Frétt í Skessuhorni um Ingjaldshólskirkjugarð

Frétt í Skessuhorni um framkvæmdir við Ingjaldshólskirkjugarð:

Endurbætur á gömlum steinvegg við Ingjaldshólskirkju

Þessa dagana er unnið að endurbótum á steinsteyptum vegg sem liggur utan um kirkjugarð Ingjaldshólskirkju á Snæfellsnesi. Er veggurinn kominn til ára sinna og að hluta til fallinn niður, en framkvæmdir við hann hófust fyrst á árunum 1930 til 1936. Að ráðast í svona verkefni var mikið þrekvirki á þessum tíma, safnað var gjafafé og gjafadagsverkum og voru konur í Kvenfélagi Hellissands duglegar að leggja þessu góða málefni lið og gáfu þær flest dagsverkin sem þær létu svo karlana sína vinna.

Á þessum árum var Ingveldur Sigmundsdóttir skólastjóri formaður kvenfélagsins. Gaman er að segja frá því að ef kvenfélagskonur voru spurðar hvaða aðferðum þær beittu til að fá mennina sína til að vinna, svöruðu þær að þær hefðu sína aðferð og hún hrifi! Dæmi hver fyrir sig hver aðferðin var.

Kirkjugarðurinn var svo stækkaður í átt að kirkjunni árið 1971. Voru þá veggir framlengdir úr steinsteypu á austur- og vesturhlið garðsins en timburgrindverk sett á norðurhlið hans ásamt því að steyptar voru stífur við vesturvegginn og steypt í skarð sem komið var þá þegar á austurvegginn. Upplýsingar um vegginn og sögu hans voru fengnar hjá Smára Lúðvíkssyni. Tók hann þær saman úr Visitasíum og fundagerðum Ingjaldshólssóknar, en hann var í sóknarnefnd í 26 ár þar af formaður í 18 og kann fréttaritari honum þakkir fyrir.

Gestir:1674 Gestir í dag: 2 Gestir í allt: 2626290