Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 11 mín 54 sek síðan

Verulegur stuðningur við Þróunarfélag Grundartanga

9 klukkutímar 1 mín síðan

Á fundi Alþingis sem nú fer fram gerir Willum Þór Þórsson, formaður fjárlaganefndar, grein fyrir nefndaráliti meirihluta fjárlaganefndar vegna fjáraukalagafrumvarps fyrir árið 2020. Þar kemur fram að viðbrögð við coronaveirunni kosta ríkissjóð gríðarlegar fjárhæðir. Meðal breytingartillagna er lagður til verulegur stuðningur við Þróunarfélag Grundartanga, eða 50 milljónir króna. Áður hafði Orkusjóður afgreitt 12 milljóna króna stuðning við þróunarfélagið vegna áforma um hitaveitu.

„Þessi stuðningur af fjárlögum fer til að kanna fýsileika og hagkvæmni á framleiðslu á rafeldsneyti á Grundartanga. Stuðningur þessi ætti að gefa þróunarfélaginu súrefni til að efla starf sitt og þróa iðnaðarsvæðið til sóknar, byggir á kraftmiklu starfi þess. Til viðbótar við þetta framlag leggur Hvalfjarðarsveit og Akraneskaupstaður fram verulegar fjárhæðir til verkefnisins,“ segir Haraldur Benediktsson alþingismaður og varaformaður fjárlaganefndar, sem unnið hefur með Þórdísi Kolbrúnu R Gylfadóttur iðnaðarráðherra að framgangi þessa verkefnis.

Hefja söfnun fyrir son Esterar Óskar

9 klukkutímar 30 mín síðan

Árgangur 1982 á Akranesi hefur hafið fjársöfnun til stuðnings syni Esterar Óskar Liljan sem lést í kjölfar slyss á Akranesi 14. febrúar síðastliðinn.

Tilkynning árgangsfélaga er svohljóðandi: „Kæru íbúar Akraness! Vinir og jafnaldrar Esterar Óskar hafa stofnað söfnunarreikning í formi framtíðarreiknings, en Ester Ósk lést í hræðilegu slysi þann 14. febrúar síðastliðinn og skilur hún eftir sig einn son. Styrkurinn er ætlaður syni Esterar og verður lagður inn á lokaðan framtíðarreikning á hans nafni, sem mun nýtast honum sem aðstoð inn í lífið eftir að hann verður 18 ára gamall. Þeir sem vilja sína samhug og leggja söfnuninni lið geta lagt frjáls framlög inn á eftirfarandi reikning á nafni Arnars Óla, sonar hennar: Banki: 0552-18-000236 og kt. 160805-3070. Með von um góðar undirtektir og samfélagslega góðvild.“

Fjölgað um einn smitaðan á Vesturlandi frá í gær

10 klukkutímar 6 mín síðan

Fjöldi staðfestra smita af Covid-19 hér á landi er nú 1.086. Af þeim eru 19 á Vesturlandi þar sem 321 er nú í sóttkví. Á landinu öllu eru nú 945 í einangrun og 25 á sjúkrahúsi, þar af 9 manns á gjörgæsludeild. Á landinu öllu eru 9.236 í sóttkví en 5.427 hafa lokið sóttkví.

Bifröst leiðbeinir háskólum í Evrópu við framkvæmd fjarnáms

10 klukkutímar 11 mín síðan

Háskólar um allan heim finna sig nú knúna til að færa kennslu sína í fjarnám til að koma til móts við breyttar aðstæður vegna Covid-19 veirunnar. Vægi og eftirspurn fjarnáms eyks með hverju árinu og hafa háskólar fetað sig sífellt meira inn á þá braut en skyndilega eru komnar upp þær tímabundnu aðstæður að hefðbundnir kennsluhættir eru ekki lengur valmöguleiki í flestum löndum. Háskólinn á Bifröst hefur þróað fjarnám sitt frá árinu 2004 og er á meðal fremstu háskóla í heimi þegar kemur að kennsluháttum á því sviði. Á síðustu vikum hefur fjöldi samstarfsskóla víðsvegar um Evrópu leitað til Bifrastar og óskað eftir leiðbeiningum og aðstoð um það hvernig fjarnámi er best háttað.

Síðastliðinn föstudag hélt Háskólinn á Bifröst opinn kynningarfund á netinu þar sem starfsfólk skólans kynnti kennsluhætti og aðferðafræði skólans, sagði frá reynslu sinni og miðlaði hugmyndum sem hjálpað gætu skólum að hraða fjarnámsvæðingu sinni. Þar sem háskólinn hefur kennt allt nám sitt um árabil í fjarnámi hefur myndast mikil reynsla og þekking um uppbyggingu fjarnáms á meðal starfsfólks og stjórnenda skólans og álítur skólinn það vera samfélagslega skyldu sína að miðla þeirri þekkingu til skóla sem þurfa að bregðast við breyttum veruleika með stuttum fyrirvara.

Fundurinn var haldinn á Microsoft Teams og tóku yfir 70 kennarar og stjórnendur 15 háskóla frá tíu löndum víðsvegar um Evrópu þátt á fundinum þar sem farið var yfir lykilatriði í fjarkennslu og starfsfólk Háskólans á Bifröst miðlaði meira en 15 ára reynslu sinni af kennslu í fjarnámi. „Mikil ánægja var á meðal þátttakenda fundarins og hefur Bifröst nú þegar hafist handa við að aðstoða nokkra þeirra skóla sem tóku þátt með innleiðingu fjarnáms í þeim skólum og ætlar starfsfólk og stjórnendur Bifrastar að verða þeim innan handar eins mikið og þörf er á,“ segir í tilkynningu frá skólanum.

Aðgerðir í landbúnaði og sjávarútvegi

12 klukkutímar 5 mín síðan

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti á ríkisstjórnarfundi á föstudag 15 aðgerðir á sviði landbúnaðar og sjávarútvegs. Er þeim ætlað að bregðast við áhrifum Covid-19 faraldursins á þessar greinar. Markmiðið er að lágmarka neikvæð áhrif á íslenskan landbúnað og sjávarútveg til lengri tíma, en um leið skapa öfluga viðspyrnu þegar ástandið er gengið yfir, að því er fram kemur í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Í landbúnaði verða aðgerðirnar eftirfarandi: Íslensk garðyrkja verður efld til muna með auknum fjárveitingum og þjónusta og ráðgjöf til bænda aukin vegna Covid-19. Tilfærslur verða mögulegar á greiðslum samkvæmt gildandi búvörusamningum innan ársins 2020, afurðatjón vegna Covid-19 verða skráð og greiðslur til fólks sem sinnir afleysingaþjónustu verða tryggðar. Komið verður á fót mælaborði fyrir landbúnaðinn til að bæta framsetningu gagna um framleiðslu, birgðir og framleiðsluspár og óskað eftir liðsinni dýralækna í bakvarðasveit. Þá verða einnig gerðar ráðstafanir til að stuðla að ræktun iðnaðarhamps hér á landi.

Það sem snýr að sjávarútvegi og fiskeldi er: Að komið verði til móts við grásleppusjómenn sem lenda í sóttkví eða einangrun varðandi lengd veiðitímabils, að afgreiðslu rekstrarleyfa fyrir fiskeldi verði flýtt og eftirlit og stjórnsýsla styrkt. Þá verði aukið fjármagn látið renna til hafrannsókna, aukið svigrúm gefið til að flytja aflaheimildir milli fiskveiðiára og að vinnu við útgáfu árskvóta deilistofna síldar, kolmunna og makríls verði flýtt.

Almennar aðgerðir snúa að því að fallið verði frá áformum um 2,5% hækukn á gjaldskrá Matvælastofnunar til 1. september næstkomandi. Auk þess að ráðstafanir verði gerðar til að tryggja áframhaldandi starfsemi fyrirtækja í matvælaframleiðslu vegna samkomubanns.

Boðið í skólalóðahönnun

13 klukkutímar 2 mín síðan

Tilboð í hönnun lóða við Brekkubæjarskóla og Grundaskóla á Akranesi voru opnuð á síðasta fundi skipulags- og umhverfisráðs. Tvær landslagsarkitektastofur gerðu tilboð í verkið. Landslag ehf. bauð tæpar 10,8 milljónir með virðisaukaskatti og Landmótun tæpar 14,8 milljónir með virðisaukaskatti. Kostnaðuráætlun hljóðaði upp á tíu milljónir króna. Ráðið lagði til að samið yrði við lægstbjóðanda, Landslag ehf.

Færri mál til kasta lögreglu

15 klukkutímar 3 mín síðan

Færri mál komu til kasta Lögreglunnar á Vesturlandi í liðinni viku en oft áður. Ástandið í þjóðfélaginu hefur orðið til þess að ferðamenn eru sárafáir í landshlutanum sem annars staðar á landinu og íbúar minna á ferðinni en áður. Að sögn lögreglu er þó haldið uppi öllu eftirliti, svo sem umferðareftirliti og hraðamælingum. Lögregla hefur þurft að hafa afskipti af ökumönnum vegna of hraðs aksturs, ljósabúnaðar, stöðvunar og lagningar ökutækja og fleiri mála sem teljast nokkuð hefðbundin. Enginn var stöðvaður ölvaður undir stýri í vikunni, né undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Er það ánægjulegt að sögn lögreglu, enda ein af fáum vikum í seinni tíð sem svo er ekki.

Nýr vefur Grundarfjarðarbæjar

17 klukkutímar 14 mín síðan

Grundarfjarðarbær hefur tekið í notkun nýja heimasíðu fyrir bæjarfélagið. Það var fyrirtækið Stefna sem hannaði og setti nýju vefsíðuna upp. Christina Degener, verkefnastjóri í markaðsmálum hjá Grundarfjarðarbæ, sá um að koma vefnum í höfn, ásamt Sunnu Njálsdóttur, umsjónarmanni bókasafnsins, en fleiri komu einnig að verkinu á fyrri stigum.

Nýja síðan er mun aðgengilegri en eldri vefur, sem kominn var til ára sinna. Fram kemur í tilkynningu á nýja vefnum að framsetning efnis hafi verið á lokametrunum í mars. Þegar ljóst var í hvað stefndi í samfélaginu hafi verið ákveðið að keyra sem fyrst á opnun hans, þrátt fyrir að ekki hafi allt verið komið á það stig sem ætlunin var fyrir birtingu. Ýmislegt snurfus bíði því betri tíma. „Gamli vefurinn var orðinn mjög óaðgengilegur í vinnslu, auk þess sem hann hentaði illa fyrir snjalltæki. Með því að setja nýja vefinn sem fyrst í loftið fæst vinnusparnaður fyrir starfsfólk bæjarins, fleiri geta sett inn á hann efni, nú þegar upplýsingum þarf að koma út hratt og vel, auk þess sem efnið er mun aðgengilegra á þeim nýja,“ segir á vef Grundarfjarðarbæjar.

Á nýja vefnum er jafnframt að finna ýmsar upplýsingar um þjónustu bæjarfélagsins á bæði ensku og pólsku. „Við lögðum talsvert púður og metnað í að ýmsar grunnupplýsingar væru aðgengilegar á þessum tungumálum líka,“ segir Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði, í samtali við Skessuhorn. „Þá er jafnframt ætlun okkar að nota vefinn til að leita til íbúanna. Verið er að þróa form fyrir spurningar sem hægt verður að nota til að leita álits íbúa á hinum og þessum málum og kalla eftir ábendingum,“ segir Björg.

Nýttu morguninn í að plokka rusl

sun, 29/03/2020 - 16:56

Afar mikilvægt er að fólk sem á þess kost fari út, hreyfi sig og andi að sér fersku útiloftinu. Um leið er hægt að gera eitthvað gagnlegt eins og þessi dugnaðarfjölskylda á Akranesi gerði í morgun. Tinna Ósk Grímarsdóttir fór í morgun út með börnin sín tvö og hreinsaði rusl af götum og gangstéttum í næsta nágrenni. Hér er hún ásamt þeim Díönu Rós og Grímari á Skagabrautinni, en þaðan lá leiðin á Dalbrautina. Afraksturinn var svo settur í tvo fulla sorpsekki. Nú er kjörið tækifæri fyrir fólk að fara að dæmi Tinnu og fjölskyldu og slá margar flugur í einu höggi í þágu umhverfisins og okkar sjálfra.

Grímar með hluta af ruslinu úr plokki morgunsins. Ljósm. tóg.

Þórólfur Víðir Möller

sun, 29/03/2020 - 12:34

Hún var lukkuleg landlæknirinn Alma D. Möller nýverið þegar hún setti meðfylgjandi mynd á Facebook síðu sína, með orðunum: „Við Þrjú á palli urðum mikils heiðurs aðnjótandi þegar þessi fallegi hrútur, sem fæddist í Stórholti í Saurbæ, fékk nafnið Þórólfur Víðir Möller.“

Það eru margir sem senda hlýja strauma til þríeykisins um þessar mundir, enda hefur þjóðin ekki um neitt annað að velja en leggja fullt og óskorað traust á þá einstaklinga sem standa í framlínunni og raunar alla aðra sem að máli koma.

Kvöldmolar Kvikmyndafélagsins í kvöld

sun, 29/03/2020 - 12:21

Í kvöld klukkan 20:30 býður Kvikmyndafélag Borgarfjarðar upp á spjallþátt á netinu. „Þetta verður skemmtilegur spjallþáttur fyrir alla á stór-310 svæðinu. Í þætti kvöldsins verður rætt við fólk sem stendur í ströngu þessa dagana við að hefta útbreiðslu Corona vírussins. Einnig verður boðið uppá nokkra hugljúfa tóna,“ segir Eiríkur Jónsson, einn af forystumönnum Kvikmyndafélags Borgarfjarðar.

Sjá hér:

https://www.facebook.com/events/235010707621697/

 

Mikið álag á hjálparsíma og netspjall RKÍ

sun, 29/03/2020 - 11:34

Vegna mikils álags á Hjálparsíma Rauða krossins, 1717, og netspjallið, 1717.is hefur félagsmálaráðuneytið ákveðið að styðja við þjónustuna. Stuðningurinn mun efla Hjálparsímann og netspjallið í að sinna meðal annars fjölskyldum, börnum og ungmennum, fötluðu fólki, öldruðum og fólki af erlendum uppruna á þeim fordæmalausu tímum sem nú eru uppi vegna COVID-19. „Það hefur verið gríðarleg aukning í samtölum sem okkur berast síðastliðnar vikur og við höfum fjölgað mjög þeim sem svara í símann. Sjálfboðaliðar hafa brugðist vel við og eru ómetanlegir fyrir okkar starf,“ segir Kristín S. Hjálmtýsdóttir, framkvæmdastjóri Rauða krossins á Íslandi.

Hjálparsíminn 1717 og netspjallið 1717.is er opið allan sólarhringinn þar sem þjálfaðir og reynslumiklir sjálfboðaliðar á öllum aldri sjá um að svara þeim símtölum og skilaboðum sem berast. Auk þess að styðja við og efla það starf sem þar er þegar unnið mun félagsmálaráðuneytið tengja Hjálparsímann við aðra aðila sem veita viðkvæmum hópum þjónustu og ráðgjöf, bæði stofnanir og félagasamtök. Starfsfólk Hjálparsímans mun þannig leitast við að greina aðstæður þeirra sem hafa samband, veita þeim hefðbundinn stuðning og vísa þeim á fagaðila sem gætu boðið viðkomandi frekari aðstoð eftir eðli vandans. Sérstök áhersla verður lögð á að efla netspjall Rauða krossins, en það er sú leið sem flest börn og ungmenni nýta til að hafa samband. Markmiðið er að tryggja að greiður aðgangur sé að stuðningi og aðstoð fyrir þá sem það þurfa, vegna álags, streitu, ofbeldis, vanlíðan eða annarra orsaka.

„Þegar álag og streita í samfélögum er mikil, leikur stuðningur og ráðgjöf mikilvægt hlutverk. Með þessu samstarfi viljum við að tryggja að viðkvæmir hópar í samfélaginu fái nauðsynlegan stuðning og þjónustu á þessum óvenjulegu tímum,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra.

Fimmtán smitaðir á Vesturlandi

sun, 29/03/2020 - 10:38

Nú hafa verið staðfest smit hjá 963 einstaklingum með Covid-19 á Íslandi. Tveir eru látnir úr sjúkdómnum en 114 er batnað. Nú dvelja 849 í einangrun og 9908 eru í stóttkví á landinu öllu. 19 einstaklingar eru á sjúkrahúsiog þar af 6 á gjörgæsludeild.

Hér á Vesturlandi er tala smitaðra komin í 15 og eru nú 309 einstaklingar í sóttkví í landhlutanum.

Meiri notkun ritstýrðra fréttamiðla en á undanförnum árum

lau, 28/03/2020 - 13:20

Umtalsvert fleiri heimsóttu í þessari viku netfréttamiðla hér á landi en að jafnaði á síðustu mánuðum og árum. Þar er vefur Skessuhorns engin undantekning, en hann er nú í fimmta sæti yfir mest lesnu miðla sem Modernus mælir reglulega. Notendur í síðustu viku voru 12.912 talsins og er það um 30% aukning frá meðaltali síðustu vikna. Leita þarf nokkur ár aftur í tímann til að finna jafn mikla notkun á vef Skessuhorns og það sama á við um aðra íslenska fréttamiðla, ef marka má vefmælingar sem eru í gangi. Fólk leitar nú í auknum mæli eftir áreiðanlegum upplýsingum frá ritstýrðum fréttamiðlum sem það treystir, eins og Bogi Ágústsson benti á í þættinum með Gísla Marteini sem sýndur var á RUV í gærkvöldi.

Til að koma fréttum, ábendingum, myndum eða tilkynningum á framfæri á vefnum skessuhorn.is þá sendið tölvupóst á: skessuhorn@skessuhorn.is Ef mikið liggur við utan hefðbundins skrifstofutíma, þá er hægt að hringa í síma 894-8998.

Magnús SH og Saxhamar SH taka þátt í netarallinu

lau, 28/03/2020 - 12:16

Fyrsti bátur lagði af stað í netarall Hafrannsóknastofnunar síðastliðinn miðvikudag. Í framhaldinu fara svo aðrir bátar á rallið. Netarallið stendur fram í síðari hluta aprílmánaðar og taka fimm bátar þátt í því; Magnús SH í Breiðafirði, Saxhamar SH í Faxaflóa, Friðrik Sigurðsson ÁR frá Reykjanesi að Skeiðarárdjúpi, Sigurður Ólafsson SF frá Meðallandsbugt að Hvítingum og Geir ÞH fyrir Norðurlandi.

Um 45-60 trossur eru lagðar á hverju svæði og er þeim dreift innan svæða á helstu hrygningarslóðir þorsks. Á hverju svæði er helmingur lagður í fyrirfram ákveðna punkta, svokallaðar fastar stöðvar, en hinn helmingurinn er lausar stöðvar sem skipstjórar ákveða hvar skulu lagðar.

„Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um lengdar- og þyngdasamsetningu, kynþroska og vöxt eftir aldri á helstu hrygningarsvæðum þorsks. Einnig til að meta árlegt magn kynþroska þorsks sem fæst í þorskanet á hrygningarstöðvum og meta breytingar í gengd hrygningarþorsks á mismunandi svæðum,“ segir í tilkynningu frá Hafró.

Héldu tónleika í garðinum við Brákarhlíð

lau, 28/03/2020 - 12:07

Um klukkan 14 í gær, föstudag, kíktu félagar í Hljómlistarfélagi Borgarfjarðar í heimsókn í Brákarhlíð í Borgarnesi. Héldu þeir tónleika þar fyrir íbúa og starfsfólk á heimilinu. Í ljósi aðstæðna vegna kórónuveirunnar voru tónleikarnir haldnir í portinu fyrir utan húsið, nánar tiltekið í garðinum. Þar gátu íbúar fylgst með og hlustað á ljúfa tóna með því að standa út á svölum eða vera við glugga. Var ekki annað að sjá en að íbúar og starfsfólk á Brákarhlíð væru í skýjunum að tónleikum loknum.

Allir eiga að hlýða Víði – líka íþróttafólk

lau, 28/03/2020 - 11:22

„Við höfum fengið vísbendingar um að íþróttafólk félaga sé að stunda íþróttaæfingar úti í litlum hópum þrátt fyrir strangt samkomubann. Það er ekki til fyrirmyndar. Ég hreinlega undrast að fólk haldi að bannið eigi við um aðra, en ekki það sjálft. Við leggjum áherslu við stjórnendur í íþróttahreyfingunni að allt íþróttastarf eigi að fella niður, bæði barna og fullorðinna, boltaíþróttir, hestaíþróttir, dans og aðrar greinar,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ í tilkynningu.

Sýna Nýtt líf í bílabíói við Faxaborg á mánudagskvöldið

fös, 27/03/2020 - 20:12

Í undirbúningi er uppsetning á bílabíói í Borgarnesi. Verður það mánudaginn 30. mars klukkan 20:00 á plani við reiðhöllina Faxaborg, rétt ofan við Borgarnes. Sýningin verður gjaldfrjáls fyrir bíógesti svo allir geti notið en hægt verður að styðja við starf Rauðakrossins með frjálsum framlögum. Kt. 620780-3679 og bankareikn: 0326 – 26 – 003679. Sigthora Odins, ásamt meðlimum í Kvikmyndafjélagi Borgarfjarðar, þeim Eiríki Jónssyni, Daða Georgssyni og Orra Sveini Jónssyni, eru skipuleggjendur verkefnisins. Þau segjast gera þetta til að lyfta upp stemningunni á þessum sérstöku tímum. Verkefnið er styrkt af Borgarbyggð og unnið í samvinnu við Hestamannafélagið Borgfirðing og stjórn reiðhallarinnar, Exton tækjaleigu og Þráin Bertelsson. Fá allir þessir aðilar sérstakar þakkir fyrir þeirra framlag til verkefnisins, segir Sigthora.

„Við ákváðum að fara í þetta verkefni til að skapa eitthvað spennandi og skemmtilegt fyrir fólk á svæðinu til að stefna að, þar sem öll umræða snýst meira og minna um Covit-19 veiruna, aðstæður og afleiðingar. Heimilislíf hefur raskast hjá flestum, íþróttastarf hefur lagst niður svo það er lítið um að vera fyrir yngri kynslóðina nema skóli eða fjarnám. Þetta er okkar tilraun til að hlúa að náunganum og skapa viðburð sem áhugasamir geta hlakkað til að upplifa. Það geta allir tekið þátt í þessu samfélagslega verkefni með að styðja Rauðakrossinn ef fólk er aflögufært. Þannig verður þessi viðburður bolti sem heldur áfram að rúlla og það verður gaman að sjá hvaða spennandi verkefni koma til með að að spretta upp í framhaldinu,“ segir Sigthora.

Á dagskrá er kvikmyndin Nýtt Líf sem er létt íslensk gamanmynd fyrir alla fjölskylduna. Bíóið verður opið öllum á meðan pláss leyfir á bílaplaninu. „Fólk er beðið um að virða náungann og halda sig í sínum bílum á meðan á viðburði stendur og fara eftir þeim reglum og viðmiðum sem almennt eru settar af hálfu Heilbrigðisráðuneytis og Almannavarna.“

 

Nemendur hafa verið duglegir að mæta í tíma á netinu

fös, 27/03/2020 - 16:50

Í Menntaskóla Borgarfjarðar var hratt brugðist við lokun framhaldsskóla og strax á mánudaginn í síðustu viku, fyrsta kennsludag eftir lokun, voru allir nemendur komnir í fjarnám og sinntu námi samkvæmt stundaskrá. Að sögn Braga Þórs Svavarssonar skólameistara gengur námið mjög vel. Öll kennsla fer fram í gegnum fjarskiptaforrit og mæta nemendur í tíma í gegnum forritið Teams eða kennsluvef og merkja kennarar við mætingu og fylgjast með þátttöku nemenda. „Við höfum alveg haldið stundaskrá og kennsluáætlun en við vitum að áætlanir gætu eitthvað breyst meðan þetta ástand varir,“ segir Bragi í samtali við Skessuhorn. „Það vinnur samt með okkur að við erum skóli sem byggir á leiðsagnarmati og erum alltaf með verkefni og styttri próf allar vikur ársins. Við erum því ekkert að bíða með lokapróf fram á vor og getum haldið nokkuð óbreyttum hraða,“ bætir hann við.

Voru búin að undirbúa

Skólinn var að sögn Braga vel búinn til að takast á við þetta ástand, þar eru kennarar tæknivæddir og hugmyndaríkir og tilbúnir að gera hlutina á annan hátt. Nemendur eru einnig vanir tækni og móttækilegir fyrir nýjum aðferðum. „Við vorum líka búin að eyða talsverðum tíma vikuna áður í undirbúning. Við gerðum okkur grein fyrir að þetta gæti farið svona og vorum því búin að ákveða hvernig við myndum bregðast við. Strax á föstudeginum gátum við því haldið fund með kennurum og nemendum og kynnt nýtt fyrirkomulag fyrir þeim. Svo hófst kennsla bara glettilega eftir bókinni strax á mánudeginum,“ segir Bragi og bætir við að nemendur hafi verið mjög duglegir að mæta í tíma í gegnum netið.

Meta stöðuna daglega

Aðspurður segir Bragi stjórnendur skólans einnig hafa brugðist við með að skipta sér upp á vaktir. Hittir hann sjálfur til að mynda aldrei aðstoðarskólameistarann og virða allir starfsmenn nálægðarmörk. Þetta er gert til að reyna að hindra að allir veikist á sama tíma komi upp smit í hópnum. „Kennarar hafa frelsi til að meta hvort þeir vinni heima eða komi í skólann en þá er hver kennari með sína stofu til að vinna í. Við sjáum fram á að kennarar fari meira að vinna heima og við erum farin að hugsa um hvernig við munum bregðast við auknum veikindum og meiri lokunum,“ segir Bragi. „Í ljósi aðstæðna var sett á fót teymi sem í eru umsjónarkennarar, skólameistari, áfangastjóri og námsráðgjafi. Teymið fundar fyrst um sinn einu sinni í viku með það að markmiði að kortleggja stöðu nemenda. Á þeim fundum er farið yfir mætingu og verkefnaskil nemenda og verkum skipt upp hvað eftirfylgni varðar,“ segir hann og bætir við að daglega eru einnig haldnir stöðufundir í skólanum. „Þá hittast þeir sem geta í stórum sal í skólanum og gæta þess að hafa allavega tvo metra á milli fólks. Aðrir koma á fundinn í gegnum fjarfundarbúnað. Á fundunum förum við yfir hvernig gengur og hvað bíði okkar,“ segir Bragi og bætir því við að hann er bjartsýnn fyrir framhaldinu í skólanum.

Ný sektarákvæði vegna brota á sóttvarnalögum

fös, 27/03/2020 - 15:57

Ríkissaksóknari hefur gefið út ný fyrirmæli vegna brota á sóttvarnarlögum og reglum settum samkvæmt þeim vegna Covid-19 faraldursins. Í þeim er meðal annars að finna sektarákvæði.

Við broti gegn skyldu til að vera eða fara í sóttkví er liggur sekt á bilinu 50 til 250 þús. krónur, og sama sektarupphæð liggur við broti gegn skyldum þeirra sem eru í sóttkví.

Sekt við broti gegn reglum um einangrun getur hlaupið á 150 til 500 þúsund krónum.

Hvað varðar brot á reglum um fjöldasamkomu, þar sem fleiri en 20 koma saman, getur einstaklingur sem sækir samkomuna átt yfir höfði sér 50 þúsund króna sekt. Sekt forsvarsmanns eða skipuleggjanda viðkomandi samkomu getur verið á bilinu 250 til 500 þúsund krónur. Þá liggur á bilinu 100 til 150 þúsund króna sekt við broti á reglum um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu.

Allar sektarupphæðir ákvarðast af alvarleika brota, innan ofangreindra sektarramma.

Síður