Grein sem birtist á vef Þjóðkirkjunnar eftir 40 ára afmæli Ólafsvíkurkirkju. Greinina skrifaði séra Magnús Magnússon.
Afmæli Ólafsvíkurkirkju
Ólafsvíkurkirkja átti 40 ára vígsluafmæli 19. nóvember sl. Af því tilefni var sungin hátíðarmessa í kirkjunni sunnudaginn 18. nóvember. Biskup Íslands, hr. Karl Sigurbjörnsson prédikaði, sr. Magnús Magnússon sóknarprestur í Ólafsvík þjónaði fyrir altari ásamt sr. Friðrik Hjartar og sr. Guðmundi Karli Ágústssyni fyrrum sóknarprestum í Ólafsvík. Einnig lásu tveir aðrir fyrrverandi sóknarprestar ritningarlestra, þeir sr. Ágúst Sigurðsson og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson en meðhjálpari var Pétur Bogason.
Sameiginlegur kór flestra kirkna af Snæfellsnesi söng undir stjórn Harðar Áskelssonar söngmálastjóra við undirleik Elenu Makeeva organista í Ólafsvík, Kay Wiggs organista á Ingjaldshóli og Tómasar Guðna Eggertssonar organista í Grundarfirði og Stykkishólmi. Veronica Osterhammer kórstjóri í Ólafsvík söng einsöng sem og Arna Eir Árnadóttir.
Hátíðarkaffi var haldið í félagsheimilinu Klifi að messu lokinni og var það í umsjón unglinga úr 9. og 10. bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar og foreldra þeirra. Þar léku Valentina Kay og Evgeny Makeev lifandi tónlist undir borðum. Sigrún Ólafsdóttir sóknarnefndarformaður stýrði veislu og í upphafsávarpi sínu talaði hún um þá fjölbreytni sem einkennt hefði safnaðarstarfið á afmælisárinu og tíundaði einnig þær gjafir sem kirkjunni hafa borist á umliðnu ári. Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, flutti erindi í máli og myndum um byggingarsögu Ólafsvíkurkirkju en hann kom að smíði hennar frá upphafi til enda ásamt föður sínum Böðvari Bjarnasyni byggingarmeistara kirkjunnar.
Allmiklar gjafir bárust kirkjunni í afmælishófinu. Sparisjóður Ólafsvíkur gaf kr. 500.000, Ásgeir Jóhannesson og Sæunn Sveinsdóttir gáfu kr. 200.000, Kvenfélag Ólafsvíkur gaf matar- og kaffistell í safnaðarheimilið. Afkomendur Halldórs Jónssonar og Matthildar Kristjánsdóttur gáfu veisluáhöld í safnaðarheimilið. Einnig gaf Landsbanki Íslands kr. 150.000 í vikunni fyrir afmælið .
Við veislulok kvaddi sóknarprestur veislugesti með söng við undirleik ,,sóknarnefndarformannsfrúarinnar“ Illuga Jens Jónassonar.