Frétt úr Morgunblaðinu:
NÝLEGA var vígður helgiskrúði, hökull, stóla, altarisbrík, klæði á predikunarstól og dúkur á altarið eftir Sigrúnu Jónsdóttur kirkulistakona í Ingjaldshólskirkju á Snæfellsnesi.
Efnið í messuklæðunum er handofið úr ull og silki, útsaumað með gulli og silfri ásamt ull og silki. Mynstrin eru byggð upp með trúarlegum kirkjulegum táknum bundin við stíl og staðhætti kirkunnar.
Í frétt frá kirkjunni segir, að sóknarbörnin telji að vel hafi til tekist með skrúðann. Hökullinn er hvítur hátíðarhökull, ofinn og lagður gulum fleig í sama lit og altarisbríkin með krossmarkinu að aftan og Guðslambinu að framan. Hökullinn er skreyttur slípuðum íslenskum steinum af Snæfellsnesi, sem Gunnar Kristjánsson hefur slípað.
Hvatinn að því að kirkjan aflaði sér þessara gripa eru margar gjafir, sem henni hafa borist á undanförnum árum, stórar og smáar. Helstar af þessum gjöfum er minningargjöf um hjónin frá Selhól, Þóru Sigurbjörnsdóttur og Hans Jensson frá afkomendum þeirra, sem héldu ættarmót á Hellissandi 1991 og minningargjöf um hjónin Sólveigu Andrésdóttur og Jón Bjarnason Oddsson og son þeirra, Jóhann Gunnar, frá börnum og systkinum. Á liðnu sumri var einnig sett upp vegleg fánastöng við kirkjuna. Hún var gefin til minningar um hjónin, sem síðast bjuggu á Inghjaldshóli, Maríu Óladóttur og Jörund Þórðarson af ættingjum þeirra. Í frétt frá kirkjunni sendir sóknarnefndin öllum gefendum bestu þakkir.
Sigrún Jónsdóttir rekur verslunina Kirkjumuni í Kirkjustræti 10. Þar selur hún handofna muni fyrir kirkjur. Hún vinnur að mestu erlendis, en hún er búsett í Svíþjóð og hefur sýnt listmuni sína víða um lönd.
Séra Friðrik J. Hjartar sóknarprestur í Ólafsvík í stólunni, sem Sigrún Jónsdóttir gerði. Á hinni myndinni, þar sem séra Friðrik snýr sér að altarinu er hann í höklinum.