Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 1 klukkutími 8 mín síðan

Bjarki í landsliðshópnum í golfi

5 klukkutímar 3 mín síðan

Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Borgarness hefur verið valinn í landsliðshóp Íslands sem mun keppa á Evrópumeistaramótinu í liðakeppni. Gregor Brodie, afreksstjóri Golfsambands Íslands, og Ólafur Björn Loftsson, aðstoðarafreksstjóri, tilkynntu hópinn í dag. Alls völdu þeir leikmenn í fjögur landslið sem taka þátt fyrir Íslands hönd á EM. Um er að ræða karla- og kvennalandslið auk pilta- og stúlknalandsliða. Öll fjögur landsliðin eru skipuð áhugakylfingum og öll liðin keppa í efstu deild. Öll fjögur mótin fara fram á sama tíma, 9.-13. júlí. Ásamt Bjarka í liði eru þeir Aron Snær Júlíusson, GKG, Birgir Björn Magnússon, GK, Dagbjartur Sigurbrandsson, GR, Gísli Svanbergsson, GK, og Rúnar Arnórsson úr GK og halda þeir til Svíþjóðar fyrir Íslands hönd á næstu viku.

Brákarhátíð hafin

7 klukkutímar 59 mín síðan

Brákarhátíð byrjaði formlega í Borgarnesi í gær þegar vinnuskólinn kom skreytingum í viðeigandi hverfi svo íbúar gætu byrjað að skreyta göturnar sínum litum í tilefni hátíðarinnar. Seinna um daginn bauð bláa hverfið íbúum heim þar sem boðið var upp á froðuskemmtun fyrir krakkana, vatnsrennibraut og vatnsblöðrustríð. Slökkvilið Borgarbyggðar var mætt á staðinn til að bleyta í hópnum. Leyndi sér ekki gleðin hjá krökkunum sem voru samankomin með fjölskyldum sínum á svæðinu milli Þórðargötu og Kveldúlfsgötu.

Í dag mun rauða hverfið bjóða heim þar sem boðið verður upp á jóga í Skallagrímsgarði og hollt snarl í kjölfarið.

Auglýsa tillögu að breyttu aðalskipulagi

9 klukkutímar 50 mín síðan

Sveitarstjórn Reykhólahrepps auglýsti í liðinni viku tillögu að breytingu á aðalskipulagi Reykhólahrepps vegna Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Breytingar á aðalskipulagi eru forsenda þess að sveitarfélagið getur veitt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir vegagerð um Teigsskóg. Athugasemdir við tillöguna þurfa að berast fyrir 25. ágúst. Berist athugasemdir verður þeim svarað áður en tillagan verður send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Að því loknu getur sveitarfélagið að óbreyttu auglýst breytt skipulag og veitt Vegagerðinni framkvæmdaleyfi.

Tengivirki flutt í heilu lagi til Ólafsvíkur

10 klukkutímar 31 mín síðan

Landsnet hefur undanfarið unnið að því að styrkja flutningskerfið á Snæfellsnesi en á svæðinu hafa á liðnum árum verið tíðar truflanir þar sem loftlínan milli Ólafsvíkur og Vegamóta liggur um Fróðárheiði sem er mjög erfitt svæði veðurfarslega. Gekk verkefnið út á lagningu 2,66 kV jarðstrengs milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur, Grundarfjarðarlínu, og byggingu nýrra tengivirkja í Grundarfirði og Ólafsvík. Með þessari framkvæmd verður afhendingaröryggi raforku á Snæfellsnesi aukið og áreiðanleiki svæðiskerfisins á Vesturlandi eykst.

Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landsnets komu tveir valkostir til greina. Annars vegar jarðstrengur alla leið eða loftlína með jarðstreng næst Grundarfirði. Þar sem loftlínulausnin samræmdist ekki stefnu stjórnvalda um lagningu 66 kV raflína í jörð, auk þess sem hún var í ofanálag metin sem dýrari lausn, varð jarðstrengur fyrir valinu. Kallaði lagning strengsins á byggingu nýrra tengivirkja í báðum bæjarfélögum. Byggingu tengivirkis í Grundarfirði er nú lokið eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns og nú á dögunum lauk byggingu tengivirkisins í Ólafsvík. Tengivirkið fyrir Ólafsvík er 66 kV tveggja reita tengivirki og var það byggt á höfuðborgarsvæðinu og flutt fullbúið á verkstað.

Hófst ferðalagið með tengivirkið frá Reykjavík að kvöldi 19. júní. Tók flutningurinn alla nóttina enda farið á hægum en öruggum hraða. Fékk Landsnet ET, Orkuvirki og Rarik með sér í verkið og bíllinn sem flutti tengivirkið ekki af minni gerðinni, en undir honum og vagninum voru alls 92 hjól. Þegar kom að síðustu brekkunni, áður en komið var á áfangastað, þurfti bíllinn þó örlitla aðstoð og kom vél frá TS Vélaleigu og aðstoðaði við síðustu metrana. Nú þegar tengivirkið er komið á sinn stað tekur við frágangur og vinna við að koma því í gagnið.

Súrt tap hjá Skallagrími

10 klukkutímar 32 mín síðan

Skallagrímsmenn þurftu að sætta sig við tap gegn Hetti/Hugin í botnbaráttu liðanna þegar þau mættust fyrir austan í 8. umferð þriðju deildar í fótbolta á laugardag. Leikurinn var fjörugur í alla staða og leikmenn á skotskónum.

Fyrsta mark leiksins kom frá heimamönnum á 32. mínútu þegar Petar Mudresa kom sínum mönnum yfir. Borgnesingar létu sér ekki segjast og voru snöggir að jafna metin þegar Cristofer Rolin kom boltanum í netið. Höttur/Huginn náði þó að koma sér aftur í bílstjórasætið þegar Ivan Bubalo laumaði inn marki til viðbótar á uppbótartíma fyrri hálfleiks og leiddu heimamenn þegar flautað var til hálfleiks, 2-1.

Borgnesingar komu ferskir til leiks í síðari hálfleik og skoruðu tvö mörk á þriggja mínútna kafla. Cristofer Rolin skoraði annað mark sitt á 51. mínútu fyrir Skallagrím og jafnaði metin enn og aftur. Þremur mínútum seinna var Sigurjón Logi Bergþórsson á ferðinni og kom Borgnesingum yfir í fyrsta skipti í leiknum. Hart var barist alveg fram á loka mínúturnar og virtist sem að Skallagrímsmenn ætluðu að sigla sigrinum heim. Ivan Bubalo náði að koma í veg fyrir það og jafnað metin fyrir heimamenn á 86. mínútu. Það var svo Heiðar Logi Jónsson sem gulltryggði sigur Hattar/Hugin á uppbótartíma rétt undir lokin. Ekki var nægur tími fyrir Skallagrím að svara og sigur heimamanna staðreynd.

Höttur/Huginn færir sig upp um eitt sæti í það níunda og er með níu stig á meðan Skallagrímur sitja enn í því tíunda með sex stig. Næsti leikur Skallagrímsmanna fer fram í Borgarnesi á fimmtudaginn þegar þeir taka á móti Kórdrengjum. Leikurinn hefst klukkan 20.00.

Bátadagar á Breiðafirði verða um aðra helgi

13 klukkutímar 31 mín síðan

Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum, í samvinnu við Báta- og hlunnindasýninguna á Reykhólum, gengst nú fyrir bátahátíð á Breiðafirði í tólfta sinn dagana 5.-6. júlí næstkomandi. Nú verður breyting á því að þessu sinni eru allar gerðir báta velkomnar, ekki einvörðungu trébátar. Dagskráin hefst föstudaginn 5. júlí þegar komið verður saman. Ráðgert er að þátttakendur safnast saman á Reykhólum en flóð er um klukkan 21 og þá er gott að setja bátana niður í höfninni fyrir þá sem koma með bátana landleiðina.

Að morgni laugardagsins 6. júlí verður haldið frá Reykhólum um klukkan 9 og áformað að sigla að Ólafseyjum og þar skoðaðar gamlar mannvistarleyfar. Þaðan verður siglt í Sviðnur, þær skoðaðar, eigendur verða á staðnum og fræða þátttakendur. Síðan verður siglt innanskerja til Skáleyja þar sem Jóhannes Geir Gíslason mun sýna gestum minjasafn sem hann hefur komið upp þar og fræða þátttakendur um lífið í eyjunum. Jóhannes er þar fæddur og uppalinn og var þar bóndi um tíma. Loks verður siglt til baka til Reykhóla og ráðgert að koma að landi um eða fyrir klukkan 20 en háflóð er um kl. 22 og því hentugt að taka bátana upp.

Í tilkynningu frá forsvarsmönnum hátíðarinnar er tekið fram að aðstæðum ráði sjávarföll og veður mestu um hvernig siglingin verður og áætlunin getur því breyst ef aðstæður krefjast. Siglingin verður undir stjórn manna sem þekkja vel til aðstæðna við Breiðafjörð. „Formaður hvers báts er ábyrgur fyrir því að nauðsynlegur öryggisbúnaður sé fyrir hendi um borð. Vinsamleg tilmæli eru að þátttakendur verði með bjargbelti og að sem flestir bátar séu búnir björgunarbátum. Björgunarsveitin Heimamenn á Reykhólum mun verða með í för með öflugan bát sjófarendum til halds og trausts.

Allir bátar eru velkomnir og við viljum hvetja sem flesta til að nýta sér þetta tækifæri til siglingar um þetta fallega umhverfi. Mjög góð aðstaða fyrir báta er á Reykhólum og einnig er mjög góð aðstaða fyrir ferðamenn í Reykhólasveit. Báta- og hlunnindasýningin verður opin og vafalaust hafa þátttakendur áhuga á að skoða hana,“ segir í tilkynningu.

Sjá má fróðleik um starf félagsins og myndir frá fyrri bátadögum á vefslóðinni batasmidi.is

Götulistahátíðin var haldin í blíðskaparveðri á Hellissandi

14 klukkutímar 30 mín síðan

Götulistahátíðin sem haldin var á Hellissandi um helgina tókst með afbrigðum vel, að sögn Kára Viðarssonar skipuleggjanda hennar. Í boði var tónlist, andlitsmálning, skottsala úr bílum og margt fleira. Veðrið lék við gesti sem nutu hátíðarinnar. „Þetta gæti ekki hafa heppnast betur,“ sagði Kári í samtali við Skessuhorn. „Það var rjómablíða alla helgina og á laugardeginum voru um 500 manns sem mættu á listviðburðina sem voru í boði og er ég sjúklega sáttur,“ sagði Kári og brosti sínu breiðasta.

Það voru 15 listamenn sem héldu upp fjörinu og komu þeir frá tíu þjóðlöndum. „Þetta er í fyrsta skiptið sem við höldum þessa hátíð en við stefnum á að halda hana aftur eftir tvö ár, en á næsta ári munum við halda í annað sinn tónlistarhátíðina Tene-Rif,“ sagði Kári.

Íslandsmeistaramótið í holukeppni fór fram á Akranesi

16 klukkutímar 28 mín síðan

Íslandsmeistaramótið í holukeppni í golfi fór fram á Garðavelli á Akranesi um liðna helgi. Sigurvegarar á mótinu urðu þau Saga Traustadóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur og Rúnar Arnórsson úr Golfklúbbi Keili. Alls voru 55 keppendur skráðir til leiks þar af 32 karlar og 23 konur.

Boðið var upp á mikla spennu í kvennaflokki þar sem úrslit réðust á 19. holu í bráðabana. Þar fékk Saga fugl og landaði þannig sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í holukeppni. Í öðru sæti varð Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR og í því þriðja var Hulda Clara Gestsdóttir úr Golfklúbbi Hamars.

Í karlaflokki sigraði Rúnar Ólaf Björn Loftsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar 3/2 og heldur því Rúnar titlinum áfram þar sem hann sigraði einnig fyrir ári síðan. Það var svo Jóhannes Guðmundsson úr GR sem tók þriðja sætið.

Húsbíll brann við sumarbústað

mánud., 24/06/2019 - 16:54

Eldur kom upp í húsbíl sem stóð við sumarbústað í landi Galtarholts III í Borgarbyggð skömmu fyrir hádegi í dag. Slökkvilið Borgarbyggðar var kallað út og slökkti í síðustu glæðunum, en eins og sjá má á myndinni er ekkert eftir af bílnum nema vélin og járnagrindin. Að sögn Bjarna Kristins Þorsteinssonar slökkviliðsstjóra gekk slökkvistarf fljótt og vel og enginn var í hættu. Lítilsháttar eldur var þó kominn í gróður og nærliggjandi grindverk þannig að ekki mátti miklu muna að eldur bærist áfram í hús og gróður á svæðinu.

Valdís Þóra upp um tvö sæti

mánud., 24/06/2019 - 16:15

Atvinnukylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbi Leyni lék Ladies European Thailand meistaramótið á fimm höggum yfir pari og endaði í 54. sæti á mótinu sem lauk aðfaranótt sunnudags.

Valdís spilaði fyrsta mótsdag á 72 höggum eða á pari vallarins. Dagur tvö gekk ekki eins vel sjá Skagakonunni þar sem hún spilaði á þremur höggum yfir pari. Besta hring átti Valdís Þóra á degi þrjú þegar hún spilaði á 71 höggi. Lokadaginn spilaði hún á 75 höggum og lék, eins og fyrr segir, hringina fjóra í mótinu á samtals fimm höggum yfir pari.

Stigalisti mótaraðarinnar hefur verið uppfærður eftir mót helgarinnar og situr Valdís nú í 65. sæti eftir tíu mót en hún var í 67. sæti fyrir mótið í Taílandi og færir sig þannig upp um tvö pláss.

Brautskráning frá Háskólanum á Bifröst

mánud., 24/06/2019 - 15:16

Síðastliðinn laugardag voru 80 nemendur útskrifaðir úr námi við Háskólann á Bifröst. Nemendahópurinn kom úr viðskiptadeild, félags- og lagadeild og Háskólagátt. Í hátíðarræðu Vilhjálms Egilssonar rektors kom hann inn á breyttar aðstæður á vinnumarkaði og hækkandi menntunarstig þjóðarinnar. „Háskólarnir hafa ekki lokið hlutverki sínu þótt fólk hafi þegar lokið háskólaprófi. Margir vilja eða þurfa að koma aftur í háskóla til að læra eitthvað nýtt eða til að dýpka þekkingu sína og fólk getur byrjað háskólanám á öllum aldri. Háskólinn á Bifröst er nemendadrifinn skóli.  Hann er persónulegur skóli.  Við lítum á nemendur okkar sem einstaklinga en ekki sem kennitölur. Skólinn er sífellt að breytast. Við bjóðum á hverju ári upp á nýjungar. Sumar falla í kramið en aðrar ekki.  En svo margar þeirra hafa hitt í mark að síðastliðið haust voru 80% nemenda í áherslulínum í náminu eða námsfyrirkomulagi sem ekki var boðið uppá fyrir fimm árum,“ sagði Vilhjálmur.

Þá kom rektor einnig inn á aukna alþjóðavæðingu í skólanum. Það er skýr stefnumörkun innan skólans að auka alþjóðlega starfsemi en öllum er jafnframt ljóst að það er mikið þolinmæðisverk og tekur mörg á að byggja slíkt upp. Mikill fjöldi verkefna sem tengjast alþjóðavæðingu eru framundan hjá skólanum. Um 30 erlendir skiptinemar koma í skólann á hverri önn frá samstarfsháskólum, sumarskóli fyrir erlenda nemendur er að festast í sessi og nú er í gangi sérstakt námskeið fyrir FOM háskólann í Þýskalandi með 20 nemendum.  Þá koma rússneskir nemendur í heimsókn í skólann næsta haust og er verið að þróa sérstakt nám fyrir erlenda nemendur á ensku sem getur verið ýmist ein önn eða diplomanám í tvær annir.

Verðlaun og útskriftarræður

Útskriftarverðlaun í grunnnámi hlutu Donna Kristjana Peters viðskiptadeild og Hekla Jósepsdóttir, félagsvísinda- og lagadeild. Í meistaranámi hlutu útskriftarverðlaun þær Alma Rún Ólafsdóttir viðskiptadeild og Guðlaug María Lewis í félagsvísinda- og lagadeild. Útskriftarverðlaun í Háskólagátt hlaut Ólöf Sif Ólafsdóttir. Að auki fengu tveir nemendur felld niður skólagjöld á haustönn vegna framúrskarandi námsárangurs þau Bjarni Heiðar Halldórsson viðskiptadeild og Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir félagsvísinda- og lagadeild.

Ræðumaður fyrir hönd grunnnema viðskiptadeildar var Sigurður Már Sigurðsson og fyrir hönd grunnnema félagsvísinda- og lagadeildar var Linda Pétursdóttir. Fyrir hönd meistaranema í viðskiptadeild flutti Jóna Guðrún Kristinsdóttir ávarp og Magnea Einarsdóttir fyrir hönd meistaranema í félagsvísinda- og lagadeild, þá flutti Thelma Rós Kristinsdóttir ræðu fyrir hönd háskólagáttarnema.

Karlakórinn Söngbræður undir stjórn Viðar Guðmundssonar sá um söngatriði við útskriftina við undirleik Birgis Þórissonar. Að athöfn lokinni þáðu gestir léttar veitingar.

Hollvinasamtök Þórðar Halldórssonar lögð niður

mánud., 24/06/2019 - 14:55

Árið 2005 voru Hollvinasamtök Þórðar Halldórssonar frá Dagverðará stofnuð, en það ár voru liðin 100 ár frá fæðingu hans. Markmiðið var að halda á lofti minningu þessa merka sagnamanns og vísnamanns, refaskyttu, málara, sjóara, Jöklara og lífskúnsters. Með því að drekka ölkelduvatn daglega, varð hann næstum 100 ára.

Meðal verkefna Hollvinasamtakanna var að láta gera heimildamynd um Þórð sem Kári G. Schram, kvikmyndaleikstjóri gerði og kallaðist: Jöklarinn. Myndin er einstök heimild um Þórð sem auk margs annars, var einstakur náttúruunnandi og í reynd samofinn umhverfi Snæfellsjökuls að ekki sé talað um Jölkulinn sjálfan.

Á aðalfundi Hollvinasamtaka Þórðar 14. júní síðastliðinn var svo samþykkt að leggja samtökin niður og nýlega stofnað félag – Sagnaseiður á Snæfellsnesi, taki við að halda minningu Þórðar á lofti og kynna frekar heimildamyndina um hann. Einnig munu Svæðisgarður Snæfellsness og Samkomuhúsið á Arnarstapa, koma að þessu hlutverki.

Nú stendur yfir listsýningin Nr. 3 Umhverfing, þar sem yfir sjötíu listamenn sýna verk sín víðsvegar á Snæfellsnesi m.a í bæjarrústunum á Dagverðará. Þar eru á veggjum ljósmyndir af nokkrum málverka Þórðar og eitt þeirra heitir: Snæfellsjökull eftir byl og málað 8. desember 1995 þegar Þórður var 90 ára.

Snæfellsnes hefur alið marga snjalla sagnamenn og sagnaritara og þar er þekktastur Árni prófastur Þórarinsson frá Stóra – Hrauni, en Þórbergur Þórðarson skráði ævisögu hans í sex bindum. Minningar Þórðar Halldórssonar hafa líka verið skráðar og þar er að finna marga góða söguna. Félagið Sagnaseiður á Snæfellsnesi þarf ekki að kvíða verkefnaskorti.

Reynir Ingibjartsson

Opinn kynningarfundur um stuðning við bókaútgáfu

mánud., 24/06/2019 - 13:49

Kynningarfundur verður haldinn í mennta- og menningarmálaráðuneytinu í Reykjavík miðvikudaginn 26. júní nk. kl. 13 um nýtt endurgreiðslukerfi vegna útgáfu bóka á íslensku. „Stuðningskerfi sem heimilar endurgreiðslu 25% beins kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku var komið á með lögum í vetur en markmið þess er að efla bókaútgáfu á íslenskri tungu í ljósi mikilvægis hennar fyrir þróun íslenskunnar og bætt læsi þjóðarinnar,“ segir í tilkynningu. Á fundinum verður fyrirkomulag umsókna kynnt og mun nefnd sem hefur umsjón með endurgreiðslunum svara fyrirspurnum. „Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnar fundinn og segir nokkur orð. Fundurinn er öllum opinn.“

Héldu kveðjumessu í Stafholtskirkju

mánud., 24/06/2019 - 10:01

Í gær var haldin kveðjumessa í Stafholtskirkju í Borgarfirði. Hjónin sr. Jón Ásgeir Sigurvinsson og sr. Elínborg Sturludóttir predikuðu og þjónuðu fyrir altari. Séra hefur þjónað söfnuði Stafholtsprestakalls síðasta árið og þar áður eiginkona hans, sr. Elínborg sem þjónaði til tíu ára í prestakallinu og fór þaðan til starfa sem dómkirkjuprestur. Kirkjan var þétt setin í Stafholti í gær og í framhaldi fóru kirkjugestir í kaffisamsæti í Munaðarnesi. Eins og fram kom í síðasta Skessuhorni hefur sr. Brynhildur Óla Elínardóttir verið ráðin sóknarprestur í Stafholtsprestakalli og tók hún við embætti til eins árs 1. júní síðastliðinn.

Brenna nú metangasi úr safnhaugnum í Fíflholtum

mánud., 24/06/2019 - 09:01

Jákvætt skref var í síðustu viku stigið í umhverfismálum hjá Sorpurðun Vesturlands í Fíflholtum. Þá var formlega tekinn í notkun sérhæfður brennari sem brennir metangasi sem leitt er úr núverandi urðunarrein þar sem metangasframleiðslan er mest. Rörum er komið niður í safnhauginn og eftir þeim leitt metangas til brennslu í sérstökum brennara. Með því móti er dregið verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda frá urðunarstaðnum, en áætlað er að það metangas sem að óbreyttu hefði farið út í andrúmsloftið mengi á við 2.500 bíla.

Blaðamaður Skessuhorn leit í síðustu viku í heimsókn í Fíflholt. Nánar verður fjallað um þá heimsókn í næsta Skessuhorni.

 

Arnar Smári aftur til Skallagríms

mánud., 24/06/2019 - 08:01

Körfuknattleiksdeild Skallagríms hefur samið við Borgnesinginn Arnar Smára Bjarnason um að spila með liðinu í 1. deild karla næsta vetur. Arnar Smári er 19 ára og uppalinn Skallagrímsmaður og spilar stöðu bakvarðar. Hann hefur verið með félaginu undanfarin tímabil en fór til ÍR á miðri síðustu leiktíð í Reykjavík þar sem hann spilaði með unglingaflokki félagsins. Að auki spilaði hann allt síðasta tímabil með liði ÍA í 2. deildinni á venslasamningi og var lykilmaður í liðinu. „Ánægja er að fá Arnar Smára aftur heim í Borgarnes og munu kraftar hans nýtast vel í 1. deildinni næsta vetur,“ segir í tilkynningu frá félaginu. Samningur Arnars Smára er til tveggja ára.

Ólafsvíkurvaka verður fyrstu helgina í júlí

mánud., 24/06/2019 - 06:01

Ólafsvíkurvaka verður haldin fyrstu helgina í júlí og er undirbúningur í fullum gangi. Að þessu sinni eru það appelsínugula og græna hverfið sem standa að hátíðinni. Að sögn þeirra Ara Bjarnasonar úr appelsínugula hverfinu og Ríkarðs Kristjánssonar úr því græna gengur undirbúningur vel og hafa allir í hverfunum verið áhugasamir og margir komið að undirbúningnum.

Fjölbreytt dagskrá verður í boði og verður hún blanda af viðburðum sem hafa verið margar undanfarnar Ólafsvíkurvökur og nýjum og spennandi viðburðum. Má þar nefna skákkennslu og skákmót, ratleikinn „Ólafsvíkurdrauminn“ og gardenpartý í Sjómannagarðinum þar sem þau Trausti og Lena sjá um fjörið, Herra Hnetusmjör mun verða á Þorgrímspalli á laugardeginum ásamt fleiri skemmtiatriðum, BMX-Bros munu mæta á svæðið og sýna listir sínar og átthagagangan „engu logið“ ásamt byssusýningu. Einnig er stefnt að því að setja upp húsdýragarð um helgina svo eitthvað sé nefnt. Hestamannafélagið verður á sínum stað eins og áður sem og dorgveiðin og hoppukastalarnir. Markaðurinn verður einnig á sínum stað og enn hægt að fá pláss með því að hafa samband við Laufeyju Kristmundsdóttur í síma 899-6904. Jón Sigurðsson Idol stjarna stjórnar brekkusöng í Sjómannagarðinum á laugardagskvöldinu og heldur uppi stuðinu. Þar verða einnig flutt skemmtiatriði frá hverfunum. Vill undirbúningsnefndin hvetja hverfin til að fara að byrja að æfa og undirbúa svo allt verði nú tilbúið. Hljómsveitin Stjórnin mun svo halda uppi stuðinu í Klifi á laugardagskvöldið og fram á nótt. Af allri þessari upptalningu má sjá að það stefnir í góða Ólafsvíkurvöku.

Gestastofa opnuð í Breiðabliki

sun, 23/06/2019 - 11:10

Í gær var stór dagur fyrir íbúa og sveitarfélög á Snæfellsnesi. Í félagsheimilinu Breiðabliki í Eyja- og Miklaholtshreppi var formlega opnuð ný gestastofa og upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Gestastofan er á vegum Svæðisgarðsins Snæfellsness og þannig sameinast sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi og atvinnulífið um rekstur hennar. Gestastofan Breiðabliki er hugsuð sem gátt ferðafólks inn á svæðið, bæði sem áningarstaður og þar getur ferðafólk nálgast allar helstu upplýsingar um ferðir á svæðið. Í Breiðabliki er hreinlætisaðstaða opin allan sólarhringinn og auk þess er bensínsjálfsali á hlaðinu sem og veitingavagn. Á daginn verður upplýsingamiðstöð opin og ráðgert að þar verði auk þess markaður.

Töluvert hefur verið lagt í endurbætur á félagsheimilinu sem er í eigu Eyja- og Miklaholtshrepps. Að sögn Eggerts Kjartanssonar oddvita fékkst frá Byggðastofnun 25 milljóna króna styrkur út á skilgreininguna brothættar byggðir, sem sunnanvert Snæfellsnes fellur undir, og var þessi ríkisstyrkur lagður í endurbætur á húsinu. Auk starfsemi gestastofu verður Svæðisgarðurinn Snæfellsnes með fundaaðstöðu í húsinu auk þess sem hreppsskrifstofa Eyja- og Miklaholtshrepps verður þar. Áfram mun Breiðablik engu að síður þjóna íbúum sem félagsheimili sveitarinnar.

Sjá nánar í næsta Skessuhorni.

Þrír tapleikir í röð hjá ÍA

sun, 23/06/2019 - 10:36

ÍA tapaði gegn HK í nýliðaslag þegar liðin mættust í 10. umferð karla í Pepsi Max deildinni í gær. Bæði lið komu sér upp úr 1. deildinni fyrir ári síðan þar sem ÍA var efst að tímabilinu loknu og HK-ingar næstefstir og liðin því vel kunnug hvor öðru. Leikurinn fór fram á Akranesvelli. Upphafsmínúturnar voru fjörugar og heimamenn til alls líklegir. Gestirnir voru þó klókari og skoruðu fyrsta mark leiksins strax á 10. mínútu. Bjarni Gunnarsson fékk þá boltann við vítateigslínu Skagamanna, náði með tilþrifum að snúa sér af varnarmanni ÍA og hamraði boltanum örugglega upp í hornið. Hélt HK þessu forskoti þegar gengið var til leikhlés.

Í síðari hálfleik voru gestirnir úr Kópavogi mun sprækari og sóttu hart að Skagamönnum um leið og flautað var aftur til leiks. Það voru ekki nema fimm mínútur liðnar af seinni hálfleik þegar HK bætti við sínu öðru marki. HK-ingar komust þá í skyndisókn að marki heimamanna sem virtust sofa á verðinum. Bjarni Gunnarsson kom þá á hraðferð upp völlinn með knöttinn og náði að stinga boltanum innfyrir á liðsfélaga sinn, Valgeir Valgeirsson, sem kláraði færið af miklu öryggi. 0-2 fyrir gestunum. Þetta virtist taka alla orku úr liði Skagamanna sem áttu engin svör og voru hvergi líklegir til að skapa sér almennileg marktækifæri það sem eftir lifði leiks. HK sigur því staðreynd.

Þetta var þriðji tapleikur Skagamanna í röð. Liðið heldur þriðja sætinu í deildinni með 16 stig, fjórum stigum á eftir KR-ingum sem eru í öðru sæti og fjórum stigum á undan Fylki sem eru í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur ÍA verður gegn Víkingi R. sem erum í næstneðsta sæti deildarinnar. Sá leikur fer fram á Víkingsvelli í Reykjavík, mánudaginn 1. júlí klukkan 19:15.

Víkingur tapaði á heimavelli

sun, 23/06/2019 - 10:01

Víkingur Ó. þurfti að sætta sig við tap þegar liðið tók á móti Fram í 8. umferð fyrstu deildar í gær á Ólafsvíkurvelli. Strax á sjöttu mínútu fengu Víkingsmenn á sig víti. Michael Newberry missti boltann klaufalega frá sér rétt fyrir utan eigin teig. Tiagi Fernandes hjá liði Fram, lét sér ekki segjast, náði í knöttinn og inn í teig heimamanna þar sem hann var felldur og víti dæmt. Helgi Guðjónsson fór á punktinn og setti boltann örugglega í vinstra hornið. 0-1 fyrir gestina. Það var svo á 36. mínútu sem heimamenn fengu víti og tækifæri til að jafna leikinn. Markmaður gestanna náði að verja vítaspyrnuna frá Harley Willard og Framarar með eins marks forskot sitt í hálfleik. Síðari hálfleikur var ekki eins fjörugur og sá fyrri. Engin alvöru marktækifæri litu dagsins ljós og þrjú stig fóru því öll í Safamýrina til Fram.

Þetta er annar tapleikur Ólafsvíkinga á heimavelli í röð. Við þessi úrslit fer Víkingur úr fjórða sæti niður í það sjötta eftir átta umferðir en mjótt er á munum milli liðanna sem skipa næstu þrjú sæti fyrir ofan, hafa einungis eins stigs forskot. Næsti leikur Víkings Ó. verður á laugardaginn gegn Magna. Leikurinn fer fram á Grenivíkurvelli og hefst klukkan 14:00.

Síður