ekki hvað varð til þess að ljónin létu Daníel í friði en eitt af því sem er áhugavert í því sambandi er að velta fyrir sér hvort óttaleysi Daníels og trú hans hafi fyllt hann slíkri ró að ljónin hafi líka róast? Annað sem er gott að velta fyrir sér er hvort við séum einhvern tíma ljón á vegi annarra sem aðrir óttast?

 

 

 

Miriam

Fyrir sunnudagaskóla:

 

Einu sinni bjó í Egyptalandi stelpa sem hét Miriam með fjölskyldu sinni. Hún var af ættflokki Hebrea sem þá voru þrælar í Egyptalandi. En Faraó, konungur Egypta hræddist Hebrea því þeir voru orðnir svo margir í Egyptalandi. Þess vegna ákvað hann að öllum drengjum Hebrea skyldi kastað í fljótið Níl. Dag einn fæddi mamma Miriam lítinn dreng sem var látinn heita Móse. En þegar Móse litli fæddist ákvað mamma hans að fela hann þar til hann varð þriggja mánaða til að bjarga lífi hans. Þá gat hún ekki falið hann lengur og varð að finna aðra leið til að bjarga lífi hans. Hún bjó þá til körfu handa honum úr stráum, lagði hann í körfuna og setti hana varlega út á fljótið.

Miriam stóra systir Móse fylgdist með þessu öllu. Þegar hún sá mömmu sína setja Móse út á fljótið í körfunni ákvað hún að fylgja henni eftir og sjá hvað yrði um litla bróður sinn. Til að enginn sæi hana þá faldi hún sig inn á milli stórra grasstráa á árbakkanum og fór mjög varlega. Karfan með bróður hennar barst smám saman niður eftir fljótinu. Þá vildi svo til að prinsessan í Egyptalandi, dóttir vonda faraósins, fór út í fljótið að baða sig og sá þá körfuna með litla drengnum sem hafði borið alla þessa leið í fljótinu og var farinn að hágráta. Hún lét strax eina þjónustustúlkuna sína sækja Móse fyrir sig og sá þá að hann var einn af hebresku drengjunum sem pabbi hennar hafði sagt að ætti að kasta í fljótið en hún vorkenndi honum. Þá stökk Miriam systir hans fram úr felustað sínum milli stránna og sagði við prinsessuna: „á ég að finna fyrir þig hebreska konu sem getur haft hann á brjósti fyrir þig?“ „Já, endilega“ svaraði prinsessan sem hafði ákveðið að taka litla drenginn til sín og ala hann upp sjálf. Þá hljóp Miriam heim og sótti mömmu sína. Þannig gat mamma hans hugsað um drenginn sinn en enginn vissi að hann var barnið hennar. Þegar Miriam var orðin fullorðin átti hún eftir að aðstoða Móse við að leiða hebresku þrælanna burtu frá þrældómnum í Egyptalandi. Hún var nefnilega svo hugrökk alla sína ævi, bæði þegar hún var lítil stelpa og bjargaði lífi bróður síns, og líka þegar hún var fullorðin.

 

Kannski er einhver í kirkjunni hér í dag sem er frá öðru landi en Íslandi? Hvernig komum við fram við þau sem eru frá öðru landi?

Eru einhverjir hér sem þurfa stundum að passa yngri systkini? Það getur verið mjög erfitt.

 

Fyrir TTT:

 

Einu sinni bjó í Egyptalandi stelpa sem hét Miriam með fjölskyldu sinni. Hún var af ættflokki Hebrea sem þá voru þrælar í Egyptalandi. En Faraó, konungur Egypta hræddist Hebrea því þeir voru orðnir svo margir í Egyptalandi. Þess vegna ákvað hann að öllum drengjum Hebrea skyldi kastað í fljótið Níl. Dag einn fæddi mamma Miriam lítinn dreng sem var látinn heita Móse. En þegar Móse litli fæddist ákvað mamma hans að fela hann þar til hann varð þriggja mánaða til að bjarga lífi hans. Þá gat hún ekki falið hann lengur og varð að finna aðra leið til að bjarga lífi hans. Hún bjó þá til körfu handa honum úr stráum, lagði hann í körfuna og setti hana varlega út á fljótið.

Miriam stóra systir Móse fylgdist með þessu öllu. Þegar hún sá mömmu sína setja Móse út á fljótið í körfunni ákvað hún að fylgja henni eftir og sjá hvað yrði um litla bróður sinn. Til að enginn sæi hana þá faldi hún sig inn á milli stórra grasstráa á árbakkanum og fór mjög varlega. Karfan með bróður hennar barst smám saman niður eftir fljótinu. Þá vildi svo til að prinsessan í Egyptalandi, dóttir vonda faraósins, fór út í fljótið að baða sig og sá þá körfuna með litla drengnum sem hafði borið alla þessa leið í fljótinu og var farinn að hágráta. Hún lét strax eina þjónustustúlkuna sína sækja Móse fyrir sig og sá þá að hann var einn af hebresku drengjunum sem pabbi hennar hafði sagt að ætti að kasta í fljótið en hún vorkenndi honum. Þá stökk Miriam systir hans fram úr felustað sínum milli stránna og sagði við prinsessuna: „á ég að finna fyrir þig hebreska konu sem getur haft hann á brjósti fyrir þig?“ „Já, endilega“ svaraði prinsessan sem hafði ákveðið að taka litla drenginn til sín og ala hann upp sjálf. Þá hljóp Miriam heim og sótti mömmu sína. Þannig gat mamma hans hugsað um drenginn sinn en enginn vissi að hann var barnið hennar. Þegar Miriam var orðin fullorðin átti hún eftir að aðstoða Móse við að leiða hebresku þrælanna burtu frá þrældómnum í Egyptalandi. Hún var nefnilega svo hugrökk alla sína ævi, bæði þegar hún var lítil stelpa og bjargaði lífi bróður síns, og líka þegar hún var fullorðin.

Mörgum finnst mjög þreytandi að þurfa að passa yngri systkini. Það getur líka verið mjög erfitt. En þrátt fyrir það þykir okkur vænt um systkini okkar og þess vegna viljum við líka vernda þau. Við erum alltaf tilbúin að leggja okkur aðeins meira fram og ganga aðeins lengra fyrir þau sem við elskum. Líklega var það ekki síst ástin á litla bróður sem gaf Miriam hugrekkið sem þurfti til og hún sýndi líka kænsku.

Kannski getum við hugsað um einhverjar aðstæður í lífi okkar sem hafa krafist þess af okkur að við sýndum bæði hugrekki og kænsku?

Konungurinn óttaðist Hebreana af því þeir voru orðnir svo margir og tók þess vegna að sýna þeim þessa ólýsanlegu grimmd. Ótti er erfið tilfinning. Stundum er fyllsta ástæða til að vera óttaslegin, þ.e. frammi fyrir raunverulegri hættu, þá er óttinn tilfinning sem hjálpar okkur að vega og meta aðstæður rétt, hjálpar okkur að koma okkur út úr hættunni og leita skjóls. En þegar við stöndum ekki frammi fyrir raunverulegri ógn heldur óttumst að ástæðulausu, eins og konungurinn í sögunni sem hafði alveg gleymt því að af því að hann var valdamikill var það fyrsta skylda hans að sýna fólki umhyggju og virðingu hafði óttinn gert hann grimman eins og hann getur gert í garð þeirra sem við óttumst. Í því samhengi er óttinn nátengdur afbrýðisseminni sem rædd er nánar í efninu um Daníel.

 

Fyrir unglingastarf:

 

Í 2. Mósebók er sagt frá stúlku sem hét Miriam og bjó í Egyptalandi stelpa ásamt fjölskyldu sinni. Hún var af ættflokki Hebrea sem þá voru þrælar í Egyptalandi. En Faraó, konungur Egypta hræddist Hebrea því þeir voru orðnir mjög fjölmenn þjóð í Egyptalandi. Því lét faraó þau boð út ganga að drengjum Hebrea skyldi kastað í fljótið Níl. Stuttu síðar fæddi móðir Miriam lítinn dreng sem var látinn heita Móse. Til að bjarga lífi hans faldi móðir Móse hann þar til hann varð þriggja mánaða. Þá gat hún ekki falið hann lengur og varð því að finna aðra leið til að bjarga lífi hans. Hún bjó þá til körfu handa honum úr stráum, þétti hana með biki og tjöru, lagði hann í körfuna og setti hana varlega út á fljótið.

Miriam stóra systir Móse fylgdist með þessu öllu. Þegar hún sá mömmu sína setja Móse út á fljótið í körfunni ákvað hún að fylgja henni eftir og sjá hvað yrði um litla bróður sinn. Hún var mjög varkár og faldi sig inn á milli stórra grasstráa á árbakkanum. Karfan með bróður hennar barst smám saman niður eftir fljótinu. Þá vildi svo til að prinsessan í Egyptalandi, dóttir faraós, fór út í fljótið að baða sig og sá þá körfuna með litla drengnum sem hafði borið alla þessa leið í fljótinu og hágrét. Hún lét strax eina þjónustustúlkuna sækja Móse fyrir sig og sá þá um leið að hann var einn af hebresku drengjunum sem pabbi hennar hafði sagt að ætti að kasta í fljótið. Hún fann til með honum. Þá stökk Miriam systir hans fram úr felustað sínum milli stránna og sagði við prinsessuna: „á ég að finna fyrir þig hebreska konu sem getur haft hann á brjósti fyrir þig?“ Prinsessan þáði það með þökkum og ákvað að taka litla drenginn að sér. Þá hljóp Miriam heim og sótti mömmu sína og fór með hana í höllina þar sem móðir þeirra svo dvaldi hjá Móse allt þar til hann var orðinn svo stór að hann hætti á brjósti (líklegt er að á þessum tíma hafi börn verið mun lengur á brjósti en algengast er í dag, jafnvel til fjögurra ára aldurs).   Þannig gátu þau mæðginin verið saman án þess að nokkur vissi að þau væru skyld.

Þegar Miriam var orðin fullorðin reyndi aftur á hugrekki hennar og kænsku þegar hún og Aron bróðir þeirra voru stoð og stytta Móse sem Guð hafði kallað til að leiða hebresku þrælana út úr Egyptalandi.

 

Athyglisvert að „hetjurnar“ í þessari sögu eru allt konur. Aðeins einn karlmaður kemur við sögu og hann er hræddur, þrátt fyrir að vera sá eini í sögunni sem hefur raunveruleg völd. Önnur persóna sögunnar sem þó hefur einhver völd er dóttir hans, prinsessan, en hún nýtir þau til góðs. Völd eru nefnilega vandmeðfarin og það er mikilvægt að þau sem hafa völd nýti þau til góðs bæði fyrir sig og þau sem þau eiga að þjóna. Annað sem við sjáum af þessu er að í öllum aðstæðum lífsins höfum við val um það hvernig við bregðumst við?

Það sem er athyglisvert við þessa hræðslu er að hún beinist ekki að öðrum valdamiklum aðilum heldur að þrælum, undirmálsfólki, útlendingum. Það er eitthvað sem við könnumst við. Í umræðu dagsins í dag eru málefni flóttafólks efst á baugi. Við heyrum þetta stef iðulega þar, óttann við útlendingana. Þar þurfum við líka að hafa í huga valdastöðu okkar gagnvart þeim. Getum við tekið Miriam okkur til fyrirmyndar? Sýnt kænsku, umhyggju, hugrekki?

 

 

 

 

Höfundar efnis:

Ninna Sif Svavarsdóttir

Sigurvin Lárus Jónsson

Rakel Brynjólfsdóttir

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (teikningar)

 

 

 

Flokkar: Efnisveitur

Æskulýðsdagurinn 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Miðv.d., 10/02/2016 - 13:42

Yfirskrift æskulýðsdagsins 2916 er
,,Í Biblíunni eru engir dýrlingar … bara fólk að fylgja Guði”.

Í efninu verður kafað dýpra í fjórar persónur úr Biblíunni og velt vöngum yfir ólíkum hliðum á aðstæðum þeirra.

Persónurnar eru Miriam systir Móse, sem fjallað er um í 2. Mósebók; Rut, aðalsögupersóna Rutarbókar; Daníel sem Daníelsbók fjallar um og María Magdalega vinkona Jesú.

Hverri persónu fylgja þrjár hugleiðingar sem miða að ólíkum aldursbilum, leikrit sem varpa ljósi á aðstæður þeirra og myndir sem hægt er að nota til kynningar og frásagnar í guðsþjónustum æskulýðsdagsins.

Söfnuðir geta nýtt sér efnið að vild, valið að fjalla um allar persónurnar eða samþætt einstaka hugleiðingu við áherslur í æskulýðsguðsþjónustu dagsins.

Markmiðið er að glæða persónur Biblíunnar lífi með því að dýpka umfjöllun um þær og draga í burtu helgiljómann. Hugleiðingarnar er ekki hægt að lesa beint, heldur þarf viðkomandi leiðtogi eða prestur að vinna sjálfstætt úr efninu í samhengi við endursögn sögunnar.

Vonandi verður efnið hvati til samtals og vinnu með þessar áhugaverðu persónur.

Höfundar efnis eru:

Ninna Sif Svavarsdóttir

Sigurvin Lárus Jónsson

Rakel Brynjólfsdóttir

Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (teikningar)

Flokkar: Efnisveitur

Æskulýðsdagurinn 7.mars 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Miðv.d., 10/02/2016 - 13:28

Hér kemur efni æskulýðsdagsins

Flokkar: Efnisveitur

Gefðu voninni vængi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Miðv.d., 03/02/2016 - 14:30

Nú býðst sóknum landsins að taka þátt í söfnunarverkefni sem hefur um leið uppeldislegt gildi. Hefur verkefnið hlotið yfirskriftina Gefum voninni vængi.
Gerðir hafa verið tveir samstæðir söfnunarbaukar.
Annar baukurinn er merktur Sjóður fyrir náungann en hinn Sjóður fyrir mig.
Um leið og við gefum eigin vonum vængi er mikilvægt að huga að náunganum og hafa hugföst orð Jesú um að við eigum að elska náungann eins og sjálf okkur.
Þarna gefst foreldrum og fræðurum í barnastarfi kirkjunnar færi á að kenna börnunum annars vegar að það er skynsamlegt að safna fyrir því sem mann vantar og hins vegar að öll berum við ábyrgð á þeim sem minna eiga. Hjálpumst að við að gefa vonum þeirra vængi.
Baukana myndskreytti Halla Sólveig Þorgeirsdóttir.
Kirkjur geta nálgast baukana hjá Atla Hafliðasyni hjá Hjálparstarfi kirkjunnar atli@help.is.
Kirkjurnar munu síðan aðstoða við að koma baukunum til Hjálparstarfsins í lok söfnunarinnar.
Gert er ráð fyrir að söfnunin standi til 20.mars.

Flokkar: Efnisveitur

4.september 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 01/02/2016 - 12:56

Flokkar: Efnisveitur

Haustönn 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 01/02/2016 - 12:55
Flokkar: Efnisveitur

Haustönn 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 01/02/2016 - 12:53

<a href=”http://efnisveita.kirkjan.is/?p=12832″/><strong>4.sept</strong></a>

11.sept

18.sept

Flokkar: Efnisveitur

Bænadagur kvenna 2016

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 28/01/2016 - 14:27

Alþjóðlegur bænadagur kvenna, sem á sér rætur í amerískum kristniboðs- og kvennahreyfingum 19. aldar, var fyrst haldinn á Íslandi þann 8. mars 1935 að frumkvæði kvenna í KFUK, ekki síst alþingiskonunnar Guðrúnar Lárusdóttur. Fram til 1957 er hljótt um daginn í hérlendum heimildum en þá voru það konur frá Hjálpræðishernum sem hófu að halda daginn hátíðlegan og hefur það verið gert óslitið síðan, í bráðum 60 ár.

 

Hópur kvenna frá 11 söfnuðum og kristilegum hreyfingum undirbýr daginn hérlendis, þýðir efni til að senda út um land og býður til bænasamkomu á höfuðborgarsvæðinu. Að þessu sinni kemur efnið, sem alþjóðaskrifstofan í New York sendir út, frá Kúbu. Samkoma verður í Fríkirkjunni í Reykjavík 4. mars kl. 20 og víðar um land.

Fljótlega verður barnadagskráin  í þýðingu Sigríðar Schram sett hér fyrir neðan sem viðhengi. 

María Ágústsdóttir

Flokkar: Efnisveitur

Gleðilegt ár!

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 05/01/2016 - 09:55

Nú hefst starfið að nýju eftir jólin. Barnaefnið er tilbúið á sínum stað og við horfum með eftirvæntingu til nýrra möguleika.
Hér á Biskupsstofu fáum við liðsauka í fræðslumálin: Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson verður með okkur í 3 mánuði frá 1.febrúar og Hildur Björk Hörpudóttir hefur verið ráðin prestur á Reykhóla. Þegar þetta er skrifað er ekki komin vígsludagsetning hjá henni. Reykhólaprestur hefur 50% starfshlutfall á Biskupsstofu og mun hún því nýtast okkur vel í fræðslumálunum.
Hildur Björk og Guðmundur Karl eru okkur hér af góðu kunn enda lagt okkur lið síðustu misserin.
Að fræðslumálum standa einnig undirrituð, Edda Möller hjá Skálholtsútgáfunni og Sr. Halldór Reynisson sem sér um fræðslumál tengd Skálholti.

Bestu kveðjur,
Elín Elísabet Jóhannsdóttir
ritstjóri Efnisveitunnar

Flokkar: Efnisveitur

Þetta er prufufærsla

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 23/11/2015 - 16:02

Þetta er purfusíða á prufufærslu

ég ætla að skrifa svolítið hérna og sjá hvar það lendir

Flokkar: Efnisveitur

Brúðuleikritið Ævintýrapokinn: Sköpunin

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Þri, 17/11/2015 - 09:48

Í ævintýrapokanum er lítill upprúllaður miði sem á stendur: ,,Það eyðist sem af er tekið”.
Hafið auk þess nokkur blöð og liti fyrir brúðurnar og hanska til þess að útvega þeim hendur.

Mýsla er að teikna þegar Rebbi kemur.

Rebbi: Hvað ertu að gera Mýsla?

Mýsla: Teikna.

Rebbi: Má ég líka teikna?

Mýsla: (Lítur ekki upp, heldur bara áfram að teikna- segir eintóna) Já, ef þú finnur blað.

Rebbi: Hvar er blað?

Mýsla: (Mýsla finnur blað- segir eintóna) Hérna gjörðu svo vel.
Rebbi byrjar að teikna en krassar svo yfir allt í hálfgerðu æðiskasti

Rebbi: Urr! Þetta er ónýtt. Áttu annað blað?

Mýsla: (Hugsunarlaust) Já. (Réttir honum annað blað).

Rebbi: Takk. Sko nú ætla ég að gera ódauðlegt listaverk. Og ég ætla að vanda mig rosalega mikið.(Krassar aftur yfir allt í hálfgerðu æðiskasti) O…þetta misheppnast alltaf! Láttu mig fá annað blað, Mýsla (Rebbi réttir höndina í áttina að Mýslu).

Mýsla: (Hneyksluð) Heyrðu Rebbi, þú eyðir bara og eyðir blöðum.

Rebbi: Er það ekki í lagi? Eigum við hvort sem er ekki bara alveg nóg af þeim?

Mýsla: (Hikandi) Jú…en …bara…

Rebbi: (Skiptir um umræðuefni) Heyrðu! Við erum að gleyma að kíkja í ævintýrapokann. Hvað ætli sé í honum?

Mýsla: (Kæruleysislega) Ábyggilega fleiri blöð!
 Rebbi kíkir í pokann. Í fyrstu virðist hann tómur..

Rebbi: (Bregður) Ha?! Pokinn er tómur!

Mýsla: (Efins) Ég trúi því ekki!

Rebbi: (Hissa) Jú…hann er galtómur!

Mýsla: (Undrandi) Þetta hefur aldrei komið fyrir áður.

Rebbi: Ég ætla að gá aðeins betur. (gáir og tekur upp lítinn upprúllaðan miða) Hmm…hvað er nú þetta?

Mýsla: (Við leiðbeinandann) Getur þú lesið það sem stendur á miðanum?

Leiðbeinandinn: (Tekur miðann og les) ,,Það eyðist sem af er tekið”

Rebbi: (Botnar ekkert í þessu) Hvað er átt við með því?

Mýsla: (Hugsi) Hmm…ég held að ég skilji þetta. Ef maður eyðir og eyðir þá endar með því að það er ekkert eftir.

Rebbi: Já, eins og ég eyddi blöðum í tóma vitleysu áðan.

Leiðbeinandinn: (Blandar sér í málin) Þetta þýðir í rauninni að við eigum að fara sparlega með hlutina okkar og fara vel með allt sem Guð hefur gefið okkur því annars verður kannski ekkert eftir af gjöfunum hans.

Mýsla: Hmmm. Þetta þurfum við að hugsa betur um Rebbi minn.

Rebbi: Já. Komum heim að hugsa.

Mýsnar kveðja og hverfa.

 

Flokkar: Efnisveitur

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Efnisveitur