Kirkjur og bænhús í prestakallinu til forna

Kirkja var fyrst á Saxhóli og bænhús á Öndverðarnesi og á Ingjaldshóli, en þegar Gunnar Hauksson bjó á Ingjaldsshóli og átti jörðina, lét hann gera kirkju á staðnum.  Vígslumáldagi kirkjunnar er frá 13. október 1317, en kirkjan var vígð af Árna Helgasyni, Skálholtsbiskupi, Guði til lofs og dýrðar, sánkti Maríu og öllum heilögum mönnum.  Sumir segja að elsta kirkjan hafi verið reist 1262.  

Kirkjur voru ennfremur í Mávahlíð og á Saxahvoli (Saxhóli) (hennar er getið í kirknaskrá Páls biskups Jónssonar frá 1200) og bænhús á Öndverðarnesi, en allt var tekið af með bréfi 27. september 1563.  Sóknarmörk milli Ingjaldshólsóknar og Saxhólssóknar voru við Skarðsvík.

Kirkan á Saxhóli var helguð Maríu og samkvæmt máldaga 1274  var þar sungin í rómversk kaþólskri tíð allar heimilistíðir, hvern dag langföstu og annan hvern jólaföstu.  Þaðan var greidd tíund úr Beruvík og Öndverðarnesi og greftrun þeirra fór þar fram.  1317 segir máldegi að sungnar eru jóladagstíðir á Saxhóli, en hámessa að Ingjaldshvoli.  Einnig pálmadag, en fara heim (Saxhóll) og syngja til páska og á páskadag (fyrri páskadag).  Einnig hvítasunnudag og á Ingjaldshóli Ólafsmessudag.  Þeir sem skriftuðu eða sóttu þjónustu til Ingjaldshól greiddu fjórðung fiska (sem hafa ei af landi) til Saxhvols ella sækja þangað.  1355 er þar prestur heimilisfastur.  Sex bæir lágu að Saxhóli að tíundum 1355 og 1397.  Á Saxhóli er örnefnið kirkjubrunnur.

Í bænhúsinu á Öndverðarnesi voru sungnar 12 messur árlega.  Þaðan er máldagi frá 1491 til 1518.  Það var aflagt 1563.  Þar eru örnefnið bænhúshóll og bænhúsboði.

Fyrrum mun hafa verið bænhús á Brimilsvöllum, en löngu lagt af.

Með konungsbréfi 18. september 1878 var Einarslóns- og Laugabrekkusóknir lagðar til Nesþinga, en svo hét prestakallið áður.  Einarslónskirkja var lögð niður og sókninni skipt á milli Laugabrekku og Ingjaldshóls.

Bæirnir í Beruvík, ásamt Hólahólum og Litla-Lóni lögðust til Ingjaldshólssóknar, en bæirnir Einarslón, Malarrif, Miðvellir og Dagverðará til Laugabrekkusóknar.

Laugabrekkukirkja var flutt að Hellnum með landshöfðingjabréfi 8. júní 1881.  

Með öðru slíku 8. ágúst 1891 var Fróðárkirkja flutt til Ólafsvíkur.  Með stjórnarráðsbréfi 24. mars 1915 er Ólafsvíkursókn skipt og ný kirkja reist á Brimilsvöllum.

Með lögum 26. október 1917 var Hellnasókn tekin undan og lögð til Staðarstaðar.

Prestsetrið var fyrrum á Þæfusteini, en er nú í Ólafsvík.

Gestir:3567 Gestir í dag: 3 Gestir í allt: 2478012