Kirkjukór Ingjaldshólssóknar

Kirkjukór Ingjaldshólssóknar er  blandaður  kór. 

Kórinn tekur þátt í öllu helgihaldinu í Ingjaldshólskirkju, heldur einnig stundum tónleika. 

Kóræfingar eru víkulega á miðvikudögum í Safnaðarheimili Ingjalshólskirku kl. 20.

Nýir kórfélagar ávallt velkomnir!

Erindi um sögu kórsins (flutt við kórkvöld í tilefni afmælis kórsins): 

Kirkjukórinn 65 ára

Kirkjukór Ingjaldshólssóknar var formlega stofnaður þann 15. mars 1953 og er því hálfri öld yngri en Ingjaldshólskirkja sem fagnar 115 ára afmæli sínu um þessar mundir. Eins og fram kemur í fyrstu fundargerð kórsins var boðað til stofnfundar kórsins á heimili Jóhönnu Vigfúsdóttur organista. Á fundinn mættu séra Magnús Guðmundsson sóknarprestur, Kjartan Jóhannesson organisti og söngstjóri frá Reykjavík, Jóhanna Vigfúsdóttir og 16 kórfélagar. Kjartan Jóhannesson dvaldi á Hellissandi í þrjá daga við æfingar með kórnum. Getið er um það í áður nefndri fundargerð að kórinn myndi sækja um inngöngu í kirkjukórasamband Snæfellsnesprófastsdæmis. Eflaust hefur þurft formlega stofnun kórsins til að fá inngöngu í þetta kórasamband sem stóð fyrir ýmsu því sem þótti eftirsóknarvert. Ákveðið var að nafn kórsins yrði Kirkjukór Ingjaldshólssóknar. Til gamans má geta þess að ártillag kórfélaga var ákveðið 15 krónur. Að öðru leyti voru lög kórsins eins og lög annarra kóra á Íslandi. Einnig kemur fram í þessari fundargerð að á haustmánuðum eða 11 október verði kirkjan 50 ára og vonast sé eftir söngmálastjóra þjóðkirkjunnar, Sigurði Birkis, að hausti til að hjálpa til við æfingar kórsins fyrir þetta merkisafmæli eins og það er orðað í fundargerð. Síðar kemur fram að svo varð.

Önnur fundargerðin er svo skráð 2. maí 1954. Þar samþykkja kórfélagar að gera Vigfús Jónsson að heiðursfélaga enda hafi hann þá sungið í kirkjunni í 50 ár. Vigfús færði kórnum að þessu til efni 200 krónur að gjöf sem skyldi vera vísir að söngbókasafni.

Víst er að kórsöngur var æfður löngu fyrir stofnun kirkjukórsins. Í fundargerð almenns safnaðarfundar þann 20. janúar 1909 kemur fram umræða um söng í kirkjunni. Ákveðið var að safna saman 10 – 15 mans til að sjá um söng. Hans Jenssyni frá Rifi, síðar á Selhól, var falið að útvega mann að sunnan, eins og tekið er til orða í fundargerð, til að æfa upp söng og síðan myndi organistinn æfa þennan hóp fyrir hverja messu. Af þessu máli finnast ekki frekari heimildir en eflaust hefur það orðið úr að söngur hefur verið æfður frá þeim tíma, eða fyrir um 109 árum.

Fyrstu heimildir um orgelkaup fyrir Ingjaldshólskirkju eru frá árinu 1894. Mun það hafa kostað 220 krónur. Líklegt er að slík hljóðfæri komi í kirkjur kaupstaðanna á svipuðum tíma en þó var ekki algengt að hljóðfæri kæmu í kirkjur fyrr en í upphafi 20. aldar. Verulegur skriður komst ekki á starf kirkjukóra fyrr en á 4. og 5. áratug aldarinnar.

Í fundargerð frá 25. september 1927 kemur fram að Jóhanna Vigfúsdóttir er ráðin organisti fyrir næsta fardagaár, frá 1.júní 1928 – 1. júní 1929. Þessi samningur entist til 14. september 1980 eða í 52 ár. Kay Wiggs tók þá við organistastarfinu. Hún hafði komið til Íslands árið áður frá Bandaríkjunum og tekið að sér skólastjórn Tónlistarskólans Neshrepps á Hellissandi. Síðan þá var hún organisti og stjórnandi kórsins eða allt til ársins 2014 er hún lét af því starfi. Í hennar stað var ráðin Elena Makeeva, hún kom frá Rússlandi til Ólafsvíkur fyrir nokkrum árum og verið organist í Ólafsvíkurkirkju undanfarin ár en bætti nú við sig organista og söngstjórn Kórs Ingjaldshólskirkju

Lengst af skortir mjög á um heimildir vegna kórstarfsins en á síðari árum var tekinn upp sá siður að halda nokkurs konar dagbók. Í hvert skipti sem kórinn kemur saman er tilefnið skráð og þeir kórfélagar sem mæta rita nöfn sín í bókina. Þessi bók kemur eflaust til með að geyma ómetanlegar heimildir.

Tveir stofnfélagar kórsins eru enn á lífi og samkvæmt þeirra minni höfum við nöfn flestra stofnfélaga, en þó tæpast allra . þau eru: Cýrus Danelíusson og Guðríður Þorkelsdóttir auk þeirra hafi verið mætt , Vigfús Jónsson, Friðþjófur Guðmundsson, Björn Kristjánsson, Svanfríður Kristjánsdóttir, Guðbjörg Jónsdóttir, Krístín Jónasdóttir, Ólöf Jóhannsdóttir og Sólvéig Andrésdóttir , síðan mjög fljótlega ef ekki á stofnfundi, þær Hrefna Magnúsdóttir, Svanhildur Snæbjörnsdóttir Aldís Stefánsdóttir , Ester Friðþjófsdóttir, og Hjördís Sigurðardóttir.

Fjöldi kórfélaga var á bestu árum kórsins 25-30 en á undanförnum árum hefur nokkuð fækkað og meðal aldur félaga hækkað , meirihluti kórfélaga hafa sungið í kórnum í 30 og alt uppí 55 ár svo nú þarf að verða viðsnúningur eigi kór að starfa við kirkjuna okkar mikið lengur . Margir hafa lagt kórnum lið í gegnum árin um lengri eða skemmri tíma eiga þau öll þakkir skildar.

Eins og flestir vita er kirkjukórastarf nokkuð hefðbundið sem felst í söng við guðsþjónustur og aðrar athafnir í kirkjunni en þó eru ýmsir atburðir sem kórfélagar minnast fyrir utan hið venjubundna starf.

Um haustið 1986 hófst samstarf kirkjukóranna á norðanverðu Snæfellsnesi með því að æfa saman dagskrá sem flutt var í Betlehem á aðfangadagskvöld og í þjóðleikhúsinu í Jerúsalem á jóladag það sama ár. Kórinn var nefndur Jöklakór. Einnig var farið til Egyptalands og þaðan til Rómar þar sem Páfinn var heimsóttur. Fyrir þá sem fóru í þessa ferð var hún mjög eftirminnileg. Upp frá því hafa kórarnir komið saman nokkrum sinnum, æft efnisskrá og haldið tónleika eða bara skemmt sér saman.

Eftir að Kay Wiggs tók við stjórn kórsins stóð hún þó nokkrum sinnum fyrir því að fá fært fólk sér til aðstoðar við raddþjálfun hressti það jafnan upp á mannskapinn. Má þar nefna Ingveldi Hjaltesteð með sinum alkunna hressileika, Ingveldi Yr Jónsdóttur og Ronald Turner, sem að loknum námskeiður tóku gjarnan lagið með kórnum.

Kórinn hefur farið í heimsóknir til Reykjavíkur og sungið við messur hjá fyrrverandi sóknarprestum Ingjaldshólskirkju, þeim séra Hreini Hjartarsyni og sera Guðmundi Karli Ágústssyni, í Fella- og Hólakirkju. Kórinn hefur einnig heimsótt fleiri kirkjur í Reykjavík og sungið þar við messur, t.d. í Laugarneskirkju og í Seljakirkju. Þann 5. nóvember 1988 tók kórinn þátt í 50 ára afmælishátíð blandaðra kóra sem haldin var í Laugardalshöll.

Við merk tímamót í sögu kirkjunnar og aðra viðburði tengda henni hefur kórinn lagt meira í æfingar svo sem við vígslu safnaðarheimilis og við mörg merkisafmæli kirkjunnar, eins og 75 ára, 80 ára og 100 ára afmælin .

Þann 24. ágúst 1996 voru haldnir tónleikar í Röst til styrktar orgelsjóði kirkjunnar. Með kórnum í liði var fjölskylda Jóhönnu Vigfúsdóttur og Hjartar Jónssonar ásamt Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara. Tónleikarnir voru haldnir í minningu Jóhönnu og Hjartar. Daginn eftir, sunnudaginn 25. ágúst, voru tónleikarnir svo endurteknir í Fella- og Hólakirkju í Reykjavík. Fyrir þessa tónleika voru saumaðir kórbúningar, bláir síðkjólar með hvítum krögum á konurnar og fyrir karlana blá vesti við hvítar skyrtur.

Árið 1999 var æft fyrir kristnihátíð og farið í æfingabúðir í Laugagerðisskóla. Í desember 1997 æfði kórinn fyrir upptöku breskrar sjónvarpsstöðvar og svo mætti fleira telja. Nokkrum sinnum hefur kórinn fengið aðra kóra í heimsókn og þá gjarnan tekið með þeim lagið og átt með þeim glaða stund.

Einn fastur punktur var ávalt í jólaundirbúningi kórsins meðan Kay stjórnaði en það var heimboð þeirra Kay og Ómars á jólaföstunni, venjulega eftir síðustu æfingu fyrir jól. Þá var allt komið í jólaskrúða á heimili þeirra. Hafi þau þökk fyrir allar þær ánæjustundir.

Merkilegt hlýtur að teljast og næsta fátítt að allt frá árinu 1928 hafa aðeins þrír organistar og söngstjórar starfað við Ingjaldshólskirkju,

 

Mig langar að bæta við kvatningar orðum til allra sem hafa gaman af söng að hugsa málið og prófa að koma og syngja með kórnum, við höfum hér góðan stjórnanda sem vantar bara meiri efnivið að vinna úr. Ég get borið vitni um að það er bæði gaman og gefandi. Öll þau ár sem ég hef sungið í kórnum hefur mér aldrei leiðst.

 

Samantekt: Auður Alexandersdóttir og Lúðvík Ver Smárason 11 okt. 2003

Uppfært og endursk. Í september 2018 af Auði Alexandersdóttir.