Blessun húsnæðis

Hægt er að bóka blessun húsnæðis hjá presti eða djákna.
Hins vegar geta aðrir einnig notað eftirfarandi form.
Stundum er signt fyrir alla innganga í húsið, einnig glugga.

BLESSUN HÚSNÆÐIS
Viðstaddir safnast saman á áður ákveðnum stað í húsinu svo sem anddyri, skála eða stofu. Hefja má athöfnina á því að syngja sálm nr. 113 eða 114.
Í stað þess má lesa sálminn.

Þá er lesið í víxllestri:
Í nafni Guðs + föður og sonar og heilags anda.
Amen.

Hjálp vor er í nafni Drottins,
skapara himins og jarðar.
Ef Drottinn byggir ekki húsið,
erfiða smiðirnir til ónýtis.
Ef Drottinn verndar ekki borgina,
vakir vörðurinn til ónýtis.
Engill Drottins setur vörð
kringum þá er óttast hann, og frelsar þá. 
Finnið og sjáið, að Drottinn er góður,
sæll er sá maður er leitar hælis hjá honum. 
Náðugur og miskunnsamur er Drottinn,
þolinmóður og mjög gæskuríkur. 
Drottinn er öllum góður
og miskunn hans er yfir öllu, sem hann skapar. 
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda.
Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

Lesa má einn eða fleiri erftirfarandi texta:

  • Hlýð því á þau, Ísrael, og gættu þess að halda þau svo að þér vegni vel og þér fjölgi stórum í landinu sem flýtur í mjólk og hunangi eins og Drottinn, Guð þinn, hét þér.
    Heyr, Ísrael. Drottinn, Guð vor, Drottinn er einn. Þú skalt elska Drottin,
    Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.
    6Þessi orð, sem ég boða þér í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum. Þú skalt hafa þau yfir þegar þú situr heima og þegar þú ert á faraldsfæti, þegar þú leggst til svefns og þegar þú ferð á fætur. Þú skalt binda þau sem tákn á hönd þína og hafa þau sem merki milli augna þinna. Þú skalt skrifa þau á dyrastafi húss þíns og borgarhlið þín.
  • Og Drottinn sagði við mig: „Leggðu af stað og farðu fyrir fólkinu við brottför þess þegar það fer að slá eign ykkar á landið sem ég hét feðrum þess að gefa því.“

    Og nú, Ísrael, hvers krefst Drottinn, Guð þinn, annars af þér en að þú óttist Drottin, Guð þinn, gangir á öllum vegum hans og elskir hann, að þú þjónir Drottni, Guði þínum, af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni og haldir boð Drottins og lög sem ég set þér í dag svo að þér vegni vel?
    Sjá, Drottni, Guði þínum, heyrir himinninn og himnanna himinn og jörðin og allt sem á henni er. Eigi að síður beindist kærleikur Drottins að feðrum þínum einum svo að hann elskaði þá. Síðan valdi hann ykkur, niðja þeirra, úr öllum þjóðum og er svo enn í dag.
    Umskerið því forhúð hjartna ykkar og verið ekki framar harðsvíruð. Því að Drottinn, Guð ykkar, er Guð guðanna og Drottinn drottnanna. Hann er hinn mikli Guð, hetjan og ógnvaldurinn, sem gerir sér engan mannamun og þiggur ekki mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og sýnir aðkomumanninum kærleika og gefur honum fæði og klæði.

Heyrum orð Jesúm Krists eins og þau eru skrifuð í Matteusarguðspjalli:

  • Hver sem heyrir þessi orð mín og breytir eftir þeim, sá er líkur hyggnum manni er byggði hús sitt á bjargi. Nú skall á steypiregn, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi en það féll eigi því það var grundvallað á bjargi.
    En hver sem heyrir þessi orð mín og breytir ekki eftir þeim, sá er líkur heimskum manni er byggði hús sitt á sandi. Steypiregn skall á, vatnið flæddi, stormar blésu og buldu á því húsi. Það féll og fall þess var mikið.“
    Þegar Jesús hafði lokið þessari ræðu varð mannfjöldinn djúpt snortinn af orðum hans því að hann kenndi eins og sá er vald hefur og ekki eins og fræðimenn þeirra.

Heyrum orð Jesúm Krists eins og þau eru skrifuð í Lúkasarguðspjalli:

  • Á ferð þeirra kom Jesús í þorp nokkurt og kona að nafni Marta bauð honum heim. Hún átti systur er María hét og settist hún við fætur Drottins og hlýddi á orð hans. En Marta lagði allan hug á að veita sem mesta þjónustu. Og hún gekk til hans og mælti: „Drottinn, hirðir þú eigi um það að systir mín lætur mig eina um að þjóna gestum? Seg þú henni að hjálpa mér.“
    En Drottinn svaraði henni: „Marta, Marta, þú ert áhyggjufull og mæðist í mörgu en eitt er nauðsynlegt. María valdi góða hlutskiptið. Það verður ekki frá henni tekið.“
  • Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“
    Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“
    En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“
    Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“

Biðjum:
(eftir því sem við á)
Fyrir þeim sem byggja og þeim sem hingað flytja og heimsækja.

Vitja þú, Drottinn, þessa heimilis og bæg héðan öllu, sem skaða kann og tjóni valda. Lát helga engla þína bú hér og oss njóta verndar þinnar, friðar og blessunar til æviloka. Fyrir Jesús Krist, Drottinn vorn.
Amen.

Ráð þú, Drottinn, í öllu sem við áformum, óskum og gjörum, svo allt verði það í þér hafið, framið og fullnað og vér sakir miskunnar þinnar lifum þér til dýrðar og öðlumst af náð þinni eilíft líf. Fyrir Jesús Krist, Drottinn vorn.
Amen.

Faðir vor……

Friður sé með húsi þessu og öllum þeim sem hér búa/starfa.
Í nafni Guðs (+) Föður og Sonar og Heilags Anda.
Amen.

Sé prestur eða djákni viðstaddur endar athöfnin á blessun:

P: Þökkum Drottni og vegsömum hann.
S: Drottni sé vegsemd og þakkargjörð.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.
Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.
Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.
S: Amen.
Í nafni Guðs (+) Föður og Sonar og Heilags Anda.

Syngja má eða lesa sálm númer 246 eða 56.

Gestir:2091 Gestir í dag: 3 Gestir í allt: 2626240