Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 25 mín 1 sek síðan

Lilja sækist eftir formennsku í SUF

fös, 17/08/2018 - 12:01

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir í Bakkakoti í Borgarfirði hefur tilkynnt að hún sækist eftir formennsku í stjórn Sambands ungra framsóknarmanna. Sambandsþing fer fram dagana 31. ágúst til 1. september. Lilja er 22 ára og er annar varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi. Hún er starfsmaður Grunnskóla Borgarfjarðar og er að hefja fjarnám í grunnskólakennarafræðum.

„Ég hef notið þess að taka þátt í starfinu síðustu ár og ég vil gera mitt besta til að sjá til þess að SUF haldi áfram sínu góða starfi og fái tækifæri til þess að blómstra. SUF er mikilvægt í grasrót Framsóknar og því er nauðsynlegt að samtökin séu virk og ýti á eftir þingmönnum og ráðherrum. Það sem liggur mér helst á hjarta er jafnrétti til náms, umhverfismál og geðheilbrigðismál. Þegar litið er til búsetu fólks í námi er mörgu ábótavant og tel ég að ýta þurfi á eftir leiðum sem bæta aðstæður til náms eins og aukið fjarnám í Háskóla Íslands og heimavist á höfuðborgarsvæðinu fyrir framhaldsskólanema sem koma af landsbyggðinni. Ísland gerir margt gott í umhverfismálum en getur gert margt betur. Markvisst þarf að minnka plastnotkun á landinu og stuðla að endurvinnslu þess ásamt því að styðja við rafbílavæðingu á landsvísu. Styrking heilbrigðiskerfisins er nauðsynleg. Sérstaklega þegar litið er til þróunar geðheilbrigðismála. Fíkn og lyfjamisnotkun hjá ungu fólki á Íslandi er komin í mjög slæman farveg. Vitundarvakning hefur orðið í þessum málum og nýta þarf þennan kraft til mikilla umbóta til að koma í veg fyrir að illa fari.“

Þá segir hún að unga fólkið sé framtíðin og mega stjórnmálamenn ekki gleyma því. „Því er mikilvægt að við látum í okkur heyra og minnum á að við erum ekki einhver „aukahlutur“ heldur er verið að byggja samfélagið upp og einn daginn munum við taka við því og færa keflið áfram. Samfélagið er í stöðugri þróun og við þurfum að gæta þess að það sé þróun í rétta átt,“ segir Lilja Rannveig.

Sveif 95 ára um háloftin í fallhlíf

fös, 17/08/2018 - 11:01

Páli Bergþórssyni frá Fljótstungu, fyrrum veðurstofustjóra, er sannarlega ekki fisjað saman. Páll fagnaði fyrr í þessum mánuði 95 ára afmæli og ákvað að gefa sjálfum sér í afmælisgjöf að fara í fallhlífarstökk og kynnast þannig háloftavindunum sem hafa verið hans rannsóknar- og vísindaefni í áratugi. Farið var í lítilli flugvél upp í þriggja kílómetra hæð og svifið niður. Lendingin var mjúk og hafði Páll á orði að þetta hefði ekki verið mikið erfiðara en að ganga yfir götu. Engu að síður er líklegt að Páll sé elsti Íslendingurinn sem stokkið hefur úr flugvél í fallhlíf. Daginn eftir var Páll farinn að pósta veðurspám sínum, sem hann gerir daglega. En gefum Páli orðið um viðburð vikunnar:

„Það var ekki seinna vænna fyrir gamlan veðurvita að bregða sér í fallhlífarstökk og komast í nánara samband við loftið sem maður þykist alltaf vera að fræða aðra um. Við flugum frá Hellu á Rangárvöllum upp í þriggja kílómetra hæð og þar dembdi maður sér út úr flugvélinni, horfði til himins og skaut fótleggjunum aftur fyrir sig, því að bráðum átti fallhlífin að opnast, og þá er kippt ansi harkalega í mann þegar fallhraðinn er orðinn meiri en 200 kílómetrar á klukkustund. En skrítið er að þetta er alls ekki óþægilegra en að standa á 10 metra háum vegg. Svo gat maður bara farið að skoða dýrð fjallahringsins, hafs og lands þangað til maður „settist“ í loftinu og renndi sér eftir nýslegnum grasvelli. Vildi ekki hafa misst af þessu,“ skrifar Páll á Facebook síðu sína.

Ótrúleg dramatík í undanúrslitum Mjólkurbikarsins

fös, 17/08/2018 - 10:29

Víkingur Ó. úr leik eftir vítaspyrnukeppni

Liðsmenn Víkings Ó. máttu játa sig sigraða gegn Breiðabliki í ótrúlegum undanúrslitaleik Mjólkurbikars karla í gærkvöldi. Blikar náðu að jafna á lokasekúndum framlengingar og sigruðu síðan í vítaspyrnukeppni.

Frá fyrstu mínútu var ljóst að um hörkuleik yrði að ræða. Breiðablik var mun meira með boltann en Ólafsvíkingar vörðust vel og skipulega, með fimm manna varnarlínu og djúpan miðjumann fyrir framan vörnina. Liðsmenn Breiðabliks komust því lítt áleiðis.

Á meðan liðsmenn Víkings lögðu allt sitt kapp á að verjast þurfti sóknarleikur þeirra að gjalda fyrir það. Fram á við var fátt um fína drætti hjá Ólafsvíkingum, þar til þeir fengu hornspyrnu á 32. mínútu. Kwame Quee tók spyrnuna og boltinn barst í gegnum alla þvöguna í vítateig Breiðabliks á fjærstöngina þar sem Gonzalo Zamorano skoraði með innanfótarskoti af stuttu færi. Ólafsvíkingar komnir í 1-0 eftir fyrstu marktilraun sína í leiknum. Heimamenn virkuðu slegnir og á meðan lifnaði yfir leik Víkings. Gonzalo fékk annað ágætis tækifæri skömmu eftir markið en skot hans var varið. Staðan var því 1-0 í hálfleik.

 

Dýrkeypt mistök

Lengi framan af síðari hálfleik spilaðist leikurinn eins og í þeim fyrri. Breiðablik hélt boltanum en komst lítt áleiðis gegn þéttum varnarleik Víkings. Blilkar juku sóknarþungann eftir því sem leið á, enda allt undir hjá þeim. Þegar hálftími var eftir dró verulega til tíðinda. Thomas Mikkelsen átti skot í samskeytin og út. Varnarmönnum Víkings tókst ekki að bægja hættunni frá, boltinn barst að lokum til Arons Bjarnasonar sem átti bylmingsskot sem small í þverslánni. Ólafsvíkingar sluppu þar heldur betur með skrekkinn og héldu forystunni en þó ekki lengi. Á 67. mínútu vann Thomas Mikkelsen boltann af Emmanuel Keke í vörninni, geystist með hann í átt að marki og kláraði vel einn á móti markmanni. Staðan orðin 1-1.

Eftir jöfnunarmarkið héldu Blikar áfram að sækja en Ólafsvíkingar vörðust vel allt til loka venjulegs leiktíma. Því varð að grípa til framlengingar.

 

Dramatíkin allsráðandi

Leikurinn var heldur opnari í framlengingunni en í venjulegum leiktíma og hart barist inni á vellinum. Blikar voru meira með boltann en aftur reyndist fast leikatriði þeim dýrkeypt. Á lokamínútu fyrri hálfleiks framlengingar fékk Víkingur aukaspyrnu. Kwame sendi boltann inn í teiginn og Davíð Kristján Ólafsson, leikmaður Breiðabliks, varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark þegar hann reyndi að skalla boltann frá. Staðan 2-1 fyrir Víking og aðeins 15 mínútur eftir.

Blikar lögðu mikið kapp á að jafna í síðari hálfleik framlengingarinnar, lágu í sókn en náðu ekki að skapa sér nein dauðafæri. Tíminn virtist vera að hlaupa frá þeim þegar þeim tókst að jafna með ótrúlega dramatískum hætti á lokasekúndum framlengingarinnar. Ingibergur Kort Sigurðsson hafði þá sloppið einn í gegnum vörn Breiðabliks en Gunnleifur Gunnleifsson varði frá honum. Heimamenn geystust upp í sókn sem endaði með því að boltinn var lagður hægra megin í teiginn fyrir Brynjólf Darra Willumsson sem skoraði með góðu skoti í fjærhornið. Staðan 2-2 að loknum framlengdum leik og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni. Þar vörðu báðir markverðirnir eina spyrnu hvor. Nacho Heras þrumaði í þverslána og Damir Muminovic tryggði síðan Breiðabliki farseðilinn í úrslitaleikinn með marki úr síðustu spyrnunni.

Tap á móti toppliði Keflavíkur

fös, 17/08/2018 - 09:46

Skagastelpur í ÍA þurftu að sætta sig við tap gegn toppliði Keflavíkur þegar liðin mættust á Akranesvelli í gær í 14. umferð Inkassodeildar. Leikurinn var mikilvægur fyrir bæði lið sem heyja hvort um sig baráttu á toppi deildarinnar.

Bæði lið byrjuðu leikinn af krafti og börðust hart um boltann til að skapa sér líkleg markfæri. Það leið ekki á löngu þangað til Sveindís Jane Jónsdóttir kom gestunum af Suðurnesjunum yfir á 15. mínútu. Það hafði þó ekki mikil áhrif á heimastúlkur sem héldu dampi og jöfnuðu metin á 37. mínútu þegar Unnur Ýr Haraldsdóttir skoraði fallegt mark eftir góðan undirbúning frá liðsfélaga sínum, Maren Leósdóttur. Keflvíkingar gáfu ekkert eftir þrátt fyrir áræðni heimastúlkna og nýttu sér klaufagang í vörn þeirra gulu þegar Sophie Groff kom sínu liði aftur yfir áður en fyrri hálfleik lauk.

Í þeim síðari komu Skagastelpur vel stemmdar til leiks og átti Bergdís Fanney Einarsdóttir meðal annars þrumuskot í þverslá í upphafi seinni hálfleiks. Töluvert jafnræði var með liðum eftir þetta fína færi í dágóða stund. Leikurinn breyttist svo töluvert þegar Sveindís Jane skoraði annað mark gestanna á 78. mínútu og var sem öll orka hefði lekið úr Skagastúlkum sem áttu lítil sem engin svör eftir þetta. Sveindís skoraði sitt þriðja mark á 81. mínútu og Kristrún Ýr Hólm gerði endanlega útaf við leikinn þegar hún skoraði fimmta markið fyrir Keflavík á loka mínútunni. Niðurstaðan því 5-1 Keflavík í vil.

Þrátt fyrir tap þá heldur ÍA þriðja sætinu með 28 stig. Keflavík trónir á toppnum og er nú með 34 stig. Fylkir sigraði Hauka örugglega í umferðinni og er því með þægilegt forskot á ÍA í öðru sæti með 33 stig. Einungis fjórar umferðir eru eftir af tímabilinu. Skagastúlkur taka á móti Fylki í næstu umferð á Akranesi og fer sá leikur fram næstkomandi fimmtudag klukkan 18:00.

Slasaðist við Glym

fös, 17/08/2018 - 09:16

Björgunarsveitir á Vesturlandi voru kallaðar út rétt fyrir klukkan átta í gærkvöldi. Ungur karlmaður hafði hrasað og dottið illa í brattlendi á gönguleiðinni að fossinum Glymi í botni Hvalfjarðar. Björgunarsveitafólk ásamt sjúkraflutningamönnum og lækni fóru á vettvang og hlúðu að manninum. Þyrla sótti hinn slasaða og flutti á sjúkrahús í Reykjavík.

Sumarsmellur frá Kajak

fös, 17/08/2018 - 09:01

Raftónlistardúettinn Kajak hefur sent frá sér nýtt lag. Ber það nafnið Shine og er að sögn dúettsins sólríkur sumarslagari. „Shine er sólríkt sumarlag með jákvæðum og einföldum boðskap; láttu ljós þitt skína. Sólskinið kallaði á okkur og nú er því tilvalinn tími til útgáfu. Við erum búnir að setja í fimmta gír í útgáfumálum og munum halda áfram að gefa út ný lög á sirka mánaðarfresti,“ segir í tilkynningu frá sveitinni. Lagið Shine hefur verið gert aðgengilegt á Spotify og öllum öðrum helstu tónlistarveitum. Framundan er síðan vinna við fjölda smáskífa sem koma munu út á næstu mánuðum.

Kajak skipa þeir Sigurmon Hartmann Sigurðsson og Hreinn Elíasson. Dúettinum hefur verið líkt við sveitir á borð við Miike Snow, MGMT og The Knife. Lögin þykja dansvæn og grípandi en búa einnig yfir ákveðinni dýpt og dulúð.

Gufudalskirkja á tímamótum

fös, 17/08/2018 - 08:01

Gufudalskirkja verður 110 ára nú í haust. Kirkjan er listasmíð, teiknuð af Rögnvaldi Ólafssyni en yfirsmiður var Jón Ólafsson bróðir hans. Ríkissjóður kostaði kirkjusmíðina og átti kirkjuna alla tíð, en hún er nú í eigu og vörslu Minjastofnunar. Efnið í kirkjuna kom tilöggvið og númerað frá Noregi. Tryggvi Pálsson var þá bóndi í Gufudal og Andrés Ólafsson bóndi á Brekku þá formaður Gufudalssóknar. Sóknin náði frá Hjöllum vestur að Kvígindisfirði.

Árin 1890-1906 voru síðustu prestshjónin í Gufudal séra Guðmundur Guðmundsson Húnvetningur og kona hans Rebekka Jónsdóttir frá Gautlöndum. Þau fluttust á Ísafjörð 1906. Hann gerðist ritstjóri Skutuls, málgagns Alþýðuflokksins. Þau hjón áttu marga afkomendur sem voru pólitískir frumherjar þjóðarinnar.

 

Kristinn Bergsveinsson skráði

Ísfiskur vonast til að hefja vinnslu að nýju um næstu mánaðamót

fös, 17/08/2018 - 06:01

Þessa dagana er unnið að því að flytja starfsemi fyrirtækisins Ísfisks hf. alfarið upp á Akranes frá Kópavogi. Sem kunnugt er keypti fyrirtækið bolfiskvinnsluhús HB Granda síðastliðið haust, auk hluta fiskvinnslubúnaðar. Vinnsla Ísfisks hófst síðan á Akranesi um miðjan febrúar, samhliða starfsemi fyrirtækisins í Kópavogi. Nú er húsnæði fyrirtækisins við Kársnesbraut í Kópavogi í söluferli og verið að undirbúa flutning á öllum búnaði upp á Akranes. „Vinnslunni í Kópavogi var lokað 6. júlí vegna sumarleyfa og þessara breytinga. Þá lokuðum við á Akranesi 20. júlí,“ segir Albert Svavarsson, framkvæmdastjóri Ísfisks, í samtali við Skessuhorn. Hann kveðst ekki geta sagt nákvæmlega til um hvenær flutningum verður lokið og hægt verði að hefja starfsemi fyrirtækisins að nýju á Akranesi. „Af þeim sökum þurftum við að segja upp starfsfólki bæði á Akranesi og í Kópavogi og er fólkið því án samninga sem stendur. Hins vegar hefur öllum eða flestum sem vilja verið boðið að sækja um hjá okkur áfram þegar staðan er orðin þannig að okkur lítist á að hefja vinnslu að nýju. Ég er búinn að gefa það út við starfsfólkið að það verði vonandi um mánaðamót ágúst og september, í síðasta lagi, en við vitum það ekki fyrir víst,“ segir hann. „Verkefni okkar núna er að brúa bilið þar til húsnæðið í Kópavogi selst. Ekki er komin lausn á því enn og því getum við ekki með fullri vissu sagt til um hvenær vinnsla hefst á Akranesi.“

 

Starfsemi alfarið á Akranesi

Albert tekur skýrt fram að stjórnendur fyrirtækisins séu ekki hættir við neitt, þvert á móti. „Eins og ég hef sagt starfsfólkinu á Akranesi þá verður vinnslan þar ekki deild innan fyrirtækisins, heldur verður Ísfiskur með alla sína starfsemi á Akranesi,“ segir Albert og kveðst bjartsýnn á að takist að brúa bilið og hægt verði að hefja starfsemina um næstu mánaðamót. „En á meðan eru þeir sem málið varðar, það er að segja starfsfólkið, í ákveðinni óvissu. Ég vona að þeirri óvissu verði eytt sem fyrst en ég veit ekki nákvæmlega hvenær. Við erum bjartsýnir á að þetta muni ganga upp. En hvort verði einhver seinkun umfram það sem við höfðum áætlanir um, þar held ég að geti brugðið til beggja vona og þá hugsanlega opnað eitthvað síðar. Það vonda við seinkun er að við höfum aðgang að afar góðu starfsfólki bæði á Akranesi og í Kópavogi. Ef við gefum þeim einhverjar óljósar upplýsingar þá fer fólk kannski bara eitthvað annað. Það viljum við ekki og ég er viss um að þau vilja það ekki heldur. Þess vegna munum við reyna að brúa þetta bil eins fljótt og vel og við getum,“ segir Albert að endingu.

Kaffi Nú er nýtt kaffihús í Stykkishólmi

Fim, 16/08/2018 - 15:01

Kaffihúsið Kaffi Nú var opnað í Stykkishólmi seinni hluta júlímánaðar. Er það staðsett í húsnæði Harbour Hostel við Hafnargötu 4 þar í bæ og heyrir undir hostelið. Allan daglegan rekstur Kaffi Nú annast þau Ania Kobierowska, Halszka Wierzbicka og Seweryn Wójcikowski, en þau eru jafnframt starfsmenn Harbour Hostel. Blaðamaður hitti þau á kaffihúsinu síðastliðinn föstudag og ræddi við þau í blíðunni í Stykkishólmi. Þau byrja á að segja frá nafninu. „Þegar það var ákveðið að við myndum opna kaffihúsið vorum við öll sammála um að nafn þess skyldi vera á íslensku,“ segir Seweryn. „Okkur fannst þetta tengjast okkar lífi en líka þeirri stemningu sem við viljum skapa,“ segir Halszka. „Nafnið er mjög einfalt en er líka grípandi og getur haft fleiri en eina merkingu,“ bætir Ania við.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Modulus mun byggja fyrir Bjarg á Akranesi

Fim, 16/08/2018 - 14:19

Fyrirtækið Modulus ehf. mun taka að sér byggingu 33 íbúða fyrir Bjarg íbúðafélag við Asparskóga Akranesi. Samningar þess efnis voru undirritaðir sl. fimmtudag. Frá þessu er greint á heimasíðu Bjargs.

Íbúðurnar 33 verða í þremur húsum, við Asparskóga 12, 14 og 16 og hvert hús verður á tveimur hæðum. Framkvæmdir munu hefjast nú í haust og áætlað er að afhenda fyrstu 22 íbúðirnar um miðjan maímánuð og síðustu ellefu um það bil mánuði síðar, eða um miðjan júní.

Bjarg íbúðafélag er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu.

Jafntefli Skallagríms á heimavelli

Fim, 16/08/2018 - 14:01

Skallagrímur gerði jafntefli við Reyni Sandgerði í 13. umferð B-riðils fjórðu deildar í gær. Leikurinn fór fram á Skallagrímsvelli í Borgarnesi. Gestirnir af Reykjanesinu skoruðu fyrsta mark leiksins í upphafi seinni hálfleiks þar sem markaskorarinn Magnús Þórir Matthíasson kom sínum mönnum yfir. Magnús Þórir hefur verið drjúgur á tímabilinu fyrir Reynismenn og er kominn með tólf mörk í deildinni í sumar. Forystan varði þó ekki lengi því heimamenn jöfnuðu met fimm mínútum síðar þar sem Ingvi Þór Albertsson skilaði boltanum í netið. Ekki voru fleiri mörk skoruð og urðu því lið að sætta sig við jafntefli og sitthvort stigið.

Einungis ein umferð er eftir af hefðbundnu tímabili áður en haldið er til úrslitakeppni og því hvert stig gífurlega mikilvægt í baráttunni á toppi deildarinnar. Með jafntefli heldur Reynir S. toppsætinu með 35 stig á meðan Skallagrímur sitja í öðru með 28 stig, einungis einu stigi meira en Elliði sem vermir það þriðja.

Næsti leikur Skallagríms sem er jafnframt síðasti deildarleikurinn fer fram á Skallagrímsvelli laugardaginn 25. ágúst og hefst stundvíslega klukkan 14:00.

Talar, hugsar og dreymir á spænsku

Fim, 16/08/2018 - 13:01

Í lok júlí snéri hin 17 ára gamla Íris Líf Stefánsdóttir aftur heim til Íslands eftir ellefu mánaða dvöl sem skiptinemi í Ekvador í Suður-Ameríku. Á þessum ellefu mánuðum dvaldi hún hjá þremur fjölskyldum, lærði að tala reiprennandi spænsku og ferðaðist djúpt inn í frumskóga Amazon svo eitthvað sé nefnt. Íris Líf segir hér frá upplifun sinni í Ekvador og hvernig það var að búa við miðbauginn, þar sem engar árstíðir eiga sér stað, þeirri áskorun sem fylgir því að tala ekki tungumál innfæddra og hvernig það er að koma inn á heimili hjá fjölskyldu sem maður hefur aldrei hitt eða talað við og búa með þeim í nokkra mánuði eins og maður væri einn af þeim.

Sjá viðtal við Borgnesinginn Írisi Líf í Skessuhorni vikunnar.

Jermelle Fraser verður spilandi þjálfari ÍA

Fim, 16/08/2018 - 12:36

Körfuknattleiksfélag ÍA hefur samið við Bandaríkjamanninn Jermelle Fraser um að taka að sér að leika með og þjálfa lið Skagamanna í 1. deild karla í körfuknattleik næsta vetur. Greint var frá þessu á Facebook-síðu körfuknattleiksfélagsins í gær.

Jermelle er 31 árs gamall og leikur stöðu bakvarðar. Hann býr yfir töluverðri reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari. Síðastliðinn vetur lék hann körfuknattleik í Malmö í Svíþjóð, ásamt því að annast þjálfun barna og unglinga. Jermelle er væntanlegur til landsins í byrjun septembermánaðar. Vonast aðstandendur Körfuknattleiksfélags ÍA til að hann reynist góð lyftistöng í uppbyggingarstarfi félagsins.

Víkingur Ó. leikur í undanúrslitum bikarsins í kvöld

Fim, 16/08/2018 - 11:22

Seinni undanúrslitaleikur Mjólkurbikars karla í knattspyrnu fer fram í kvöld, fimmtudaginn 16. ágúst. Þá mætast Víkingur Ó. og Breiðablik í Kópavogi. Þar ræðst hvort liðanna mætir Stjörnunni í úrslitaleiknum sem fram fer á Laugardalsvelli laugardaginn 15. september.

Ólafsvíkingar hafa átt góðu gengi að fagna í Íslandsmótinu í sumar og hafa aðeins tapað tveimur leikjum í deildinni. Þeir eru ósigraðir í síðustu tólf leikjum í deild og bikar og hafa ekki tapað síðan áður en nýja gervigrasið á Ólafsvíkurvelli var tekið í notkun. Skyldi engan undra að gárungarnir séu farnir að kalla það Töfrateppið.

Í kvöld munu leik- og stuðningsmenn Víkings Ó. gera allt sem í þeirra valdi stendur til að halda uppteknum hætti með því að leggja topplið Pepsi deildarinnar og tryggja sér þannig farseðilinn í bikarúrslitaleikinn.

Undanúrslitaleikur Víkings Ó. og Breiðabliks hefst kl. 18:00 í kvöld á Kópavogsvelli. Stuðningsmenn Víkings Ó. ætla að hita upp fyrir leikinn á SPOT í Kópavogi frá kl. 15:30 áður en haldið verður á völlinn.

Íslandsmeistaramótið í hrútadómum verður á sunnudaginn

Fim, 16/08/2018 - 10:50

Mikið hefur verið um að vera á Sauðfjársetrinu á Ströndum í sumar, margvíslegar uppákomur og viðburðir. Framundan er svo stærsta samkoma ársins; Íslandsmeistaramótið í hrútadómum, sem verður haldið sunnudaginn 19. ágúst og hefst kl. 14:00 í Sævangi við Steingrímsfjörð.

Ester Sigfúsdóttir framkvæmdastjóri Sauðfjársetursins segir að undirbúningur fyrir helgina gangi vel: „Það er alltaf góð þátttaka í hrútadómunum, en keppt er bæði í flokki þaulreyndra hrútadómara og líka í flokki óvanra og hræddra hrútaþuklara. Þetta er alltaf mjög skemmtilegt svo við erum bara glöð og spennt og vonumst eftir góðri mætingu“ segir Ester hress.

Að venju verður kjötsúpa á boðstólnum og kaffihlaðborð allan liðlangan daginn. Einnig er stórskemmtilegt happdrætti og eru líflömb í vinning. Kostar miðinn 500 kr. og geta þeir sem komast ekki á staðinn keypt sér miða í gegnum Facebook síðu Sauðfjársetursins eða hjá Ester í síma 693-3474. Vinningar í happdrættinu eru hrútur frá Ernu Fossdal og Jóni Stefánssyni á Broddanesi, hrútur frá Barböru Guðbjartsdóttur og Viðari Guðmundssyni í Miðhúsum, hrútur frá Hafdísi Sturlaugsdóttur og Matthíasi Lýðssyni í Húsavík, gimbur frá Lilju Jóhannsdóttur og Guðbrandi Sverrissyni á Bassastöðum og gimbur frá Indriða Aðalsteinssyni á Skjaldfönn sem orti vísu með sínu líflambi:

 

Ef þig heillar flekkótt fé,

finnst sá litur bestur sé.

Eina gimbur á ég hér

sem eflaust myndi líka þér.

 

Á síðasta ári sigraði Guðbrandur Sverrisson á Bassastöðum í flokki vanra, í öðru sæti var Árný Huld Haraldsóttir á Bakka í Reykhólahreppi og í þriðja sæti varð Ragnar Bragason á Heydalsá. Sigurvegarinn í flokki vanra fær verðlaunagripinn Horft til himins til varðveislu í eitt ár og þess fyrir utan eru veglegir vinningar. Þetta árið eru það fyrirtækin Radisson BLU Saga Hotel, Láki Tours, Ístex, SAH afurði, Sætar syndir, Hólmadrangur, Farmers Market, Þaraböðin, Sætt og salt, Varma, Toro á Íslandi, Saltverk, Náttúrubarnaskólinn og Sauðfjársetrið sem styrkja keppnina um vinninga.

Á Sauðfjársetrinu eru nú uppi tvær sérsýningar, fyrir utan fastasýningu safnsins sem ber yfirskriftina Sveitafólk og sauðfé á Ströndum. Á listasviðinu er sýningin Álagablettir og í sérsýningarherbergi er sögusýningin Sumardvöl í sveit. Frítt er á allar sýningar Sauðfjársetursins á sunnudeginum. Í haust verður opnuð ný sýning á Sauðfjársetrinu og tengist sú sýning 100 ára fullveldisafmæli þjóðarinnar og hefur yfirskriftina Strandir 1918.

Ester hvetur að lokum alla til að leggja leið sína á Strandir á sunnudaginn og taka þátt í þessum skemmtilega degi.

Samið um byggingu félagslegra íbúða á Akranesi

Fim, 16/08/2018 - 10:10

Skrifað hefur verið undir samning þess efni að byggingfyrirtækið Modulus byggi 33 nýjar leiguíbúðir í þremur húsum við Asparskóga 12, 14 og 16 á Akranesi fyrir Bjarg íbúðafélag. Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í haust og að íbúðum verði skilað fullkláruðum, þeim fyrstu 22 um miðjan maí á næsta ári en síðustu ellefu mánuði síðar. Arkitekt að byggingunum er Svava Björg Jónsdóttir.

Bjarg íbúðafélag er eins og kunnugt er húsnæðissjálfseignarstofnun stofnuð af ASÍ og BSRB. Félagið er rekið án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja tekjulágum fjölskyldum á vinnumarkaði aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Fram hefur komið að Bjarg stefnir á að byggja um 1400 leiguíbúðir á fjórum árum. Nýverið kom fram í frétt Skessuhorns að Bjarg hefur gert áætlanir um leiguverð fyrir íbúðir félagsins meðal annars á Akranesi. Áætlun um leigu miðast við verðlag 2018 og áætlanir félagsins um byggingakostnað, vaxtakostnað og kostnað vegna reksturs fasteignanna. Endanlegt leiguverð verður gefið út þegar íbúðir verða fullbúnar og mun það taka mið af endanlegum byggingarkostnaði. Áhugasamir geta þó miðað við eftirfarandi forsendur, samkvæmt upplýsingum Bjargs:

 

Áætlað leiguverð

„Áætlað leiguverð 2ja herbergja íbúðar er frá 96 þúsund til 130 þúsund miðað við rekstrarforsendur og verðlag 2018. Greiðslubyrgði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 55.000 fyrir einstakling þegar tekið er tillit til húsnæðisbóta.

Áætlað leiguverð 3ja herbergja íbúðar er frá 128 þúsund til 169 þúsund miðað við rekstrarforsendur og verðlag 2018. Greiðslubyrgði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 90.000 fyrir hjón/par með eitt barn þegar tekið er tillit til húsnæðisbóta.

Áætlað leiguverð á 4ja herbergja íbúðar er frá 146 þúsund til 200 þúsund miðað við rekstrarforsendur og verðlag 2018. Greiðslubyrgði leigu miðað við lágmarkslaun gæti orðið frá 99.000 fyrir hjón/par með 2 börn þegar tekið er tillit til húsnæðisbóta.“

 

Allir fermetrar nýttir

Við hönnun íbúða Bjargs var leitast við að ná góðri nýtingu á íbúðarfermetrum og með færri fermetrum getur félagið boðið lægra heildarleiguverð til leigutaka. Það er m.a. gert með því að nýta ný ákvæði í byggingareglugerð varðandi stærðir rýma og útfærslur á geymslum. Stefnt er á að allir fermetrar nýtist og séu innan íbúðar en liggi ekki að hluta til í geymslum í kjallara eins og algengt er. Meðalstærð tveggja herbergja íbúðar er um 45 fermetrar, þriggja herbergja íbúð er um 70 fermetrar og fjögurra herbergja íbúð um 85 fermetrar.

 

Umsókn fer fram í tveimur skrefum

Opið er fyrir skráningu á biðlista hjá Bjargi og fer hún fer fram rafrænt á www.bjargibudafelag.is. Íbúðir verða auglýstar til leigu í áföngum og mun þá verða hægt að sækja um ákveðnar staðsetningar. Staða á biðlista ræður til um úthlutun.

Rakel í starfshóp ráðherra

Fim, 16/08/2018 - 10:01

Rakel Óskarsdóttir bæjarfulltrúi á Akranesi og formaður stjórnar SSV hefur verið skipuð í starfshóp á vegum Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins um hlutverk og stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í hópnum eru fimm fulltrúar, tveir fulltrúanna eru tilnefndir af ráðuneytinu, tveir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og loks er Rakel tilnefnd af landshlutasamtökum sveitarfélaga. Megin hlutverk hópsins er að meta stöðu landshlutasamtaka sveitarfélaga og skilgreina hlutverk þeirra og stöðu gagnvart sveitarfélögum annars vegar og ríkinu hins vegar. Jafnframt er hópnum ætlað að gera tillögur um, hvernig styrkja megi svæðisbundna samvinnu innan landshluta, svo að sveitarfélög verði betur í stakk búin til að taka við fleiri verkefnum og tryggja aðgang íbúa um land allt að nauðsynlegri og lögbundinni þjónustu. Frá þessu var greint á vef ssv.is

Tvímennt um Vesturland

Fim, 16/08/2018 - 09:01

Reiðhjól eru af ýmsum gerðum. Erlend hjón voru nýverið á ferð á þessu tveggja manna hjóli í Grundarfirði. Framan við stýrið sat konan og steig petala, en maðurinn sat fyrir aftan, steig sína petala og stýrði. Skemmtileg útfærsla og vissulega óvenjuleg í það minnsta á vegum hér á landi.

Öryggisveggur settur upp í Upplýsingamiðstöð Snæfellsness

Fim, 16/08/2018 - 08:01

Í byrjun þessa mánaðar var settur upp öryggisveggur í Upplýsingamiðstöð Snæfellsness á Breiðabliki. Veggurinn er settur upp af Safe Travel í samvinnu við Svæðisgarðinn Snæfellsnes, sem annast rekstur upplýsingamiðstöðvarinnar. Þar má sjá rafrænar upplýsingar um færð og veður og kort af Snæfellsnesi sem sýnir staði þar sem ástæða þykir til að gæta sérstakrar varúðar. Ragnhildur Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Svæðisgarðsins Snæfellsness, segir uppsetningu öryggisveggjarins enn einn áfangann í ábyrgri uppbyggingu ferðaþjónustu á Snæfellsnesi, þar sem áhersla er lögð á stýringu og stjórnun.

Sjá nánar um þetta verkefni í Skessuhorni vikunnar.

„Engar reykvélar, ekkert ljósasjóv og engar dansmeyjar – bara solid rokk“

Fim, 16/08/2018 - 06:01

Hljómsveitin Key to the Highway heldur stórtónleika til heiðurs Eric Clapton í Brún í Bæjarsveit að kvöldi næsta miðvikudags, 22. ágúst. Hljómsveitin var stofnuð árið 2015 í tilefni af sjötugsafmæli Claptons. Var tímamótunum fagnað með stórtónleikum í Brún. Allar götur síðan hefur sveitið komið fram á ári hverju og heiðrað tónlistarmanninn með hljómleikum.

Hljómsveitina Key to the Highway skipa þeir Ásmundur Svavar Sigurðsson bassaleikari, Gunnar Ringsted gítarleikari, Heiðmar Eyjólfsson söngvari, Jakob Grétar Sigurðsson trymbill, Pétur Hjaltested hljómborðsleikari og Reynir Hauksson gítarleikari.

Að sögn aðstandenda verða tónleikarnir í Brún næstkomandi miðvikudag þeir veglegustu hingað til. Húsið opnar kl. 20:00 og fyrsta nótan verður slegin stundvíslega klukkustund síðar. Á óræðum tíma á meðan tónleikunum stendur mun landsþekktur leynigestur stíga á svið.

Að vanda er það Eric Clapton félag Borgarfjarðar sem er helsti stuðningsaðili tónleikanna í Brún. „Að venju eru kjororðin þessi; engar reykvélar, ekkert ljósasjóv og engar dansmeyjar – bara solid rokk,“ segir Haukur Júlíusson, einn af aðstandendum tónleikanna.

Síður