Laugardaginn 28. júní verður efnt til helgigöngu í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli í samstarfi við Átthagastofu Snæfellsbæjar, lista og menningarnefnd Snæfellsbæjar, Ingjaldshólskirkju og Starfshóp þjóðkirkjunnar um helgistaði á föruleiðum.
Gengið verður frá Öndverðarnesi að Gufuskálum. Mæting er við Ingjaldshólskirkju kl. 13 og þaðan ekið að Gufuskálum í eigin bílum (eða keyra beint að Gufuskálum) og ekið út á Öndvarðarnes í rútu þar sem fyrsta helgistundin verður haldin. Þaðan verður gengið í áföngum eftir ströndinni að Gufuskálum, ýmist í þögn eða samræðum. Áð verður reglulega, haldnar stuttar helgistundir sem sr. Óskar Ingi Ingason, sóknarprestur, og sr. Gunnþór Þ. Ingason, prestur á svið þjóðmenningar, stýra. Sæmundur Kjartansson segir sögur af merkum atburðum, minnisstæðu fólki ásamt þjóðlegum fróðleik sem tengist leiðinni og lífi fólks að fornu og nýju. Göngufólk les ritningarorð og fornsögutexta.
Þetta er í þriðja sinn sem slík helgiganga er farin í Þjóðgarðinum og í þetta sinn með nokkuð öðru sniði en áður.
Eftir gönguna verður boðið upp á kaffisopa í safnaðarheimili kirkjunnar á Ingjaldshóli.
Gengið er um fornan varðaðan stíg og eru allir hjartanlega velkomnir.
Nauðsynlegt er að vera vel skóaður og hafa drykkjarvatn með sér sem og annað nesti. Ekkert þátttökugjald.
Nánari upplýsingar á www.kirkjanokkar.is , www.snaefellsjokull.is(link is external) , á facebook – síðu þjóðgarðs og í síma 436 6888.



