Kirkjukórsferð til Þýskalands 2015

Kirkjukór Ólafsvíkur lagði land undir fót á dögunum. Var ferðinni heitið til Bernau am Chiemsee í Suður­Þýskalandi þar sem halda átti tónleika í heimabæ kórstjórans Veronicu Osterhammer.
Lagt var af stað frá Keflavíkurflugvelli rétt eftir miðnætti í frekar vondu veðri miðvikudaginn 9. september. Lent var í München snemma morguns og keyrt með rútu sem leið lá til Bernau. Í rútunni voru þreyttir ferðalangar sem glaðvöknuðu við þau tíðindi að þegar til Bernau kæmi væri allur hópurinn boðinn í morgunmat hjá foreldrum Veronicu þeim Gundu og Albert, þar sem ferðalangarnir gæddu sér á ljúfum morgunmat úti í garði. Eftir dálitla hvíld yfir daginn í hótelinu hófst dagskrá ferðarinnar  að sjálfsögðu seinna þennan dag með því að farið var til Rosenheim á “Herbstfest” sem er minni útgáfa af Oktoberfest. Mikil bæversk stemning ríkir þar í bjórtjöldunum. Næsta dag var ferðinni svo heitið til Berchtesgaden þar sem skoðuð var saltnáma, að því loknu var förinni heitið upp í fjöllin þar sem “Arnarhreiðrið” og útsýnið þaðan var skoðað. Deginum lauk svo í Salzburg í Austurríki þar sem snæddur var kvöldverður áður en haldið var aftur til Bernau.
Föstudeginum var svo eytt í hinni fallegu „Wasserburg“ þar sem rölt var um borgina, kíkt í búðir og notið góða veðursins. Um kvöldið var svo haldið til fjalla þar sem kórfélagar og makar hittu vini sína úr Kirkjukórnum í Frasdorf og áttu með þeim skemmtilega kvöldstund  þar sem voru sungin bæði íslensk og bæversk lög, dansaðir þjóðdansar og snæddur bæverskur matur. Þá var komið að aðaldeginum laugardeginum. Kirkjukórsfélagar mættu hressir og kátir á lokaæfingu fyrir tónleikana, sem fara áttu fram seinna um daginn í St. Laurentiuskirkjunni, á meðan makarnir slökuðu á, hjóluðu í kringum Chiemseevatnið eða spiluðu mínígolf. Tónleikarnir hófust svo stundvíslega klukkan 17:00 þennan dag. Efniss kráin var mjög fjölbreytt, íslensk og erlend lög allt frá lof gjörðarversum til dægurlaga. Mjög vel var mætt á tónleikana en rúmlega 200 manns hlýddu á kórinn. Við upphaf tónleikanna bauð Michaela Leidinger fyrir hönd bæjarstjórans frá Bernau gesti og kórinn velkomin. Að því loknu sagði Veronica nokkur orð og sá um að kynna dagskránna. Heppnuðust tónleikarnir sérlega vel og voru gestirnir afar ánægðir með þá.
Að tónleikum loknum var kórnum og mökum þeirra boðið til samsætis af Kirkjukórnum í Bernau. Síðan hélt hópurinn út að borða saman og hélt svo skemmtikvöld á hótelinu. Þetta voru yndislegir dagar í alla staði, frábært veður og sérlega góður andi var í ferðahópnum sem var 37 manna hópur. Elsti ferðalangurinn í hópnum Vigfús Vigfússon er aðeins 90 ára og tók þátt í allri dagskrá.  Það voru þreyttir og glaðir ferðafélagar sem kvöddu Bernau á sunnudagsmorgninum og héldu til München þar sem deginum var eytt og farið í skoðunarferð um höfuðborg bæjaralands þar til tími var komin á heimferð.
Grein úr Jökli (711. tbl.) eftir Þröst Albertsson.
Gestir:1003 Gestir í dag: 2 Gestir í allt: 2626285