NÚ á vordögum hafa félagar í Lionsklúbbi Nesþinga á Hellissandi unnið að því að gera minningarreit í kirkjugarðinum á Ingjaldshóli um týnt fólk sem ekki hefur fengið leg í kirkjugarði.
Þeir fengu Þór Sigmundsson steinsmið til að höggva til stóran stein sem tekinn var í fjörunni í Rifi. Steinninn er mjög fallegur og vel unninn. Á hann er letrað „Minning um ástvini sem hvíla í fjarlægð. Blessuð sé minning þeirra.“
Í boga framan við minningarsteininn er reitur og þar hefur verið komið fyrir sex steinum með nöfnum sjómanna héðan úr byggðunum.
Að lokinni guðsþjónustu í Ingjaldshólskirkju á sjómannadaginn fór fram athöfn við minningarreitinn.
Formaður lionsklúbbsins, Óttar Sveinbjörnsson, lýsti tildrögum þessa ágæta verks og fól þeim Kristni Jóni Friðþjófssyni og Smára Lúðvíkssyni, en þeir höfðu unni mest að tilurð þess, að afhjúpa steininn. Óttar afhenti svo formanni sóknarnefndar, Þorbjörgu Alexandersdóttur, reitinn til umsjónar og varðveislu. Sóknarpresturinn, séra Lilja Kr. Þorsteinsdóttir, fór með blessunarorð og minntist þeirra sjómanna sem nöfn áttu í reitnum og aðstandenda þeirra sem margir voru viðstaddir athöfnina.
Að lokum söng kirkjukórinn Ísland ögrum skorið.
Frétt úr Morgunblaðinu.