Á kaþólskum tíma voru kirkju á Ingjaldshóli helgaðar: Maríu móður Jesú, Guði, Cosmos og Damian, píslarvottum (27.september), og öllum öðrum helgum mönnum (1. nóvember). Það þýðir að vígsludagar og kirkjudagar kirkjunnar voru á dögum helguðum þeim sem nefndir voru.
Um kirkjuna:
Gunnar Hauksson bjó á Ingjaldsshóli og átti jörðina. Lét hann gera kirkju á staðnum, en áður hafði þar staðið bænhús. Vígslumáldagi kirkjunnar er frá 13. október 1317, en kirkjan var vígð af Árna Helgasyni, Skálholtsbiskupi, Guði til lofs og dýrðar, sánkti Maríu og öllum heilögum mönnum. Sumir segja að elsta kirkja hafi verið reist 1262. Sóknin var neshreppur utan Ennis.
Heimild úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar).
Ingjaldshólskirkja er í Ólafsvíkur- og Ingjaldshólsprestakalli í Vesturlandsprófastsdæmi. Þar er kirkjustaður og kirkja, sem var byggð 1903 og er elzta steinsteypta kirkja heims.
Íbúðarhúsið í Sveinatungu í Borgarfirði hafði verið byggt á þennan hátt árið 1895 og Barónsfjósið í Reykjavík var steypt 1899. Sama ár voru tvö fyrstu íbúðarhúsin í Reykjavík steypt.
Að Ingjaldshóli var löngum þriðja stærsta kirkja landsins, næst Skálholtskirkju og Hólakirkju að stærð, því hvergi var meira þéttbýli, þegar tómthús og þurrabúðir risu þar eins og gorkúlur í tengslum við útræði á nesinu auk allra vermannanna, sem komu á vertíðir. Eldri kirkjur stóðu í kirkjugarðinum en núverandi kirkja var byggð utan hans.
Forvígismaður kirkjubyggingarinnar 1903 var Lárus Skúlason, formaður á Hellissandi. Aðrir sóknarnefnd voru Hallgrímur Jónsson, kennari, Jens Sigurðsson, bóndi Rifi, og Andrés Kristjánsson, bóndi Ingjaldshóli. Einn Völundarbræðra, Jón Sveinsson, byggingarmeistari, var fenginn til að byggja hana. Hann hafði m.a. byggt Miðbæjarskólann í Reykjavík. Jón Sveinsson teiknaði kirkjuna og Albert Jónsson, múr- og steinsmiður, var fenginn að verkinu og sá um smíðina. Þrátt fyrir reynsluleysi í byggingu steinsteyptra húsa, var svo vel vandað til verksins, að steypan hefur ekki látið á sjá.
Kirkjan var vígð 11. október 1903 af séra Sigurði Gunnarssyni, prófasti.
Árið 1914 var ráðizt í endurbætur. Rögnvaldur Ólafsson var þá húsameistari ríkisins. Eftir teikningum og fyrirsögn hans var turninn hækkaður, núverandi söngloft var byggt, tréverki var breytt, hvelfingin var gerð bogadregin og klædd með panel. Beggja vegna kórsins eru steinsteyptar súlur, sem tengjast með boga. Þessi bogi var ekki steyptur í mótum, heldur handgerður. Súlurnar og boginn voru ekki einungis til skrauts. Neðst í súlunum voru kolaofnar til upphitunar og reykurinn steig upp um þær og bogann og út um skorstein. Þessi ofnar voru aflagðir og rafhitun tekin upp.
Árið 1978 var endurnýjað gólf, kirkjan máluð, nýir bekkir smíðaðir og klæddir og kirkjan teppalögð. Smiður var Smári Lúðvíksson, húsamíðameistari og síðar sóknarnefndarformaður.
Þórarinn B. Þorláksson málaði eftirmynd af altaristöflunni í Dómkirkjunni í Reykjavík. Þessa upprisumynd málaði hann í skýrari litum en fyrirmyndin og veglegur rammi var smíðaður utan um verkið.

Önnur tveggja annarra og eldri altaristaflna, sem eru varðveittar í kirkjunni, er íburðarmikið verk með guðspjallamönnunum fjórum. Hún er gjöf frá Peter Nocolai Winge, kaupmanni á Rifi árið 1709. Hún ber merki barokktímans, sem var þá að víkja fyrir fínlegri dráttum rókókóstílsins. Þessi tafla var sett upp í stað hinnar eldri, sem var mun minni og frumstæðari. Aldur hennar er ekki kunnur, en hún mun hafa hangið í kirkjunni, sem var byggð 1696. Sagt er, að hún hafi verið varðveitt í Brimilsvallakirkju árið 1923. Matthías Þórðarson, fornminjavörður, lýsir henni í úttekt árið 1911:
Gömul altaristafla með tveimur englum, sól og tungli o.fl. Líklegt þykir, að veglegri rammi hafi áður verið utan um þessa mynd, sem til stóð að farga, en tókst sem betur fór að bjarga.
Leifur Breiðfjörð gerði tvö steind listaverk í gluggum kórsins. Gluggarnir voru gefnir 1982 til minningar um Sigurlaugu Cýrusdóttur (f. 17. desember 1881, d. 4. júní 1963) og Elímund Ögmundsson (f. 30. september 1876, d. 25. júlí 1954) af börnum þeirra.


Skírnarskál kirkjunnar úr messing er frá 1894 og er í gamla skírnarfontinum. Ríkharður Jónsson skar nýja fontinn út skömmu áður en hann dó. Skálin í honum er úr íslenskum leir frá Glit.

Prédikunarstóllinn hefur ekki haldið upprunalegri mynd eins og hann var í endurbyggðri kirkju árið 1782. Honum var lýst á þann veg, væri skreyttur haglega skornum myndum af postulunum, en einhvern veginn hurfu þessar myndir af honum og eru nú varðveittar í Þjóðminjasafni.
Nú er stóllinn hvítmálaður og sviplítill. Kirkjan er björt og hvítmáluð. Hvelfingin er dökkblá og sett gylltum stjörnum og rautt teppi er á gólfi. Kirkjubekkirnir eru gerðir úr fallegum viði. Helgi Hallgrímsson teiknaði bekkina og sá um smíðina. Á hvorri hlið eru þrír stórir, bogadregnir járngluggar með 36 rúðum.

Kirkjuklukka er frá 1743, gefin af Guðmundi Sigurðssyni, sýslumanni, en þar er á dönsku áletrun sem er í lauslegri þýðingu séra Guðmundar Karls Ágústsonar: „Klukkan hljómar. Tíminn ómar – burt sem fjara og flóð. Það, sem við líðum,- það, sem við stríðum- geymist Guðs í sjóð.“ Önnur kirkjuklukka og minni er frá 1735.
Safnaðarheimilið var tekið í notkun 1997. Það sést ekki utan frá og inngangur niður í það er í forkirkju. Það opnast vestur úr hólnum um dyr og steinda glugga.
Gömul sögn segir frá vetursetu Kristófers Kólumbusar á Ingjaldshóli árið 1477. Hann er sagður hafa komið til Rifs til að kynna sér Vínlandsferðir Íslendinga. Á stóru málverki eftir Áka Gränz í safnaðarheimilinu sést hann skoða kort ásamt bóndanum á Ingjaldshóli með kirkjuna og Jökulinn í baksýn. Í ævisögu sonar Kristófers Kólumbusar segir frá að Kristófer fór til Íslands frá Bristol til að kynna sér ferðir Íslendinga.

Öldum saman var Ingjaldshóll höfuðból, sem getið er í Víglundarsögu og Bárðarsögu Snæfellsáss. Þar var snemma kirkjustaður, lögskipaður þingstaður og þar með aftökustaður. Rifsós eða Rifshöfn heyrði undir staðinn. Þar var Björn Þorleifsson, hirðstjóri, veginn í bardaga við enska kaupmenn 1467.
Sóknarkirkju er ekki getið fyrr en árið 1317 en þar var bænahús áður.
Í þjóðsögusafni Jóns Árnasonar er tilurðar kirkjunnar getið og jafnframt, að hún hafi skemmzt í fárviðri árið 1694 og verið byggð upp aftur tveimur árum síðar samkvæmt konungsbréfi. Þá kostaði uppbyggingin 400 ríkisdali og allar kirkjur í Skálholtsbiskupsdæmi lögðust á árarnar.

Þessi kirkja tók a.m.k. 360 manns, en svo margir komu til nýársdagsmessu. Fjöldi fólks kom á vetrarvertíðir undir Jökli, þannig að kirkjan varð að vera stór. Bjarni Pálsson og Eggert Ólafsson sáu þessa kirkju á ferðum sínum árið 1754 og sögðu hana ganga næst dómkirkjunni í Reykjavík og á Hólum að stærð. Þá hékk þar líklega uppi elzta altaristaflan og þá voru postulamyndirnar enn þá á prédikunarstólnum. Þá var þar til klukka með ártalinu 1693, sem er horfin með öllu, en var geymd í Ólafsvíkurkirkju samkvæmt skrám Matthíasar Þórðarsonar frá 1911. Guðmundur Sigurðsson, sýslumaður og tengdafaðir Eggerts Ólafssonar, gaf nýja klukku með ártalinu 1743, sem er enn þá í kirkjunni ásamt annarri frá 1735.

Árið 1782 var kirkjan orðin úr sér gengin. Ólafur Björnsson, bíldhöggvari á Munaðarhóli, var fenginn til að byggja nýja. Samkvæmt lýsingum dansks kaupmanns í Ólafsvík var hún úr timbri og tjörguð að utan. Dyr voru á vesturgafli og aðrar á norðurhlið. Loft náði inn að prédikunarstól, sem var u.þ.b. í miðri kirkju. Í kórnum voru fjórir bekkir til allra hliða fyrir karlmenn. Smágluggar voru við altarið og við prédikunarstólinn og nokkrar rúður á þakinu. Velútskornar tréhurðir voru fyrir tveimur innstu bekkjum og eins fyrir kórnum. Prédikunarstóllinn var skreyttur útskornum myndum af postulunum og altaristaflan var mynd af kvöldmáltíðinni, velmáluð og gjöf þýzkra kaupmanna (ruglað saman við töfluna, sem Winge kaupmaður gaf 1709). Þessi kirkja var hin þriðja stærsta í landinu. Þessi kirkja stóð í kirkjugarðinum, þar sem sjá má rústir hennar, þar til steinkirkjan reis árið 1903.

Meðal minnisvarða í kirkjugarðinum eru legsteinar Magnúsar Jónssonar, lögmanns, sem lézt árið 1694, og Guðmundar Sigurðssonar, sýslumanns, frá 1753. Eggert Ólafsson, tengdasonur hans, lét gera steininn. Norðan garðsins, nær kirkjunni, stendur nýlegur minnisvarði um hjónin Eggert Ólafsson og Ingibjörgu Guðmundsdóttur, tveir mannhæðarháir steinar, sem Páll Guðmundsson á Húsafelli mótaði myndir í. Steinarnir standa þétt saman og í gegnum glufuna sést yfir Breiðafjörð upp á Rauðasand, þar sem Eggert ýtti frá kaldri Skor. Í túninu skammt austan kirkjunnar er svonefndur Víglundarsteinn, sem er að mestu horfinn í jörðu. Hettusteinn er líka þarna í grenndinni. Hetta tröllskessa fleygði honum í átt að kirkjunni en hitti ekki.


Kirkjan var landsjóðseign þar til að hún var gefin söfnuðinum 1897.
Stærð kirkna á Hóli:
Kirkjan frá 1656-1696: 27*11,5 álnir (11 stafgólf) -> 17*7,2 m.
Kirkjan frá 1696-1742: 27 álnir (13 stafgólf) -> 18,2 m.
Kirkjan frá 1742-1782: 29 álnir (13 stafgólf) -> 18,2 m
Kirkjan frá 1782-1903: 29*10 álnir (13 stafgólf) -> 18,2*6,3 m. Hæð 3,625 álnir auk 4,5 álnir að þaktopp -> 2,27+2,83 m=5,1 m
Núverandi kirkja: 16*12 álnir ->10*7,5 m. Forkirkja (4*4,25) og kór: 5,5*4,75 álnir -> 3,5*3 m. Samtals: 21,5*12 álnir -> 13,5*7,5 m. Hæð 6 álnir ->3,768 m,
Eitt stafgólf eru 3 álnir -> 1,8884 m.
Frá landnámi til 1500 er ein áln 48 cm. Frá 1500 til 1776 er ein áln 57,8 cm. Eftir 1776 er ein áln 62,8 m.
Heimildin. Einnig er leitað heimilda í grein séra Guðmundar Karls Ágústssonar um kirkjuna í Leiðarljós, riti Hallgrímsdeildar frá 1995.
Um minnisvarðann við kirkjuna og Víglundarstein.
Úr þjóðsögum Jóns Árnasonar: Í forneskju um það leyti sem kristni var lögtekin á Íslandi var einn sakamaður vestan Snæfellsjökuls sem var dæmdur líflaus og skyldi flytjast út til að aflífast, en þegar hann kom þangað var hann settur í fangelsi þar til honum yrði réttað, og so var honum sagt einu sinni að nú væru ekki nema þrjár nætur þangað til að hann væri af tekinn.
Fyrstu nóttina sá hann einhvörja vofu bregða fyrir gluggann, og so aftur aðra nóttina voru enn meiri brögð að því, en daginn þar eftir bað hann fangavaktarann að hafa einhvör ráð með að útvega sér mannsístru, sem fangavaktarinn vildi feginn gjöra, því sá seki kom sér vel við hann, og so kemur hann með ístruna. Hinn tók við og naggar henni í skósíða léreftsskyrtu og andlit allt og höndur og leggst so fyrir um kvöldið í skyrtunni, en um nóttina kemur vofan ennþá á gluggann einna mest. Sakamaður kemst þá út um gluggann (kannske með ráðum vaktarans – og fanginn var haldinn fjölvitur) og eltir vofuna og nær henni hjá einum hól. Hann spur hana so: „Hvör ert þú?“ Hún segir: „Ég er einn af oss, en hvör ert þú,“ segir vofan. Maðurinn segir líka: „Ég er einn af oss.“ Draugsi þefar so nákvæmlega af manninum og opnar so hólinn og fer so þar inn og maðurinn líka. Draugur fer þar að stórri peningahrúgu og eys þeim upp yfir höfuð sér hvað eftir annað. Maðurinn spurði hvörnin hann hefði eignast alla þessa peninga. Draugsi segist hafa verið ríkur kaupmaður og prangað mikið og grafið þá so alla í þessum hól, og draugsi spyr manninn hvört hann eigi ekki peninga líka til að rísla í. Maðurinn sagði: „Jú, ég fer nú bráðum líka að rísla í þeim.“ Draugsi er samt einlægt að fleygja peningum sínum yfir höfuð sér þar til hann segir: „Það er nú farið að líða undir dag; ætlar þú ekki út?“ Maðurinn segir: „Það er langt til dags ennþá.“ So leið stundarkorn.
Þá segir draugsi að nú sé komið að degi; maðurinn hefur á móti því, og enn líður lítil stund, þá segir draugsi: „Nú er komið rétt í dögun.“ Maðurinn segir það ekki vera. Þá flýgur draugsi á manninn og áttust þeir lengi við þar til ljómaði dagur í drauga augu, en hann sökk þá niður þar við, en maðurinn hlynnti að peningunum og fór so heim í fangelsið.
En um næsta dag átti að taka hann af; þá bað hann að fá að tala við kónginn nokkur orð áður en hann væri líflátinn. Kóngur spurði hvað hann vildi við sig tala. Maðurinn segist ætla að biðja hann að gjöra so vel og koma með sér stuttan veg með so marga menn með sér sem hann vilji sjálfur, því ekki ætli hann að hafa nein brögð í frammi. Kóngur lætur það so vera. Þeir koma so að hólnum þar sem peningarnir voru, og þá segir maðurinn kóngi alla söguna og segir þar með að kóngur skuli taka so mikið af peningunum sem hann vilji, en ef hann láti sig fá líf og nokkuð af peningunum þá segist hann vera búinn að heita því að gjöra guði eitthvört þægt verk með þeim. Kóngur spurði hvört það góðverk væri. Maðurinn segir: „Ef þeir peningar sem ég fæ verða so miklir þá vildi ég láta smíða hér timburkirkju og setja hana á Ingjaldshóli á Íslandi í Snæfellssýslu.“
Kóngi líkaði þetta dável og gaf manninum líf og leyfi til þess sem hann vildi, en tók so mikið af peningunum sem hann vildi, og samt er sagt að meira hafi verið eftir en þurfti til musterisbyggingarinnar og alls þess kostnaðar.
Þann veg er sagt að Ingjaldshólskirkja sé með fyrsta til orðin, og þá var hún miklu stærri með fyrsta heldur en hún er nú, því að sagt er að hún hafi tvisvar sinnum verið minnkuð, bæði eftir svartadauða og eftir stórubólu. Árið 1694 tók kirkjuna ofan að bitum í ofsaveðri, en 1696 var hún byggð upp aftur af því sem aðrar kirkjur gáfu til þess 400 dali.

