Jóhanna Vigfúsdóttir

Frá ÍSMÚS:

 

HúsfreyjaOrganisti og Tónlistarmaður

 

Hinn 25. febrúar sl. voru liðin 50 ár frá því að frú Jóhanna Vigfúsdóttir, Munaðarhóli, Hellissandi, var ráðin organisti að Ingjaldshólskirkju, Snæfellsnesi, þá sextán ára að aldri. Til undirbúnings þeim starfa hafði hún notið nokkurra mánaða kennslu Sigfúsar Einarssonar dómorganista í Reykjavík. Líklega þætti sú kennsla, sem henni var veitt ekki löng nú á tímum síaukinnar tónlistarfræðslu, né aldur hennar hár, sem þarna var falið að takast á hendur sú mikla ábyrgð, sem störf organistans er. En þeim, sem þekkja til bernskuheimilis hennar að Gimli, Hellissandi, mun ljóst, að þar hafði verið lagður öruggur grunnur að því starfi. Bæði voru foreldrarnir söngelsk og hljóðfæraleikur og söngur í hávegum hafður á heimili þeirra og tíðum fundu vinir og grannar sér tilefni til samsöngs þar, sem barna hópurinn stóri að Gimli tók heilshugar þátt í, ekki síst elsta dóttirin, Jóhanna. Vigfús Jónsson, faðir hennar, var og stoð og stytta kirkjukórsins að Ingjaldshóli á uppvaxtarárum hennar, en hann stóð á sönglofti í fulla hálfa öld. Ganga í guðshús á helgum og hátíðum var börnunum frá Gimli því sjálfsögð og ekki voru þau há í lofti er þau voru orðin kirkjuvön vel. Það lið, sem kirkjusöngur víða í sóknum hefur saman átt að þeim, sannar sem svo oft ella hið fornkveðna, að lengi býr að fyrstu gerð.

Starfsgleði, alúð og þróttur eru hugtök, sem framar öðrum koma í huga þeim, sem íhuga störf frú Jóhönnu að tónlistarmálum safnaðarins síðustu hálfa öld. En þeim, sem nánast þekkja, mun þó hugstæðust hollustan við málstað kirkjunnar, helgunin í starfi og sú lotning, sem fylgir. Hún veldur og þeim hlýja starfsanda, sem ávallt ríkir í kórnum hennar og sem reynst hefur okkur samstarfsmönnum hennar svo ómetanlegur stuðningur. Starfsfýsin og alúðin í starfi er þeim mun hugstæðara þakkarefni sem ljósara er, að Jóhanna hefur borið hita og þunga af svo mörgu félagsstarfi öðru í sókn sinni, ásamt húsmóðurstörfum á barnmörgu heimili, en henni og manni hennar, Hirti Jónssyni hreppstjóra fæddust átta börn, og sjö þeirra komust upp. Í ljósi þess er starfssaga hennar sem organista afrekssaga.

Of fáum er ljóst, hve starf organistans, sem vinnur af alúð, krefur margra stunda til æfinga og undirbúnings. Er örðugt að skilja, hvernig svo önnum kafinni konu sem Jóhönnu hefur auðnast það með þeim hætti, sem raun ber vitni. Í Ingjaldshólssókn, svo sem víðar um land, hefur kirkjukórinn löngum haldið uppi söng og tónlistarlífi byggðar sinnar, einkum utan hins eiginlega starfsvettvangs kirkjunnar. Sá þáttur í starfi kirkjuorganistanna í fámennum sóknum úti um land mun seint metinn að verðleikum og gleymist vonandi ekki þegar menningarsaga þessarar aldar verður skráð.

lngjaldshólskirkja nýtur enn starfskrafta frú Jóhönnu og starfsorkan og alúðin er söm og löngum. Skarð það, sem hún skildi eftir að verkalokum, yrði vandfyllt, jafnvel þó svo annar organisti yrði fundinn til að taka við starfi hennar. En ef miða má við reynslu annarra safnaða víða um land, má því miður ætla að hann yrði vandfundinn. Því mun meðal annars valda krafa nútímans um laun og þægindi.

Frú Jóhanna Vigfúsdóttir hefur að sönnu ekki auðgast að veraldlegum fjármunum af starfa sínum. En önnur laun, gulli betri, hefur hún hlotið. Það er heilshugar þökk samborgara sinna og samverkamanna auk hins, sem dýrmætara er flestu að geta borið því vitni af heilu hjarta að hafa hlotið gleði og lífsfyllingu af starfi sínu. Það vottaði frú Jóhanna á þeim tímamótum, sem hér er minnst. Og þegar sveitungar hennar og þeir, sem starfa hennar hafa notið samfögnuðu henni hinn 28. febrúar sl., var þeim efst í huga að þakka fyrir sitt leyti hve störf hennar hafa göfgað byggð hennar. Slík verkalaun er hamingja að eiga og þeim fylgir ævarandi blessun.

Árni Bergur Sigurbjörnsson. Organistablaðið. 11. árg. 1. tbl. 2. desember 1978.

 

Hlekkir

Gestir:1680 Gestir í dag: 2 Gestir í allt: 2626391