Uppskeruhátíð, gleði og leikir á Brimilsvöllum

Uppskeruguðsþjónusta verður í Brimilsvallakirkju sunnudaginn 31. ágúst kl. 14.

Þakkarhátíð þar sem uppskeru sumarsins verður fagnað.  Grill, leikir og fjör.
Þeir sem vilja koma með sýnishorn af uppskeru sinni, t.d. sultur, ber, rababarakökur og svo framvegis, og leyfa öðrum að njóta með sér eru hvattir til að láta sóknarprest vita í síma 844-5858.

Skráning fermingarbarna og stutt kynning fyrir þau og forráðamenn.

 

Lestrar dagsins:

 

11. sunnudagur eftir þrenningarhátíð

Farísei og tollheimtumaður.
Litur: Grænn.

 

Textaröð: A

Lexía: Jes 2.11-17
Hrokafull augu manna munu auðmýkt
og dramb þeirra lægt.
Drottinn einn mun upphafinn
á þeim degi.
Dagur Drottins herskaranna kemur
yfir allt dramblátt og hrokafullt,
yfir allt sem gnæfir hátt,
yfir öll sedrustré á Líbanon,
há og gnæfandi,
og allar Basanseikur,
yfir öll gnæfandi fjöll
og yfir allar háar hæðir,
yfir alla háreista turna,
yfir alla ókleifa borgarmúra,
yfir öll Tarsisskip,
yfir öll skip hlaðin glysi.
Þá verður hroki mannanna beygður
og dramb þeirra lægt.
Drottinn einn mun upphafinn á þeim degi.

 

Pistill: Róm 3.21-26
En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.

 

Guðspjall: Lúk 18.9-14
Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“

 

Sálmar:
214 a (1,2,4)
584
189
704
56,
 

 

Dagsetning: 
Sunnudagur, 31 ágúst, 2014 - 14:00