Vígsla safnaðarheimilis

Hátíðisdagur á Ingjaldshóli

Hellissandi – Síðastliðinn sunnudag, 19. október, kl. 14 vígði biskup Íslands, hr. Ólafur Skúlason, nýtt safnaðarheimili við kirkjuna á Ingjaldshóli. Safnaðarheimilið sem er tæpir 300 fermetrar að stærð er byggt inní hólinn og tengist kirkjunni með göngum neðanjarðar. Er það gert til að skyggja ekki á kirkjuna sem nú stendur ein húsa á hólnum eftir að búskapur lagðist þar af. Ingjaldshólskirkja var löngu orðin of lítil fyrir þarfir safnaðarins. Hún var byggð árið 1903 og er alfriðuð. Með tilkomu þessa nýja safnaðarheimilis fæst kærkomin viðbót við kirkjuna í nýjum safnaðarsal, salernum, eldhúsi og aðstöðu fyrir prestinn. Þá fæst þar einnig ágæt geymsla fyrir kirkjugarðinn.

Um 200 manns sóttu staðinn heim í tilefni af vígslunni. Sóknarpresturinn sr. Ólafur Jens Sigurðsson þjónaði fyrir altari við hátíðarmessu í kirkjunni með aðstoð prófasts, fyrrverandi presta og nágrannapresta. Biskup Íslands prédikaði og gekk síðan til safnaðarheimilisins ásamt prestunum og kirkjukórnum og blessaði húsið og bað því starfi blessunar sem þar ætti eftir að fara fram.

Byggingarsaga sögð

Að því loknu var gengið aftur til kirkju og þar sagði Smári J. Lúðvíksson formaður sóknarnefndar byggingarsögu hússins. Heimilið hefur verið í smíðum s.l. 4 ár. Það er teiknað af Magnúsi H. Ólafssyni arkitekt en hönnun og eftirlit var í höndum Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen hf. Byggingarmeistarar voru þeir bræðurnir Ómar og Smári J. Lúðvíkssynir en Smári var jafnframt byggingarstjóri. Ágúst Guðmundsson múrarameistari sá um múrverk. Raflagnir annaðist Benedikt Sveinbjörnsson rafvirkjameistari, pípulagnir Gústaf Geir Egilsson pípulagningameistari og Sævar Þórjónsson málarameistari sá um málningu og lagningu gólfefna. Innréttingar smíðaði að langmestu leyti Trésmiðja Sigurjóns Hannessonar á Akranesi. Smári þakkaði öllum sem lögðu hönd að byggingu hússins og taldi þá hafa skilað ágætu starfi.

Sluppu við miklar lántökur

Sævar Friðþjófsson sem var fjárhaldsmaður byggingarinnar gerði síðan grein fyrir reikningshaldi hennar. Sagði hann að framreiknuð kostnaðaráætlun hljóðaði uppá kr. 39 milljónir króna. Byggingarkostnaður væri hins vegar aðeins kominn í 35 milljónir króna, þannig að vel hefði verið haldið á spilum. Búið væri að fjárfesta samtals í heimilinu fyrir 39 milljónir króna, þá væru meðtalin húsgögn, innréttingar og tæki í eldhús sem ekki hefðu upphaflega verið inni í kostnaðaráætlun. Sævar fagnaði því að lokum að búið væri að ráða framúr því aðstöðuleysi sem verið hefði við kirkjuna. Nú væri húsrými nægjanlegt og mikilvægt væri að það hefði tekist án þess að reisa sér hurðarás um öxl eða með miklum lántökum.

Heillaóskir nágranna

Næstur talaði Finnbogi G. Lárusson á Laugarbrekku sem talaði fyrir hönd Búða- og Hellnasókna. Óskaði hann söfnuði Ingjaldshólskirkju til hamingju með þrekvirkið sem þarna hefði verið unnið og færði safnaðarheimilinu að gjöf faxtæki og kertastjaka frá Búða- og Hellnakirkjum. Stefán Jóhann Sigurðsson formaður sóknarnefndar Ólafsvíkurkirkju óskaði söfnuðinum til hamingju með þetta glæsilega safnaðarheimili við gömlu sóknarkirkjuna sína.

Kirkjan á góða að

Sóknarpresturinn tók að lokum til máls og gerði grein fyrir gjöfum sem safnaðarheimilinu höfðu borist á byggingartímanum, bæði í peningum og einstökum hlutum. Taldi hann þær vera að verðmæti um 10 milljónir króna. Hefðu bæði sóknarbörn og fyrrverandi sóknarbörn kirkjunnar sýnt henni einstaka rausn og höfðingslund. Þannig hefði Jón Júlíusson kaupmaður fyrir hönd verslunarkeðjunnar Nóatúns í Reykjavík fært kirkjunni eina milljón króna á lokasprettinum til minningar um foreldra sína. Þá hefði Magnús Sigurðsson frá Hallsbæ, fisksali í Reykjavík og kona hans Ragna Magnúsdóttir fært kirkjunni að gjöf 560 þúsund krónur og gefið nýjan flygil að auki ásamt Ingveldi Sigurðardóttur systur Magnúsar og manni hennar Herði Pálssyni bakara á Akranesi. Flygillinn er minningargjöf um hjónin í Hallsbæ, þau Guðrúnu Jónasdóttur og Sigurð Sandhólm. Halldóra Kristleifsdóttir í Rifi og Sævar Friðþjófsson sonur hennar og fjölskylda hans gáfu að mestu húsgögnin í safnaðarheimilið til minningar um Friðþjóf Guðmundsson útvegsbónda í Rifi sem lengi var safnaðarformaður og meðhjálpari kirkjunnar.

Kristján Guðmundsson útgerðarmaður í Rifi og fjölskylda hans gáfu fatahengið og Ólafur Rögnvaldsson framkvæmdastjóri færði heimilinu öll rafmagnstæki í eldhús frá Hraðfrystihúsi Hellissands. Mikill fjöldi höfðinglegra gjafa barst kirkjunni til viðbótar sem gerð var grein fyrir við athöfnina og fyrir bragðið stendur safnaðarheimilið nú fullbúið og hið glæsilegasta. Sóknarpresturinn þakkaði gjafir sem borist hefðu og bað að þær mættu nýtast svo sem gefendur vonuðust til. Þá þakkaði hann sóknarnefndinni fyrir samstarfið og þá einingu sem ríkt hefði um þetta verk, milli sín og sóknarnefndarinnar. Á það hefði aldrei borið nokkurn skugga og sérstaklega þakkaði hann Smára J. Lúðvíkssyni formanni sóknarnefndar sem hefði lagt sig allan fram við þetta og verið vakinn og sofinn yfir verkinu.

Lagið Ingjaldshóll frumflutt í kaffisamsæti

Síðan var sest að borðum í safnaðarheimilinu og þegnar veglegar kaffiveitingar. Stóðu að því konur úr sóknarnefnd, konur sóknarnefndarmanna og úr kirkjunefnd Kvenfélags Hellissands. Litla lúðrasveitin á Hellissandi lék í upphafi samsætisins nokkur lög. Undir borðum lék Kay Wiggs Lúðvíksson vígslulag á nýjan flygil heimilisins, lék hún Tunglskinssónötu Bethovens. Þá söng kirkjukórinn 3 lög, þ.á m. nýtt lag eftir Kay Wiggs, sem heitir, Ingjaldshóll og var samið fyrir þetta tækifæri, vígslu safnaðarheimilisins. Ljóðið er eftir Ragnar Ágústsson frá Ingjaldshóli. Biskup Íslands hr. Ólafur Skúlason og prófasturinn sr. Ingiberg J. Hannesson og sr. Friðrik J. Hjartar í Ólafsvík óskuðu síðan sókninni innilega til hamingju með þetta nýja hús og þann myndarskap sem söfnuðurinn sýndi við byggingu þess og á vígsludaginn. Veðurblíðan lék við Snæfellinga þennan dag sem var sá fallegasti sem komið hafði á haustinu og sýndust allir halda glaðir heim frá Ingjaldshóli.

Morgunblaðið/Ólafur Jens Sigurðsson FRÁ vígslu safnaðarheimilisins 1997.

Gestir:1235 Gestir í dag: 1 Gestir í allt: 2477982