Skessuhorn

Subscribe to Skessuhorn feed
Fréttaveita Vesturlands
Uppfært: 55 mín 8 sek síðan

Forsvarsmenn Mountaineers of Iceland með dólg við blaðamann

Miðv.d., 08/01/2020 - 11:42

Fréttablaðið hefur í dag verið í samskiptum við forsvarsmenn ferðaþjónustufyrirtækisins Mountaineer of Icaland sem skipulagði og ber ábyrgð á snjósleðaferð með 39 manna hóp á Langjökul í gær, þvert á viðvaranir um válynt veður. Björgunarsveitum tókst að bjarga öllum hópnum til byggða í nótt, en þá voru margir orðnir mjög kaldir af vosbúð á jöklinum. Í fyrstu vildu forsvarsmenn Mountaineers of Iceland ekki tjá sig við blaðamann Fréttablaðsins og kváðust ætla að rannsaka sjálfir innanhúss ástæðu þess að farið var með hópinn út í tvísýnt veður og færð. Þegar blaðamaður Fréttablaðsins gekk frekar á forsvarsmann fyrirtækisins sagði hann blaðamanni einfaldlega að „grjóthalda kjafti.“ Gert er ráð fyrir að Lögreglan á Suðurlandi rannsaki málið.

Sjá nánar frétt á vef Fréttablaðsins.

 

Áfram eru viðvaranir vegna veðurs

Miðv.d., 08/01/2020 - 10:43

Appelsínugul viðvörun er nú gefin út af Veðurstofunni til klukkan 18 í dag vegna veðurs á eftirtöldum svæðum: Breiðafirði, Ströndum og Norðurlandi vestra sem og Norðurlandi eystra. Gul viðvörun er vegna veðurs á höfuðborgarsvæðinu, Faxaflóa, Vestfjörðum, Austfjörðum, Suðausturlandi og miðhálendinu.

Við Faxaflóa er í dag spáð suðvestan 15-25 m/s. Búast má við talsverðri snjókomu eða éljagangi með skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Afmarkaðar samgöngutruflanir eru líklegar. Við Breiðafjörð er spáð vestan 18-25 m/s, fyrst sunnantil. Búast má við talsverðri snjókomu eða éljagangi og skafrenningi og takmörkuðu eða lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Samgöngutruflanir eru líklegar.

Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.

Höfuðborgarsvæðið hefur sogað til sín störf opinber störf á kostnað landsbyggðarinnar

Miðv.d., 08/01/2020 - 10:25

Hjá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi er kominn út nýr Hagvísir sem fjallar um ríkisstörf á Vesturlandi, staðsetningu ríkisstarfa vítt og breitt um landið og fjallað um hlutfallslegan fjölda á Vesturlandi og í einstökum sveitarfélögum innan landshlutans. Höfundur skýrslunnar er Vífill Karlsson hagfræðingur. Fram kemur að hvergi er eins lítið af ríkisstörfum og á Vesturlandi þegar tekið hefur verið tillit til fjölda íbúa og borið saman við önnur landssvæði. Suðurland kemur þar næst á eftir með næstlægsta hlutfallið. Flest eru ríkisstörfin á höfuðborgarsvæðinu.

Þá kemur fram að ef störfum opinberra stofnana er bætt við skilgreind ríkisstörf almennt er Vesturland og Suðurland nánast í jafn slæmri stöðu þar sem minnst er af ríkisstörfum þar í samanburði við önnur landsvæði. Þegar breyting ríkisstarfa var skoðuð á tímabilinu 2013 til 2018 kemur í ljós að hvergi fækkaði eins mikið og á Vesturlandi, eða um 5%, en fjölgunin var 28% þar sem hún var mest. Fjölgun ríkisstarfa á höfuðborgarsvæðinu á þessu tímabili, upp á 1.347 einstaklinga, hefði farið mjög langt með að leiðrétta ríkisstarfahalla þeirra landshluta sem bjuggu við hann. Hallinn taldi 1.390 störf.

„Þegar Vesturland var brotið upp eftir sveitarfélögum kom í ljós að engin ríkisstörf voru í Helgafellssveit og Eyja- og Miklaholtshreppi. Af þeim sveitarfélögum sem einhver ríkisstörf voru var hallinn mestur í Hvalfjarðarsveit, þá í Snæfellsbæ og svo á Akranesi. Þegar breyting ríkisstarfa var skoðuð eftir sveitarfélögum á Vesturlandi árin 2013 til 2018 kom í ljós að hvergi fækkaði ríkisstarfsmönnum eins mikið og í Stykkishólmi, um 24,3% og í Borgarbyggð um 17,9%. Þeim hafði hins vegar fjölgað í fimm sveitarfélögum af tíu en hlutfallslega miklu minna en í þeim sveitarfélögum þar sem fækkun ríkisstarfsmanna varð.“

Vífill segir í skýrslunni að forsendur vaxtar á landsbyggðinni hafi breyst mikið. Landsbyggðin byggði lengi vel á landbúnaði og sjávarútvegi. Hlutur landbúnaðar í heildarfjölda starfa landsins hefur farið úr um 80% árið 1870 í um 2% árið 2015. Í fiskveiðum var hlutdeildin mest um 22% árið 1910 en var komin í um 2% árið 2015. Ferðaþjónustan, sem nýtir landið og miðin eins og hinar tvær atvinnugreinarnar, var farin að nálgast það að nýta um 10% alls vinnuaflsins árið 2015. Vífill bendir á að árið 1870 voru opinberir starfsmenn 1% af heildarvinnuafli í landinu en voru komnir í 30% árið 2018. Samkvæmt bráðabirgðaskoðun á tölum Hagstofu Íslands voru um 72% opinberra starfsmanna konur. Útgjöld ríkissjóðs hafa farið úr að vera 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) árið 1901 í um 30% árið 2017. Þegar hið opinbera er allt tekið saman þá fóru útgjöldin úr um 20% af VLF árið 1945 í 43% 2017.

Hagvísinn má í heild sinni lesa á vef SSV.

Giftusamleg björgun stórs hóps ferðafólks

Miðv.d., 08/01/2020 - 10:15

Björgunarsveitir Landsbjargar á sunnan- og suðvestanverðu landinu voru kallaðar út í gærkvöldi til leitar og björgunar á stórum hópi fólks sem var í ferð á snjósleðum við rætur Langjökuls. 39 erlendir ferðamenn auk fararstjóra frá ferðaþjónustufyrirtæki var þá strand í afar slæmu veðri, þar sem skyggni var ekkert og mikill skafrenningur. Hluti hópsins gróf sig í fönn. Margir voru orðnir kaldir og hraktir. Fjölmennt lið björgunarsveitarfólks á snjóbílum og jeppum fór til leitar og björgunar við Skálanes. Eftir að búið var að koma fólkinu í bíla var ekið með það í skjól á Gullfosskaffi þar sem sjúkraflutningamenn, björgunarsveitafólk og sjálfboðaliðar frá RKÍ tóku á móti hópnum, hlúðu að því og mátu ástand þeirra. Síðustu ferðalangarnir komu í hús laust fyrir klukkan 6 í morgun. Nú er ekið með fólkið áleiðis til Reykjavíkur.

Meðfylgjandi eru myndir Landsbjargar frá vettvangi um miðnætti í gær og úr bílum á leiðinni á vettvang fyrir miðnætti.

Björgunarsveitarfólk er Vestlendingar ársins 2019

Miðv.d., 08/01/2020 - 09:35

Skessuhorn – fréttaveita Vesturlands, hefur staðið fyrir vali á Vestlendingi ársins undanfarna tvo áratugi. Sem fyrr var auglýst eftir tilnefningum frá almenningi sem ritstjórn vann úr. Niðurstaðan var afgerandi. Vestlendingar ársins 2019 eru björgunarsveitarfólk á Vesturlandi. Það hefur nú sem fyrr sýnt hversu mikilvægt starf þess er fyrir samfélagið allt, íbúa jafnt sem gesti. Hinn sanni björgunarsveitarmaður er ávallt reiðubúinn til aðstoðar og leitar, að nóttu sem degi, leggur á sig ómældan fjölda vinnustunda við æfingar, fjáraflanir, leit og björgun á sjó og landi. Síðastliðið föstudagskvöld var fulltrúum allra níu björgunarsveitanna á Vesturlandi fært, við athöfn í Landnámssetrinu í Borgarnesi, viðurkenningarskjal og blóm frá Skessuhorni og íbúum með kæru þakklæti fyrir störf þeirra.

Samkvæmt tölfræði sem Slysavarnafélagið Landsbjörg heldur utan um eru á fimmta hundrað virkir björgunarsveitarmenn á Vesturlandi. 469 björgunarsveitarmenn, af svæði 4 og 5, mættu í samtals 5.709 útköll frá 1. janúar 2014 til loka árs 2019. Það gerir að meðaltali 12,2 útköll á hvern einstakling. Fimm hafa mætt í yfir hundrað útköll á þessu sex ára tímabili. Það eru þeir Einar Þór Strand í Stykkishólmi, 169 sinnum, Bragi Jónsson, áður búsettur á Reykhólum, 121 sinni, Ægir Þór Þórsson í Snæfellsbæ, 111 sinnum, Arnar Grétarsson í Borgarfirði, 110 sinnum og Björn Guðmundsson á Akranesi, 108 sinnum.

Kynnum starf allra björgunarsveitanna

Í Skessuhorni sem kom út í dag tökum við hús hjá öllum björgunarsveitum á Vesturlandi, ræðum við formenn þeirra og heyrum um áherslur og hvað er efst á baugi í starfi sveitanna. Í viðtali við formenn kemur fram að framan af árinu 2019 var fremur rólegt en það átti eftir að breytast. Undir lok árs fór stór hópur af Vesturlandi til dæmis til leitar- og björgunarstarfa á Norðurlandi í kjölfar óveðursins sem þar gekk yfir. Milli jóla og nýjárs hófst svo leit að manni sem saknað er í Hnappadal. Þess má geta að fjórir af þeim níu sem tóku við verðlaunum fyrir hönd sinna björgunarsveita á föstudagskvöldið komu til athafnarinnar beint úr leit í fjallendi Hnappadals.

Meðfylgjandi mynd:

Meðfylgjandi mynd sýnir fulltrúa björgunarsveitanna á Vesturlandi. Frá vinstri talið: Kristján Ingi Arnarsson frá Björgunarsveitinni Ósk í Búðardal, Jóhanna María Ríkharðsdóttir frá Björgunarsveitinni Berserkjum í Stykkishólmi, Davíð Ólafsson frá Björgunarsveitinni Heiðari í Borgarfirði, Elín Matthildur Kristinsdóttir, en hún tók við verðlaunum f.h. Björgunarsveitarinnar Klakks í Grundarfirði, Jóhannes Berg frá Björgunarsveitinni Oki í Borgarfirði, Kristín H Kristjánsdóttir frá Björgunarsveitinni Elliða á sunnanverðu Snæfellsnesi, Helgi Már Bjarnason frá Björgunarsveitinni Lífsbjörgu í Snæfellsbæ, Þórður Guðnason frá Björgunarfélagi Akraness og Einar Örn Einarsson frá Björgunarsveitinni Brák í Borgarnesi.

Vestlendingum ársins er óskað til hamingju með viðurkenninguna!

Sjá nánar ítarlega frásögn af starfi björgunarsveita á Vesturlandi í Skessuhorni sem kom út í dag.

Björgunarsveitarfólk á Snæfellsnesi mokar lausan snjóruðningsbíl. Ljósm. úr safni/sá.

Enn er straumlaust á Norðurárdalslínu

Miðv.d., 08/01/2020 - 09:35

Starfsfólk Rarik hefur í alla nótt unnið að bilanaleit og viðgerðum á flutningskerfi raforku á þremur stöðum í Borgarfirði. Í gærkvöldi fór rafmagn af línunni frá Vatnshömrum og að Hafnarmelum. Viðgerð lauk kl. 21:43. Þá fór rafmagn einnig af flutningslínunni frá Eskiholti í Borgarhreppi í Varmaland í Stafholtstungum. Viðgerð þar lauk laust fyrir klukkan 6 í morgun. Enn er rafmagnslaust á Norðurárdalslínu og unnið að því að ráða bót á því. Norðdælingar hituðu því morgunkaffið sitt á prímus nú í morgunsárið.

Flæði er samsýning kvenna með tengingu við Borgarfjörð

Miðv.d., 08/01/2020 - 08:01

Laugardaginn 11. janúar næstkomandi verður opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar fyrsta samsýning hópsins Flæðis. Í honum eru átta konur sem hittast reglulega og mála saman. Allar hafa þær bakgrunn úr Myndlistarskóla Kópavogs hjá Derek Mundell. Einnig hafa þær sótt námskeið erlendis jafnt sem innanlands hjá kennurum eins og Keith Hornblower, Ann Larsson Dahlin og Bridget Woods. Konurnar í Flæði eru: Fríða Björg Eðvarðsdóttir, Guðrún Steinþórsdóttir, Rósa Traustadóttir, Sesselja Jónsdóttir, Sigríður Ásgeirsdóttir, Svanheiður Ingimundardóttir, Þorbjörg Kristinsdóttir og Þóra Mínerva Hreiðarsdóttir. Meirihluti hópsins hefur mikla tengingu við Borgarfjörðinn, ein býr þar og margar eiga sumarhús á svæðinu sem oft er uppspretta listrænna myndefna sem sést í mörgum verkum á sýningunni.

„Hópurinn hefur heillast af vatnslitum og töfrum þeirra þegar litur og vatn flæða saman. Vatnslitir eru krefjandi miðill sem erfitt er að stjórna en glíman við þá leiðir mann að endalausum möguleikum. Efni sýningarinnar er eins og heiti hennar gefur til kynna, flæði vatns, lita og myndefnis,“ segir í tilkynningu.

Eftir opnunardaginn er sýningin opin alla virka daga frá klukkan 13 til 18 og um helgar samkvæmt samkomulagi sem þá verður auglýst sérstaklega. Hún stendur til 18. febrúar.

Fiskverð hátt þegar brælur hamla sjósókn

Miðv.d., 08/01/2020 - 06:01

„Brælur og eintómar brælur,“ segir Sigurður Reynir Gunnarsson hafnarvörður í Rifi einkenna veiðarnar undanfarna daga og býst við að bræla verði út vikuna miðað við afleita veðurspá.

Litlu línubátarnir komust á mánudaginn í sinn fyrsta róður á nýju ári og var afli þeirra þokkalegur. Sama má segja um dragnótarbátana, en Egill SH landaði 16 tonnum á mánudaginn, mest skarkola, eða sjö tonnum. Verð á skarkola hefur aldrei verið hærra en núna og fór kílóið á 406 krónur á fiskmörkuðum. Sigurður Reynir hafnarvörður segir að það hafi verið mjög gott verð á öllum fiski á mánudaginn og var meðalverð á óslægðum þorski 545 krónur á kílóið, ýsan fór á 422 krónur og karfinn á 390 krónur. „Vegna ótíðar er mikill skortur á fiski og í dag eru aðeins tveir bátar á sjó,“ sagði Sigurður síðdegis á mánudaginn þegar fréttaritari Skessuhorns kom við á kajanum.

Rafmagnslaust á þremur svæðum í Borgarfirði

Þri, 07/01/2020 - 21:05

Samkvæmt tilkynningu frá Rarik er nú straumlaust á þremur línum í Borgarfirði, þ.e. Norðurárdalslínu, frá Eskiholti að Varmalandi og frá Vatnshömrum að Hafnarskógi. Fólk er beðið að láta Rarik vita í bilanasíma 528-9390 hafi það vitneskju um orsök bilananna.

Bröttubrekku og Holtavörðuheiði lokað

Þri, 07/01/2020 - 16:46

Vetrarfærð er nú í flestum landshlutum og leiðinleg veðurspá fyrir seinni part dags um land allt, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni. Búið er að loka veginum um Bröttubrekku og Holtavörðuheiði vegna veðurs.

Úrkomusvæðið að færast yfir landið

Þri, 07/01/2020 - 15:54

Veðurstofan gerir ráð fyrir að veður versni allverulega nú þegar líður á daginn og slæmt veður og færð verði fram á morgundaginn hið minnsta. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið í dag og til nónbils á morgun, miðvikudag. Djúp og víðáttumikil lægð er að ganga norðaustur yfir landið. Eins og sjá má á meðfylgjandi skjámynd af veðurvefnum windy.com er úrkomubakkinn nú kominn inn á Reykjanes og mun færast norðaustur yfir landið síðdegis og í kvöld.  Nú er því að ganga í suðvestan 18-25 m/sek með éljum um landið sunnan- og suðvestanvert og síðar í kvöld á norður- og austurlandi.

Lesendur eru hvattir til að fylgjast með á windy.com

Vísað frá vegna vanreifunar

Þri, 07/01/2020 - 14:43

Héraðsdómur Vesturlands vísaði frá dómi kröfum Skagamálunar ehf. á hendur Uppbyggingar ehf., vegna vanreifunar. Dómur var upp kveðinn 16. desember síðastliðinn. Málningarfyrirtækið hafði krafist greiðslu rúmlega 7,6 milljóna króna frá verktakanum vegna óheimillar riftunar verksamnings um málun í fjölbýlishúsi á Akranesi. Einnig krafðist málningarfyrirtækið greiðslu 1,1 milljónar vegna unninnar vinnu við aukaverk. Til vara krafðist fyrirtækið greiðslu tveggja vangoldinna reikninga.

Forsaga málsins er sú að Skagamálun tók að sér málningarvinnu fyrir Uppbyggingu í fjölbýlishúsi á Akranesi í mars 2017. Lá fyrir í málinu ódagsett tilboð sem stefnandi sagði stefnda hafa samþykkt. Unnið var við málun hússins fram í byrjun ágúst, þegar forsvarsmaður Uppbyggingar tilkynnti forsvarsmanni Skagamálunar með sms-skilaboðum að vegna tafa á verkinu hefðu nýir málarar verið fengnir þar að og þess óskað að starfsmenn málningarfyrirtækisins yfirgæfu húsið með sín verkfæri. Enginn skriflegur samningur hafði verið gerður, en stefndi mótmælti því ekki að tekist hefði verksamningur milli aðila málsins. Hann kvaðst hins vegar ekki kannast við að samið hefði verið um aukaverk, uppsetningu úthornalista.

Dómurinn taldi riftun samningsins ólögmæta, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að málningarfyrirtækið hefði vanefnt hann svo verulega heimilt væri að rifta honum. En þrátt fyrir að verktakanum hafi verið óheimilt að rifta samningnum var honum kleift að hafna efndum stefnanda með því að fá aðra málara í verkið. Féll þá niður skylda beggja til að efna samningin eftir aðalefni hans. Hins vegar gat eftir atvikum stofnast skaðabótakrafa á hendur verktakanum. Stefnandi gat hins vegar ekki lagt fram nein gögn til að sýna fram á það tjón sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna riftuninnar. Hann hafði ekki lagt fram rekstrarreikning vegna skattframtals fyrir árið 2017, ekki gert grein fyrir launum sem hann greiddi starfsmönnum sínum eða öðrum útlögðum kostnaði á þessum tíma. Þá lá ekki fyrir greinargerð um áætlaðan kostnað vegna verksins, að því er fram kemur í dómnum. Dómurinn taldi sig því ekki geta tekið afstöðu til þess hversu mikið tjón málningarfyrirtækið hefði getað hlotið af riftun samningsins. Sömuleiðis taldi dómstóllinn sig ekki geta lagt dóm á kröfu málningarfyrirtækisins um greiðslu rúmlega 1,1 milljónar króna vegna unninna aukaverka, né varakröfu um greiðslu tveggja vangoldinna reikninga. „Verður að telja dómkröfur stefnanda svo vanreifaðar að ekki verður hjá því komist að vísa þeim frá dómi,“ segir í dómi héraðsdóms. Skagamálun var enn fremur gert að greiða Uppbyggingu 500 þúsund krónur í málskostnað.

Hross drápust

Þri, 07/01/2020 - 13:41

Veginum um Holtavörðuheiði var lokað um miðjan dag á mánudaginn. Vegna veðurs og færðar höfðu þá fimm bílar farið útaf veginum á skömmum tíma. Mikil hálka var á heiðinni og allhvasst. Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni á Norðurlandi vestra fóru m.a. vörubíll og tveir hrossaflutningabílar útaf veginum. Starfsmenn Vegagerðarinnar fóru á vettvang til að hjálpa þeim bílstjórum sem voru í vanda. Þrjú hross á öðrum bílnum drápust, en sá flutti alls 13 hross. Utan vegar hallaði bíllinn það mikið að hrossin gátu ekki fótað sig og reyndist ekki hægt að ná þeim út fyrr en eftir að tvö þeirra höfðu troðist undir. Þriðja hrossið drapst síðar um kvöldið. Öðrum slösuðum hrossum var komið undir dýralæknishendur á Hvammstanga.

Fjöldahjálparstöð í Klébergsskóla þegar þarf

Þri, 07/01/2020 - 13:15

Almannavarnanefnd höfuðborgarsvæðisins hefur, í samvinnu við Rauða krossinn, björgunarsveitir og Vegagerðina, sett upp skilti við Vesturlandsveg, sem er fyrsta skilti sinnar tegundar. Það er gert til að beina fólki að fjöldahjálparstöð sem staðsett er í Klébergskóla á Kjalarnesi. Sú fjöldahjálparstöð er hvað oftast opnuð sökum veðurs, að minnsta kosti fimm sinnum á síðasta ári. Nú síðast var hún opnuð 10. desember, þegar óveður skall á öllu landinu. Var skiltið þá notað í fyrsta sinn til þess að aðstoða fólk við að komast að fjöldahjálparstöðinni.

„Fólkið sem stendur vaktina í fjöldahjálparstöðinni í Klébergskóla eru sjálfboðaliðar Rauða krossins, en einnig eru þau starfsmenn og stjórnendur skólans, sem er mikill kostur þar sem þau þekkja bæði til skólans og svæðisins. Þegar veður skellur á leggja þau niður sín störf og fara frá fjölskyldum sínum til þess að aðstoða ferðamenn og aðra sem eru á ferðinni.  Þeirra hluti í slíku verkefni er gríðarlega mikilvægur og eiga þau hrós skilið fyrir sín störf,“ segir Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins.

„Mikill fjöldi fólks, sérstaklega erlendir ferðamenn, á leið þarna um og yfir vetrartímann þarf við ákveðnar aðstæður að loka veginum vegna veðurs. Í kjölfarið er nauðsynlegt að opna fjöldahjálparstöð þar sem fólk getur fengið skjól á meðan versta veðrið gengur yfir. Það hafði borið á að fólk vissi ekki hvert það gæti farið og hvar stöðin væri.“

Fjöldahjálparstöðvar eru starfræktar á neyðartímum til að bjóða þolendum náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða öruggt skjól. Þar er þeim séð fyrir helstu grunnþörfum svo sem mat, fatnaði og húsaskjóli. Einnig er gert ráð fyrir að í boði sé ýmis frekari þjónusta svo sem skyndihjálp, sálrænn stuðningur, ráðgjöf og upplýsingar. Á heimasíðu Rauða krossins er hægt að sjá staðsetningu fjöldahjálparstöðva um land allt ásamt frekar upplýsingum. Það eru margir sem koma að lokun vega og ferlið sem fer í gang er margslungið. Veðurstofa Íslands gefur viðvaranir um veður og vegna náttúruvár, Vegagerðin veitir upplýsingar um færð á vegum og tekur ákvörðun um lokun, lögregla og björgunarsveitir sinna lokunum og Rauði krossinn opnar og rekur fjöldahjálparstöðvar.

Frumsýning þegar 190 ár verða liðin frá síðustu aftökunni

Þri, 07/01/2020 - 11:01

Næstkomandi sunnudag klukkan 14 verður frumsýnd á Sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi sýningin Öxin – Agnes og Friðrik. Þennan dag 12. janúar eru liðin 190 ár upp á dag frá því að síðasta aftakan fór fram á Íslandi. Þá lét Björn Blöndal sýslumaður hálshöggva þau Agnesi Magnúsdóttur og Friðrik Sigurðsson. Þau voru fundin sek fyrir morðið á Natani Ketilssyni bónda á Illugastöðum og Pétri Jónssyni gestkomandi á bænum.

Magnús ólafsson fyrrverandi bóndi á Sveinsstöðum í Vatnsdal er sagnamaður af guðs náð og gjörþekkir þessa örlagasögu. Magnús hefur á undanförnum árum farið með gesti í hestaferðir  um sögusvið Illugastaðamorðanna og sagt söguna þar sem atburðirnir gerðust.

Magnús mun frumsýna frásögnina Öxin – Agnes og Friðrik á Söguloftinu í Landnámssetrinu í Borgarnesi nákvæmlega þegar 190 ár upp á klukkutíma eru liðin frá aftökunni. Frumsýningin hefst klukkan tvö, en aftakan fór fram klukkan tvö 12. janúar 1830. Fjölskylda Magnúsar tengist þessum voðaatburðum persónulega en faðir Magnúsar og afi komu báðir að því árið 1934 að flytja líkamsleifar sakamannanna í vígða mold, eða þegar rúmlega 100 ár voru liðin frá því þau tvö voru höggvin. Af þeim gjörningi er dularfull og merkileg saga sem Magnús mun rekja í tengslum við sjálfa morðsöguna.

Um þessa atburði hafa verið skrifaðar bækur, gerð kvikmynd og væntanleg er íslensk ópera innan tveggja ára. En Magnús kemur með persónulegan og óvæntan vinkil með sýn sinni á efninu. Áhugafólki er ráðlagt að missa ekki af þessari sýningu.

Kynningarfundi umhverfisráðherra frestað

Þri, 07/01/2020 - 10:21

Kynningarfundi umhverfis- og auðlindaráðherra um Hálendisþjóðgarð, sem halda átti á Hótel Hamri í Borgarnesi eftir hádegið í dag, hefur verið frestað vegna veðurs. Sömuleiðis hefur fundum sem vera áttu í Húnavatnshreppi, í Reykjadal í S-Þing og á Egilsstöðum í dag og á morgun verið frestað. Nýjar tímasetningar fyrir fundina verða auglýstar á næstu dögum, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Grái herinn hyggst höfða dómsmál gegn ríkinu

Þri, 07/01/2020 - 10:01

Grái herinn, baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni sem berst fyrir mannsæmandi kjörum og virðingu allra, hefur ákveðið að fara í mál á hendur ríkisvaldinu vegna skerðinga á lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun. Helgi Pétursson talsmaður félagins skrifar um málið og segir að það hafi verið í undirbúningi mánuðum saman en nú sjái fyrir endan á því.

„Við búumst við að hægt verði að dómtaka málið á næstu vikum,“ segir Helgi. Nokkur verkalýðsfélög hafa þegar lofað fjárframlögum vegna kostnaðar við málssóknina, en betur má ef duga skal. „Við skulum búa okkur undir að þetta verður ekki auðvelt. Við erum að eiga við öfl sem segja eitt en gera svo allt annað og finnst það allt í lagi. Samningar og jafnvel niðurstaða dómstóla virðist ekki skipta neinu. En fyrst og fremst er það landlægt virðingarleysi gagnvart eldra fólki og kjörum þess, svo ekki sé minnst á þá langelstu, sem liggja á göngum og í skúmaskotum, sem fær að viðgangast. Að breyta þessu viðhorfi gagnvart eldra fólki er stóra verkefni okkar allra,“ skrifar Helgi í tilkynningu sem talsmaður Gráa hersins. Gert er ráð fyrir að lögfræðingar Gráa hersins leggi fram prófmál fyrir hönd eins einstaklings, sem síðan verður yfirfært á aðra eldri borgara vinnist sigur.

Gul viðvörun um allt land vegna hríðarveðurs

Þri, 07/01/2020 - 09:31

Veðurstofan gerir ráð fyrir að veður versni allverulega í dag og slæmt veður og færð verði fram á morgundaginn hið minnsta. Gul viðvörun hefur verið gefin út fyrir allt landið í dag og til nónbils á morgun, miðvikudag. Djúp og víðáttumikil lægð mun ganga norðaustur yfir landið. Spáð er norðaustan 15-23 m/s norðvestantil á landinu í dag, en annars hægari vindur í fyrstu. Slydda eða rigning verður sunnan heiða og hiti 1 til 7 stig, en snjókoma með köflum og hiti um frostmark fyrir norðan. Gengur síðdegis í suðvestan 18-25 m/sek með éljum um landið sunnanvert og einnig á norður- og austurlandi í kvöld. Vestan 18-25 m/sek á morgun, en suðvestan 13-18 m/sek annað kvöld. Víða él, þó síst austanlands. Frost yfirleitt 0 til 5 stig.

Fyrir Faxaflóa er spáð hvassviðri eða stormi frá klukkan 15:00 í dag til klukkan 10 í fyrramálið. Það verður suðvestan 15-25 m/s og éljagangur með lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum. Við Breiðafjörð er spáð hríðarveðri með norðaustan 15-23 m/s og slyddu eða snjókomu með köflum. Lélegt skyggni og sömuleiðis versnandi akstursskilyrði.

Víkingur Ólafsvík er Íslandsmeistari í innanhússfótbolta

Þri, 07/01/2020 - 08:48

Úrslitakeppnin í Futsal fór fram um síðustu helgi. Keppt var í átta liða úrslitum á föstudagskvöldinu. Þar komust áfram lið Aftureldingar/Hvíta riddarans, Ísbjarnarins, Víkings Ólafsvík og Íslandsmeistararnir 2019 Vængir Júpíters. Fjögurra liða úrslitin voru spiluð á laugardeginum. Þar sló Ísbjörninn út íslandsmeistarana í Vængjum Júpíters með tveim mörkum gegn einu og Víkingur Ólafsvík lagði Aftureldingu/Hvíta riddarann í hörkuleik sem endaði 5 – 3 en framlengja þurfti báðum leikjunum þennan dag. Á sunnudeginum fór svo úrslitaleikurinn fram þar sem Ísbjörninn og Víkingur Ólafsvík mættust í hörkuleik og var staðan 1 – 1 eftir venjulegan leiktíma. Var mikill hasar í framlengingunni þar sem lokatölur urðu 3 – 5 Víkingi Ólafsvík í vil og þeir því Íslandsmeistarar í Futsal 2020.

Víkingur hefur gert góða hluti í innanhússboltanum undanfarin ár og vann Íslandsmótið árin 2015 og 2016. Árið 2017 töpuðu Víkingar fyrir Selfossi í úrslitaleiknum og fyrir Vængjum Júpíters í undanúrslitum bæði árið 2018 og 2019.

Perlað af Krafti á Akranesi á morgun, miðvikudag

Þri, 07/01/2020 - 08:01

Kraftur hvetur alla sem eru búsettir á Akranesi og nágrenni að perla með sér nýtt „Lífið er núna“ armband miðvikudaginn 8. janúar. Kraftur mun þá leggja leið sína í bæjarfélagið og verður í Grundaskóla milli klukkan 16:30 og 20:00. „Armböndin sem um ræðir eru í sannkölluðum norðurljósalitum og eru sérstök afmælisarmbönd í tilefni 20 ára afmæli Krafts. Armböndin eru með áletruninni „Lífið er núna“ og eru auðveld í samsetningu svo að allir geta tekið þátt, börn sem fullorðnir. Þetta er skemmtileg stund fyrir alla fjölskylduna og tilvalið tækifæri að láta gott af sér leiða. Með því að taka þátt í viðburðinum er fólk að hjálpa Krafti að standa við bakið á ungu fólki sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendum þar sem armböndin eru seld til styrkar félaginu,“ segir í tilkynningu.

Öll armböndin eru perluð í sjálfboðavinnu og því mikil hugsjón lögð í  hvert armband. Norðurljósaarmböndin eru einnig seld í vefverslun félagsins www.kraftur.org/vefverslun en þau eru seld í takmörkuðu upplagi í tilefni af 20 ára afmæli Krafts, félags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Síður