Þegar safnaðarheimili var byggt við kirkjuna á Ingjaldshóli á síðari hluta tíunda áratugar síðustu aldar þurfti að fjarlægja hluta úr steinvegg í anddyri kirkjunnar og opna þar aðgang í safnaðarheimilið. Smári Lúðvíksson, byggingameistari safnaðarheimilisins og þáverandi sóknarnefndarformaður, lét varðveita steininn, meðvitaður um sögulegt gildi hans.
Við undirbúning hátíðar í tilefni af eitthundrað ára vígsluafmæli kirkjunnar á Ingjaldshóli 11. október 2003, var fjallað um það í sóknarnefnd að gera minjagrip úr þessum sérstaka efnivið. Sigríður Margrét Vigfúsdóttir lagði til að gerður yrði bænasteinn. Hugmyndin á bak við bænasteininn var sú að gera grip í tengslum við afmæli kirkjunnar sem hefur notagildi með skírskotun til kristinnar trúar. Ingjaldshólskirkja er elsta steinsteypta kirkja í heimi. Árni Jón Þorgeirsson hefur aðstoðað Sigríði við úrvinnslu hugmyndarinnar. Hafin er framleiðsla á bænasteininum í takmörkuðu magni og er hver steinn einstakur og númeraður. Á steininum er kerti sem kveikja má á þegar beðist er fyrir.
Frétt í Morgunblaðinu 6. janúar 2004