Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 16 mín 31 sek síðan

Brotist inn í bústað í Þrætuási

1 klukkutími 39 mín síðan

Tilkynnt var um innbrot í sumarbústað í Þrætuási í Borgarbyggð á föstudagskvöld. Farið var inn í húsið og þaðan stolið heimabíókerfi og áfengi, að sögn lögreglu. Ekki er vitað hvernig þjófarnir komust inn í bústaðinn, því engin merki eru um að þeir hafi brotið upp hurð eða glugga. För sáust á vettvangi og ummerki í snjónum um að einhver hafi lagt bíl við hlið skammt frá og gengið að bústaðnum. Málið er til skoðunar hjá Lögreglunni á Vesturlandi, sem hvetur fólk til að vera á varðbergi og hafa samband við lögreglu ef það verður vart við grunsamlegar mannaferðir.

Lýsa reiði og vonbrigðum með útspil ríkisstjórnarinnar

2 klukkutímar 9 mín síðan

„Stéttarfélögin fjögur sem leitt hafa yfirstandandi kjaraviðræður, VR, Efling, VLFA og VLFG, lýsa reiði og sárum vonbrigðum með þær tillögur sem ríkisstjórnin lagði fram á fundi með forseta og varaforsetum ASÍ í dag, 19. febrúar,“ segir í tilkynningu frá félögunum. „Viðræður hafa staðið tæpt eftir að SA lögðu fram tilboð í síðustu viku sem leitt hefði til kaupmáttarrýrnunar fyrir stóra hópa launafólk. SA höfnuðu í kjölfarið sanngjörnu gagntilboði samflotsfélaganna.“ Þá segir að vonir hafi staðið til að aðkoma stjórnvalda gæti hleypt glæðum í viðræður. „Ljóst er að tillögur stjórnvalda gera þær vonir að engu. Fundað verður í baklandi stéttarfélaganna á næstu sólarhringum og á fimmtudag funda formenn félaganna með SA hjá Ríkissáttasemjara. Samflotsfélögin standa sameinuð og staðföst í kröfunni um að launafólk geti lifað af launum sínum og að stjórnvöld geri löngu tímabærar kerfisbreytingar í réttlætisátt.“ undir yfirlýsinguna rita formenn fyrrgreindra félaga.

Tap gegn Fjölni

4 klukkutímar 35 mín síðan

Snæfellingar máttu játa sig sigraða gegn Fjölni á útivelli, 89-65, þegar liðin mættust í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi. Heimamenn stjórnuðu leiknum frá því snemma í fyrsta leikhluta og unnu að lokum öruggan 24 stiga sigur.

Snæfellingar skoruðu fyrstu stigin en voru ekki lengi í forystu. Heimamenn héldu Hólmurum stigalausum næstu sex mínúturnar og komust á meðan í 13-3. Snæfellingar fundu sig engan veginn í upphafsfjórðungnum og skoruðu aðeins sjö stig allan leikhlutann gegn 20 stigum Fjölnis. Snæfellingar léku betur í öðrum leikhluta en það gerðu heimamenn einnig. Fjölnir leiddi með 17 stigum í hálfleik, 47-30.

Fjölnisliðið mætti ákveðið til leiks í síðari hálfleik en Snæfellingar áttu erfitt uppdráttar. Hólmarar skoruðu ellefu stig gegn 21 í þriðja leikhluta og staðan orðin 68-41 fyrir lokafjórðunginn. Snæfellingar löguðu stöðuna lítið eitt í lokafjórðungnum en máttu að lokum sætta sig við 24 stiga tap, 89-65.

Ísak Örn Baldursson skoraði ellefu stig og tók sex fráköst í liði Snæfells. Darrel Flake var með ellefu stig og fimm fráköst og Sæþór Sumarliðason skoraði tíu stig.

Róbert Sigurðsson var atkvæðamestur í liði Fjölnis með 20 stig og fimm fráköst, Rafn Kristján Kristjánsson var með 15 stig og sjö fráköst, Egill Arnar Októsson skoraði tólf stig og tók fimm fráköst og Andrés Kristleifsson skoraði ellefu stig.

Snæfell hefur tvö stig á botni deildarinnar eftir 17 leiki, jafn mörg og Sindri í sætinu fyrir ofan en Hólmarar eiga leik til góða. Næst leika þeir gegn Hamri föstudaginn 22. febrúar næstkomandi. Sá leikur fer fram í Stykkishólmi.

Öldungaráð stofnað á Akranesi

7 klukkutímar 34 mín síðan

Velferðar- og mannréttindaráð Akraneskaupstaðar samþykkti á síðasta fundi að óska eftir tilnefningum í öldungaráð bæjarins. Er óskað eftir tilnefningu þriggja fulltrúa frá Félagi eldri borgara á Akranesi og nágrenni og einum fulltrúa frá heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands. Bæjarstjórn mun tilnefna þrjá fulltrúa í öldungaráðið. „Velferðar- og mannréttindaráð leggur áherslu á að við skipun í ráðið verði gætt að kynjahlutföllum og aldursdreifingu eins og segir í samþykkt fyrir öldungaráð,“ segir í fundargerð. Stofnun öldungaráðs er til komin vegna breytinga á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga sem tóku gildi 1. október síðastliðinn. Þar segir m.a. til um að öldungaráð taki við því hlutverki sem þjónustuhópum aldraðra hefur hingað til verið falið að sinna. Gert er ráð fyrir öldungaráði í hverju sveitarfélagi. Er þeim fyrst og fremst ætlað að vera formlegur samráðsvettvangur við notendur um öldrunarþjónustu. Skipa skal ráðið að loknum sveitarstjórnarkosningum. Í því eiga að sitja að lágmarki þrír fulltrúar kosnir af sveitarstjórn, þrír tilnefndir af félagi eldri borgara og einn fulltrúi heilsugæslunnar. Sveitarstjórnir hafa í hendi sér hve margir sitja í ráðinu hverju sinni umfram lögbundið lágmark.

Flutningabíll fulllestaður lambahornum valt í Gufufirði

8 klukkutímar 36 mín síðan

Flutningabíll valt á föstudag í Gufufirði, innst á Hofsstaðahlíð. Óhappið varð þegar flutningabíllinn var að mæta minni bíl. Vegurinn er mjór þar sem óhappið varð, en smávegis snjórastir í köntunum gerðu það að verkum að vegurinn virtist breiðari en hann raunverulega er. Á Reykhólavefnum er greint frá því að á þessum kafla sé vegurinn innan við sex metra breiður. Flutningabíllinn var með fullfermi af lambahornum, sem verið var að fara með til vinnslu á Tálknafirði í gæludýrafóður. Upphaflega stóð til að reyna að ná bílnum upp á veginn með farminum, en það reyndist ekki hægt. „Því verður að tæma vagninn á staðnum, en gæta þarf ítrustu varúðar vegna smithættu. Hornin flokkast sem sláturafurðir og eru hvaðanæva af landinu, en hér er hreint svæði og laust við búfársjúkdóma, eins og riðu,“ segir á Reykhólavefnum. Þar segir enn fremur að þetta sé annar flutningabíllinn sem veltur á þessum vegarkafla frá áramótum, milli slitlagsenda sunnan við Skálanes og að Gufudal. „Á síðasta ári fóru ellefu bílar út af á þessum kafla, sem betur fer slasaðist enginn alvarlega í þessum óhöppum en eignatjón var mikið.“

Strangir á aldurstakmarki á dansleiki

9 klukkutímar 36 mín síðan

Á fundi sveitarstjórnar Dalabyggðar síðastliðinn fimmtudag var samþykkt samhljóða tillaga félagsmálanefndar sem snýr að hækkun aldurstakmarks á dansleiki úr 16 í 18 ár. Þar segir: „Félagsmálanefnd leggur til við sveitarstjórn að aldurstakmark á dansleiki og skemmtanir í húsnæði í eigu Dalabyggðar, þar sem áfengi er haft um hönd, verði 18 ár. Sama gildi hvort sem eignarhald húsnæðis er að fullu á hendi Dalabyggðar eða sameiginlegt með öðrum aðilum.“

Vatnaskil í jafnvægi framleiðslu og sölu lambakjöts

11 klukkutímar 36 mín síðan

Sterkar vísbendingar eru nú um að framleiðsla og sala lambakjöts hér á landi nálgist jafnvægi. Samkvæmt bráðabirgðatölum búnaðarstofu Matvælastofnunar hefur sauðfé á landinu fækkað um 28 þúsund, eða um 10% á síðustu tveimur árum, þar af um 6% árið 2018. Á sama tíma eru batnandi horfur í útflutningi á kjöti sem að stórum hluta má rekja til veikingar krónunnar. Í ljósi sölu lambakjöts hafa að minnsta kosti fjögur afurðasölufyrirtæki á síðustu vikum greitt bændum uppbót á innlegg síðasta hausts, allt upp í 12%, og bætir það mjög þrönga stöðu bænda. Þá hefur einn sláturleyfishafi, Sláturfélag Suðurlands gefið það út að í ljósi breyttra aðstæðna á markaði og fækkunar sauðfjársláturhúsa hefur fyrirtækið ákveðið að lengja sláturtíð haustið 2019 um þrjá sláturdaga og býður auk þess nýjum innleggjendum á félagssvæði SS að sækja um innleggsviðskipti með sama rétti og þeir sem fyrir eru. Vísað er til þess að sauðfjárslátrun Norðlenska á Höfn í Hornafirði verður hætt í sumar.

Í tilkynningu SS má segja að kveði við nýjan tón, en á síðustu tveimur árum hafa bændur átt erfitt með að færa sig milli afurðastöðva og þær flestar neitað óskum um nýja viðskiptavini. Rætt er við Steinþór Skúlason forstjóra SS í síðasta Bændablaði. Þar segir hann að ýmsar ástæður liggi að baki því að félagið óski nú eftir fleiri innleggjendum. Telur hann að ákveðin vatnaskil séu að verða í sauðfjárframleiðslunni þar sem birgðastaða sé í jafnvægi og útflutningsmarkaðir, meðal annars í Þýskalandi og Noregi, lofi góðu.

Loks má geta þess að þeir sex bændur á landinu sem hafa vottun til framleiðslu og sölu lífrænt ræktaðs lambakjöts geta nú í fyrsta skipti búist við að fá laun þeirrar fyrirhafnar. Horfur eru á að lífrænt vottað lambakjöt frá þeim verði í næstu sláturtíð selt til Þýskalands með 15-20% yfirverði miðað við annað kjöt á þeim markaði.

Borgarbyggð og Dalabyggð fá úthlutað til ljósleiðaravæðingar

mánud., 18/02/2019 - 17:32

Sveitarfélög sem tóku þátt í forvali Fjarskiptasjóðs vegna átaksverkefnisins Ísland ljóstengt hafa fengið tilboð um samtals 450 milljón króna styrki vegna ársins 2019, ásamt vilyrði um frekari styrki vegna áranna 2020 og 2021 eftir atvikum, með fyrirvara um fjárlög. Fjórtán sveitarfélög eiga nú jafnframt kost á sérstökum byggðastyrk, samtals 150 milljónum króna. Hér á Vesturlandi fá Borgarbyggð og Dalabyggð styrki á þessu ári og eru auk þess bæði í þeim hópi sem fá úthlutað byggðastyrk; Borgarbyggð 20 milljónir króna og Dalabyggð 12 milljónir.

Sveitarfélögin sem talin voru styrkhæf nú eiga kost á 80% af þeirri upphæð sem þau hafa tilgreint sem æskilega framlag Fjarskiptasjóðs fyrir tiltekna verkáfanga að frádregnu öðru framlagi, þó aldrei meira en svo að styrkir frá ríkinu greiði fyrir meira en 60% af raunkostnaði, að frádregnum 500.000 kr. án vsk. fyrir hvern styrkhæfan stað. Viðkomandi sveitarfélög fá send tilboðsgögn frá sjóðnum í dag. Líkt og áður fá sveitarfélög tíma til að ákveða hvort þau vilji ganga að tilboði sjóðsins um styrk. Endanlegar styrkupphæðir liggja því ekki fyrir að svo komnu, þ.e. úthlutun þessara 450 milljóna króna. Lokafrestur til að þiggja tilboð sjóðsins er til hádegis föstudaginn 8. mars nk.

Kúabændur kolfelldu afnám kvóta í mjólkurframleiðslu

mánud., 18/02/2019 - 15:09

Niðurstaða er fengin í atkvæðagreiðslu mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu. Atkvæðagreiðslan var rafræn og stóð yfir í eina viku, en lauk á hádegi í dag og er niðurstaðan kynnt á vef Bændasamtakanna. Hver mjólkurframleiðandi hafði eitt atkvæði án tillits til fjölda aðstandenda að búinu, aðildar að Bændasamtökum Íslands eða Landssambandi kúabænda. Á kjörskrá voru 558 innleggjendur og alls greiddu 493 atkvæði eða 88,35%. Atkvæði féllu þannig að 10,14 sögu já við spurningunni: „Já, ég vil afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. 441 eða 89,41% kusu hins vegar með valmöguleikanum: „Nei, ég vil ekki afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu.“ Tveir tóku ekki afstöðu.

„Niðurstaðan er stefnumarkandi fyrir fulltrúa bænda við endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar sem fram fer síðar á þessu ári. Nú verða áherslur mótaðar í ljósi þessarar niðurstöðu og stefnumörkunar um aðra þætti samningsins sem koma þurfa til endurskoðunar,“ segir í frétt BÍ.

Venus með fyrsta kolmunnafarminn

mánud., 18/02/2019 - 13:47

Venus NS er nú við það að koma til hafnar á Vopnafirði með fyrsta kolmunnafarm ársins. Kolmunninn fékkst vestur af Írlandi en þaðan er um 800 sjómílna sigling til Vopnafjarðar. ,Það er veiði eins og er. Aðalveiðin er yfir nóttina en á daginn dreifir kolmunninn sér og veiðin er lítil. Það er misjafnt hve lengi er dregið hverju sinni en það ræðst af aflabrögðum og veðri. Tíðarfarið hefur verið rysjótt og síðastliðinn sólarhring var veðrið slæmt. Það er gott veður núna en engin veit hvað það endist lengi,“ sagði Guðlaugur Jónsson skipstjóri er rætt var við hann fyrir helgi á fréttavef HB Granda, en hann áætlar að aflinn um borð sé 2.600 til 2.700 tonn eftir rúma fjóra sólarhringa á veiðum. Að sögn Guðlaugs er mikill fjöldi skipa á kolmunnaveiðunum.

Frábær sýning fyrir alla aldurshópa

mánud., 18/02/2019 - 13:00

Þessa dagana standa yfir sýningar á leiksýningunni Leitinni í Bíóhöllinni á Akranesi. Sýningin er sett upp af unglingastigi Brekkubæjarskóla og koma allir nemendur sem það vildu auk kennara að henni. Verkið var frumsýnt síðastliðinn föstudag, 15. febrúar. Skessuhorn skellti sér á Leitina á laugardag og mælir hiklaust með sýningunni.

Sögusvið verksins er Akraneskaupstaður við upphaf Írskra daga. Sagan segir frá börnum á leikskóla sem leiðist alveg óskaplega og eru ekki par hrifnir af leikskólakennaranum sínum, hinni þýskættuðu Geirtrúd, sem stjórnar með heraga og rífur kjaft. Þau ræða heimsmálin í sandkassanum og ákveða síðan að strjúka og heimsækja ömmur sínar og afa, sem þau fá aldrei að heimsækja vegna anna hjá foreldrum sem eru of uppteknir við lífsgæðakapphlaupið. Á leiðinni lenda krakkarnir í alls konar ævintýrum, hitta meðal annars unglinga, löggur, túrista í leit að Akranesvita og hinum fræga Hilmari vitaverði sem þar ræður ríkjum. Einnig rekast krakkarnir á leðurklædd mótorhjólagengi og gellur á leiðinni á Írska daga. Inn á milli eru senur af eldri borgurunum á Höfða sem heyra ekki hálfa heyrn en tala um gamla tíma og löngun sína til að skella sér á Lopapeysuballið.

Leikritið er fullt af húmor og gleði en líka spennu og gaman er að sjá krakkana halda sér í karakter allan tímann. Eiga margir hverjir framtíðina fyrir sér á leiksviðinu ef þeir halda áfram þar. Boðskapur sögunnar er ádeila á lífsgæðakapphlaupið, að fólk þurfi að staldra við og huga að mikilvægi samverunnar. Verkið er mjög lifandi og tónlist, dans og söngur skipa stóran sess í sýningunni. Hvergi er slegin feilnóta þar og má sjá mikla hæfileika á sviðinu. Sýningin er fagmannlega unnin, ljósin eru skemmtileg og sviðshönnun full af litum og tæknibrellum. Tónlist og dans skipar stóran sess af sýningunni og hvergi er slegin feilnóta þar. Leitin er frábær sýning fyrir alla aldurshópa.

Óska eftir vitnum að umferðaróhappi

mánud., 18/02/2019 - 10:47

Lögreglan á Vesturlandi óskar eftir vitnum að umferðaróhappi sem varð á gatnamótum Akranesvegar og Akrafjallsvegar um kl. 15:25 sl. föstudag, 15. febrúar. Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu Lögreglunnar á Vesturlandi. Þar eru vitni að óhappinu beðin um að hafa samband við lögreglu í síma 444-0300 eða í gegnum einkaskilaboð á Facebook.

Mikið fjör á Skíðasvæði Snæfellsness

mánud., 18/02/2019 - 10:01

Skíðasvæði Snæfellsness hefur náð að hafa opið í þónokkra daga í röð að undanförnu. Veður hefur verið með ágætum og aðstæður til skíðaiðkunar hinar bestu. Fréttaritari Skessuhorns brá sér í fjallið á föstudag og laugardag um liðna helgi og á laugardaginn voru frábærar aðstæður. Veðrið var ákjósanlegt og gott færi til skíðaiðkunar, enda var ásóknin í fjallið með besta móti. Fjöldi gesta hafði ekki verið svona mikill í mörg ár. Lokað var í fjallinu í gær vegna veðurs en vonandi verður framhald á aðstæðum til skíðaiðkunar í Grundarfirði.

Vetrarfærð á vegum

mánud., 18/02/2019 - 09:56

Snjóþekja, hálka eða hálkublettir eru víðast hvar á vegum á Vesturlandi og skafrenningur nokkuð víða.

Skrifaði starfsfólki Umhverfisstofnunar opið bréf vegna loftmengunar

mánud., 18/02/2019 - 08:49

Ragnheiður Þorgrímsdóttir bóndi á Kúludalsá við Hvalfjörð sendi í gær opið bréf til forstjóra og starfsfólks Umhverfisstofnunar vegna útsleppis mengandi efna frá Grundartanga. „Þegar ég kom út á hlaðið á Kúludalsá í morgun, sunnudaginn 17. febrúar 2019, fann ég í lofti svo mikinn fnyk að ekki var hægt að anda með eðlilegum hætti. Ég forðaði mér þangað sem förinni var heitið þ.e. í hesthúsið. Klukkutíma síðar þegar ég hafði lokið við að sinna hestunum var fnykurinn mun minni, en hann var samt til staðar. Nokkur hross eru á útigangi og fá þennan viðbjóð beint í lungun og út í blóðið. Sjá má af loftgæðamæli við Gröf að mikið útsleppi mengandi efna hefur átt sér stað í nótt og undir morgun,“ skrifar Ragnheiður.

Þá segir hún það algjörlega óviðunandi að útsleppi sem þetta skuli eiga sér stað. „Það er einfaldlega verið að spara fé á þann ömurlega hátt að tæma hreinsibúnað út í andrúmsloftið. Útsleppin eru endurtekin af fullkomnu kæruleysi og óvirðingu við menn og dýr, þrátt fyrir ótal beiðnir um að þessu verði hætt. Öll iðjuverin á Grundartanga koma til greina sem sökudólgar.

Það eru mannréttindi að fá að anda að sér hreinu lofti. Stundum mengast loft af óviðráðanlegum ástæðum, en í þessu tilfelli og fjölmörgum öðrum hvað Grundartanga snertir, er mengunin af manna völdum og nú verður að stöðva þennan gjörning.

Það bætir ekkert þó eftirlitsaðilann bendi á að útsleppið sé innan leyfilegs ársmeðaltals. Sú aðferð við að meta mengun er fáránleg. Umhverfisstofnun hefur lagt blessun yfir þessa aðferð í starfsleyfum fyrir iðjuverin og talar um hana eins og hún sé sé meitluð í stein. Meðaltöl segja ekkert um raunverulegar aðstæður eins og það sem gerðist í nótt og í morgun. Mengunartopparnir eru hættulegir hérna við Hvalfjörð, rétt eins og annarsstaðar þar sem eiturefni eru notuð.“

Að lokum beinir Ragnheiður orðum sínum til Kristínar Lindu Árnadóttur forstjóra og samstarfsfólks Umhverfisstofnunar. „Þið eruð á launum hjá þjóðinni til að verja okkur fyrir mengun. Ástandið er löngu orðið nógu slæmt til að þið takið til hendinni og það er ykkar verk! Þið fáið greitt fyrir slíka vinnu á hverjum einasta degi,“ skrifar Ragnheiður Þorgrímsdóttir.

Umhverfisvaktin vill bæta mengunarmælingar við stóriðjuna

mánud., 18/02/2019 - 08:01

„Umhverfisvaktin við Hvalfjörð skorar á Umhverfisstofnun sem starfsleyfisgjafa og eftirlitsstofnun og Faxaflóahafnir sem eiganda Grundartanga, að halda skaðsemi vegna stóriðju á Grundartanga í algjöru lágmarki með auknu eftirliti og grunnrannsóknum á áhrifum eiturefna á umhverfið. Loftgæðamælingar vegna flúors og brennisteins eru í skötulíki og útsleppi í stórum stíl frá Elkem Ísland er leikur að heilsu manna og dýra. Þar sem mengunartopparnir valda mestum skaða er engin afsökun að útsleppið kunni að rúmast innan leyfilegs ársútsleppis,“ segir í ályktun sem Umhverfisvaktin við Hvalfjörð samþykkti á aðalfundi sínum 9. febrúar síðastliðinn.

„Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að taka nú þegar upp mælingar á mengandi efnum sem stafa frá stóriðjunni á Grundartanga og geta skilað sér inn í matvæli frá landbúnaði á svæðinu. Ágiskanir eru ekki boðlegar og áreiðanlegar niðurstöður verða ekki til nema með endurteknum vísindalegum mælingum. Umhverfisvaktin minnir á mengunarslys hjá Norðuráli sumarið 2006 en það haust mældist flúor í kjálkum lamba margfalt meiri en haustið 2005. Afurðir lambanna fóru á markað án nokkurra eiturefnamælinga. Iðjuverin sem sjá sjálf um umhverfisvöktunina birtu niðurstöður flúormælinganna í apríl næsta ár. Þannig er staðan enn. Sé minnsti grunur um óæskileg efni í mætvælum eiga bændur og neytendur rétt á upplýsingum tafarlaust.“

Þá skorar fundur Umhverfisvaktarinnar á Umhverfisstofnun að birta allar niðurstöður umhverfisvöktunar vegna iðjuveranna á Grundartanga rafrænt jafnóðum og þær verða til á vef Umhverfisstofnunar, sveitarfélaganna við Hvalfjörð, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar. Kynningarfundir sem fari fram einu sinni á ári, til að kynna gamlar niðurstöður umhverfisvöktunar, séu úreltir og ómarkvissir. „Fundurinn bendir á þá óhugnanlegu staðreynd að ár eftir ár er verið er að vakta mæliþætti sem engin viðmiðunargildi eru til um í íslenskum reglugerðum og starfsleyfum. Þetta á t.d. við um flúor í kjálkum sauðfjár. Fundurinn fer eindregið fram á að Umhverfisstofnun komi fyrir loftgæðamælistöð vegna flúors og brennisteins norð-vestan við iðjuverin á Grundartanga, utan þynningarsvæða, vegna Berjadalsár sem er vatnsból Akraneskaupstaðar. Loftgæðamælistöð sunnan Hvalfjarðar verði einnig ávallt í notkun, en það er hún ekki nú,“ segir að endingu í ályktun stjórnar Umhverfisvaktarinnar við Hvafljörð.

Móta heildarstefnu í almenningssamgöngum

mánud., 18/02/2019 - 06:01

Grunnur að fyrstu heildarstefnu ríkisins um almenningssamgöngur fyrir allt landið hefur verið mótuð og er nú til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda til 7. mars nk. Starfshópur sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra skipaði leggur til að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild og að boðið verði upp á eitt leiðarkerfi fyrir allt landið. Markmiðið er auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða á Íslandi og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um allt land.

Í nýju stefnumótuninni er miðað við að þróa eitt samtengt leiðarkerfi á landi, láði og legi. Skilgreindar eru fimm stærri skiptistöðvar á landinu þar sem huga þarf að því að skipuleggja samgöngumiðstöðvar. Þær eru á höfuðborgarsvæðinu, Borgarnesi, Akureyri, Egilsstöðum og Selfossi. Sjö minni skiptistöðvar yrðu einnig í kerfinu fyrir afmarkaðri svæði. Stefnt er að því að öllum upplýsingum um áfangastaði og tímasetningar í leiðarkerfi almenningssamgangna verði á einni sameiginlegri upplýsingagátt. Á þeim vef verði hægt að fá ferðatillögur í rauntíma, sem tengir saman mismunandi leiðir og ferðamáta og bjóði upp á kaup á farmiðum alla leið.

Í skýrslunni er fjallað um sett verði samræmd viðmið um þjónustustig almenningssamgangna um land allt. Fjárveitingar taki mið af þjónustustigi hverrar leiðar til að tryggja gagnsæi og treysta rekstrargrundvöll. Þá er lagt til að fargjöld í almenningssamgöngum verði lækkuð og þjónustan gerð aðgengilegri almenningi. Í nýrri samþykktri samgönguáætlun er gert ráð fyrir að fargjöld í innanlandsflugi verði lækkuð í þessu skyni. Loks telur starfshópurinn mikilvægt að fjárfest verði í innviðum almenningssamgangna, hvort tveggja með uppbyggingu samgöngumiðstöðva á stórum skiptistöðvum og hefðbundnum biðskýlum víða um land.

Þungfært á Laxárdalsheiði

sun, 17/02/2019 - 16:22

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Vesturlandi og víða skafrenningur. Þungfært er á Laxárdalsheiði.

Leitin frumsýnd í Bíóhöllinni

fös, 15/02/2019 - 15:26

Nemendur unglingadeildar Brekkubæjarskóla á Akranesi hafa undanfarnar vikur staðið í ströngu við æfingar á leiksýningunni Leitinni. Nú er stóra stundin í þann mund að renna upp, því Leitin verður frumsýnd í Bíóhöllinni á Akranesi í kvöld, föstudaginn 15. febrúar, kl. 20:00.

Leitin er eftir Samúel Þorsteinsson og Heiðrúnu Hámundardóttur. Leikritið er fullt af tónlist, dansi og gleði og hentar allri fjölskyldunni, ekki síst börnum. „Leikritið er um unga krakka sem strjúka og lenda í ýmsum ævintýrum,“ sagði Heiðrún í samtali við Skessuhorn í byrjun febrúar, en vildi ekki gefa meira upp um söguþráðinn. „Ég vil ekki segja of mikið en hvet fólk eindregið til þess að koma á sýningu.“

Um 70 nemendur taka á einhvern hátt þátt í sýningunni að þessu sinni. „Við leggjum alltaf mikla áherslu á að allir sem vilja fái tækifæri til þess að taka þátt. Við leggjum okkur fram við að finna hlutverk fyrir alla. Enda er nóg sem þarf að gera í kringum svona sýningu. Það er hægt að leika, syngja, dansa, spila í hljómsveitinni, farða, sjá um tæknimál eða sviðsmynd og fleira. Við reynum að virkja krakkana sem mest og veita þeim leiðsögn.“

Uppselt mun vera á frumsýninguna en áhugasömum er bent á til stendur að sýna einnig á morgun, laugardaginn 16. febrúar, sunnudaginn 17. febrúar og þriðjudaginn 19. febrúar. Miðasala er á skrifstofu Brekkubæjarskóla, í síma 433-1300 og í Bíóhöllinni tveimur klukkustundum fyrir sýningar.

Galito tekur að sér veitingarekstur í nýrri frístundamiðstöð

fös, 15/02/2019 - 15:07

Frá því er greint á vef Golfklúbbsins Leynis á Akranesi að tekist hafi samkomulag við veitingastaðinn Galito um að taka við rekstri veitinga og þjónustu í nýrri frístundamiðstöð sem nú er risin við Garðavöll. „Galito mun reka starfsemina í frístundamiðstöðinni samhliða rekstri veitingastaðar við Stillholt og mun opna formlega þegar Garðavöllur opnar golfvöllinn í vor, sem má áætla að verði um mánaðamótin apríl og maí.“

Þá segir að golfklúbburinn og Galito hafa undanfarin ár átt farsælt og gott samstarf er varðar veislur og þjónustu við Garðavöll. „Það er mikil ánægja innan stjórnar golfklúbbsins með þennan samning og væntanlegt samstarf um rekstur frístundamiðstöðvar og mikil tækifæri munu felast með nýju húsi og þeirri aðstöðu sem það hefur upp á að bjóða,“ að sögn Guðmundar Sigvaldasonar framkvæmdastjóra Leynis.

Hilmar Ólafsson veitingamaður á Galito segir að þessi aðstaða og rekstur í frístundamiðstöðinni muni falla vel saman með rekstri veitingastaðarins Galito en þjónusta við hópa, fyrirtæki og aðra gesti Garðavallar verður aukin til muna með þessu samstarfi við Leyni. Veislusalur frístundamiðstöðvarinnar tekur allt að 200 manns í sæti og býður upp á mikla möguleika er varðar viðburði, námskeið, ráðstefnur, brúðkaup, afmæli, fermingar auk fleiri mannfagnaða.

Í frétt Leynis segir jafnframt að framkvæmdir ganga vel á Garðavelli en nú er rétt ár síðan skóflustunga var tekin að húsinu. Golfklúbburinn flutti starfsemi sína inn í hluta hússins um miðjan desember þegar skrifstofuhluti og inniæfingaaðstaða var tekinn í notkun. Áætlað er að framkvæmdum við húsið verði lokið í byrjun apríl og að húsið verði formlega tekið í notkun í framhaldinu. Mikið af bókunum í veislusalinn eru nú þegar staðfestar og skemmtilegir tímar framundan á Garðavelli, segir í frétt Leynis.

Síður