• Við höfum tilhneigingu til þess að einangrast og erum óróleg innan um fólk, sérstaklega þá sem hafa völd eða eru stjórnsamir.
• Við sækjumst eftir viðurkenningu og gerum hvað sem er til þess að öðrum líki vel við okkur. Við erum yfirmáta trú jafnvel í kringumstæðum þar sem trygglyndi er á engan hátt verðskuldað.
• Við hræðumst reitt fólk og persónulega gagnrýni. Þess vegna verðum við áhyggjufull og ofurviðkvæm.
• Venjulega leitum við félagsskapar við fólk sem er tilfinningalega truflað með ávanahegðun. Við löðumst jafnan síður að heilbrigðu og umhyggjusömu fólki.
• Við lifum lífinu sem fórnarlömb og löðumst að öðrum fórnarlömbum í ástar- og vináttusamböndum okkar. Við ruglum saman ást og vorkunnsemi og höfum tilhneigingu til að elska fólk sem við getum vorkennt og bjargað.
• Við erum annað hvort yfirmáta ábyrgðarfull eða ábyrgðarlaus. Við reynum að leysa vandamál annarra og væntum þess að aðrir beri ábyrgð á okkur. Þetta gerir okkur kleift að forðast að athuga nánar okkar eigin hegðun.
• Við fáum sektarkennd þegar við tökum afstöðu með sjálfum okkur eða stöndum fast á sannfæringu okkar. Við látum undan öðrum í stað þess að annast okkur sjálf.
• Við afneitum, gerum lítið úr eða bælum tilfinningar okkar vegna erfiðleika í uppvextinum. Við eigum erfitt með að láta í ljós tilfinningar og gerum okkur ekki grein fyrir þeim áhrifum sem þetta hefur á líf okkar.
• Við erum ábyrgðarfullir einstaklingar, sem óttumst höfnun eða að við verðum yfirgefin. Við festumst gjarnan í vinnu eða samböndum sem vinna okkur tjón. Ótti okkar kemur annað hvort í veg fyrir að við bindum enda á sársaukafull sambönd eða hindrar okkur í að taka upp heilbrigð og gefandi sambönd.
• Afneitun, einangrun, stjórnsemi og röng sektarkennd eru einkennandi fyrir slæm eða trufluð samskipti fjölskyldunnar. Slík hegðun gerir okkur vonlítil og hjálparlaus.
• Við eigum erfitt með náin samskipti. Við erum óörugg og skortir traust til annarra. Við höfum engin skýr og vel skilgreind mörk og flækjum okkur inn í þarfir og tilfinningar maka okkar eða félaga.
• Okkur gengur erfiðlega að fylgja verkefnum eftir frá upphafi til enda.
• Við höfum mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllum hlutum. Við bregðumst harkalega við þeim breytingum, sem við getum enga stjórn haft á.
• Okkur hættir til að vera hvatvís. Við bregðumst við án þess að íhuga aðra möguleika á hegðun okkar eða hugsanlegar afleiðingar hennar.
Gestir:1414 Gestir í dag: 1 Gestir í allt: 2626232