Efnisveitur

Föndur – Jesús skírður

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 02/07/2018 - 20:32

Það er oft gott að gera prótótýpu fyrir samveruna svo að krakkarnir eigi auðveldara með að skilja föndrið og hvernig það er sett saman. (Sjá mynd hér að neðan)

Flokkar: Efnisveitur

Föndur – Verum ekki áhyggjufull

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 02/07/2018 - 18:15

Það er oft gott að gera prótótýpu fyrir samveruna svo að krakkarnir eigi auðveldara með að skilja föndrið og hvernig það er sett saman. (Sjá hér að neðan)

Flokkar: Efnisveitur

Föndur – Fjölskylda Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 02/07/2018 - 17:22

Þegar við förum í fótspor Jesú upplifum við kærleika, traust, hjálpsemi, þolinmæði, fyrirgefningu, von, trú, velvilja, styrk, blíðu og ljúfleika. (Sjá mynd hér að neðan sem hægt er að skreyta með hjörtum og stjörnum og öllum þessum fallegu orðum hér að ofan).

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Á bjargi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - fös, 08/06/2018 - 08:22

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Hlutbundin kennsla

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Kristniboð

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 18:24

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 17a

Jesús sagði lærisveinum sínum að fara út um allan heim. Þau áttu ekki bara að ferðast, heldur fyrst og fremst að kenna og skíra fólk til trúar, jafnframt að taka vel á móti þeim sem vildu koma í kirkjuna hans. Jesús gaf öllum lærisveinum sínum loforð, hann sagði: „Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“ Jesús sagði líka að Guð hefði gefið honum allt vald á himni og jörðu. Þess vegna gat hann lofað lærisveinum sínum að vera alltaf með þeim. Jesús hafði vald, það var vald kærleikans. Jesús var líka alltaf á valdi kærleikans, þess vegna gat hann fórnað sér fyrir okkur og elskað óvini sína. Jesús lét stjórnast af kærleikanum en ekki óttanum.

Hann þráði líka að lærisveinar hans gætu verið óttalausir, þess vegna gaf hann þeim þetta loforð. Eigum við að segja þetta lororð saman: „Sjá, ég er með yður alla daga, allt til enda veraldar.“

Mynd 17b

Lærisveinar Jesú sem fara um og segja frá honum eru oft kallaðir kristniboðar. Það er til fullt af fólki um allan heim til að segja frá vini sínum Jesú frá Nasaret. Getum við orðið kristniboðar? (Leyfa börnunum að svara).

Ef okkur langar að segja frá Jesú og lífi hans þá skulum við gera það. Þá erum við líka kristniboðar. Vitið þið hvað margir trúa á Jesú í heiminum? (Leyfa börnunum að svara). Kristin trú eru stærstu trúarbrögð í heiminum í dag. Það eru um þrír milljarðar af fólki sem vill fylgja Jesú. Ekki þrjár milljónir heldur þrír milljarðar, sem eru þrjú þúsund milljónir. Hugsið ykkur fyrir tvö þúsund árum voru bara nokkrar manneskjur sem fylgdu Jesú.

Svona vinnur Jesús í gegnum kristniboðana sína og nú eru það um þrjú þúsund milljónir sem þekkja hann.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Hver er Jesús

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 18:18

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Sagan um Jesú – Hver var Jesús?

Stóra flettimyndabiblían – Kristniboð

Skírnarskipunin glærusjó

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Sagan um Jesú – Hver var Jesús?

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 18:11

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 16a

Margir þekkja Guð. Við þekkjum Guð í gegnum Jesú Krist. Guð þekkir alla. Í Biblíunni stendur að Guð þekki okkur svo vel að hann viti hvað við erum með mörg hár á höfðinu. Hann þekkir okkur betur en við þekkjum okkur sjálf. Guð vill að við séum börnin hans, þess vegna sendi hann Jesú til okkar svo við gætum eignast einstakan vin. En hver er Jesús? Við höfum heyrt margt um Jesú í sunnudagaskólanum í vetur og nú megið þið segja mér hver hann er. (Leyfa börnunum að svara. Einnig er hægt að vera með tússtöflu og skrifa upp stikkorð um það hver Jesús er).

Mynd 16b

Í vetur höfum við fengið að heyra sögur um Jesú frá því að hann var barn.

Þegar hann var nýfæddur þurftu mamma hans og pabbi að flýja með hann. Jesús var því flóttamaður þegar hann var pínulítill. Síðan heyrðum við söguna af Jesú þegar hann var 12 ára og varð eftir í musterinu í Jerúsalem. Pabbi hans og mamma leituðu að honum í þrjá daga. Þegar þau fundu Jesú sagði hann þeim að hann vildi vera í musterinu sem væri hús Guðs. Þannig vorum við minnt á það að Jesús er einstakur sonur Guðs. Síðan heyrðum við líka frásögur af því hvernig Jesús breytti lífi fólks, t.d. þegar hann hitti Sakkeus tollheimtumann og Bartímeus blinda. Jesús hjálpaði Sakkeusi að sjá það sem hann hefði gert rangt og Sakkeus hætti að stela og ljúga. Jesús gaf Bartímeus sjónina aftur. Þessar frásagnir segja okkur að Jesús er kennari og hjálpari. Við höfum í vor heyrt páskafrásögnina, þegar Jesús var krossfestur en reis upp frá dauðum. Páskarnir segja okkur að Jesús er kærleiksríkur og sterkari en dauðinn sjálfur.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Upprisudagurinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 18:01

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 12a

Jesús átti ekki bara vini meðan hann lifði heldur líka eftir að hann dó.

Einn þeirra var ríkur maður sem hét Jósef. Sá maður fékk leyfi til þess að sækja líkama Jesú eftir að hann var tekinn af krossinum. Jósef bjó um líkama hans og setti Jesú í gröf sem var inni í helli. Síðan var stórum steini velt fyrir gröfina. Óvinir Jesú voru hræddir, þeir vissu í hjarta sínu að Jesús var máttugur. Innst inni hafa þeir kannski vitað að Jesús gæti sigrað dauðann. Þess vegna voru sendir hermenn til að passa gröfina. Snemma á sunnudagsmorgni varð mikill jarðskjálfti og engill kom frá himni og velti steininum frá gröfinni. Þetta var of mikið fyrir hermennina sem höfðu aldrei upplifað neitt þessu líkt, enda leið yfir þá og þeir féllu til jarðar.

Þetta var svo sannarlega kraftur frá Guði.

Mynd 12b

Þrjár vinkonur Jesú voru á leið að gröfinni til að smyrja hann með olíu. Þær vildu sýna látnum vini sínum kærleika og virðingu. Þær voru að hafa áhyggjur af því á leiðinni hvernig þær kæmust inn í gröfina til Jesú af því að það var svo stór steinn fyrir sem þær gætu aldrei ýtt frá. En þær þurftu ekki að hafa áhyggjur af því. Af hverju ekki? (Leyfa börnunum að svara). Af því að engillinn hafði velt steininum frá. Konurnar voru nú glaðar þegar þær sáu að steinninn var ekki lengur fyrir, en þegar þær litu inn í gröfina sáu þær dálítið sem gerði þær hræddar. Hvað sáu þær? (Leyfa börnunum að svara). Þær sáu að Jesús var horfinn. Hver hafði tekið vin þeirra? Engillinn frá himnum var enn við gröfina og þegar hann sá hvað þær voru sorgbitnar færði hann þeim heimsins stærstu gleðifréttir. Hann sagði þeim að Jesús væri ekki í gröfinni af því að hann væri upprisinn, hann væri lifandi. Svo sagði hann þeim að drífa sig til baka og láta alla vini Jesú heyra þessar gleðifréttir.

 

*EF þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Atburðir kyrruviku

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 13:56

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Föstudagurinn langi

Mynd 11a

Þegar Jesús hafði borðað síðustu kvöldmáltíðina með vinum sínum fór hann ásamt nokkrum lærisveinum út í garð sem heitir Getsamane til að biðjast fyrir. Það var komin nótt. Jesús átti marga vini, en hann átti líka óvini. Óvinir hans höfðu notað einn lærisvein sem hét Júdas til að svíkja Jesú. Júdas kom inn í garðinn með hermenn til að handtaka Jesú. Jesús reyndi ekki að flýja heldur fór hann með hermönnunum. Hvers vegna flúði Jesús ekki? (Leyfa börnunum að svara). Jesús vissi að hann kom til jarðarinnar til að deyja fyrir fólkið í heiminum. Hann kom til að taka á sig refsinguna fyrir allt rangt og ljótt sem manneskjurnar í heiminum gera. Þess vegna flúði hann ekki. Óvinir Jesú sögðu að hann væri glæpamaður. Vitið þið hvað þeir sögðu að hann hefði gert af sér? (Leyfa börnunum að svara). Þeir sögðu að Jesús væri hættulegur af því að hann kallaði sig son Guðs.

Mynd 11b

En hver er Jesús? (Leyfa börnunum að svara). Jesús er sonur Guðs. Jesús var handtekinn fyrir að segja sannleikann um sjálfan sig. Óvinir Jesú sögðu að hann yrði að deyja.

Jesús var dæmdur til dauða og festur upp á kross á föstudeginum langa. Þetta var mikill sorgardagur fyrir alla sem elskuðu Jesú. Vitið þið hvað Jesús gerði meðan hann hékk á krossinum? (Leyfa börnunum að svara). Hann huggaði vini sína sem stóðu hjá krossinum og hann bað Guð að fyrirgefa óvinum sínum. Meðan Jesús var að deyja og fann mikið til hélt hann áfram að hugsa af kærleika um aðrar manneskjur. Jesús var hugrakkur vegna þess að hann vissi að lífið myndi sigra. Jesús vissi að Guð var sterkari en dauðinn.

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Síðasta kvöldmáltíðin

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 13:41

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 10a

Jesús hafði verið í löngu ferðalagi með lærisveinum sínum 12. Þeir höfðu heimsótt marga staði í landinu Ísrael þar sem Jesús fæddist og sagt fólki gleðifréttir. Vitið þið hvaða fréttir það voru? (Leyfa börnunum að svara). Það voru t.d. þær fréttir að manneskjur eru óendanlega dýrmætar í augum Guðs og að hann vill að allir séu guðsbörn. Jesús vissi að bráðum þyrfti hann að yfirgefa lærisveina sína til að stíga upp til himna og vera þar hjá föður sínum. Þess vegna ákvað Jesús að bjóða vinum sínum í kvöldmat til að kveðja þá. Jesús sagði lærisveinum sínum meðan þeir voru að borða að nú yrði hann að fara frá þeim. Hann sagði þeim líka að vera ekki áhyggjufullir, því að andi hans myndi aldrei yfirgefa þá. Vitið þið hvað andi Jesú heitir? (Leyfa börnunum að svara). Heilagur andi.

Mynd 10b

En áður en þeir borðuðu ákvað Jesús að þvo fætur allra vina sinna. Þetta fannst lærisveinunum skrítið. Jesús sem var mestur hann þvoði fætur þeirra.

En Jesús var að kenna þeim og minna þá á að vera ekki hrokafullir. Vitið þið hvað er að vera hrokafullur? (Leyfa börnunum að svara). Þeir sem eru hrokafullir finnast þeir vera meiri en aðrir. Jesús var líka að minna þá á að elska hvern annan. Þegar þessu var lokið settist hann við borðið og tók brauð, braut það í bita og þakkaði Guði. Síðan gaf hann öllum við borðið með sér. Næst tók hann bikar með víni og þakkaði Guði. Hann gaf vinum sínum líka að drekka af bikarnum. Svo sagði Jesús þeim að þeir skyldu halda áfram að hittast þegar hann væri farinn og borða saman máltíð eins og þessa til að minnast sín. Þess vegna höfum við altarisgöngu í kirkjunni okkar. Við viljum líka eiga svona kærleiksmáltíð.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Eyrir ekkjunnar

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 13:29

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 9a

Það geta allir verið fátækir og það geta allir verið ríkir. Þó svo að við eigum ekki mikið af peningum getum við verið mjög rík, hvernig haldið þið að það sé hægt? (Leyfa börnunum að koma með athugasemdir). Við getum verið rík af vinum, kærleika og fjölskyldu. Þið munið eftir honum Sakkeusi, hann var bæði ríkur og fátækur. Hann var ríkur af peningum, en fátækur af vinum.

Einu sinni sat Jesús með lærisveinum sínum inni í musterinu, munið þið hvað musteri er? (Leyfa börnunum að svara). Það er stórt og glæsilegt guðshús – eins og kirkjunnar hjá okkur.

Inni í musterinu voru nokkrir stórir peningakassar. Þeir voru opnir að ofan svo að þau sem kæmu inn í musterið gætu sett peninga í þá. Síðan notuðu þau sem unnu í musterinu peningana Guði til gleði. Hvað haldið þið að gleðji Guð? (Leyfa börnunum að svara). Það sem gleður hann mest er þegar manneskjur eru góðar og hjálplegar hver við aðra.

Mynd 9b

Meðan Jesús og lærisveinarnir sátu inni í musterinu komu margir að setja peninga í kassana. Þeir sáu margt ríkt fólk sem gaf mikla peninga. En allt í einu kemur tötralega klædd kona inn í musterið. Vitið þið hvað er að vera tötralega klædd? (Leyfa börnunum að svara). Það er að vera fátæklega klædd. Þessi kona var fátæk. Hún læddist að kössunum og setti tvo smápeninga ofan í, síðan læddist hún aftur út. Kannski fannst henni leiðinlegt að geta ekki gefið meira.

Jesús horfði á fátæku konuna með kærleiksaugum og sagði við lærisveina sína að þessi kona hefði gefið meira en allt ríka fólkið. Lærisveinarnir hafa örugglega orðið mjög hissa. Hvernig gat hún gefið meira en allir aðrir, þetta voru aðeins tveir litlir peningar. En Jesús útskýrði fyrir vinum sínum hvað hann meinti. Ríka fólkið gaf mikið, en það átti líka nóg af peningum og fann ekki fyrir því að gefa þessa peninga. Þessi kona gaf allt sem hún átti. Hún átti engan afgang, hún gaf ekki aðeins hluta eins og ríka fólkið. Hún gaf allt, því hún þráði svo að gleðja Guð og annað fólk að hún hugsaði ekkert um sjálfa sig. Jesús benti lærisveinum sínum á kærleika þessarar konu sem er líkur kærleika Guðs.

Hvernig er kærleikur Guðs? (Leyfa börnunum að svara). Kærleikur Guðs er óendanlega mikill, Guð vill gefa allt og við þurfum að þiggja kærleika hans og gefa öðrum með okkur.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Bartímeus blindi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 13:16

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 8a

Heimurinn er merkilegur staður. Þar er margt að sjá, það er hægt að skoða heiminn alla daga og alla ævi. En það eru ekki allir sem sjá heiminn með augunum, því sumir eru blindir. Þeir verða að finna aðrar leiðir, t.d. með því að snerta og lykta. Nú skulið þið standa upp, loka augunum og ganga um.

Við skulum sjá hvernig það gengur. (Leyfa börnunum að þreifa sig áfram svolitla stund).

Hvernig leið ykkur þegar þið sáuð ekkert? (Leyfa börnunum að koma með athugasemdir).

Þeir sem eru blindir þurfa aðstoð, sumir eiga t.d. hunda sem hjálpa þeim að rata. Svo notar margt blint fólk hvítan staf til að þreifa fyrir sér til að misstíga sig ekki. Það er nauðsynlegt að gera allt til að auðvelda blindu fólki lífið, til að þau geti séð um sig sjálf, menntað sig og unnið.

Mynd 8b

Einu sinni var blindur maður sem hét Bartímeus. Hann átti mjög erfitt, ekki aðeins af því að hann var blindur, heldur vegna þess að það hjálpaði honum enginn til að lifa sjálfstæðu lífi.

Vitið þið hvað er að vera sjálfstæður? (Leyfa börnunum að svara).

Það er að geta bjargað sér sjálfur. Þess vegna fór Bartímeus út á götu á hverjum degi og bað fólk sem fór framhjá að gefa sér mat. Einn daginn heyrði hann að Jesús væri að koma. Bartímeus ætlaði að tala við Jesú og biðja hann að hjálpa sér. Hann hafði góða heyrn, þeir sem eru blindir heyra oft afar vel, af því að þeir þurfa að nota eyrun mikið þegar ekki er hægt að nota augun. Bartímeus hafði heyrt að Jesús læknaði fólk.

Mynd 8c

Bartímeus heyrði að fólk nálgaðist og hann fór að kalla á Jesú. Fólkið sem fór eftir veginum sagði Bartímeusi að þegja. En Bartímeus var ákveðinn. Hann skyldi ná tali af Jesú. Svo hann hrópaði bara ennþá hærra. Það urðu allir hneysklaðir á þessum fátæka blinda manni. En það var einn sem var ekki hneykslaður. Vitið þið hver það var? (Leyfa börnunum að svara). Það var Jesús. Hann stoppaði og gekk til Bartímeusar. Þá bað Bartímeus Jesú að gefa sér sjónina aftur, hann vissi að Jesús var máttugur Guðs sonur. Þá sagði Jesús við alla sem vildu heyra að Bartímeus væri mjög trúaður og það væri trú hans sem gæfi honum sjónina aftur. Allt í einu fann Bartímeus að augun hans voru orðin heilbrigð og hann varð gífurlega glaður.

Nú gæti hann skoðað allan heiminn.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Flettimyndabiblían – Jesús stillir storminn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 04/06/2018 - 13:07

Gott er að vera búinn að æfa frásögnina áður en samveran hefst, því það er skemmtilegra að endursegja hana með eigin orðum en lesa upp af blaði.

Sjá glærurnar í viðhenginu hér fyrir neðan.

Mynd 6a

Jesús var alltaf að kenna fólki, Jesús var alltaf að hugga fólk og Jesús var alltaf að lækna fólk. Það voru margir sem þráðu að hitta Jesú og þess vegna þurfti hann að gefa þeim mikinn tíma. Einu sinni þegar Jesús hafði verið allan daginn með fólki var hann orðinn mjög þreyttur.

Hann sagði við lærisveinana, vini sína, að nú væri kominn tími til að kveðja og þeir skyldu róa yfir vatnið með honum. Það var ekki mikið mál fyrir þá því þeir voru flestir fiskimenn og vanir að róa bátum.

Mynd 6b

Lærisveinarnir reru af stað og Jesús settist í skut bátsins.

Vitið þið hvað skutur er? (Leyfið börnunum að svara).

Það er afturendinn á bátnum.

Veðrið var fallegt og öldurnar á vatninu rugguðu bátnum eins og þeir væru í vöggu. Þetta var góð hvíld fyrir Jesú og hann steinsofnaði. En allt í einu versnaði veðrið, það kom mikill vindur.

Vitið þið hvað gerist úti á sjó þegar það kemur mikill vindur? (Leyfið börnunum að svara).

Þá verða öldurnar mjög stórar og geta orðið hættulegar fyrir litla báta. Vindurinn óx og öldurnar skvettust á bátinn. Þó að lærisveinarnir væru vanir að róa bátum og veiða fisk urðu þeir mjög hræddir.

Mynd 6c

Hvað haldið þið að Jesús hafi gert? (Leyfið börnunum að svara).

Hann hélt bara áfram að sofa. Hann var ekkert hræddur. Lærisveinarnir voru undrandi á að Jesús skyldi bara sofa rólegur. Þeir ýttu við honum svo hann vaknaði og bentu honum á stóru öldurnar. Þeir voru óskaplega hræddir við það að báturinn færist og þeir drukknuðu.

En þá gerðist mikið undur.

Mynd 6d

Jesús stóð upp og horfði á vindinn og öldurnar og hann hrópaði til þeirra „Verið kyrr.“

Lærisveinarnir hafa örugglega haldið að hann væri að tala við þá og þeir þorðu ekki að hreyfa sig. En Jesús var ekki að skamma þá, hann var að hasta á vindinn og öldurnar.

Vitið þið hvað er að hasta? (Leyfið börnunum að svara).

Já, það er að segja einhverjum að hafa hljótt, vera ekki með læti. Skyndilega hlýddi vindurinn honum það lægði og þá urðu öldurnar aftur litlar. Lærisveinarnir urðu mjög hissa og sögðu hver við annan að Jesús væri svo máttugur að jafnvel vindurinn og öldurnar hlýddu honum. Jesús var svo sannarlega ofurhetja í þeirra augum.

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Efnisveitur