Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 48 mín 34 sek síðan

Tíu sækjast eftir slökkviliðsstjórastöðu

fös, 13/12/2019 - 14:44

Ellefu umsóknir bárust um starf slökkviliðsstjóra Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Starfið var auglýst um miðjan nóvember og umsóknarfrestur rann út síðastliðinn þriðjudag. Einn þeirra ellefu sem sóttu um dró umsókn sína til baka. Alls eru því tíu sem sækjast eftir því að gegna starfinu, níu karlar og ein kona.

Þeir sem sóttu um eru;

Einar Bergmann Sveinsson, deildarstjóri á forvarnarsviði
Guðni Kristinn Einarsson, eigandi/framkvæmdastjóri
Gunnar Björgvinsson sérfræðingur
Helga K Haug Jónsdóttir framkvæmdastjóri
Jens Heiðar Ragnarsson, verkefnastjóri sterkstraums
Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður/vaktstjóri
Leiknir Sigurbjörnsson trésmiður
Sigurður Þór Elísson, varðstjóri/þjálfunarstjóri
Þórður Bogason sjúkraflutningamaður
Þorlákur Snær Helgason, varaslökkviliðsstjóri.

Jákvæður rekstur í kortum Dalabyggðar

fös, 13/12/2019 - 13:09

Fjárhagsáætlun Dalabyggðar var samþykkt á fundi sveitarstjórnar í gær, sem og þriggja ára áætlun fyrir árin 2021 til 2023.

Í áætlun næsta árs er gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu samstæðu A og B hluta upp á 21,6 milljónir króna og að rekstrarniðurstaða A hluta verðijákvæð um 37,7 milljónir. „Heildareignir eru áætlaðar rúmur 1,4 milljarðar kr. í árslok 2020, skuldir og skuldbindingar eru áætlaðar um 659 milljónir kr. og eigið fé um 804 milljónir kr.,“ segir í frétt um málið á vef Dalabyggðar.

Áætlað veltufé frá rekstri A-hluta er 60 milljónir króna, eða 7,21% og samantekið fyrir A og B hluta 66,9 milljónir, eða um 6,3% af heildartekjum sveitarfélagsins.

Áætlaðar er að fjárfesta fyrir samtals 112,7 milljónir króna vegna framkvæmda við grunn- og leikskóla, viðhalds fasteigna á Laugum, Vínlandssetur, fráveitu og lagningu ljósleiðara auk minni verkefna vegna viðhalds eigna og undirbúning stærri framkvæmda.

Reksturinn við núllið á næsta ári

fös, 13/12/2019 - 13:08

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar var samþykkt með fimm atkvæðum eftir seinni umræðu í sveitarstjórn í gær, sem og þriggja ára áætlun. Fulltrúar Framsóknarflokks sátu hjá þegar greidd voru atkvæði um áætlunina í heild sinni. Tekjur A og B hluta eru áætlaðar 4.591 þús. kr. á næsta ári en rekstrargjöld A og B hluta, án fjármagnsliða, 4.293 þús. kr. Áætlað er að fjármagnsliðir verði 114 þús. kr. og rekstrarniðurstaða samstæðunnar því jákvæð um 183 þúsund krónur á næsta ári. Áætlað er að fjárfestingar og framkvæmdir A og B hluta sveitarsjóðs á næsta ári nemi 654 milljónum króna.

Álagninig fasteignaskatts í A flokki verður 0,36% og lækkar úr 0,4%. Í B flokki verður hún 1,32% og 1,39% í C flokki. Lóðaleiga verður 1,5% af fasteignamati íbúðarhúsalóða og 2,0% af mati annarra lóða. Áfram verður 50% afsláttur af gatnagerðargjöldum og 100% afsláttur af lóðagjöldum árið 2020. Við fyrri umræðu um fjárhagsáætlun hafði verið samþykkt að álagningarhlutfall útsvars í Borgarbyggð yrði 14,52% af tekjum, sem er hámarksútsvar og gjaldskrár verða ekki hækkaðar umfram 2,5% eins og lagt var til í lífskjarasamningunum svokölluðu. Dvalargjöld hækka ekki í gjaldskrám leikskólanna.

„Engin framtíðarsýn“

Fulltrúar Framsóknar lögðu fram bókun þar sem þeir sögðu meirihlutann á yfirstandandi kjörtímabili ekki hafa neina framtíðarsýn og sóa tekjum sveitarfélagsins. Fyrirtækjum hefði ekki fjölgað í sveitarfélaginu og lítið eða ekkert af íbúðum og húsnæði væri í byggingu. „Á meðan engin sýn er til staðar og engin geta til þess að leiða verkefni áfram og klára dæmið munum við fylgjast með tekjum sveitarfélagsins ausið stefnulaust,“ segir í bókuninni. „Það er lykilatriði að skýr framtíðarsýn liggi fyrir til grundvallar ákvörðunum með heildarhagsmuni íbúa að leiðarljósi. Meirihlutinn getur ekki lengur komist hjá því að upplýsa íbúa um sameiginlega sýn sína á fjölmörg ókláruð mál. Raunverulegur fjárhagslegur og samfélagslegur ávinningur fyrir íbúa helgast af því að sveitarstjórn geti lagt fram framsækna framtíðarsýn,“ segir í bókun Framsóknarmanna sem kölluðu eftir því að slík sýn yrði lögð fram eigi síðar en 1. mars á næsta ári.

„Skýr stefna“

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram bókun þar sem þeir sögðu ánægjulegt að starfa í þágu sveitarfélags þegar fjárhagurinn væri sterkur og vel gengi. Engu að síður væri mikilvægt að gæta vel að jafnvægi milli framkvæmda, þjónustu og fjármuna. „Það má ekki safnast upp mikil framkvæmdaþörf eða ganga of nærri skerðingu þjónustu við íbúa en heldur ekki ganga of nærri fjárhag sveitarfélagsins við framkvæmdir. Það þarf að finna eðlilegt jafnvægi milli þessara þátta. Ljóst er að mikil framkvæmdaþörf var komin víðs vegar í sveitarfélaginu og því þurfti að láta hendur standa fram úr ermum en bæði sú fjárhagsáætlun sem lögð var fram árið 2019 og sú sem lögð er fram hér í dag bera þess merki. Samhliða þessu var þó gætt að aðhaldi í rekstri og leitast við að bæta þjónustu við íbúa,“ segir í bókun meirihlutans, sem þvertók fyrir að ekki hefði verið lögð fram nein framtíðarsýn. „Sú fjárhagsáætlun sem lögð er fram hér í dag varpar með skýrum hætti ljósi á þá stefnu sem meirihlutinn hefur markað í samstarfi við starfsmenn sveitarfélagsins. Styður hún þá sýn að hér verði öflugt, fjölskylduvænt samfélag sem hugar vel að öllum aldurshópum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu.“

Hver er Vestlendingur ársins?

fös, 13/12/2019 - 11:30

Skessuhorn mun nú sem fyrr standa fyrir vali á Vestlendingi ársins, þeim íbúa landshlutans sem hefur á einhvern hátt skarað fram úr á árinu og verðskuldar sæmdarheitið Vestlendingur ársins 2019. Skilyrði er að viðkomandi hafi búsetu á Vesturlandi.

Íbúar landshlutans geta sent ábendingar á ritstjórn Skessuhorns um Vestlending ársins á netfangið skessuhorn@skessuhorn.is eigi síðar en á miðnætti næstkomandi föstudag, 20. desember. Gott er ef ábendingunum fylgir örstuttur rökstuðningur.

Snæfell sigraði Vesturlandsslaginn

fös, 13/12/2019 - 10:14

Vesturlandsslagur var í 1. deild karla í körfuknattleik í gærkvöldi þegar Skallagrímur og Snæfell mættust í Borgarnesi. Um jafnan og spennandi leik var að ræða en að lokum fór svo að Snæfellingar sigruðu með 110 stigum gegn 101 stigi Borgnesinga.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks. Þá tóku Skallagrímsmenn smá rispu áður en Snæfellingar náðu góðum kafla og leiddu eftir fyrsta leikhlutann, 25-29. Liðin fylgdust að meira og minna allan annan leikhluta og skiptust á að leiða leikinn. Þegar flautað var til hálfleiks.

Skallagrímsmenn höfðu heldur yfirhöndina í þriðja leikhluta, leiddu framan af með örfáum stigum en Snæfellingar fylgdu þeim eins og skugginn. Undir lok leikhlutans náðu Borgnesingar góðum kafla og höfðu tíu stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 80-70. En Snæfellingar voru hvergi af baki dottnir. Þeir minnkuðu muninn í þrjú stig í upphafi leikhlutans og jöfnuðu metin í 91-91 þegar fjórar mínútur lifðu leiks. Borgnesingar náðu góðri rispu upp frá því og komust í 100-95. Þá tóku Snæfellingar smá sprett, jöfnuðu metin og komust síðan yfir í stöðunni 100-102 þegar mínúta lifði leiks. Þá hættu Borgnesingar að hitta úr skotum sínum, en Snæfellingum brást ekki bogalistin. Snæfell sigraði að lokum með níu stigum, 101-109.

 

Tveir yfir fjörtíu stig

Isaiah Coddon átti stórleik í liði Skallagríms, skoraði 41 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Kristján Örn Ómarsson skoraði 17 stig, tók fimm fráköst og varði fimm skot, Marinó Þór Pálmason skoraði 16 stig og gaf 14 stoðsendingar, Almar Örn Björnsson var með tíu stig og tólf fráköst, Hjalti Ásberg Þorleifsson átta stig og sex fráköst, Kristófer Gíslason sex stig og Arnar Smári Bjarnason skoraði þrjú.

Anders Gabriel Andersteg átti stórleik fyrir Snæfell, skoraði 41 stig, tók níu fráköst og gaf sex stoðsendingar. Aron Ingi Hinriksson skoraði 29 stig og gaf fimm stoðsendingar, Pavel Kraljic var með tólf stig og 15 fráköst, Benjamín Ómar Kristjánsson skoraði tíu stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar, Guðni Sumarliðason var með sjö stig, Eiríkur Már Sævarsson fimm, Ísak Örn Baldursson fjögur og Viktor Brimnir Ásmundarson skoraði tvö stig.

 

Staðan í deildinni

Úrslit leiksins gera það að verkum að liðin hafa sætaskipti í deildinni. Snæfellingar sitja nú í sjöunda sæti með fjögur stig og Skallagrímsmenn eru í því áttunda með jafn mörg stig. Fjögur stig eru í Álftnesinga í sætinu fyrir ofan en Sindri vermir botnsætið með tvö stig.

Bæði lið leika næst föstudaginn 20. desember næstkomandi. Snæfellingar taka á móti Hamri í Hólminum en Skallagrímsmenn mæta liði Vestra á Ísafirði.

Haraldur vill setja fólk í fyrsta sæti en ekki pólitíska tækifærismennsku

fös, 13/12/2019 - 09:44

Haraldur Benediktsson fyrsti þingmaður Norðurlandskjördæmis vestra skrifar opinskáa grein á Facebook síðu sína undir fyrirsögninni „Ég er miður mín.“ Hann tekur fram að slíka fyrirsögn sé ekki pólitískt skynsamlegt að setja fram, en gerir það engu að síður. Fjallar hann um það varnarleysi sem landsbyggðarfólk stendur frammi fyrir þegar náttúruöflin taka yfirhöndina. Tæknin svíkur og aðstæður fólks verða erfiðar. Hann varar við pólitískri tækifærismennsku. Hér verður gripið niður í færslu Haraldar:

„Þessa fyrirsögn nota ég vegna þess að ég finn til ábyrgðar. Í 15 ár hef ég verið að láta mig varða hagsmuni fólks. Hagsmuni allra landsmanna – reynt að tala fyrir hagsmunum fólks sem býr á landsbyggðinni. Allan tímann hef ég skynjað stuðning, skilning þeirra sem búa á svonefndu höfuðborgarsvæði. Við erum ein þjóð. Samt er það þannig að íbúar landsbyggðar, sveitanna, horfa framá allt aðrar aðstæður en meginþorri landsmanna. Við þolum hærra kostnað við flutning á rafmagni, verri tengingar og minni gæða þeirra tenginga. Við örfáir íbúar sveitanna þurfum að byggja upp og viðhalda ógnarstóru dreifikerfi – eftir að hafa á árum áður tekið þátt í að byggja upp með gjöldum okkar fyrir uppbyggingu á svonefndum þéttbýlissvæðum. Það berum við nú ein. En það er samt kerfið sem á að vera grunnur að því allir geti notið þess að skipta um orkugjafa fyrir bíla – svo eitthvað sé nefnt. Samt er mestallt rafmagn framleitt í virkjunum sem standa í sveitum – flutt með kerfum sem liggja um lönd bænda.“

Haraldur segir að sem betur fer hafi verið gert stórátak í lagningu jarðstrengja fyrir dreifiveitur. „Ástandið væri hrikalegt núna – ef svo væri ekki. Gleymum því ekki. En engin kerfi og engin mannvirki geta heldur verið þannig að þau þoli hvað sem er.“ Haraldur þekkir hvaða tjón margir kollegar hans í stétt kúabænda standa frammi fyrir. „Afurðatap kúa sem ekki var hægt að mjólka í marga daga – glötuð framleiðsla sem hellt var í svelginn. Skemmdar girðingar, tjón á húsum. Þeir fjármunir verða ekki sóttir í afurðaverð til bænda. Það er enn önnur saga.“

Undir lok langrar færslu sinnar skrifar Haraldur: „Ég veit um skammtímahugsun sem liggur að baki því að rækta ekki, að styrkja ekki grundvöll að atvinnugreina þeirra sem á landsbyggðinni lifa. Skammsýnin sem hefur veikt t.d. matvælaframleiðslu sveitanna. Ég hef hlustað óteljandi sinnum á hvernig má búa til óendanlegar tekjur fyrir ríkið að setja aflaheimildir á uppboð. Hvernig við getum skapað gríðarlegan arð af því að hækka rafmagn til iðnaðar.

Ég er miður mín vegna þess að mér finnst hafa afhjúpast hve mikill munur er á aðstöðu fólks og mér hefur ekki tekist betur til að tala máli þeirra. Ég hef ekki sett vegtyllur fyrir mig í efsta sæti – það gera fæstir. Ég er ekki að ásaka neinn um gera það – en vil að sé hlustað á hvað ég segi. Að það verði breytingar – raunverulegar breytingar. Fánýti karps pólitíkur um mörg málin – eins og um eitthvað ímyndað meira frelsi ef bara megi flytja meira og meira inn. Um hvort samningur við þjóðkirkjuna sé eðlilegur – eða hvort einstaka fjárveiting standist nákvæmar um óvænt og ófyrirséð i fjáraukalögum – verða hjóm þegar hugsað er um fólk sem situr sambandslaust í köldum húsum – rafmagnlausum sjúkrahúsum. Ég ber mína ábyrgð. Við búum við óblítt veðurfar – það verða áföll,“ segir Haraldur; „Setjum fólkið í fyrsta sæti en ekki pólitíka tækisfærismennsku.“

Vestlenskt björgunarsveitarfólk til aðstoðar á Norðurlandi

fös, 13/12/2019 - 08:37

Afar erfitt ástand er víða um norðanvert landið í kjölfar óveðursins fyrr í vikunni. Áhrif þess eru meðal annars rafmagnsleysi, köld hús, skortur á vistum, fjarskiptaleysi, ekki er hægt að mjólka kýr í tæknivæddum fjósum, hross hafa grafist í fönn og áfram mætti lengi telja. Orðið hamfaraástand á við, enda sá ríkisstjórnin ástæðu til að kalla þjóðaröryggisráð saman til fundar í gær og fara yfir stöðuna. Flóknasta verkefnið og jafnframt það sem reynir mest á mannskap er leit að ungum manni sem saknað er í Eyjafirði eftir að krapaflóð hreif hann með sér við Núpá í Sölvadal. Hafa hundruðir björgunarsveitarfólks og annarra komið að leit við erfiðar aðstæður.

Búið er að senda búnað og mannskap norður fyrir heiðar til leitar og björgunarstarfa. Herkúles birgðaflutningavél danska hersins var flogið norður í gær með mannskap og búnað. Þá hafa björgunarsveitir af Vesturlandi sent bæði búnað og mannskap, en okkar landshluti fór hvað best út úr þessu hamfaraveðri sem geisaði á landinu fyrr í vikunni og vildu sveitirnar leggja lið þar sem neyðin er stærst.

Björgunarfélag Akraness sendi tvo björgunarsveitarmenn og snjóbíl til Hólmavíkur til aðstoðar við ýmis verkefni um miðja vikuna. Aðfararnótt fimmtudags fór svo sjö manna hópur með fimm vélsleða og tvo jeppa í Eyjafjörð til að aðstoða við leit að piltinum sem saknað er við Núpá.

Þrír félagar úr Björgunarsveitinni Brák í Borgarnesi fóru norður í Húnavatnssýslu og veittu félögum sínum þar liðsinni við að leysa úr fjölda verkefna sem þar biðu. Unnu þeir meðal annars að því að berja ísingu af háspennulínum til að koma rafmagni á bæi að nýju. Björguðu þeir auk þess ellefu hrossum sem grafist höfðu í fönn. „Allir vinna saman og margar samhentar hendur ná að saxa á verkefnalistann,“ segir í færslu björgunarsveitarfólks í Brák á Facebook síðu sinni.

Þrír félagar í Björgunarsveitinni Ok aðstoðuðu meðal annars við leit við Núpsá í Sölvadal. Til að komast norður var ekið á Hvammstanga um Heydal og Laxárdalsheiði, en mannskapurinn þurfti að bíða meðan raflína var klippt í sundur því hún hékk yfir veginn. Komust þó á leiðarenda í vondu skyggni og tókust á við verkefni sem biðu. Vitjuðu meðal annars bænda sem höfðu verið án rafmagns í langan tíma. Af einum bænum var einstaklingur ferjaður yfir á annan bæ þar sem var rafmagn og hiti var á húsum.

Lýst eftir hryssu sem saknað er frá Sólheimatungu

fös, 13/12/2019 - 08:35

„Þessi eldri hryssa, Þrúður frá Brautarholti, er týnd. Hennar er sárt saknað,“ segir í tilkynningu sem beðið var fyrir að birta hér á síðunni. Hryssan var í landi Sólheimatungu í Borgarfirði og sást síðast fyrir tíu dögum. „Búið er að ganga landið og skoða í skurði en ekki sést tangur né tetur af henni. Ef einhver hefur séð hryssuna eða orðið var við hana í sínum hrossahópum, endilega hafið samband Völku í síma 616-1020 eða Guðna s. 664-8110.“

Þjóðaröryggisráð í fyrsta skipti kallað saman

fös, 13/12/2019 - 08:06

Í gær var haldinn sérstakur fundur þjóðaröryggisráðs vegna hinna fordæmalausu aðstæðna sem upp hafa komið í framhaldi af ofsaveðri undanfarna daga. Á fundinum var farið yfir afleiðingar veðursins, stöðu mála og næstu skref. Ljóst er að miklar truflanir og bilanir hafa valdið rafmagnsleysi víða á Norðurlandi. Fjarskipti liggja niðri víða á sama svæði. „Um fordæmalaust ástand er að ræða að þessu leyti og því þótti ráðlegt að boða þjóðaröryggisráð saman og fara yfir stöðuna sbr. 2. mgr. 6.gr. laga um þjóðaröryggisráð. Þess er vænst að viðgerðir á flutningskerfi muni taka nokkra daga,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu.

Staða mála verður rædd enn frekar á vettvangi ríkisstjórnarinnar í dag, þar sem fjallað verður um nauðsynlegar aðgerðir til skemmri og lengri tíma litið.

Á fundi þjóðaröryggisráðs í gær voru, auk fastafulltrúa þar, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðmála, -iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ásamt ráðuneytisstjórum. Þá var fulltrúum almannavarnadeildar Ríkislögreglustjóra boðið til fundarins ásamt fulltrúa Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Rauða kross Íslands og gerðu þeir grein fyrir stöðu mála, hver á sínu sviði, og samvinnu fjölmargra aðila um land allt.

Framlengdur umsóknarfrestur í Uppbyggingarsjóð

fös, 13/12/2019 - 08:01

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi hafa framlengt til næsta mánudags frest til að sækja um styrki í Uppbyggingarsjóð Vesturlands. Um er að ræða styrki til atvinnuþróunar og nýsköpunar, verkefnastyrki til menningarmála auk stofn- og rekstrarstyrkja til menningarmála. Fresturinn rennur út á miðnætti mánudaginn 16. desember. Nánar á www.ssv.is

Tónlistarfélagið færði gjafir

fös, 13/12/2019 - 06:01

Tónlistarfélag Neshrepps utan Ennis gaf Snæfellsbæ veglega gjöf síðastliðinn föstudag. Tónlistarfélagið færði bænum tvo flygla, sem staðsettir verða í grunn- og tónlistarskólanum á Hellissandi. Bæjarstjóri, aðstoðarskólastjóri grunnskóla og kjörnir fulltrúar tóku á móti hljómþýðum gjöfum tónlistarfélagsins. Bæjarstjóri nýtti tækifærið og þakkaði tónlistarfélaginu kærlega fyrir höfðinglegar gjafir. „Hrósaði hann einnig þeim stórhug sem tónlistarfélagið sýndi með kaupum á flyglunum seint á síðustu öld, en þeir hafa verið ómetanlegir í tónlistarkennslu hér í bæ frá fyrsta degi og verða það áfram,“ segir í frétt um málið á Facebook-síðu Snæfellsbæjar.

Auk þess færði tónlistarfélagið sóknarnefnd Ingjaldshóslkirkju veglega peningagjöf sem vafalítið mun nýtast til góðra verka í framtíðinni.

Hart á hrossum

Fim, 12/12/2019 - 17:06

Matvælastofnun brýnir fyrir hrossaeigendum að koma heyi í útigangshross og huga vel að ástandi þeirra nú þegar rofað hefur til víða um land. „Frosthörkur í kjölfar norðan áhlaups kallar á aukið eftirlit og umhirðu með hrossum á útigangi. Nauðsynlegt getur verið að moka leið að hrossum til að koma til þeirra heyi þar sem skaflar eru miklir. Hross á útigangi þurfa að vera í ríflegum holdum á þessum árstíma,“ segir í tilkynningu.

Stofnunum fækkað um eina

Fim, 12/12/2019 - 13:01

Stofnunum á sviði skatta og tolla fækkar um eina um áramót, en Alþingi samþykkti í síðustu viku lög sem greiða fyrir sameiningu embætta ríkisskattstjóra og tollstjóra. Sameinuð stofnun mun heita „Skatturinn“ og verða leiðandi upplýsingastofnun á sviði skatta- og tollamála. Stofnunum á sviði skatta og tolla hefur talsvert undanfarinn áratug. Árið 2009 voru þær þrettán talsins, en verða nú um áramótin þrjár. Um 470 manns munu starfa í hinni nýju stofnun, undir forystu núverandi ríkisskattstjóra, Snorra Olsen.

Valdís Þóra og Guðmundur Ágúst kylfingar ársins

Fim, 12/12/2019 - 11:56

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Golfklúbbnum Leyni og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Reykjavíkur eru kylfingar ársins 2019. Golfsamband Íslands greindi frá vali sínu á fimmtudag. Er þetta í 22. sinn sem tveir kylfingar eru valdir, karl og kona. Valdís hefur þrisvar áður hlotið þessa viðurkenningu en Guðmundi Ágústi hlotnast hún nú í fyrsta sinn.

Valdís Þóra lék sitt þriðja tímabil á Evrópumótaröðinni í golfi á liðnu ári og endaði tímabilið í 71. sæti stigalista mótaraðarinnar. Hún náði sínum besta árangri í Ástralíu í mars þegar hún hafnaði í 5. sæti. Á því móti var hún lengi vel í forystu en hún lék fyrsta hringinn á 63 höggum, sem var besta skor mótsins. „Valdís komst í gegnum niðurskurðinn á 7 af 14 mótum á Evrópumótaröðinni á árinu. Hún komst inn á 2. stig úrtökumótsins fyrir LPGA atvinnumótaröðina í Bandaríkjunum og verður með takmarkaðan keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni á næsta tímabili,“ segir á vef GSÍ.

Guðmundur Ágúst var Íslandsmeistari í höggleik í fyrsta skipti á árinu. Hann lék á Nordic Golf League atvinnumannamótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum og vann sér um leið þátttökurétt á Áskorendamótaröðinni, sem er næst sterkasta atvinnumannamótaröð Evrópu. Auk þess komst Guðmundur inn á lokaúrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina. Hann hóf árið í 1656. sæti á heimslista atvinnumanna en er nú í 558. sæti, efstur Íslendinga.

Íbúar á Akranesi og Borgarnesi fari sparlega með heita vatnið

Fim, 12/12/2019 - 11:27

Vegna bilanar sem kom upp í Deildartunguæð á þriðjudag er lág birgðastaða í hitaveitutönkum á Akranesi og Grjóteyri í Borgarnesi. Af þeim sökum þurftu Veitur að lækka þrýstinginn á dreifikerfinu.

Vegna rafmagnstruflana hjá Landsneti var ekki hægt að dæla í tankana af fullum krafti í gær. „Nú er staðan sú að við þurfum að spara enn meira heitt vatn til að geta hladið uppi þjónustu við heimili,“ segir í tilkynningu frá Veitum.

Af þessum sökum hefur sundlaugum í Borgarnesi og á Akranesi verið lokað og íbúar beðnir að fara sparlega með heita vatnið, ekki la´ta renna í heita potta, hafa glugga lokaða og dyr ekki opnar lengur en nauðsyn krefur. „Hversu lengi það ástand varrir veltur á því hversu langan tíma tekur að fylla tankana. Það er kuldatíð í vændum og því mikilvægt að halda húsum heitum,“ segir í tilkynningunni.

Höfðu ekki erindi sem erfiði

Fim, 12/12/2019 - 11:00

Skallagrímskonur töpuðu naumlega gegn Keflvíkingum, 69-63, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var suður með sjó. Eftir að hafa misst Keflavíkurliðið langt fram úr sér í síðari hálfleik náðu Skallagrímskonur að hleypa mikilli spennu í leikinn undir lokin. Því miður dugði það þeim þó ekki til að fá eitthvað út úr leiknum.

Mikið jafnræði var með liðunum í upphafsfjórðungnum og þau skiptust á að leiða. Skallagrímskonur náðu smá rispu undir lok leikhlutans og höfðu fjögurra stiga forskot að honum loknum, 17-13. En þær áttu síðan afleitan annan leikhluta, þar sem þær skoruðu aðeins þrjú stig. Annar leikhluti var um margt undarlegur, því Keflavík var líka stigalaust á löngum kafla. En undir lok fyrri hálfleiks náði heimaliðið góðum spretti og fór með tíu stiga forskot inn í hléið, 30-20.

Keflavíkurliðið var heldur sterkara í þriðja leikhlutanum og náði að bæta fimm stigum við forystu sína og leiddi 55-40 fyrir lokafjórðunginn. Þar voru Skallagrímskonur hins vegar betri og eftir því sem leið á minnkaði forskotið stöðugt. Þegar rétt rúm mínúta lifði leiks var forysta Keflavíkur komin niður í fjögur stig. Nær komust Skallagrímskonur hins vegar ekki. Keflavík sigraði að lokum með sex stigum, 69-63.

Emilie Hesseldal var atkvæðamest í liði Skallagríms. Hún skoraði 28 stig og reif niður 18 fráköst. Keira Robinson skoraði 14 stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði tólf stig og tók 13 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir var með fimm stig og sex fráköst og Mathilde Colding-Paulsen skoraði fjögur stig.

Daniela Wallen Morillo var stigahæst í liði Keflavíkur með 18 stig, en hún tók 15 fráköst og gaf sjö stoðsendingar að auki. Emelía Ósk Gunnarsdóttir var með tólf stig og sex fráköst og Anna Ingunn Svansdóttir skoraði tólf stig einnig.

Skallagrímskonur hafa 14 stig í fjórða sæti deildarinnar, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum minna en KR. Næsti leikur Skallagrímskvenna er útileikur gegn Breiðabliki miðvikudaginn 18. desember.

Eltu allan leikinn

Fim, 12/12/2019 - 10:30

Snæfell og Haukar mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Leikið var í Hafnarfirði. Haukar leiddu nánast allan leikinn og þó að Snæfellskonur hafi gert atlögu að þeim í þriðja leikhluta sigruðu Haukar að endingu með 20 stigum, 101-81.

Haukakonur náðu undirtökunum snemma leiks. Varnarleikur Snæfellskvenna var ekki upp á marga fiska framan af, Haukar gengu á lagið og leiddu með 15 stigum eftir fyrsta leikhluta, 33-18. Snæfellskonur léku betur í öðrum fjórðungi og náðu að kroppa fjögur stig af forystu Hauka áður en flautað var til hálfleiks, 48-37.

Snæfellskonur komu ákveðnar til síðari hálfleiks. Með góðum varnarleik náðu þær hægt og þétt að minnka muninn í sex stig fyrir lokafjórðunginn, 66-60. En Haukakonur tóku við sér á nýjan leik í fjórða leikhlutanum. Þær náðu tvisvar níu stiga rispum sem Snæfellskonur áttu ekki svar við. Fór því svo að lokum að Haukar sigruðu með 101 stigi gegn 81.

Emese Vida var atkvæðamest í liði Snæfell. Hún skoraði 24 stig og reif niður 18 fráköst. Veera Pirttinen skoraði 19 stig, Gunnhildur Gunnarsdóttir skoraði 13 stig og tók sjö fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir var með tíu stig og fimm fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði sjö stig og þær Helga Hjördís Björgvinsdóttir og Rebekka Rán Karlsdóttir skoruðu fjögur stig hvor.

Randi Brown var atkvæðamest í liði Hauka með 24 stig, níu fráköst og átta stoðsendingar. Jennetje Guijt skoraði 21 stig, Lovísa Björt Henningsdóttir var með 18 stig og sjö fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir skoraði tólf stig.

Snæfell situr eftir leikinn í sjötta sæti deildarinnar með sex stig og er átta stigum á eftir Haukum en með tveggja stiga forskot á Breiðablik. Næsti leikur Snæfellskvenna er gegn KR miðvikudaginn 18. desember. Hann verður leikinn í Reykjavík.

Jólagleði í Garðalundi á laugardagskvöld

Fim, 12/12/2019 - 10:00

Ævintýraheimur jólanna mun ráða ríkjum í Garðalundi á Akranesi næstkomandi laugardagskvöld, 14. desember. Þá verður haldin hin árlega Jólagleði í Garðalundi. Hefst hún kl. 19:00 þegar kveikt verður á ljósunum hans Gutta, en að svo búnu tekur ævintýraheimur jólanna við.

Sem fyrr er jólagleðin ætluð öllum sem vita að jólasveinninn er til sem og aðstandendum þeirra. Viðburðurinn hefur fest sig í sessi sem fastur liður í aðdraganda jólanna á Akranesi. Gestir eru hvattir til að mæta með vasa- eða ennisljós því það er aldrei að vita hvaða skógarverur leynast í ævintýraheimi jólanna, verur sem betra er að geta lýst upp.

Rafmagn komst á að nýju í Dalabyggð í gærkvöldi

Fim, 12/12/2019 - 09:24

Rafmagn komst á að nýju í Dalabyggð á tíunda tímanum í gærkvöldi, með því að tengd var varaleið um Skógarströnd. Endanleg viðgerð átti að fara fram í nótt en notendur voru beðnir um að fara sparlega með rafmagnið. Nánari upplýsingar veitir Svæðisvakt RARIK Vesturlandi í síma 528 9390 og kort af svæðinu má sjá á www.rarik.is/rof

Búist við afgangi frá rekstri

Fim, 12/12/2019 - 09:01

Fjárhagsáætlun Hvalfjarðarsveitar var til síðari umræðu í sveitarstjórn á fundi hennar 26. september síðastliðinn.

Áætlað er að rekstrarafgangur samstæðu A og B hluta verði 123,5 milljónir króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok er áætlað að verði 3.147,9 milljónir króna og handbært fé í árslok 979,9 milljónir. Afborganri langtímalána eru áætlaðar 6,5 milljónir á næsta ári, en ekki er ráðgert að taka ný langtímalán á árinu.

Útsvarsprósenta var ákveðin 13,69%, sem er talsvert undir hámarksútsvari sem er 14,52%.

Lóðarleiga í þéttbýli verður 1,0% af fasteignamati. Álagning fasteignaskatts í A flokki verður 0,4% af fasteignamati og lækkar úr 0,44% frá fyrra ári. Í B flokki verður hún 1,32% af fasteignamati og 1,65% í C flokki. Gjalddagar fasteignaskatts og fasteignagjalda verða átta talsins, frá febrúar til og með september og þjónustuskrár hækka miðað við vísitöluhækkanir, þó aldrei meira en 2,5% sbr. lífskjarasamningana svokölluðu.

Síður