Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 5 mín 32 sek síðan

Framkvæmdir á Vesturlandsvegi

7 klukkutímar 56 mín síðan

Í dag, miðvikudaginn 23. maí, er verið að fræsa báðar akreinar á Vesturlandsvegi við Leirvogstungu, frá Köldukvísl að Leirvogsá. Annarri akreininni er lokað í einu en umferð er stýrt og aðeins er búist við lítilsháttar umferðartöfum. Áætlað er að vinnan standi yfir til kl. 19:00.

Á morgun, fimmtudaginn 24. maí er stefnt að því að fræsa báðar vinstri akreinar á Sæbraut, frá gatnamótum Kringlumýrarbrautar að gatnamótum við Katrínartún. Annarri akreininni verður lokað í einu og umferð stýrt framhjá. Einnig er stefnt að því að fræsa hægri beygjuakrein frá Sæbraut að Kringlumýrarbraut. – Búast má við lítilsháttar umferðartöfum milli kl. 9:00 og kl. 17:00.

„Vegfarendur eru beðnir að virða merkingar og hraðatakmarkanir og sýna aðgát við vinnusvæðin sem eru þröng og menn og tæki eru við vinnu mjög nálægt akstursbrautum,“ segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hvítur stelkur heldur til í Ólafsvík

9 klukkutímar 30 mín síðan

Hvítur stelkur hefur undanfarna viku haldið sig í holtunum fyrir ofan Ennisbraut í Ólafsvík. Hefur hann verið á vappi þar ásamt öðrum stelk, en það var Anton Ingólfsson íbúi við Ennisbraut 37 sem benti ljósmyndara á fuglinn. Haft var samband við Guðmund A. Guðmundsson hjá Náttúrufræðistofnun Íslands og staðfesti hann að um stelk væri að ræða. Minnti Guðmundi að sést hefði til hvíts stelks á svæðinu fyrir tveimur til þremur árum. Ekki væri þó endilega um sama fugl að ræða en skyldleiki gæti verið milli þeirra.

Hvítir stelkir eru ekki algengir og sjást raunar mjög sjaldan. En stelkir eru venjulega grábrúnflikróttir að ofan og ljósari að neðan og minnst flikróttir á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi og er stélið þverrákótt. Stelkur er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfuglar eru brúnleitir að ofan með gula fætur. Ekki sást hreiður í nágrenninu en líklegt er að stelkur þessi eigi hreiður nálægt þar sem stelkir gera sér hreiður í graslendi, mýrum og oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjörðum eða við sveitabæi. Stelkurinn er einnig áberandi á varpstöðum sínum og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður hans eða unga um of. Virtust stelkirnir sprækir þó veðrið undanfarið hafi ekki verið upp á það besta.

Olíutankarnir á Breið teknir niður

10 klukkutímar 38 mín síðan

Í morgun hófst niðurrif á fjórum olíutönkum sem staðið hafa í áratugi á Breiðinni á Akranesi. Það er endurvinnslufyrirtækið Fura sem annast rifin. Tankarnir hafa lítið verið notaðir um hríð og ekkert eftir að leki kom að lögnum sem tengjast þeim á síðasta ári. Tankarnir eru fimm alls en til stendur að láta þann stærsta og elsta standa áfram, en það er eini tankurinn hér á landi sem er hnoðaður á samskeytum og var reistur um 1930. Hugmyndir hafa verið um að nýta þann tank til tónlistarflutnings.

Franskir krakkar settu svip sinn á Grundarfjörð

12 klukkutímar 34 mín síðan

Það var mikið líf og fjör í Grundarfirði í síðustu viku þegar stór hópur franskra ungmenna var í heimsókn. Krakkarnir komu laugardagskvöldið 12. maí og fóru aftur aðfararnótt 19. maí. Krakkarnir voru í gistingu hjá nemendum í 6. 7. og 8. bekk Grunnskóla Grundarfjarðar og voru sum heimili með tvo eða þrjá Frakka í gistingu. Frakkarnir koma allir úr College Chombart de Lauwe í Paimpol en Paimpol er vinabær Grundarfjarðar og hefur verið í allmörg ár. Mikið var brallað hjá krökkunum en meðal annars var farið hringinn í kringum Snæfellsnes, Gullfoss og Geysir voru skoðaðir ásamt því að fara í skoðunarferð um Grundarfjörð. Grundarfjarðarbær bauð öllum í mat eftir skoðunarferðina þar sem skipst var á gjöfum. Síðast voru svona nemendaskipti árið 2015 en þá fóru grundfirskir nemendur til Paimpol og bjuggu inná fjölskyldum þar. Grundapol var stofnað árið 2012 en eftir að það var stofnað hafa tengsl bæjanna styrkst mikið.

Ítarlega er greint frá heimsókninni í Skessuhorni sem kom út í dag.

Fimleikafólk gerði það gott

13 klukkutímar 35 mín síðan

Íslandsmót unglinga í 3.-5. flokki í fimleikum var haldið á Egilsstöðum um síðustu helgi. Um 700 keppendur úr 63 liðum tóku þátt í mótinu. Þar af fór fjöldi keppenda frá Fimleikafélagi Akraness sem keppti undir merkjum ÍA.

Þrjú lið kepptu í 5. flokki og að móti loknu stóðu þau þrjú á verðlaunapallinum, með gull, silfur og brons í sínum flokki. Lið 1 varð jafnframt Íslands- og bikarmeistari í 5. flokki.

Lið ÍA í 3. flokki náðu einnig góðum árangri, höfnuðu í 1. og 5. sæti í sinni deild.

Þrjú lið kepptu í 4. flokki og stóðu sig með mikilli prýði.

Efnilegir fimleikakappar frá Akranesi náðu einnig góðum árangri á Íslandsmótinu í hópfimleikum í 1. og 2. flokki. Það mót fór fram á Akranesi um þarsíðustu helgi. Lið ÍA sigraði í 2. flokki b liða og hafnaði í þriðja sæti í 1. flokki.

Ungmenni ræddu saman um íþróttir og forvarnir

14 klukkutímar 34 mín síðan

Um 130 ungmenni af elsta stigi grunnskólanna í Borgarbyggð komu í síðustu viku saman til fundar í Logalandi, að frumkvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar. Tvö umræðuefni voru tekin fyrir. Annarsvegar hvaða breytingar vilja ungmenni sjá á íþróttastarfi í sveitarfélaginu og hins vegar hvernig fræðslu um forvarnir óska ungmennin eftir og hvernig er heppilegast að koma skilaboðum og upplýsingum til þeirra. Anna Lilja Björnsdóttir frá KVAN flutti erindi um að vera besta útgáfan að sjálfum sér. Umræðustjórn og fundarritun var í höndum ungmenna úr hópnum, en fundarstjóri var Sigurður Guðmundsson framkvæmdastjóri UMSB. „Nemendurnir voru duglegir og komu með flottar ábendingar og hugmyndir sem verða teknar áfram og unnið áfram með innan ungmennafélagshreyfingarinnar,“ sagði Sigurður.

Á vef UMFÍ er greint frá fundinum. Þar segir að það hafi vakið athygli í umræðunum að oft kom upp ósk um upphitaðan gervigrasvöll og stærra íþróttahús í sveitarfélaginu. Jafnframt komu fram óskir um val á fleiri íþróttagreinum eins og handbolta, dansi, skotfimi, bogfimi, motocrossi og hestamennsku. Einnig komu fram óskir um markvissari kynningu á því sem er nú þegar er í boði. Ungmenni voru ánægð með frístundaaksturinn en væru til í að hafa hann í boði á fleiri dögum og einnig heimakstur eftir æfingar. Í seinna umræðuefninu, þar sem fjallað var um forvarnir og fræðslu, komu fram óskir um fræðslu um ofþjálfun, meiðsli í hnjám, kvíða, félagslega einangrun, svefn og vímuefna- og áfengisneyslu. Ungmennin voru á því að heppilegast væri að nálgast þau með því að koma í skólann með fræðslu og best væri ef viðkomandi talaði af reynslu um hlutina. Einnig kom fram að stutt myndbönd næðu helst til þeirra.

Gengið verður til kosninga á laugardaginn

16 klukkutímar 34 mín síðan

Gengið verður til sveitarstjórnarkosninga næstkomandi laugardag. Sveitarfélögin sem tilheyra gamla Veturlandskjördæmi eru tíu talsins, en Reykhólahreppur er ellefta sveitarfélagið á starfssvæði Skessuhorns. Í sex þessara sveitarfélaga verður listakosning; Akranesi, Borgarbyggð, Grundarfirði, Hvalfjarðarsveit, Snæfellsbæ og Stykkishólmi. Óhlutbundin kosning verður í Dalabyggð, Eyja- og Miklaholtshreppi, Helgafellssveit, Skorradalshreppi og Reykhólahreppi.

Í þeim sex sveitarfélögum sem boðnir eru fram listar eru samtals 18 framboð. Skessuhorn sendi oddvitum allra þessara framboða skriflegar spurningar sem allir svöruðu góðfúslega. Svör þeirra birtast í Skessuhorni sem kom út í dag.

Húsbíll fauk út af

Þri, 22/05/2018 - 18:41

Húsbifreið á suðurleið fauk út af veginum skammt hjá Höfn í Melasveit um kl. 17:30 í dag. Bifreiðin var kyrrstæð eða á mjög lítilli ferð þegar óhappið átti sér stað og töluvert hvasst var á svæðinu. Um tíma var einn farþeganna fastur í braki bifreiðarinnar. Náðist að losa hann og virtist hann ekki alvarlega slasaður, að því er fram kemur í tilkynningu lögreglunnar. Aðrir farþegar voru með eymsli eða óslasaðir. Allir fimm sem í bílnum voru voru fluttir til aðhlynningar á slysadeild HVE á Akranesi. Bifreiðin er mikið skemmd eða ónýt.

Gul viðvörun í landshlutanum

Þri, 22/05/2018 - 13:37

Veðurstofan hefur gefið út að í dag og fram á kvöld er gul viðvörun við Faxaflóa og Breiðafjörð. Á vef Veðurstofunnar segir að við Faxaflóa megi búast við 15-23 m/s til klukkan 21 í kvöld, hvassast í vindstrengjum við fjöll. Á Snæfellsnesi má búast við suðaustan 18-23 m/s, snörpum vindhviðum og erfiðum akstursskilyrðum til klukkan 21 í kvöld fyrir bíla sem taka á sig mikinn vind.

Slysalaus helgi en mikið um hraðakstur

Þri, 22/05/2018 - 13:33

Hvítasunnuhelgin gekk vel fyrir sig í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi. „Að vanda var haldið uppi öflugu eftirliti og ekki urðu alvarleg slys í umdæminu. Allt of margir ökumenn óku þó of hratt, en 242 ökutækjum var ekið of hratt þar sem lögreglumenn voru við hraðamælingar. Sá sem hraðast ók mældist á 128 km hraða,“ segir í frétt LVL.

Skorið út á Akranesi

Þri, 22/05/2018 - 11:11

Undangenginn vetur hefur það verið fastur liður hjá hópi Akurnesinga að hittast og skera út í við. Hefur hópurinn komið saman alla miðvikudagsmorgna í húsnæði Félags eldri borgara á Akranesi og nágrenni og reynt sig við útskurðinn, undir handleiðslu Ásgeirs Samúelssonar og Guðmundar Þorsteinssonar. Námskeiðið er opið öllum 60 ára og eldri en einnig yngra fólki ef þess er óskað.

Hópurinn hittist nýverið í síðasta sinni fyrir sumarfrí. Lokadagur námskeiðsins var með hefðbundnu sniði þar sem skorið var út og samverunnar notið. Sumir voru að byrja á nýjum gripum, aðrir að leggja lokahönd á muni sem þeir hafa unnið að undanfarin misseri. Létu upprennandi útskurðarlistamennirnir vel af námskeiðinu, sögðu leiðsögn þeirra Guðmundar og Ásgeirs góða og útskurð skemmtilega dægradvöl. Allir gætu skorið út sem vildu, hægt væri að fá prýðileg byrjendasett með öllum helstu tréskurðarhnífum sem þarf til að hefjast handa. Þeir sem blaðamaður ræddi við kváðust ætla að halda áfram að skera út sér til ánægju og hugðust taka aftur þátt í námskeiðinu þegar það fer af stað að nýju næsta haust.

Sjá nánar í síðasta Skessuhorni.

Skagakonur úr leik í bikarnum

Þri, 22/05/2018 - 10:24

Skagakonur féllu úr leik í Mjólkurbikar kvenna eftir 0-2 tap gegn Keflavík í gær. Leikið var um sæti í 16 liða úrslitum.

Barátta einkenndi leikinn og mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Bæði liðin lögðu upp með að spila þétta vörn og gefa fá færi á sér. Enda var leikurinn fremur daufur hvað það varðar lengst framan af. Skagakonur fengu ekki mörg marktækifæri í fyrri hálfleik og tókst ekki að nýta þau fáu færi sem þó tókst að skapa. Keflavíkurliðið átti sömuleiðis nokkrar álitlegar sóknir sem allar runnu út í sandinn. Staðan í hálfleik var því markalaus.

Síðari hálfleikur var keimlíkur þeim fyrri fyrstu mínúturnar. Allt þar til á fimm mínútna kafla í kringum 60. mínútu þegar Keflavík skoraði tvö mörk og breytti gangi leiksins algerlega. Fyrst skoraði Aníta Lind Daníelsdóttir eftir þvögu í teig ÍA á 57. mínútu. Fimm mínútum varð Eva María Jónsdóttir síðan fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir góða sókn gestanna.

Skagakonur reyndu sem mest þær máttu að komast aftur inn í leikinn. Þeim tókst að skapa sér nokkur ágætis tækifæri til að minnka muninn og setja pressu á gestina en tókst ekki að nýta þau. Keflvíkingar þéttu vörnina og beittu hröðum sóknum sem reyndu á stundum töluvert á vörn ÍA. En hvorugu liði tókst að skora, Keflavík fór því með sigur af hólmi og Skagakonur hafa lokið þátttöku í bikarnum í ár.

Fimm prósent aukins vegafjár á Vesturland

Þri, 22/05/2018 - 10:13

Samkvæmt frétt Stöðvar2 síðastliðinn fimmtudag er Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra, í samráði við Vegagerðina, búinn að ráðstafa þeim fjórum milljörðum króna sem ríkisstjórnin ákvað að verja til aukinna vegaframkvæmda á þessu ári, umfram fjárlög. Athygli vekur að upplýsingar um ráðstöfun fjárins hafa ekki verið birtar opinberlega á upplýsingavefjum ráðuneytisins né hjá Vegagerðinni. Samkvæmt fréttinni er eina vegaframkvæmdin sem rennur á Vesturland uppbygging þriggja kílómetra langs vegarkafla í Laxárdal í Dölum, frá Lambeyrum að Gröf. Er sú framkvæmd talin kosta 200 milljónir króna. Það framlag er um 5% af fyrrgreindu viðbótarframlagi ríkissjóðs.

Samgönguráðherra og vegamálastjóri hafa nú, samkvæmt fréttinni, gefið vegagerðarmönnum fyrirmæli um að láta þessa peninga sem um ræðir komast strax í vinnu. 2,4 milljarðar króna, eða um 60 prósent framlagsins fer til viðhalds eldri vega. „Viðhaldsþörfin er mjög mikil og síðan er hægur leikur að auka þar við umfang verka, þannig að það er þægilegra að koma þeim fjármunum í vinnu,“ segir forstöðumaður viðhaldsdeildar Vegagerðarinnar í samtali við Stöð 2. Stærstu viðhaldsverkin verða á Gullna hringnum í uppsveitum Árnessýslu.

Meðal stærstu nýframkvæmda, samkvæmt frétt Stöðvar 2, eru Grindavíkurvegur, Dettifossvegur og Borgarfjörður eystri meðal þeirra sem njóta góðs af þessu viðbótarfé. Til nýframkvæmda fara 1.640 milljónir króna en þeim fjármunum verður meðal annars ráðstafað til að stækka verkáfanga, sem þegar eru í framkvæmd, eins og á Dettifossvegi. 350 milljónum verður bætt í Grindavíkurveg, ofan á 200 milljónir, sem áður voru ákveðnar. Þar verða akstursstefnur skildar að á sex kílómetra kafla milli Bláalónsvegar og Reykjanesbrautar, og hraðaeftirlitsmyndavélar settar upp. Í Reykjanesbraut fara 50 milljónir til að undirbúa tvöföldun í gegnum Hafnarfjörð, milli Kaldárselsvegar og Krýsuvíkurvegar. Ljúka á gerð útboðsgagna svo unnt verði að bjóða verkið út snemma árs 2019. Í Suðurlandsveg um Ölfus fara 300 milljónir, sem fyrsti áfangi að breikkun milli Hveragerðis og Selfoss, en framkvæmdin kostar alls 5,5 milljarða króna. Í Þingvallaveg um þjóðgarðinn fara 250 milljónir. Bæta á veginn frá þjónustumiðstöð að Vallavegi. Norðanlands fara 70 milljónir í malbik að Dagverðareyri og 200 milljónir í Dettifossveg, milli Súlnalækjar og Ásheiðar. Áætlað er að enn vanti 1.400 milljónir til að klára Dettifossveg að vestanverðu. Austanlands fara 220 milljónir í slitlag á tvo kafla til Borgarfjarðar eystri. Af þeim fara 120 milljónir í Borgarfjarðarveg við Vatnsskarðsvatn og í Njarðvík og 100 milljónir í Njarðvíkurskriður.

Felldu niður síðari tvo keppnisdaga golfmóts

Þri, 22/05/2018 - 09:32

Til stóð að halda þriggja daga golfmót, Egils Gull mótið, á Garðavelli á Akranesi um síðustu helgi. Eftir fyrsta keppnisdag á föstudaginn ákvað mótsstjórn hins vegar að fengnu áliti og ráðgjöf frá Veðurstofu Íslands að fella niður annan og þriðja mótsdag. Veðurspá fyrir laugardaginn 18. maí var ekki ákjósanleg til golfleiks og því síður veðurspá fyrir sunnudaginn. Mótið var hluti af Eimskipsmótaröðinni.

Spilamennskan eftir fyrsta keppnisdag var því látin gilda til úrslita. Í karlaflokki sigraði Axel Bóasson GK með -4 höggum og í kvennaflokki voru jafnar í efsta sæti með +4 högg þær Arna Rún Kristjánsdóttir GM og Guðrún B Björgvinsdóttir GK.

Sólvellir í sveitaferð

Þri, 22/05/2018 - 09:01

Eins og tíðkast á vorin þá fara nemendur leikskólans Sólvalla í Grundarfirði í sveitaferðir og komast í kynni við almenn sveitastörf og sveitalífið. Árgangur 2013 var í heimsókn á bænum Kverná við Grundarfjörð þegar ljósmyndari Skessuhorns kíkti við. Þar voru krakkarnir að gefa hestunum og kindunum brauð. Svo var farið og kíkt á lömbin, hænurnar og önnur dýr áður en hópurinn fór aftur á leikskólann reynslunni ríkari.

Skólakór hélt tónleika og fór í óvissuferð

Þri, 22/05/2018 - 08:01

Skólakór Snæfellsbæjar hélt vortónleika sína í safnaðarheimili Ingjaldshólskirkju síðastliðinn  fimmtudag. Vel var mætt á tónleikana þar sem kórinn flutti 12 lög. Fékk kórinn góðar viðtökur gesta. Stjórnandi kórsins er Veronica Osterhammer og undirleikari er Nanna Aðalheiður Þórðardóttir. Skólakórinn er nú kominn í sumarfrí að mestu. Hann hélt uppskeruhátíð sína fyrir nokkru þegar kórinn ásamt stjórnanda, undirleikara og nokkrum foreldrum fóru í óvissuferð.  Farið var í Borgarnes þar sem kórinn söng nokkur lög í Borgarneskirkju ásamt Barnakór kirkjunnar sem var heimsóttur. Síðan var farið í sund í Borgarnesi, að því loknu var Latabæjarsafnið skoðað. Áður en haldið var heim var svo borðað í LaColina. Heppnaðist ferðin hin besta og bíða krakkarnir í Skólakór Snæfellsbæjar spennt eftir að hefja æfingar aftur í haust.

Ný stofnun á að bæta gæði heilsugæslu um allt land

Þri, 22/05/2018 - 06:01

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í síðustu viku ákvörðun sína um að auka til muna fjármuni til að efla og þróa heilsugæsluþjónustu á landinu: „Markmiðið er ekki síst að jafna aðgengi landsmanna að þessari mikilvægu grunnþjónustu hvar sem fólk býr, efla gæði þjónustunnar og stuðla að nýjungum,“ segir heilbrigðisráðherra. Þróunarmiðstöð sem sett verður á laggirnar mun hafa 13 starfsmenn. Árlegur rekstrarkostnaður er áætlaður tæpar 230 milljónir króna og mun þróunarmiðstöðin verða til húsa innan Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar á landsvísu mun byggja á grunni hennar, en fær aukið sjálfstæði, víðtækara hlutverk og mun sem fyrr segir leiða faglega þróun allrar heilsugæsluþjónustu í landinu, hvort sem hún er veitt af hinu opinbera eða einkarekin.“

Þá er horft til þess að með Þróunarmiðstöð heilsugæslunnar skapist stóraukin tækifæri fyrir fagfólk heilsugæslunnar um allt land, til virkrar þátttöku í gæða- og þróunarverkefnum sem torvelt hefur verið að sinna á minni stöðum. Þetta muni styrkja faglegt starf innan heilsugæslu á landsbyggðinni og einnig skapa aukin tækifæri til að miðla þekkingu og reynslu milli stofnana og rekstrareininga. Heilbrigðisráðherra hefur staðfest reglugerð sem kveður á um starfsemi Þróunarmiðstöðvar heilsugæslunnar og verður hún birt í Stjórnartíðindum á næstu dögum.“

Grátlegt tap Víkings Ó.

mánud., 21/05/2018 - 14:48

Liðsmenn Víkings Ó. máttu játa sig sigraða, 0-1, þegar þeir mættu Magna í 1. deild karla í knattspyrnu á laugardag. Leikurinn var jafn og fjörlegur og úrslitin réðust ekki fyrr en í uppbótartíma.

Bæði lið mættu ákveðin til leiks og sköpuðu sér fullt af færum í fyrri hálfleik. Magnamenn skölluðu í þverslánna og yfir snemma leiks og fengu síðan dauðafæri eftir korters leik. Ívar Örn Árnason var aleinn á markteig Víkings þegar boltinn var sendur fyrir markið en skalli hans fór framhjá. Víkingar fengu einnig sín færi. Ingibergur Kort Sigurðsson komst inn í þversendingu, geystist að teignum og átti skot að marki en varnarmenn Magna komust fyrir boltann á síðustu stundu. Gonzalo Zamorano komst síðan einn gegn Ívari Erni skömmu fyrir hálfleik en Ívar varðist vel. Staðan því markalaus í hléinu.

Magnamenn voru ívið sterkari eftir hléið og sköpuðu sér fleiri færi en Víkingsliðið stóð vörnina vel. Ólafsvíkingar vildu fá víti á 71. mínútu þegar Ívar Reynir Antonsson féll í teignum en dómari leiksins var þeim ekki sammála og áfram hélt leikurinn. Víkingur Ó. sótti í sig veðrið eftir því sem leið á. Sóknarþungi þeirra jókst en Magni þétti vörnina og stóðu það af sér. Leikurinn virtist ætla að enda með jafntefli þegar Magnamenn skoruðu í uppbótartíma. Þeir sóttu og voru við það að sleppa í gegn þegar boltinn hrökk út í teiginn. Þar kom Bjarni Aðalsteinsson á ferðinni og lagði boltann í hornið fjær af mikilli yfirvegun og Magnamenn búnir að stela sigrinum. Leikmenn Víkings gerðu örvætningarfullar tilraunir til að jafna metin á lokasekúndum leiksins en gekk ekki. Magni sigraði 1-0 og krækti í fyrstu stigin í 1. deildinni.

Víkingur situr aftur á móti í fimmta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Njarðvík í sætinu fyrir ofan og Haukar og Þróttur R í sætunum fyrir neðan. Næst mæta Ólafsvíkingar liði Hauka að Ásvöllum á föstudag, 25. maí næstkomandi.

Skagamenn höfðu mikla yfirburði

mánud., 21/05/2018 - 14:19

Skagamenn sigruðu Hauka örugglega, 3-1, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu á föstudag. Leikið var á Akranesvelli. Skagamenn tróna á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fyrstu þrjá leiki sumarsins.

Ákefð og kraftur einkenndi leik Skagmanna á föstudaginn. Þeir voru mættu mun ákveðnari til leiks og fengu dauðafæri strax á 5. mínútu. Þórður Þorsteinn Þórðarson slapp einn í gegn eftir vandræðagang í vörn Hauka en skot hans var slakt og auðveldlega varið. Yfirburðir ÍA liðsins voru algjörir framan af fyrri hálfleik. Haukar áttu skot í varnarmann og þaðan rétt framhjá stönginni eftir um 25. mínútna leik, en annars náðu þeir ekki að ógna markinu.

Það var því verðskuldað þegar Skagamenn tóku forystuna eftir hálftíma leik. Steinar Þorsteinsson kláraði vel einn á móti markmanni og skoraði þar með þriðja markið sitt í deildinni í vetur. Skömmu fyrir hálfleik fengu Skagamenn dauðafæri eftir frábæra sendingu Einars Loga Einarssonar á Stefán Teit Þórðarson sem mokaði knettinum yfir markið. Staðan í hléinu því 1-0.

Haukar virtust ákveðnar í upphafi síðari hálfleiks en það dugði þeim skammt. Skagamenn voru í miklu stuði og komust í 2-0 á 56. mínútu eftir skelfileg mistök Jökuls Blængssonar í marki Hauka. Langt innkast var flikkað áfram inn í teiginn. Jökull stökk á boltann en missti hann undir sig og fyrir fætur Stefáns Teits sem þakkaði pent og potaði boltanum yfir línuna.

Stefán Teitur var aftur á ferðinni á 67. mínútu þegar hann kláraði vel eftir undirbúning Steinars. Áfram voru Skagamenn sterkari og það var ekki fyrr en stutt var eftir að Haukar ógnuðu markinu aðeins. Á 84. mínútu minnkuðu þeir muninn þegar Daði Snær Ingason skoraði fallegt mark með skoti af löngu færi. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur því 3-1, Skagamönnum í vil.

ÍA hefur sem fyrr segir níu stig á toppi deildarinnar eftir þrjá leiki, tveimur stigum meira en næstu lið. Þeir fá tækifæri til að halda sigurgöngunni áfram næstkomandi föstudag, 25. maí, þegar þeir mæta Njarðvíkingum. Sá leikur fer fram á Akranesi.

Eyjólfur og Bjarni áfram hjá Skallagrími

mánud., 21/05/2018 - 13:33

Eyjólfur Ásberg Halldórsson og Bjarni Guðmann Jónsson hafa endurnýjað samninga sína við körfuknattleiksdeild Skallagríms. Munu þeir leika með liði Borgnesinga í Domino‘s deild karla næsta vetur. Báðir voru þeir í lykilhlutverki hjá Skallagrími sem hampaði deildarmeistaratitli 1. deildar á liðnum vetri. „Er áframhaldandi vera þeirra í liðinu því mikið fagnaðarefni,“ segir á vef Skallagríms.

Eyjólfur átti afar góðu gengi að fagna síðasta vetur. Hann skoraði 18,2 stig að meðaltali í leik, tók 10,3 fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Eyjólfur var valinn leikmaður ársins í 1. deild á verðlaunahófi KKÍ, valinn í lið ársins og einnig valinn leikmaður ársins í meistaraflokki á lokahófi Skallagríms. Næsta leiktímabil verður þriðja keppnistímabil Eyjólfs með Borgnesingum, en hann gekk til liðs við Skallagrím árið 2016.

Bjarni Guðmann Jónsson á einnig afar gott tímabil að baki. Hann var í lykilhlutverki í liði Skallagríms, skoraði 9,6 stig, tók 4,9 fráköst og gaf 2,3 stoðsendingar að meðaltali í leik. Bjarni var valinn í lið ársins í 1. deildinni og útnefndur varnarmaður ársins á lokahófi Skallagríms. Bjarni er fæddur og uppalinn í Borgarnesi og hefur leikið með Skallagrími alla sína tíð.

Síður