Orgel kirkjunnar

Frá síðu ÍSMÚS:

Gerð

Steinmeyer&Co.

Kirkja

Ólafsvíkurkirkja

Tímabil

1967 –

I. hljómborð: Gedeckt 8′, Prinzipal 4′, Rohrflöte 4′, Oktave 2′, Scharf 2-3 föld 1/3.

Fótspil: Subbass 16′.

Svellari: Svelllokur eru úr fibergleri. Handstýrður traktúr. Stærð: Hæð 293 cm., Breidd 140 cm., Þykkt 130 cm., Þykkt með bekk 207 cm.

Orgel Ólafsvíkurkirkju er smíðað af orgelverksmiðju G. F. Steinmeyer&Co. í Ottingen, Bayern í Vestur-Þýzkalandi. Orgelsmiður frá verksmiðjunni setti það upp. Orgelið er sex radda, með einu hljómborði og fótspili, þannig skipað: Tónsvið C-g“’. með sérstilli fyrir diskant og bassa.

Þegar hin nýja Ólafsvíkurkirkja var vígð 17. nóv. 1967, hafði henni borizt eftirfarandi bréf: – „Til minningar um eiginkonu mína og móður okkar, Matthildi Ragnheiði Ásbjörgu Kristjánsdóttur, fædd 8. nóv, 1903, dáin 19. marz 1962, höfum við ákveðið að gefa Ólafsvíkurkirkju pípuorgel í hina nýju kirkju frá G. F. Steinmeyer&Co. í Bayern í Vestur -Þýzkalandi. Orgelið er gefið uppsett og tilbúið til notkunar. Þetta tilkynnist yður hér með, fyrir mína hönd og barna minna, Halldór Jónsson“.

Á hvítasunnudag 25. maí sl. var þetta nýja pípuorgel vígt í Ólafsvíkurkirkju við fermingarguðsþjónustu að viðstöddum 400 kirkjugestum. Við vígsluathöfnina flutti formaður sóknarnefndar, Alexander Stefánsson, ávarp og sagði meðal annars: „Opnast nú nýir möguleikar til þess að fá flutt hér orgelverk og kórverk og nota þá miklu möguleika sem þessi nýja kirkja okkar gefur á þessu sviði til menningar og yndisauka fyrir íbúa Ólafsvíkur. Ég vil hér með í nafni sóknarnefndar og fyrir hönd alls safnaðarins flytja Halldóri Jónssyni, börnum hans og fjölskyldum sérstakar alúðar þakkir fyrir þessa miklu og sérstæðu gjöf, sem á sér fáar hliðstæður hér á landi. Þessi gjöf lýsir hlýhug og ræktarsemi við kirkju okkar og heimabyggð og er um leið sérstaklega verðug minningargjöf um ágætustu konu, sem elskaði þorpið sitt, þar sem hún átti heima allt sitt líf og ól upp þrekmikla Ólafsvíkinga, sem sett hafa svip sinn á Ólafsvík. Megi þessi glæsilega minningargjöf ávallt bera uppi minningu um góða eiginkonu og móður. Um leið og þetta fagra, glæsilega orgel er nú tekið í notkun vil ég óska þess að það verði kirkjulífi og menningarlífi í Ólafsvík til blessunar um alla framtíð“.

Organisti Ólafsvíkurkirkju var þá frú Björg Finnbogadóttir. Spilaði hún á orgelið við vígsluathöfnina.

Heimild: Organistablaðið 3. tbl. 2. árg. Desember 1969.

Gestir:2369 Gestir í dag: 5 Gestir í allt: 2478016