Efnisveitur

Biblíusaga – Jesús mettar 5000 manns

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 20:35

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Jesús og börnin + Sögustund I

Leyniteikning – Jesús mettar 5000 manns

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Konan sem snerti Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 20:26

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Leyniteikning – Jesús læknar konu

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Skuldugi þjónninn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:54

Biblíusaga 10.

Skuldugi þjónninn

 

Mynd 10a

Jesús vill að við séum hjálplegar og góðar manneskjur. Þá þurfum við líka að geta fyrirgefið. Stundum verðum við fyrir óréttlæti, einhver tekur eitthvað frá okkur eða segir eitthvað ljótt við okkur, þá getum við orðið reið. En það er líka vont að vera reiður.

Hvernig líður ykkur ef þið verðið reið? (Leyfa börnunum að svara.)

Ef við viljum losna við reiðina þá verðum við að fyrirgefa.

Hvernig líður ykkur þegar þið eruð búin að fyrirgefa? (Leyfa börnunum að svara.)

Hvernig haldið þið að sé að vera í leikskólanum, skólanum eða inni á heimilinu ef enginn er tilbúinn að fyrirgefa öðrum? (Leyfa börnunum að svara.)

Það er ekki gott að vera í leikskóla, skóla eða inni á heimili þar sem allir eru reiðir. Það er miklu skemmtilegra að vera vinir en óvinir. Þetta vissi Jesús, þess vegna var hann alltaf að segja lærisveinum sínum og vinum að vera tilbúnir til að fyrirgefa.

 

Einu sinni sagði Jesús dæmisögu um þetta. Sagan er svona:

Einu sinni var konungur. Hann var réttlátur og góður. Einn af þjónum hans skuldaði honum mikla peninga, en átti enga peninga til að borga skuld sína. Þegar konungurinn komst að því að skuldugi þjónninn var svona blankur ákvað hann að reynast honum vel.  Hann sagði við þjóninn að hann vissi að hann ætti enga peninga til að borga skuldina og þess vegna þyrfti hann ekki að borga krónu til baka. Hann mætti bara eiga peningana sem hann hafði skuldað. Þjónninn varð mjög feginn og glaður.

 

Mynd 10b

Því miður hafði þetta ekki kennt þjóninum að vera góður við aðra því þegar hann kom út frá konunginum hitti hann annan þjón sem skuldaði honum peninga en þó miklu minna en þjónninn hafði skuldað konunginum. Hann heimtaði að fá peningana strax til baka, en samþjónn hans átti ekki peninga til þess að borga og bað um frest. En þjónninn vildi ekki gefa honum frest, heldur lét setja hann í fangelsi.

Í höllinni voru fleiri þjónar. Þegar þeir fréttu þetta urðu þeir mjög sorgmæddir. Þeir létu konunginn vita. Konungurinn varð líka sorgmæddur og lét kalla á þjóninn. Konungurinn sagði við hann: – Grimmi þjónn. Ég sagði að þú þyrftir ekki að borga mér skuldina. Ég var góður við þig! Á sama hátt áttir þú að vera góður við samþjón þinn.

Konungurinn er eins og Guð, hann er alltaf tilbúinn að fyrirgefa okkur og þá eigum við líka að vera tilbúin að fyrirgefa hvert öðru.

 

*Ef þið hafið ekki skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusagan – Týndi sonurinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:33

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Týndi sonurinn

Týndi sonurinn (FLM Tvö börn að leik + Sögustund II – Glataður sonur)

Flokkar: Efnisveitur

Stóru flettimyndabiblían – Týndi sonurinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:32

Biblíusaga 8.

Týndi sonurinn

 

Mynd 8a

Jesús sagði lærisveinum sínum margar dæmisögur, til að kenna þeim hvað væri rétt og rangt, gott og illt. Nú skuluð þið hlusta afar vel, því ég ætla að segja ykkur eina af dæmisögunum sem Jesús sagði:

Einu sinni voru tveir bræður sem áttu heima á sveitabæ hjá pabba sínum. Pabba þeirra þótti mjög vænt um þá. Þeir áttu nóg af öllu og bræðurnir vissu að þeir myndu eignast það allt eftir að pabbi þeirra væri látinn.

Dag nokkurn fékk yngri bróðirinn þá flugu í höfuðið að hann vildi fá arfinn sinn strax. Vitið þið hvað arfur er?

Arfur er það sem fólk skilur eftir sig þegar það er dáið. Það geta t.d. verið peningar, hús, myndir, bækur eða föt.

Yngri bróðirinn vildi sem sagt fá arfinn sinn strax. Hann nennti ekki að bíða eftir því að faðir hans myndi deyja. Það var nú eiginlega dálítið skrýtið. Hann fór til pabba síns og sagði honum að hann vildi fá peningana strax, nú væri hann ungur og hress og vildi fara að skoða heiminn. Og hvað haldið þið að pabbi hans hafi gert?

 

Mynd 8b

Pabbinn ákvað að treysta stráknum sínum, hann þekkti strákinn vel og hugsaði með sér að líklega þyrfti hann að læra af lífinu til að verða betri manneskja. Þegar pabbinn var búinn að afhenda honum peningana fór strákurinn af stað út í hinn stóra heim. En því miður var hann ekki skynsamur. Hann fór illa með arfinn og líf sitt. Hann hugsaði bara um það að skemmta sér. Hann hugsaði ekkert um að gera gott eða undirbúa lífið sem hann átti framundan. Hann hugsaði t.d. ekkert um það, að kannski myndi hann eignast börn sem hann þyrfti að hjálpa og styðja eins og foreldrar hann gerðu. Nei! Hann var eigingjarn.

Vitið þið hvað er að vera eigingjarn? Það er að hugsa bara um sjálfan sig en ekki aðrar manneskjur. Dag einn voru allir peningarnir búnir og þá varð hann að finna sér vinnu.

Hann fékk starf við það að gæta svína. Hann fékk lítið að borða og suma daga var hann svo svangur að hann langaði að borða svínamatinn. Hann hugsaði með sér: – Hér er ég að passa svínin og er alltaf svangur. Ef ég fengi að vera vinnumaður í sveitinni hjá pabba fengi ég nóg af góðum mat. Ég ætla að fara aftur heim til hans. Ég get kannski ekki verið áfram strákurinn hans, en hann leyfir mér kannski að vera vinnumaður hjá sér. Eftir þessar vangaveltur lagði strákurinn af stað heim.

 

Mynd 8c

Þegar strákurinn nálgaðist æskuheimilið sitt, sá pabbi hans hann koma eftir veginum.

Haldið þið að pabbinn hafi verið reiður að sjá hann koma niðurlútan og fátækan til baka? Nei! Hann kenndi í brjósti um hann. Hann hljóp á móti stráknum sínum, faðmaði hann og kyssti. Strákurinn var auðmjúkur og sagði við pabba sinn að hann gæti ekki verið lengur strákurinn hans, því hann hefði klúðrað öllu lífi sínu. En pabbinn hlustaði ekkert á það, heldur bað alla á heimilinu að undirbúa stórkostlega veislu. – Sonur minn var týndur, en nú er hann fundinn! sagði hann hamingjusamur. Allir urðu mjög glaðir og tóku þátt í þessari miklu veislu, nema einn. Vitið þið hver það var? Það var eldri bróðirinn. Hann varð alveg ótrúlega reiður þegar hann kom og sá að litli bróðir hans, sem hafði klúðrað öllu, var kominn heim aftur og allir voru að fagna honum. Hann vildi ekki koma í veisluna. Hann sem hafði alltaf verið góður sonur, heima að hjálpa pabba sínum! Enginn hafði haldið veislu fyrir hann! Hann var afbrýðisamur. Pabbinn fór út að hugga eldri strákinn sinn. Hann sagði við hann: – Barnið mitt, þú ert alltaf hjá mér, og allt mitt er þitt. En bróðir þinn var týndur en nú er hann fundinn. Þess vegna verðum við að halda hátíð.

Jesús sagði lærisveinum sínum þessa dæmisögu til að minna þá á að Guð er eins og pabbinn í sögunni. Hann gefst aldrei upp á okkur, börnunum sínum. Hann er fullur af kærleika og tekur okkur í fangið og fyrirgefur okkur, þó svo að við förum illa með það sem hann gefur okkur í lífinu. En hann vill líka að við lærum í gegnum dæmisögurnar sem Jesús sagði. Þá rötum við alltaf til hans. Guð er himneskur faðir okkar og móðir og við erum fjölskyldan hans.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Gullna reglan

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:23

Biblíusaga 14.

Gullna reglan

 

Mynd 14a

Það eru til margar reglur sem við verðum að fara eftir í lífinu. Við höfum t.d. margar umferðarreglur.

Hvað gerist ef við förum ekki eftir reglum í umferðinni? (Leyfa börnunum að svara.)

Það geta orðið alvarleg slys á fólki og bílar farið í klessu.

Munið þið eftir einhverjum umferðarreglum? (Leyfa börnunum að svara)

Það er mjög mikilvægt að stoppa á rauðu ljósi og fara ekki af stað fyrr en græna ljósið er komið. Við eigum alltaf að muna að hlaupa ekki út á götu. Við þurfum fyrst að líta vel til beggja hliða. Ef það eru götuljós megum við aldrei gleyma því að græni karlinn er vinur okkar. Það væri hræðilegt ástand í umferðinni ef fólk stoppaði ekki á rauðu ljósi. Þá væru allir í lífshættu. Svo má aldrei gleyma að setja á sig bílbeltið. Beltin bjarga!! En við eigum líka reglur til að nota í samskiptum við aðrar manneskjur. Við eigum t.d. boðorðin tíu úr Biblíunni. Munið þið eftir einhverju boðorði?(Leyfa börnunum að svara.)

Þar stendur t.d. að við eigum ekki að ljúga eða stela. Þar stendur líka að við eigum ekki að drepa fólk. Boðorðin tíu eru mjög mikilvægar reglur sem við verðum öll að fara eftir.

 

Mynd 14b

Jesús kom með eina mjög merkilega reglu. Kannski er það besta og merkilegasta reglan sem til er enda er hún kölluð ,,Gullna reglan”. Gull er mjög dýr og merkilegur málmur og þessari reglu er því líkt við gull.

Reglan er einföld og ef allir færu eftir henni væri heimurinn miklu betri. Sem betur fer fara margir eftir henni, en því miður ekki allir.

Vitið þið hvernig þessi regla er? (Leyfa börnunum að svara.)

Hún er svona: – Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.

Sem sagt, allt sem við viljum að sé gert fyrir okkur, eigum við að vera tilbúin að gera fyrir aðra. Hvað viljum við að aðrir geri fyrir okkur? (Leyfa börnunum að svara.)

Við viljum að aðrar manneskjur sýni okkur virðingu, þá verðum við líka að vera tilbúin að sýna virðingu. Við viljum að aðrar manneskjur sýni okkur kurteisi en þá verðum við sjálf að vera kurteis. Við viljum að annað fólk sé gott við okkur og sýni okkur kærleika, þá verðum við að vera tilbúin til þess að vera góð við aðra. Við getum ekki ætlast til þess að aðrir sýni okkur virðingu, kurteisi og kærleika, ef við viljum ekki gera eins á móti.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusagan – Gullna reglan

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:20

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Gullna reglan

Gullna reglan (allt sem þér viljið … ) FLM Tvö börn að leik

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Bartemus blindi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:17

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Bartemus blindi
Miskunnarbænin (FLM Jesús og börnin + Græna flettibiblían) Gull og silfur á ég ekki.

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Miskunnsami samverjinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:09

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Miskunnsami samverjinn

(Hver er náunginn minn? Sögustund II)

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Miskunnsami samverjinn

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:09
Biblíusaga 12.

Miskunnsami Samverjinn

 

Mynd 12a

Guð vill að fólkið í heiminum sé eins og ein stór fjölskylda. Guð skapaði heiminn og hann er okkar heimili. Guð vill að við förum vel með heiminn og elskum hvert annað. Hvort sem við erum hvít, svört eða brún, lítil, stór, mjó eða feit, þá eigum við heiminn saman og við erum öll jafn merkileg. Þetta var Jesús alltaf að kenna lærisveinum sínum. Einu sinni kom maður til hans og spurði hann: – Jesús, hvernig get ég alltaf verið lærisveinn þinn? og Jesús svaraði honum: -Með því að elska Guð og elska náungann eins og sjálfan þig. En þá spurði maðurinn hver væri náungi hans. Náunginn sem Jesús var að tala um eru allar þær manneskjur sem við hittum á hverjum degi. Við sem erum í kirkjustarfinu í dag erum öll náungar hvers annars. En Jesús sagði manninum sögu til að útskýra þetta fyrir honum og okkur öllum. Sagan er svona:

 

Mynd 12b

Eitt sinn var maður sem fór um hættulegan fjallveg. Vitið þið af hverju hann var hættulegur? (Leyfa börnunum að svara.) Það var af því að þar leyndust ræningjar sem réðust á fólk. Maðurinn var einn á ferð og hafði engan með sér sem gat hjálpað honum. Þegar hann var kominn áleiðis upp fjallið réðust ræningjar á hann, þeir rifu utan af honum fötin, börðu hann ógurlega fast og tóku dótið hans. Svo skildu þeir hann eftir, vegna þess að þeim var alveg sama um hann. Þetta voru ekki góðir náungar.

Skömmu síðar kom prestur gangandi. Hann sá særða manninn og vissi að hann þyrfti nauðsynlega hjálp. En presturinn varð hræddur, hann óttaðist að ræningjarnir myndu koma aftur og ráðast á hann svo hann flýtti sér í burtu. En brátt kom annar maður, sem var meðhjálparinn í musterinu. Hann sá líka særða manninn, en í stað þess að hjálpa honum fylltist hann af hræðslu og flýtti sér í burtu. Þessir tvær menn voru ekki náungar særða mannsins. En sem betur fer áttu fleiri erindi um þennan hættulega fjallveg. Allt í einu kom maður ríðandi á asna. Þetta var maður frá öðru landi. Útlendingur.

 

Mynd 12c

Þegar útlendingurinn sá særða manninn, stansaði hann og hann fór niður af asnanum. Hann var ekkert að hugsa um hvort ræningjarnir gætu komið aftur, hann hugsaði aðeins um særða manninn. Hann þvoði sárin hans og batt um þau svo að það kæmu ekki óhreinindi í þau. Síðan setti hann manninn upp á asnann og fór með hann í gistihús þar sem hann gat hvílst og orðið heilbrigður aftur. Og af því að ræningjarnir höfðu stolið öllu frá særða manninum borgaði útlendingurinn allt fyrir hann. Útlendingurinn og særði maðurinn þekktust ekkert, en útlendingnum þótti samt vænt hann vegna þess að hann vissi vel að þeir voru báðir börn Guðs. Hann vissi að við mennirnir eigum að koma fram við hvert annað eins og við séum ein stór fjölskylda. Við eigum að reynast hvert öðru góðir náungar.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Faðir vor

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 11:00

Hér hafið þið úr ýmsum möguleikum að velja:

Stóra flettimyndabiblían – Bænin

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Bænin

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 10:59

Biblíusaga 7.

Bænin

 

Mynd 7a

Hvað er það kallað þegar við tölum við Guð?

Það er kallað að biðja.

Í bæninni getum við beðið Guð um hjálp. Við getum líka þakkað honum fyrir allt sem hann hefur gefið okkur. Við getum þakkað honum fyrir foreldra okkar, heimili, vinina, ömmur og afa, leikskólana, skólana, kirkjuna, matinn, leikföng, dýrin og blómin.

Einu sinni komu lærisveinar og vinir Jesú til hans og báðu hann að kenna sér að biðja. Jesús sagði við þá að þegar þeir væru að biðja ættu þeir að tala á sama hátt og venjulega. Þegar við tölum við Guð megum við ekki vera að þykjast eða vera montin.

 

Mynd 7b

Jesús minnti vini sína líka á það að vera ekki að hugsa um eitthvað annað þegar þeir væru að tala við Guð. Við eigum ekki að bulla í bæninni og við eigum heldur ekki að vera hugsa eitthvað út í loftið á meðan við biðjum heldur einbeita okkur að því sem við erum að gera. Síðan kenndi hann þeim bæn sem kristið fólk hefur beðið út um allan heim í meira en tvö þúsund ár. Vitið þið hvaða bæn það er? Það er bænin Faðir vor. Nú skulum við biðja hana saman:

 

Faðir vor, þú, sem ert á himnum.

Helgist þitt nafn,

til komi þitt ríki,

verði þinn vilji,

svo á jörðu sem á himni.

Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Og fyrirgef oss vorar skuldir,

svo sem vér og fyrirgefum vorum

skuldunautum.

Eigi leið þú oss í freistni,

heldur frelsa oss frá illu,

því að þitt er ríkið, mátturinn og

dýrðin að eilífu. Amen.

 

Mynd 7c

Við þekkjum öll þessa bæn. Kannski finnst samt mörgum erfitt að skilja hana.

Ég skal reyna að útskýra hana fyrir ykkur:

Í byrjun erum við að segja að við viljum að Guð ráði öllu í heiminum.

Svo biðjum við hann að gefa okkur nóg að borða.

Því næst biðjum við Guð að fyrirgefa okkur allt rangt sem við höfum gert, og biðjum hann að hjálpa okkur að fyrirgefa öðrum líka.

Í lok bænarinnar biðjum við Guð að gæta okkar og hjálpa okkur í lífinu. Síðan minnum við okkur sjálf á það hvað Guð er sterkur og góður.

Við getum alltaf talað við Guð, hvort sem við erum uppi á fjalli, uppi í rúmi, ofan í sundlaug eða í skólanum. Í rauninni getum við talað við Guð hvar sem við erum stödd.

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Sá sem vill vera mestur hjálpi hinum

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 10:51

Biblíusaga 9

Sá sem vill vera mestur hjálpi hinum

 

Mynd 9a

Einu sinni kallaði Jesús lærisveinana til sín, til að kenna þeim mjög mikilvæga hluti. Hann vildi kenna þeim að hafa góð áhrif á umhverfi sitt og á annað fólk. Jesús sagði þeim að ef þeir vildu hafa góð áhrif yrðu þeir að geta hjálpað öðrum.

Jesús sagði að ef við vildum verða stórar og merkilegar manneskjur yrðum við að gera öðrum gagn. Jesús er mestur allra, en hann kom í heiminn til að hjálpa öllu fólki og svo gaf hann líf sitt fyrir okkur öll. Hann gaf allt, þess vegna er hann mestur allra. Við getum haft mikil áhrif á það hvernig öðrum líður í kringum okkur. Við eigum öll heimili og við þurfum að hugsa um það hvernig við erum inni á okkar eigin heimili:

– Erum við t.d. alltaf að heimta eitthvað? (Leyfa börnunum að svara.)

– Hvað gerist ef við erum alltaf að heimta og aldrei að hjálpa? (Leyfa börnunum að svara.) Þá verða mamma og pabbi þreytt og jafnvel reið.

– Hvað gerist ef við biðjum fallega? (Leyfa börnunum að svara.)

– Þá hlusta mamma og pabbi frekar. Við fáum kannski ekki alltaf það sem við biðjum um, þó að við biðjum fallega. En ef við biðjum fallega og erum dugleg að hjálpa, þá sjá mamma og pabbi að þau eiga börn sem eru stór og dugleg. Frekja gerir engan stóran.

 

Mynd 9b

Hvernig er inni á heimili þar sem fullorðna fólkið er ekki gott við hvert annað? (Leyfa börnunum að svara.) Þar sem fólk er ekki gott hvort við annað er vont að vera. Ef fullorðna fólkið hjálpast að og talar fallega hvert við annað, þá er gott að vera inni á heimilinu. Þetta vissi Jesús, þess vegna var hann alltaf að tala um það við lærisveinana að þeir hjálpuðu hver öðrum. Með því að hjálpast að verðum við stórar og góðar manneskjur.

Hafið þið hjálpað öðrum? (Leyfa börnunum að svara.)

Hvernig leið ykkur þá? (Leyfa börnunum að svara.)

Hvernig getið þið hjálpað mömmu, pabba, afa, ömmu eða vinum ykkar? (Leyfa börnunum að svara.)

Hvernig geta mamma, pabbi, afi, amma og vinirnir hjálpað ykkur? (Leyfa börnunum að svara.) Jesús sagði lærisveinum sínum líka að þeir ættu ekki að vera að metast. Vitið þið hvað það er að metast? (Leyfa börnunum að svara.) Það er að þykjast alltaf vera betri og merkilegri en aðrir. Jesús var aldrei að metast og hann vill ekki að börnin hans geri það. Hann vill bara að okkur langi af öllu hjarta til að vera hjálplegar og góðar manneskjur.

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Verum ekki áhyggjufull

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 10:42

Biblíusaga 6.

Verum ekki áhyggjufull

 

Mynd 6a

Vitið þið hvað það er að vera áhyggjufullur?

Þeir sem eru áhyggjufullir eru fullir af áhyggjum.

Ef eitthvað er fullt þá er ekki pláss fyrir neitt meira í því.

Sem dæmi: Ef baðkarið er fullt af vatni alveg upp að brúnum, hvað gerist þá ef manneskja fer ofan í það til að baða sig? Þá flýtur fullt af vatni upp úr baðkarinu og allt gólfið fer á flot. Þá verður að ná í tusku til að þurrka upp vatnið. Þannig er það líka þegar við erum með hugann fullan af áhyggjum. Við verðum að segja frá þeim til þess að það sé pláss fyrir fleira í huga okkar. Alveg eins og við verðum að láta svolítið vatn renna úr fullu baðkarinu svo við komumst ofan í það án þess að allt fari á flot. Við megum ekki fylla hugann af áhyggjum, því þær eru þungar eins og grjót. Við verðum líka að hafa pláss fyrir gleði, nýjar hugmyndir og forvitni. Foreldrar okkar og Jesús geta hlustað á áhyggjur okkar og hjálpað okkur að líða betur.

 

Mynd 6b

Jesús sagði að við ættum ekki að vera áhyggjufull. Hann vill að hugur okkar sé fullur af gleði, forvitni og kærleika. Jesús bað okkur að skoða fuglana.

Fuglarnir hafa engar áhyggjur. Þeir fljúga syngjandi um og leita að ormum. Jesús sagði að við værum miklu flinkari en fuglarnir og þess vegna ættum við ekki að fylla huga okkar stöðugt af áhyggjum. Svo sagði Jesús okkur að skoða blómin.

Blómin gera ekki neitt, en samt eru þau í fallegri búningi en nokkur prinsessa. Þegar við verðum áhyggjufull skulum við hugsa til þessara orða Jesú og tala um áhyggjurnar við hann, því allar manneskjur eru einhvern tímann áhyggjufullar. En Jesús vill ekki að við séum ein og leið. Hann vill að við leyfum honum að heyra af hverju við verðum áhyggjufull. Jesús vill líka að við hjálpum hvert öðru að losa okkur við áhyggjurnar.

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Merkilegasta boðorð í heimi

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 10:30

Biblíusaga 4.

Merkilegasta boðorð í heimi

 

Mynd 4a

Í dag ætla ég að kenna ykkur merkilegasta boðorð í heimi. Þetta er boðorð sem Guð gaf okkur. En boðorð eru í rauninni það sama og reglur.

Boðorðin geta hjálpað okkur heilmikið í lífinu. Það er nefnilega svo margt sem getur verið svolítið ruglingslegt. Þá er gott að hafa einhverjar reglur til þess að fylgja.

Merkilegasta boðorðið hljóðar svona: – Þú skalt elska Drottin, Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni, öllum mætti þínum og öllum huga þínum og náunga þinn eins og sjálfan þig.

 

(Hér er hægt að fara aftur yfir textann og láta börnin gera hreyfingar með. Þegar sagt er ,,af öllu hjarta” leggja þau hægri hönd á hjartastað, þegar þau segja ,,af allri sálu” er hægt að leggja vinstri hönd yfir hægra megin, þá eru hendur orðnar krosslagðar á brjóstinu. Síðan þegar sagt er ,,af öllum mætti” kreppa þau báða hnefa og sýna vöðvana. Þegar kemur að ,,öllum huga” er bent með báðum höndum á höfuðið og að lokum er bent á næsta mann þegar minnst er á náungann og bent á sjálfan sig að endingu. Þetta má endurtaka eins og leik þar til börnin læra versið.)

 

Mynd 4b

Við eigum ekki að elska Guð og náunga okkar bara pínulítið. Við eigum að elska Guð og alla menn eins og við elskum okkur sjálf. Við elskum ekki bara tærnar á okkur eða naflann. Við elskum okkur öll: Húðina, beinin, fæturna, hendurnar og líffærin inni í okkur. Við elskum hárin á höfðinu, tennurnar í munninum, eyrun, augun og nefið. Ef við meiðum okkur á þumalfingrinum, þá hugsum við ekki, ,,Iss! þetta er bara þumalfingurinn, mér er alveg sama um hann, því þumalfingurinn er hvort sem er svo lítill”. Nei! Við látum renna vatn á sárið og setjum plástur yfir, af því að okkur þykir vænt um fingurinn og það er eins og við finnum til í öllum líkamanum þótt sárið sé bara á einum fingri. Svona elskum við sjálf okkur mikið.

Við eigum ekki heldur bara að elska okkur sjálf svona mikið en aðrar manneskjur bara pínulítið, af því að við þekkjum þær ekki eins vel og okkur sjálf. Guð þekkir alla og vill að við elskum allt fólk af öllu hjarta, sálu, huga og mætti.

 

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Tveimur börnum að leik.

Flokkar: Efnisveitur

Stóra flettimyndabiblían – Beðið eftir komu Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 10:12

Biblíusaga 1.

Beðið eftir komu Jesú

 

Mynd 1a

Ég ætla að leggja fyrir ykkur létta gátu. Kannski getið þið giskað strax á rétta svarið.

Fyrst ætla ég að gefa ykkur nokkrar vísbendingar. Þið megið ekki svara fyrr en ég hef gefið ykkur allar vísbendingarnar:

Fyrsta vísbending:

Í kirkjunni eru til margar bækur. Ein bók er samt alveg sérstök. Hún segir okkur allt mögulegt um Guð og Jesú.

Önnur vísbending:

Þessi bók er til á flestum heimilum. Hún er með ofboðslega margar blaðsíður og þær eru mjög þunnar og stafirnir litlir.

Þriðja vísbending:

Inni í þessari bók eru í rauninni margar minni bækur.

Hvaða bók er þetta?

Jú, auðvitað Biblían!

Guð gaf okkur Biblíuna til þess að við gætum fræðst um hann og ríki hans.

Hér sjáið þið mynd af Jesú með stóra Biblíu. Sjáið þið stóra hjartað sem er á henni? Þetta hjarta segir okkur hvað Jesú þykir vænt um okkur og hvað hann þráir að við þekkjum hann betur. Þess vegna ætlum við að fræðast svolítið um Biblíuna í vetur og kynnast nokkrum af sögunum úr henni.

 

Mynd 1b

Ég sagði ykkur áðan að í Biblíunni væru í rauninni margar bækur. En Biblían skiptist líka í tvo hluta. Annar hlutinn heitir Gamla testamentið en hinn hlutinn heitir Nýja testamentið. Gamla testamentið segir okkur frá því sem gerðist áður en Jesús fæddist. En Nýja testamentið segir okkur frá því sem gerðist eftir að Jesús fæddist og meira að segja líka frá því sem gerðist eftir að hann dó og reis upp frá dauðum.

Á einum stað í Gamla testamentinu er bók sem heitir Spádómsbók Jesaja. Hún var skrifuð nokkrum hundruðum ára áður en Jesú fæddist.

Það sem er merkilegt við þessa bók er það að þótt Jesú væri ekki fæddur, er þar sagt ýmislegt um hann. Það er sagt að hann muni fæðast og færa fólki mikið ljós og gleði. Þar er meira að segja sagt frá því að hann muni fæðast í Betlehem. Svona er Biblían merkileg.

Hér sjáið þið mynd af litla Jesúbarninu. Hann liggur þarna baðaður í ljósi. Jesús er líka oft kallaður ljós heimsins.

 

Mynd 1c

Jesús átti frænda sem hét Jóhannes. Jóhannes hafði fengið mikið og merkilegt hlutverk hjá Guði. Guð hafði ætlað honum að undirbúa heiminn undir komu Jesú.

Jóhannes bjó í eyðimörkinni og klæddist fötum úr úlfaldahári. Hann borðaði engisprettur og drakk villihunang. Fólki fannst Jóhannes örugglega mjög skrýtinn en það hlustaði vel á það sem hann hafði að segja. Hann sagði að allir ættu að gæta þess að lifa heiðarlegu og góðu lífi. Margir vildu breyta lífi sínu til góðs og fóru til hans og lét hann skíra sig.

Þess vegna var hann alltaf kallaður Jóhannes skírari.

Fólkið þekkti söguna um barnið sem sagt er frá í Jesajabók og sumir héldu að  Jóhannes

væri þetta barn. En hann sagði fólkinu að í Jesajabók væri verið að tala um Jesú frá Nasaret. Hann sagði þeim að Jesús væri miklu máttugri, hann væri maðurinn sem myndi fylla heiminn af gleði, friði og réttlæti.

Hér sjáið þið mynd af Jóhannesi skírara að skíra fólk úti í á.

Flokkar: Efnisveitur

Biblíusaga – Beðið eftir komu Jesú

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - mánud., 28/05/2018 - 10:09

Bangsablessun: Sögustund 2 + glærur – Beðið eftir komu Jesús FLM Tvö börn að leik

Flokkar: Efnisveitur

Sakkeus

Efnisveita Þjóðkirkjunnar - Fim, 24/05/2018 - 12:56

Saga 4 FLM (Jesús og börnin) + Bleika flettimyndabiblían/Sögustund II

*Ef þið eruð ekki með skjávarpa þá er þessi saga tekin úr Stóru flettimyndabiblíunni með forsíðumynd af Jesú og börnum.

Flokkar: Efnisveitur

Síður

Subscribe to Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakall aggregator - Efnisveitur