Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 19 mín 11 sek síðan

Grunsamlegar mannaferðir í landshlutanum

Fim, 16/01/2020 - 10:46

Lögreglunni á Vesturlandi hafa borist nokkrar tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir í umdæminu í janúarmánuði. Í einu tilviki var um innbrot og skemmdarverk að ræða. „Þetta var í Borgarnesi og á Akranesi en rétt að allir sem einn hafi vara á sér og muni að læsa dyrum, loka gluggum og muna einnig eftir að læsa geymslum og bílskúrum,“ segir í tilkynningu Lögreglunnar á Vesturlandi. Í síðustu viku bárust tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir frá íbúum við Bárugötu á Akranesi og Borgarvík í Borgarnesi, eins og greint var frá í Skessuhorni á miðvikudag.

„Í þessari viku hafa okkur borist tilkynningar um grunsamlegar mannaferðir að næturlagi á Akranesi,“ segir í tilkynningu lögreglunnar. „Tekið var í hurðarhún á húsi við Höfðagrund og eins við Grenigrund. Í öðru tilvikinu var um tvo menn að ræða að sögn tilkynnanda, annar sagður hafa verið hávaxinn í svartri hettupeysu en hinn þybbinn í grárri hettupeysu. Tilkynnandi sagði þá hafa verið að taka í hurðarhún útidyrar og þegar hann leit út um gluggann sá hann þá við bílskúr hússins,“ segir lögregla og bætir því við að svo virðist sem þessir menn fari um stíga og garða og athugi hvort hús séu opin eða ólæst. „Sérstaklega þarf að passa upp á innganga baka til svo sem frá görðum og einnig passa glugga sem mögulegt væri að komast inn um ef þeir eru ekki vel lokaðir.“

Leit lögreglu að þessum mönnum bar engan árangur og vill hún því hvetja íbúa til að gera nauðsynlegar varúðarráðstafanir.

Sáu aldrei til sólar

Fim, 16/01/2020 - 10:22

Snæfellskonur máttu sín lítils gegn Íslandsmeisturum Vals á útivelli þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í gærkvöldi. Valskonur voru sterkari allan tímann og sigruðu að lokum örugglega, 93-54. Snæfell lék án Gunnhildar Gunnarsdóttur og Emese Vida og til að bæta gráu ofan á svart sneri Rósa Kristín Indriðadóttir sig illa snemma í leiknum og gat ekki haldið áfram.

Upphafsfjórðungur Snæfells var afleitur, þar sem liðið skoraði aðeins fimm stig. Valskonur skoruðu hins vegar 29 stig og stóðu því með pálmann í höndunum strax eftir fyrsta leikhluta. Snæfellskonur léku miklu betur í öðrum leikhluta, en Valsliðið var engu að síður sterkara. Þegar flautað var til hálfleiks höfðu Íslandsmeistararnir 31 stigs forskot, 56-25.

Snæfell átti erfitt uppdráttar eftir hléið, skoraði aðeins tíu stig í þriðja leikhluta gegn 20 stigum Vals og staðan var 76-35 fyrir lokafjórðunginn. Snæfellskonur náðu rétt aðeins að klóra í bakkann í lokafjórðungnum, skoruðu þar 19 stig gegn 17 stigum Vals. Lokatölur voru 93-54 fyrir Val.

Rebekka Rán Karlsdóttir var stigahæst í liði Snæfellskvenna með ellefu stig, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði tíu, Helga Hjördís Björgvinsdóttir var með níu stig og níu fráköst, Vera Pirttinen skoraði níu stig og tók sex fráköst, Amarah Coleman var með sex stig, Björg Guðrún Einarsdóttir skoraði fimm og þær Anna Soffía Lárusdóttir og Hrafnhildur Magnúsdóttir skoruðu tvö stig hvor.

Sylvía Rún Hálfdánardóttir var atkvæðamest í liði vals með 24 stig, níu fráköst og sex stolna bolta, Kiana Johnson var með 23 stig, ellefu fráköst og sex stoðsendingar, Helena Sverrisdóttir skoraði 16 stig, tók níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar og Dagbjört Samúelsdóttir var með 14 stig.

snæfell situr í sjötta sæti deildarinnar með átta stig, fjórum stigum á undan Breiðabliki en tólf stigum á eftir Haukum í sætinu fyrir ofan. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Skallagrími fimmtudaginn 23. janúar. Sá leikur fer fram í Stykkishólmi.

Fólk er eindregið hvatt til reglulegs álesturs heitavatnsmæla

Fim, 16/01/2020 - 10:07

Fyrirtækið Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, hætti fyrir nokkrum árum reglulegum álestri heitavatns- og rafmagnsmæla á veitusvæði sínu. Um leið var álestri komið í hendur húseigenda eða leigjenda fasteigna. Á milli álestra skrifar svo fyrirtækið reikninga sem byggja á notkunarsögu viðkomandi fasteignar. Ef húseigendur og umráðamenn fasteigna láta langan tíma líða milli álestra, skapast hætta á að ef leynd bilun er komin upp í heitavatnskerfi, sem orsakar meiri vatnsnotkun en ella, kemur það ekki fram fyrr en löngu síðar, með tilheyrandi kostnaði, jafnvel svo hundruðum þúsunda króna nemur.

Í verklagsreglum sem Veitur hafa sett sér segir að ef frávik verður á heitavatnsnotkun t.d. vegna bilunar í lokum, eða vatnsleka, er ábyrgðin á hendi húseiganda eða notandans. Veitur vinna hins vegar eftir þeirri meginreglu að koma til móts við notanda með bakfærslu 50% kostnaðar við það vatnsmagn sem bilun, staðfest og lagfærð af fagmanni, telst hafa valdið. Slík bakfærsla er þó einungis gerð einu sinni á hverja fasteign. Skessuhorn hefur heimildir pípulagningarmanns fyrir því að nokkrir húseigendur hafi verið að fá háa bakreikninga vegna frávika í heitavatnsnotkun. Hætta á slíku er þó mest hafi þeir vanrækt að senda reglulega inn álestrartölur. Bilun í frárennslisloka í húseign á Akranesi síðastliðið haust, sem uppgötvaðist ekki strax þar sem ríflega eitt ár leið á milli álestra húseiganda, orsakaði bakreikning frá Veitum upp á 280.000 krónur. Veitur komu hins vegar til móts við viðkomandi húseiganda með 140.000 króna afslætti, en skýrt var tekið fram að slíkur afsláttur yrði ekki gefinn aftur.

Af þessu leiðir að ástæða er til að hvetja húseigendur og leigjendur fasteigna til að lesa mánaðarlega af vatns- og rafmagnsmælum í fasteignum sínum til að lágmarka tjón sem bilanir að þessu tagi geta valdið.

Ólöf Snæhólm upplýsingafulltrúi Veitna segir í samtali við Skessuhorn að það sé auðvelt fyrir notendur að skila álestri. Það megi gera á vef Veitna, á Mínum síðum á vef Veitna, með tölvupósti, símtali eða skilaboðum á FB síðunni. „Margir taka einfaldlega mynd af mælinum og senda okkur,“ segir Ólöf og bætir við að engir aðrir notendur á starfssvæði Veitna hafa staðið sig jafnvel í að skila álestrum og Akurnesingar. „Þeir hafa sett met í skilum,“ segir hún.

Sigur í kaflaskiptum leik

Fim, 16/01/2020 - 10:01

Skallagrímur vann nauman sigur á Grindavík, 58-55, í kaflaskiptum leik í Domino‘s deild kvenna í gærkvöldi. Leikið var í Borgarnesi.

Skallagrímskonur höfðu yfirhöndina lengst framan af fyrri hálfleik. Þær voru mun sterkari í upphafsfjórðungnum, leiddu frá fyrstu mínútu og höfðu átta stiga forskot eftir fyrsta leikhluta, 19-11. Þær höfðu yfirhöndina í upphafi annars fjórðungs, en þá tóku Grindavíkurkonur að minnka muninn. Leikurinn var í járnum um miðjan leikhlutann áður en gestirnir náðu smá rispu og leiddu með fjórum stigum í hálfleik, 32-36.

Skallagrímskonur byrjuðu síðari hálfleikinn afar illa og voru stigalausar fram í miðjan þrijða leikhluta. Á meðan komust gestirnir þó aðeins fimm stig og leiddu 32-41. Þá tóku Skallagrímskonur að minnka muninn, en Grindvíkingar skoruðu ekki stig síðustu fjórar mínútur leikhlutans. Eftir undarlegan þriðja leikhluta var staðan 40-43, gestunum í vil og leikurinn galopinn þegar lokafjórðungurinn hófst. Skallagrímskonur voru ákveðnar í lokaleikhlutanum. Þær voru ekki lengi að taka forystuna af Grindvíkingum, sem fylgdu þó fast á hæla þeirra það sem eftir lifði leiks. Grindavíkurliðið náði að minnka muninn í eitt stig mjög seint í leiknum, en nær komust þær ekki. Skallagrímskonur settu tvö stig til viðbótar af vítalínunni og sigruðu með þremur stigum, 58-55.

Keira Robinson átti frábæran leik fyrir Skallagrím á báðum endum vallarins. Hún skoraði 22 stig, tók ellefu fráköst, gaf fimm stoðsendingar, varði sex skot og stal fimm boltum. Maja Michalska skoraði 13 stig og tók sex fráköst, Emilie Sofie Hesseldal var með tólf stig og 13 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði sjö stig og tók sjö fráköst og Gunnhildur Lind Hansdóttir skoraði fjögur stig.

Jordan Reynolds var skoraði tólf stig og tók 14 fráköst í liði Grindavíkur, Hrund Skúladóttir skoraði tólf stig og tók fimm fráköst og Bríet Sif Hinriksdóttir var með tíu stig.

Skallagrímskonur sitja í fjórða sæti Domino‘s deildarinnar með 20 stig, jafn mörg stig og Haukar í sætinu fyrir neðan en tveimur stigum á eftir liði Keflvíkinga. Næsti leikur liðsins er Vesturlandsslagur gegn Snæfelli fimmtudaginn 23. janúar. Sá leikur verður spilaður í Stykkishólmi.

„Að fá ökuskírteini er stór áfangi í lífi ungs fólks“

Fim, 16/01/2020 - 09:04

Svandís Jóna Sigurðardóttir í Ólafsvík lauk ökukennaranámi í vetur og hóf störf sem ökukennari í Snæfellsbæ um miðjan desembermánuð. Hún segir í samtali við Skessuhorn að þar með hafi langþráður draumur ræst. „Ég hef stefnt að þessu allar götur síðan 2009,“ segir Svandís í samtali við Skessuhorn. „Ég kynntist konu þegar ég var í kennaranáminu sem sagði mér að hún hefði farið í ökukennaranám og fannst það alveg þrælsniðugt. Þetta var eitthvað sem ég gat vel hugsað mér að bæta við mig samhliða kennarastarfinu. Þegar ég skoðaði þetta nánar þá komst ég að því að hætt var að kenna ökukennaranámið við Kennaraháskólann. Það var ekki fyrr en fyrir um það bil tveimur og hálfu ári síðan að farið var aftur af stað með námið og þá hjá Endurmenntun Háskóla Íslands. Ég missti af skráningu í námið haustið 2017 og varð því að bíða í eitt ár, hóf námið haustið 2018,“ segir hún.

Sjá viðtal við Svandísi Jónu í Skessuhorni vikunnar.

Frístundastyrkur nýtist einnig annars staðar

Fim, 16/01/2020 - 08:01

Sveitarstjórn Borgarbyggðar samþykkti á fundi sínum á föstudaginn tillögu fræðslunefndar um breytingar á fyrirkomulagi frístundastyrkja. Annars vegar snýst það um að frístundastyrkinn verður nú hægt að nýta í frístundstarf í öðrum sveitarfélögum en Borgarbyggð, en margir æfa íþróttir t.d. á Akranesi og vilja nýta styrkinn við æfingar þar. Hins vegar var sú breyting gerð að frístundastyrkurinn er skilgreindur sem ein upphæð sem hægt að að nýta hvenær sem er á árinu en deilist ekki á vorönn og haustönn.

Vilja breytta úthlutun byggðakvóta

Fim, 16/01/2020 - 06:01

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar kallar eftir því að breytingar verði gerðar á reglugerð um úthlutun byggðakvóta á fiskveiðiárinu 2019-2020. Vill bæjarstjórnin að tekið verði tillit til þess að í ákveðnum byggðarlögum innan sveitarfélaga, eins og Snæfellsbæjar, séu ekki fiskvinnslur þó þar sé stunduð útgerð. Nefnir bæjarstjórn Arnarstapa og Hellissand sem dæmi um slíka staði. „Rök bæjarstjórnar fyrir þessum breytingum er sú að staðreynd að á Arnarstapa og Hellissandi eru ekki reknar fiskvinnslur og því er ekki hægt að landa afla til vinnslu á þeim stöðum. Ef ráðuneytið verður við þessum óskum, þá mun byggðakvótinn nýtast innan sveitarfélagsins, en það skiptir miklu máli fyrir Snæfellsbæ að geta nýtt úthlutaðan byggðakvóta,“ segir um málið í fundargerð frá bæjarstjórnarfundi 9. janúar. Bæjarstjóra og bæjarritara var valið að ganga frá breytingartillögum til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, í samræmi við vilja bæjarstjórnar.

Jens Heiðar ráðinn slökkviliðsstjóri

Miðv.d., 15/01/2020 - 15:45

Jens Heiðar Ragnarsson hefur verið ráðinn slökkviliðsstjóri Slökkviliðs Akraness og Hvalfjarðarsveitar. Bæjarstjórn Akraness samþykkti ráðningu hans einróma á fundi sínum 14. janúar. Alls sóttust ellefu eftir starfi slökkviliðsstjóra þegar starfið var auglýst, en einn dró umsókn sína til baka.

Jens Heiðar er reyndur slökkviliðsmaður. Hann hefur starfað í slökkviliði Akraness og Hvalfjarðarsveitar frá árinu 1998 og hlaut löggildingu í starfi árið 2002. Hann hefur auk þess reykköfunarréttindi og lokið námskeiði fyrir stjórnendur hlutastarfandi slökkviliða, sem og námskeiði þjálfunarstjóra II, að því er fram kemur á vef Akraneskaupstaðar.

Jens hefur starfað sem stjórnandi á vettvangi, þjálfað og stýrt aðgerðum sem flokkstjóri klippiflokks við björgun fólks úr bílslysum frá því 2008. Hann hefur starfað sem þjálfunarstjóri, skipulagt og stýrt æfingum slökkviliðsins og lagt fram æfingaáætlanir, sem og að kenna nýliðum slökkviliðsins.

Hann er rafvirkjameistari að mennt og hefur auk þess fagréttindi sem raflagnahönnuður og raffræðingur. „Hann býr yfir mikilli reynslu og þekkingu á virkni vélbúnaðar, viðhaldi og viðgerðum. Hann hefur unnið með fyrirbyggjandi viðhaldskerfi hjá m.a. Sementsverksmiðjunni, Norðuráli og Verkís. Sem starfsmaður hjá Verkís vann hann fyrir fjölda iðnfyrirtækja við hönnum, uppsetningu, verkeftirlit og prófanir á ýmsum búnaði,“ segir á vef Akraneskaupstaðar. Auk þess hefur Jens vinnuvélaréttindi og hefur lokið meiraprófi.

Jens Heiðar er kvæntur Sonju Sveinsdóttur leikskólakennara og eiga þau þrjú börn.

Fræðandi, afslöppuð og skemmtileg frásögn

Miðv.d., 15/01/2020 - 15:08

Magnús Ólafsson sagnamaður frumsýndi Öxina á sunnudag

 

Öxin var frumsýnd fyrir fullu húsi á Sögulofti Landnámsseturs Íslands síðastliðinn sunnudag. Þar segir Magnús Ólafsson sagnamaður frá síðustu aftökunni hér á landi, þegar Agnes Magnúsdóttir og Friðrik Sigurðsson voru tekin af lífi fyrir morðin á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Sýningin hófst kl. 14:00, sunnudaginn 12. janúar. Þá voru nákvæmlega 190 ár upp á klukkustund frá því að Agnes og Friðrik voru hálfshöggvin á Þrístöpum í Vatnsdal að viðstöddum 150 manns, sem Björn Blöndal sýslumaður hafði stefnt þangað af því tilefni.

Sagnamaðurinn Magnús var áður við búskap á Sveinsstöðum í Vatnsdal, eins og afi hans, langafi og langalangafi. Sonur hans býr nú á Sveinsstöðum. Fjölskylda Magnúsar tengist sögunni því árið 1934, 104 árum eftir aftökuna, voru afi hans og faðir fengnir til aðstoðar þegar bein Agnesar og Friðriks voru flutt í vígða mold. Segir Magnús m.a. frá mögnuðum atburðum sem þeim gjörningi tengjast, í tengslum við atburði sögunnar.

 

Sagnamaður af guðs náð

Magnús Ólafsson er sagnamaður af guðs náð, er einn þeirra sem heldur uppi heiðri hefðbundinnar íslenskrar frásagnarlistar. Hann hefur hljómþýða rödd sem þægilegt er að hlusta á og engum dylst sem á hann hlýðir að Magnús þekkir söguna um síðustu aftökun á Íslandi eins og handarbakið á sér, ef ekki betur.

Frásögn Magnúsar er ítarleg og skipulega fram sett. Frásagnarstíllinn er rólegur og yfirvegaður og stemningin á Söguloftinu var í senn afslöppuð og heimilisleg. Inn í frásögn sína skýtur Magnús ýmsum skemmtilegum atriðum, svo sem vísum og fleira stuttu skemmtiefni sem í ófá skipti kitlaði hláturtaugar gesta, en alltaf af virðingu fyrir persónum og leikendum sögunnar. Tilgangur frásagnarinnar er enda að fræða fólk og skemmta. Hvort tveggja gerir Magnús listavel og óhætt að mæla heilshugar með Öxinni fyrir alla áhugasama.

 

-Kristján Gauti Karlsson

Anna er nýr skrifstofustjóri Akraneskirkju

Miðv.d., 15/01/2020 - 13:05

Anna Kristjánsdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri hjá Akraneskirkju. Hún vann í nærri 21 ár hjá Speli, fyrst sem aðalbókari og svo síðasta árið sem framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Anna hefur því mikla reynslu af bókhaldi. Þá hefur hún starfað í Slysavarnadeildinni Líf þar sem hún lauk m.a. námskeiði í sálrænni skyndihjálp. „Þetta starf freistaði mín fyrst og fremst vegna þess að ég hef lengi haft áhuga á að vinna með einhverjum hætti fyrir kirkjuna og bókhaldsþekking mín og þekking mín á rekstri kemur hér að góðum notum,“ segir Anna í samtali við Skessuhorn.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

 

Íbúum boðið frítt í Frystiklefann allt árið

Miðv.d., 15/01/2020 - 11:47

Nú árið 2020 verða tíu ár liðin frá því starfsemi hófst í Frystiklefanum í Rifi. Í tilefni þeirra tímamóta ætla aðstandendur menningarhússins, í samstarfi við bakhjarla og velunnara, að færa öllum íbúum Snæfellsbæjar ársmiða að gjöf. Veitir ársmiðinn hverjum þeim sem hefur skráð lögheimili í Snæfellsbæ aðgang að öllum viðburð Frystiklefans á árinu 2020.

„Með þessu sendum við þakkir til samfélagsins. Án ykkar mætingar og stuðnings væri starf okkar tilgangslaust. Til hamingju með afmæið okkar, þetta verður brjálæðislega skemmtilegt ár,“ segir á Facebook-síðu Frystiklefans.

Fyrsti viðburður ársins er leiksýningin Ókunnugur, sem sýnd verður á föstudagskvöld og á laugardag verða tónleikar með Hipsumhaps.

Mannamót landshlutanna í ferðaþjónustu

Miðv.d., 15/01/2020 - 11:29

Markaðsstofur landshlutanna setja upp kaupstefnuna Mannamót fyrir samstarfsfyrirtæki sín á morgun, fimmtudaginn 16. janúar. Viðburðurinn verður haldinn í Kórnum í Kópavogi . Eftirspurn ferðaþjónustufyrirtækja sem vilja vera með bás á sýningunni hefur aldrei verið meiri en alls verða 270 fyrirtæki með bás. Þá hafa að meðaltali um 800 gestir komið á sýninguna síðustu ár.

Mannamót markaðsstofanna er kynningarvettvangur ferðaþjónustunnar á landsbyggðinni og tækifæri til að koma á fundum fagaðila í greininni. „Tilgangurinn er að kynna landsbyggðarfyrirtæki fyrir ferðaþjónustuaðilum sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu. Ísland hefur mikið upp á að bjóða og Mannamót hjálpa til við að mynda tengsl innan ferðaþjónustunnar. Gestum á Mannamóti gefst kostur á kynna sér það sem mismundi landshlutar eru að bjóða uppá með áherslu á vetrarferðamennsku. Mannamót er haldið af Markaðsstofum landshlutanna í samstarfi við flugfélagið Erni og Isavia,“ segir í tilkynningu.

Sjá nánar:

Sjálfbær uppbygging ferðaþjónustu á landinu öllu

 

Þrjú stór snjóflóð féllu á Vestfjörðum í gærkvöldi

Miðv.d., 15/01/2020 - 10:16

Á tólfta tímanum í gærkvöldi féllu alls þrjú stór snjóflóð á Vestfjörðum; tvö á Flateyri og eitt úr fjallinu handan Suðureyrar í Súgandafirði. Það flóð olli flóðbylgju sem skall á höfnina og strandlengjuna við þorpið á Suðureyri. Enginn slasaðist þar en eignatjón er talsvert. Á Flateyri féllu tvö stór snjóflóð með tveggja mínútna millibili. Flóðvarnargarðar í hlíðinni ofan við þorpið virðast hafa að mestu komið í veg fyrir að flóðin féllu á hús, en þó fór spýja úr öðru þeirra yfir garðinn og í gegnum hús ofarlega í þorpinu. Fjórir voru í húsinu, kona og tvö ung börn sluppu en unglingsstúlka grófst undir snjó í herbergi sínu. Heimamenn í björgunarsveitinni höfðu snör handtök og tókst að koma stúlkunni til bjargar á innan við hálftíma, lítið slasaðri og hlúðu að henni. Önnu slys urðu ekki á fólki. Hins vegar er eignatjón í báðum þorpunum gríðarlegt, einkum á höfninni á Flateyri þar sem annað snóflóðið endaði og orsakaði flóðbylgju og eyðileggingu.

Mikill viðbúnaður var settur í gang strax í gærkvöldi og neyðarstigi lýst yfir. Það þýðir hæsti forgangur allra björgunar- og viðbragðsaðila sem í hlut eiga. Svæðisstjórn almannavarna á Vestfjörðum var samstundis virkjuð og Samhæfingarmiðstöðin í Skógarhlíð sömuleiðis. Ófært er landleiðina milli byggða á Vestfjörðum vegna fannfergis. Lán var að varðskipið Þór var í gærkvöldi statt í Ísafjarðarhöfn og var skipið sent af stað með mannskap og búnað til Flateyrar. Mikinn óhug setti að íbúum á þessum svæðum Vestfjarða enda fannfergi mikið og einangrun vegna ófærðar sem rekja má til óveðurs undanfarna daga.

Nú í birtingu verður auðveldara að meta tjón og stærð flóðanna, en ljóst að þau voru gríðarlega stór. Myndir sem birst hafa úr höfninni á Flateyri vitna vel um það tjón sem þar varð, þegar allir bátar slitnuðu frá bryggju, nokkrir sukku og smábátabryggjan hreinlega sópaðist burtu. Mikil mildi er hinsvegar að snjóflóðin virðast ekki hafa grandað fólki, engra er saknað.

Ljóst er að fjölmörgum var afar brugðið við þessi tíðindi sem fóru að berast á rafrænum fjölmiðlum undir miðnætti í gær. Fréttamenn Stundarinnar eru vel tengdir Flateyri og sögðu fyrstu fréttir á vef sínum. Aðrir fjölmiðlar ræstu út mannskap og smám saman fóru línur að skýrast fyrir þeim sem voru að fylgjast með tíðindum að vestan. Strax af fréttum Stundarinnar varð umfang flóðanna ljóst og þegar komið var vel framyfir miðnætti gátu margir andað léttar þegar ljóst þótti að ekki hefði orðið manntjón. Hins vegar eru aðstæður víða á Vestfjörðum með þeim hætti að veruleg snjóflóðahætta er áfram. Því gildir áfram neyðarstig sem almannavarnir lýstu yfir strax um miðnætti í gærkvöldi. Nú þegar tekur að birta mun verða hægt að greina nánar frá umfangi flóðanna og þeirri eyðileggingu sem þau skildu eftir sig.

Rétt er að benda á að Ríkissjónvarpið verður með aukafréttatíma í sjónvarpinu á hádegi. Einnig verður hægt að fylgjast með útsendingu á netinu.

Heldur út til Indlands að keppa í matreiðslu

Miðv.d., 15/01/2020 - 10:01

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á mat og eldmamennsku en ég var aldrei að pæla í að læra kokkinn,“ segir tvítugi Skagamaðurinn Anton Elí Ingason en um þessar mundir er hann að undirbúa sig fyrir Ólympíukeppni í matreiðslu sem fram fer á Indlandi í lok þessa mánaðar. Anton er fæddur og uppalinn á Akranesi og hefur hvergi annars staðar búið. Hann gekk í Brekkubæjarskóla og fór svo í kokkanám í lok ársins 2015 á veitingastaðnum Galito á Akranesi. „Það ver vinur minn, Ari Jónsson, sem sagði mér að skoða kokkanámið því það væri algjör snilld. Hann sagði mér frá skipulagi námsins og mér fannst það bara hljóma vel, en maður er bara að vinna á veitingastað í tvö og hálft ár, á launum, og lærir helling. Svo eru þetta þrjár annir í skóla,“ segir Anton.

Anton Elí setur stefnuna hátt og er nú á leið utan til keppni í kokkeríi í lok mánaðar. Sjá spjall við hann í Skessuhorni sem kom út í dag.

Föstudagurinn DIMMI framundan í Borgarnesi

Miðv.d., 15/01/2020 - 09:01

Föstudagurinn DIMMI verður haldinn í fjórða sinn í Borgarbyggð um næstu helgi. Þá eru íbúar hvattir til að taka hvíld frá raftækjum og njóta samverunnar með fjölskyldu og vinum, hafa raunveruleg samskipti í stað rafrænna samskipta, brjóta upp á hversdagsleikann og lesa Skessuhorn við kertaljós.

„Þemað í ár er samvera fjölskyldunnar sem ég held að sé mjög viðeigandi á þessum árstíma þegar eiginlega allt er frekar leiðinlegt, jólin búin en þorrablótin ekki byrjuð og allt svo dimmt,“ segir Eva Hín sem skipuleggur viðburðinn ásamt Heiði Hörn. Í ár verður skrautfjöður viðburðarins ráðgátuleikur með sögulegu ívafi úr Egilssögu. „Landnámssetur Íslands styður dyggilega við bakið á viðburðinum og mun bjóða öllum fjölskyldum frítt á Egilssýninguna alla helgina. Þannig geta allir sótt sér kunnáttu til að leysa ráðgáturnar farsællega,“ segir Eva Hlín. Ráðgátuleikurinn er ætlaður fyrir alla fjölskylduna að leysa saman og reynir leikurinn á útsjónarsemi og samskipti. Leikurinn ætti að taka um 40-75 mínútur og hefur fólk til klukkan 19 á sunnudaginn til að ljúka honum. Fólk fær þátttökuseðla á Landnámssetrinu með vísbendingum sem koma fólki áfram á milli ákveðinna pósta þar sem fjölskyldurnar safna stimplum á seðilinn. Nöfn þátttakenda fara svo í pott og dregnir verða út vinningshafar mánudaginn 20. janúar.

DIMMA vasaljósagangan er fastur viðburður þennan DIMMA föstudag og búið er að setja upp endurskinsmerki sem vísa fólki í gegnum skóginn hjá Bjargi. Klukkan 17:30 á föstudeginum verður kuldagallajóga í rjóðri skógarins þar sem spilað verður á gong. „Það verður örugglega ótrúlega gaman að ganga þarna með vasaljósin á meðan gongið ómar,“ segir Eva Hlín. Klukkan 18 mun Hjörleifur sagnamaður segja rökkursögur. Stundvíslega klukkan 20:17 verður Sjóbaðsfélagið með DIMMA dýfu þar sem allir eru hvattir til að skella sér í sjóbað. „Ég veit að meðlimir í öðrum sjósunds- og sjóbaðsfélögum ætla að koma svo vonandi verður fjölmenni. Við skellum okkur svo saman í pottana við sundlaugina í Borgarnesi eftir sjósundið,“ segir Eva Hlín.

Nánari upplýsingar um viðburðinn er hægt að finna á Facebooksíðu föstudagsins DIMMA.

Rætt við nýjan skólameistara FVA í Skessuhorni

Miðv.d., 15/01/2020 - 08:01

Steinunn Inga Óttarsdóttir er nýr skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Hún var skipuð í embætti snemma desembermánaðar og hóf störf 2. janúar síðastliðinn. Skólastarf hefur henni lengi verið hugleikið og kannski má segja að skólastjórnun sé henni í blóð borin. Faðir hennar var kennari og skólastjóri, móðir hennar og systir einnig. Skessuhorn hitti Steinunni að máli á skrifstofu skólameistara síðastliðinn fimmtudag og fékk að kynnast henni örlítið.

Sjá viðtal við Steinunni Ingu í Skessuhorni sem kom út í morgun.

Safna fæðingarsögum feðra í bók

Miðv.d., 15/01/2020 - 06:01

Hólmarinn Ísak Hilmarsson og Gréta María kona hans safna fæðingarsögum feðra fyrir bók sem þau ætla að gefa út. Hugmyndin kviknaði síðasta sumar en þar sem Gréta er ljósmóðir eru fæðingar oft ræddar í vinahópi þeirra hjóna. „Ég sagði við hana síðasta sumar að kannski væri sniðugt að safna saman fæðingarsögum feðra og gefa út. Ég verð samt að viðurkenna að ég sagði þetta meira í gríni en Grétu fannst þetta svo frábær hugmynd að við fórum að skoða þetta af alvöru og sáum að þetta var ekki svo galin hugmynd,“ segir Ísak í samtali við Skessuhorn. Þau byrjuðu á að afla sér upplýsinga og skoða hvort það væru til sögur eða bækur með upplýsingum um fæðingarsögur feðra. „Ég held að ég hafi fundið tvær frásagnir frá feðrum á netinu. En það voru mun fleiri sögur frá mæðrum, eðlilega þar sem þær eru í miklu aðalhlutverki í fæðingum,“ segir Ísak.

Í Skessuhorni sem kom út í dag er nánar rætt við Ísak en auk þess birt hans eigin fæðingarsaga; reynslusaga föður þegar fyrsta barn þeirra hjóna var væntanlegt og um fæðingu þess.

Blásið til íbúaþings á Akranesi um atvinnumál

Þri, 14/01/2020 - 16:13

Akraneskaupstaður efnir í næstu viku til íbúaþings þar sem atvinnulíf á Akranesi verður til umræðu. Markmið þingsins er að fá íbúa og fyrirtækjaeigendur að borði og ræða uppbyggingu atvinnulífs á Akranesi með sérstakri áherslu á Breið og nágrenni, í samstarfi við Brim og fleiri fyrirtæki. „Metnaður bæjarins er að byggja upp öflugt atvinnulíf á Akranesi í góðu samstarfi fyrirtækja, félagasamtaka, stofnana og íbúa,“ segir í tilkynningu.

Fundarstjóri verður Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri en með honum verða Steinþór Pálsson og Sævar Kristinsson frá KPMG. „Á fundinum verða kynntar nýjar sviðsmyndir um framtíð atvinnulífs á Vesturlandi. Í kjölfarið verða ræddir ólíkir valkostir um uppbyggingu atvinnulífs á Akranesi með áherslu á Breið og nágrenni. Boðið verður upp á súpu og brauð.

Þingið verður haldið á Garðavöllum, frístundahúsi Golfklúbbsins Leynis, miðvikudaginn 22. janúar frá kl. 18:00-20:00. Til að áætla fjölda og undirbúa veitingar er óskað eftir tímanlegri skráningu á www.akranes.is/is/ibuathing Akraneskaupstaður hvetur íbúa til að skrá sig og fjölmenna.

Samþykkt að kanna hug til sölu ljósleiðarans

Þri, 14/01/2020 - 14:54

Á fundi sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar í gær var samþykkt erindi þar sem tilkynnt er um fyrirhugaða undirskriftasöfnun í Hvalfjarðarsveit þar sem óskað verði eftir almennri atkvæðagreiðslu vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um sölu ljósleiðarakerfis í eigu Hvalfjarðarsveitar. Samþykkt var á fundinum að undirskriftasöfnun skuli hefjast 27. janúar nk. og verða lokið 24. febrúar nk. Sveitarstjóra var falið að tilkynna ábyrgðaraðilum og Þjóðskrá Íslands um niðurstöðuna.

Mikið framkvæmdaár að baki í Stykkishólmi

Þri, 14/01/2020 - 14:00

Töluvert var um framkvæmdir á vegum Stykkishólmsbæjar á síðasta ári. Í nýjárspistli sem Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri ritar á heimasíðu bæjarins segir hann framkvæmdir við skólalóðina hafa byrjað í júní og gengið vel. „Fyrsta áfanga verksins er lokið og þ.m.t frágangi á bílaplaninu sem heppnaðist vel og m.a. mikil ánægja meðal foreldra með nýju sleppistæðin við skólann. Veigamiklar framkvæmdir voru fyrir framan Dvalarheimilið í Stykkishólmi þar sem bílaplan var lækkað og malbikað ásamt götunni fyrir framan húsið. Aðkoma að dvalarheimilinu er því stórbætt frá því sem áður var. Gert er ráð fyrir að frágangur fyrir framan dvalarheimilið verði kláraður á þessu ári. Þá voru m.a. tveir stærstu göngustígarnir í Stykkishólmi malbikaðir í sumar auk eins lítils, en þetta var eitt skrefið að bættum samgöngum á milli hverfa í Stykkishólmi, ásamt því að göngustígar í bæjarlandinu voru lagfærðir og/eða endurbættir. Með þessum framkvæmdum var stórum áföngum náð í átt að bættum samgöngum fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur í Stykkishólmi og á komandi árum er gert ráð fyrir að enn betur verði gert hvað varðar göngustíga og gönguleiðir í Stykkishólmi.“

Þá segir Jakob Björgvin að undurbúningur vegna uppbyggingar og um leið breytingu á hluta húsnæðis sjúkrahússins í Stykkishólmi fyrir hjúkrunarheimili miði vel áfram, en að verkefninu koma Framkvæmdasýsla ríkisins, Ríkiseignir, Heilbrigðisráðuneytið, Heilbrigðisstofnunar Vesturlands ásamt Stykkishólmsbæ.  „Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist á þessu ári en þar munu líta dagsins ljós 18 ný hjúkrunarrými í stað þeirra sem eru á dvalarheimilinu. Auk þess verður aðstaða bak- og endurhæfingardeildar bætt til muna. Þessar endurbætur munu bæta þjónustu og styrkja stöðu sjúkrahússins.“

 

Byggingariðnaður með blóma

Jakob Björgvin segir mikla grósku hafa verið í byggingariðnaði og mannvirkjagerð í Stykkishólmi undanfarin ár. „Mörg ný íbúðarhús hafa risið og fleiri munu rísa á þessu ári. Við það bætist að viðhald og endurbætur á eldri húsum hafa einnig verið áberandi. Húsnæðisverð er hátt og fasteignir ganga kaupum og sölum. Það er því deginum ljósara að í Stykkishólmi vill fólk búa enda hefur íbúafjöldi farið ört vaxandi undanfarin ár.

Fjöldi framkvæmda í bænum var á vegum framtakssamra Hólmara og fyrirtækja. Af þeim má nefna að húsnæði Marz- sjávarafurða, sem áður var pósthús, fékk t.a.m. andlitslyftingu, unnið er að því að breyta Langaskúr í jógahof, miklar framkvæmdir standa nú yfir á Hótel Stykkishólmi, aðstaða í stúkunni í íþróttamiðstöðinni var bætt svo um munar þegar ný sæti voru sett upp, ásamt viðhaldi og endurbótum íbúðarhúsa um allan bæ að ótöldum þeim íbúðarhúsum sem risu og/eða hafist var handa við að reisa og munu rísa á árinu 2020,“ segir m.a. í nýjárspistli bæjarstjóra Stykkishólms.

Síður