Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 26 mín 41 sek síðan

Mikil tilhlökkun fyrir skólaárið í FSN

29 mín 37 sek síðan

Kennsla hófst samkvæmt stundaskrá í Fjölbrautaskóla Snæfellinga síðastliðinn þriðjudag og segist Hrafnhildur Hallvarðsdóttir skólameistari vera full tilhlökkunar til skólaársins. „Við erum spennt að byrja og höfum miklar væntingar til starfsins í vetur. Allar stöður í skólanum eru skipaðar af áhugasömu fólki,“ segir skólameistarinn í samtali við Skessuhorn. Nýnemadagur var síðasta föstudag þar sem nýnemar komu og fengu kynningu á helstu þáttum skólastarfsins. 200 nemendur eru skráðir í nám við Fjölbrautaskóla Snæfellinga á haustönn þetta árið. Þar af eru 150 staðnemar og af þeim eru 50 nýnemar sem eru að hefja nám að loknum grunnskóla. Um 50 nemendur eru í fjarnámi og í framhaldsdeild FSN á Patreksfirði eru um 20 nemendur sem koma í Grundarfjörð þrisvar á önn en er annars kennt frá Grundarfirði með fjarnámskennslusniði.

Nýjungar við skólann

„Við höfum fjárfest í nýjum gagnvirkum skjá sem við höldum að muni gera kennsluna fjölbreyttari og í takt við kennslufræði skólans. Þessi skjár er líka góð viðbót við kennslu fjarnema og nemenda okkar á Patreksfirði. Við keyptum tvær fjærverur á síðustu önn og þær eru mjög góð viðbót við þá kennsluhætti sem hér eru notaðir,“ útskýrir skólameistarinn. Örlitlar breytingar hafa orðið á starfsmannahópi fjölbrautaskólans. Tveir nýir starfsmenn bætast við mannskapinn og nokkrir eru ýmist að koma úr fæðingarorlofi eða eru á leiðinni í fæðingarorlof að sögn Hrafnhildar. „Við erum mjög spennt að byrja og hitta nemendur okkar eftir sumarfríið og við bindum vonir við að skólastarf í Fjölbrautaskóla Snæfellinga verði farsælt skólaárið 2019-2020,“ segir hún að endingu.

Skóli sem sinnir vel persónulegri þjónustu við nemendur

1 klukkutími 29 mín síðan

Skólastarf í Menntaskóla Borgarfjarðar hófst síðasta föstudag þegar nýnemar mættu í skólann til að fá stundatöflur sínar afhentar ásamt öðrum gögnum. Dagurinn hófst með sameiginlegum morgunverði nýnema og starfsfólks en eldri nemendur gátu nálgast sínar stundatöflur á vefnum. Kennsla hófst svo samkvæmt stundaskrá á mánudaginn. Um 120 nemendur verða við nám í skólanum á haustönn en nýnemar eru 43 talsins. 95% af heildarfjölda nemenda eru í staðnámi.

Væntingar til skólaársins

„Okkar helstu væntingar eru að halda áfram að efla þann góða skólabrag sem ríkir við þennan skóla. Við MB starfar þéttur og góður hópur og nemendum og starfsfólki líður vel í skólanum og vinnunni. Við erum fámennur skóli og sinnum persónulegri þjónustu við nemendur mjög vel og það á bæði við um nemendur í staðnámi og fjarnámi. Þá viljum við eiga gott samstarf við okkar nærsamfélag og samstarf við Hugheima, sem á marga góða bakhjarla í atvinnulífinu á Vesturlandi, er mikilvægur þáttur í því samhengi. Unnið er að hugmyndum varðandi samstarf og komu Hugheima í ákveðinni mynd inn í skólann. Þá höfum við tekið þátt í Evrópuverkefnum þar sem nemendur hafa fengið tækifæri á að heimsækja önnur lönd en rétt í þessu fengum við 30 þúsund evra styrk fyrir tveggja ára samstarfsverkefni ásamt Finnlandi, Tyrklandi, Póllandi og Rúmeníu. Það eru mikil tækifæri fólgin í því að fara í námsferðir erlendis, bjóða heim og kynnast fleiri heimshornum og málefnum,“ segir Guðrún Björg Aðalsteinsdóttir, skólameistari Menntaskóla Borgarfjarðar.

Stefna á að flagga Grænfánanum

Einhverjar breytingar er á starfsliðinu í menntaskólanum fyrir komandi skólaár. Nýr kennari í upplýsingatækni tekur til starfa en annars er kennarahópurinn óbreyttur. Lilja S. Ólafsdóttir aðstoðarskólameistari er komin aftur til starfa úr námsleyfi. Þá hefur Guðrún Björg skólameistari MB sagt upp störfum og von er á nýjum skólameistara þegar líður á veturinn. Skólahúsnæði skólans en nokkuð nýlegt og þarfnast lítils viðhalds en stefnt er að því að bæta nemendarýmin og búa til svokallað kósý-rými fyrir nemendur.

Engin ein námsgrein er vinsælli en önnur í skólanum en flestir nemendur eru í íslensku og ensku auk þess sem útivistaráfangi sem skólinn fór af stað með í fyrra í vali hefur verið vinsæll. „Við erum að fara af stað með áfanga í umhverfisstjórnun í samvinnu við Landvernd en áfanginn er liður í undirbúningi til að flagga Grænfánanum. Útivistaráfangar og afþreyingarsálfræði eru áfangar sem byrjað var með í fyrra og nutu mikilla vinsælda og verða aftur í boði nú í haust,“ segir Guðrún Björg.

Spennt fyrir vetrinum

Við Menntaskóla Borgarfjarðar starfar þéttur hópi kennara og annars starfsfólk sem brennur í skinninu að efla skólann og þróa áfram, að sögn Guðrúnar Bjargar. „Það eru nokkrar hugmyndir í gangi og erum við þar að líta mikið til tæknivæðingar og að láta fjórðu iðnbyltinguna ekki framhjá okkur fara. Fyrirhugað samstarf við Hugheima er enn á teikniborðinu og við erum mjög spennt að taka á móti nýnemum sem og eldri nemendum og eiga gott og náið samstarf,“ segir skólameistarinn að endingu.

Fá afnot af fyrrum frystihúsi til gærusöltunar

3 klukkutímar 30 mín síðan

Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar í síðustu viku var lagt fram erindi frá Sláturhúsi Vesturlands ehf þar sem óskað var eftir af fá tímabundna aðstöðu til að salta gærur og húðir í gamla frystihúsinu í Brákarey. Byggðarráð hafði áður verið fylgjandi því að Sláturhús Vesturlands ehf fái umbeðna aðstöðu í gamla frystihúsinu í Brákarey undir þá starfsemi sem óskað er eftir. Umsjónarmanni fasteigna er falið að annast útfærslu erindisins og ganga frá samningi við forsvarsaðila sláturhússins um fyrirhuguð afnot af aðstöðu í gamla frystihúsinu í Brákarey. Verður sá samningur lagður fyrir sveitarstjórn til staðfestingar.

Zara ferðaðist um Vesturland og tók lagið í Akranesvita

Fim, 22/08/2019 - 15:01

Sænska poppstjarnan Zara Larsson skellti sér í ferðalag um Ísland eftir að hún hitaði upp fyrir Ed Sheeran á Laugardalsvelli um þarsíðustu helgi. Gerði hún sér m.a. ferð á Akranes og um Snæfellsnes. Á Akranesi heimsótti hún Akranesvita ásamt móður sinni og fararstjóra, tók lagið og birti myndband af sér að syngja á Instagramsíðu sinni þar sem hún mærði hljómburð vitans. Hilmar Sigvaldason vitavörður tók á móti hópnum, en hann viðurkennir að hafa ekki þekkt poppstjörnuna þegar hana bar að garði. „Allan þennan tíma sem þau þrjú voru í heimsókninni hafði ég ekki grun um hver þessi stelpa væri,“ segir Hilmar Sigvaldason vitavörður léttur í bragði. „Ég er þess fullviss að þessi heimsókn eigi eftir að hafa góð áhrif á Akranesvitann og Akranes almennt,“ segir Hilmar, en þegar þessi orð eru rituð hefur verið horft 780 þúsund sinnum á myndbandið.

Þingsályktunartillaga sem gerir ráð fyrir fækkun sveitarfélaga

Fim, 22/08/2019 - 14:30

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið hefur birt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033. Er þetta í fyrsta sinn sem slík heildstæð stefna á vegum ríkisins er mótuð fyrir sveitarstjórnarstigið. Þar er meðal annars lagt til að stefnt verði að fækkun sveitarfélaga með því að setja mörk um að lágmarki 250 búi í hverju sveitarfélagi við kosningarnar 2022. Þrjú sveitarfélög á Vesturlandi eru nú með færri íbúa, þ.e. Skorrdalshreppur, Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppur. Þá er að auki lagt til að þúsund íbúar verði að lágmarki í hverju sveitarfélagi í kosningum 2026. Þá bætast við sveitarfélögin Hvalfjarðarsveit, Dalabyggð og Grundarfjarðarbær sem öll eru með innan við þúsund íbúa. Verði tillagan samþykkt mun sveitarfélögum á Vesturlandi því fækka um a.m.k. sex á næstu sjö árum og verði því hugsanlega fjögur árið 2026.

Sjá nánar umfjöllun um þingsályktunartillöguna í Skessuhorni vikunnar

Líta á hvern nemanda sem einstakling en ekki kennitölu

Fim, 22/08/2019 - 14:01

Um 600 nemendur verða í námi í vetur í Háskólanum á Bifröst en um 85% nemenda eru í fjarnámi. Háskólagátt er þegar hafin en skólasetning hennar var síðastliðinn föstudag. Skólasetning hjá grunn- og meistaranámi verður svo í dag, 22. ágúst. „Við eigum von á því að staðnemum fjölgi nokkuð vegna fleiri erlendra nemenda. Við væntum þess að skólastarfið gangi vel í vetur og að nemendur okkar nái þeim árangri sem þeir stefna að. Háskólinn á Bifröst er nemendadrifinn skóli og velferð og árangur nemendanna okkar er í fyrirrúmi. Við lítum á hvern nemanda sem einstakling en ekki kennitölu og starfslið skólans hefur sem markmið að laða fram það besta í hverjum og einum,“ segir Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á Bifröst í samtali við Skessuhorn.

Viðskiptafræði í grunnáminu og forysta og stjórnun í meistaranáminu eru vinsælustu greinarnar enda ekki úr vegi þar sem skólinn er viðskiptaháskóli og viðskiptafræðinámið hefur löngum verið burðarnámið á Bifröst. „Í viðskiptafræði í grunnnámi er ný áherslulína á verkefnastjórnun, í forystu og stjórnun er þjónandi forysta ný áherslulína og við bjóðum nú upp á BA nám í opinberri stjórnsýslu. Í Háskólagáttinni voru ýmsar nýjungar eins og að taka námið með vinnu,“ bætir rektorinn við.

Ný kennslukerfi

Skólinn er líka að uppfæra nemendaskrárkerfið og kennslukerfið sem er mikið verkefni að sögn Vilhjálms. Uglan er nýtt sem nemendaskrárkerfi en hún er þróuð af Háskóla Íslands og nýtt í opinberu háskólunum. Canvass er nýja kennslukerfið á Bifröst en það er viðurkennt kerfi á alþjóðavísu og mjög öflugt.

Eins og hjá flestum menntastofnunum í upphafi skólaárs, þá eru einhverjar starfsmannabreytingar hjá háskólanum. „Heather McRobie er komin til liðs við félagsvísinda- og lagadeild, og nýjar í viðskiptadeild eru Þóra Þorgeirsdóttir og Arney Einarsdóttir en hún hefur störf um áramót. Halldóra Lóa Þorvaldsdóttir er komin aftur eftir ársleyfi. Lara Becker og María Ólafsdóttir eru að koma úr fæðingarorlofi. Meðal þeirra sem hafa hætt eru Páll Rafnar Þorsteinsson og Lilja Björg Ágústsdóttir,“ segir Vilhjálmur um starfslið við skólann.

Markvisst er verið að bæta aðstöðuna á Bifröst. Skipt hefur verið um glugga á heimavistarhúsinu og vinnuaðstaða þar bætt til muna. Endurnýjun á skólastofum er hafin og stöðugt er fjárfest í tækjum og tæknibúnaði.

Meistaranámið í sókn

Háskólinn á Bifröst er í sífelldri endurnýjun og leitast við að þjóna nemendum sínum sem allra best með margskonar nýjungum í námsframboði og kennsluháttum. „Meistaranámið við skólann hefur verið í sókn á undanförnum árum. Stefnumarkandi ákvörðun var tekin fyrir tveimur árum að sækja fram í alþjóðavæðingu skólans og bjóða upp á aukið námsframboð fyrir erlenda nemendur. Það er langtímaverkefni en eftir 5 – 10 á verður nám fyrir erlenda nemendur vonandi sjálfbær stoð í skólanum og undirstaða enn fjölbreyttara mannlífs á Bifröst,“ segir rektorinn að lokum.

Kári gerði jafntefli í Garðinum

Fim, 22/08/2019 - 13:01

Knattspyrnufélagið Kári og Víðir skyldu jöfn í háspennuleik þegar liðin áttust við í 17. umferð annarrar deildar í knattspyrnu í gær. Leikið var á Nesfisk-vellinum í Garði. Skagamenn skoruðu fyrsta mark leiksins. Á 25. mínútu kom Eggert Kári Karlsson sínu liði yfir. Héldu þeir forystunni út fyrri hálfleik og leiddu í hléi.

Í síðari hálfleik var Eggert aftur á ferðinni. Þremur mínútum eftir að leikurinn var flautaður aftur í gang bætti Eggert Kári sínu öðru marki við og kom Skagamönnum í 2-0. Heimamenn náðu þá að bíta frá sér. Á 50. mínútu skoraði Gylfi Örn Á. Öfjörð fyrir Víðismenn og minnkaði muninn í eitt mark. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka bætti Atli Freyr Ottesen Pálsson öðru marki Víðis við og jafnaði þar með metin. Ekki komu fleiri mörk í leiknum og skildu liðin jöfn.

Káramenn hafa náð að laga stöðu sína í botnbaráttunni með góðum úrslitum í síðustu umferðum Íslandsmótsins. Þeir eru sem stendur í 10. sæti með 18 stig, þremur stigum á undan KFG í næstneðsta sæti og þremur stigum á eftir Völsungi í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur Kára verður á sunnudag gegn Dalvík/Reynir fyrir norðan.

Færir öllum leikskólum landsins gjöf

Fim, 22/08/2019 - 11:45

Eins og greint var frá í Skessuhorni í vikunni færði Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur öllum leikskólum á Akranesi námsefni að gjöf sem ætlað er að bæta málþroska barna. En Bryndís gerir gott betur og í samstarfi við Ikea, Lýsi, Marel, Raddlist og hjónin Björgólf Thor Björgólfsson og Kristínu Ólafsdóttur mun hún færa öllum leikskólum á landinu námsefnið að gjöf.

Námsefnið heitir Lærum og leikum með hljóðin og er ætlað öllum barnafjölskyldum og skólum. „Allir leikskólar á landinu fá nú í sumar heildstætt efni úr Lærum og leikum með orðin að gjöf til að nýta í starfi með leikskólabörnum. Aukaefni eins og púsl, límmiðar og vinnusvuntur, sem styðja við hljóðanámið með fallegum stafamyndum, fylgir með í skólapökkunum. Einnig munu fimm íslensk smáforrit fyrir iPad vera gefin samhliða til allra skólanna og foreldra íslenskra barna,“ segir á vef Borgarbyggðar, en þangað í sveit kom Bryndís færandi hendi í síðustu viku.

Sótti slasaða konu í Stykkishólm

Fim, 22/08/2019 - 11:11

Þyrla Landhelgisgæslu Íslands lenti í Stykkishólmi í gær og sótti slasaðan ferðamann sem hafði dottið á göngu. Eldri hjón á ferðalagi með skemmtiferðaskipi brugðu sér í gönguferð um Hólminn á meðan skipið lá þar bundið við bryggju.

Laust eftir kl. 14:00 voru þau á göngu við Skúlagötu, fyrir neðan Stykkishólmskirkju, þegar konan missti jafnvægið og datt aftur fyrir sig. Sjúkrabifreið var kölluð á vettvang ásamt lækni. Konan gat ekki hreyft sig eftir fallið og kvartaði undan verkjum í mjöðm, að sögn lögreglu.

Læknir á vettvangi ákvað í samráði við lögreglu að kalla skyldi eftir aðstoð þyrlu Landhelgisgæslunnar sem kom og flutti konuna á Landspítalann í Reykjavík til frekari aðhlynningar.

Eldri kylfingar á Íslandsmóti á Garðavelli í dag

Fim, 22/08/2019 - 10:24

Íslandsmót eldri kylfinga í pútti (60+) fer fram á Garðavelli á Akranesi í dag. Mótið hefst klukkan 10:45 og fyrirhugað að því ljúki um nónbil. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri mun setja mótið. Rétt innan við hundrað kylfingar eru skráðir til leiks. Veðrið mun leika við spilara í dag, en einmuna veðurblíða er um allt vestanvert landið.

Náttúru- og umhverfisfræði slær öll fyrri aðsóknarmet

Fim, 22/08/2019 - 09:00

Það eru rúmlega 500 nemendur skráðir til náms við Landbúnaðarháskóla Íslands nú þegar kennsla fer að fara á fullt þetta skólaárið. Nýnemadagar voru í vikunni, dagana 19.-20. ágúst, og hófst kennsla samkvæmt stundaskrá í gær, miðvikudaginn 21. ágúst.

„Við erum að fara inn í nýtt skólaár með nýja stefnu fyrir skólann til næstu fimm ára,“ segir rektor háskólans, Ragnheiður I. Þórarinsdóttir, í samtali við Skessuhorn. „Einnig erum við að fjölga starfsmönnum og nemendum og höfum við til dæmis aldrei fengið fleiri umsóknir frá doktorsnemendum,“ bætir hún ánægð við.

Náttúru- og umhverfisfræði er að slá öll fyrri aðsóknarmet í skólanum og einnig er mikil fjölgun í skógfræði að sögn Ragnheiðar. „Svo virðist sem umræðan um náttúru- og umhverfismál í þjóðfélaginu hafi jákvæð áhrif á aðsókn í þessar greinar.“

Nánar um upphaf skólaársins í Landbúnaðarháskóla Íslands í Skessuhorni vikunnar.

Nýr lögreglubíll tekinn í notkun

Fim, 22/08/2019 - 08:00

Lögreglan á Vesturlandi tók nýja lögreglubifreið í notkun í síðustu viku. Um er að ræða Landrover Discovery, fullbúinn lögreglubíl sem er auk þess sérútbúinn fyrir umferðareftirlit. „Á þessum bíl verður fyrst og fremst haft eftirlit með atvinnutækjum sem eru á ferðinni, en lögregla hefur eftirlit með farmi flutningabíla, fylgist með því að hvíldartímaákvæðum sé fylgt og fleira slíkt, auk þess að hemlaprófa og vigta atvinnutæki,“ segir Ásmundur Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Skessuhorn.

„Hann var sérvalinn í þetta verkefni af því hann hefur dráttargetu upp á 3,5 tonn og getur því dregið þungan hemlaprófunarvagn. Auk þess er í honum vogir til að vigta atvinnutæki,“ bætir hann við. „Nýja bílinn höfum við á leigu og er rekstur hans töluvert hagkvæmari en verið hefur, en hann leysir af gamla Ford Transit sendiferðabifreið sem notuð var til að sinna sömu verkefnum. Sá bíll var kominn til ára sinna,“ segir Ásmundur.

 

Þrír nýir bílar á árinu

Ásmundur segir að töluverðar breytingar til batnaðar séu framundan í bílamálum Lögreglunnar á Vesturlandi á næstu misserum. Auk nýja umferðareftirlitsbílsins hefur Lögreglan á Vesturlandi tekið þrjá aðra nýja bíla í notkun frá áramótum. Einn þeirra er á Akranesi, annar í Borgarnesi og sá þriðji á Snæfellsnesi.

„Við vorum í raun að bregðast við slæmu ástandi og þurftum að endurnýja þrjá bíla strax, þar af einn sem var ekinn 500 þúsund kílómetra. Einn bíllinn sem við notum í dag er frá árinu 2008, eða ellefu ára gamall og annar er sjö ára. Lögreglubíla þarf helst að endurnýja á hámark fimm ára fresti,“ segir hann, en allt í allt hefur embættið 15 bíla til umráða, bæði merktar og ómerktar lögreglubifreiðar.

„Þrír lögreglubílar hafa verið endurnýjaðir frá áramótum, auk nýja umferðareftirlitsbílsins, en á síðustu þremur árum þar á undan höfðum við aðeins fengið einn nýjan bíl og ástand flotans ekki gott. Þessir bílar leystu af hólmi mjög gamla bíla, þannig að um nauðsynlega endurnýjun er að ræða. Ætlun okkar er að fylgja þessu eftir og halda áfram að endurnýja bílaflotann,“ segir Ásmundur.

Þorpið í Flatey er verndarsvæði í byggð

Fim, 22/08/2019 - 06:00

Bókhlaðan í umsjá Þjóðminjasafnsins

 

Þorpið í Flatey verður eftirleiðis skilgreint sem verndarsvæði í byggð. Í því felst að það ber að varðveita í sem upprunalegastri mynd. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og Tryggvi Harðarson, sveitarstjóri Reykhólahrepps, undirrituðu staðfestingu þess efnis við hátíðlega athöfn síðastliðinn laugardag. Við sama tækifæri afhenti Reykhólahreppur íslenska ríkinu bókhlöðuna í Flatey og verður húsið eftirleiðis í umsjá Þjóðminjasafns Íslands. Greint er frá þessu á Reykhólavefnum.

Athöfnin í bókhlöðunni hófst á því að Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, afhenti Tryggva lykla að húsinu, en Minjavernd stóð fyrir endurbyggingu hennar í kringum 1980. Þorsteinn rakti sögu bókhlöðunnar og sagði frá endurbyggingunni. Þegar hann hafði lokið máli sínu afhenti Tryggvi Lilju lykilinn og hélt stutta tölu. Í máli ráðherra kom fram að ekki skipti máli að bókhlaðan í Flatey væri minnsta bókasafn á landinu, því innihaldið skipti meira máli en umgjörðin. Landsmenn stæðu í þakkarskuld við þá sem stóðu fyrir stofnun lestrarfélaga um miðja þarsíðustu öld og veittu fólki aðgang að fróðleik og afþreyingu bókanna. Gildi bókasafna í dag væri ekki minna en þá.

Að svo búnu fór lykillinn enn á milli lófa, nú frá Lilju ráðherra í hendur Margrétar Hallgrímsdóttur þjóðminjavarðar og bókhlaðan í Flatey þar með formlega komin í umsjá Þjóðminjasafns Íslands. Við tilefnið hafði Margrét orð á því að bókhlaðan væri kærkomin viðbót við þau 38 hús sem safnið hefur í umsjá sinni. Bókhlaðan í Flatey er annað húsið við Breiðafjörð sem er í umsjá safnsins, en hitt er Staðarkirkja á Stað á Reykjanesi.

Heimsókn ráðherra í Flatey lauk svo með undirritun skjals sem staðfestir að þorpið í Flatey er verndarsvæði í byggð og Guðný Gerður Gunnarsdóttir, minjavörður Reykjavíkur og nágrennis, afhenti Reykhólahreppi merki verndarsvæða.

Ólafsdalshátíð haldin í tólfta sinn

Miðv.d., 21/08/2019 - 15:30

Nokkur fjöldi gesta sótti Ólafsdal í Dölum heim síðastliðinn laugardag þegar árleg hátíð Ólafsdalsfélagsins var haldin í tólfta sinn. Veðurguðirnir voru ekki að sýna sínar bestu hliðar á Vesturlandi um helgina þannig að aðlaga þurfti framkvæmd og skipulag hátíðarinnar í samræmi við það.

Áður en formleg dagskrá hófst var boðið upp á gönguferð að víkingaaldarskálanum innarlega í dalnum þar sem fornleifafræðingar á vegum Fornleifastofnunar Íslands voru að störfum fyrr í sumar, í samstarfi við Minjavernd. Var gangan undir leiðsögn Birnu Lárusdóttur fornleifafræðings sem sagði frá ýmsum minjum á leiðinni ásamt því nýjasta varðandi uppgröftinn.

Dagskráin hófst síðan á ávarpi Kristjáns Sturlusonar, sveitarstjóra Dalabyggðar og að því loknu flutti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðrerra, erindi. Bergsveinn Birgisson rithöfundur sagði frá og las upp úr bók sinni „Lifandilífslækur“. Soffía Björg Óðinsdóttir söng nokkur lög og einnig þöndu meðlimir Drengjakórs íslenska lýðveldisins raddböndin. Í lok formlegrar dagskrár fór húllatrúðurinn Sól frá Sirkus Íslandi á kostum og skemmti börnum á öllum aldri. Kynnir hátíðarinnar var Jóhann Alfreð Kristinsson sem kitlaði hláturtaugar gesta með glensi og gríni á milli atriða.

 

Fleiri myndi frá Ólafsdalshátíðinni má sjá í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag.

Flugslys í Svefneyjum

Miðv.d., 21/08/2019 - 14:06

Flugslys varð í Svefneyjum á Breiðafirði síðdegis síðastliðinn fimmtudag. Flugvél í flugtaki fékk á sig vindhviðu undir vænginn með þeim afleiðingum að flugmaðurinn missti stjórn á vélinni. Vélin fór fram af flugbrautinni og lenti ofan í fjöru þar sem hún steyptist fram fyrir sig og endaði á hvolfi.

Flugmaður og farþegi reyndust ómeiddir og komust út úr vélinni af sjálfsdáðum. Þyrla Landhelgisgæslu Íslands var send út í Svefneyjar ásamt fulltrúa frá rannsóknanefnd samgönguslysa og lögreglumönnum frá Stykkishólmi. Mennirnir voru síðan fluttir til baka upp á land með þyrlunni.

Háþrýstiþvottur í gripahúsum getur borið smit

Miðv.d., 21/08/2019 - 09:51

Starfsfólk Matvælastofnunar hefur komist að þeirri niðurstöðu að háþrýstiþvottur á umhverfi nautgripa hafi að líkindum verið ein af smitleiðum STEC smitsins í Efstadal II í fólk. Stofnunin vekur athygli bænda og annarra framleiðenda á því að úði frá háþrýstiþvotti á smituðu umhverfi geti dreift smitefnum og valdið sjúkdómi í dýrum og mönnum.

„Á Íslandi og víðar er hefð fyrir því að nota háþrýstiþvott í landbúnaði. Í úðanum sem myndast við háþrýstiþvott geta verið sveppir, bakteríur, veirur, sníkjudýr eða önnur smitefni sem berast auðveldlega í fólk og dýr, t.d. með því að anda úðanum að sér. Auk þess leggst úðinn á yfirborðsfleti og mengar þá. Smit getur þá orðið við snertingu. Fólk í landbúnaði þarf að gera sér grein fyrir þessu og endurskoða starfsvenjur sínar þannig að komið verði í veg fyrir óþarfa dreifingu smits. Það sama getur átt við í matvælaiðnaði.

Lágþrýstiþvottur (20-22 bör) hefur kosti umfram háþrýstiþvott (um og yfir 100 bör) að því leiti að hvorki myndast úði né dreifast óhreinindi eins mikið, þannig er lágþrýstiþvottur betri kostur til þvotta í landbúnaði. Í landbúnaði eru óhjákvæmilega smitefni og ætíð ætti að gera ráð fyrir að smitefni geti verið hættuleg heilsu manna og dýra. Í öllu falli ætti ekki að nota háþrýstiþvott þar sem nálægð er mikil milli dýra og manna og/eða matvæla, því úðinn fer víða. Aldrei skal þvo gripahús með háþrýstingi þegar dýr eru inni og nota skal grímur til að verjast úðasmiti,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar.

Þá segir að sýking af völdum sníkjudýrsins Cryptosporidium parvum meðal dýralæknanema í Danmörku árið 2012 sé gott dæmi um hvað getur gerst við háþrýstiþvott í smituðu umhverfi. Við frágang eftir verklega kennslu með kálfa sem voru með niðurgang var kennslurýmið háþrýstiþvegið. Allir sem þar voru inni veiktust, alls 24 manns. Smitið barst að öllum líkindum með úðanum sem myndaðist við þvottinn, sem viðstaddir önduðu að sér.

„Matvælastofnun hvetur bændur og þá sem eru ábyrgir fyrir matvælaöryggi til að skoða þrifa- og sótthreinsiaðferðir sem viðhafðar eru og leita ráða um tæki og efni sem í boði eru á markaðnum og henta vel til notkunar í landbúnaði og við meðferð matvæla.“

„Ég lít á Ólafsvík sem heimili mitt“

Miðv.d., 21/08/2019 - 09:01

Fadel A Fadel er borinn og barnfæddur Egypti. Í heimalandinu lauk hann sinni skólagöngu og útskrifaðist sem íþróttafræðingur á tíunda áratugnum. Hann býr nú í Ólafsvík ásamt Adam, fjórtán ára syni sínum, er er í fjarbúð því eiginkonan Nevin Amin býr og starfar í Katar. Eftir að hafa lokið námi höguðu tilviljanir því svo að hann fór til Íslands og eftir nokkur ár til Ólafsvíkur. „Ég flutti til Íslands árið 1996 vegna þess að frændi minn bjó þá hér á landi,“ segir Fadel þegar fréttaritari Skessuhorns settist niður með honum í spjall í liðinni viku. Á háskólaárum sínum var Fadel valinn í sundknattleikslandslið Egyptalands og tók m.a. þátt í undankeppni fyrir Ólympíuleikana í Barcelona árið 1992 og árið eftir fór hann á HM undir 20 ára.

Sjá ítarlegt viðtal við Fadel A Fadel í Skessuhorni sem kom út í dag.

Fjallað um upphaf skólaársins í Skessuhorni í dag

Miðv.d., 21/08/2019 - 08:01

Í Skessuhorni sem kom út í dag er púlsinn tekinn á skólum í landshlutanum. Rætt er við forsvarsmenn grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla á Vesturlandi. Samhliða því að grunnskólar hefjast bætast mörg hundruð ungir einstaklingar í umferðina. Ökumenn eru sérstaklega hvattir til að taka tillit til þeirra og aka varlega.

Sjá Skólablað Skessuhorns.

Bókin Undir kelduna – saga Hvalfjarðarganga

Miðv.d., 21/08/2019 - 06:05

Síðastliðinn fimmtudag var boðað til útgáfuhófs í Jónsbúð á Akranesi. Tilefnið var útgáfa bókarinnar Undir kelduna saga Hvalfjarðarganga 1987-2019. Það er bókaútgáfan Svarfdælasýsl sem gefur bókina út en höfundur er Atli Rúnar Halldórsson. Að bókaforlaginu standa sex systkin, Halldórsbörn frá Jarðbrú í Svarfaðardal. Þetta er önnur bók forlagsins, en sú fyrri kom út fyrir tveimur árum og ber sama nafn, Svarfdælasýsl og fjallar um bernskuslóðir þeirra systkinanna. Undir kelduna er 400 síður harðspjaldabók, ríkulega myndskreytt, og fjallar um afar merkilega framkvæmd sem um margt ruddi braut í íslenskri samgöngusögu.

Í bókinni er skrifað um þessa fyrstu einkaframkvæmd í íslensku samgöngusögunni. Á bókarkápu segir m.a. „Göngin eru jafnframt fyrstu neðansjávargöng veraldar í ungu gosbergi, fyrsta fjárfesting sinnar tegundar í Evrópu á vegum bandarísks tryggingafélags, fyrsta fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða í einkaframkvæmd og fyrsta verkefni á Íslandi þar sem verktakinn bar alla ábyrgð á fjármögnun verkefnisins og tæknilega ábyrgð á framkvæmdatímanum.“ Þarna er í heildstæðu riti fjallað um undirbúning að verkinu, framkvæmdir og rekstur Hvalfjarðarganga allt þar til ríkið fékk göngin að gjöf haustið 2018. Sumt af því efni sem bókin hefur að geyma hefur aldrei komist áður á prent. „Margt er hér skrifað sem hvergi hefur komið fram fyrr og meira að segja er þetta líka átaka- og spennusaga, bæði í upphafi og lok einkarekstrarins,“ sagði Atli Rúnar meðal annars þegar hann kynnti ritið.

Eldur í fjölbýlishúsi á Akranesi

Þri, 20/08/2019 - 18:19

Núna á sjötta tímanum var Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar kallað út vegna elds í fjölbýlishúsi við Kirkjubraut 12 á Akranesi.

Eldur hafði kviknað út frá gaskút við grill á lokuðum svölum á þriðju hæð í byggingunni. Sökum þess að svalirnar eru yfirbyggðar barst reykur inn í íbúðina svo þurfti að reykræsta hana.

Slökkvistarf gekk greiðlega fyrir sig. Að sögn slökkviliðsmanns á vettvangi er talið að skemmdir af völdum reyks séu minniháttar.

Síður