Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 37 mín 4 sek síðan

Vegagerðin mælir áfram með leið Þ-H um Reykhólasveit

7 klukkutímar 27 mín síðan
  • Telur Þ-H leið ódýrari kost, öruggari og styttri

Vegagerðin hefur birt niðurstöðu frumathugunar á vænleika þess að leggja Vestfjarðaveg um Reykhóla og með brú yfir utanverðan Þorskafjörð, en að öðrum kosti að fara svokallaða Þ-H leið um Teigsskóg. „Niðurstaða könnunar Vegagerðarinnar á svokallaðri R-leið um Reykjanes og utanverðan Þorskafjörð er að hún er töluvert dýrari en Þ-H leiðin sem Vegagerðin mælir með. Umferðaröryggi er minna á leið R, sú leið er lengri en Þ-H og sú leið, eða leið svipuð henni, myndi tefja framkvæmdir um 2-3 ár, sé horft framhjá hugsanlegum kærumálum á báðum leiðum,“ segir í tilkynningu Vegagerðarinnar.

Í skýrslu Vegagerðarinnar er leið R tekin til skoðunar og gerð grein fyrir þeim breytingum sem stofnunin telur nauðsynlegt að gera til að uppfylltar séu þær kröfur sem gilda um hönnun nýrra stofnvega á vegakerfi Íslands. „Er sú leið nefnd leið A3 til aðgreiningar frá leið Multiconsult [R-leið, innsk. blm]. Í skýrslunni er jafnframt að finna samanburð leiðar A3 og leiða Þ-H og D2 þar sem tekið er á helstu þáttum sem skipta máli varðandi ákvörðun um leiðarval. Afstaða Vegagerðarinnar eftir að hafa unnið þessa skýrslu er sú að leið Þ-H sé besta leiðin til bættra vegasamganga á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Rökin fyrir því segja starfsmenn Vegagerðarinnar helst eftirfarandi í samanburði við leið A3:

  • Umferðaröryggi er að öllum líkindum minna á leið A3.
  • Leið A3 er töluvert lengri en leið Þ-H eða 4,7 km.
  • Kostnaður við leið A3 er verulega meiri en við leið Þ-H sem nemur tæpum 4 milljörðum kr.
  • Ljóst er að umhverfisáhrif eru töluverð á leið A3. Kanna þarf matsskyldu og líklegt að gerð verði krafa um umhverfismat.
  • Efnisþörf fyrir leið A3 er meiri og opna þarf fleiri námur.
  • Verði farin leið A3 mun það líklega tefja framkvæmdir um tvö til þrjú ár.

Skýrsluna í heild sinni og teikningar má finna á vef Vegagerðarinnar.

Styrkja fótboltann vegna góðs árangurs

9 klukkutímar 50 mín síðan

Á fundi bæjarráðs Akraneskaupstaðar í liðinni viku var samþykkt tillaga Rakelar Óskarsdóttur bæjarfulltrúa um að veita KFÍA styrk að fjárhæð ein milljón króna vegna árangurs meistaraflokks og annars flokks karla í knattspyrnu í sumar. Meistaraflokkur karla sigraði eins og kunnugt er í Inkasso deildinni og fer sem sigurvegari í Pepsí deildina að ári.  Annar flokkur karla varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í 13 ár í A-riðli Íslandsmótsins.

Ísland án sigurs í Þjóðadeildinni

12 klukkutímar 32 mín síðan

Ísland er enn án sigurs í A deild Þjóðadeildar UEFA eftir 2-1 tap gegn Sviss á Laugardalsvellinum í gærkvöldi.

Fyrri hálfleikur var fremur tíðindalítill og lítið um opnanir. Staðan í hléinu var því 0-0 en Svisslendingar byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti. Þeir komust yfir á 52. mínútu þegar Haris Seferovic skoraði með skalla af stuttu færi. Þeir höfðu góð tök á leiknum eftir markið og bættu við öðru marki á 67. mínútu þegar Michael Lang skoraði af stuttu færi eftir að Svisslendingar höfðu galopnað vörn Íslands.

Það var síðan á 81. mínútu sem Alfreð Finnbogason skoraði glæsilegt mark með þrumuskoti af löngu færi og minnkaði muninn í 2-1. Íslenska liðið sótti stíft á lokamínútum leiksins og gestirnir mega prísa sig sæla að halda forystunni. Í eitt skiptið björguðu Svisslendingar á marklínu eftir þunga sókn íslenska liðsins, sem var hættulegt fram á við um leið og það öðlaðist sjálfstraust til að sækja. En þrátt fyrir að hafa legið á gestunum undir lokin tókst Íslandi ekki að skora og Sviss fór því með 2-1 sigur af Hólmi.

Ísland hefur tapað öllum þremur leikjum sínum í Þjóðadeildinni, tveimur gegn Sviss og einum gegn Belgíu. Því er útséð að Ísland fellur niður í B deild þjóðadeildarinnar, þrátt fyrir að einn leikur gegn Belgíu sé eftir. Sá fer fram í Brussel fimmtudaginn 15. nóvember næstkomandi.

VR samþykkir kröfugerð sína

13 klukkutímar 16 mín síðan

Á fundi trúnaðarráðs VR í gærkvöldi var kröfugerð félagsins fyrir komandi kjarasamningaviðræður samþykkt. „Í kröfugerðinni kemur fram að markmið með gerð kjarasamninga nú verði að rétta hlut þeirra lægst launuðu og auka ráðstöfunartekjur allra félagsmanna VR. Það sé því mikilvægt að bregðast við því misræmi sem sjá má í launaþróun þeirra hæst launuðu í þjóðfélaginu sem má meðal annars rekja til ákvörðunar kjararáðs árið 2016. VR telur mikilvægt að taka sérstakt tillit til stöðu þeirra sem hafa lægstu launin og leggur því til að samið verði um krónutöluhækkun.“

VR gerir kröfu um kr. 42.000 hækkun á launum frá og með 1. janúar 2019, þannig að lágmarkslaun verði þá kr. 342.000. Öll laun hækki um kr. 42.000. Þá gerir félagið kröfu um 42.000 kr. hækkun frá og með 1. janúar 2020 þannig að lágmarkslaun verði þá kr. 384.000. Öll laun hækki um kr. 42.000 kr. Loks gerir VR kröfu um kr. 41.000 hækkun frá og með 1. janúar 2021 þannig að lágmarkslaun verði kr. 425.000. Öll laun hækki um kr. 41.000 kr.

Þá gerir VR þá kröfu að vinnuvika félagsmanna verði stytt, án launaskerðingar í 35 stundir á viku bæði hjá skrifstofu- og verslunarfólki. Félagið leggur til að stórátak verði gert í húsnæðismálum þjóðarinnar og að vegna þess verði stofnað óhagnaðardrifið húsnæðisfélag og verði fjármögnun þess tryggð í kjarasamningi. „VR gerir þá kröfu að stjórnvöld komi að gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði, meðal annars með því að endurskoða persónuafslátt og tekjutengingar. Þá gera félagsmenn VR kröfu um skattleysi lægstu launa, lækkun vaxta og afnám verðtryggingar á neytendalán.“

Fjallað um hrossahald á fræðslukvöldi Borgfirðings

14 klukkutímar 28 mín síðan

Annað kvöld, miðvikudaginn 17. október klukkan 20, verður Guðlaugur V Antonsson með fyrirlestur um hrossahald, aðbúnað og eftirlit. „Fjallað verður meðal annars um innréttingar i hesthúsum og þær reglugerðir sem þeim fylgja. Fyrirlesturinn verður í félagsheimili Borgfirðings, frítt inn og allir velkomnir,“ segir í tilkynningu frá fræðslunefnd Borgfirðings.

Bleikur himinn á bleikum föstudegi

15 klukkutímar 27 mín síðan

Föstudagurinn 12. október var Bleiki dagurinn. Hann hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár og hápunktur bleika októbermánuðarins. Þennan dag eru landsmenn hvattir til að sýna samstöðu, klæðast bleiku og hafa bleikt í fyrirrúmi. Dagurinn er tileinkaður vakningu fyrir brjóstakrabbameini.

Meðfylgjandi mynd var tekin úr blokkinni á Sólmundarhöfða yfir Langasand og byggðina á Akranesi. Síðdegis þennan dag var, eins og eftir pöntun, himininn fagurbleiklitaður og baðaði landið sérstökum ljóma í tilefni dagsins. Meðfylgjandi mynd tók Sigríður Gróa Kristjánsdóttir af heimili sínu.

Northern Wave í ellefta sinn í lok október

17 klukkutímar 28 mín síðan

Alþjóðlega kvikmyndahátíðin Northern Wave, eða Norðanáttin, fer fram í ellefta sinn helgina 26.-28. október í Frystiklefanum í Rifi á Snæfellsnesi. Dögg Mósesdóttir, skipuleggjandi hátíðarinnar frá upphafi, segir að hátíðin hafi náð að festa sig vel í sessi og viðtökur við henni eru góðar. „Við höfum samt mætt smá erfiðleikum, þar sem við erum í samkeppni við ferðaþjónustu og aðra menningarviðburði á svæðinu, en það er frábært að það sé nóg um að vera á svæðinu. Það er mikil breyting frá því við byrjuðum,“ segir Dögg. Til dæmis hafi hátíðin þurft að færa sig um set frá Grundarfirði yfir í Rif fyrir nokkrum árum, þar sem gisting í Grundarfirði var orðin af skornum skammti.

Nánar er rætt við Dögg í Skessuhorni sem kemur út í fyrramálið.

Hundrað þúsund sáu landbúnaðarsýninguna

mánud., 15/10/2018 - 14:06

Um hundrað þúsund gestir komu á sýninguna Íslenskur landbúnaður 2018 er haldin var í Laugardalshöllinni um helgina. Slík aðsókn hefur vart sést á sýningu hér á landi áður. Að sögn Ólafs M. Jóhannessonar framkvæmdastjóra sýningarinnar voru undirtektir afar jákvæðar:

„Það var einstaklega ánægjulegt hversu duglegir bændur voru að heimsækja sýninguna. Fóru jafnvel í hópferðir frá fjarlægum landshlutum eða flugu suður. Margir pöntuðu gistingu í Bændahöllinni og heimsóttu sýninguna oftar en einu sinni. Tjáðu bændur undirrituðum að það hefði verið gleðilegt að sjá hversu margir borgarbúar hefðu líka komið í heimsókn til að líta augum hina fjölbreyttu sýningarbása er endurspegluðu þann þrótt og fjölbreytileika er einkennir nútíma landbúnað. Þá undruðust gestir hversu tæknivæddur nútíma landbúnaður er að verða og er orðinn að mörgu leyti. Vegur slík sýning á móti oft einhliða fréttaflutninga af sveitum og bændastéttinni. Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Kínaveldis kom í heimsókn á sýninguna og hreifst svo mjög af hinum hreinu afurðum er hann smakkaði að hann bauð einum ostagerðarmanninum umsvifalaust í heimsókn til Kína. Þessi sýning færir okkur heim sanninn um að við eigum einstakt land er fóstrar hrein og ómenguð matvæli. Við búum í landi hreinleika og fegurðar og það eru bændurnir sem eru gæslumenn landsins” sagði Ólafur að lokum.

Í næsta Skessuhorni verður sýningunni gerð vegleg skil.

Vesturlandsslagur í fyrstu umferð bikarsins

mánud., 15/10/2018 - 13:13

Nú í hádeginu var dregið í 32 liða úrslit karla í bikarkeppni KKÍ, sem að þessu sinni kallast Geysisbikarinn. Fjögur Vesturlandslið voru í pottinum; Grundarfjörður, ÍA, Snæfell og Skallagrímur. Drógust tvö þeirra saman, því Grundfirðingar taka á móti ÍA í Grundarfirði. Verður því Vesturlandsslagur í fyrstu umferð bikarsins. Snæfell mætir Þór Þ. í Stykkishólmi og Skallagrímur mætir Hetti austur á Egilsstöðum. Leikið verður dagana 3., 4. og 5. nóvember næstkomandi.

Aðrar viðureignir en Vesturlandsliðanna eru eftirfarandi:

Stjarnan – Breiðablik

Þór Ak. – Haukar

Selfoss – Sindri

Grindavík – Keflavík

Haukar b – KR b

Álftanes – KR

Reynir S – Tindastóll

Vestri b – Hamar

Njarðvík – Valur

KV – Fjölnir

Alls eru 29 lið skráð til leiks í bikarkeppni karla að þessu sinni. Af þeim sökum var dregið í 13 viðureignir en þrjú lið sitja hjá og fara beint í 16 liða úrslit. Þau eru; Vestri, Njarðvík b og ÍR.

Styrkja verslun á strjálbýlustu svæðunum

mánud., 15/10/2018 - 12:11

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur opnað fyrir umsóknir um framlög sem veitt eru vegna verslunar í strjálbýli. Markmið með aðgerðinni er að styðja verslun í skilgreindu strjálbýli fjarri stórum þjónustukjörnum, þar sem verslun hefur átt erfitt uppdráttar. Framlögin geta nýst til að bæta rekstur verslana og skjóta frekari stoðum undir hann, m.a. með samspili við aðra þjónustu, breyttri uppsetningu í verslunum og bættri aðkomu. Ráðgert er að styðja 3-4 verkefni. Umsóknarfrestur er til miðnættis mánudaginn 19. nóvember 2018. Skilyrði eru þau að verslanirnar þurfa að vera í a.m.k. 150 km akstursfjarlægð frá höfuðborgarsvæðinu, 75 km akstursfjarlægð frá Akureyri og 40 km akstursfjarlægð frá byggðakjörnum með yfir 1.000 íbúa, eða í Grímsey og Hrísey.

Sjá nánar frétt á vef ráðuneytis sveitarstjórnarmála.

Snæfell tapaði heima gegn Hetti

mánud., 15/10/2018 - 10:08

Snæfell mátti sætta sig við tap gegn Hetti, 70-83, þegar liðin mættust í annarri umferð 1. deildar karla í körfuknattleik á föstudag. Leikið var í Stykkishólmi.

Gestirnir frá Egilsstöðum náðu undirtökunum snemma leiks en Snæfellingar voru aldrei langt undan. Fimm stigum munaði þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta. Hattarmenn áttu lokaorðið og höfðu átta stiga forskot fyrir annan fjórðung, 20-28. Annar leikhluti fór hægt af stað en gestirnir komust tíu stigum yfir um hann miðjan, 22-32. Þeirri forystu héldu þeir meira og minna óbreyttri allt þar til hálfleiksflautan gall. Staðan í hléinu var 35-45 fyrir gestina.

Höttur skoraði fyrstu átta stig síðari hálfleiks og komust í 35-53. Snæfellingar voru lengur í gang en tókst að minnka muninn niður í ellefu stig áður en þriðji leikhluti var úti, 49-60. Þeir settu síðan allt í botn í upphafi fjórða leikhluta og minnkuðu muninn í fimm stig. Aðeins vantaði herslumuninn upp á að Snæfellingar kæmust upp að hlið gestanna en svo varð ekki. Höttur náði að halda um það bil fimm stiga forskoti og bæta við nokkrum stigum á lokamínútunum. Lokatölur urðu því 70-83, Hetti í vil.

Deandre Mason var atkvæðamestur í liði Snæfells með 26 stig og 13 fráköst. Dominykas Zupkauskas skoraði 18 stig, gaf sjö stoðsendingar og tók sex fráköst og Darrel Flake var með ellefu stig og átta fráköst.

Andrée Fares Michelsson, fyrrum leikmaður Snæfells, átti stórleik í liði Hattar og skoraði 37 stig. Charles Clark var með 18 stig, níu fráköst og fimm stoðsendingar og David Guardia Ramos skoraði tólf stig.

Snæfell er án sigurs í sjöunda sæti deildarinnar eftir fyrstu tvo leiki vetrarins. Næst leika Snæfellingar á föstudaginn, 19. október, þegar liðið mætir Fjölni á útivelli.

Skútu sem stolið var á Ísafirði var siglt til Rifs

mánud., 15/10/2018 - 09:50

Lögreglan á Vesturlandi, ásamt sérsveitarmönnum og starfsmönnum Landhelgisgæslunnar, handtóku í gærkvöldi karlmann sem er grunaður um að hafa tekið skútu ófrjálsri hendi, þar sem hún var bundin við bryggju á Ísafirði. Það var Lögreglan á Vestfjörðum sem óskaði í gærdag eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar þegar í ljós kom að skútan var horfin. Varðskip og þyrla Gæslunnar fóru til leitar og fannst skútan á siglingu á áttunda tímanum í gærkvöldi. Var fylgst með henni úr lofti en henni lagt við bryggju í Rifi um níuleytið í gærkvöldi.

Skútan sem um ræðir heitir Inook og er þrjátíu til fjörutíu fet að lengd. Eigandi hennar er franskur. Til stóð að geyma skútuna í vetur á Ísafirði en hún hefur verið notuð til að sigla milli Íslands og Grænlands. Segl skútunnar voru í geymslu á Ísafirði og var henni því siglt fyrir vélarafli. Lögregla verst nánari fregna af málinu.

Sjávarútvegsráðherra með opinn fund í Röst

mánud., 15/10/2018 - 09:01

Fjölmargir útgerðamenn mættu á opinn fund í félagsheimilinu Röst á Hellissandi sem Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra boðaði til síðastliðið fimmtudagskvöld. Til umræðu voru breytingar á auðlindagjaldi og einföldun innheimtu þess sem lagt var fram í frumvarpi ráðherra nýverið. Gestir létu vel í sér heyra á fundinum um hversu hátt þeir væru skattlagðir en voru þó sammála um að gott væri að einfalda gjaldið, þótt þessi umdeildi skattur á útgerðir landsins muni ekki lækka við frumvarpið.

Ólafur Rögnvaldsson framkvæmdastjóri Hraðfrystihúss Hellissands kvaðst t.d. sáttur við breytingarnar en sagði á fundinum að gjaldið væri allt of hátt. Nóg væri að hafa það 5 til 6 krónur á kílóið af fiski í staðinn fyrir 12-13 krónur. Annar fundarmaður sagði að það væri tekið strax af þeim 5,6% af kvótanum í allskonar potta og svo bættist þetta auðlindagjald við. Spurði sá ráðherra hvort annar atvinnuvegur væri skattlagður með svipðuðum hætti og sjávarútvegurinn? Ráðherra sagðist skilja sjónarmið útgerðarmanna, en hann réði þessu ekki einn. Nýja frumvarpið ætti nú eftir að fara í gegnum þingið og kvaðst Kristján Þór með því vera búinn að gera hvað hann gæti til að koma til móts við gagnrýnisraddir.

Stærsta landbúnaðarsýningin í hálfa öld

mánud., 15/10/2018 - 08:01

Stórsýningin Íslenskur landbúnaður 2018 fór fram í og við Laugardalshöllinni í Reykjavík frá föstudegi til sunnudags um nýliðna helgi. Sýningarsvæði hallarinnar var stappfullt sýnendum og þétt raðað í höllina. Einnig var sýningarsvæði utan dyra þar sem stærri tæki og tól fengu að njóta sín. Gestir gátu valið um að njóta sýningar, ræða við fólk, þiggja smökkun matvæla í föstu og fljótandi formi auk þess sem fyrirlestrar og fræðsla allskonar var í boði alla sýningardagana. Fimmtíu ár eru síðan stórsýning af þessu tagi var haldin í Laugardalnum. Óhætt er að segja að viðtökur hafi verið góðar, bæði af sýnendum og gestum. Fólk streymdi að frá morgni til kvölds alla sýningardagana og nær útilokað var að fá bílastæði í nágrenni hallarinnar. En þar sem veður var gott kom það ekki að sök.

Ítarlega verður fjallað um sýninguna í máli og myndum í næsta Skessuhorni.

Sömdu Sturlungar þetta allt saman?

mánud., 15/10/2018 - 06:01

Fyrirlestur dr. Hauks Þorgeirssonar í minningu Snorra Sturlusonar, sem fresta þurfti 2. október síðastliðinn verður á dagskrá í Bókhlöðu Snorrastofu annað kvöld, þriðjudaginn 16. október kl. 20:30. „Eins og áður hefur komið fram gerir Haukur þar grein fyrir leitinni að höfundi Íslendingasagna, sem á áhugaverðan hátt tengist nafni Snorra.  Snorrastofa hvetur fólk til að kynna sér þær áhugaverðu rannsóknir, sem Haukur hefur stundað og framtíðarsýn þeirra, sem ástunda slíka höfundaleit,“ segir í tilkynningu.

Um fyrirlesturinn segir Haukur sjálfur:

„Hverjir sömdu Íslendinga sögurnar? Í miðaldahandritum er engin þeirra eignuð höfundi með skýrum hætti en fræðimenn hafa með ýmsum rökum tengt þær við nafngreinda einstaklinga frá 13. öld. Sérstaklega hefur sjónum verið beint að Sturlungum. Egils saga hefur verið kennd Snorra Sturlusyni og Laxdæla saga Ólafi Þórðarsyni. Sturla Þórðarson hefur verið orðaður við Eyrbyggja sögu, Grettis sögu, Njáls sögu og Gull-Þóris sögu. Rökin fyrir þessu eru missterk. Í erindinu verður rætt um þau rök sem beitt hefur verið á þessu sviði og sérstaklega fjallað um um stórtækan samanburð á orðtíðni textanna. Stílmæling með aðstoð hugbúnaðar er aðferð sem hefur sannað gildi sitt við rannsóknir á höfundum en hún hefur einnig ákveðnar takmarkanir, sérstaklega þegar henni er beitt á texta frá miðöldum. Farið verður yfir nýlegar rannsóknir á sviðinu og reifað hvers konar framhaldsrannsóknir gætu varpað frekara ljósi á málin.“

Haukur Þorgeirsson er rannsóknardósent við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann hefur doktorspróf í íslenskri málfræði og MS-próf í tölvunarfræði. Í rannsóknum sínum hefur Haukur fengist við forna texta frá málfræðilegu og textafræðilegu sjónarmiði.

Eftir fyrirlesturinn verður boðið til kaffiveitinga og umræðna. Aðgangur er kr. 500.

Lokað við Höfðasel í kvöld

fös, 12/10/2018 - 13:44

Veitur tilkynna að vegna vinnu við endurnýjun aðveituæðar hitaveitu, verður lokað að Höfðaseli inn í Gámu á Akranesi sem og vegurinn upp að Akrafjalli, frá klukkan 19:00 í kvöld og þar til klukkan 10 í fyrramálið, laugardag.

Sé nægum þrýstingi beitt víkur umhverfisvernd

fös, 12/10/2018 - 13:01

Landssamband veiðifélaga lýsir yfir vonbrigðum með þá niðurstöðu Alþingis að breyta fiskeldislögum þannig að opnað sé á möguleika ráðherra til að gefa út rekstrarleyfi til bráðarbirgða til allt að 20 mánaða. „Lýsir Landsambandið einnig furðu sinni á því að hafa á engu stigi fengið að hafa umsögn um umrædda lagasetningu. Af umræðum undanfarna daga verður að teljast líklegt að þessi heimild verði notuð til að draga úr áhrifum úrskurða sem eru umhverfinu í hag. Er málum virkilega þannig komið að sé nægjanlegum þrýstingi beitt víki reglur um umhverfisvernd,“ er spurt í tilkynningu LV.

„Landssamband veiðifélaga minnir á að ekki eru liðnir nema nokkrir mánuðir síðan kynntar voru hugmyndir Hafrannsóknarstofnunar um 3.000 tonna „tilraunaeldi“ í Ísafjarðardjúpi. Virðist það vera gert gagngert til að komast framhjá áhættumati um erfðamengun sem hafði í raun lokað fyrir eldi frjórra norskra laxa í Djúpinu. Stuttu áður hafði álit Skipulagsstofnunar, sem lagðist gegn eldi frjórra laxa, verið dregið til baka eftir mikinn pólitískan þrýsting. Eftir „velheppnaða“ herferð Landssambands fiskeldisstöðva gegn úrskurði Úrskurðarnefndar auðlinda- og skipulagsmála má búast við að eldi frjórra laxa í Djúpinu verði næsta markmið, ásamt frekari tilslökunum á lögum um fiskeldi. Landssamband veiðifélaga hvetur unnendur íslenskrar náttúru til þess að vera sérstaklega á verði gagnvart frekari tilslökunum á reglum er varða umhverfisvernd. Einnig þeirri tilhneigingu, að sé nægu pólitískum þrýstingi beitt víki umhverfisverndin alltaf.“

Frumvarp ráðherra svar við ákalli Vestfirðinga

fös, 12/10/2018 - 12:38

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á Alþingi frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi. „Frumvarpinu er ætlað að lagfæra með almennum hætti annmarka á lögum um fiskeldi til framtíðar. Sá annmarki birtist í því að samkvæmt gildandi lögum er eina úrræði Matvælastofnunar í þeim tilvikum sem rekstrarleyfi fiskeldisstöðvar er fellt úr gildi að stöðva starfsemi hennar,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að í þeim tilvikum er rekstrarleyfi er fellt úr gildi geti ráðherra að fenginni umsögn Matvælastofnunar, enda mæli ríkar ástæður með, gefið út rekstrarleyfi til bráðabirgða til allt að tíu mánaða. Þá kemur fram í frumvarpinu að ráðherra geti sett rekstrarleyfi til bráðabirgða þau skilyrði sem þörf er á svo tilgangur leyfisins náist, m.a. um samdrátt þeirrar starfsemi sem þegar er fyrir hendi, um tímafresti vegna úrbóta eða ef um meðferð máls fyrir dómstólum er að ræða.

„Fiskeldi er nú þegar burðarás í vestfirsku atvinnulífi“

Á haustþingi Fjórðungssambands Vestfirðinga sem haldið var fyrir skömmu var einróma samþykkt harðorð ályktun af kjörnum fulltrúum allra sveitarfélaga á Vestfjörðum. Tengist hún framtíð fiskeldis í sjó. „Það er áfall fyrir Vestfirði og þjóðarbúið í heild að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi hafnað beiðni fyrirtækjanna Arnarlax (Fjarðarlax) og Arctic Fish (Arctic Sea Farm) um frestun réttaráhrifa og fellt úr gildi rekstrarleyfi fyrirtækja í fullum rekstri. Vestfirðingar eru reiðir og sætta sig ekki lengur við við úrræðaleysi og getuleysi kerfisins. Haustþing Fjórðungssambands Vestfirðinga krefst þess að Alþingi og ríkisstjórn grípi tafarlaust inn í þá atburðarrás sem úrskurður nefndarinnar hefur sett af stað og tryggi áframhaldandi rekstrargrundvöll þeirra fiskeldisfyrirtækja sem byggt hafa upp starfsemi sína á Vestfjörðum. Störf og lífsafkoma 300 manns er í bráðri hættu. Fiskeldi á Vestfjörðum er nú þegar orðin burðarás í samfélaginu og mun þessi atburðarás, ef ekkert verður að gert, hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir Vestfirði og samfélagið þar til frambúðar.“

Frumvarp ráðherra sem nú hefur verið lagt fram svarar því ákalli sem fram kemur í ályktun Vestfirðinga.

Vöðvasullur í sauðfé rakinn til óhreinsaðra hunda

fös, 12/10/2018 - 12:01

Vöðvasullur hefur greinst í fé frá nokkrum bæjum við heilbrigðiseftirlit í sláturhúsum. Þessi sullur er ekki hættulegur fólki en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti. Um er að ræða blöðrur í vöðvum sem innihalda lirfustig bandorms sem lifir í hundum. Því vill Matvælastofnun brýna fyrir hundaeigendum að láta ormahreinsa hunda sína. Vöðvasullur eru blöðrur í vöðvum sauðfjár sem innihalda lirfustig bandormsins Taenia ovis, sem lifir í hundum og refum. „Ef hundur étur hrátt kjöt sem inniheldur vöðvasull komast lirfurnar í meltingarveg hundsins þar sem þær verða að fullorðnum ormum. Egg ormanna fara út með saur hundsins og geta þaðan borist í sauðfé. Til að stöðva þessa hringrás er mikilvægt að hundaeigendur láti ormahreinsa hunda sína. Árleg ormahreinsun er lögboðin og á við um alla hunda, hvort sem er í sveit eða þéttbýli. Jafnframt vill Matvælastofnun beina þeim tilmælum til refaskyttna að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi.“

Vill ekki málaflokkur landbúnaðar verði veiktur

fös, 12/10/2018 - 11:11

Sigurður Páll Jónsson, fulltrúi Miðflokksins í atvinnuveganefnd Alþingis, hefur krafist fundar í atvinnuveganefnd eins fljótt og verða vill. „Ástæðan er sú fyrirætlan ráðherra að færa málaflokk matvæla og landbúnaðar undir skrifstofu alþjóðamála í atvinnuvegaráðuneytinu og þar með að veikja og draga úr vægi landbúnaðar í ráðuneytinu,“ segir í tilkynningu. „Þá vekur nýfallinn dómur Hæstaréttar ýmsar spurningar. Þar var komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi ekki frjálsar hendur um setningu reglna um innflutning á hrárri kjötvöru, heldur sé bundið af ákvæðum í viðauka EES-samningsins. Nauðsynlegt sé að fulltrúar bænda og ráðherra landbúnaðarmála upplýsi nefndina um stöðu mála,“ segir Sigurður Páll.

Síður