Frá guðsþjónustunni í Ingjaldshólskirkju um síðustu helgi. Ingiberg J. Hannesson prófastur, Ragnheiður Karítas Pétursdóttir sóknarprestur og Karl Sigurbjörnsson biskup.

Hundrað ára vígsluafmæli Ingjaldshólskirkju haldið hátíðlegt

Haldið var upp á eitt hundrað ára vígsluafmæli kirkjunnar á Ingjaldshóli undir Jökli síðastliðinn laugardag, 4. október. Kirkjugestir voru margir og hvert sæti skipað í kirkju og safnaðarheimili

Tónleikar hófust í kirkjunni kl. 13.30 með söng kirkju- og barnakórs, Martin Markvoll lék á trompet, Guðríður Þorkelsdóttir og Lilja Dögg Gunnarsdóttir léku á þverflautu.

Hátíðarguðsþjónusta hófst að loknum tónleikunum. Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, prédikaði en sóknarpresturinn, sr. Ragnheiður Karítas Pétursdóttir, ásamt prófasti Snæfellsnes- og Dalaprófastsdæmis þjónaði fyrir altari. Innst í kirkjunni voru fimm hempuklæddir prestar prófastsdæmisins. Auk þeirra voru við guðsþjónustuna og fögnuðu með söfnuðinum fjórir fyrrverandi sóknarprestar á Ingjaldshóli.

Við lok guðsþjónustunnar færði Hildigunnur Smáradóttir textílhönnuður formanni sóknarnefndar, Þorbjörgu Alexandersdóttur, gjöf til kirkjunnar, fagran hökul. Hökullinn er hluti af verkefni hennar við lokapróf frá Listaháskóla Íslands. Hildigunnur var fermd og hún gifti sig í Ingjaldshólskirkju.

Að lokinni athöfninni í kirkjunni var boðið til samsætis í félagsheimilinu Röst á Hellissandi. Kvenfélag Hellissands stóð þar fyrir glæsilegri veislu. Þeir Skúli Alexandersson og Smári Lúðvíksson fluttu ágrip af byggingarsögu og sögu kirkjunnar en hún er talin vera elsta steinsteypta kirkja í heimi. Fróðlegri myndasýningu var varpað á vegg sem sýndi viðburði í starfi safnaðarins.

Margar góðar gjafir voru færðar kirkjunni.

Frétt úr Morgunblaðinu.

Gestir:1557 Gestir í dag: 2 Gestir í allt: 2626357