Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 9 mín 21 sek síðan

Óveður í kortunum

26 mín 55 sek síðan

Veðurstofan hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs síðdegis í dag á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi, Faxaflóa, Breiðafirði, Norðurlandi eystra og á miðhálendinu.

Veðurspáin gerir ráð fyrir að í fyrstu verði austan 8-15 m/s og víða dálítil slydda eða snjókoma sunnan- og vestanlands. Þá gengur í suðaustan 15-25 m/s síðdegis og í kvöld, fyrst suðvestantil. Það verður rigning á láglendi en snjókoma til fjalla. Lægir og dregur úr úrkomu í nótt, einkum vestantil. Gengur aftur í suðaustan hvassviðri eða storm á morgun með rigningu. Talsverð rigning verður um sunnanvert landið en léttir til norðanlands með deginum og hlýnar.

Íslandsmót eldri spilara

1 klukkutími 11 mín síðan

Um síðustu helgi fór Íslansmót (h)eldri spilara í bridds fram í Reykjavík. Íslandsmeistarar 2018 eru hjónin Björk Jónsdóttir og Jón Sigurbjörnsson. Í öðru sæti voru Aðalsteinn Jörgensen og Sigurður Sverrisson, en þriðja sætið tóku Hvanneyringarnir Lárus Pétursson og Sveinbjörn Eyjólfsson. Forysta hjónanna var nokkuð afgerandi en athygli vakti að einungis munaði 0,1 stigi á öðru og þriðja sæti.

Kynna skipulagsbreytingar vegna væntanlegs skotæfingasvæðis

2 klukkutímar 20 mín síðan

Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur auglýst tillögu að breytingu á aðalskipulagi 2010-2022 sem gerir ráð fyrir að breyta landnotkun svæðis í landi Hamars úr landbúnaði í opið svæði til sérstakra nota, þar sem gert er ráð fyrir að skotæfingasvæði komi. Ný reið- og gönguleið verður lögð 400 m sunnan við væntanlegt skotæfingasvæði. Nýr aðkomuvegur verður lagður að svæðinu, frá Bjarnhólum sunnan efnistökusvæðis og verður samnýttur með núverandi reið- og gönguleið. Samhliða því hefur verið auglýst tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir 16,7 ha skotæfingasvæði skammt norður af Borgarnesi. Á svæðinu er gert ráð fyrir sjö bílastæðum, félagshúsi, skeet-velli, riffilbraut og göngustíg frá bílastæði að skeet-velli, og meðfram riffilbraut að takmarki og kúlufangi.

Þessar skipulagstillögur liggja nú frammi í Ráðhúsi Borgarbyggðar og gefst íbúum færi á að gera skriflegar athugasemdir fyrir 21. janúar 2019. Næstkomandi miðvikudag frá kl. 17:00 til 18:00 verða starfsmenn umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar með opið hús í Ráðhúsi Borgarbyggðar þar sem tillögurnar verða kynntar þeim sem þess óska.

Uppdrætti og skjöl má finna undir:

https://borgarbyggd.is/thjonusta/umhverfis-og-skipulagssvid/skipulagsmal/

Verulega vaxandi ásókn í óverðtryggð lán

2 klukkutímar 28 mín síðan

Ásókn í bæði óverðtryggð lán og fasta vexti hefur aukist verulega á undanförnum misserum. Í samantekt Viðskiptablaðsins kemur fram að taka nýrra óverðtryggðra lána umfram uppgreiðslur hjá bönkunum hefur vaxið um 280% á fyrstu tíu mánuðum ársins miðað við sama tímabil fyrir ári. Þá hafa ný íbúðalán með óverðtryggðum föstum vöxtum numið 31,8 milljörðum króna fyrstu tíu mánuði ársins miðað við um 6,7 milljarða króna á sama tímabili í fyrra, sem samsvarar 370% vexti milli ára. Þá hefur dregið úr nýjum verðtryggðum lánum að frádregnum uppgreiðslum hjá bönkunum um 36% á fyrstu tíu mánuðum ársins.

Sjá nánar í frétt Viðskiptablaðsins.

Stöðugar horfur í efnahag ríkissjóðs

3 klukkutímar 28 mín síðan

Matsfyrirtækið Fitch staðfesti á föstudaginn óbreytta lánshæfiseinkunn ríkissjóðs Íslands fyrir langtímaskuldir í erlendum gjaldmiðli sem A með stöðugum horfum. „Samkvæmt matsfyrirtækinu endurspeglar þessi einkunn annars vegar háar þjóðartekjur, sterkar stofnanir, góð lífskjör og gott viðskiptaumhverfi og hins vegar að hagkerfið reiðir sig í miklum mæli á hrávöruútflutning og er næmt fyrir ytri áföllum auk fyrri reynslu af efnahags- og fjármálasveiflum,“ segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Skylt að taka sýni

5 klukkutímar 29 mín síðan

Matvælastofnun vill minna sauðfjáreigendur á að láta taka sýni úr fullorðnu fé til riðuskimunar. „Ef afföll verða á kindum þá er mikilvægt að hafa samband við héraðsdýralækni sem mun sjá til þess að sýnin séu tekin eða hann leiðbeinir við að senda hausa beint á Keldur. Sýnatökurnar og sendingarkostnaður í þessu samhengi er bændum að kostnaðarlausu,“ segir í tilkynningu. „Sýni úr öllu fullorðnu fé sem drepst eða er fellt af öðrum ástæðum en elli eða til fækkunar eru afar mikilvæg sýni til að reyna eins og kostur er að ná árangri í að útrýma riðu hér á landi. Aðgerðir til útrýmingar riðu hófust árið 1986 og hefur náðst verulegur árangur fram til þessa. Ef kind sýnir einkenni riðuveiki er eigendum og umráðamönnum sauðfjár skylt að tilkynna það héraðsdýralækni. Á sýktum svæðum skal ekki hýsa aðkomufé né fóðra eða brynna því með heimafé, hvorki við fjárrag að hausti eða að vori né á öðrum tímum ársins. Ef hýsingin er óumflýjanleg með tilliti til velferðar fjárins skal ekki nota til þess fjárhús, hlöður eða fjós, heldur skal nota annan húsakost.“

Skallagrímskonur töpuðu gegn Stjörnunni

sun, 09/12/2018 - 15:48

Skallagrímskonur máttu játa sig sigraðar eftir hörkuleik gegn Stjörnunni í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Garðabæ í gær og lokatölur urðu 73-62, heimakonum í vil.

Skallagrímskonur höfðu yfirhöndina í upphafi leiks og leiddu 4-8 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Þá tók Stjarnan forystuna og leiddi 16-14 eftir upphafsfjórðunginn. Mikið jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta og munaði ekki nema örfáum stigum lengst framan af. Þegar dró nær hálfleik tók Stjarnan þó að síga örlítið lengra fram úr og hafði átta stiga forskot í hléinu, 41-33.

Stjarnan hélt fast um forystuna í þriðja leikhluta en Skallagrímskonur voru aldrei langt undan. Næst komust þær fimm stigum frá þeim seint í leikhlutanum en Stjarnan átti lokaorðið og fór með sjö stiga forskot inn í lokafjórðunginn. Hann fór rólega af stað þar sem hvorugt lið skoraði fyrstu mínúturnar. Eftir það voru Skallagrímskonur heldur öflugri og færðust hægt en örugglega nær Stjörnunni. Stöðugt meiri spenna færðist í leikinn og þegar tvær mínútur voru eftir höfðu Skallagrímskonur minnkað muninn í tvö stig, 62-60 og leikurinn galopinn. En þá tók Stjarnan ótrúlegan endasprett þar sem liðið skoraði ellefu stig gegn tveimur og tryggði sér sigurinn, 73-62.

Shequila Joseph skoraði 20 stig og tók 14 fráköst í liði Skallagríms. Bryesha Blair var með 20 stig einnig, sex fráköst og sjö stoðsendingar.

Danielle Rodriguez átti stórleik fyrir heimaliðið, skoraði 23 stig, tók 13 fráköst, gaf átta stoðsendingar, stal fjórum boltum og varði fimm skot. Bríet Sif Hinriksdóttir var með 15 stig og Maria Florencia Palacios skoraði tólf.

Skallagrímur situr í sjötta sæti deildarinnar með sex stig eftir ellefu leiki, jafn mörg og Haukar í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum á eftir Val í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Skallagrímur miðvikudaginn 12. desember, þegar liðið mætir Snæfelli í Vesturlandsslag í Borgarnesi.

Öruggur sigur Snæfells í toppslagnum

sun, 09/12/2018 - 15:28

Snæfell sigraði KR örugglega, 64-46, í toppslag Domino‘s deildar kvenna í körfuknattleik. Leikið var í Stykkishólmi í gærdag.

Snæfell byrjaði leikinn mun betur og hélt KR í aðeins einu stigi fyrstu sex mínútur leiksins. Eftir það náðu gestirnir góðum spretti og minnkuðu muninn í 14-12 en Snæfellskonur leiddu 18-14 að fyrsta leikhluta loknum. Annar leikhluti var frekar skrítinn. Hann fór hægt af stað, en það var aðeins lognið á undan storminum. Snæfellskonur náðu síðan með frábærum kafla að breyta tveggja stiga forystu í 15 stiga forskot, 33-18. En þá var eins og lok hefði verið sett á körfuna, því þær skoruðu ekki meira síðustu fjórar mínútur fyrri hálfleiks. KR minnkaði muninn á meðan niður í níu stig og Snæfell leiddi í hléinu með 33 stigum gegn 24.

Þriðji leikhluti fór hægt af stað og ekkert stig var skorað fyrstu mínúturnar. Þá tóku Snæfellskonur góða rispu, komust í 39-25 og virtust hafa náð góðum tökum á leiknum. Þær leiddu með tveimur stigum fyrir lokafjórðunginn og hleyptu KR-liðinu aldrei nálægt sér aftur. Þvert á móti juku þær forskotið hægt en örugglega allan fjórða leikhluta og sigruðu að lokum stórt, 64-46.

Kristen McCarthy var atkvæðamest í liði Snæfells með 24 stig, 13 fráköst og sex stoðsendingar. Angelika Kowalska skoraði 13 stig og tók átta fráköst en aðrar höfðu minna.

Vilma Kesanen skoraði 14 stig fyrir KR og var sú eina úr liði gestanna sem komst í tveggja stafa tölu á stigatöflunni.

Með sigrinum lyfta Snæfellskonur sér upp að hlið Keflavíkur á toppi deildarinnar. Bæði lið hafa 18 stig eftir ellefu leiki. Næsti leikur Snæfells er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími. Sá leikur fer fram í Borgarnesi miðvikudaginn 12. desember.

Guðlaug við Langasand tekin í notkun

sun, 09/12/2018 - 13:23

Í gær var Guðlaug við Langasand formlega tekin í notkun. Félagar úr Sjóbaðsfélagi Akraness voru fyrstir til að vígja laugina að aflokinni stuttri sjóferð. Meðan sjósundsfólkið gekk í sjóinn flutti Ragnar Sæmundsson formaður skipulags- og umhverfisráðs Akraneskaupstaðar ávarp og Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri fór yfir sögu mannvirkisins, kostnað og fjármögnun. Loks var klippt á borða og laugin þar með formlega vígð.

Guðlaug er steinsteypt á þremur hæðum og er alls sex metra hátt mannvirki staðsett í grótvarnargarði neðan við stúku Akranesvallar og Aggapall. Efst er útsýnispallur sem gengið er útá beint af göngustíg sem liggur meðfram Langasandi. Undir pallinum er stjórnherbergi og heit laug samsíða honum sem vísar á móti sjónum með útsýni yfir Akraneshöfn, Faxaflóa og til Reykjaness. Önnur grynnri laug er á neðstu hæð mannvirkisins og nýtir hún yfirfallsvatn sem rennur úr pottinum fyrir ofan. Þegar laugin er opin er sífellt gegnumstreymi og því er ekki þörf á klór og öðrum hreinsiefnum. Á stórstreymi flæðir sjór í neðstu laugina. Á sandinum framan við mannvirkið hefur verið komið fyrir nokkrum stórum steinum en hlutverk þeirra er að draga úr sjógangi og álagi á mannvirkið.

Laugina hönnuðu Basalt arkitektar og Mannvit verkfræðistofa. Yfirverktaki við framkvæmdina var Ístak ehf. og Vélaleiga Halldórs Sigurðssonar ehf. var undirverktaki. Rafþjónusta Sigurdórs og Píplagningaþjónustan sáu um rafmagns- og vatnslagnir í lauginni og Trésmiðjan Akur gerði búningaaðstöðuna undir stúku Akranesvallar.

Verkefnið styrkt um 40% af byggingarkostnaði

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri fór yfir forsögu þess að ráðist var í framkvæmdina. Árið 2014 var minningarsjóði í nafni Jóns Gunnlaugssonar úrvegsbónda og Guðlaugar Gunnlaugsdóttur húsmóður frá Bræðraparti á Akranesi formlega slitið. Stjórn minningarsjóðsins ákvað að ráðstafa 14 milljónum króna til uppbyggingar á heitri laug við Langasand ásamt því að úthluta öðrum styrkjum til samfélagsins á Akranesi, alls 54 milljónum króna ásamt lóðum að verðmæti 66 milljónir. Tilgangur þessa sjóðs var að efla mannlíf og samfélag á Akranesi og veita ungum fátækum námsmönnum á Akranesi styrki til náms sem tengdist sjávarútvegi. Með breyttum aðstæðum og atvinnuháttum á Akranesi var ákveðið að leggja sjóðinn niður og ráðstafa stærstum hluta hans til málefna tengdum slysavörnum og samfélagsmálum á Akranesi. Í kjölfar styrkveitingarinnar var settur á laggirnar starfshópur til að útfæra verkefnið um uppbyggingu á heitri laug á Langasandi og skilaði hópurinn af sér tillögu á haustmánuðum 2015. Til viðbótar styrknum úr minningarsjóði Bræðrapartshjóna fékkst 30 milljóna króna styrkur úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Styrkir þessir dekka tæplega 40% af byggingarkostnaði en annan kostnað við mannvirkið og búningsaðstöðu sem komið hefur verið upp undir stúku Akranesvallar greiðir Akraneskaupstaður. Fram kom hjá Sævar Frey að heildarkostnaður vegna byggingar og hönnunar Guðlaugar og búningaaðstöðu nemur 115-120 milljónum króna. Sagði hann að það væri um 4-8% umfram upphaflega kostnaðaráætlun við verkefnið. Nettókostnaður Akraneskaupstaðar verður því 71-76 milljónir króna.

„Guðlaug er frábær viðbót hér á Akranesi fyrir bæði heimamenn og gesti og erum við full stolts að standa hér í dag og vígja laugina,“ sagði Sævar. Tvímælalaust mun mannvirki þetta laða að ferðamenn en ekki síður auka umferð og notkun heimafólks á þeirri náttúruparadís sem Langisandur er.

Opin í fyrstu fjóra daga vikunnar

Guðlaug verður opin í vetur alla miðvikudaga og föstudaga frá klukkan 16-20 og laugardaga og sunnudag frá klukkan 10 til 14. Opnunartími getur tekið breytingum og eru gestir laugarinnar hvattir til að fylgjast með upplýsingum um rekstur laugarinnar á facebooksíðu Guðlaugar. Laugin er gjaldfrjáls.

Nánar í næsta Skessuhorni.

Byggingarleyfi fyrir legsteinasafn fellt úr gildi

lau, 08/12/2018 - 11:50

Síðastliðinn fimmtudag kvað úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála upp úrskurð í kærumálum sem snerta deiliskipulag fyrir Húsafell II í Borgarfirði og veitingu byggingarleyfis fyrir listaverkahús og pakkhús á deiliskipulögðu svæði. Eigendur fasteignar á samliggjandi lóð, Gamla bæ á Húsafelli I, kærðu ákvörðun byggingafulltrúa Borgarbyggðar frá 12. janúar 2016 að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells II. Einnig kærðu þeir útgáfu byggingarleyfis til að reisa pakkhús á svæðinu og þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell II.

Mál þetta á sér nokkurra ára forsögu og tengist uppbyggingu safngarðs í landi Húsafells II þar sem listaverkum Páls Guðmundssonar hefur verið komið fyrir í nokkrum byggingum; uppgerðu gömlu fjósi, súrheysturni og gömlu pakkhúsi sem flutt var fyrir nokkrum árum frá Borgarnesi og komið fyrir á lóðinni. Það hús hýsir nú steinhörpusafn Páls, en fjós og turn annan hluta listaverkasafns hans. Jafnframt var sótt um og veitt byggingarleyfi fyrir nýju húsi sem byggja átti yfir steinasafn Húsfellinga, meðal annars forna legsteina sem varðveist hafa. Ítarleg frásögn af þessum áformum birtist í Skessuhorni í mars á þessu ári. Byggingarleyfi fyrir legsteinasafni var gefið út í janúar fyrir tæpum þremur árum og er húsið nú uppsteypt, eins og sést á meðfylgjandi mynd. Framkvæmdir við húsið hafa hins vegar legið niðri meðan beðið var niðurstöðu úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál.

Tveimur málum vísað frá og byggingarleyfi fellt úr gildi

Niðurstaða úrskurðarnefndar er þrískipt og tekur mið af kæruatriðum málshefjanda. Í fyrsta lagi er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingafulltrúa frá 18. ágúst 2015 um að samþykkja umsókn um leyfi til að flytja pakkhús á lóðina við Bæjargil í Húsafelli vísað frá úrskurðarnefndinni. Í annan stað er sömuleiðis vísað frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan. Það gerir UUA á þeirri forsendu að ekki ertil gilt skipulag fyrir svæðið. Loks í þriðja lagi úrskurðar nefndin kæranda í vil. Felld er úr gildi ákvörðun byggingafulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita leyfi fyrir byggingu húss undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

Húsbyggjendur í góðri trú

Í reifun á málinu segir meðal annars um byggingu legsteinahúss að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir með eðlilegar væntingar til gildis umrædds deiliskipulags og byggingarleyfis, útgefnu af þar til bæru yfirvaldi. „Þær hafi staðið í um það bil ár án athugasemda kæranda þegar kæra hafi verið send nefndinni. Hafi byggingarleyfishafi því mátt vera í góðri trú um að öll tilskilin leyfi og formsatriði væru til staðar. Kunni framkvæmdir að verða unnar fyrir gíg verði kæran tekin til greina, rúmum þremur árum eftir gildistöku deiliskipulagsins og rúmu einu og hálfu ári eftir að úrskurður nefndarinnar um frávísun og synjun um endurupptöku málsins hafi legið fyrir. Samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina skuli úrskurðir hennar vera fullnaðarúrskurðir á stjórnsýslustigi og hafi byggingarleyfishafi því eðlilega vænst þess að niðurstaða nefndarinnar væri endanleg.“ Þá segir í úrskurðarorðum nefndarinnar að hinu kærða byggingarleyfi sjái hvorki stoð í gildu deiliskipulagi né fór málsmeðferð þess að undantekningarákvæðum skipulagslaga um grenndarkynningu. „Verður byggingarleyfið þegar af þeim sökum fellt úr gildi.“

Mál þetta er nú í ákveðinni pattstöðu. Húsbyggjendur legsteinasafns eru nú án byggingarleyfis þar sem úrskurðarnefndin hefur nú fellt það úr gildi fyrir hálfbyggt hús án byggingarleyfis og án samþykks deiliskipulags, enda má lesa úr málsreifun nefndarinnar að lögmæti þess orki tvímælis. Sömuleiðis kýs nefndin að vísa frá kæru er snýr að veitingu byggingarleyfis fyrir pakkhús.

Lesa má úrskurð nefndarinnar í heild sinni má hér

Hálka á fjallvegum og víða hálkublettir

lau, 08/12/2018 - 10:52

Hálka er á Fróðárheiði og á Vatnaleið á Snæfellsnesi, samkvæmt tilkynningu frá Vegagerðinni. Annars eru hálkublettir mjög víða í landshlutanum

Blöð Skessuhorns til jóla

fös, 07/12/2018 - 15:04

Nú í jólamánuðinum eiga tvö blöð eftir að koma út af Skessuhorni. Næsta blað er miðvikudaginn 12. desember og verður með hefðbundnu sniði. Jólablað Skessuhorns kemur svo út miðvikudaginn 19. desember. Að vanda verður það stærsta blað ársins. Auglýsendum og þeim sem þurfa að koma að efni í Jólablaðið er bent á að vera tímanlega með pantanir og innsent efni sökum stærðar þess. Auglýsingapantanir þurfa að berast í síðasta lagi fimmtudaginn 13. desember á auglysingar@skessuhorn.is Efni til ritstjórnar þarf að berast í síðasta lagi sunnudaginn 16. desember, helst áður. Fyrsta blað á nýju ári kemur út fimmtudaginn 3. janúar 2019.

Grunur um salmonellu í kjúklingi

fös, 07/12/2018 - 15:03

Matvælastofnun vekur athygli neytenda á að grunur er um salmonellu í ferskum kjúklingi frá Matfugli. Dreifing hefur verið stöðvuð og varan innkölluð.

Innköllunin á einungis við um eftirfarandi rekjaleikanúmer:

  • Vörumerki: Kjúklingurinn er m.a. seldur undir merkjum Bónusar, Krónunnar og Ali
  • Framleiðandi/heimilisfang: Matfugl ehf. Völuteigi 2, Mosfellsbæ
  • Rekjanleikanúmer: 215-18-44-1-06
  • Dreifing: Verslanir Bónusar, Krónunnar, Fjarðarkaupa og Iceland verslanir. Veitingarstaðir Saffran og KFC.

Neytendur sem keypt hafa kjúkling með þessu rekjanleikanúmeri eru beðnir um að skila honum í viðkomandi verslun eða beint til Matfugls ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ. Matfugl veitir nánari upplýsingar í s. 412-1400.

Lilja Rannveig tekur sæti á þingi

fös, 07/12/2018 - 14:45

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir frá Bakkakoti í Stafholtstungum tók í dag sæti á Alþingi í fjarveru Ásmundar Einars Daðasonar félagsmálaráðherra. Lilja Rannveig skipaði fjórða sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í NV kjördæmi við síðustu kosningar, en 1. varamaður er Stefán Vagn Stefánsson á Sauðárkróki. Lilja Rannveig er 22 ára háskólanemi og formaður Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF).

Oddviti Miðflokksins á Akranesi segir sig úr flokknum

fös, 07/12/2018 - 13:33

Helga K Hauk Jónsdóttir, sem leiddi lista Miðflokksins fyrir bæjarstjórnarkosningar á Akranesi í vor, hefur sagt sig úr flokknum. Með bréfi sem hún hefur sent forystu Miflokksins segist hún miður sín yfir hegðun manna í svokölluðu Klausturbarsmáli. Segir hún að þingmenn eigi skilyrðislaust að segja af sér þingmennsku og kalla til varamenn. Bréf Helgu er svohljóðandi:

„Ég er bara miður mín yfir hegðun manna og umræðunni síðustu daga. Eftir að hafa hlustað á upptökur af svokallaða Klaustursmáli þá get ég ekki annað en skorað á þá sem eiga hlut að máli að segja af sér þingmennsku og axla ábyrgð. Þetta er ekki það sem ég stend fyrir; kvennfyrirlitning og níð á minnihlutahópa. Þið ættuð að skammast ykkar fyrir talsmáta ykkar. Axlið ábyrgð strax. Svona eiga kjörnir fulltrúar ekki að haga sér. Það er til fullt af góðu fólki sem getur tekið við af ykkur. Þó þið haldið annað. Ég sé engar yfirbætur með hegðun ykkar. Ég persónulega og við öll höfum skaðast. Við lögðum mannorð okkar við þennan flokk og þessa forustu og ekki má gleyma fólkinu sem kaus okkur.

Hegðun manna á Alþingi er orðin þannig að allir ættu að líta í eigin barm. Virðing á Alþingi hverfur með þessum hætti og ekki var hún nú mikil fyrir. Þið þingmenn eigið að vinna fyrir fólkið í landinu og vera fyrirmynd þess. Ekki sitja í skotgröfunum og níða hvort annað. Og ekki batnar það þegar Borgarleikhúsð býður fólki ókeypis að koma og hlæja að gerendum og þolendum þessa máls. Er þetta það sem við ætlum að kenna börnunum okkar í komandi framtíð? Ég undirrituð segði hér með skilið við Miðflokkinn.

Fyrrum oddviti Miðflokksins á Akranesi fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar,

Helga K Haug Jónsdóttir.“

Trúnaðarráð mótmælir uppsögnum Norðuráls

fös, 07/12/2018 - 12:55

„Vegna uppsagna á 20 starfsmönnum Norðuráls þá vill trúnaðaðarráð stéttarfélagana mótmæla harðlega framgöngu yfirstjórnar Norðuáls sem ítrekað er að brjóta kjarasamning stéttarfélaganna og Norðuráls,“ segir í tilkynningu frá trúnaðarráði starfsmanna Norðuráls. „Brotin er grein 8.09.1 þar sem segir að tilkynna skuli trúnaðarmönnum með fyrirvara verulegar breytingar á rekstri og vinnutilhögun og það var ekki gert. Varðandi ástæður uppsagna 20 manna úr ýmsum deildum fyrirtækisins er tilgreind ástæða hár launakostnaður fyrirtækisins. Við viljum vekja eftirtekt á viðtali síðan í febrúar 2018 sem Bloomberg fréttastofan átti við Mike Bless forstjóra Century móðurfélags Norðuráls. Þar tilgreinir hann að launakostnaður hjá álfyrirtækjum Century sé ekki það sem valdi erfiðleikum í rekstri heldur hráefniskostnaður og annar fastur kostnaður. Jafnvel launakostnaður uppá 10% sé ekki vandamál.“

Sjá viðtal og yfirlýsing Mike Bless kemur í endann á viðtalinu:

https://www.youtube.com/watch?v=P7TZEeI1Y9k

„Einnig má benda á upplýsingar um laun Mike Bless frá 2017 þar sem tekið er fram að grunnlaun eru $850,000 heildarlaun $1,996,250.“

https://www1.salary.com/Michael-Bless-Salary-Bonus-Stock-Options-for-CENTURY-ALUMINUM-CO.html

„Greinilega má skera niður laun annarsstaðar en hjá starfsfólki Norðuráls,“ segir í tilkynningu trúnaðarráðs starfsmanna Norðuráls.

 

Trúnaðarráð starfsmanna Norðuráls:

______________________________

Adam Benedikt Burgess Finnsson

Aðaltrúnaðarmaður

______________________________

Magnús Már Haraldsson

Trúnaðarmaður Stéttarfélags Vesturlands

______________________________

Guðbjörn Árni Gylfason

Trúnaðarmaður FIT

______________________________

Guðjón Viðar Guðjónsson

Trúnaðarmaður Rafiðnaðarsambands Íslands

______________________________

Guðmundur Kristján Jakobsson

Trúnaðarmaður Verkalýðsfélags Akraness

______________________________

Kristófer Arnar Júlíusson

Trúnaðarmaður Verkalýðsfélags Akraness

 

Snæfellingar töpuðu fyrir austan

fös, 07/12/2018 - 10:07

Snæfell mátti játa sig sigrað gegn Hetti, 84-67, þegar liðin mættust í níundu umferð 1. deildar karla í körfuknattleik. Leikið var á Egilsstöðum í gærkvöldi.

Jafnt var á með liðinum framan af fyrsta leikhluta. Heimamenn náðu þó yfirhöndinni um hann miðjan og leiddu með níu stigum þegar leikhlutinn var úti, 23-14. Snæfellingar léku prýðilega í öðrum fjórðungi og minnkuðu muninn niður í fjögur stig áður en flautað var til hálfleiks, 35-31.

Þeir mættu síðan mjög ákveðnir til síðari hálfleiks, komu sér snarlega upp að hlið Hattar og náðu forystunni snemma í þriðja leikhluta. Heimamenn jöfnuðu í 46-46 þegar leikhlutinn var hálfnaður og náðu síðan góðum spretti og ellefu stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn, 63-52. Snæfellingar náðu ekki að koma til baka í lokafjórðungnum. Leikmenn Hattar stjórnuðu ferðinni og juku forskotið lítið eitt það sem eftir lifði leiks. Þegar lokaflautan gall var munurinn orðinn 17 stig. Höttur sigraði með 84 stigum gegn 67 stigum Snæfellinga.

Reynsluboltinn Darrel Flake var stigahæstur í liði Snæfells með 19 stig og fimm fráköst að auki. Dominykas Zupkauskas átti einnig góðan leik með 17 stig, tíu fráköst og sex stoðsendingar og Aron Ingi Hinriksson skoraði 14 stig.

Charles Clark var með 21 stig og sex fráköst í liði Hattar, David Guardia Ramos var með 18 stig og fimm fráköst og Pranas Skurdauskas skoraði 13 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Snæfell er án sigurs á botni deildarinnar eftir níu leiki, tveim stigum á eftir Sindra í sætinu fyrir ofan. Næst leikur Snæfell gegn Fjölni fimmtudaginn 13. desember. Sá leikur fer fram í Stykkishólmi.

Ríflega fimm miljónir runnu til Minningarsjóðs Einars Darra

fös, 07/12/2018 - 10:01

Af tilefni 25 ára afmælis Domino‘s á Íslandi bauð pizzastaðurinn upp á ýmis tilboð í lok nóvember. Í stað þess að hafa sérstakt tilboð laugardaginn 24. nóvember síðastliðinn rann 25% af allri sölu á Domino‘s pizzum til Minningarsjóðs Einars Darra sem styrkir baráttuna Ég á bara eitt líf. Alls söfnuðust 5.295.269 krónur og rennur upphæðin óskipt til Minningarsjóðsins.

Guðlaug opnuð á morgun

fös, 07/12/2018 - 09:29

Guðlaug, heit laug við Langasand á Akranesi, verður formlega tekin í notkun á morgun, laugardaginn 8. desember kl. 14:00.

Boðið upp á kaffi og konfekt á Aggapalli að athöfn lokinni. Þá verður þeim sem vilja jafnframt boðið að fara til laugar og eru gestir því minntir á að hafa sundfötin með sér.

Viðgerð á Hellnakirkja mjög aðkallandi verkefni

fös, 07/12/2018 - 09:01

Arnaldur Máni Finnsson sóknarprestur á Staðastað segir að ferðalangar, innlendir sem erlendir, tali oft um og hrífist af öllum litlu fallegu kirkjunum á landsbyggðinni. Það sé þó langt í frá að hægt sé að sýna þær allar eða hafa þær almennt opnar, eins og tíðkaðist, en þær séu vinsælar þegar sómi sé að þeim. Búðakirkja sé dæmi um slíkt og ferðist fólk þvert um heiminn til að gifta sig þar. „Hellnakirkja er líka á svona stað, í magnaðri náttúru, með mikla sögu og steinsnar frá eina opinbera pílagrímastað kaþólskra á Íslandi, Maríulindinni undir hraunjaðrinum. Elsti gripurinn er Maríumynd sem varðveitt er á Þjóðminjasafninu og sagan er samtengd þessari fortíð sem við svo mörg horfum framhjá,“ segir Arnaldur Máni. Hann bætir því við að undir jökli voru gríðarlega öflug samfélög á þess tíma mælikvarða, þar sem útræðið var grundvöllur lífsafkomunnar fremur en landbúnaðurinn. Hann segir að þó kirkjur á Einarslóni og Laugabrekku séu löngu aflagðar þá sýni staða þeirra í eina tíð hvernig hafi verið búið í landinu. „Ef við gleymum þessu öllu eins og að drekka vatn þá verðum við í raun sögulaus þjóð og þeir reitir sem eru okkur heilagir og skapa tengingu við söguna missa merkingu sína. Það er ástæðan fyrir því að við þurfum ekki bara að bjarga Hellnakirkju frá frekari eyðileggingu heldur hafa sýn fyrir hana sem býr til samhengi og tengingar til framtíðar,“ bætir Arnaldur við. Hann telur að rétti tíminn til að leggjast á árarnar í þessu verkefni sé kominn.

Menningarsjóðurinn undir Jökli hefur boðað til aðventusamsætis næstkomandi sunnudag ásamt sóknarnefndinni til að kynna björgunaraðgerðirnar um leið og skapa á samtal um framtíðarsýn fyrir kirkjuna sem m.a. skartar einu merkasta verki Jóhannesar Helgason útskurðarmeistara frá Gíslabæ á Hellnum en hann varð úti ungur að árum. Jóhannes var af mörgum talinn mesta listamannsefni sinnar tíðar þegar kom að tré og handverki.

Síður