Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 27 mín 50 sek síðan

Líf og fjör á Tæknimessu í FVA

2 klukkutímar 57 sek síðan

Síðastliðinn fimmtudag fór Tæknimessa fram í Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hana sóttu nemendur elsta stigs grunnskólanna á Vesturlandi, nemendur 8.-10. bekkja, alls um 750 manna hópur ásamt kennurum. Nokkur fyrirtæki voru að auki og kynntu starfsemi sína og allar iðnbrautir í FVA voru með kynningar sem og afreksbraut skólans. Þá voru eldsmiðir fyrir utan skólann og sýndu og sögðu frá sínu handverki.

Á Tæknimessu er markmiðið að kynna námsframboð á Vesturlandi á sviði iðngreina fyrir nemendum sem nú eru farnir að huga að því hvað þeir vilja læra að grunnskóla loknum. Þá eru einnig kynnt atvinnutækifæri hjá iðn- og tæknifyrirtækjum í landshlutanum. Fjöldi fyrirtækja voru með kynningarbása þar sem nemendum bauðst að spyrja, skoða eða jafnvel að prófa það sem fyrirtækin höfðu upp á að bjóða. Mikið líf og fjör var í skólanum þennan dag og prýðileg stemning þegar blaðamaður Skessuhorns leit inn um morguninn.

Fleiri myndir frá Tæknimessu er að finna í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Haustfagnaður í Dölum framundan

2 klukkutímar 45 mín síðan

Árlegur haustfagnaður Félags Sauðfjárbænda í Dalasýslu fer fram helgina 25. til 27. október næstkomandi. Um er að ræða uppskeruhátíð sauðfjárbænda í Dölum.

Nokkur breyting verður á hátíðinni í ár þar sem ákveðið var að hvíla Íslandsmeistaramótið í rúningi en þess í stað verður meiri áhersla lögð á hrútasýningarnar. „Það eru nokkrar ástæður fyrir því að stjórnin tók þá ákvörðun að gera breytingu á hátíðinni.  Í fyrsta lagi fylgir þessum undirbúningi mikið álag.  Í öðru lagi fannst okkur Íslandsmeistaramótið í rúningi vera orðið heldur staðnað hjá okkur og að sumra mati ekki nógu áhorfendavænt en félagið vinnur að því að finna þessari keppni annan farveg og hvort hann verður hér eða einhvers staðar annars staðar á landinu verður tíminn að leiða í ljós. Þar sem dagskráin sem fram fór í Reiðhöllinni í Búðardal var ekki að skila félaginu neinu nema kostnaði ákváðum við að létta aðeins álagið á okkur og sleppa öllu þar í ár,“ segir Anna Berglind Halldórsdóttir í Magnússkógum, formaður Félags Sauðfjárbænda í Dalasýslu, í samtali við Skessuhorn.

 

Gera hútasýningum hærra undir höfði

Hátíðin hefst á föstudagskvöldinu klukkan sex með hrútasýningu í Suðurhólfinu. „Sú sýning verður haldin á Stóra-Vatnshorni í Haukadal í ár og við ætlum að bjóða fyrirtækjum sem selja landbúnaðartengdar vörur að koma og hitta bændur og kynna fyrir þeim það sem þeir eru að bjóða uppá. Þetta er ekki hugsað sem vélasýning heldur meira bara sem tækifæri til að koma og spjalla, dreifa bæklingum og jafnvel bjóða upp á einhver tilboð. Hugmyndin er nefnilega að hrútasýningin verði aðeins meiri viðburður en áður,“ segir Anna.

Laugardagurinn byrjar svo á hrúasýningu í Norðurhólfinu á Breiðabólsstað á Fellsströnd og hefst hún klukkan ellefu. „Þar ætlum við að bjóða upp á markað, eins og áður hefur verið í reiðhöllinni.  Á markaðinum getur fólk sem er að framleiða og skapa vörur komið og selt sinn varning. Við hugsum dagskránna þar meira fyrir handverk og matvöru heldur en vélasýningu,“ útskýrir Anna.

Nánar í Skessuhorni vikunnar.

Tónlistarhátíðin Heima-Skagi haldin í fyrsta sinn

3 klukkutímar 46 mín síðan

Tónlistarhátíðin Heima-Skagi verður haldin í fyrsta sinn á Akranesi föstudaginn 1. nóvember næstkomandi. Er hún haldin í tengslum við menningarhátíðina Vökudaga, sem stendur yfir í bænum frá 24. október til 3. nóvember. Á Heima-Skaga hátíðinni munu koma fram sex tónlistarmenn/flytjendur, sem spila tvisvar sinnum hver á sex stöðum á Akranesi. Á einu kvöldi verða því haldnir samtals tólf tónleikar. Fyrst og fremst fer hátíðin fram í heimahúsum, þar sem íbúar bjóða heim, en einnig verða tónleikar í Bárunni brugghúsi og Akraneskirkju.

 

Eftirvænting í loftinu

Skipuleggjendur hátíðarinnar eru Ólafur Páll Gunnarsson og Hlédís Sveinsdóttir. Fyrirmyndin að hátíðinni er fengin frá færeyska bænum Gøtu, í gegnum Hafnarfjörð. Þar hafa tónlistarhátíðir með sambærilegu sniði verið haldnar undanfarin ár. En hvernig kom það til að ákveðið var að heimfæra þessa hugmynd upp á Akranes? „Ég er búinn að reyna að láta mér detta í hug einhverja sniðuga lítil tónlistarhátið til að halda hérna síðan ég flutti aftur á Skagann en ekki fengið neina betri hugmynd en þessa. Enda er þetta mjög góð hugmynd og gott konsept sem er bæði skemmtilegt og þakklátt í framkvæmd,“ segir Óli Palli í samtali við Skessuhorn, „Þetta hefur alveg svínvirkað í Hafnarfirðinum svo núna var ákveðið að kýla á þetta á Skaganum,“ segir hann.

 

„Á að vera notalegt“

Þeir sem koma fram á Heima-Skaga hátíðinni í ár eru Friðrik Dór, Högni Egilsson, Jónas Sig, Ragnheiður Gröndal, Úlfur Úlfur og Valgeir Guðjónsson. Tónlistarflutningur verður í fjórum heimahúsum í gamla bænum á Akranesi; Vesturgötu 32, Vesturgötu 71b, Skólabraut 20 og Grundartúni 8. Auk þess verða tónleikar í Akraneskirkju og Bárunni brugghúsi. „Allir staðirnir eru á Neðri-Skaganum, í góðu göngufæri hver frá öðrum. Það er lykilatriði í þessu. Þetta er innihátíð og fólk á aðeins að vera örfáar mínútur að skjótast á milli staða,“ segir Óli Palli. „Í heimahúsum, þar sem komast bara 15-20 manns inn, þá skapast oft mikil nánd á tónleikum sem mörgum þykir skemmtilegt. Þá erum við einnig mjög þakklát kirkjunni fyrir að hafa tekið okkur opnum örmum sem og Bárunni brugghúsi. Hugmyndin er að þetta sé notalegt, en stundum verður auðvitað líka mikið stuð. En það er ekkert sem segir að þetta tvennt geti ekki farið saman. Það getur verið mjög notalegt á tónleikum þó það sé líka mikið stuð. Við skipuleggjendurnir erum mjög spenntir að sjá hvernig þetta kemur út,“ segir Óli Palli að endingu.

 

 

Myndasyrpa – Vestlenskir framhaldsskólanemar kepptu í WestSide

4 klukkutímar 43 mín síðan

Í gær fór fram í Borgarnesi árleg íþróttakeppni framhaldsskólanna þriggja á Vesturlandi. Keppnin nefnist WestSide en þar eigast við í skemmtilegum leik nemendur Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi, Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi og Fjölbrautaskóla Snæfellinga í Grundarfirði. Keppt var í Gettu betur og ýmsum íþróttagreinum. Það var Fjölbrautaskóli Snæfellinga sem fór með sigur af hólmi í samanlagðri stigakeppni skólanna og fóru því heim með bikarinn, annað árið í röð. Eftir íþróttakeppnina var kvöldmatur en að honum loknum var ball í Menntaskólanum í Borgarnesi fram yfir miðnætti. Gunnhildur Lind ljósmyndari Skessuhorns kíkti við í íþróttahúsinu í Borgarnesi síðdegis í gær þegar keppt var í blaki.

Sigurður Örn Sigurðsson, íþróttakennari við Menntaskólann í Borgarnesi, betur þekktur sem „Sössi“ hjá nemendum skólans. Hér fundar hann með nemendum sínum áður en blakkeppnin hófst.

Nemendur úr MB. F.v. Marinó Þór Pálmasson, Bjartur Daði Einarsson og Arna Hrönn Ámundadóttir.

Góð tilþrif hjá leikmanni NFFA.

Leikmenn NFSN ekkert nema einbeitingin uppmáluð.

Viðureign NMB og NFSN endaði með jafntefli svo það var framlengt þangað til annað hvort liðið skoraði úrslitastigið, leikar enduðu með Borgarnes-sigri.

Nemendur hvöttu sitt fólk áfram af pöllunum í Fjósinu í Borgarnesi.

Nemendur frá NFSN og NFFA í blakleik.

Vinirnir áfram með Bíóhöllina

5 klukkutímar 44 mín síðan

Bæjarráð Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi sínum síðasta fimmtudag tillögu menningar- og safnanefndar að samið verði við Vini hallarinnar ehf. um áframhaldandi rekstur og umsjón Bíóhallarinnar árin 2020-2023. Aðeins eitt tilboð barst í reksturinn þegar það var auglýst nú í haust, frá Vinum hallarinnar sem hafa annast reksturinn undanfarin ár og munu gera áfram.

Lög sem eiga að styrkja minnihlutavernd í veiðifélögum

6 klukkutímar 44 mín síðan

Styrking minnihlutaverndar í veiðifélögum, aðkoma Hafrannsóknastofnunar að gerð arðskráa veiðiáa og afnám milligöngu hins opinbera um greiðslu kostnaðar af arðskrármati eru áherslur í nýju frumvarpi um breytingar á lögum um lax- og silungsveiði, sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur lagt fram á Alþingi. Í frumvarpinu er að finna tillögur að þremur meginbreytingum á núgildandi lögum:

Í fyrsta lagi verður minnihlutavernd í veiðifélögum styrkt með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Breytingin hefur það í för með sér að enginn einn aðili geti drottnað yfir málefnum veiðifélaga. Með breytingunni verður hámark atkvæða sem sami aðili eða tengdir aðilar geta farið með á félagsfundi, í krafti eignarhalds, mest 30 prósent.

Þá verður breytt skipan arðskrárnefndar. Lagt er til að Hafrannsóknastofnun geri ábendingu um fulltrúa í nefndina í stað þess að óskað verði tilnefningu Hæstaréttar. Þetta er gert til að auka fiskfræðilega þekkingu í nefndinni og er í samræmi við ábendingar starfshóps um gerð arðskráa í veiðivötnum frá árinu 2015. Veiðifélögum er skylt að gera arðskrá, sem sýnir hluta af veiði eða arð af veiði sem koma skal í hlut fasteigna, lögaðila eða einstaklinga sem eiga veiðirétt í vatni á félagssvæði, en arðskrárnefndin sker úr um ágreining um arðskrá með matsgerð.

Loks er metin óþörf milliganga hins opinbera um greiðslu kostnaðar af arðskrármati. Með þessu er lagt til að veiðifélög greiði arðskrárnefnd beint fyrir vinnu sína í stað þess að atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið greiði fulltrúum í nefndinni og endurkrefji síðan veiðifélög.

Ekki lengur þörf á að sjóða vatn úr Grábrókarhrauni

7 klukkutímar 7 mín síðan

„Veitur, að höfðu samráði við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, aflétta hér með tilmælum til viðskiptavina vatnsveitu fyrirtækisins úr Grábrókarhrauni um suðu neysluvatns,“ segir í tilkynningu sem var að berast frá Veitum. „Sýni tekin úr vatnsbólinu sjálfu og víðar úr veitukerfinu síðustu daga hafa staðist gæðakröfur og settur hefur verið upp lýsingarbúnaður við vatnsbólið sem tryggir enn frekar öryggi vatnsins. Veitur biðja viðskiptavini velvirðingar á öllum þeim óþægindum sem þetta hefur valdið og þakka þeim fyrir að sýna stöðunni skilning.“

Það var fimmtudaginn 3. október síðastliðinn að fyrst vaknaði grunur um gerlamengun í vatnsbólinu í Grábrókarhrauni. Það þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Þá þegar ráðlögðu Veitur íbúum að sjóða neysluvatn. Daginn eftir var þeim tilmælum aflétt þar sem nýjustu sýni úr vatnsbólinu stóðust kröfur. Engu að síður ákváðu Veitur að hefja daglega sýnatöku úr vatnsbólinu og að setja þar upp lýsingarbúnað. Lýsing á vatni með útfjólubláu ljósi er mjög áhrifarík leið til að hreinsa drykkjarvatn og gera það öruggt til neyslu án þess að hafa önnur áhrif á vatnið eða gæði þess.

Viku síðar, fimmtudaginn 10. október, vaknaði aftur grunur um að gerlar væru í vatninu. Þá gáfu Veitur og Heilbrigðiseftirlit Vesturlands út tilmæli um suðu neysluvatns frá vatnsbólinu. Í ljósi þess hversu stutt var frá fyrri grun og að stutt væri í að lýsingarbúnaður væri orðinn virkur, var ákveðið í öryggisskyni að láta tilmælin ná til dagsins í dag, miðvikudagsins 16. október.

Auk þess að senda fjölmiðlum tilkynningar, höfðu Veitur símleiðis samband við viðkvæma viðskiptavini, svo sem heilbrigðisstofnanir og skóla, og sendu tilkynningar til þeirra viðskiptavina sem fyrirtækið hefur farsímanúmer eða netföng hjá. Þar sem Veitur hafa ekki slíkar upplýsingar hjá öllum viðskiptavinum, var einnig leitað til Neyðarlínunnar 112 um að koma SMS-skilaboðum til fólks á áhrifasvæði vatnsveitunnar.

Lýsingarbúnaðurinn er samskonar og Veitur hafa rekið við vatnsból Akurnesinga um árabil. Búnaðurinn við vatnsbólið í Grábrókarhrauni hefur nú verið í prófun og stillingum frá laugardeginum 12. október. Fylgst hefur verið með virkni hans með daglegum sýnatökum. Vegna þess að tíma tekur að fá vísbendingar úr sýnatökum og vegna þess að vatnið er lengi á leiðinni frá vatnsbólinu í Grábrókarhrauni í krana neytenda í Borgarfirði, hafa Veitur ekki viljað aflétta tilmælum til viðskiptavina vatnsveitunnar fyrr en nú.

Vísindafólk Veitna á nú í samstarfi við rannsóknarstofur hvorttveggja um að útiloka tiltekna möguleika á upptökum mengunarinnar og að rannsaka aðra kosti frekar. Slíkar rannsóknir munu taka nokkurn tíma. Lýsingarbúnaðurinn sem settur hefur verið upp á að tryggja öryggi vatnsbílsins en engu að síður verður áfram grannt fylgst með gæðum vatnsins úr Grábrókarhrauni.

Sveitarstjórn staðfesti Teigsskógarleið

7 klukkutímar 25 mín síðan

Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á fundi sínum síðdegis í gær breytingu á aðalskipulagi hreppsins sem felur í sér að Vestfjarðavegur verði lagður eftir svokallaðri Þ-H leið. Felur hún í sér veg um Teigsskóg og þverun þriggja fjarða; Þorskafjarðar, Djúpafjarðar og Gufufjarðar. Var skipulagsbreytingin samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.

Meirihluti sveitarstjórnar lagði fram þriggja síðna rökstuðning með ákvörðun sinni. Þar lýsir meirihlutinn því að hann telji sveitarfélagið hafa uppfyllt rannsóknarskyldu sína í undirbúningi ákvörðunarinnar. Brýn þörf sé á samgöngubótum, en sveitarfélaginu sé óheimilt að leggja fram valkost R, eins og skipulagsnefnd hafði lagt til, þar sem umferðaröryggi hennar hafi verið metið minna en annarra leiða í umferðaröryggismati Vegagerðarinnar. Þá hafi sveitarfélagið við vinnu sína fengið skýr svör þess efnis að ekki yrði unnt að bæta við 4-6 milljörðum við þá fjárveitingu sem þegar liggur fyrir í Vestfjarðaveg. „Því er það niðurstaða að hagsmunir samfélagsins vegna bættra samgangna séu meiri en þau neikvæðu umhverfisáhrif sem þau hafi í för með sér,“ segir í rökstuðningi meirihlutans með ákvörðun sinni.

Tryggvi Harðarson sveitarstjóri segir í samtali við Skessuhorni að nú fari aðkomu sveitarfélagsins að málinu senn að ljúka. Þegar skipulagið hefur verið staðfest af Skipulagsstofnun mun Vegagerðin sækja um framkvæmdaleyfi og hafa forsvarsmenn hennar gefið það út út að þeir vonist til að framkvæmdir geti hafist á næsta ári. Tryggvi segir að sveitarfélagið hyggist afgreiða umsókn um framkvæmdaleyfi eins fljótt og auðið er. Þar með verður þeim þáttum málsins sem snúa að sveitarfélaginu lokið. Tryggvi bætir þó við að nokkrir aðilar hafi boðað að þeir muni kæra framkvæmdaleyfið þegar það hefur verið gefið út. Verði framkvæmdaleyfið kært fær málið sinn farveg fyrir dómstólum.

Styrktartónleikar fyrir ungar hetjur

8 klukkutímar 16 mín síðan

Laugardaginn 26. október nk. verða styrktartónleikar fyrir Ester Eir og Ólavíu í Tónbergi sal Tónlistarskólans á Akranesi. Ester Eir og Ólavía eru ungar Skagastúlkur sem báðar glíma við erfið veikindi og mun allur ágóði tónleikanna renna til þeirra og fjölskyldna þeirra.

Fram koma: Agnar Már Magnússon á píanó, Ari Bragi Kárason á trompet, Brynja Valdimarsdóttir syngur, Einar Scheving á trommur og Haraldur Ægir Guðmundsson á kontrabassa. Miðasala er á tix.is og kostar miðinn 3.000 kr. Vilji fólk styrkja hetjurnar tvær og þeirra fjölskyldur, en sjá sér ekki fært að mæta á tónleikana, er hægt að leggja inn á styrktarreikning 0186-26-010445 kt: 261085-2759. Nánari upplýsingar um tónleikana er hægt að finna á Facebook viðburðinum Styrktartónleikar fyrir Ester Eir og Ólavíu.

Breyta afgreiðslutíma Arion banka

8 klukkutímar 45 mín síðan

Útibú Arion banka í Stykkishólmi verður frá og með 1. nóvember næstkomandi opið frá klukkan 10 til 15 alla virka daga. Þessi nýi opnunartími felur í sér að útibúið verður opið í hádeginu á virkum dögum sem er breyting frá því sem verið hefur, en afgreiðslutíminn styttur um eina klukkustund í staðinn í báða enda. Að sögn Sindra Sigurgeirssonar svæðisstjóra Arion banka á Vesturlandi er með þessu verið að leita hagræðingar í rekstri, en hann kveðst vonast til að breytingin hafi fleiri kosti en galla í för með sér fyrir viðskiptavini bankans.

Besta birkið – rautt og grænt með kvöldskattinum í Borgarnesi

9 klukkutímar 45 mín síðan

Skógræktarfélag Borgarfjarðar og Rótarýklúbbur Borgarness hafa bundist höndum saman og efna til fundar miðvikudaginn 23. október næstkomandi með dr. Þorsteini Tómassyni plöntuerfðafræðingi, sem mun flytja erindi um kynbætur á íslenska birkinu. „Tekist hefur að rækta upp beinvaxið birki, sem er í senn með auknum vaxtarhraða, veðurþolið og fallegt og ný kvæmi eru þegar komin í framleiðslu og sölu í garðyrkjustöðvum. Þorsteinn mun einnig segja frá birkikvæmi sem hefur verið framræktað, og hefur rauð blöð. Kvæmi úr þessum tilraunum eru kominn til framleiðslu og verða til að auka enn fjölbreytnina í íslenskum skógum,“ segir í tilkynningu.

Fundurinn hefst stundvíslega klukkan 18:30 og verður á Hótel B59 í Borgarnesi. „Matur – kvöldskatturinn – verður í upphafi fundar og kostar 2.500 krónur. Miklu skiptir að vitað verði hversu margir komi til þessa matarfundar og eru gestir beðnir um að tilkynna þátttöku til Margrétar Vagnsdóttur: margretv@bifrost.is,“ segir í tilkynningu frá Skógræktarfélaginu og Rótarýklúbbnum.

Við nyrstu voga

10 klukkutímar 45 mín síðan

Gissur Páll tenór og Árni Heiðar píanóleikari heimsækja Akranes og flytja íslensk sönglög af nýjum geisladiski, Við nyrstu voga, í Vinaminni á sunnudaginn. „Samstarf Gissurar Páls Gissurarsonar og Árna Heiðars Karlssonar spannar rúman áratug og hefur það verið afar farsælt. Þeir hafa nú tekið upp brot af því besta úr því samstarfi. Geisladiskurinn kemur út í þessari viku og inniheldur íslensk sönglög í þeirra túlkun. Allt eru þekkt sönglög og má þar nefna Sjá dagar koma, Rósina, Draumalandið og Hamraborgina. Tónleikarnir hefjast kl. 20 og er aðgangseyrir kr. 3.500,“ segir í fréttatilkynningu.

Fundað um vegamál á Vesturlandi

11 klukkutímar 45 mín síðan

Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi standa fyrir fundaröð um vegamál í landshlutanum í vikunni. Fundirnir verða haldnir á fjórum stöðum í dag og á morgun. Á þeim mun Ólafur Guðmundsson ráðgjafi kynna úttekt sína og mat á vegum á Vesturlandi. Ólafur er sérfræðingur í umferðaröryggi og hefur um árabil annast EuroRap öryggismat á vegakerfi landsins. Að kynningu hans lokinni verða umræður um vegamál.

Í dag, miðvikudaginn 16. október, verður fundað í Amtsbókasafninu í Stykkishólmi kl. 16:00 og í Dalabúð í Búðardal kl. 20:00. Á morgun, fimmtudaginn 17. október, verða fundir á Hótel B59 í Borgarnesi kl. 17:00 og í Miðgarði í Hvalfjarðarsveit kl. 20:00.

Stelpur sem ljúga er önnur spennusaga Evu Bjargar

Þri, 15/10/2019 - 14:13

Bókin Stelpur sem ljúga kom út nýverið en það er önnur bók Skagakonunnar Evu Bjargar Ægisdóttur. Eva Björg gaf út sína fyrstu bók vorið 2018, bókina Marrið í stiganum. Fékk hún mikið lof fyrir þá bók sem sat lengi vel í efstu sætum á metsölulistum. Þá hlaut hún einnig glæpasagnaverðlaunin Svartfuglinn, verðlaun sem rithöfundarnir Yrsa Sigurðardóttir og Ragnar Jónsson stofnuðu til í samvinnu við Veröld. Marrið í stiganum gerist á Akranesi, þar sem Eva Björg ólst upp, og heldur hún áfram að nota Vesturland sem sögusvið í nýju bókinni.

Stelpur sem ljúga er um einstæða móður sem hverfur af heimili sínu en skilur eftir skilaboð á eldhússborðinu fyrir 15 ára dóttur sína. Þá er talið víst að hún hafi fyrirfarið sér en lík hennar finnst svo illa farið í Grábrókarhrauni í Norðurárdal sjö mánuðum síðar og stendur lögreglan þá frammi fyrir flókinni morðgátu. Á sama tíma er sögð saga af nýbakaðri móður á fæðingadeild sem hefur óbeit af barninu. „Stelpur sem ljúga er grípandi og mögnuð spennusaga um það hvernig brotin æska og áföll geta leitt til skelfilegra atburða síðar á lífsleiðinni,“ segir í umfjöllun um bókina á vefsíðu Forlagsins.

Þess má geta að í dag klukkan 17-19 mun Eva Björg verða í Eymundsson á Akranesi og kynna og árita bókina á útgáfufagnaði.

Endurbætur á gömlum steynvegg við Ingjaldshólskirkju

Þri, 15/10/2019 - 13:54

Þessa dagana er unnið að endurbótum á steinsteyptum vegg sem liggur utan um kirkjugarð Ingjaldshólskirkju á Snæfellsnesi. Er veggurinn kominn til ára sinna og að hluta til fallinn niður, en framkvæmdir við hann hófust fyrst á árunum 1930 til 1936. Að ráðast í svona verkefni var mikið þrekvirki á þessum tíma, safnað var gjafafé og gjafadagsverkum og voru konur í Kvenfélagi Hellissands duglegar að leggja þessu góða málefni lið og gáfu þær flest dagsverkin sem þær létu svo karlana sína vinna.

Á þessum árum var Ingveldur Sigmundsdóttir skólastjóri formaður kvenfélagsins. Gaman er að segja frá því að ef kvenfélagskonur voru spurðar hvaða aðferðum þær beittu til að fá mennina sína til að vinna, svöruðu þær að þær hefðu sína aðferð og hún hrifi! Dæmi hver fyrir sig hver aðferðin var.

Kirkjugarðurinn var svo stækkaður í átt að kirkjunni árið 1971. Voru þá veggir framlengdir úr steinsteypu á austur- og vesturhlið garðsins en timburgrindverk sett á norðurhlið hans ásamt því að steyptar voru stífur við vesturvegginn og steypt í skarð sem komið var þá þegar á austurvegginn. Upplýsingar um vegginn og sögu hans voru fengnar hjá Smára Lúðvíkssyni. Tók hann þær saman úr Visitasíum og fundagerðum Ingjaldshólssóknar, en hann var í sóknarnefnd í 26 ár þar af formaður í 18 og kann fréttaritari honum þakkir fyrir.

Terra er nýtt nafn Gámaþjónustunnar

Þri, 15/10/2019 - 13:49

Nafni Gámaþjónustunnar var breytt mánudaginn 7. október síðastliðinn. Gengur fyrirtækið nú undir nafninu Terra. „Terra er latneskt heiti jarðargyðjunnar og eitt af nöfnum plánetunnar sem er heimkynni okkar allra og vel á við, enda snýr allt okkar starf að bættri umgengni við jörðina,“ segir um nafnabreytinguna á vef fyrirtækisins. Samhliða nýju nafni var nýtt merki félagsins kynnt til sögunnar. „Það byggir á hringformi sem vísar til jarðarinnar, en einnig birtist í merkinu spírað fræ, tákn sjálfbærni og endurnýjunar til framtíðar.“

Terra skilgreinir sig sem fyrirtæki í umhverfisþjónustu og býður sem fyrr upp á lausnir  til að safna og flokka úrgang og endurvinnsluefni auk þess að koma þeim efnum í réttan farveg. Með viðskiptavinum er unnið að því að flokka sem mest og jafnframt hvetur fyrirtækið til minni notkunar umbúða og efna sem þarfnast sérstakrar meðhöndlunar. Markmið Terra er að skilja ekkert eftir, að því er fram kemur á vefsíðu fyrirtækisins.

Fyrsta landsliðsmark Arnórs

Þri, 15/10/2019 - 09:49

Tvítugi Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson, sem spilar nú sem atvinnumaður í knattspyrnu með CSKA Moskvu, skoraði sitt fyrsta mark fyrir íslenska landsliðið þegar Ísland vann Andorra 2-0 á Laugardalsvelli á mánudagskvöldið. Arnór var valinn í byrjunarlið leiksins eftir að hafa setið á bekknum í leiknum gegn Frökkum á föstudaginn og má segja að hann hafi komið sterkur inn. Leikurinn í heild var fremur bragðdaufur fyrstu mínúturnar, en á 38. mínútu dró til tíðinda þegar Arnór kom Íslandi yfir og færðist í kjölfarið meira líf í leikinn. Það var svo Kolbeinn Sigþórsson sem kom með annað mark Íslands á 65. mínútu. Með því marki jafnaði Kolbeinn markamet Eiðs Smára Guðjónssen fyrir landsliðið. Ísland situr nú í þriðja sæti riðilsins með 15 stig, fjórum stigum á eftir Frakklandi og Tyrklandi.

Hrönn og Örn sæmd gullmerki UMFÍ

Þri, 15/10/2019 - 09:01

Hrönn Jónsdóttir var sæmd gullmerki Ungmennafélags Íslands á sambandsþingi sem haldið var um síðustu helgi, sem og Örn Guðnason. Bæði sátu þau í stjórn UMFÍ, Hrönn sem ritari en Örn varaformaður og hvorugt þeirra gaf kost á sér til áframhaldandi setu á þinginu.

Hrönn er 33 ára gömul og meðal þeirra yngstu sem hafa hlotið gullmerki UMFÍ í rúmlega 110 ára sögu hreyfingarinnar. Hún hefur setið í stjórn UMFÍ undanfarin sex ár, fyrst sem meðstjórnandi 2013-2015 og síðan sem ritari 2015-2019. Hrönn er frá Lundi í Lundarreykjadal, hefur tekið virkan þátt í starfi Ungmennasambands Borgarfjarðar í gegnum tíðina og var m.a. framkvæmdastjóri UMSB um tíma.

Örn hefur verið varaformaður UMFÍ undanfarin fjögur ár. Hann var áður ritari stjórnar frá 2007-2011 og aftur 2013-2015. Samtals hefur hann því verið tíu ár í stjórn. Þá var hann varaformaður HSK, framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss 2006-2013 og framkvæmdastjóri HSS 1982-1983, auk þess að hafa setið í fjölda framkvæmdanefnda landsmóta og annarra nefnda fyrir hreyfinguna. Hann er alinn upp á Hvolsvelli og var formaður Umf. Baldurs frá 1978-2980. Hann situr í stjórn Íslenskrar getspár sf. og í Íþróttanefnd ríkisins fyrir hönd UMFÍ.

HSH fékk hvatningarverðlaun UMFÍ

Þri, 15/10/2019 - 08:01

Þrír sambandsaðilar Ungmennafélags Íslands voru heiðraðir með hvatningarverðlaunum UMFÍ á sambandsþingi sem haldið var um helgina á Laugarbakka í Miðfirði.

Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) fékk hvatningarverðlaun fyrir að stuðla að auknu samstarfi meðal aðildarfélaga og fyrir að ná vel til barna af erlendum uppruna.

Ungmennasamaband Kjalarnesþings hlaut hvatningarverðlaun fyrir reiðskóla Hestamannafélagsins Harðar fyrir fatlaða og fólk með þroskahömlun og Ungmennsamband Austur-Húnvetninga fékk verðlaunin fyrir frumkvöðlastarf og verkefni fyrir eldri borgara.

Uppgötvaðu hæfileika þína á Starfsmenntaviku

Þri, 15/10/2019 - 06:01

Starfsmenntavikan er nú haldin í fjórða sinn undir kjörorðunum; „Uppgötvaðu hæfileika þína“. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra opnaði dagskrá hennar í gærmorgun: „Vel þjálfað og menntað starfsfólk, og frumkvæði þess og athafnavilji, eflir vinnumarkaðinn og eykur sveigjanleika hans. Við þurfum bæði hugvit og verkvit til þess að nýsköpun blómstri í okkar samfélagi og til þess að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir sem samfélag. Það liggja mikil sóknarfæri í að efla iðn- og starfsmenntun hér á landi og það er eitt af forgangsmálum okkar,“ sagði Lilja.

Af sama tilefni opnaði ráðherra vefinn Nám og störf, þar sem nálgast má á einum stað upplýsingar um námskosti á sviði starfsmenntunar, námssamninga og starfskynningar og fleira gagnlegt fyrir þá sem vilja kynna sér starfsmenntun. Síðan inniheldur einnig efni fyrir náms- og starfsráðgjafa og kennara.

Evrópsk starfsmenntavika miðar að því að kynna og efla starfsnám og þjálfun og eru skóla og aðrar stofnanir sem sinna starfsmenntun hvattar til þess að nýta það tækifæri til þess að kynna námsframboð sitt og nýjungar.

-fréttatilkynning

Síður