Kirkjuklukkum hringt gegn einelti

Kirkjuklukkum verður hringt í dag til að kalla okkur til að berjast í umhverfi okkar gegn einelti í öllum sínum myndum.

Um átakið segir á vef Þjóðkirkjunnar: 

"Alþjóðadagur gegn gegn einelti og kynferðisofbeldi er í dag. Þá verður kirkjuklukkum um allt land hringt til að minna á baráttuna gegn einelti. Þetta er gert til að leggja lið baráttunni gegn þessi samfélagsmeini.

Einelti er alvarlegt vandamál í samfélagi okkar. Það fyrirfinnst í öllum aldurshópum, á vinnustöðum, í skólum og annars staðar í samfélaginu. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, hefur lagt til að kirkjuklukkum verði hringt þar sem því verður við komið föstudaginn 8. nóvember n.k. kl. 13 í 7 mínútur, en það er mínúta fyrir hvern dag vikunnar.

Þannig vill þjóðkirkjan leggja sitt af mörkum til að minna á alvarleika eineltis og kynferðisofbeldis. Sú áminning er liður í að uppræta eineltið og ofbeldið sem því miður virðist ekki vera vanþörf á."

 

Kirkjuklukkum verður líka hringt í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalli, það er í Ólafsvíkurkirkju klukkan 13.

Ekki verður hringt í hinum kirkjunum, en þar mundu fáir heyra í þeim, en klukkur Ólafsvíkurkirkju hljóma fyrir þær einnig.

Leggjumst öll á eitt og berjumst gegn einelti.