Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 47 mín 3 sek síðan

Brúin komin á Berjadalsána

1 klukkutími 23 mín síðan

Félagar í Rótarýklúbbi Akraness fóru venju samkvæmt upp í Berjadal í Akrafjalli á sumardaginn fyrsta og settu göngubrúna á Berjadalsá. Eins og vani er verður brúin látin standa í sumar en verður tekin niður í haust, áður en veður tekur að versna.

Brúin er í tveimur hlutum og sett saman á staðnum. Brúarvinnuflokkur Rótarýklúbbsins naut aðstoðar nokkurra fjallgöngugarpa við verkið. Jens Baldursson segir í íbúahópi Akurnesinga á Facebook að sú aðstoð hafi verið vel þegin, enda vinni margar hendur létt verk.

Valdís Þóra líklega úr leik í Marokkó

3 klukkutímar 17 mín síðan

Valdís Þóra Jónsdóttir, atvinnukylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, náði sér ekki á strik á öðrum hring Lalla Meryem Cup mótsins sem hófst í Marokkó í gær. Mótið er hluti af Evrópumótaröð kvenna.

Valdís lék fyrsta hring mótsins í gær á 76 höggum, eða þremur yfir pari vallarins. Hringinn í dag lék hún á 77 höggum, eða fjórum yfir pari. Samanlagt er hún því á sjö höggum yfir pari eftir fyrstu tvo hringina, en niðurskurðarlínan er við þrjú högg yfir pari þegar þessi orð eru rituð. Enn eiga þónokkrir kylfingar eftir að hefja leik í dag og því verður að teljast ólíklegt að Valdís sleppi í gegnum niðurskurðinn.

Lagersala ársins og ný vefverslun á kb.is

3 klukkutímar 55 mín síðan

Í kvöld, föstudaginn 26. apríl frá klukkan 20 til 22, býður Kaupfélag Borgfirðinga félagsmönnum og öðrum viðskiptavinum til ánægjulegrar kvöldstundar, lagersölu ársins. Margrét Katrín Guðnadóttir verslunarstjóri lofar frábærum tilboðum og stemmara í sumarbyrjun. Á lagersölunni verður 50-70% afsláttur af ýmsum vörum en auk þess 15-20% tilboð á gæludýrafóðri, leikföngum, vinnufatnaði, hestavörum og sauðburðarvörum. Nýlega var verslunarhúsið stækkað til muna og af því tilefni býður kaupfélagsfólk gestum í sannkallaða tilboðsveislu og að þiggja léttar veitingar.

Nýverið opnaði Kaupfélagið auk þess vefverslun á slóðinni kb.is þar getur nú fólk gert innkaup á öllu því helsta sem kaupfélagið hefur á boðstólnum.

Jörfagleði stendur nú yfir í Dölum

4 klukkutímar 39 mín síðan

Jörfagleði, menningarhátíð Dalamanna hófst að kvöldi síðasta vetrardags með sýningu Leikfélags Hólmavíkur á Nönnu systur. Dagskráin hélt síðan áfram og í gær var m.a. skátamessa haldin í Hjarðarholtskirkju, þar sem meðfylgjandi mynd var tekin framan við kirkjuna. Í dag og næstu daga heldur síðan dagskráin áfram m.a. með sýningu og stuttmynd í Auðarskóla, vinnusmiðja fer fram um skapandi skrif í Dalabúð og Gísli Súrsson verður í sýningu Kómedíuleikhússins í Dalabúð. Jörfagleði hefur verið haldin annað hvert ár allar götur síðan 1977. Dagskráin er með fjölbreyttu sniði og lýkur á sunnudaginn. Benda má á nánari frásögn um Jörfagleði í Skessuhorni 16. apríl sl.

Skagamenn taka á móti KA í fyrsta leik sumarsins

5 klukkutímar 19 mín síðan

ÍA fagnaði sigri í 1. deild karla á síðasta ári og leikur því í deild þeirra bestu í sumar, Pepsi Max deildinni sem nú heitir. Skagamenn leika sinn fyrsta leik í mótinu á morgun þegar þeir mæta KA á Akranesvelli. Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari liðsins, var fullur eftirvæntingar þegar Skessuhorn ræddi við hann á miðvikudaginn. „Sumarið leggst vel í okkur, við erum búnir að undirbúa okkur vel í allan vetur. Fyrst og fremst er mikil tilhlökkun í hópnum fyrir sumrinu. Strákarnir eru búnir að leggja hart að sér í vetur. Hópurinn er í toppstandi og allir klárir í slaginn,“ segir Jóhannes Karl í samtali við Skessuhorn. „Aðstæðurnar virðast líka ætla að verða með besta móti í byrjun sumars. Akranesvöllur kemur vel undan vetri, grænn og flottur og við hlökkum til að byrja mótið á heimavelli,“ bætir hann við.

Leikur ÍA-KR hefst á Akranesvelli klukkan 16:00.

 

Stór hópslysaæfing á Kaldármelum á morgun

5 klukkutímar 47 mín síðan

Hópslysaæfing verður verður haldin á Kaldármelum fyrir umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í fyrramálið, laugardaginn 27. apríl. Í henni munu viðbragðsaðilar á starfssvæðinu taka þátt og því búist við miklum fjölda björgunar- og annarra viðbragðsaðila. „Slysstaðurinn“ verður á Kaldármelum þar sem rútuslys verður sviðsett og unnið samkvæmt hópslysaáætlun. Söfnunarsvæði fyrir sjúklinga verður sett upp í félagsheimilinu Lindartungu. Búast má við mikilli umferð björgunartækja af ýmsu tagi með blá forgangsljós vegna æfingarinnar og ætti fólk því ekki að láta sér bregða. Æfing sem þessi er að jafnaði sett upp á u.þ.b. fimm ára fresti og var síðast haldin í Reykholtsdal í Borgarfirði í október 2013, þar sem meðfylgjandi myndir voru teknar.

Snæfellsjökull líklega horfinn um miðja öldina

6 klukkutímar 7 mín síðan

Snæfellsjökull hefur rýrnað mikið síðustu áratugi vegna hlýnandi loftslags og talið er að hann verði að mestu horfinn um árið 2050, að því er fram kemur á vef Veðurstofu Íslands. Flatarmál hans er nú innan við 10 ferkílómetrar, en var um það bil 22 ferkílómetrar árið 1910. „Jökullinn er að jafnaði aðeins um 30 metra þykkur og er talið líklegt að hann verði að mestu horfinn um miðja þessa öld,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Vetrarafkoma jökulsins var mæld í fyrsta sinn á annan dag páska, 22. apríl síðastliðinn. Þá fóru sjö manns á jökulinn á vegum Veðurstofunnar, Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls og ferðaþjónustufyrirtækisins Summit Guides. Snjókjarni var boraður í um 1350 metra hæð, sunnan við Miðþúfu. Kjarninn var vigtaður, eðlisþyngt hans ákvörðuð og lagskipting skráð. Hiti snævarans var einnig mældur og reyndist vera innan við tveggja stiga frost í öllu vetrarlagi jökulsins. Önnur hola var boruð í um þúsund metra hæð í norðurhlíðum jökulsins. Þar reyndist vetrarlagið vera rúmlega fjögurra metra þykkt og vatnsgildið 2250 mm. Þar liggja oft skaflar sumarlangt og borað var í eldra hjarn niður á sjö metra dýpi.

Þorsteinn Þorsteinsson, sérfræðingur í jöklarannsóknum hjá Veðurstofunni, hefur mælt afkomu fjölda jökla og var einn leiðangursmanna á Snæfellsjökli. Hann segir niðurstöðurnar ekki koma á óvart. „Niðurstöður þessara mælinga koma okkur svo sem ekkert á óvart, en vissulega höfum við ekki samanburð úr öðrum mælingum á jöklinum þar sem þetta er sú fyrsta. Það væri hins vegar full ástæða til að reyna að fjármagna reglulegar afkomumælingar á Snæfellsjökli, til að auka enn þekkingu okkar á viðbrögðum íslensku jöklanna við loftslagsbreytingum og ekki síður vegna þess að jökullinn hefur öðlast frægð í máli og myndum,“ segir Þorsteinn.

Lokahátíð Þjóðleiks á Hólmavík 30. apríl – 1. maí

8 klukkutímar 21 mín síðan

Þjóðleikur er leiklistarhátíð ungs fólks sem haldin er annað hvert ár á landsbyggðinni að frumkvæði Þjóðleikhússins og í góðu samstarfi við menningarráð og marga aðra aðila á landsbyggðinni. Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins. Lokahátíðir eru haldnar að vori þar sem allar sýningar í hverjum landsfjórðungi koma saman á stórri leiklistarhátíð. Í ár er Þjóðleikur 10 ára og verður haldinn með pompi og pragt.  Lokahátíðin Þjóðleikur NorðVestur verður í Félagsheimilinu á Hólmavík 30. apríl og 1. maí næstkomandi að frumkvæði Leikfélags Hólmavíkur. Þar koma saman leikhópar frá Strandabyggð, Kaldrananeshreppi, Borgarnesi, Ísafirði, Snæfellsbæ og raunar af Snæfellsnesi öllu. Sett verða upp leikverkin Dúkkulísa eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur Bachman, Eftir lífið eftir Sigtrygg Magnason og Tjaldið eftir Hallgrím Helgason. Auk þess verður skrúðganga leidd af nýjum slökkviliðsbíl bæjarins, kvöldvaka, sundlaugarpartý og mótttaka á vegum Þjóðleikhússins svo fátt eitt sé nefnt.

Allir eru velkomnir að fylgjast með þessari tveggja daga listahátíðhátíð og kynnast þar listafólki framtíðarinnar en armband á allar sýningar kostar 2000 krónur.

-fréttatilkynning

ON opnar hleðslustöð í Búðardal

10 klukkutímar 23 mín síðan

Fyrr í þessum mánuði opnaði Orka náttúrunnar nýja hleðslustöð í Búðardal. Hún er við Kjörbúðina á Vesturbraut 10. Af því tilefni var haft samband við rafbílaeigandann Jón Trausta Markússon rafvirkja í Búðardal og honum færður glaðningur við formlega opnun, en Jón Trausti er fyrsti íbúinn í Dalabyggð til að eignast bifreið sem eingöngu er knúin rafmagni. Þess má jafnframt geta að stöðin er önnur hleðslustöðva fyrir rafbíla í þorpinu, en sú fyrsta var sett upp haustið 2017 við Stjórnsýsluhúsið í Búðardal.

Siguroddur og Skáney/ Hestaland sigurvegarar

Fim, 25/04/2019 - 09:58

Lokamótið í Vesturlandsdeildinni í hestaíþróttum var haldið á skírdag. Hefur deildin gengið vel í vetur fyrir utan að þurfti að fresta einu mótið vegna veðurs. Á þessu lokamóti var keppt í tölti og fljúgandi skeiði í gegnum höllina og var mikil spenna í loftinu bæði í einstaklings- og liðakeppni. Leikar fóru þannig að í liðakeppninni var það Skáney/ Hestaland sem bar sigur úr býtum og í einstaklingskeppninni var það Siguroddur Pétursson sem sigraði. Þetta er þriðja árið í röð sem hann vinnur einstaklingskeppnina í Vesturlandsdeildinni.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Gleðilegt sumar!

Fim, 25/04/2019 - 07:02

Hiti og blíðviðri heilsar Vestlendingum í upphafi sumars 2019. Spáin er góð og jafnvel gætu hitamet fallið. Því er fátt að vanbúnaði að drífa sig út og njóta dagsins. Skessuhorn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars með þökk fyrir veturinn.

Páskagangan í Snæfellsbæ

Miðv.d., 24/04/2019 - 16:01

Nokkur hópur göngufólks í Snæfellsbæ lagði af stað frá Arnarstapa að morgni páskadags og gekk hina vinsælu gönguleið yfir að Hellnum og til baka aftur. Stoppað var í Fjöruhúsinu á Hellnum hjá Sigríði Einarsdóttur og gætt sér á gómsætum vöfflum, sultu og rjóma og drukkið kaffi og súkkulaði með. Hópurinn var á öllum aldri, allt frá nokkurra mánaða og upp í sjötíu og sjö ára. Gott veður var meðan gangan var farin. Leiðin er ægifögur og gaman að sjá til fjalls og einnig að heyra og sjá ölduna mara við stein á leiðinni en gengið er stóran hluta rétt við bjargbrúnina. Hópurinn ákvað í lok göngunnar að gera þetta að árlegum viðburði og því er gott að fólk fari að taka daginn frá fyrir næsta ár, en páskasunnudagur 2020 ber upp á 12. apríl.

Safnadagur á Snæfellsnesi á morgun

Miðv.d., 24/04/2019 - 15:13

Sumardagurinn fyrsti er árlegur safna- og sýningadagur á Snæfellsnesi. Þá eru dyr safna og sýninga um allt Snæfellsnes opnðar, fyrir íbúa og aðra gesti að ganga inn um. Allir eru boðnir velkomnir sér að endurgjaldslausu.

Safnadagurinn er samvinnuverkefni Svæðisgarðsins Snæfellsness, Byggðasafns Snæfellinga og Hnappdæla og safna- og sýningafólks á Nesinu.

Fjölmörg söfn á Snæfellsnesi taka þátt að þessu sinni, sem og sýningafólk, með sýningum og viðburðum. Upplýsingar um þátttakendur og dagskrá má sjá í auglýsingu í Skessuhorni vikunnar eða með því að smella hér.

Viðburðaríkt afmælisár hjá Elkem

Miðv.d., 24/04/2019 - 13:20

„Í tilefni 40 ára afmælisins verður árshátíðin okkar haldin í Edinborg. Fyrirtækið býður þangað öllum starfsmönnum og við fljúgum út í þremur hollum. Þetta hefur mælst afar vel fyrir og stefnir í fjölmennustu árshátíð fyrirtækisins til þessa,“ segir Gestur Pétursson, forstjóri Elkem Ísland, ánægður í samtali við Skessuhorn. Hann bætir því við að ýmislegt fleira standi til á afmælisárinu. „Það verður viðburður í hverjum mánuði í tilefni afmælisins. „1. júní næstkomandi verður opið hús fyrir almenning. Allri þjóðinni er boðið í heimsókn og er það liður í áætlun okkar um að opna starfsemina meira, af því við erum hluti af þessu samfélagi hérna við Hvalfjörðinn og á Akranesi og líka af samfélaginu sem heitir Ísland,“ segir hann.

„Þá höfum við tekið upp þann góða sið að bjóða í mat þeim starfsmönnum sem hafa starfað hjá fyrirtækinu í gegnum tíðina en eru komnir á eftirlaunaaldur. Þar blöndum við geði, viðhöldum kúltúrnum og höldum sögunum á lífi. Ég hef starfað hjá Slökkviliði Reykjavíkur og hjá ISAL í Straumsvík þar sem þetta var gert og það hefur verið draumur hjá mér lengi að koma á einhverju sambærilegu fyrir Elkem. Við gerðum þetta í fyrsta sinn fyrir stuttu síðan og kom dágóður hópur. Þeirra á meðal Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri, sem kom í fyrsta skipti í mjög langan tíma og fullt af góðu fólki sem hefur lagt sín lóð á vogarskálina hvað varðar uppbyggingu félagsins í gegnum tíðina,“ segir forstjórinn.

Nánar er rætt við Gest í Skessuhorni sem kom út í dag, meðal annars um markmið fyrirtækisins í umhverfismálum, framsækni í þróun, tækifæri í orkuendurnýtingu og sitthvað fleira.

Félagsmenn VLFA samþykktu

Miðv.d., 24/04/2019 - 13:14

Félagsmenn í Verkalýðsfélagi Akraness samþykktu nýgerðan kjarasamning félagsins við Samtök atvinnulífsins með 88% greiddra atkvæða. Þetta kom fram á heimasíðu félagsins nú rétt í þessu.

Þór í framboði til formanns Landsbjargar

Miðv.d., 24/04/2019 - 13:01

Landsþing Slysavarnafélagsins Landsbjargar verður haldið á Egilsstöðum dagana 17. og 18. maí næstkomandi. Að venju má ætla að nokkur hundruð manns taki þátt í þinginu, björgunarleikum og árshátíð Landsbjargar sem fram fer á laugardeginum. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að undirbúningur fyrir þingið sé í fullum gangi. Meðal annars skráning í björgunarleikana. Þá hefur uppstillingarnefnd kynnt framboðslista fyrir komandi kosningar til stjórnar. Smári Sigurðsson formaður gefur ekki kost á sér til endurkjörs í félaginu og hafa þrír boðið sig fram. Meðal þeirra er Þór Þorsteinsson frá Skálpastöðum í Lundarreykjadal, fyrrverandi formaður björgunarsveitarinnar Oks í Borgarfirði og núverandi varaformaður Landsbjargar. Aðrir í formannsframboði eru Guðjón Guðmundsson og Þorsteinn Þorkelsson.

Til stjórnar í Landsbjörgu bjóða sig fram eftirtaldir: Auður Yngvadóttir, Borghildur Fjóla Kristjánsdóttir, Gísli V. Sigurðsson, Guðjón Guðmundsson, Hallgrímur Óli Guðmundsson, Hildur Sigfúsdóttir, Otti Rafn Sigmarsson, Valur S. Valgeirsson, Þorsteinn Þorkelsson og Þór Þorsteinsson.

Félagsmenn VR ánægðir með nýja samninga

Miðv.d., 24/04/2019 - 12:58

Niðurstöður í atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna VR í kosningu fyrir nýgerða kjarasamninga liggja nú fyrir.

Kjarasamningur VR við SA var samþykktur með 88,35% atkvæða, en já sögðu 6.277 félagsmenn og nei 700, eða 9,85%. Auð atkvæði voru 127 eða 1,7%. Á kjörskrá um samning VR og SA voru 34.070 félagsmenn og greiddu 7.104 atkvæði, og var kjörsókn því 20,85%.

Kjarasamningur VR við FA var samþykktur með 88,47% atkvæða, en já sögðu 399 félagsmenn og nei 47, eða 10,42%. Auð atkvæði voru 5 eða 1,1%. Á kjörskrá um saming VR og FA voru 1.699 félagsmenn og greiddu 451 atkvæði, og var kjörsókn því 26,55%.

Smiðjur og kaffihús undir einu þaki í Stykkishólmi

Miðv.d., 24/04/2019 - 12:01

Við Aðalgötu 20 í Stykkishólmi eru þrjár konur saman með opin verkstæði þangað sem hægt er að koma og fylgjast með þeim vinna. Sigríður Erla Guðmundsdóttir er með verkstæðið Leir7 þar sem hún vinnur með leir frá Ytri-Fagradal á Skarðsströnd í Dölum. Lára Gunnarsdóttir er með verkstæði sem heitir Smávinir og þar vinnur hún muni úr íslensku birki frá Hallormsstaðaskógi og Greta María Árnadóttir er með Gullsmiðju Gretu Maríu þar sem hún vinnur skartgripi úr eðalmálmum. Saman kalla þær verkstæðin Smiðjur og á morgun, sumardaginn fyrsta, bætist við Smiðjurnar kaffihúsið Jakobína þar sem Sigríður Erla ætlar að bjóða upp á alla hefðbundna kaffidrykki og bakkelsi.

Blaðamaður Skessuhorns hitti nýverið þær stöllur að máli. Sjá ítarlega frásögn í Skessuhorni sem kom út í dag.

Bokashi til jarðvegsbætingur

Miðv.d., 24/04/2019 - 11:01

Vesturland er dreifbýlt og á stundum langt að sækja sorp á hvert heimili. Því ætti það að vera hagur íbúanna að geta dregið úr sameiginlegum kostnaði sveitarfélaganna vegna sorphirðu. Í pistli sem Þórunn Reykdal skrifar og birtist í Skessuhorni vikunnar miðlar hún af reynslu sinni af því að hefja moltugerð í eldhússkápnum og minnka þar með umtalsvert það magn af sorpi sem sótt er heim til hennar og ekið til urðunar.

„Á haustönn 2018 kenndi ég áfangann „Garðyrkja í sátt við umhverfið“ á Reykjum í Ölfusi og naut þar samfylgdar við skemmtilega og fróðleiksfúsa nemendur. Meðal viðfangsefna okkar var moltugerð, sem við tókum þátt í undir forystu Ingólfs Guðnasonar og nemenda hans í lífrænni ræktun. Sú moltugerð var loftháð, í opnu fiskikari í gróðurhúsi með lágum hita og tókst framkvæmdin hið besta. Þá fengum við lífrænan úrgang úr mötuneyti skólans og blönduðum eingöngu söxuðum hálmi saman við sem stoðefni. Ingólfur hafði svo veg og vanda af því að standa vaktina, mæla hitann og bylta efninu, en kennsla í áfanganum mínum var einu sinni í viku og því langt á milli heimsókna að Reykjum,“ skrifar Þórunn. Fer hún síðan yfir ferlið frá því hún kaupir tvær moltufötur, skellti undir vaskinn í eldhúsinu og hóf framleiðslu á jarðvegsbæti.

Sjá Skessuhorn sem kom út í dag.

Elkem í fjörutíu ár

Miðv.d., 24/04/2019 - 10:02

Framleiðsla kísiljárns á Grundartanga hófst 30. apríl 1979 og fagnar því Járnblendiverksmiðjan fjörutíu ára afmæli í næstu viku. Í Skessuhorni sem kom út í dag er þessara tímamóta minnst með ýmsum hætti í samantekt Kristjáns Gauta Karlssonar blaðamanns. Fyrst má nefna að rætt er við Jón Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins, um aðdragandann og fyrstu tvo áratugina í rekstri fyrirtækisins. Þá skiptust vissulega á skin og skúrir og stóð stundum tæpt að stjórnvöld létu loka verksmiðjunni. Þá er rætt við Gest Pétursson, forstjóri Elkem. Hann segir frá fyrirtækinu í nútíð, framtíðaráformum þess og áherslum. Loks er rætt við Skafta Steinólfsson, formann Starfsmannafélags Járnblendiverksmiðunnar um hið blómlegu starf félagsins í áranna rás.

Sjá Skessuhorn sem kom út í dag.

Síður