Gleðirík hátíðarstund í afmæli kirkjunnar

 50 ára afmæli Ólafsvíkurkirkju • Þótti framúrstefnuleg

Ólafsvíkurprestar Sr. Magnús Magnússon, sr. Óskar Ingi Ingason, sr. Friðrik Hjartar og sr. Óskar Hafsteinn Óskarsson. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson

Í tilefni af 50 ára afmæli Ólafsvíkurkirkju var þar hátíðarþjónusta síðastliðinn sunnudag. Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands prédikaði, og séra Óskar Ingi Ingason þjónuðu fyrir altari ásamt fyrrverandi prestum sóknarinnar.

Djasstríó skipað þeim Jóni Rafnssyni, Kjartani Valdimarssyni og Þór Breiðfjörð, sá um tónlist og söng ásamt Elenu Makeeva organista, Veronicu Osterhammer kórstjóra og einsöngvara, Kór Ingjaldshólskirkju og Kirkjukór Ólafsvíkur. Einnig kom fram Barna- og skólakór Snæfellsbæjar. Eftir athöfnina, sem var fjölmenn, var boðið í hátíðardagskrá í félagsheimilinu Klifi þar sem Sturla Böðvarsson, fyrrverandi ráðherra og nú bæjarstjóri í Stykkishólmi, sagði frá byggingu kirkjunnar, sem hann sinnti með föður sínum, Böðvari Bjarnasyni.

Setur svip á bæinn

Ólafsvíkurkirkja þykir setja mikinn svip á bæinn og vekur eftirtekt og aðdáun margra sem þangað koma. Hún er ein af fyrstu nútímakirkjum landsins og var strax sátt um hana í söfnuðinum, þrátt fyrir að teikningar Hákons Hertervig þættu framúrstefnulegar.

„Hátíðarmessan sem við efndum til var gleðirík á allan hátt. Raunar hefur allt árið verið þannig en afmælis kirkjunnar höfum við minnst með samkomum og ýmsu í helgihaldinu, sem er frábrugðið hefðinni. Höfum til dæmis fengið djákna og guðfræðinga sem eiga tengsl við svæðið til að prédika, sem hefur mælst vel fyrir í söfnuðinum og viðkomandi hefur líka fundist gaman að stíga í stólinn í gömlu kirkjunni sinni,“ segir sr. Óskar Ingi Ingason.

Kaþólskt helgihald

Íbúar í Ólafsvík eru í dag um 960, en skráðar sálir í Ólafsvíkursókn eru um 750. Þarna ræður að margir íbúar byggðarlagsins eru af erlendum uppruna og aðhyllast trúarbrögð heimalanda sinna. Má þar nefna Pólverja sem margir búa í Ólafsvík og eru kaþólskrar trúar, en hafa fengið inni fyrir helgihald sitt í hinni hálfrar aldar gömlu kirkju. Er sú sambúð afar góð, segir prestur.

sbs@mbl.is

Gestir:1280 Gestir í dag: 2 Gestir í allt: 2626353